FERLIR sótti heim Breiðabólstaðasel II eð Hafnarsel (Þorlákshafnarsel II) undir Krossfjöllum. Um 10 mín. gangur er að selinu frá Þrengslavegi.
Í “Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrslu I” má lesa eftirfarandi um Breiðabólstaðasel II (Hafnarsel II) undir norðanverðum Krossfjöllum:
“Ómar Smári Ármannsson fjallar um þessar minjar á heimasíðu Ferlis. Þar segir: “Þegar FERLIR var á ferð um Krossfjöll var m.a. gengið fram á áður óþekktar – og þar með óskráðar selsminjar – ofan Krossfjalla. Minjarnar eru miklar og greinilegar; sjö rými og stekkur. […].” Selið er ekki þekkt úr rituðum heimildum og er því nafnlaust. Hér er stuðist við nafngjöf Ómars Smára og selið nefnt Breiðabólsstaðarsel II. Það er 3,8 km norðvestan við bæ og 1,7 km NNA við Breiðabólsstaðarsel I. Selið er undir norðurhlífðum Krossfjalla.
Allt umhverfis selið er mosavaxið hraun. Meðfram norðurenda Krossfjalla er mjótt undirlendi og er selið þar, byggt upp við fjallshlíðarnar.
Á svæði sem er 100×40 m að stærð og snýr norður-suður eru sjö tóftir. Ástand þeirra allra er svipað, veggirnir útflattir og tóftirnar grónar. Var hverri tóft gefin bókstafur til aðgreiningar í lýsingu þessari. Tóft A er byggð norðan undir fjallshlíð Krossfjalla og er sú stærsta á svæðinu. Hún er 20×7 m að stærð, snýr austur-vestur og skiptist í fjögur hólf. Austast er hólf 1.
Það er 1,5×1 m að innanmáli og snýr norður-suður. Það er byggt upp við klett til suðurs en aðrir veggir eru hlaðnir. Þeir eru 0,3-0,4 m að hæð og má sjá tvenn umför grjóthleðslu í þeim. Op er á miðjum norðurvegg.
Hólf 2 er vestan við hólf 1. Það er 5×2 m að innanmáli og snýr norður-suður. Veggirnir eru 0,4-0,6 m á hæð og glittir í grjót hér og þar. Op er á miðjum norðurvegg. Hólf 3 er vestan við hólf 2. Það er 5×3 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Veggirnir eru algrónir og 0,6-1 m á hæð. Tóftin er betur varðveitt að sunnan en til norðurs. Op er sem fyrr á miðjum norðurvegg.
Hólf 4 er vestan við hólf 3. Það er byggt upp við hraunbrún að sunnan. Það er 3×3 m að innanmáli og op er til norðurs. Veggirnir eru 0,5 m á hæð og grónir. Það má greina 1-2 umför af grjóti í þeim. Tóft B er 2 m vestan við tóft A, fast upop við gróna hraunbrún til suðurs. Hún er 7×7 m að stærð og einföld. Veggirnir eru 0,4-0,6 m á hæð, 2-2,5 m á breidd, algrónir og reisulegri að innan en utan. Op er á miðjum norðurvegg. Tóft C er 5 m vestan við tóft B. Hún er 7×6 m að stærð, einföld og snýr norður-suður. Veggirnir eru 0,5 m á hæð og má greina 2 umför af grjóthleðslu í þeim. Þeir eru mosavaxnir og útflattir. Op er á miðjum austurvegg. Tóft D er 20 m norðan við tóft A. Hún er 6×5 m að stærð, einföld og snýr suðaustur-norðvestur. Veggirnir eru 0,3 m á hæð, útflattir og algrónir. Op er á miðjum suðurvegg.
Tóftir E og F eru uppi á mosavaxinni hraunklöpp, tæpum 50 m norðan við tóft D. Tóft E er sunnar. Hún er 3×3 m að stærð, einföld og grjóthlaðin. Veggirnir eru 0,3 m á hæð og má greina eitt umfar grjóthleðslu í þeim. Ekkert op er inn í tóftina.
Tóft F er 2 m norðaustan við tóft E. Hún er 6×5 m að stærð, einföld og grjóthlaðin. Hún snýr norður-suður og líklega er op í suðausturhorni. Veggirnir eru 0,3 m á hæð og má greina 1-2 umför af grjóti í þeim. Tóftin er lyngivaxin að innan líkt og hluti af veggjunum. Tóft G er nyrst og er tæpum 30 m norðan við tóft F. Tóftin er 8×8 m að stærð, einföld og er opin til norðvesturs. Veggirnir eru útflattir og lyngivaxnir. Tóftin er í viki inn í hraunbrúnina, suðaustan við mosavaxin hraunhól.”
Ágætt vatnsstæði er norðan við selstöðuna, en hún var þurr að þessu sinni – í lok júlímánaðar. Selstaðan er tiltölulega nýleg, en þó má sjá í henni a.m.k. tvær kynslóðir selja, þ.e. þá nýlegu og aðra mun eldri. Til að gæta allrar sanngirni rak Alda Agnes Sveinsdóttir augun á selstöðuna í seinni tíð á leið hennar norður yfir Krossfjöll frá Breiðagerðisseli I og gerði FERLIR kunnugt um dásemina.
Í Jarðabók Árna og Páls 1708 segir um Breiðabólsstað í Ölfusi: “Skipsuppsátur á jörðin í Þorlákshöfn fyrir selstöðu í heimalandi.” Í 1. bindi sögu Þorlákshafnar eftir Skúla
Helgason segir: “Frá fornu fari mun Þorlákshöfn hafa haft í seli í Breiðabólsstaðarlandi í Ölfusi… Þorlákshafnarsel stóð undir Votabergi, sem er skammt fyrir norðan þjóðveginn um Þrengslin. Þar má enn sjá tóftir selsins. Ef Hafnarselið undir Votabergi hafi verið í landi Breiðabólstaðar hefur selið norðan Krossfjalla örugglega verið í landi staðarins.
Þá sótti FERLIR heim Hraunssel í Ölfusi milli Eldborgarhrauns og Skógarhlíðar. Lagt var af stað frá bifreiðastæðinu við Raufarhólshelli í Þrengslunum og gengið austur yfir gamburmosahraunið með grónum lyngbollum í beina línu að hlíðinni þar sem styst er yfir hraunið. Gangan tók innan við 10 mínútur.
Í hraunkantinum, þegar komið er yfir, liggur selið, greinilega miðlungs gamalt. Í selinu eru fimm rými; baðstofa, búr og eldhús, auk tvískipts stekks. Á bak við tóttirnar er lítið fjárskjól í skúta. Selstígurinn liggur niður með kantinum um Skóghlíðarstíg. Ofan við selið eru grasi grónar Lönguhlíðar.
Frábært veður.
Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I, 2015.
-http://www.ferlir.is/?id=1772