Færslur

Skógarnefsgata

Þegar gengið var upp fyrir Hvassahraunssel sást hvar forn gata lá upp í hraunið, til austurs áleiðis að Skógarnefi. Götunni var fylgt eftir frá tveimur vörðum í jaðri gamla Afstapahraunsins. Nánar að gáð sást hvar eldri gata lá á milli varðanna í sömu stefnu.
SkogarnefsgataGatan, sem eftirleiðis verður nefnd Skógarnefsgata (af skiljanlegum ástæðum því hún hefur augsýnilega verið notuð til að sækja hrís og annan eldivið upp í Skógarnef alveg framundir aldamótin 1900 (og jafnvel lengur)) lá mjög greinileg í gegnum hraunið og upp í Nefið. Önnur svipuð gata liggur yfir hraunið nokkru norðar og svo virðist sem þær komi saman sem ein nálægt vörðunum fyrrnefndu.
Sambærilegar götur má sjá bæði upp úr Straumsseli og Óttarsstaðaseli og jafnvel víðar. Eftir að hafa skoðað Skógarnefið, kíkt á Skógarnefnsskúta og vatnsstæðið þar, var gatan fetuð til baka yfir gamla Afstapahraun, framhjá vörðunum og áfram til vesturs, fyrir ofan og norðan Snjódali og að Hvassahraunsseli að sunnanverðu. Á leiðinni var m.a. gengið fram á fallega hlaðið byrgi refaskyttu og tóftir smalaskála í nátthaga. Þar drupu einiber af hverri grein sem hvergi annars staðar.
Þegar Hvassahraunssel var skoðað, enn og aftur, komu í ljós tóftir á mjög gamalli selstöðu ekki allfjarri þeim, sem hvað greinilegastar eru í dag.
Loks var Hvassahraunsselsstígurinn vestari fetaður niður fyrir Virkishóla.
RefaskyttubyrgiLjóst má vera að selstígurinn hefur verið notaður sem fyrri hluti Skógarnefsgötunnar, sem liggur upp frá selinu og hefur verið allvel greiðfær. Ekki er ólíklegt að Skógarnefnsskúti hafi verið skjól fyrir fólk við hrístöku í Nefinu og það nýtt sér vatnsstæðið til viðurværis. Enn hafa ekki fundist kolagrafir á þessu svæði, en hin forna seltóft í Hvassahraunsseli gefur þó tilefni til að ætla að hún hefi verið nýtt til slíkra verka því útlit og gerð hennar svipar mjög til þeirra er sjá má við Kolgrafaholt.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Skógarnef

Skógarnefsskúti.