Skúlastaðir var frumbýli Garða á Álftanesi.
Ingólfur Arnarsson, er fyrstur norrænna manna nam Reykjanesskagann, ánafnaði frændfólki, vinum og venslafólki er á eftir honum komu landkostum úr landnámi hans. Ásbjörn Össurarson, bróðurson Ingólfs, nam land milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns. Álftanes allt, og bjó á Skúlastöðum. Hans son var Egill, faðir (Össurar, föður) Þórarins, föður Óláfs, föður Sveinbjarnar, föður Ásmundar, föður Sveinbjarnar, föður Styrkárs (101. kafli Landnámu (Sturlubók). Skúlastaðir voru utan í hæðardragi ofan fjarðar gegnt Hvaleyri.
Skúlastaðir áttu kúaselstöðu í Litlumýri á Bessastaðanesi, auk sauðaselstöðu í Helgadal. Ásbjörn reyndi, líkt og aðrir landeigendur, að gera nágrönnum sínum mörk jarðarinnar ljós er á var herjað og nefndi í því sambandi vænlega gróninga eina með lækjarfarvegi úr Markraka á ystu mörkum hennar; „Skúlatún“, ókunnugt um að u.þ.b. 70 árum síðar áttu eftir að koma upp jarðeldar í Grindarskörðum er létu hraun renna niður hlíðarnar er nánast eyddu gróningunum, nema þeim er hæst stóð – og sést enn.
Skúlastaðir gætu ekki hafa verið í Skúlatúni því allir bæir landnámsmanna á Reykjanesskaganum voru við sjávarsíðuna.
Hefur hóllinn sá hæsti æ síðan verið nefndur „Skúlatún“, til minningar fyrsta ábúandans. Hafur-Björn og bræður hans, afkomendur Molda-Gnúps, sem hafði byggt Krýsuvík (þar sem nú er Húshólmi undir (G)Núpshlíð, höfðu þá ásælst jarðnæðið, enda skammt norðan landamerkjanna, auk þess Molda-Gnúpur þótti lítt friðvænlegur.
Þegar selstaðan í Litlumýri lagðist af fékk afkomandi Skúla, Bessi, aðstöðuna til afnotar og byggði sér þar nálægan bæ, sem jafnan hefur verið nefndur „Bessastaðir“. Í nútíma hefði sá bær jafnvel mátt heita „Guðnastaðir“ eða „Höllustaðir“.
Annar afkomandi fékk Hofsstaði. Sá hafði kúaselstöðu við Urriðavatn og fjársel við Grunnuvötn.
Vífill, einn þræla Ingólfs, hafði fengið Vífilsstaði. Sá hafði í seli ofan Hlíða, þar sem nú eru tóftir Víðistaðasels.
Þegar fram liðu stundir eftir árþúsundið var kirkja reist á frumbýlinu. Húsráðendur, prestarnir fýsti lítt að kenna bæinn við heiðingjann þann er hann fyrst byggði, enda fátt þá til vitneskjunnar fyrrum. Þegar þar var komið höfðu nokkur kotbýli, búin leiguliðum, byggst upp í kringum bæjarstæðið. Einstaka ábúendur töldu ráðlegt að afmarka skika sína með garðshleðslum. Prestinum fannst að sér sorfið og fyrirskipaði slíkt hið sama svo enginn kotbændanna yrði í vafa um hvar mörk stórbýlisins væri versus þeirra. Varð þá til bæjarnafnið „Garðar“, enda þá orðið nauðsynlegt að aðskilja hinn forna sið frá hinum „nýja“.
Bessi reyndist drjúgur umfram efni, kom á fót ágætu búi og vildi láta að sér kveða. Hafði hann frumkvæði að því að Álftanesbændur sammæltust um selstöður í Selgjá, norðan Helgadals. Garðabóndi færði þá selstöðu sína úr Helgadal að Kaldá.
Magnús Már Lárusson, prófessor, skrifaði grein í jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1960. Greinin var framhald greinar hans í blaðið árið 1957 er nefndist “Sitthvað um Fjörðinn”. Þar skrifar hann m.a. um Skúlastaði.
“Elzta saga byggðar á Reykjanesskaga er halla óljós og gloppótt. Heimildir eru fáar og stangast iðurlega á. Náttúruhamfarir, eldgos og landbrot hafa geisað án þess að setja teljandi spor í heimildir. Og örnefni hafa týnzt eða breyzt.
Í sóknarlýsingu sinni segir síra Árni í Görðum um eyðijarðir, að hann viti ekki um neina, “nema það skyldu vera Skúlastaðir, sem mælst er hafi verið jörð áður fyrr meir, og hvar af skuli finnast minjar uppi í hrauni, suður frá Hvaleyri.” Það er sorglegt að hann skuli ekki tilgreina staðsetninguna skilmerkilegar.“
Svæði þetta er stórt mjög, en Jarðabók Árna Magnússonar segir, að staðurinn í Görðum eigi selstöðu, þar sem heitir við Kaldá, og eru þar bæði hagar og vatnsból gott. Í öllum máldögum Garða er svæði þetta nefnt; “Afrétt í Múlatún”, t.d. DI iv 108, vi 123, xv 638 og var síra Árna þetta kunnugt, enda er pláss þetta í Garðalandi. Skúlatún er vafalaust afbökun úr Múlatúni.”
Sé lýsing Brynjólfs frá Minna-Núpi í Árbók fornleifafélagsins 1908 [1903] athuguð, þá er hún ekki sannfærandi um, að þar hafi býli verið. Enda eigi heldur lýsing Þorvalds Thoroddsen í Ferðaból I.
Þekktustu staðir á Álftanesi eru Bessastaðir og Garðar. Í Landnámu er tveggja jarða getið innan þess svæðis sem Garðabær nær til. Ásbjörn Özurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarsonar, er sagður hafa búið á Skúlastöðum, en Garðakirkja nam síðar land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns og Álftanes allt.
Eru munnmæli um að Skúlastaðir hafi verið ein jörðin en hin jörðin hafi verið Vífilsstaðir, eða Vífilstóftir, sem þó telst ekki til hinna eiginlegu landnámsjarða, en hún var byggð af Vífli. Vífilsstaðir munu fljótlega eftir landnám hafa komist í eigu kirkjunnar, fyrst Viðeyjarklausturs, en árið 1558 eignaðist Garðakirkja jörðina.
Talið er að kirkja hafi verið að Görðum á Álftanesi allt frá því að kristni var lögtekin á Íslandi árið 1000. Garðakirkju er fyrst getið í heimildum um 1200 í kirknamáldaga Páls biskups Jónssonar.
Í „Bessastaðaannáli“ forsetaskrifstofunni frá 1968 segir um Skúlastaði:
Landnámabók segir að Ásbjörn Össurarson, bróðursonur Ingólfs Amarsonar, hafi numið land milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns, Álftaness allt, og búið að Skúlastöðum.
Bessastaðir eftir Tryggva Gíslason, lektor. Útvarpsþáttur fluttur 30. júní 1968 Sá, sem nam Álftanes, hét Ásbjörn Özurarson, bróðursonur Ingólfs. Bær hans er sagður hafa heitið á Skúlastöðum, en það bæjarnafn er ekki lengur til í hinu forna Landnámi Ásbjarnar milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, en í hrauninu undir Lönguhlíðum, suðaustan Hafnarfjarðar, heitir lítill grasgeiri Skúlatún og hraunið þar norður af Skúlatúnshraun, en óvíst er með öllu, að það eigi nokkuð skylt við hið forna bæjarheiti á Álftanesi, Skúlastaði.
Engar spurnir fara af manni þeim, Bersa eða Bessa, sem Bessastaðir gætu heitið eftir.
Garðakirkja í Görðum á Álftanesi er sóknarkirkja Garðasóknar. Kirkja hefur staðið í Görðum frá fornu fari. Garðakirkja var frá upphafi Péturskirkja en algengt var, er menn fóru að reisa kirkjur hér á landi eftir kristnitöku, að þeir helguðu kirkjur sínar Pétri postula. Máldagar greina frá, að Bessastaðakirkja sé í fyrstu talin Maríukirkja og síðar Nikulásarkirkja, og bendir það til þess, að Garðakirkja sé eldri. Í þessu felst skýr ábending um háan aldur hennar, því svo miklar eignir hlóðust ekki á kirkjur yfirleitt nema þá á all löngum tíma. Sterk rök virðast því hníga að því, að Garðar séu hin forna landnámsjörð Ásbjarnar Össurarsonar, bróðursonar Ingólfs Arnarsonar, og jafnframt með elstu kirkjustöðum þessa lands.
Heimildir m.a.:
-forseti.is
-alftanes.is
-Úrval, 11. hefti 01.11.1968
-https://timarit.is/page/8005106?iabr=on#page/n51/mode/2up
-Aðalheimild: Vilhjálmur Þ. Gíslason: Bessastaðir, Reykjavík 1947.
-https://gardasokn.is/gardakirkja/
-Forsetakynning, 2. tbl. 10.06.1968.
-https://timarit.is/page/5374305?iabr=on#page/n0/mode/2up
-Magnús Már Lárusson, Enn úr Firðinum, Alþýðublað Hafnarfjarðar (jólablað) 1960, bls. 4-5.