Skjótastaðir voru fornt býli á strönd Reykjaness, skammt frá og fyrir ofan þar sem nú er svonefndur Lendingamelur. Á landakortum hefur staðurinn einhverra hluta vegna verið settur örskammt norðan við Stóru-Sandvík, en þar skeikar verulegu.
Í örnefnalýsingu fyrir Kalmanstjörn segir um Skjótastaði: „Þá er komið í Stóru-Sandvík. Þar gengur sjórinn nokkuð langt inn í landið, og er sandur á miklu svæði hér upp frá sjónum. Þar fjarar mikið út, svo að með hverju flóði kemur upp flæðivatn, sem svarar 120 föðmum frá sjávarmáli, og er það ekki neitt smávatn. Verður nú ekki haldið lengur með ströndum fram að sinni, nema hvað talið er, að bærinn Skjótastaðir eða Skjóthólastaðir hafi staðið þar upp frá víkinni norðanverðri, nærri sjó. Ekki sjást hér neinar rústir, en vel geta þær verið horfnar í sand.“
Þegar gengið var til norðurs frá Stóru-Sandvík var augljóst að bæjarstæði eða verbúð gæti ekki hafa verið þar. Í víkinni sjálfri er slæm lending í brimi þrátt fyrir mjúka og sendna ströndina. Utar er hins vegar bakki, sem ýfir Ægir svo um munar þegar eitthvað er að veðri. Svo er einnig með ströndinni að Lendingamel. Sjórinn brýtur á boðum og skerjum utan við hana, allt þangað til komið er að nyrðri básnum í Melunum. Utan við hann og alla leið að landi er alger ládeyða þegar eitthvað er að sjó, líkt og nú var.
Á loftmynd af svæðinu ofan við Lendingamel mótar fyrir löngum görðum og jafnvel þremur tóftum miðsvæðis. Ætlunin var að skoða svæðið nánar. Ljóst er að það hefur tekið miklum breytingum á löngum tíma.
Annálar greina frá eldsumbrotum með stuttum hléum, á og úti fyrir Reykjanesi á 12. og 13. öld. Samkvæmt þeim hefur gosið á Reykjanesi árið 1118, og a.m.k. 13 sinnum á 13. öld. Sagt er að sumum eldgosum hafi fylgt miklir landskjálftar og þess getið að svartamyrkur hafi verið um annars hábjartan dag (1226) og að Reykjanesið hafi brunnið (1210 og 1211). Í hamförum á fyrri hluta 13. aldar er talið að byggð hafi eyðst á Reykjanesi en merki um hana sjást m.a. við Skjótastaði norðan Stóru-Sandvíkur. Í annál er þess getið að 18 manns hafi farist á Reykjanesi í landskjálfta og eldi árið 1118. Næsta lítið er vitað um sögu Hafna á 14. og fram á síðari hluta 16. aldar eins og margra annarra staða á landinu, m.a. vegna þess að kirkjubækur, sem geymdar voru í Viðey, eyðilögðust í bruna. Þó munu vera til heimildir um mikinn landsskjálfta 1389 og að 1390 hafi hálft Reykjanesið brunnið. Til mun vera heimild um að eldur hafi komið upp í hafi fyrir Reykjannesi 1420 og að þá hafi skotið upp landi. Einnig er getið um eld fyrir Reykjanesi 1422 og aftur 1584. Í annál er greint frá eldi í ,,Grindavíkurfjöllum“ árið 1661 og hafi sést oft, fyrir og eftir jól, á Norðurlandi.
Til er heimild um að árið 1706 hafi komið upp eldur í sjó fyrir Reykjanesi og einnig 1783 fyrir sunnan Geirfuglasker: Kom þá upp land sem sökk aftur (Nýey). Síðasta gos sem minnst er á í annálum, á eða fyrir Reykjanesi, á að hafa verið árið 1830 en þá sigu Geirfuglasker í sjó. Síðustu eldsumbrot sem heyrst hefur um, fyrir Reykjanesi, eiga að hafa átt sér stað í kringum 1930. Á þá að hafa gosið á sjávarbotni nálægt Eldey.
Ofan við Lendingamel sjást hleðslur á nokkrum stöðum. Landið lækkar þarna mikið millim Hafnabergs og misgengisins norðan Sandvíkur og má segja að um aflangt „dalverpi“ sé að ræða, skjólgott við öllum áttum nema hafáttinni. Þar sem „tóftir“ sjást á loftmyndinni eru nú miklir gróningar, eldri en þeir umhverfis. Ekki er ólíklegt að þarna kunni að leynast bæjarleifar Skjótastaða ef betur væri að gáð.
Vörðubrot eru á nálægum hólum og virðast þau allgömul. Efst í brúninni, sem ber við suðurhimininn, er há varða, sem haldið hefur verið við. Hún er svo að segja í beina stefnu frá básnum fyrrnefnda og þvert um „bæjarstæðið“.
Fálki fylgdi ferðalöngum um svæðið. Ekki var annað hægt en að dáðst að hversu vel hann nýtti sér uppstreymið við ströndina. Utar æddi hver báran af annarri á land, líkt og allar vildu þær yfirgefa hafið.
Þrátt fyrir berangurslegt svæði nú má vel ímynda sér hvernig það hefur litið út fyrrum. Ætla mætti jafnvel að þarna gæti hafa verið búsældarlegt, enda af nægu að taka þar sem hafið og Hafnabergið eru annars vegar; fiskur og fugl ómælt.
Melgras hafði sest í jarðlægan garð, sem liggur upp frá ströndinni norðan við Lendingamel. Meint bæjarstæði er þar sem dalverpið fer að hækka til austurs. Suðaustan þess eru hleðslur. Sandur hefur fokið í flest skjól og umverpt mannvistarleifar að mestu. Þó má, ef vel er að gáð, enn sjá verksummerki, auk þess sem lendingin í Lendingamel gefur nokkuð góða vísbendingu um búsetuna fyrrum.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Kalmanstjörn.
-Leó M. Leósson.