Færslur

Stefánshöfði

Þann 2. nóvember 1984 birtist æsifengin frétt í DV er bar yfirskriftina “Skrímsli í Kleifarvatni.” Þetta var í októberlok. Fréttin segir frá tveimur mönnum á rjúpnaveiðum er sáu ókennilegar skepnur í og við vatnið. Þeir sögðu að dýrin, sem voru tvö, hefðu verið dökkleit og hundsleg en bara mikið stærri. Förin eftir þau líktust hesthófum en voru talsvert stærri. Dýrin hurfu sjónum þeirra skömmu síðar.

Kleifarvatn

Stefán Stefánsson, hinn kunni leiðsögumaður, sagði í skrifum sínum fyrrum að “svo sem mörgum er kunnugt liggur Kleifarvatn í klauf þeirri, sem verður millum Sveifluháls og Vatnshlíðarinnar, og þegar komið er sunnan við vatnið, virðist sem fjöll þessi nái saman við norðurenda vatnsins. Hyggja því sumir, að vatnið dragi nafn sitt af klofa þessum. Í landamerkjalýsingu er m.a. talað um Kleifina norðan við vatnið og virðist átt við kleif þá er gengur upp á Vatnshlíðarhornið, sbr. Kleifarhorn. Um háttsemi þessa stóra stöðuvatns og misvöxt þess hafa ýmsir mætir menn skrifað margt og mikið nú á síðari árum, og skal því ekki farið út í þá sálma hér.”
Vatnsskarð er nefnd geil í Undirhlíðar er skilur þær frá Sveifluhálsi. Fyrrum var það nefnt Markraki, en Vatnsskarð þar sem Kleifarvatn birtist mönnum á ferð úr Kaldárseli um Dalaleiðina, neðan Vatnshlíðahorns.
KleifarvatnKleifarvatn er stöðuvatn á miðjum Reykjanesskaga milli Sveifluháls og Vatnshlíðar. Vatnið er þriðja stærsta stöðuvatn á Suðurlandi, um 10 km2 og eitt af dýpstu vötnum landsins, eða um 97 m þar sem það er dýpst. Það hefur lítilsháttar aðrennsli þar sem er Seltúnslækur og Sellækur í Litla-Nýjabæjarhvammi, en ekkert frárennsli nema gljúpan jarðveg. Töluverður jarðhiti er syðst í vatninu og einnig út af Innri stapa vestan við það.
Fyrir einhverjum árum síðan voru silungsseiði látin í vatnið og dafnar fiskurinn sæmilega, einkum á hraunslóðum að austanverðu þar sem Hvammahraun (Hvannahraun) rann út í vatnið.
Munnmæli herma að skrímsli hafi haldið sig við Kleifarvatn og sjáist þar endrum og eins, sbr. framangreint. Á þetta að hafa verið ormskrímsli, svart að lit og á við meðal stórhveli að stærð. Eldri sagnir eru og til um skrímsli þetta.
Grænavatn skammt frá Krýsuvík er ekki einvörðungu merkilegt fyrir sinn græna lit sem líklega orsakast af dýpt þess heldur einnig af því að margar sögur gengu af undarlegum skepnum sem komu stundum upp úr því. Einn maður fullyrti að hann hefði séð eina slíka skepnu, þó eigi mjög stóra, líkasta marsvíni. Hún hvarf fljótt.
Þá segir og enn af skrímsli í Kleifarvatni. Árið 1755 sást undarleg skepna, líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um, að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni.
Fimm árum fyrr, eða árið 1750, þorði fólk eigi að veiða í Kleifarvatni þótt það væri fullt af fiski í uppivöðum vegna orms eða slöngu sem væri svört að lit og kæmi iðulega upp og léki sér í vatninu. Hún var að stærð við meðalhval, 30-40 metra löng.
KleifarvatnMaður nokkur kvaðst oft, bæði einn og með öðrum, hafa séð hana og aðgætt vel því hún hefði oft verið uppi í tvær mínútur. Hann bætti því líka við að menn og konur sem voru að vinnu við vatnið í stilltu veðri og sólbjörtu 1749 í ágústmánuði hefði allt séð þennan orm miklu betur en nokkrir aðrir áður þegar hann skaut sér upp úr vatninu og skreið upp á mjóan tanga eða nes og lá þar hér um bil tvo tíma uns hann fór aftur í vatnið. Fólkið þorði eigi að honum en flýði eigi heldur af því hann lá kyrr. Þó gat það eigi lýst hversu hann hreyfði sig frá og í vatnið, dróst saman og rétti úr sér á mis.
Það er því ekki að furða þótt fólk furði sig einstaka sinnum á furðufyrirbærum þeim er það telur sig verða vart við nálægt Kleifarvatni, líkum þeim er að framan greinir – og eiga eflaust eftir að birtast á ný. Fáir hafa þó trúað slíkum sögnum – jafnvel þótt sannar séu.
Sjá skrímslasögu HÉR.

Heimildir m.a.:
-http://bokasafn.reykjanesbaer.is/default.asp?cat_id=261
-http://www.reykjanes.is/Um_Reykjanes/Ahugaverdir_stadir
-Þorvaldur Thoroddsen – Ferðabók.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Kleifarvatn

Grænavatn skammt frá Krýsuvík er ekki einvörðungu merkilegt fyrir sinn græna lit sem líklega orsakast af dýpt þess heldur einnig af því að margar sögur gengu af undarlegum skepnum sem komu stundum upp úr því. Einn maður fullyrti að hann hefði séð eina slíka skepnu, þó eigi mjög stóra, líkasta marsvíni. Hún hvarf fljótt.

Reykjanesskagi

Kleifarvatn.

Kleifarvatn gengu þó enn þá fleiri sögur um. 1755 sást undarleg skepna líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni.
1750 þorði fólk eigi að veiða í Kleifarvatni þótt það væri fullt af fiski í uppivöðum vegna orms eða slöngu sem væri svört að lit og kæmi iðulega upp og léki sér í vatninu. Hún var að stærð við meðalhval, 30-40 metra löng.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – landhelgun á Litlu-Grindavík, lítilli eyju í vatninu.

Maður nokkur kvaðst oft, bæði einn og með öðrum, hafa séð hana og aðgætt vel því hún hefði oft verið uppi tvær mínútur. Hann bætti því líka við að menn og konur sem voru að vinnu við vatnið í stilltu veðri og sólbjörtu 1749 í ágústmánuði hefði allt séð þennan orm miklu betur en nokkrir aðrir áður þegar hann skaut sér upp úr vatninu og skreið upp á mjóan tanga eða nes og lá þar hér um bil tvo tíma uns hann fór aftur í vatnið. Fólkið þorði eigi að honum en flýði eigi heldur af því hann lá kyrr. Þó gat það eigi lýst hversu hann hreyfði sig frá og í vatnið, dróst saman og rétti úr sér á mis.

-Dulheimar 97.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Reykjanesskagi

Í Morgunblaðinu 1984 er viðtal við Einar Sigurðsson í Ertu um  “Skrímsli í Kleifarvatni“:

Einar Sigurðsson

Einar Sigurðsson í Ertu.

„Ég sé enga ástæðu til þess að Kleifarvatnsskrímslinu sé minni sómi sýndur en Lagarfljótsorminum og tel að hér í Hafnarfirði þurfi að gera átak í þessum skrímslamálum hið fyrsta. Hvers vegna skyldi Kleifarvatnsskrímslið sætta sig við að það sé látið liggja milli hluta þegar alltaf er verið að hampa Lagarfljótsorminum? Ég skrapp norður á Egilsstaði á dögunum og þá sá ég að það var komin flannastór mósaíkmynd af Lagarfijótsorminum á einn útvegg Kaupfélags Héraðsbúa. Svona ættu Hafnfirðingar líka að hirða um sitt skrímsli og láta af að vanvirða það með þögn og þumbaraskap.”
Viðmælandi okkar er enginn annar en Einar frá Ertu og umræðuefnið skrímslið í Kleifarvatni í Krýsuvík. Einar Sigurðsson heitir hann fullu nafni, er múrarameistari og hefur um langt skeið búið í Hafnarfirði. Hann hefur hins vegar lengst af kennt sig við bæinn Ertu í Selvogi þar sem hann sleit barnskónum. Áhugi Einars fyrir Kleifarvatnsskrímslinu á sér langan aldur. Föðurbróðir hans bjó í Krýsuvík og var nokkur samgangur milli bernskuheimilis Einars, í Selvogi, og Krýsuvíkur. Þegar Krýsuvíkurfólkið kom í heimsókn að Ertu var það alltaf spurt: „Hafiði nokkuð séð skrímslið?” og virtist enginn efast um tilvist Kleifarvatnsskrímslisins.
Síðan Hafnarfjörður eignaðist Kleifarvatn álitur Einar að vegur skrímslisins hafi farið minnkandi og hafi Hafnfirðingar alls ekki gert nógu mikið til að halda merki þess á lofti. Einar vann í eitt ár að byggingu skólahússins sem reist var í Krýsuvík og þekkir þar vel til.

Skrímsli í hefndarhug

Skrímsli

Þekkt skrímsli á uppdráttum fyrri tíma.

Hann telur jafnvel að skrímslið hafi spillt fyrir framkvæmdum í Krýsuvík oftar en einu sinni, og sé þar að finna skýringu þess hve flestum fyrirtækjum hefur gengið illa þar á liðnum árum. Ég byrja á því að spyrja Einar hvort hann trúi því virkilega að það sé skrímsli í Kleifarvatni.
Mér hefur verið sagt að þetta skrímsli sé til og sé ekki neina ástæðu til að vera með efasemdir, sagði Einar. Það er nefnilega þannig með skrímsli að þau eru til þangað til einhver afsannar þau eða útskýrir þau vísindalega. Og þannig verður Kleifarvatnsskrímslið til þangað til einhver afsannar það eða útskýrir það.
— En hefurðu séð skrímslið?
Nei, en það afsannar ekkert. Ég fór einu sinni í ferð til Sovétríkjanna en þó sá ég ekki Bréfsnef — og samt getur vel verið að hann hafi verið til og kannski hefur hann séð mig. Eins er þetta með skrímslið — kannski sér það okkur þó við höfum ekki auga fyrir því.
— En er þá ekki alveg nóg fyrir skrímslið að vera til, þarf nokkuð að vera að dedúa í kringum það sérstaklega?

Kaldrani

Kleifarvatn.

– Já, Kleifarvatnsskrímslið á alveg sama rétt á viðurkenningu og Lagarfljótsormurinn. Og það er engum blöðum um það að fletta að Hafnfirðingar bera ábyrgð á skrímslinu — Hafnarfjarðarbær keypti Krýsuvík árið 1941 og þá hefur skrímslið auðvitað fylgt með í kaupunum. Það er ekki lítill búhnykkur að komast yfir slíka skepnu — máttarvöldin hér í Hafnarfirði hafa bara alls ekki gert sér ljóst hversu mikið gagn má hafa af skrímslinu og þeir hafa ekki sýnt því þá virðingu sem það á skilið.
Það þykir mikill skaði ef fiskur hverfur úr vatni eða á, en það er miklu meira áfall að tapa skrímsli — það er reyndar alveg óbætanlegt tjón að missa skrímsli, skal ég segja þér, því það verður ekki endurnýjað.
— Meinarðu þá að Hafnfirðingar gætu hugsanlega komið skrímslinu í peninga?
Það er ekki nokkru vafi á því, ef maður hefur það í huga hvernig aðstæðurnar eru við Kleifarvatn, landslagið meina ég. Þarna er „mánalandslag” og hverir, og þegar skrímslið í vatninu bætist við gefur augaleið að þarna er tilvalinn ferðamannastaður. Það mætti með öðrum orðum trekkja upp ferðamannastraum með skrímslinu.

Miklir möguleikar með skrímslið

Sveinshús

Bústjórahúsið í Krýsuvík, nú Sveinshús.

Hafnfirðingar gætu jafnvel haft full not af Krýsuvíkurskólanum — honum mætti breyta í ferðamannahótel fyrir þá sem kæmu til að forvitnast um skrímslið. Það mætti leigja út sjónauka og selja ferðamönnunum teikningar og bækur með skrímslinu. Það mætti hafa upp úr þessu stóra peninga! Ferðaskrifstofurnar ættu að taka skrímslið upp á sína arma og auglýsa það erlendis — þá myndi ekki standa á ferðamannastraumnum hingað.
Þetta hafa Skotarnir gert með þessu Loch Ness-skrímli sínu, sem í alla staði er þó miklu ómerkilegra en Kleifarvatnsskrímslið — það hefur aldrei sést í sólbaði og það eru ekki til neinar merkilegar sögur um það. Það fer ekki á milli mála að Hafnfirðingar gætu haft stóra peninga upp úr skrímslinu — þess vegna verður að viðurkenna það hið bráðasta og sjá til þess að það drepist ekki út.
— Heldurðu sumsé að skrímslið sé óánægt með þetta ræktarleysi Hafnfirðinga og hyggi jafnvel á hefndir?

Krýsuvík

Krýsuvíkurbúið. Bústjórahúsið h.m.

Já, ég er ekki fjarri því. Það er að vísu ekki auðvelt að gera útaf við skrímsli en það – er hægt að þegja þau í hel, eða nærri því. Maður getur hugsað sér að skrímslið sé óánægt með þá þögn sem um það hefur verið og hafi verið að hefna sín á Hafnfirðingum með því að láta flest mistakast sem gert hefur verið í Krýsuvík. Það er a.m.k. ekki einleikið hvernig allt hefur gengið fyrir sig þar. Hugsaðu þér bara kúabúið sem þar var reist á sínum tíma með miklum tilkostnaði — það hafa aldrei komið kýr í fjósið og bústjórinn flutti aldrei inn í einbýlishúsið sem reist var handa honum.

Krýsuvík

Fjósið í Krýsuvík.

Þarna var reistur einhver stærsti skóli landsins en hann hefur aldrei verið brúkaður til neins. Þarna er kirkja sem varla hefur verið messað í, o.s.frv. Það hefur fátt heppnast sem átt hefur að gera í Krýsuvík.
Nei, þarna hlýtur eitthvað dularfullt að hafa gripið inní og skrímslið hefur fulla ástæðu til að vera óánægt, því Hafnfirðingar hafa aldrei sýnt því neinn sóma.
— Veistu til að einhver hafi orðið var við þetta skrímsli?
Já, hér áður fyrr sýndu menn því tilskylda virðingu og það má muna fífil sinn fegri. Í ferðabók þeirra Eggerts og Bjarna segir um Kleifarvatnsskrímslið árið 1749 á þessa leið:

Skrímslið í sólbaði

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Á Kleifarvatni hefur lengi legið það orð, að þar sé ormur svartur á lengd við stórhveli af meðalstærð, og þykjast ýmsir hafa séð hann, þótt ekki sé hans vandi að vera uppi nema stutta stund í einu. Nú fyrir skemmstu bar það við, að fólk, sem var á engjum sunnan við vatnið í sólskini og kyrrviðri, sá þetta skrímsli betur en nokkur hefur áður talið sig sjá það, því að það skreiddist, að sögn fólksins, upp á sandrif, sem gengur út í vatnið. Bakaði það sig þar í sólskininu í meira en hálfa eykt, en hvarf síðan aftur í vatnið.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Indiáninn.

Engjafólkið varð svo skelkað, að enginn í hópnum þorði að nálgast ófreskjuna. Lá við, að það hlypi í ofboði frá amboðum sínum í besta þerri, en með því að ófreskjan bærði ekki á sér, eftir að hún var komin upp á eyrina, harkaði það af sér. Þó var það þvílíkri skelfingu lostið, að enginn getur lýst því að neinu gagni, hvernig þessi kynjavera hagaði sér.
— Veist þú um einhvern sem telur sig hafa orðið varan við skrímslið nýverið?

Grétar Þorleifsson

Grétar Þorleifsson, formaður byggingariðnaðarmanna í Hafnarfirði.

Ég þekki mann sem segist hafa séð skrímslið — hann heitir Grétar Þorleifsson og er formaður Félags byggingariðnaðarmanna í Hafnarfirði. Hann var þarna við Kleifarvatnið að degi til og sá þá einkennilegar hræringar í vatninu og einhverja stóra skepnu, að honum sýndist. En ef til vill hefur það verið skrímslið eða það sem fólk í gamla daga kallaði skrímsli. Hann er vel kunnugur þarna við vatnið en hefur enga haldbæra skýringu á þessu — nema þá að þarna hafi skrímslið verið á ferð.
Annars er margt dularfullt við Kleifarvatn, skal ég segja þér. Enginn veit t.d. hvers vegna hækkar og lækkar í vatninu til skiptis á tuttugu ára fresti. Jarðvísindamenn hafa rannsakað þetta árum saman en ekki fundið viðhlítandi skýringu.
En mér hefur sjálfum dottið í hug að ef til vill mætti skýra þetta með skrímslinu — það hækkar auðvitað í vatninu þegar skrímslið er í því, rétt eins og gerist í baðkeri.

Göng frá Kleifarvatni til Snæfellsness

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Ég hef líka heyrt að til séu gamlar sagnir um göng sem liggi úr Kleifarvatni alla leið til Snæfellsness. Það er hugsanlegt að skrímslið noti þessi göng og sé stundum á Snæfellsnesi. Hafnfirðingar mega þá vara sig á að Snæfellingar taki sig ekki til og ræni af þeim skrímslinu, með því að hæna það að sér.
— En er þetta nú ekki heldur ótrúlegt með göngin?
Jú, það getur svo sem vel verið og ég er ekki að biðja neinn að trúa þessu. Ég er orðinn langþreyttur á að halda mig við raunveruleikann — því er einhvern veginn þannig varið að það trúir mér enginn ef ég geri það. Trúir þú því t.d. þegar ég segi að Hafnfirðingur sem ég þekki hafi skriðið eins og ormur alla leið frá Hafnarfirði upp í Kaldársel og aftur til baka afturábak, um 10 kílómetra leið?
-Nei!

Kleifarvatn

Við Kleifarvatn.

Þetta er nú satt engu að síður. Hann skreið alla leiðina í pípum. Hann var að yfirfara samskeytin. Það þarf enginn að trúa þessu frekar en hann vill — það trúa manni fæstir þegar maður segir satt. Trúirðu því að ég fer til Reykjavíkur til þess að viðra hundinn minn, hér í Hafnarfirði má hann ekki vera til frekar en skrímslið. Þetta er nefnilega grínistaþjóðfélag sem við lifum í, það hef ég alltaf sagt. Jafnvel þó maður sé ráðherra má maður ekki eiga hund — en svo er alltaf verið að tala um frelsi. En hvar er svo þetta frelsi?
Um daginn heyrði ég að talað var um ófrjálsar kartöflur í útvarpinu — úr því að það eru til ófrjálsar kartöflur hljóta líka að vera til frjálsar kartöflur. Þessar frjálsu kartöflur eru áreiðanlega það eina sem er frjálst hér á landi, ef þær eru þá til. En ætli það séu íslenskar kartöflur, þessar frjálsu kartöflur, — það hljóta að vera góðar kartöflur sem eru frjálsar. – bó.

Heimild:
-Morgunblaðið, 142, tbl. 24.06.1984, Skrímsli í Kleifarvatni – rætt við Einar Sigurðsson frá Ertu, bls. 66-67.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.