Í dagrenningu föstudaginn 10. maí árið 1940 hélt bresk flotadeild inn á Sundin við Reykjavík. Flotadeildin samanstóð af fjórum skipum, beitiskipunum Berwick og Glasgow, og tundurspillunum Fortune og Fearless. Um borð í skipunum voru hundruð breskra hermanna, gráir fyrir járnum, tilbúnir til að hernema Ísland. Þetta átti eftir að verða einn örlagaríkasti dagur í sögu landsins.
Árið 1939 hafði brotist út stríð milli Þjóðverja annars vegar og Breta og Frakka hins vegar, þegar Þjóðverjar réðust inn í Pólland. Þann 9. apríl árið eftir réðist þýski herinn skotbyrgi-5inn í Danmörku og Noreg og náðu þar með á sitt vald öflugum kafbátastöðvum sem styttu leið kafbáta þeirra út á Atlantshaf umtalsvert. Þetta var Bretum sérstaklega óhagstætt og þeir töldu sig því þurfa að ná valdi yfir stöðvum á Atlantshafinu þar sem þeir gætu fylgst betur með kafbátaher Þjóðverja. Því fóru þeir, um svipað leyti og Þjóðverjar hernámu Danmörk og Noreg, þess á leit við Íslendinga að þeim yrði leyft að koma hér upp varnarstöðvum. Ríkisstjórn Hermanns Jónassonar sem þá var hér við völd neitaði þessu í nafni hlutleysis landsins, þrátt fyrir að þeir skildu vandræðin sem Bretar væru í.
Bretarnir í varðstöðu um holt og hæðir.
Bretar gátu ekki sætt sig við þetta enda voru Þjóðverjar nú farnir að gera þeim hverja skráveifuna á fætur annarri á höfunum með kafbátaher sínum. Því var ákveðið, í trássi við skoðanir íslensku ráðamannanna, að bresk flotadeild yrði send hingað og að landið myndi verða hernumið á eins friðsamlegan máta og kostur yrði á. Það var almennur skilningur meðal ríkisstjórnarmeðlima á Íslandi að Bretar þyrftu á varnarstöðvum gegn kafbátum á Atlantshafinu að halda þannig að allir bjuggust við því að þeir myndu hernema landið skotbyrgi-6hvað úr hverju. Þar sem það var lítið vitað um hug Þjóðverja varðandi Ísland voru þó ekki allir vissir um það þegar flotadeildin kom hingað, hvort hún væri bresk eða þýsk.
Frelsandi breskir dátar í Reykjavík.
Þegar skipin vörpuðu akkeri við Reykjavík og hermennirnir streymdu á land var fátt um manninn við bryggjuna að taka á móti þeim, en þeim fjölgaði þegar á leið. Lögreglan í Reykjavík tók sig síðan meira að segja til og hjálpaði hermönnunum að halda frá forvitnum Íslendingum sem komu til að skoða þessa óboðnu gesti. Flestir höfðu það á orði að “þeir væru fegnir að þarna væru Bretar en ekki Þjóðverjar á ferð.”
Ásfjall – stríðsminjar.
Þegar breski herinn var kominn hér á land tók hann til við að koma upp bráðabirgðastöðvum og eitt af því fyrsta sem bresku hermennirnir gerðu var að ganga úr skugga um að húsnæði Eimskipafélagsins í Pósthússtræti væri ekki íverustaður nasista, en merki félagsins, Þórshamar, höfðu þýskir nasistar tekið upp á sína skotbyrgi-7arma eins og flestir vita. Einnig sóttu þeir að Pósthúsinu, höfuðstöðvum Símans, Ríkisútvarpinu og Veðurstofunni, og allt var það gert í þeim tilgangi að ná á vald sitt fjarskiptastöðvum svo Þjóðverjar myndu ekki hafa veður af innrásinni í bráð. Síðan hreiðruðu þeir um sig á hinum ýmsu stöðum í borginni, t.d. í Öskjuhlíðinni. Auk þess gekk her á land á Akureyri, Austfjörðum og víðs vegar annars staðar um landið. Allt gekk þetta fyrir sig án þess að grípa þyrfti til vopna og var hernámið því hið friðsamlegasta.
Þjóðverjar virtust verulega ógnandi…
Klukkan 10 árdegis þennan örlagaríka dag settust ráðherrar í ríkisstjórn Íslands á fund í Stjórnarráðshúsinu til að ræða atburði næturinnar. Flestir ráðherrar voru á því að þarna hefði verið lán í óláni að Bretar hefðu hernumið Ísland en ekki Þjóðverjar. Forsætisráðherra var þó ekki skotbyrgi-9öldungis sáttur með komu hinna útlendu hernámsliða og það varð úr að ríkisstjórnin myndi mótmæla hernáminu formlega og reyna að tryggja það að ríkisstjórnin myndi ráða öllu er varðaði Ísland annað en varðaði herinn beint. Þegar þessum umræðum var lokið hélt breski sendiherrann á Íslandi, Howard Smith, á fund ríkisstjórnarinnar og tilkynnti formlega að landið hefði verið hernumið, og lýsti því yfir að sér þætti leitt að til þess hefði þurft að koma og vonaðist eftir friðsamlegri sambúð við Íslendinga. Síðan spilaði hann út sínu helsta trompi þegar hann sagði að með hernáminu hefði utanríkisverslun Íslendinga verið sett úr skorðum, en Bretar væru fúsir til að “létta undir með íslensku atvinnulífi.” Þannig myndu Íslendingar fá sitthvað að launum fyrir það að hér yrði hýstur her. Þetta varð síðan til þess að færa íslenskt atvinnulíf á nýtt stig velferðar sem ekki hafði sést hér áður.
Hernámið…
Adolf Hitler hafði, eins og margir aðrir nasistar, mikinn áhuga á Íslandi, og á apríllok árið 1940 fékk hann þá hugmynd að Þjóðverjar myndu hernema landið. Þannig vildi hann nýta sér skjótan árangur hers síns í baráttu sinni gegn Danmörku og Noregi, og nýta jafnframt skip sem skotbyrgi-10notuð höfðu verið í Noregi til innrásar í Ísland. Þetta kallaði einræðisherrann Íkarusáætlun. Þegar Hitler kynnti þessar hugmyndir sýnar herstjórnendum mætti hann mikilli andstöðu yfirmanna flotans sem töldu að hernámi Íslands fylgdu of mikil vandræði til að geta borgað sig. Það var í sjálfu sér minnsta málið að hernema landið, vandinn var að halda því. Þannig þyrfti að halda úti birgðaflutningum yfir haf sem væri krökkt af óvinaskipum, of langt var fyrir þýska flugherinn að vernda hernámsherinn og hætta var á að hernámsliðið yrði lokað af þannig að það kæmi ekki að neinum notum í stríðinu meir. Þannig tókst yfirmönnum flotans að telja Foringjann af hugmyndum sínum og hugmyndin um innrás í Ísland var ekki oftar dregin upp í herstjórnarstöðvum Þjóðverja í stríðinu.
Breskir hermenn í varnarstöðu.
Þegar Ísland var komið í hendur Breta höfðu þeir fengið stöðvar þær sem þeir þurftu á Atlantshafinu. Þó var langt í land að þeim tækist að ná yfirhöndinni á höfunum. Ísland kom þó að góðum notum sem bækistöð fyrir könnunarflugvélar og þaðan kom meðal annars flugvél sem kom auga á risaorrustuskip Þjóðverja, Bismarck, sem var sökkt í framhaldi af því árið 1941. Þá var fjölmörgum kafbátum sökkt eftir að flugvélar héðan höfðu komið auga á þá þannig að Ísland varð Bretum sannarlega betra en ekkert. Síðar leysti svo bandaríski herinn þann breska af við vörn landsins og hersetu. Þannig varð Ísland að virki í miðju Atlantshafi sem átti síðar eftir að vera þýðingarmikið þegar Kalda stríðið skall á eftir síðari heimsstyrjöld.”
Ásfjall – Dagmálavarðan – stríðsminjar.
Bretar hernámu Ísland 10. maí 1940 til þess að hindra að Þjóðverjar kæmu sér upp flug- og flotabækistöðvum í landinu sem ógnað gætu Bretlandseyjum og skipaleiðum á Norður-Atlantshafi.
Í árslok 1942 var ekki lengur talin hætta á innrás Þjóðverja. Sumarið eftir var stór hluti breska hernámsliðsins fluttur til Bretlands til þjálfunar fyrir innrásina á meginland Evrópu. Nýr og miklu fámennari liðsafli frá Ameríku kom þá til landsins, en hélt að mestu sömu leið árið 1944.
Flestir bresku og bandarísku hermennirnir sem eftir sátu í stríðslok störfuðu á Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvelli og hurfu þeir síðustu til síns heima vorið 1947.
Ásfjall – skotbyrgi.
Hafnarfjörður var í fyrstu einn af mikilvægustu varnarsvæðum breska hersins, auk Reykjavíkur, Seltjarnarness, Hvalfjarðar og Akureyrar. Fimm dögum eftir að breskir hermenn stigu á land í Reykjavík byrjuðu þeira að koma sér fyrir í Hafnarfirði og nágrenni. Um 6000 braggar voru fluttir til landsins frá Bretlandi og var þeim komið fyrir á framangreindum stöðum sem og á Sandskeiði, Kaldaðarnesi og Melgerði ofan Akureyrar.
Braggahverfi voru t.d. reist á Einarsreit, á Hvaleyri, ofan Langeyrar, á Garðaholti og úti á Álftanesi. Fyrir októberlok höfðu flestir hermannanna fengið húsaskjól í bröggunum.
Til að tryggja öryggi kampanna voru hermenn settir á vörð upp um fjöll og hæðir umhverfis, bæði til að fylgjast með umferð og til varnar ef svo ólíklega þætti að einhverjir óvinir álpuðust á land litlu eyjunni langt norður í Atlantshafi. Lítið var um skjól á þessum berangri svo varðmennirnir þurftu sjálfir að koma sér upp nauðsynlegri aðstöðu – þótt ekki væri fyrir annað en að lifa af baráttuna við ógnir veðurs og vinda.
Ásfjall – stríðsminjar.
Á Ásfjalli ofan Hafnarfjarðar eru sex hringlaga skotbyrgi til minja um aðbúnað hermannanna er gæta áttu öryggis landsins. Þau voru hrófluð voru upp af tilfallandi grjóti skömmu eftir að breskar herdeildirnar gengu hér á land. Allt umleikis eru nokkur sambærileg, s.s. tvö slík á Grísanesi og eitt á Bleiksteinshálsi, þrjú á Hvaleyri og önnur á nokkrum stöðum í og við Garðaholt. Öll endusspegla þau upphaf sögu setuliðsins á svæðinu.
Bretar virðast hafa hróflað upp grjótgörðum á og utan í hæðum ofan byggða og jafnframt til að tryggja öryggi Kampanna. Einn slíkur er á Flóðahjalla í Hádegisholti. Íslendingar höfðu vanist á að hlaða slíka garða af vandvirkni skv. gömlu handbragði forfeðranna. Vel launuð “Bretavinnan”, án kröfu til vandaðra vinnubragða, bauð hins vegar upp á að þeir brytu odd af oflæti sínui, enda virtist þar fyrst og fremst tjaldað til skamms tíma.
Ásfjall – stríðsminjar.
Minjarnar næst Dagmálavörðunni efst á Ásfjalli eru fyrst og fremst herminjar frá 1941. Þarna var varðskýli og skotgrafir út frá því. Hleðslurnar sjást að hluta til enn. Svo kalt var á fjallinu um veturinn að hermenn kól á póstinum og þurfti að setja saman lið til að sækja þá og bjarga öðrum í nálægum byrgjum niður af fjallinu. Áhugavert væri að skoða hvers vegna herforingjaráðið lagði svo mikla áherslu á hrófla upp skotbyrgjum hingað og þangað upp um holt og hæðir ofan bæjarins. Líklega hefur hugur þess fyrst og fremst einkorðast af eigin hagsmunaþröngsýni, þ.e. að verja landspilduna umhverfis þeirra umráð, fremur en að verja fólkið og bæjarsamfélag þess er engra hernaðarhagsmuna hafði að gæta.
Ásfjall – skotbyrgi.
Fróðlegt er að fylgjast með umræðu forsvarsfólks minjasamfélagsins þegar að stríðsminjum kemur. Það vísar jafnan til ákvæða Minjaverndunarlaga um aldurskilyrði fornleifa. Stríðsminjar eru yngri en svo, en samt sem áður er heimildarglufa í lögunum um að friðlýsa megi slíkar minjar “ef sérstök ástæða þykir til”. Á meðan ekkert er að hafst glatast hver væntanleg fornleifin á fætur annarri – smám saman.
Mikill fjöldi herminja er t.d. að finna á Garðaholti þar sem varnarliðið hefur haft aðstöðu. Minjar af því tagi eru ekki sjálfkrafa verndaðar af þjóðminjalögum [minjalögum] þar eð þær eru ekki orðnar hundrað ára gamlar. Í lögunum er þó heimild til þess að friðlýsa yngri minjar. Gefur engu að síður augaleið að ýmsar herminjar á Garðaholti eru þýðingarmikil heimild um hlutdeild Íslands í einhverjum mestu stríðsátökum mannkynssögunnar og kalda stríðinu sem á eftir kom. Fullyrða má að þær hafi alþjóðlegt minjagildi.
Ásfjall – skotbyrgi.
Stórar herbúðir stóðu sunnan megin á Urriðaholti og voru varðstöðvar víða í hlíðunum. Búðirnar voru um skeið aðsetur símalagningarmanna bandaríska setuliðsins og nefndust “Camp Russel“ eftir Edgari A. Russel hershöfðingja sem farið hafði fyrir fjarskiptasveitum Bandaríkjahers í Frakklandi í fyrri heimsstyrjöld. Alls er áætlað að um 80 bandarískir braggar hafi staðið í búðunum og vorið 1943 bjuggu þar alls um 500 hermenn.
Hér og þar má sjá leifar af búðunum, s.s. steinsteyptan vatnsgeymi, arinhleðslu og húsgrunna rétt norðan við Flóttamannaveginn (Setuliðsveg/Backroad). Veginn lögðu Bandaríkjamenn á stríðsárunum en Íslendingar tóku að nefna hann flóttamannaveg löngu síðar.
Ásfjall – skotbyrgi.
Minjarnar um veru breska og bandaríska hersins í Urriðaholti eru mikilsverð heimild um þátt Íslands í seinni heimsstyrjöldinni. Leifar mannvirkjanna, sem reist voru í stríðinu, eru minnisvarði um vígbúnað bandamanna gegn ógnum Þriðja ríkisins. Þær hafa jafnvel alþjóðlegt minjagildi. Ekki var saga hverrar rústar eða hver rúst skráð nákvæmlega, en herminjar eru ekki verndaðar í þjóðminjalögunum. Þó hefur sú hefð skapast á síðustu árum að slíka minjar eru skráðar en ekki mældar upp nákvæmlega eins og gert er þegar um fornleifar er að tefla. Eins og sést á kortinu er um allstórt svæði að ræða og fjöldi húsgrunna og annarra minja mikill. Það er Fornleifaverndar ríkisins að ákvarða nánar um þetta svæði, hvort þurfi að skrá minjarnar enn frekar eða friða, en auðvitað væri mjög áhugavert að skoða sögu þessara minja með því að ráðast í heimildavinnu um hvað fór fram á staðnum.
Ekki er að sjá að hermannvirkin hafi raskað minjum á svæðinu, en umsvifin hafa verið töluverð. Byggðin var austast í Urriðaholti, en holtið er gróðurlítið og grýtt á því svæði. Gefur þó augaleið að ábúendur í Urriðakoti hafi orðið hennar vör með áþreifanlegum hætti.
Grísanes – skotbyrgi.
Við lok heimsstyrjaldarinnar glötuðu hernaðarmannvirkin upphaflegu hlutverki sínu og voru nýtt til annarra þarfa eða fjarlægð og eyðilögð. Pólitískt andrúmsloft á kaldastríðsárunum olli því að víða var hart gengið fram í að eyða ummerkjum um veru hersins á Íslandi. Þeim mun athyglisverðari verða þá þær stríðssögulegu minjar, sem orðið hafa eftir, og hefur áhugi almennings og ferðamanna vissulega aukist á þeim. Stofnað hefur verið stríðsminjasafn á Austfjörðum sem verður án efa öðrum hvatning til varðveislu heimilda um þetta tímabil í Íslandssögunni.
Herminjar eru margar enn greinilegar í Urriðaholti, fæstar heillegar, en allt um það áþreifanlegur vottur um hlutdeild Íslands í orrustunni um Atlantshaf. Ber mest á steinsteyptri stjórnstöðinni, nokkrum steyptum grunnum, litlum turni og hliði inn á svæðið.
Flóðahjalli – stríðsminjar.
Flóðahjalli er grágrýtisrani, sem liggur í um það bil norðvestur í framhaldi af Setbergshlíð. Hjallinn er allnokkuð gróinn og kjarrivaxinn að sunnanverðu, en er nú, því miður umlukinn þéttri lúpínubreiðu á sumrum.
Tóft er á og umhverfis klöpp eða klapparfláka nokkurn spöl vestan við hæsta hluta Flóðahjalla. Hún er óreglulega hringlaga, hlaðin úr grágrýti og hafa steinarnir án efa verið fengnir uppi á hrygg hjallans. Grjótveggirnir hafa að mestu verið hlaðnir á melnum utan við klöppina. Þar, sem veggirnir hafa staðist best, má ætla, að þeir hafi verið nokkuð á 2. m að hæð. Öll er tóftin er nærri 800 m².
Norðanvert í tóftinni eru innri hleðslur. Á klöppinni syðst á Flóðahjalla eru nokkrar stafristur. Þar er höggvið ártalið 1940, fangamarkið D.S. og væntanlega mannsnafnið J.E.Bolan. Auk þess má greina fangamörkin J.A. og G.H. með annarri og yngri (?) stafagerð svo og ártalið 1977 (?). Bolan er þekkt mannsnafn í Englandi. Það og ártalið 1940 bendir því eindregið til þess að hér hafi Bretar verið að verki hernámsárið 1940. Tóftin („the stone defence work mentioned“) mun hafa verið reist af mönnum úr 1/7 herfylki Wellingtons, sem var hluti af herdeild Camp Russel í Urriðaholti.
Hvaleyri – skotbyrgi.
Sumarið 1940, í beinu framhaldi af hertöku landsins, hóf breski herinn varnarviðbúnað með ströndinni frá Kjalarnesi og suður á Hvaleyri í Hafnarfirði og einnig á helstu hæðum á höfuðborgarsvæðinu og austan þess. Fótgöngulið sem gætti strandlengjunnar á Álftanesi, kom sér fyrir á austanverðu Garðaholti og stórskotaflokkur setti þar upp tvær stórar loftvarnarbyssur.
Herflokkarnir bresku reistu tvennar herbúðir “Camp Gardar“ og “Camp Tilloi“ á Garðaholti. Að jafnaði höfðu 300 til 340 hermenn aðsetur í báðum búðunum. Bandarískt herfylki leysti breska herflokkinn af hólmi í búðunum á meðan á stríðinu stóð og gættu loftvarnarvirkisins í Tilloi fram til ársins 1944 þegar þeir fluttu til Keflavíkur.
Garðaholt – skotgrafir.
Á Garðaholti og í Garðahverfi eru ýmsar minjar frá stríðsárunum enda var aðalloftvarnarbyrgi Breta staðsett efst á holtinu. Sjálft byrgið er horfið og núna stendur hús á staðnum en ýmis önnur merki eru á svæðinu sem má tengja umsvifum Bretanna. Á Garðaholti eru til dæmis varðveitt tvö steinsteypt skotbyrgi með útsýni yfir Álftanes. Grjóthleðsla sem hlykkjast á milli þeirra hefur ef til vill verið höfð fyrir skotgröf en mögulega er hleðslan þó upprunalega frá gömlum stekki. Bretarnir endurnýttu það sem fyrir var í landslaginu. Þannig stóð líka upphaflega torfvarða með lukt á háholtinu þar sem Garðaviti var síðar byggður sem ljósgjafi fyrir fiskibáta (1868-1912) en á stríðsárunum höfðu Bretarnir vitann fyrir virki. Svolítil tvíhólfa tóft sem þarna hefur varðveist (rétt við veginn) gæti hugsanlega tengst vitastæðinu.
Samskiptin við Bretana voru yfirleitt friðsamleg og þegar þeir yfirgáfu svæðið var haldið stórt uppboð á Garðaholti. Að sögn var hluti vitabyggingarinnar seldur bænum Hlíð í Garðahverfi og endaði þar sem kamar. Annars konar muni sem keyptir voru á uppboðinu má hins vegar sjá í Króki, litla bárujárnsklædda burstabænum í hverfinu sem Garðabær varðveitir sem safn. Þannig eignaðist fjölskyldan í Króki til dæmis skápinn þar sem fína bollastellið er geymt. Efnahagur Garðhverfinga tók um þessar mundir örlítið að glæðast og var „blessuðu stríðinu“ meðal annars þakkað það. Þegar Vilmundur Gíslason bóndi í Króki varð 50 ára var því skotið saman í stofuskáp með glerhurðum sem geymdur er í fínni stofunni.
Safnið í Króki er opið alla sunnudaga á sumrin kl. 13-17 og fæst þar leiðsögn hjá safnverði sem einnig veitir upplýsingar um minjar og skoðunarverða staði í nágrenninu.
Ásfjall – skotbyrgi.
Félagsleg samskipti ólíkra menningarheima, samskipti erlendra hermanna og íslensks kvenfólks sem meðal annars leiddi af sér „ástandið” og „ástandsbörnin”, örnefni eftir staðsetningu herliðs, „stríðsgróðinn” sem varð til vegna mikilla verðhækkana á fiskafurðum okkar, „Bretavinnan” sem útvegaði landsmönnum atvinnu hjá setuliðinu við framkvæmdir og svo framvegis. Þessar „óáþreifanlegu” minjar eru því allsstaðar umhverfis okkur í samfélaginu.
„Áþreifanlegu” minjarnar, svo sem leifar mannvirkja og búnaðs er hins vegar hægt að staðsetja. Bretar hernámu landið 10. maí árið 1940 og sendu hingað fjölmennt setulið síðsumars 1941, eða um 28.000 manns. Bandaríkjamenn hófu að leysa þá af hólmi í júlí 1941 og var hér tæplega 40.000 manna varnarlið frá þeim þegar mest lét. Þar að auki voru liðsmenn bandaríska og breska flotans og flughersins, alls nærri 50.000 sumarið 1943. Til samanburðar má nefna að við manntal árið 1940 voru íbúar Reykjavíkur einungis um 38.000. Þó svo að Bandaríkjaher leysti þann breska af hólmi árið 1941 voru hér breskir hermenn út allt stríðið og allt til ársins 1947.
Patterson flugvöllur.
Herinn kom fljótlega upp varnarstöðvum víða um land. Bretar töldu Reykjavík vera langmikilvægasta staðinn sökum góðrar hafnar- og flugvallarskilyrða og því var fjölmennt lið ávallt þar. Þegar Bandaríkjamenn leystu Breta af hólmi þá fylgdu þeim breyttar áherslur við varnarviðbúnað. Stafaði það meðal annars af aukinni baráttu gagnvart kafbátaógn Þjóðverja auk þess sem hættan á innrás þeirra var talin hverfandi. Bandaríkjamenn lögðu enn meiri áherslu á varnir Reykjavíkursvæðisins en Bretar og höfðu allt að 80% liðsaflans á suðvestur horninu. Uppbygging flugvallarins í Keflavík hafði þó eitthvað þar að segja. Í heild námu hernumin svæði hérlendis ríflega 19.000 hekturum og þar af voru byggingar hersins á nærri 5.000 hekturum. Allur aðbúnaður hersveita Bandaríkjamanna var þó allt annar og betri en Breta auk þess sem þeir fluttu hingað með sér mikið magn stórvirkra vinnuvéla. Báðir reistu umfangsmiklar herbúðir víða um land. Alls risu um 6000 breskir braggar, hundruð annarra bygginga eins og eldhús og baðhús. Síðar bættust við um 1500 bandarískir braggar. Bretar byggðu aðallega svokallaða Nissen-bragga en Bandaríkjamenn Quonset-bragga. Má segja að megin munur þessara tegunda hafi verið vandaðri smíð þeirra síðarnefndu.
Braggahverfi á Skólavörðuholti.
Við árslok 1944 bjuggu rúmlega 900 manns í bröggum í Reykjavík. Búsetan náði hámarki á sjötta áratugnum en þá bjuggu 2300 manns í nærri 550 íbúðum. Á 7. áratugnum var skálunum hins vegar að mestu útrýmt. Á landsbyggðinni voru flestir braggarnir rifnir og seldir bændum og risu þeir víða sem geymslur og fjárhús sem má ennþá sjá í fullri notkun.
Greiðslur Sölunefndarinnar voru meðal annars ætlaðar til að gera landeigendum kleift að útmá ummerki um veru herliðsins. En mörgum landeigendanna, sem þágu skaðbætur fyrir landspjöll, láðist að hreinsa til eftir veru setuliðsins. því má segja að viðkomandi aðilar hafi með þessu bjargað mörgum ómetanlegum menningarverðmætum frá glötun og vonandi að þau verði varðveitt sem flest um ókomin ár.
Af einstökum byggingum hérlendis er flugturninn við Reykjavíkurflugvöll sennilega merkust en því miður stendur til að rífa hann. Af stærri svæðum eru helst Öskjuhlíðin og Brautarholt á Kjalarnesi sem gefa heillega mynd af varnarviðbúnaði bandamanna hérlendis. Hvalfjörður, Reykjavíkurflugvöllur og Pattersonflugvöllur á svæði varnarliðsins við Keflavík hafa sömuleiðis að geyma mjög merkar minjar um síðari heimsstyrjöldina.
Öskjuhlíð – skotbyrgi.
Í höfuðborgarlandinu hefur mest verið látið með stríðsminjar í Öskjuhlíð og á Reykjavíkurflugvelli sem nær yfir Vatns- og Seljamýri. Af varnarviðbúnaðinum á Öskjuhlíðinni eru meðal annars steypt skotbyrgi, stjórnbyrgi, víggrafir úr torfi og grjóti, loftvarnarbyrgi, varnarveggir fyrir eldsneytistanka, neðanjarðarvatnstankar, bryggjustubbur, veganet, fjöldi gólfa og grunna undan bröggum og öðrum byggingum og akstursbrautir fyrir flugvélar. Nokkrir braggar eru við rætur Öskuhlíðar. Hluti gistibúða farþega og flugáhafna breska flughersins (e. Transit Camp) má enn sjá í Nauthólsvík. Öll stóru flugskýlin fjögur á Reykjavíkurflugvelli eru frá stríðsárunum og sömuleiðis gamli flugturninn. Allar meginbrautir flugvallarins voru lagðar á stríðsárunum en hafa verið lengdar og endurbættar eftir stríð. Nær allt lauslegt frá stríðsárunum hefur verið fjarlægt eða ryðgað og fúnað. Þar á meðal gaddavírsgirðingar og sandpokavígi.
Camp Vail á Þorbjarnarfelli.
Af öðrum stríðsminjum má nefna að minjar um ratsjárstöðvar og kampa eru meðal annars uppi á Þorbjarnarfelli (Camp Vail) við Grindavík og leifar skotbyrgja og skotstöðva má einnig sjá við Vífilsstaði, Hraunsholt, á Garðaholti, Nónhæð og á Seltjarnarnesi. Hlaðin byrgi og skotgrafir má auk þess sjá, sem að framan greinir, á Ásfjalli, Urriðaholti, Rjúpnahæð og víðar. Miklar framkvæmdir kölluðu á töluverða malartöku til uppfyllingar og vegagerðar. Við Reykjavík var helst sótt í námur úr Rauðhólunum og Öskjuhlíð. Af einstökum verkefnum vó uppfyllingin undir Reykjavíkurflugvöll þar þyngst. Segja má að Rauðhólarnir hafi ekki borið sitt barr síðan. Fjölmargar minjar birgðarstöðvar hersins í Rauhólum má berja þar augum enn í dag.
Brak á slysstað ofan Breiðagerðisslakka.
Af ummerkjum beinna hernaðarátaka má nefna þegar þýska vélin JU-88 var skotin niður 24. apríl 1943 á Strandarheiði. Bandamenn misstu þó mun fleiri vélar sjálfir vegna tíðra slysa af náttúrulegum ástæðum eða vegna mannlegra mistaka. Til dæmis fórust að minnsta kosti 43 hervélar auk 11 sjóvéla á Reykjavíkursvæðinu á styrjaldarárunum.
Allar flugvélaleifar í nágrenni Reykjavíkur voru fjarlægðar jafnóðum. Málmurinn var notaður í brotajárn og sérstaklega var sóst eftir álinu. Til dæmis keyptu Stálhúsgögn hf. 32 Thunderbolt P-47 orrustuvélar 33. flugsveitarinnar fyrir 10.000 krónur við stríðslok og bræddu þær niður í stóla og borð. Flugvélaflök er nú helst að finna í Fagradalsfjalli og við Grindavík. Töluvert er líka um flugvélaflök í sjónum. Flugvélar stríðsaðila sem fóru í sjóinn hafa sumar hverjar verið að koma upp með botnvörpum togaranna. Þær eru flestar á óaðgengilegum stöðum og koma upp í bútum.
Sprengjur eru enn að koma upp úr jörðu á skotæfingasvæðum vegna frostlyftingar og hafa valdið mannskæðum slysum. Stórskotæfingasvæði voru meðal annars við Kleifarvatn og við Snorrastaðatjarnir.
Öskjuhlíð – stríðsminjar.
„Öskjuhlíðin var mikilvægur staður þegar kom að því að verja borgina fyrir Þjóðverjum. Þaðan var hægt að beina fallbyssum til dæmis að höfninni, enda var líklegast að óvinaher færi þangað inn ef til innrásar kæmi,“ segir Friðþór Eydal. Hann er höfundur texta á upplýsingaskiltum sem á dögunum voru sett upp á sjö stöðum á Öskjuhlíðarsvæðinu, en við hvert þeirra eru stríðsminjar sem vert er að skoða og halda til haga sögunni um. Uppsetning skiltanna var samstarfsverkefni Isavia og Reykjavíkurborgar.
Á tveimur stöðum í Öskjuhlíð eru sérstaklega eftirtektarverðar stríðsminjar. Skammt fyrir neðan Perluna er stór steinsteypt virkisborg, að mestu niðurgrafin. Byrgi þetta er átta metrar á hvern kant og inn í það er gengt um yfirbyggðar tröppur sem eru hvorar á sínum gafli. Þarna ætlaði herlið að hafast við ef kæmi til árásar á borgina og flugvöllinn, en Bretar hófust handa um gerð hans snemma eftir að þeir hernámu Ísland 10. maí 1940. Meðal Bretanna var raunar jafnan talað um Öskjuhlíð sem Howitzer Hill, sem í beinni þýðingu er Fallbyssuhæð.
Stærsta mannvirkið frá stríðstímum sem enn stendur í Öskjuhlíðinni er nokkurra tuga metra langur veggur, tveir til þrír metrar á hæð, úr hlöðnu grjóti og steypt er milli steina. Veggur þessi var reistur til þess að koma í veg fyrir flóð brennandi eldsneytis niður hlíðina ef loftárás yrði gerð á eldsneytistanka sem þar stóðu. Bæði við varnarstjórnstöðina gömlu og varnarvegginn, svo og í Nauthólsvík, eru skilti með upplýsingum og texta frá Friðþóri, sem þekkir sögu Íslands í seinni heimsstyrjöldinni flestum betur.
Camp Russel – arinn…
„Úr þessum byrgjum átti að verja Hafnarfjarðarveginn, sem herfræðilega var mikilvæg leið, til dæmis ef gerð yrði innrás um Hafnarfjörð. Einnig var komið upp byssuhreiðrum til dæmis í Grafarholti, Breiðholti, Vatnsendahæð, Hvaleyrarholti í Hafnarfirði og Álftanesi, þar sem var heilmikil varðstöð með fallbyssum sem áttu að verja sjóleiðina inn til Reykjavíkur. Standa mannvirki á síðastnefnda staðnum að nokkru enn þá. Einnig eru minjar á Valhúsahæð og í Engey en í flestum tilvikum hafa þessar minjar og mannvirki verið fjarlægð eða eru hulin gróðri,“ nefnir Friðþór, sem telur þarft að halda sögu stríðsminja til haga. Þær sé víða að finna og sumt megi auðveldlega varðveita fyrir komandi kynslóðir. Mikilvægt sé sömuleiðis að setja fram réttar upplýsingar fremur en það sem betur kunni að hljóma”.
Minjar stríðs geta verið margs konar. Þær geta verið leifar bygginga, tækja og búnaðar sem tengjast herliði en þær geta líka verið leifar áhrifa hersetuliða á tungumál. Félagsleg samskipti ólíkra menningarheima, samskipti erlendra hermanna og íslensks kvenfólks sem meðal annars leiddi af sér „ástandið” og „ástandsbörnin”, örnefni eftir staðsetningu herliðs, „stríðsgróðinn” sem varð til vegna mikilla verðhækkana á fiskafurðum okkar, „Bretavinnan” sem útvegaði landsmönnum atvinnu hjá setuliðinu við framkvæmdir og svo framvegis. Þessar „óáþreifanlegu” minjar eru því alls staðar umhverfis okkur í samfélaginu.
„Áþreifanlegu” minjarnar, svo sem leifar mannvirkja og búnaðar er hins vegar hægt að staðsetja. Hérlendis er Stríðsárasafnið við Reyðarfjörð eina safnið sem sérhæfir sig í að sýna og varðveita sögu þessa tímabils. Þar má meðal annars finna bragga og fjögur loftvarnarbyrgi. Í þessari grein verður hins vegar reynt að gefa vísbendingu um hvar helstu leifar mannvirkja og hertóla úr síðari heimsstyrjöldinni er að finna. Ummerki varnarliðs Bandaríkjahers frá kalda stríðinu bíða betri tíma.
Winston Churchill Reykjavík.
Winston Churhill, sem verið hafði flotamálaráðherra en varð síðar forsætisráðherra Bretands, gerði að sínum hin fleygu orð að sá sem réði yfir Íslandi beindi byssu að Englandi, Ameríku og Kanada. Til að koma í veg fyrir innrás Þjóðverja í Ísland ákvað hann að verða fyrri til og tryggja með því siglingaleiðir um Norður-Atlantshaf. Hafa ber í huga að Churhill reyndist ekki alltaf allsgáður er hann opinberaði yfirlýsingar sínar um mikilvægi hins og þessa.
Í stuttri heimsókn Churchills til Íslands árið 1941 sagði hann Hermanni Jónassyni forsætisráðherra að Bretar hefðu neyðst til að hertaka Íslands og hefðu gert það jafnvel þótt Þjóðverjar hefðu orðið á undan þeim.
Herverndarsamningur var undirritaður í júlí árið 1941 milli Bandarríkjanna, Bretlands og Íslands og fól í sér að bandarískar hersveitir myndu aðstoða og síðar leysa breska hernámsliðið að hólmi.
Tveir “campar” voru í Garðaholti á stríðsárunum, báðir í sunnanverðu holtinu, austan núverandi samkomuhúss (Garðaholts).
Camp Gardar voru sunnan móta Garðavegar og Garðholtsvegar á austanverðu Garðaholti. Búðirnar voru reistar sumarið 1940 fyrir undirfylki (Company) úr 1/7 Duke of Wellington Regiment. Í marsmánuði árið eftir tóku liðsmenn 11 Durham Light Infantry Regiment við og því næst 1 Tyneside Scottish Regiment í október sama ár. Í desember 1941 tók undirfylki C og flokkur úr 10th Infantry Regiment Bandaríkjahers við búðunum og dvaldi þar fram í júlí 1943 er hersveitin hélt af landi brott. Að jafnaði höfðu um 170 Bandarískir hermenn aðsetur í búðunum.
Camp Tilloiu á Garðaholti.
Camp Tilloi var við Garðaholtsveg á austanverðu Garðaholti á móts við Grænagarð. Loftvarnabyssuvígi á Garðaholti þar sem húsið Grænigarður stendur í skógræktarlundi. Búðirnar voru reistar sumarið 1940 fyrir stórskotaliðsflokk (Section) úr 4 Heavy Anti Aircraft Battery sem hafði tvær 3,7 þumlunga loftvarnabyssur á Garðaholti ofan við veginn og þar sem nú stendur húsið Grænigarður í skógræktarlundi á holtinu. Herflokkurinn fluttist í nýtt loftvarnabyssuvígi á Laugarnesholti í Reykjavík í júlí 1941. Þá tók við samskonar flokkur á Garðaholti úr 203 Heavy Anti Aircraft Battery en sú liðsveit hafði einnig byssuvígi við Breiðabólsstað á Álftanesi og á Kópavogshálsi. Bandaríska stórskotaliðssveitin 494 Coast Artillery Battalion (AA) tók við í ágúst 1942 til október 1943 en þá tók Battery D, 748th Anti Aircraft Gun Battalion (áður 25th (Separate) Coast Artillery Battalion) við. Starfrækslu loftvarnarbyssanna í Camp Brighton við Breiðabólsstað var þá hætt en sveitin starfrækti loftvarnabyssuvígið á Garðaholti þar til í febrúar 1944 þegar sveitin flutti til Keflavíkurflugvallar. Um 140 – 170 bandarískir hermenn höfðu jafnan aðsetur í Camp Tilloi.
Camp Gardar Tilloi…
Samtals voru í Gardar og Tilloi-búðunum 36 braggar og 9 hús af öðrum gerðum þegar báðar höfðu verið yfirgefnar.
Ótal stríðsminjar má enn finna hér á landi, hvort sem um er að ræða skotgrafir, skotbyrgi, flugvelli, braggaleifar eða flugvélaflök. Allt framangreint, einkum leifar flugvélalíkanna, virðast vera að fara forgörðum vegna áhugaleysis hlutaðeigandi opinberra aðila er ber að gæta þess að sagan kunni að verða komandi kynslóðum jafn ljós og þeim er upplifðu hana á sínum tíma…
Heimildir:
-Herbúðir bandamanna í Hafnarfirði og nágrenni í síðari heimsstyrjöld. Samantekt eftir Friðþór Eydal, 1. ágúst 2011
-Skjöl bandaríska og breska hersins og Sölunefndar setuliðseigna í þjóðskjalasöfnum Bretlands, Bandríkjanna og Íslands.
-https://www.frettabladid.is/frettir/satt-og-logid-um-hernamid-og-hersetuna/
-https://www.hafnarfjordur.is/stjornsysla/frettir/arid-er-1949-afmaelisveisla-fyrir-sjotuga-hafnfirdinga
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=4609
-http://www.visindavefur.hi.is
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/06/25/frodleikur_a_fallbyssuhaed/
Ásfjall – Dagmálavarðan.