Færslur

Fálki

Meðfylgjandi um heimspeki gönguferða eftir Skúla Skúlason birtist í tímaritinu Útivera 2006:

fjarborg-21“Útivist, ferðalög og ekki síst gönguferðir eru eðlilegur og sumir myndu segja bráðnauðsynlegur hluti af lífi hvers manns. Værum við spurð hvers vegna svo sé myndum við vafalaust benda á þau lífsgæði sem ferðirnar færa okkur – þær hjálpað okkur að slaka á í daglegu amstri, þær eru hollar fyrir sálina og líkamann, hjálpa okkur að svala forvitni okkar og veita okkur ýmsan nýjan fróðleik. Í þessum skrifum langar mig sérstaklega að huga að gönguferðum um náttúruna, velta því fyrir mér hvað þær fela í sér fyrir okkur og með hvaða hætti þær geta aukið skilning okkar á náttúrunni og gert líf okkar innihaldsmeira og betra. Ég held því fram að gönguferðir geti ræktað heimspekinginn í okkur öllum – það sé nefnilega til ákveðin „heimspeki gönguferða“.
Forn gata-21Í gönguferð erum við í orðsins fyllstu merkingu í nálægð við náttúruna. Við notum líkamann – sérstaklega fæturna og ekki síður skilningarvitin. Við erum í beinni snertingu við umhverfið, sem kann að vera síbreytilegt, veðrið, bergið, þúfur, hóla, hæðir, fjöll, læki, ár og dali – auðnir, gróður, pöddur, fiska og fugla. Við getum sagt að við séum í samfelldri upplifun á náttúrunni í okkur sjálfum og í umhverfinu sem við förum um. En hvað felst í þessu orði „upplifun“?  Vísar þetta orð ekki á vitund okkar um að við séum til sem náttúrulegar verur – lifum og hrærumst sem hluti af náttúrunni – undraverki alheimsins? Ekki svo að skilja að svona djúpstæður skilningur leiki sífellt um huga okkar í gönguferð um náttúruna, heldur er hér vísað til þess sem gerist innra með okkur í gönguferðum. Ég vil nefna þrennt: Í fyrsta lagi skynjum við náttúruna á síbreytilegan hátt vegna þess að við erum á hreyfingu og margt ber fyrir augu. Í öðru lagi yfirvegum við stöðugt þessa skynjun, beitum eigin skynsemi og hjálpargögnum (t.d. handbókum) sem við höfum til að túlka það sem við skynjum, komumst t.d. að því að fuglinn sem við sáum var lóa eða hrafn. Í þriðja lagi tökum við ákvarðanir og framkvæmum, veltum því t.d. fyrir okkur hvar best sé að vaða yfir ána. Í gönguferð getur ákvörðun á stundum verið mjög mikilvæg og varðað líf okkar og limi. Það er ekki sama hvar farið er yfir jökul eða framhjá hættulegu gili.
leid-21Heimspeki gönguferða birtist í þessari þrískiptingu vegna þess að hún gerir okkur kleift að skilja betur hvað við skynjum, hvernig við hugsum og hvers vegna við gerum það sem við gerum. Við erum að læra um heiminn og notum þennan lærdóm til að bæta líf okkar. Getur verið að hin mikla fullnægja og gleði sem fylgir gönguferð um hálendi Íslands spretti af slíkum lærdómi? Ég svara því umsvifalaust játandi og ég held því líka fram að þessi lærdómur gagnist okkur í daglega lífinu sem og þeim vísindum eða listum sem við kunnum að leggja stund á. Aðalatriðið í þessari heimspeki er að í gönguferðinni veltur svo mikið annars vegar á skynjun okkar og hins vegar á hugsunum okkar og úrvinnslu að við þjálfum þess eiginleika mun meira en ella.
Athafnir verða að blom-21byggjast á skýrri úrvinnslu, annars er hætta á að ferðin verði í skásta falli leiðinleg og marklaus eða í versta falli stórhættuleg. Í daglega lífinu hættir nútímamanninum oft til þess að framkvæma án hugsunar.  Í gönguferð er slíkt mun sjaldgæfara vegna þess að skynjun og hugsun eru svo ríkur þáttur í upplifuninni.  Við getum því sagt að gönguferð er ákveðin meðferð fyrir mannsandann því hún knýr fram samræmi milli skynjana okkar, hugsana og athafna. Það er segin saga að þegar þetta gerist – þ.e. að við „upplifum“ þetta samræmi – þá líður okkur vel, okkur finnst okkur miða áfram og vera á réttri leið.
Skoðum nú aðeins nánar hvernig þetta gerist í raunveruleikanum. Í gönguferðinni getum við séð, heyrt, snert, lyktað af og bragðað marga hluti.
Upplýsingar um það sem við skynjum hlaðast upp. Við skynjum óendanlega marga hluti í einu hellir-21og uppgötvum stöðugt hve heimurinn er ógnarstór, stórkostlegur, flókinn og jafnvel óhugnalegur. Við finnum fyrir smæð okkar og vanþekkingu. Hér tekur hugsunin við og leitast við að greina þennan flækjuvef og gera hann merkingarbæran. Til að komast að niðurstöðu vegum við og metum upplýsingarnar, gefum þeim heiti og setjum fram tilgátur og kenningar um hlutina. Í þessu ferli skiptir yfirvegað mat á einstökum þáttum og samhengi þeirra höfuðmáli; við komumst að því að eitthvað sé fallegt, gott, slæmt, rétt eða rangt. Á þessu mati byggjum við síðan ákvörðun um framhaldið – hvort við eigum að fara nær þessu fjalli vegna fegurðar þess eða leggja lykkju á leið okkar vegna þoku á þeirri leið sem landabréfið segir að sé styst og best.  Við getum kallað þetta yfirvegaða eða skapandi ákvörðun þó flest okkar séu nú kannski ekki að klæða málin í svo hátíðlegan búning í venjulegri gönguferð.
nattura-21Kjarni málsins hér er hvernig nándin við náttúruna minnir okkur á allt hið óþekkta í heiminum. Þessari áminningu fylgir jákvæður kraftur sem fóðrar hugann og sköpunargáfuna. Það er eins og smæðartilfinningin gagnvart alheiminum efli göngumanninn sem hugsandi veru. Hversu oft heyrum við ekki að það sem gerði gönguferðina um auðnir Íslands svona frábæra var að finna smæð sína og vanmátt gagnvart náttúrunni allt um kring. Það felast mikil verðmæti í hinu óþekkta því þar byrjar lærdómur okkar, sköpun og framtíðarsýn. Virðingin fyrir náttúrunni er að miklu leyti falin í að leyfa sér að finna hversu flókin og óskiljanleg hún er – skynja sjálfan sig sem hluta af undravef hennar. Hér liggur þungamiðjan í heimspeki gönguferða. Sannleikur náttúrunnar er falin í henni sjálfri, en ekki í hugmyndum okkar, kenningum og sköpunarverkum. Verk okkar geta nálgast þennan sannleik, ekki síst ef við vöndum til þeirra, en við megum aldrei trúa að í þeim felist endanlegt svar eða þekking – sköpunin heldur stanslaust áfram í síbreytilegum heimi – og í gönguferðinni!  Göngukortið og veðurspár eru gagnlegar og nauðsynlegar en við megum ekki fylgja þeim í blindni. Á sama hátt megum við ekki umgangast vísindakenningar eða almennar skoðanir á hlutunum sem algildan sannleik. Þá afskrifum við hið óþekkta, heftum mátt skynjunar okkar og hugsunin verður ekki lengur skapandi. Það er stórhættulegt að stöðva þekkingarleitina með þessum hætti og getur leitt til mikilla mistaka. Slíkri heftingu þekkingarleitar og sköpunar má líka við andlega frelsissviftingu.
Hinn frjálsi göngumaður þjáist ekki af þessum sjúkdómi – hann nýtur frelsis skynjunar sinnar og hugsunar fjoll-21og það gerir honum kleift að uppgötva heiminn og taka ákvarðanir sem skipta hann máli.
Það er ekki tilviljun að miklir hugsuðir og heimspekingar halda því fram að þeir hafi fengið sínar bestu hugmyndir í gönguferðum.  Ég er þess fullviss að margt göngufólk hefur sömu sögu að segja. Gönguferðir byggja okkur upp sem frjálsar, hugsandi verur.
Þessi heimspeki gönguferða hefur eins og fram hefur komið sterka tilvísun til lista, vísinda og að sjálfsögðu daglegs lífs.  Frjáls skynjun og hugsun hvetur til sköpunar í vísindum, listum og við úrlausn hversdagslegra vandamála. Segja má að þannig felist vegurinn til visku í síkviku samspili milli þekkingar okkar á náttúrunni og náttúrunnar sjálfrar. Og skynjunin á umhverfinu er brúin þar á milli. Íslensk náttúra er um margt sérstök; hún er falleg, fjölbreytt og síbreytileg.  Það er mikilvægt að við ræktum okkur í samspili við hana sem frjálsar verur með frjóan huga. Það er á ábyrgð okkar sjálfra að vernda þetta frelsi. Við missum frelsið ef við hættum að undrast og pæla – það er afdrifaríkt. Drífum okkur öll í gönguferð og ræktum frjálsa ferðalanginn í okkur!”

Heimild:
-Útivera 2006.

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.