Tag Archive for: Skógargata

Óttarsstaðaselsstígur

Gengið var um Straumsselsstíg/Rauðamelsstíg/Hrauntungustíg norðan við Hrútafell. Þeim síðastnefnda var fylgt um Hörðuvelli, Einihlíðar, Dyngnahraun og Mosa. Þar beygir stígurinn inn í Skógarnef og til norðurs vestan við Óttarsstaðasel. Norðan við selið liggja Rauðamelssígur og Óttarsstaðaselsstígur saman. Stígurinn hefur stundum verið nefndur Mosastígur milli Mosa og Óttarsstaðarselsstíg. Einnig Skógargata inn í Skógarnef. Leiðinni var fylgt áfram niður á Alfaraleiðina utan við Smalaskálahæð, yfir hana og áfram niður fyrir Rauðamel.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – fornar leiðir; Ólafur Þorvaldsson.

Sennilega er eðlilegast að nefna Hrauntungustíginn kaflann frá Hádegisskarði að Sauðabrekkum, Straumsselsstíginn kaflann frá Straumi upp fyrir Hrúthólma að gatnamótum Rauðamelsstígs og Rauðamelsstíginn kaflann, annað hvort frá Óttarsstöðum, eða mótum hans og Óttarsstaðarselsstígs norðan selsins að gatnamótum Straumsselsstígs norðan Hrútafells. Kaflinn frá þeim gatnamótum að Ketilsstíg gæti heitið hvort sem er Rauðameslsstígur áfram og/eða Straumsselsstígur.
Ólafur Þorvaldsson getur hvorki um Rauðamelsstíg né Straumsselsstíg í grein sinni um „Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar“ í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48. Ætla mætti af því að þar hafi ekki verið alfaraleiðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Hraunin voru á þessum tíma ekki heldur hluti af Hafnarfirði heldur Garðahreppi. Af þeirri ástæðu hefur hann e.t.v. ekki talið ástæðu til að fjalla um þá stíga sérstaklega. Með greininni fylgir þó uppdráttur af hinum fornu slóðum og á honum eru bæði Straumsselsstígur og Rauðamelsstígur merktir skilmerkilega.

Mávahlíðar

Mávahlíðar – forn gata.

Auk þess að skoða Rauðamelsstíg frá Hrútafelli var skoðuð gata út frá norðvestanverðum Hrúthólma að Mávahlíðum. Gatan er á sléttu helluhrauni og bæði breið og greinileg á köflum. Ein lítil varða er á milli hólmans og fellsins. Þegar komið er að hlíðum þess liggur gata til suðurs með því austanverðu. Einnig til norðurs sömu megin. Að þessu sinni var fyrstnefnda gatan rakin áfram vestur yfir lágan sandháls og niður hlíðina að norðvestanverðu. Þar sést stígurinn vel þar sem hann liðast um slétta hraunhelluna neðanverða, áleiðis að Dyngjurana. Þar kemur hann inn á Rauðamelsstíginn.
Ástæða þótti til að skoða þessa leið sérstaklega, bæði vegna þess að hún er einstaklega falleg og greiðfær og auk þess er hún skemmtileg hliðar- og hringleið frá Rauðamelsstíg. Og ekki skemmir tignarleiki Mávahlíðanna fyrir útsýninu á leiðinni.

Mávahlíðar

Mávahlíðar – forn gata.

Þegar gengið er eftir Rauðamelsstíg frá Hrútafelli er í fyrstu gengið um slétt helluhraun. Stígurinn er vel greinilegur. Þegar nálgast tekur lága mosavaxna hraunbrekku mjókkar stígurinn. Hann liggur síðan gróinn, en þó greinilegur, með fallegum hraungíg og síðan áfram að norðurenda Fíflavallafjalls. Austan við endann er djúp gígskál og er stígurinn með austurbarmi hennar. Norðan skálinnar beygir stígurinn til norðurs þar sem hann liðast niður mosahlíð niður að Hörðuvöllum. Á leiðinni greinist stígurinn í nokkrar götur, en þær eru kindargötur er myndast hafa í mosasléttuna. Áberandi og breiður stígur liggur þó yfir að suðurhlíðum Mávahlíðar og er þar enn einn stígurinn í stígakerfi svæðisins.

Óttarsstaðasel

Rauðamelsstígur að Óttarsstaðaseli.

Ólafur teiknar Rauðamelsstíginn þarna niður hlíðina á uppdrátt er fylgdi umræddri grein hans í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48 (útg. 1949), í beina stefnu á Ranann. Stígurinn beygir þó þarna til vesturs og síðan aftur til norðurs. Tekinn er bogadreginn krókur niður fyrir hærri hraunkant að neðanverðu. Kannaður var möguleiki á beinni leið þarna niður eftir, eins og uppdrátturinn sýnir, en stór gjá hindrar þar umferð.
Norðan við Ranann sést vel niður eftir stígnum þar sem hann liðast áfram til norðvesturs niður hlíðina, áleiðis að Lambafelli. Stígurinn er þarna nokkuð breiður, en ástæðan er sú að bíl hefur verið ekið eftir honum upp á brúnina og áfram upp fyrir enda Fíflavallafjalls. Gamla stíginn má þó sjá á köflum til hliðar við slóðann. Norðaustan við Lambafellið eru gatnamót og það greinileg.
Rauðamelsstígurinn liðast áfram til norðurs, en önnur gata liggur þarna til suðurs austan Lambafellsins. Líklega er þar um að ræða hestagötu er lá áfram inn með Eldborg, Trölladyngjurótum og áfram inn á Selsvelli þar sem hún hefur m.a. mætt Þórustaðastíg um hálsinn yfir til Vigdísarvalla. Auk þess hefur þarna legið leið t.a.m. til og frá Selatöngum. Á heforingjaráðkorti frá 1908 (endurgert 1936) sést gatan liggja áfram upp í Sogin og einnig inn með Núpshlíðarhálsi.

Rauðamelsstígur

Rauðamelsstígur.

Rauðamelsstígurinn liðast nú í gegnum hraunið, um þriggja metra breiður á kafla. Hestagatan, klöppuð í slétt bergið, sést þarna á nokkrum stöðum. Hún er lítillega til hliðar við meginleiðina. Með lagni má sjá lægðir í óhreyfðum mosanum og fylgja götunni nokkurn spöl. Síðan þrengist hann verulega og verður ógreinilegri. Einungis ein varða, og það vel mosaskeggvaxin, er við norðurenda hans – þar sem hann kemur niður í Mosana. Mosinn á vörðu þessari er sérkennilegur og öðruvísi en almennt gengur og gerist. Þarf ekki að undra að til skuli vera hátt í átta hundruð mosategundir hér á landi.
Þarna er gott útsýni yfir norðvestanverðar Einihlíðar. Stórbrotið er að sjá hvernig nýjasta hraunið, sennilega frá því í goshrinunni á 12. öld (1151-88) hefur runnið sem foss fram af og niður hlíðarnar á tveimur stöðum.
Þegar staðið er þarna virðist eðlilegra að stígurinn hafi legið svo til beint og á ská um hlíðina ofanverða til suðurs. Hún virðist greiðfær, en ekki mótaði fyrir heilstæðum stíg þar þrátt fyrir greinanlega útidúra.

Rauðamelsstígur

Rauðamelsstígur – vörður við gatnamót stígsins, Óttarsstaðaselsstígs og Skógargötu um Mosa.

Þegar niður á slétt helluhraun Mosanna er komið má sjá móta fyrir hestagötu klappaða í hraunhelluna við hlið hinnar almennu. Mosinn hefur víðast hvar þakið hana, en ef vel er að gáð má sjá götuna á köflum.
Ofarlega í Mosunum greinist gatan í tvennt; annars vegar beint áfram að Bökkuklettum og hins vegar til norðvestur niður með brún Eldborgarhrauns. Þá leið er m.a. hægt að komast niður í Seltóu í Afstapahraui og þræða síðan Tóurnar langleiðina niður að Kúagerði.

Þegar komið er niður að hraunnefi er skagar inn í Mosana úr norðaustri greinist gatan. Hin breiða almenna heldur áfram niður eftir, áleiðis að Bögguklettum, sem eru tveir klofnir klettastandar í annars sléttri hraunhellunni. Nýlegra hraun, mjög þunnfljótandi, hefur runnið líkt og vatn niður sléttlendið, smurt sig upp á klettana og síðan sjatnað á ný. Hraunhellan er ekki nema nokkrurra sentimetra þykk og hefur forstveðrun náð að brjóta hana í smærri einingar á stórum köflum.

Bögguklettar

Bögguklettar.

Hin gatan liggur til norðausturs með hraunbrúninni. Gróið er í kantinn svo ekki skal undra að hestamenn skuli hafa valið þess leið um Mosana. Leiðirnar tvær koma síðan saman á ný norðan Böggukletta þar sem hún kemur inn á lítillega hækkun í hrauninu.

Hestagatan sést vel svolítinn spöl. Þá greinist stígurinn í tvennt; annars vegar til hægri, sem hefur verið meginleiðin, bæði breið og greinileg og liggur áleiðis inn í Skógarnef, og hins vegar (að öllum líkindum) hestaleiðin (beint áfram), niður með hraunbrún Skógarnefsins. Þar liðast hún um grónina undir hraunbrúninni. Þessar leiðir koma síðan saman á ný við tvær vörður við norðanvert Skógarnef.

Skógarnef

Skógarnef – varða.

Stígurinn í gegnum Skógarnefið er óglöggur vegna þess að gróið hefur yfir hann að mestu. Ef vörðum er hins vegar fylgt þvert í gegnum Nefið má fylgja stígnum eins og hann var. Hann sést undir klapparhæðarbrún og síðan vel skömmu áður en komið er út úr því að norðanverðu. Þar er verklega hlaðin varða, líklega landamerkjavarða á sléttlendi, og síðan tvær aðrar er áður var minnst á.
Héðan er stígurinn vel varðaður niður að gatnamótum Óttarsstaðarselsstígs norðvestan selsins, skammt neðan Meitlanna. Sunnanverð vesturhlíð Almennings er þarna vel gróin og liggur Rauðamelsstígur á ská til norðurs um gróninga og hraunbolla. Nota þarf fulla athygli til að fylgja stígnum rétta leið um þetta svæði. Varða við skjól vestan Óttarsstaðasels sést í norðaustri og þegar lengra er komið sést selsvarðan ofan við selið. Frá gatnamótunum, þegar gengið er til suðurs milli vörðubrotanna er beint sjónlína í Trölladyngju.

Almenningur

Almenningur – kort.

Stígur gengur upp frá Óttarsstaðaseli að Búðarvatnsstæðinu og síðan áfram upp að norðanverðum Mávahlíðum. Þar kemur hann inn á stíg þann er fyrr var líst frá Hrúthólma að hlíðunum. Vörður eru við stíginn á stöku stað. Að og frá Búðarvatnsstæðinu er hann vel áberandi.
Við fyrrnefnd gatnamót eru tvær fallnar vörður, næstum jarðlægar. Frá þeim liðast Óttarsstaðaselsstígur (Rauðamelsstígur) niður hraunið, niður Bekkina, að og yfir Alfaraleiðina milli Innnesja og Útnesja og áfram áleiðis að Óttarsstöðum. Áður en námurnar voru teknar í notkun í Rauðamel hefur stígurinn legið norðan við Melinn og síðan áfram að Óttarsstöðum. Námurnar hafa tekið hann í sundur á stuttum kafla, en stígurinn kemur á ný í ljós norðvestan við þær. Þar lauk göngunni að þessu sinni.

Almenningur

Almenningur – vörðukort (ÁH).

Rauðamelsstígurinn er vel greinilegur mest alla leiðina milli gatnamótanna norðan Hrútafells að Óttarsstöðum.
Helstu leiðir milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur voru Stórhöfðastígur, Undirhlíðavegur, Dalaleið, Straumsselstígur og Rauðamelsstígur. Flestar leiðirnar lágu saman norðvestan við Ketilinn. Auk þess er vel vörðuð leið upp frá Lónakotsseli að Sauðabrekkum, en hennar hefur hvergi verið getið svo vitað sé. Stundum var um fleiri en eina götu að velja á köflum sömu leiðar.
„Gömlum vinum og gömlum götum á enginn að gleyma“. Á þessu gamla færeyska orðtaki byrjar Ólafur Þorvaldsson lýsingu sína á „Fornum slóðum milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar“ er birtust í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48.

Almenningur

Almenningur – leiðir.

„Þessar gömlu götur og vegir, því að nokkuð af þeim kallaðist vegir, annað götur eða stígar, búa í þögn sinni og yfirgróningu yfir margra alda óskráðum minningum um alla þá menn sem þar hafa ferðast; um alla þá erfiðleika sem þeir áttu við að etja á jafntorfærum leiðum og margar þeirra voru – en voru þrátt fyrir allt leið manna um landið frá landnámstíð fram á vora daga. Þær búa líka yfir mörgum ánægjustundum vegfarenda, sem svo oft var vitnað til, að þetta eða hitt hefði borið við á þessum leiðum. Efast ég um að fólk, sem ferðast nú um landið eftir dýrum vegum, á dýrum farartækjum nútímans, eigi ánægjulegri og bjartari minningar að ferðalokum en þessar fornu og nú yfirgefnu slóðir veittu oft og einatt þeim sem um þær fóru á sínum tíma.

Fornaselsstígur

Fornasels og Gjálselsstígur.

Flestar hafa þessar götur orðið til smám saman af umferð manna og hesta, og hafa margar þeirra verið mjög fjölfarnar, t.d. sést víða, þar sem leiðir liggja yfir hraunhellur, að hesthófurinn með sínum pottuðu skeifum og líka oft pottuðu hestskónöglum hefur sorfið götur oft 10-20 sm djúpar. Til þess að djúpar götur myndist í hart hraunið eða grágrýtisklappir hefur umferð hlotið að vera bæði mikil og það um langan tíma.
Óvíða sér nema eina götu í hraunlendi eða þar sem grágrýtsiklappir eru. Þó ber aðeins út af. Þar sem vegir lágu um svona ógreitt land urðu menn oft að teyma lestir sínar hverja á eftir annarri. Vegna þess að aðdráttarferðir manna voru á nokkuð ákveðnum tíma, sér í lagi á vorin, sammæltust oft menn úr sömus veit til slíkra ferðalaga, og gátu oft slegist í förina fleiri menn með hesta í hópnum þar sem hver maður var oftast með 5-8 hesta. Þegar menn fóru lausríðandi og leið þeirra lá um slíkt land urðu þeir að „lesta sig“ sem kallað var, gátu ekki riðið hlið við hlið, og var þetta stundum kallaður „gæsagangur“. Aftur á móti þars em götur lágu eftir grónu landi, t.d. grasdölum, árbökkum eða meðfram sjó, sjást sums staðar allt að tuttugu götur hlið við hlið, þá gátu menn teymt lestir sínar samsíða, eða ef lausir voru, riðið hver við annars hlið, spjallar saman, rétt milli sín tóbaksílát og ef til vill vasafleyg sem hressti þá og lífgaði á margra daga lestarorri.“

Reipshögld

Reipshögld.

Ólafur heldur áfram að lýsa hinum gömlu götum: „Oftast nær var það svo að þeir sem fóru um þessar gömlu götur, þó lausríðandi væru, urðu að fara hægt yfir landið, þar eða þær götur voru víða þröngar eða ógreiðar yfirferðar. Þetta hafði vitanlega sína ókosti og líka kosti. Ókostirnir voru helst taldir þeir að menn voru lengur en ef gatan hefði verið greið – einnig það að oft voru á þessum götum klif eða skarpar beygjur sem varð að fara hægt yfir og fyrir, og gátu baggar rekist í og hrokkið af klakk. Sáust þess stundum merki meðfram fornum götum að slíkt hafði hent, þó jafnvel sjaldnar en búast mátti við. Athugull ferðamaður komst stundum auga á brotna högld af reipi utan við veginn, kom þá stundum í ljós, ef menn nenntu að taka upp og skoða þetta gamla, þögla vitni hinar fornu og miklu umferðar, að það var komið um óravegu, jafnvel yfir fleiri sýslur, úr fjarlægum landsfjórðungum. Reipshagldirnar voru þá alltaf brennimerktar bæði nafni eiganda og hreppsbrennimerki.

Skeifa

Skeifubrot í alfaraleið.

Það ber einnig við að menn sjá við þessar gömlu götur skeifubrot eða jafnvel heila skeifu, sem er kannske orðin tvöföld að þykkt frá uppruna af ryði og sandi samanblönduðu, má oft merkja aldur hennar bæði af lagi og gatafjölda…
Þá er að geta kostanna við þessar gömlu götur að nokkru, þeir voru ef til vill færri en ókostirnir, en þó skal nefnt hér t.d. aðþar gáfust ótal tækifæri til athugunar á því sem fyrir augu bar, svo sem landslagi, kennileitum, hvernig örnefni hefðu myndast o.fl. Út frá ýmsum þessum athugunum spunnust oft milli samferðamanna fróðlegar og skemmtilegar umræður.

Rauðamelsstígur

Rauðameslsstígur – vörður.

Til var það á leiðum milli byggðalaga, þar sem talin var hálfnuð leið, að menn nefndu t,d, Hálfnaðarklett, Hálfnaðarhól, Hálfnaðarskarð, Hálfnaðarsprungu. Öll þessi leiðarmerki af núttúrunnar hendi eru nú týnd eða að týnast með niðurlagðri umferð um fornar slóðir.“
Rétt er að láta þessi síðustu orð Ólafs Þorvaldssonar verða áhrínins- og áminngarorð til handa núlifandi kynslóð. Ástæðulaust er að láta þennan miklvæga þátt forsögunnar týnast eða gleymast. Glötuð gata er glataður menningartengill milli fortíðar og nútíðar. Framtíðin mun ekki varðveita slík verðmæti nema vitneskjunni verði komið á framfæri.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Gamlar þjóðleiðir og fornir stígar liggja vítt og breitt um Reykjanesfólkvang. Þessar leiðir hafa gleymst eftir að ökuvegir voru lagðir og menn hættu að þræða gamlar slóðir á ferð sinni um nesið. Flestar leiðirnar tengja byggðahverfin gömlu við útverin á Suðurnesjum.
Á milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur lágu t.d. Undirhlíðaleið, Dalaleið, Vatnaleið, Stórhöfðastígur og Hrauntungustígur. Frá Hraunabæjunum við Straumsvík og Hvassahrauni lágu t.a.m. Straumsselsstígur, Rauðamelsstígur og Mosastígur til Krýsuvíkur, að Selatöngum eða Grindavíkur. Með Núpshlíðarhálsi lágu Hálsagötur og milli Vatnsleysustrandar og Vigdísarvalla lá Þórustaðastígur. Drumbsdalastígur þræðir sig áfram frá Bleikingsvöllunum sunnan Vigdísarvalla austur að Krýsuvík.
Rauðamelur var áður fyrr tveir rauðir gjallhólar en eru nú malargryfjur.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Stígurinn, sem lá frá Rauðamel í suðurátt er, sem fyrr segir, nokkuð greinilegur á köflum og heitir ýmist Óttarstaðaselsstígur, Skógargata, Raftastígur eða Rauðamelsstígur en þegar ofar dregur mun hann heita Mosastígur og liggja upp að Dyngjum þar sem Hálsagötur taka við ýmist með eða yfir hálsinn eftir því hvert leiðin lá þaðan.
Vænlegt er að stika Rauðamelsstíg. Mikilvægt er að gera það eins nákvæmlega og vandlega og hægt er. Þetta er falleg, merkileg og áhrifarík leið yfir skagann. Hún var örugglega ein af höfuðleiðum vermanna og annarra ferðalanga sem komu langt að og fóru þessa leið (og margar aðrar) í vetríðarbyrjun síðla á þorranum eða byrjun góu og í lok vorvertíðar í maí. Hver veit nema þetta hafi einnig verið flutningsleið brennisteinsmanna að og frá Krýsuvík á meðan Þýskubúð var kaupvangur í Straumsvík á 15. öld og hluta 16. aldar og brennisteinninn var nýttur í Baðstofu og við Seltún.

Óttarsstaðaselsstígur

Óttarsstaðaselsstígur.

Umferð um Rauðamelsstíg hefur verið lítil sem enginn í áratugi, allt frá því að bíllinn kom til sögunnar. Víða er stígurinn að gróa upp og sennilega verður ekki langt að bíða þess að hann hverfi algerlega. Ástæða er til að hvetja fólk, sem treystir sér til, að feta hann og viðhalda þannig þessari gömlu þjóðleið. Fé hefur verið rekið um stíginn, en auk þess hefur hann verið farvegur fólks og fararskjóta um langan aldur. Það ber hin djúpmarkaða gata greinilegan vott um.
Eftir að hafa skoðað Rauðamelsstíginn vaknar grunur um að hann hafi verið hluti af mun eldri, almennari og lengri leið, þ.e. gleymdri götu, sem legið hefur frá Innnesjum út á sunnanverð Útnesin, en þar Krýsuvíkurleiðin einungis verið hliðarstígur frá Lambafelli. Þær grunsemdir verða gaumgæfðar nánar á næstunni.

Gengnir voru 21 km á 6 klst og 46 mín. Frábært veður um frábært land.

Heimildir m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson 1949. Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48. Bis. 81-95.

Rauðamelur

Litli Rauðamelur við Rauðamelsstíg.

Óttarsstaðasel

Gengið var eftir Óttarsstaðaselsstíg (Skógargötu/Rauðamelsstíg) upp í Óttarstaðasel. Til hliðsjónar var uppdráttur frá árinu 1932, en á hann er stígurinn merktur.

Óttarstaðasel

Óttarsstaðasel – vatnsból.

Tóftir selsins voru skoðaðar, litið á fallegt vatnsstæðið norðaustan þess og síðan haldið áfram sem leið lá upp eftir ætluðum stíg sunnan selsins. Hraunið er vel gróið þarna og ef stígur hefur legið í gegnum selið og áfram upp á hæðirnar væri hann að öllum líkindum horfinn. Gengið var framhjá Rauðhólsskúta og mið tekið á vörðu á hraunhól í hæðunum. Önnur varða var skammt ofan við hana, en síðan ekki söguna meir. Stefnan var því tekin meira ti vesturs, yfir í Skógarnef. Þegar komið var að landamerkjagirðingu Óttarsstaða og Hvassahrans var byrjað að skyggnast eftir Skógarnefsskúta, bæði ofan við ásana neðst í nefninu og neðan þeirra, en án árangurs að þessu sinni.

Markhelluhóll

Búðarvatnsstæði og Markhelluhóll. Á honum er mosavaxin varða.

Landamerkjalínan, sem kemur ofan úr Markhelluhólnum við Búðarvatnsstæðið, um Kolhól og Skógarnef, á að liggja um Skógarnefsskútann og Skógarnefnsgrenin og áfram niður í gegnum Mið-Krossstapa og niður með Skorás. Grenin sáust skammt neðan við bakkana, skammt vestan girðingarinnar. Hlaðið er um eitt grenið og tveir uppraðaðir steinar þar hjá. Heilleg varða er á hraunhól við girðinguna ofan við bakkana.
Á leið til norðurs í gegnum gróið hraunið neðan við Skógarnefið var komið að hlaðinni vörðu. Við hana var gata með stefnu upp að þeirri við girðinguna í Skógarnefi. Önnur stærri var á hraunhól skammt frá. Þegar betur var að gáð sáust vörður eða vörðubrot í stefnu til norðurs með ca. 10-20 metra millibili.

Þeim var fylgt áfram niður hraunið, en ekki var að sjá greinilegan stíg. Hins vegar var leiðin mjög greiðfær í hrauninu þar sem hún lá með hólum og hryggjum.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Vörðurnar voru greinilega mjög gamlar, en auðvelt var að fylgja þeim. Þegar komið var á stíginn, sem liggur milli Óttarstaðasels og Lónakotssels, skammt vestan við hið fyrrnefnda, mátti sjá vel hlaðna vörðu. Stígurinn hélt þar spölkorn áfram til norðurs og beygði síðan til norðausturs, inn á Óttarsstaðaselsstíg / Rauðamelsstíg neðan (norðan) við Meitlana. Þar við gatnamótin voru tvær fallnar vörður og enn önnur skammt sunnar, með stefnu á milli hinna tveggja. Rauðamelsstígurinn upp í Óttarstaðaselið er þarna greinilegur, en gatnamótin hins vegar ekki, nema mjög vel sé að gáð. Telja má nær öruggt að þarna sé sá hluti Rauðamelsstígsins er nefnist Mosastígur.

Óttarsstaðaselsstígur

Gatnamót Skógargötu (tvær vörður).

Þetta er mjög líklega sá hinn sami stígur og Hraunamenn nefndu Mosastíg. Hann var farinn þegar menn voru að rífa mosa til upphitunar (JG). Það er reyndar annar Mosastígur sem liggur upp með Brunanum, sem er á allt öðrum stað (miklu mun vestar og liggur frá Mosum áleiðis niður að Hvassahrauni).
Í Skógarnefi er hann varðaður þar í gegn, áleiðis upp á Mosa þar sem Mosastígur tekur við áleiðis upp fyrir Lambafell. Á uppdrættinum er hann sýndur liggja til vesturs norðan Trölladyngju, en af stígnum að dæma virðist hann liggja til suðurs austan við Trölladyngju, áleiðis yfir að Hrútafelli og að Ketilsstíg yfir Sveifluháls.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðaselsstígur.

Óttarsstaðaborg

Gengið var frá Óttarsstaðafjárborginni, öðru nafni Kristrúnarborg, skammt sunnan við Reykjanesbraut ofan við Lónakot, og inn á Alfararleið. Landamerki Óttarsstaða og Lónakots eru þarna skammt vestar. Fjárborgin er stundum nefnd Kristrúnarborg eftir Kristrúnu Sveinsdóttur frá Óttarsstöðum, sem hlóð hana ásamt vinnumanni sínum, Guðmundi Sveinssyni, um 1870.

Óttarsstaðaselsstígur

Austan við fjárborgina eru hraunhæðir, Smalaskálahæðir. Syðst í því er stórt og mikilfenglegt jarðfall, Smalaskálaker, með rauðamelsgúl í miðjunni. Í því var um tíma útilistaverk; lítið hús með ranghverfu. Hreinn Friðfinsson, myndlistamaður, reisti það 1974 og nefndi Slunkaríki (það er nú horfið). Í sprungu suðvestan í Smalaskálahæð var komið fyrir líki konu árið 2006 eftir að hún hafði verið myrt með hryllilegum hætti í íbúð í Reykjavík. Gerandinn flutti líkið á jeppabifreið suður í hraunið, komst í skjól fyrir annarri umferð og setti líkið ofan í sprunguna. Það fannst þar allnokkrum dögum síðar eftir að gerandinn hafði bent á staðinn. Á svipuðum slóðum var á sínum tíma leiða að líki manns, sem hvarf um 1976, en hefur enn ekki fundist. Talið var að manninum hefði verið komið fyrir í hrauninu. Ekki eru mörg misseri síðan morðingi kom fórnarlambi sínu fyrir í Arnarseturshrauni, en benti síðar á staðinn. Ljóst er af þessu að hraunin geta geymt marga „afleiðingu“ fyrri tíma.
SkógargataAnnars er hraunið þarna hluti Hrútargjádyngjuhrauns, sem rann fyrir 4500-5000 árum síðan. Allt, sem þá lifði, er löngu dautt. Nú skreytir hraunin bláberja- og krækiberjalyng, beitilyng, víðir, birki og fjalldrapi, auk margra annarra flórutegunda.
Frá fjárborginni er auðvelt að komast inn á Lónakotsselsstíginn skammt sunnar. Einnig Óttarsstaðaselsstíginn skammt norðar. Nóg er að ganga spölkorn til austurs og er þá komið inn á Alfaraleiðina, hina fornu þjóðleið millu Innesja og Útnesja. Draugadalir eru þar skammt norðar. Að þessu sinni var götunni fylgt til norðurs, að Draugadölum, enda ætlunin að fylgja Óttarsstaðasselstígnum áleiðis upp í selið, allt að Meitlum, en þar vestan við voru gatnamót stígsins og Skógargötunnar. Aðaltilgangur ferðarinnar var athuga hvort Skógargatan gæti hafa verið stök sem slík og þá legið þvert á Óttarsstaðaselsstíginn, án þess þó að hafa verið hluti af honum, með áframhaldandi aðkomu niður á Straumsselsstíginn vestari.  Jafnan hefur verið talað um Óttarsstaðaselsstíg, Skógargötu og Rauðamesstíg í einu orði. Í ljós átti hins vegar eftir að koma að um þrjá aðgreinda stíga hefur verið að ræða. Þannig virðist Skógargatan hafa legið þvert á Óttarsstaðaselsstíginn, sem lá upp með Smalaskálahæð og kom inn á Rauðamelsstíg neðan við Bekkina. Sá síðastnefndi lá þaðan áleiðis niður að Óttarsstöðum, þvert yfir Alfaraleiðina ofan við Brúnirnar og norðan við Rauðamel, stystu leið heim að Hraunabæjunum.
Eftir að hafa gengið Óttarsstaðaselsstíginn upp að Bekkjunum var ákveðið að kíkja í Bekkjaskjólið, mikla fyrirhleðslu fyrir skúta ofan við hálfopið jarðfall. Aðkoman að skjólinu er sérstök; um hraunklofa. Ofan og norðan í Bekkjunum er torfærarar hraun og nýrra, Afstapahraunið eldra. Um er að ræða tiltölulega mjóa hraunræmu á þessu svæði og því auðvelt yfirferðar – ef stígnum er fylgt í gegnum það.
Þegar komið var upp undir Meitlana sáust tvær fallnar vörður sunnan við götuna. Sunnan í þeim er fjárskjól, Meitlaskjól (Norðurskúti).
Varða við AlfaraleiðinaÞarna neðan við Meitlana, sunnan við Óttarsstaðasels-stíginn, eru tvær vörður. Liggur stígurinn til suðsuðvesturs upp landið og er varðaður áfram, a.m.k. upp í Skógarnef. Þarna er kominn svonefnd Skógargata (eða Skógarnefsgata), en Óttarsstaðaselsstígur hefur, sem fyrr sagði, stundum verið nefndur Skógargata og einnig Rauðamelsstígur.
Ætlunin var sem sagt að skoða hvort Skógargatan gæti hafa verið sjálfstæð eining í fornu gatnakerfi Almennings, eða hluti af öðrum götum. FERLIR hafði áður (oftar en eini sinni) fylgt Skógargötunni bæði upp og niður úr Skógarnefi. Þótt gatan sé ekki vel greinileg er hún vel vörðuð svo auðvelt er að fylgja henni á þeim kafla. Þegar staðið var við gatnamótin var ljóst að ekkert væri auðveldara en að fylgja henni áfram til norðurs, þvert á Óttarsstaðaselsstíginn. Eldra Afstapahraunið (4000-4500 ára gamalt) er vestar, en ofan (austan) þess er hraunið vel gróið og greiðfært. Skógargatan hefur fylgt Óttarsstaðaselsstígnum spölkorn til vesturs, en síðan tekið stefnuna yfir á Straumsselsstíginn vestari. Vörðubrot er á hraunhól skammt norðan gatnamótanna. Frá honum er haldið niður í enn grónara hraun og síðan gróningum fylgt áfram aflíðandi til norðurs, líkt og að ofanverðu. Tiltölulega stutt er yfir á Straumsselsstíginn. Þar, undir hraunbrúninni, er vörðubrot. Komið er inn á stíginn þar sem hann liðast upp á Eldra Afstapahraunið og þar eftir sléttu hrauni. Aðkoman inn á Óttarsstaðasels-stíginn er mjög svipuð, nema hvað ekki var hægt að greina tvö vörðubrot á seinni staðnum, einungis eitt.
Grunur leitendanna reyndist réttur. Skógargatan hefur verið notuð hvort sem er af þeim er fóru um Óttarsstaðaselsstíg eða Straumsselsstíg vestari – eins sjálfsagt og það gat verið.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Bekkjaskúti

Skógarnefsgata

Þegar gengið var upp fyrir Hvassahraunssel sást hvar forn gata lá upp í hraunið, til austurs áleiðis að Skógarnefi. Götunni var fylgt eftir frá tveimur vörðum í jaðri gamla Afstapahraunsins. Nánar að gáð sást hvar eldri gata lá á milli varðanna í sömu stefnu.
SkogarnefsgataGatan, sem eftirleiðis verður nefnd Skógarnefsgata (af skiljanlegum ástæðum því hún hefur augsýnilega verið notuð til að sækja hrís og annan eldivið upp í Skógarnef alveg framundir aldamótin 1900 (og jafnvel lengur)) lá mjög greinileg í gegnum hraunið og upp í Nefið. Önnur svipuð gata liggur yfir hraunið nokkru norðar og svo virðist sem þær komi saman sem ein nálægt vörðunum fyrrnefndu.
Sambærilegar götur má sjá bæði upp úr Straumsseli og Óttarsstaðaseli og jafnvel víðar. Eftir að hafa skoðað Skógarnefið, kíkt á Skógarnefnsskúta og vatnsstæðið þar, var gatan fetuð til baka yfir gamla Afstapahraun, framhjá vörðunum og áfram til vesturs, fyrir ofan og norðan Snjódali og að Hvassahraunsseli að sunnanverðu. Á leiðinni var m.a. gengið fram á fallega hlaðið byrgi refaskyttu og tóftir smalaskála í nátthaga. Þar drupu einiber af hverri grein sem hvergi annars staðar.
Þegar Hvassahraunssel var skoðað, enn og aftur, komu í ljós tóftir á mjög gamalli selstöðu ekki allfjarri þeim, sem hvað greinilegastar eru í dag.
Loks var Hvassahraunsselsstígurinn vestari fetaður niður fyrir Virkishóla.
RefaskyttubyrgiLjóst má vera að selstígurinn hefur verið notaður sem fyrri hluti Skógarnefsgötunnar, sem liggur upp frá selinu og hefur verið allvel greiðfær. Ekki er ólíklegt að Skógarnefnsskúti hafi verið skjól fyrir fólk við hrístöku í Nefinu og það nýtt sér vatnsstæðið til viðurværis. Enn hafa ekki fundist kolagrafir á þessu svæði, en hin forna seltóft í Hvassahraunsseli gefur þó tilefni til að ætla að hún hefi verið nýtt til slíkra verka því útlit og gerð hennar svipar mjög til þeirra er sjá má við Kolgrafaholt.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Skógarnef

Skógarnefsskúti.

 

Óttarsstaðaborg

Fjórar götur lágu út frá eða nálægt Óttarsstöðum í Hraunum. Nyrst var sjávargatan ofan strandar áleiðis að Lónakoti, Skógargatan (Óttarstaðaselsstígur) lá til suðurs að Óttarsstaðaseli og Fjárborgargatan lá til suðausturs upp að Fjárborginni vestan við Smalaskálahæð. Fjórða gatan, Hraunagatan (Hraunavegur, studdum nefndur Óttarstaðavegur) lá svo frá Straumi áleiðis vestur að Hvassahrauni, ofan Óttarsstaða og Lónakots. Enn ofar var svo Alfaraleiðin milli Innnesja og Útnesja.
Óttarsstaðir vestriAð þessu sinni var skoðuð Hraunagatan ofan Óttarsstaða og Fjárborgargatan, en síðarnefnda gatan þverar þá fyrrnefndu skammt norðan við Jakobshæð.
Í örnefnalýsingum fyrir Óttarsstaði og Straum er getið um þessar götur. Í lýsingu fyrir Straum segir: „[Gata liggur] suðvestan við Straumstúnið, upp á Gunnarsskarð, framhjá Lambhúsgerði, vestur um Karstensvörðu, sem var í Óttarsstaðalandi, en hefur nú verið rifin. Hraunagata eða Hraunavegur og Óttarsstaðavegur voru einnig nöfn á þessari leið um Hraun.“
StekkurÍ lýsingu Óttarsstaða segir um Fjárborgargötuna og Skógargötuna: „Svonefnd Skógargata lá frá Eyðikotshliði upp að Óttarsstaðaseli. Þar sem hún lá yfir hæðirnar, var kallað Kotaklif. Skammt austur af því, á sömu hæðinni, er Eystraklif. Þar lá gatan frá Eyðikotinu upp í hraunið. Önnur gata lá yfir Eystraklifið upp í Nónhóla. Hún lá út af Skógargötunni rétt austan við Hrafnagjá, sem brátt verður nefnd.
Sunnan við túnið á Vesturbænum er Hádegishæð, eyktamark. Á henni var Hádegishæðarvarða. Hæðin var mjög sprungin og miklar gjár í henni. Suðaustar svolítið er feiknamikil hæð með sprungu, sem nefnist Hrafnagjá. Í henni var Fiskabyrgið. Þar var geymdur fiskur harður og geymdist vel. Sést fyrir byrginu enn þann dag í dag.
JakobsvarðaVestur af Hrafnagjá er Miðmundahæð. Vestast á henni er stór varða, sem heitir Miðmundavarða, en vestan við hæðina er lægð, sem heitir Miðmundaskarð. Stígurinn frá Óttarsstöðum liggur upp úr því. Stóra réttin, sem fyrr var nefnd, var inni í krika vestan undir hæðinni. Þar er skúti stór með miklum hleðslum og þröngum dyrum. Hefur hann sennilega verið notaður sem fjárhús einhvern tíma í gamla daga…
Austur af Ingveldi er Jakobsvörðuhæð og á henni Jakobsvarða. Norðan undir hæðinni var eins og ævagamall stekkur eða rétt. Hæðin er suður af Klofa, við götuslóða, sem lá neðan frá Óttarsstöðum upp að fjárborg, sem er þarna miklu ofar.“
Um fjárborgina segir: „Suðvestur af Smalaskála er fjárborgin gamla, frá því fyrir aldamót [1900]. Kona, er Kristrún hét og bjó á Óttarsstöðum, hlóð hana ásamt vinnumanni sínum.“
GöturnarOg þá um Skógargötuna: „Á háhæðinni á Kotaklifinu, við Skógargötuna, er Kotaklifsvarða. Þaðan liggur Skógargatan suður um hraunið. Sunnan undir Miðmundahæð er klapparskarð, sem heitir Djúpaskarð. Skammt ofan við Kotaklifið er djúpt, sporöskjulaga jarðfall við götuna. Er það kallað Hlandkoppsgjörð. Þaðan liggur stígurinn um einstigi, og blasir þá við klapparhóll með þúfu uppi á, nefndur Spói. Er þá komið upp að Reykjanesbraut. Frá Stóra-Nónhól vestur að Spóa eru kallaðir Nónhólar.
Frá Spóa hlykkjar Skógargatan sig eftir lægðum upp að Reykjanesbraut og suður fyrir hana. Langt vestur af Stóra-Nónhól er hóll, sem heitir Goltrahóll. Á honum var Goltravarða, nú fallin.
Skógargatan liggur áfram suður yfir Rauðamel litla og austan við Rauðamel stóra, en Suðurnesjavegurinn lá milli Rauðamelanna. Rauðimelur litli var lágur melhóll. Rauðimelur stóri var sunnar. Hann var feiknastór, og var varða á honum í gamla daga. Vestast á honum var rofabarð með hríslum. Nú eru melar þessir horfnir vegna flugvallargerðar og komin tjörn, þar sem sá syðri var. Austan við Rauðamel stóra er Gvendarbrunnshæð og þar um liggur landamerkjalínan í Gvendarbrunn.
Skógargatan liggur suður rétt við Rauðumelana, vestan við Gvendarbrunnshæð, áfram yfir Seljahraun og upp Mjósundin. Þá liggur Skjólstígurinn á brún grunnrar lægðar. Í henni, rétt suður af Bekkjahrauninu, er hellir, sem nefndur er Sveinshellir… Skammt sunnan við Meitla er komið í laut nokkuð langa og blasir þá Óttarsstaðaselið við.“
Tækifærið var notað og „hinn ævaforni stekkur“ undir Jakobshæð skoðaður. Hann er tvískiptur með lágum hraunhrygg á millum.
Hraunagötunni er lýst annars staðar á vefsíðunni .
Svæðið milli Straumsvíkur og Hvassahrauns nefnast einu nafni Hraunin. Þegar talað var um bæina í Hraunum var jafnan átt við Lambahagabæina, Þorbjarnarstaði, Straum, Óttarsstaðabæina, Eyðikot og Lónakot. Hvassahraun virðist hafa verið þar undan skilið, þó eflaust megi finna fólks, sem fyrrum hefur talið Hraunið hluta af fyrrnefndri heild, enda bæði eðlilegt og sjálfsagt. Ástæða fyrirstöðunnar hefur án efa verið hreppamarkalegs eðlis því síðastnefndi bærinn tilheyrði Vatnsleysustrandar-hreppi, en þeir fyrrnefndu Garðahreppi. Má með sanni segja að þar hafi langsum þverskallast frásögnin af Hólmfasti!
RefagildraÞegar gengið var um Hraunin ofan við Lónakot og utan og ofan við Óttarsstaði mátti víða sjá mannvistaleifar. Á einum stað, norðavestan undir Tindhólum, skammt frá Lónakotsselsstígnum, var t.d. fallega hlaðin vörðulaga refagildra, ein sú heillagasta af 36 slíkum, sem vitað er um á Reykjanesskaganum. Refagildran hafði op mót austri. Fallhellan lá framan við opið. Þrátt fyrir að FERLIR hafi marggengið um bæði Lónakotssels-stíginn og svæðið neðan við Sjónarhól hafi sjónin aldrei áður fests á refagildru þessari – svo vel fellur hún inn í umhverfið. Má ætla að hið sama gildi um fjölmargar aðrar mannvistarleifar í Hraununum. Því til staðfestu má nefna hlaðið skjól í skúta við Óttarstaðasel-stíginn.
HraunagatanÞrátt fyrir margar ferðir fram og aftur um götuna hafði skjólið aldrei opinberast fyrr en einmitt nú. Um er að ræða fallegar hleðslur við niðurgang í náttúrulegt lítið jarðfall, sem án efa hefur verið reft yfir fyrrum. Inn undir því er hið ágætasta skjól. Gæti það hugsanlega hafa verið brúkað af fólki er fara þurfti upp í Óttarsstaðasel – og jafnvel lengra því gatan sú lá einnig sem afleggjari bæði upp á Hrauntungustíg og í Skógarnef og áfram um Mosa að Dyngjum.
Margt af því sem birtist hefur þegar verið skráð í örnefnalýsingar. Stundum getur verið erfitt að lesa úr lýsingunum því bæði áttir geta verið misvísandi sem og fjarlægðir. Þannig er oft getið um „vestur af“ eða „niður af“ og getur þá verið um verulegar fjarlægðir að ræða. Sá, sem heldur á örnefnalýsingu á stað eins og Hraununum, þarf annað hvort að vera mjög kunnugur á svæðinu eða óvenju vel læs á landslag. Hvorutveggju er varla til að dreifa í dag því flestir þeir, sem þekktu til, eru dauðir, og örfáir núleifandi eru læsir á framangreint.
Af öllu þessu má ætla að ekki væri vanþörf á að að senda liðssveit „sérfræðinga“ (og er þá ekki átt við háskólamenntaða nema í undantekningartilvikum) á vettvang og „skanna“ upp öll örnefni og mannvistarleifar, sem kunna að leynast á svæðum sem þessum. Slík vinna fæli bæði í sér mikla verðmætasköpun til framtíðar og ómetanlegt vermætagildi komandi kynslóðum til handa.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Óttarsstaði og Straum (GS).

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestari.

Kristrúnarborg

Gengið var um svonefnda Skógargötu frá Óttarsstöðum, um Eystraklif og upp á Alfaraleið ofan við Löngubrekkur.
OttarsstadagoturGatan liggur áleiðis upp í Óttarsstaðasel. Önnur gata, oft nefnd Skógargata, liggur vestar (Óttarsstaða-selsstígur). Þær sameinast skammt norðan Alfaraleiðar. Milli Bekkja og Meitla eru aftur gatnamót þar sem Skógargatan beygir til suðvesturs áleiðis að Skógarnefi en Óttarsstaða-selsstígurinn liggur upp í selið, sem er þar skammt ofar í Almenningi. Leiðin liggur um tiltölulega slétt helluhraun; Hrútagjárdyngju-hraun. Þessi gata (götur) hefur einnig verið nefnd Rauðamelsstígur, en hún liggur yfir Litla-Rauðamel ofan Nónhæða.
Næst Óttarsstöðum (Eyðikoti) greinast göturnar fyrst skammt ofan Hrafnagjár. Báðar mætast þær þó á Kotaklifi við Kotaklifsvörðu þar sem hún liggur um Eystraklif þar sem þær greinast enn á ný. Skógargatan fer um einstigi syðst á klifinu, en selsstígurinn liggur til suðsuðvesturs upp á klapparrana þar sem hann greinist en kemur saman aftur skammt sunnar. Á þessum leiðum má sjá brýr á sprungum.
Önnur gata liggur frá Stekknum undir Miðmundarhæð og liðast áleiðis upp að Smálaskálahæð um Jakobsvörðuhæð að Kristrúnarborg (Óttarsstaðaborg) vestan við Smalaskála.
Ætlunin var að reyna að fylgja þessum götum upp fyrir hæðirnar og til baka með viðkomu í Gvendarbrunnshelli, Borginni, Smalaskálaskjóli og fiskbyrginu í Hrafnagjá.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Óttarsstaði segir m.a. um þetta:
„Svonefnd Skógargata lá frá Eyðikotshliði upp að Óttarsstaðaseli. Þar sem hún lá yfir hæðirnar, var kallað Kotaklif. Skammt austur af því, á sömu hæðinni, er Eystraklif. Þar lá gatan frá Eyðikotinu upp í hraunið. Önnur gata lá yfir Eystraklifið upp í Nónhóla. Hún lá út af Skógargötunni rétt austan við Hrafnagjá, sem brátt verður nefnd.
KotaklifsvardaSunnan við túnið á Vesturbænum er Hádegishæð, eyktamark. Á henni var Hádegishæðarvarða). Hæðin var mjög sprungin og miklar gjár í henni. Suðaustar svolítið er feiknamikil hæð með sprungu, sem nefnist Hrafnagjá. Í henni var Fiskabyrgið. Þar var geymdur fiskur harður og geymdist vel. Sést fyrir byrginu enn þann dag í dag.
Vestur af Hrafnagjá er Miðmundahæð. Vestast á henni er stór varða, sem heitir Miðmundavarða, en vestan við hæðina er lægð, sem heitir Miðmundaskarð. Stígurinn frá Óttarsstöðum liggur upp úr því. Stóra réttin, sem fyrr var nefnd, var inni í krika vestan undir hæðinni. Þar er skúti stór með miklum hleðslum og þröngum dyrum. Hefur hann sennilega verið notaður sem fjárhús einhvern tíma í gamla daga.
Skogargatan-22Austur af Ingveldi er Jakobsvörðuhæð og á henni Jakobsvarða. Norðan undir hæðinni var eins og ævagamall stekkur eða rétt. Hæðin er suður af Klofa fyrrnefndum, við götuslóða, sem lá neðan frá Óttarsstöðum upp að fjárborg, sem er þarna miklu ofar.
Á háhæðinni á Kotaklifinu, við Skógargötuna, er Kotaklifsvarða. Þaðan liggur Skógargatan suður um hraunið.
Sunnan undir Miðmundahæð er klapparskarð, sem heitir Djúpaskarð. Skammt ofan við Kotaklifið er djúpt, sporöskjulaga jarðfall við götuna. Er það kallað Hlandkoppsgjörð. Þaðan liggur stígurinn um einstigi, og blasir þá við klapparhóll með þúfu uppi á, nefndur Spói. Er þá komið upp að Reykjanesbraut. Frá Stóra-Nónhól vestur að Spóa eru kallaðir Nónhólar.
Frá Spóa hlykkjar Skógargatan sig eftir lægðum upp að Reykjanesbraut og suður fyrir hana.
Langt vestur af Stóra-Nónhól er hóll, sem heitir Goltrahóll. Á honum var Goltravarða, nú fallin.
Raudamelur litliSkógargatan liggur áfram suður yfir Rauðamel litla og austan við Rauðamel stóra, en Suðurnesjavegurinn lá milli Rauðamelanna. Rauðimelur litli var lágur melhóll. Rauðimelur stóri var sunnar. Hann var feiknastór, og var varða á honum í gamla daga. Vestast á honum var rofabarð með hríslum. Nú eru melar þessir horfnir vegna flugvallargerðar og komin tjörn, þar sem sá syðri var. Austan við Rauðamel stóra er Gvendarbrunnshæð og þar um liggur landamerkjalínan í Gvendarbrunn, sem er stór hola í klöpp við elzta veginn. Í Gvendarbrunnshæð vestanverðri er fjárhellir, kallaður Gvendarbrunnshellir.
Gvendarbrunnur-22Vestan við Rauðamel stóra er mikil klapparhæð, sem nefnist Smalaskáli. Uppi á hæðinni er skotbyrgi. Syðst í hæðinni er Smalaskálaker, sporöskjulaga jarðfall með rauðamelshól í botni. Norðvestan undir hæðinni er Smalaskálaskúti, hellir, sem fé lá inni í. Þar var skógarhrísla stór, sem óx fyrir hellismunnann. Suðvestur af Smalaskála er fjárborgin gamla, frá því fyrir aldamót. Kona, er Kristrún hét og bjó á Óttarsstöðum, hlóð hana ásamt vinnumanni sínum.
Sunnan við Smalaskálakerið er mikil klapparhæð og sprungin. Sunnan í henni eru lyngbrekkur, sem nefnast Löngubrekkur. Gjá mikil var eftir allri brúninni, nefnd Löngubrekkugjá. Í norðurbarmi gjárinnar verpti hrafninn alltaf á hverju vori.
Frá Gvendarbrunni liggur gamla hestaslóðin (fyrsti Keflavíkurvegurinn) vestur framan við Gvendarbrunnshæð og áfram suður með Löngubrekkum. Vegurinn er nú uppgróinn fyrir löngu, en þó sést víða móta fyrir honum. Víða voru hlaðnar vörður á klapparhólum með veginum, og standa sumar þeirra enn.“
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Heimild:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Óttarsstaði.

Hraunin

Alfaraleiðin um Draugadali.

Kross

Að Hjalla í Ölfusi er Ólafskirkja, kennd við Ólaf helga Noregskonung.
Núverandi kirkja er byggð 1928. Hjalli-2Talið er að kirkja hafi staðið á Hjalla í Ölfusi frá um 1000, trúlega alltaf á sama staðnum, nema e.t.v. í upphafi. Hjalli í Ölfusi kemur mjög við sögu kristnitökunnar því að þar bjuggu þeir feðgar Þóroddur Eyvindsson goði og Skafti Þóroddsson lögsögumaður.
Ofan Hjalla stöðvaðist kristnitökuhraunið. Þá komst Hjalli aftur í fréttir sögunnar þegar síðasti kaþólski biskupinn í Skálholti, Ögmundur Pálsson, leitaði þar skjóls hjá systur sinni árið 1541. Gafst hann upp fyrir dönskum hermönnum gegn því að fá að fara frjáls maður. Þeir handtóku hann hins vegar og fluttu um borð í skip áleiðis til Kaupmannahafnar. En biskupinn aldni hlaut samt sitt frelsi því að hann dó í hafi.
Þegar svæðið ofan við Þóroddsstaði var skoðað kom m.a. í ljós hringlaga gerði. Að sögn bóndans hafði svæðið allt verið sléttað út fyrir allnokkru og því erfitt að gera sér grein fyrir gamla bæjarstæðinu af einhverjum áreiðanleik.
Hjalli-3Um hlaðið á Þóroddsstöðum liggur Suðurferðagata um 8 km að þjóðvegi 1 á Hellisheiði. Leiðin er svo kölluð vegna þess að hún var flutningaleið til Reykjavíkur og frá. Hún var einnig nefnd Skógargata, því að þar fóru Hjallamenn í Grafning til hrísrifs. Frá Þóroddsstaðahlaði þarf að stefna fyrst vestar en í meginstefnu, yfir gaddavír og að vörðubroti (N63°7´55 / V21°16´42). Hér er beygt til hægri, farið yfir Hvanngil ofan gljúfra, og stefnt milli Fremra- og Efra-Háleitis. Norðan Háaleita er best að fylgja vesturbrún Þurárbrunans, sem rann um Krists burð, og þvert yfir hann (beygja við N64°00´06 / V21°16´55) þar sem hann er mjóstur, á móts við miðja Hverahlíð. Þá er stutt að Lofti, þar sem einn farvegur Hengladalsár rann undir þjóðveg 1 (við 40 km steininn).
Skógarmannavegur, Skógargata eða Suðurferðagata sameinaðist leiðinni Milli hrauns og hlíðar í Fremstadal undir Svínahlíð. Lá þaðan um Smjörþýfi að Þurá.
Úr Hjallasókn austanverðri var fjölfarin leið á Hellisheiði. Heitir hún Suðurferðagata. Hún liggur milli Háaleita, hjá Hlíðarhorni, og þaðan austur á þjóðveginn rétt fyrir vestan loftið, hjá 40-km steininum. Ennfremur lá gata inn með Hverahlíðinni að Einbúa, og frá honum norður á þjóðveginn, austan við Láguhlíð.
Leiðin var farin þar til vagnfær leið var rudd af þjóðveginum fyrir neðan Kamba út í Hjallasókn. Það mun hafa verið upp úr 1910.
Leiðin er víða sýnileg undir Hverahlíð norðan Skálafells og eins austan við fjallið. Um er að ræða u.þ.b. 30 cm rásir í grasigrónu landi. Rásirnar liggja víða nokkrar samsíða og eru sumsstaðar allt að 30 til 40 cm djúpar.
Leiðin er ágætis dæmi um veg frá síðustu öldum þar sem hún er sýnileg. Hún er ekki uppbyggð eða rudd en hefur myndast við troðning hesta og manna.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 14. nóvember 1998, bls. 72.
-Eiríkur Einarsson. Örnefnaskrá. Hellisheiði. Örnefnastofnun.
-Örnefnaskrá. Örnefnalýsing Þóroddsstaða. Örnefnastofnun.
-Hengill og umhverfi – Fornleifaskráning 2008, Kristinn Magnússon.

Hjallakirkja

Í Hjallakirkju.