Færslur

Arnarsetur

Gengið var um Arnarseturshraun undir leiðsögn Björns Hróarssonar, hellafræðings.

Dollan

Í Dollunni.

Fyrst var farið í Dolluna, sem rétt við gamla Grindavíkurveginn við bílastæðið á Gíghæð. Dollan opnaðist er þakið féll niður undan vörubíl þegar verið var að vinna við nýja veginn, en þá var svæðið þarna notað sem athafnasvæði verktakans. Opið er svo til alveg vestan til í svæðinu. Dýptin á fast er um mannhæð og hallar undir á alla vegu. Þarna þyrfti að vera góður stigi fyrir ferðafólk því hellirinn er aðgengilegur svona nálægt vegi. Fyrst þyrfti þó að hreinsa upp drasl, sem safnast hefur neðan við opið. Björn skellti sér niður og skoðaði hellinn. Hann nær umm 30 metra upp á við til austurs og einnig til vesturs og uppfyllir því öll skilyrði til að geta flokkast sem góður hellir.

Hnappur

Hnappur – opið.

Næst var gengið áfram niður hraunið og hraunrásinni fylgt til vesturs. Eftir u.þ.b. 500 metra endar rásin og við tekur hellir. Hann liggur í hægri boga og endar eftir u.þ.b. 50 metra. Þar er stórt op í gólfinu og sést niður á neðri hæðina. Mannhæða hátt er niður. Eftir að haf rutt niður grjóti til að búa til lendingarpall var hoppað niður. Þar liggur víð og góð rás til austurs, undir gólfið sem áður var gengið. Gólfið í rásinni er alveg hreint og slétt. Þessi hluti endaði eftir u.þ.b. 50 metra. Þar inni var bréfmiði á vegg, en letrið var ólæsilegt. Þó mátti greina dagsetningu og ártalið 1992. Þá var haldið til vesturs. Eftir um 30 metra var komið út í jarðfall. Úr því hélt rásin áfram um 20 metra uns komið var út úr henni á ný. Miðað við lýsingu á Hellinum Kubb gæti þetta vel verið hann. GPS-punktur af hellinum sýndi staðsetningu u.þ.b. 20 metrum norðar, en þrátt fyrir leit þar fannst ekkert op. Miðað við nýjan GPS-punkt, sem tekin var þar, gæti hér verið um misvísun að ræða. Um Kubb segir m.a. í lýsingu: “Kubbur er sennilega í sama hellakerfi og Dollan. Kubbur er á tveimur hæðum”.

Kuppbur

Op í Kubbnum.

Annað op fannst skammt austan við þann stað, næstum mannhæða djúpt. Björn hoppaði þar ofan í. Þarna reyndist vera hellir í sömu stefnu og hinir hellarnir, u.þ.b. 30 metra langur. Þessi hellir hefur ekki verið nefndur, en fær hér vinnuheitið Naddur í merkingunni nálægur. Erfitt er að koma auga á holuna nema ganga svo til beint á hana.

Ekki lágu fyrir GPS-punkt á Hnapp, en um hann er til eftirfarandi lýsing: “Hann er með skemmtilegri hellum, sem hægt er að komast í. Hann er ekki mjög langur, en hefur upp á margt að bjóða. Inngangurinn er í gegnum þröngt gasútstreymi. Strax þegar niður er komið er hægt að fara á efri eða neðri hæð.

Kubbur

Í Kubbnum.

Efri hæðin lokast fljótt, en neðri hæðin liggur góðan spöl inn þar til komið er að hraunfossi. Fyrir innan fossinn lækkar gólfið verulega. Þá er maður staddur í miðjum hellinum í stórumsal. Út frá þessum sal liggja rásir í margar áttir og ein þeirra liggur í hring”. Fróðlegt væri að fá nánari staðsetningu eða leiðarlýsingu á Hnapp. (Síðar kom í ljós að Þorvaldur Örn, kennari í Vogum, hefði farið með félaga sínum Geirdal, í Arnarseturshraun og þá farið niður í Hnapp. Hefðu þeir m.a. rissað hellinn upp og nefnt hann Geirdal).

Gíghæð

Vegavinnubyrgin á Gíghæð.

Haldið var upp að vegavinnubyrgjunum austan Grindavíkurvegar og áfram upp fyrir þau. Þar eru hellar í hraunrás. Rásin er fallin niður á tveimur stöðum og er efri hlutinn öllu lengri, eða um 50 metra langur. Hann endar í hafti, sem aðskilur hann og efsta hluta hinnar miklu hraunrásar úr Arnarsetursgígnum. Í heildina er þessi hallahluti um 100 metrar á lengd. Þeir fá vinnuheitið Gegnumgangur. Á bökkum rásarinnar eru margar stórar og fallegar hraunæðar.

Dátahellir

Dátahellir.

Loks var gengið niður í Dátahelli. Hann nefnist svo vegna þess að í honum fannst beinagrind er talin er hafa verið af amerískum hermanni er týndist í hrauninu að vetrarlagi allmörgum árum áður. Við skoðun reyndist hellirinn vera um 40 metra langur.

Veður var frábært – bjart og hlýtt miðað við árstíma.
Allar staðsetningar voru samviskusamlega skráðar, en þegar heim var komið uppgötvaðist að blaðið með öllum tölunum hafði gleymst við Dátahelli.

Arnarsetur

Arnarsetushraunshellar – uppdráttur ÓSÁ.

Farið var aftur í Arnarseturshraun og GPS-punktar endurteknir. Við það fannst hellir, er nefndur hefur verið Skjóli sem og Kubbur að öllum líkindum.
Farið er inn í Skjóla, sem er nokkuð norðan við Nadda, inn í hraunbólu. Inn úr henni liggja rásir bæði til norðurs og suðurs. Ýmislegt bendir til að þetta séu yfirborðsrásir, en þarna örskammt frá er allnokkurt jarðfall er bendir til að þar undir hafi runnið talsvert hraun. Skjóli var ekki kannaður að þessu sinni, einungis framan við rásirnar er liggja inn.
Á leiðinni til baka var aftur hugað að hraunhól, sem lítil varða stendur á, og skoðaður hafði verið daginn áður. Hóllinn er skammt vestan við Dolluna. Í honum eru tvö gasuppstreymisop. Eystra opið er þröngt, en liggur inn til norðurs og víttkar síðan og hallar niður á við. Þarna gæti vel verið um opið á Hnapp að ræða. Fötin gáfu ekki tækifæri til að elta rásina lengra niður að þessu sinni, en þarna er svolítið skrið til að byrja með.
Ferðin var notuð til að gera uppdrátt af svæðinu og merkja þar inn á alla hellana níu. Skilið var eftir autt pláss fyrir enn ófundna hella þarna.
Sjá meira HÉR.

Kubbur

Kubburinn.