Færslur

Þingvellir

Eftirfarandi saga um Skötutjörn á Þingvöllum birtist í Unga Ísland árið 1938:
“Við hittum umsjónarmanninn í Þingvallabænum — bærinn var byggður fyrir Alþingishátíðina 1930 — og fáum hjá honum leyfi til að tjalda. Líklega vísar hann okkur á tjaldstað austur í hrauninu. Við ætlum nefnilega að búa í tjaldi og vera sjálfum okkur nógir. Það er frjálsara, skotutjorn-991skemmtilegra og ódýrara.
Á leiðinni austur túnið göngum við fram hjá dálítilli tjörn. Hún er nærri kringlótt, bratt niður að henni og vatnið hyldjúpt, blágrænt og tært eins og í öllum gjám hérna. Þetta er Skötutjörn. Um nafnið er þessi þjóðsaga: Einu sinni fyrir löngu var gjá, er lá undir búrgólfið á prestssetrinu. Ef rennt var færi í gjána veiddist silungur, en álög voru það, að ekki mátti veiða meira í senn en sem svaraði nógu í eina máltíð handa öllu heimilisfólkinu. Var þess og vandlega gætt. Nú kom þar að, að prestaskipti urðu og var nýi presturinn ákaflega ágjarn. Dregur hann nú upp silung úr gjánni í búrgólfinu og er hann hefir veitt nóg í máltíð, rennir hann enn. Kemur þá á öngulinn skata – og var hún með níu hölum. Verður klerki allfelmt við; þrífur skötuna, hleypur sem fætur toga austur túnið og kastar henni í tjörnina.

Seinna átti skatan að hafa veiðst suður á Reykjanesi. En eftir þetta tók fyrir alla veiði í búrgjánni og hefndist presti þannig fyrir ágirnd sína.”
thingvellir - skotutjorn-995Þjóðsagan útskýrir nafnið svona: “Einu sinni náði Skötugjá alveg undir eldhúsið á Þingvallabæ. Hlemmur var á eldhúsgólfinu yfir gjánni. Hægt var að opna hlemminn og veiða silung upp úr gjánni. Veiðin var óþrjótandi, alltaf veiddist silungur þegar færi var dýft í gjána úr eldhúsinu. Hins vegar var sú kvöð á að aldrei mátti veiða meira en það sem þurfti í næstu máltíð. Svo kom nýr ábúandi að Þingvöllum. Sagt var að hann væri bæði illur og ágjarn. Hann vildi græða á veiðinni í gjánni. Hann opnaði því hlemminn í eldhúsgólfinu og settist við að veiða. Hann veiddi og veiddi, dag og nótt. Margir reyndu að vara hann við og segja honum að þetta mætti hann ekki en hann lét sig það engu skipta og veiddi hvern silunginn á fætur öðrum. Svo gerðist það loks að bitið var óvenju fast í færið. Maðurinn togaði af miklum krafti og dró loks upp úr gjánni stóra og ljóta skötu með sjö eða jafnvel níu hala. Búandinn varð dauðhræddur og þess fullviss að þarna væri kölski sjálfur kominn í skötulíki. Hann kastaði því færinu með öllu saman í tjörnina sem síðan er kölluð Skötutjörn. Eftir þetta hefur engin veiði verið í Skötutjörn eða -gjá.”

Heimild:
-Unga Ísland, 33. árg. 1938, 8. tbl., bls. 109-110.

Þingvellir

Þingvellir – Skötutjörn.