Tag Archive for: skógur

Heiðmörk

Í Morgunblaðinu 1997 fjallar Andrés Arnalds um „Endurheimt landkosta á Reykjanesskaga„:

„Það dylst fáum sem fara um Reykjanesskaga að þar hefur mikil landhnignun átt sér stað í aldanna rás. Í stað grænna grunda og vöxtulegs birkikjarrs blasa víða við gróðurtötrar ogjafnvel auðnir, skrifar Andrés Arnalds. Afieiðingamar em víðtækar, en koma e.t.v. hvað skýrast fram í skjólleysi og auknum skafrenningi. Skaginn, sem er heimkynni mikils hluta þjóðarinnar, er ekki nærri því eins byggilegur og hann ætti að vera.

Horfnir landkostir

Andrés Arnalds

Andrés Arnalds.

Þrátt fyrir berangurslega ásýnd landsins eru raunveruleg gróðurskilyrði góð víðasthvar á Reykjanesskaga. Til forna þótti þar mikil veðursæld, samanber þá frásögn Sturlungu að á Reykjanesi hafi aldrei orðið „ófrjóvgir akrar“.
Heimildum um gróðurfar á Reykjanesskaga ber öllum saman um að nær allar þær auðnir, melar og jarðvegssár, sem svo víða blasa við, hafi fyrrum verið grónar. Ástæðurnar fyrir því hve ástand þessa landssvæðis er slæmt eru margar. Mestu munar þó um aldalanga rányrkju liðinna kynslóða, toll sem landið galt við að framfleyta þjóðinni á tímum fátæktar og vanþekkingar á takmörkunum landsins. Einnig hafa hraun lagt undir sig stór svæði á sögulegum tíma.
Lítill vafi leikur á því að meginhluti Reykjanesskagans, að undanskildum yngstu hraunum og ystu annnesjum, hefur verið vaxinn skógi fyrrum, og lengi fram eftir öldum. Það sýna annars vegar kjarrleifar þær sem enn standa eftir, en hins vegar má ráða hið sama af vitnisburðum skráðra heimilda.
Reykjanesskagi - GeitahlíðÍ Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns kemur fram að um 1700 voru enn miklir skógar á Reykjanesskaga. Þá áttu 8 jarðir úr Grindavík og 23 jarðir úr Rosmhvalaneshreppi kolagerðarskóg í Suðurnesjaalmenningum. Í Vatnsleysustrandarhreppi áttu 20 jarðir og í Álftaneshreppi 22 jarðir kolagerðarskóg í almenningum. Á sumum jörðum, t.d. Krýsuvík, var þá enn nokkurt kjarr í heimalöndum en er að eyðast. Athyglisvert er að ekki er getið um að skógur til kolagerðar í almenningum fari þverrandi. Það undirstrikar stærð þeirra á þessum tíma, því yfirleitt var reynt að gera sem minnst úr öllum hlunnindum í þessari úttekt. Lyngrif segir líka sína sögu. Það er að vísu talið til hlunninda á fjölda jarða, en er þverrandi í heimalöndum og langsótt fyrir marga.

Krýsuvík

Krýsuvík – mógrafir.

Mótekja var víða lítil á skaganum. Lyng og hrís var eftirsótt til eldiviðar og af mörgum býlum varð að gjalda hríshesta, einn eða fleiri, til Bessastaða.
Fjöruþang var helsta eldsneytið á Vatnsleysuströndinni og víðar, en „þurrabúðarhyskið“ átti lítinn eða engan rétt á þangtöku. Því urðu margir að leita í úthagann eftir eldivið. Þegar búið var að eyða birkinu, var einirinn og lyngið rifið.
Sauðfé og annar búsmali átti að sjálfsögðu sinn þátt í eyðingunni og hindraði eðlilega endurnýjun gróðursins með því að bíta nýgræðinginn jafnharðan og hann óx.
Rányrkjan hélt áfram allt fram á þessa öld. Ástand gróðurs og jarðvegs er víða slæmt, eða jafnvel mjög slæmt ef tekið er tillit til gróðurfarslegra skilyrða. Breytir þar litlu þótt ástand lands hafi nokkuð batnað á síðari árum, m.a. vegna fjárfækkunar, ef litið er á skagann í heild.

Spyrnt við fótum

Krýsuvík

Gróðureyðing á Krýsuvíkurheiði.

Nokkuð er nú umliðið síðan augu manna tóku að opnast fyrir því að nauðsynlegt væri að grípa til aðgerða til að sporna gegn frekari eyðingu.
Haustið 1952 tóku Árni G. Eylands og Sæmundur Friðriksson saman einkar fróðlega „greinargerð um athugun á að friða Reykjanesskaga ásamt Reykjavík, Hafnarfirði og nágrenni bæjanna fyrir ágangi búfjár“, en sauðfé á þessu svæði hafði verið fargað vegna mæðiveiki haustið 1951. Úr þessum áformum varð ekki að sinni, sem er önnur saga, en þar birtist m.a. úttekt á gróðri á Reykjaneskaga, sem Steindór Steindórsson samdi.
í lok úttektar sinnar víkur Steindór að endurheimt gróðurs á Reykjanesskaga: „En eru þá hraunbreiður þessar dæmdar til eilífðrar auðnar og að vera eitt ófrjósamasta og ömurlegasta svæði á öllu landinu? Naumast mun svo vera. Þau hafa einu sinni verið skógi klædd, og það geta þau aftur orðið, ef mannshöndin leggur þeim lið, og tekur nú til að græða það sem áður var eytt.“

Gömlu-Hafnir

Landgræðslugarðar við Gömlu-Hafnir.

Fyrstu landgræðsluframkvæmdir á Reykjanesskaga hófust 1938 með uppsetningu 20 km girðingar og stöðvun sandfoks vestast á skaganum. Ýmsir fleiri áfangasigrar hafa náðst í verndun landkosta á liðnum áratugum. Árin 1977-1978 var girt þvert yfir Reykjanesskagann og var þá allt land vestan Grindavíkurvegar, um 35.000 hektarar, friðað fyrir beit. Síðan hefur áburði og fræi verið dreift víða á því svæði. Ýmsar aðrar girðingar hafa verið settar upp, m.a. til að friða höfuðborgarsvæðið, og auðvelt að skoða árangur friðunar við fjölbreyttar aðstæður, bæði með og án uppgræðslu. Mikil reynsla hefur aflast sem unnt er að byggja á enn stærri áfanga í endurheimt landkosta á Reykjanesskaga.

Vatnshlíð

Vatnshlíð við Hvaleyrarvatn 1960 – hús Hákons Bjarnasonar.

Á miklum hluta skagans mun gróður taka framförum ef hann fær algjöran frið fyrir búfjárbeit um nokkurn tíma. Fé er orðið fátt og mörg sveitarfélaganna hafa nú þegar bannað lausagöngu sauðfjár, en ekki öll og því fer féð víða um. Komin er góð reynsla af beitarhólfum, þannig að auðvelt á að vera að koma til móts við þá sem vilja stunda einhvern sauðfjárbúskap þótt tekið sé með öllu fyrir lausagöngu. Slík friðun er langódýrasta og mikilvirkasta leiðin til að bæta ástand gróðurs og jarðvegs sé til lengri tíma er litið. Jafnframt væri þá unnt að fjarlæga mikið af girðingum, sem margar hveijar eru komnar til ára sinna og þurfa mikið viðhald.

Hvaleyrarvatn

Vatnshlíðin 2022.

Þar sem uppblásturinn hefur hvað harðast unnið sín spellvirki mun friðunin ein ekki duga. Nakið land grær yfirleitt hægt án aðstoðar. Fyrir því eru ýmsar ástæður, en veigamestar eru e.t.v. skortur á raka- og næringarheldni, erfiðar spírunaraðstæður og hin gífurlega holklakamyndun sem er í ógrónu landi. Uppgræðsla með grasfræi og áburði, eða öðrum aðferðum, miðar að því að koma gróðurþróun af stað eða flýta fyrir henni, um áratugi eða aldir eftir aðstæðum. Þetta á ekki hvað síst við um Miðnesheiðina, Krýsuvík og reyndar mörg önnur svæði.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn um 1960 – Skátalundur nýbbyggður. Mynd ÓKG.

Reynslan sýnir að áburður og grasfræ geta víða gert kraftaverk. Þar sem jarðveginn vantar er þó langbest að nota lífrænan áburð, s.s. hey úr görðum eða úrgangshey, hrossatað, svína- og hænsnaskít til uppgræðslunnar. Mikið fellur til af slíkum efnivið á Reykjanesskaga, en hann fer að miklu leyti til spillis, svo skiptir þúsundum tonna árlega. Þar sem birki, víðir og fleiri tegundir hafa horfið úr landinu getur verið langt í frægjafa. Þar þarf að sá eða gróðursetja.

Margar hendur vinna létt verk

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn 2020.

Áhugamannasamtök, einstaklingar og sveitarstjórnir hafa lengi unnið að landbótum á Reykjanesskaga í samvinnu við Landgræðsluna og Skógrækt ríkisins. Þetta samstarf hefur aukist mjög á síðustu árum og endurspeglar vaxandi þörf almennings fyrir gróðursælt umhverfi. Skógræktarfélögin, Lionsklúbbar og Landvernd hafa verið þar ötul, en ástæða væri til að nefna miklu fleiri, t.d. hestamannafélagið Mána í Reykjanesbæ sem hefur grætt mikið af örfoka landi til beitar. Nýlega voru stofnuð samtök, Gróður fyrir fólk, sem hafa á stefnuskrá gróðurbætur í öllu Landnámi Ingólfs. Vonandi tekst þeim að fá miklu áorkað í þessu brýna hagsmunamáli.

Guðmundarlundur

Guðmundarlundur í Gráhelluhrauni – minningarskjöldur.

Í þéttbýlinu á Reykjanesskaga býr fjöldinn allur af fólki sem beinlínis þráir að sækja sér lífsfyllingu í það að hlúa að gróðri úti í náttúrunni. Með góðu skipulagi og aðgengi að friðuðu landi geta hópar áhugamanna unnið stórvirki við uppgræðslu og notið síðan ánægjunnar af árangrinum. Gróðursælt og vistlegt umhverfi er sameiginlegt markmið okkar allra.“ – Höfundur er fagmálastjóri landgræðslu ríkisins

Heimild:
-Morgunblaðið 01.06.1997, „Endurheimt landkosta á Reykjanesskaga“, Andrés Arnalds, bls. 14-15 E.

Guðmundarlundur

Guðmundarlunur í Kópavogi.