Jón Karlsson frá Gýgjarhólskoti skrifar um “Skógarnytjar” í Litla Bergþór árið 1999:
“Vafalaust hefur skógur verið notaður hér á landi allt frá landnámi og fram á tækniöld, þó það hlyti að dragast saman eftir því sem skógarnir gengu til þurrðar og líklegt má telja að vinnubrögð og nýting hafi yfirleitt verið með svipuðum hætti. Lítið mun vera til af heimildum um þennan þátt í atvinnusögu þjóðarinnar og ekki minjar nema axir og axarblöð og svo reipi, reiðingar og klyfberar, sem jafnframt var notað við heyskap og aðra flutninga, en miklu meira er um heimildir um þau vinnubrögð bæði í máli og myndum.
Á fjórða og fimmta áratug þessarar aldar kynntist ég nokkuð nýtingu birkiskóga eins og tíðkast hafði frá ómunatíð en var að hverfa við breytta þjóðlífshætti. Til ársins 1943 átti ég heima í Efstadal í Laugardal, einni víðlendustu skógarjörð í héraðinu og líklega þó víðar væri leitað. Þar sem við, sem munum þessa tíma, erum nú hver af öðrum ýmist að varða gamalærir eða fara í gröfina, vil ég reyna að festa á blað það sem ég man um þessi efni, bæði hvernig staðið var að verki við að afla skógarins og hvernig hann var notaður. Þá var þó hætt að fella skóginn með öxi en farið að nota skógarklippur, en allt var flutt heim á reiðingshestum. Venjulega var farið fyrst með klippurnar og skógurinn tekinn upp eða felldur eins og það var líka nefnt. Ef kostur var á að hafa með sér ungling eða liðlétting þótti gott að láta raða saman nokkrum hríslum í knippi eins og þær áttu að liggja í bagganum svo fljótlegra væri að leggja í baggann þegar bundið var.
Nauðsynlegt var að leggja rétt í baggann og áttu allir lurkar að snúa eins og ná jafnlangt fram. Þar sem nær allar birkihríslur eru bognar áttu þær allar að snúa kryppunni upp þannig að bagginn yrði bungumyndaður og átti reipissilinn að vera á bungunni á bagganum, annars rákust lurkarnir í hausinn á hestinum. Þá þurfti að gæta þess að láta reipin snúa sitt á hvað svo baggarnir ættu hvor sínu megin á hestinum. Einhvern veginn sáu menn út hvenær bagginn var orðinn hæfilega stór og var þá reipið lagt yfir hann, dregið í hagldir og hert og síðan farið með töglin út fyrir endana á bagganum sitt hvoru megin ef tveir bundu saman. Síðan var töglunum brugðið í reipið á baki baggans og hert þar í en ekki bundin saman bakreipin eins og á heysátu. Væri skógurinn hávaxinn, þannig að bagginn yrði langur og mjór, var reiptaglinu stundum brugðið utan um hann aftur nær endanum og hert þar að en ekki lagt út fyrir endann á honum. Ef einn maður batt skógarbagga þá herti hann fyrst taglið sem nær var liminu og fullgekk frá því og síðar því sem nær var lurkunum. Þegar skógarbaggar voru látnir upp á hesta voru lurkarnir látnir snúa fram og upp. Var gengið undir baggann, hann reistur upp á endann með limið niður, staðið fram með hestinum með aðra hendina á reipissilanum og honum krækt á klakkinn. Ef baggarnir voru langir dróst limið við jörð en lurkarnir stóðu upp fyrir haus á hestinum.
Fyrst var látið upp á aftasta hestinn í lestinni því hestur með böggum gat ekki gengið á milli bagganna sem búið var að færa saman tvo og tvo til að láta þá upp.
Skógurinn var að langmestu leyti notaður til eldsneytis og þótti best að nokkuð mikið væri af lurkum, limið þótti lélegt eldsneyti, þótti fuðra fljótt upp og gefa lítinn hita. Var stundum sagt að það væri eintómt helvítis brum. Því var sóst eftir að taka skóg þar sem hann var fremur stórvaxinn, en í Efstadalsskógi var lítið um mjög stórar hríslur með sverum lurkum. Skógurinn hefur kannski verið of þéttur til að hríslurnar næðu þroska og yfirleitt náðist að fella þær með skógarklippunum. Menn höfðu líka furðanlegt lag á að jaga utan úr stofninum með klippukjaftinum þar til hann náði að gapa utan um lurkinn. Stundum kom fyrir að klippuskaftið var brotið við þessi átök og var þá einhvern veginn losaður lurkur sem nota mætti í nýtt skaft, farið með hann heim ásamt brotnu klippunum og smíðað nýtt skaft. Nauðsynlegt þótti að hafa skán (sauðatað) í eldinn með birkiskóginum, en hún brann hægar og logaði lengur og var kallað eldfesta.
Skógur var notaður við að þurrka skánina og var þá sett lag af skógi á jörðina, svona meters breið röst, síðan lag af skán og svo skógur og skán á víxl þar til kominn var hæfilega hár hraukur. Efst var sett nokkuð þykkt lag af skógi og látinn mynda hrygg. Svo var þakið með torfi, eða kannski þakjárni ef það var til síðustu árin sem þetta tíðkaðist. Mór var þurrkaður með sama hætti þar sem bæði var kostur á mó og skógi. Viðurinn úr hrauknum var þurrari en annar viður, nefndur skánarviður og þótti góður til uppkveikju. Viðurinn var kurlaður niður með skógarklippunum svo hann kæmist í það eldstæði sem kynda átti. Reynt var að geyma eldivið inni eftir því sem húspláss leyfði og þurfti þá að kurla hann eitthvað niður til að nota plássið. Þá var skógur notaður undir torf á fénaðarhúsum og var þá nefndur raftur eða raftviður. Var smíðuð grind úr timbri, sperrur og langbönd, og síðan raðað á það skógi og reynt að gera þétt og slétt yfirborð eins og hægt var. Erfitt var að leggja það úr kræklóttum viði og var helst reynt að finna skóg sem hafði þrúgast niður undan snjóþyngslum svo hríslurnar lágu flatar með jörðinni. Illa munu þessi þök hafa enst því rafturinn var alltaf blautur undir torfinu og fúnaði fljótt enda var þetta að mestu niðurlagt fyrir mitt minni.
Algengt var að nota skóg sem aðhald við aðrekstra á fé og var þá böggunum raðað saman án þess að sundra þeim. Stundum voru líka gerðar fjárréttir með þessum hætti, en fé sem vant var að ganga í skógi var nokkuð áleitið að smjúga út úr þess háttar réttum. Einnig þótti sjálfsagt og nauðsynlegt að raða skógi kringum útihey, bæði til skjóls og til að verja þau fyrir skepnum. Allt var þetta síðan notað í eldinn þegar það hafði lokið þessu bráðabirgðahlutverki.
Ásmundur Þorleifsson, sem lengi bjó í Efstadal, mun hafa gert lítið eitt til kola eftir 1920. Reiddi þá skóginn heim ólurkaðan með liminu og gaf nautgripum limið, en hann var þá með smábúskap á litlum parti af jörðinni, háaldraður maður.
Lítilsháttar var smíðað úr birkilurkum, svo sem hagldir á reipi, sköft á heykróka, skammorf á torfljái, klyfberabogar, aktygjaklafar og fleira smálegt. Þá voru bundnar saman mjúkar greinar í vendi til að sópa hlöðugólf og annað því um líkt og voru þeir nefndir sóflar. Þá var og sjálfsagt að hafa hríslu í hendinni hvort sem reka þurfti skepnur eða hvetja latan reiðskjóta. Einnig var mikilvægt fyrir börn og unglinga að hafa frjálsan aðgang að þessum smíðaviði þegar annað timbur var tæplega til. Börkur af birki mun eitthvað hafa verið notaður til að lita föt og band til fatagerðar. Skógarnýra var einhvers konar æxlismyndun sem einstöku sinnum fannst á birkihríslum og var þjóðtrú að ekki yrði eldsvoði á bæ þar sem það væri geymt.
Mest var flutt heim af skógi á haustin til að hafa í eldinn yfir veturinn og minnir mig að talið væri þurfa eina 100 hestburði á hausti. Svo var alltaf tekið eitthvað á vorin líka í skánarhraukana, að fjárréttinni og til kyndingar við ullarþvott sem unninn var við læk fyrir utan tún. Heldur þótti skógarreiðslan fara illa með reipi og reiðinga. Aftur á móti var talið mjög gott að byrja að temja tryppi með því að reiða á þeim skóg, því þau sáu lítið nema aftan í næsta hest þegar búið var að láta upp á lestina.
Fróðlegt væri að vita hvað mikið var tekið upp í Efstadalsskógi ár hvert, en það verður ágiskun. Tvíbýlt var á jörðinni og ef ætla mætti að 100 hestburðir væru fluttir heim á hvorum bæ að haustinu og auk þess nokkuð á vorin gætu það verið allt að 300 hestar samtals. Þá var sóttur skógur frá öðrum bæjum, Böðmóðsstöðum nokkuð, en ekki mjög mikið því hverinn sparaði mjög eldivið þar. Einnig var sóttur skógur frá Haga og Vatnsholti í Grímsnesi og eitthvað var flutt austur í Biskupstungur. Það gætu því hafa verið teknir 300 til 400 hestburðir á ári.
Ekki held ég að þessi nýting hafi haft nein teljandi áhrif á vöxt skógarins í heild, kannski í fremur auðveldað honum að endurnýja sig. Kolagerð mun hafa lagst niður að mestu um 1870 og mun skógurinn hafa verið í stöðugum vexti síðan fram að þessum tíma, eða um 70 ára skeið. En á fimmta áratug aldarinnar gjörféllu víðáttumiklar skógarbreiður sem voru það langt frá bæ að þangað var hvorki sóttur skógur til eldiviðar né hann nýttur til vetrarbeitar. Skiptar skoðanir voru um hvað valda mundi. Sumir kenndu skógarmaðki, aðrir stórviðri. En Grímur Jónsson föðurbróðir minn, sem síðar bjó á Ketilvöllum og var manna gjörkunnugastur Efstadalsskógi, sagði mér að greina hefði mátt feigðarmerki á skóginum nokkrum árum áður en hann fór að fúna niður. Fúi hefði verið kominn í miðja lurkana, brúnleitur mergur, og áleit hann að skógurinn hefði nær allur vaxið upp samtímis eftir að kolagerð lagðist niður og því verið jafngamall og dáið úr elli.
Árið 1943 fluttist ég með foreldrum mínum og systkinum að Gýgjarhólskoti í Biskupstungum. Nokkur fyrstu árin fengum við að taka smávegis af skógi í Einholtslandi. Þar var skógur ekki víðáttumikill en mun stærri hríslur og gildari stofnar en í Efstadalsskógi. Var sagt að skógurinn hefði verið grisjaður, líklega síðan fyrir aldamót, skildar eftir fallegustu hríslurnar en tekið frá þeim til að auka þeim vaxtarrými og var mælst til að við héldum sama verklagi.
Nú eru þessir vöxtugu runnar ýmist gjörfallnir eða fúnir fauskar, en þar sem áður var smákjarr er að vaxa upp skógur. Víða eru smá birkihríslur að skjóta upp greinum sínum á skóglausum svæðum eftir að sauðfé fækkaði og vetrarbeit lagðist niður. Einnig bjóða framræstar mýrar upp á nýja möguleika og má sjá litlar birkihríslur á skurðbökkum til og frá. Virðist fræið geta borist nokkuð langar leiðir, sennilega með skafrenningi. Vafalaust tekur mjög langan tíma fyrir skóginn að klæða landið á ný og er mannsævi varla nema spölur í þeirri vegferð.
Þetta hef ég verið að skrifa upp í smáköflum veturinn 1998 til ’99, en Inga Kristjánsdóttir frá Gýgjarhóli aðstoðaði mig við að raða efninu saman og setja í tölvu. Kannski mætti enda pistilinn á stöku sem ég gerði á ári trésins:
Yndi vekur öllum hjá
iðgrænn skógur fríður.
Hríslu þarf í hendi sá
sem hesti lötum ríður.” – Jón Karlsson, Gýgjarhólskoti.
Heimild:
-Litli Bergþór – 2. tölublað (01.07.1999), Jón Karlsson frá Gýgjarhólskoti; “Skógarnytjar”, bls. 20-21.