Færslur

Snorri

“MEGAflott” varð fulltrúa Hellarannsóknarfélags Íslands að orði eftir að hafa skoðað skoðað Snorra. Meira um það á eftir.

Snorri

Björn Hróarsson við Snorra.

Stefnan var tekin á Slóðaketil og Snorra. Rúmlega fimm metra langur stigi var með í för. Lögreglunni í Reykjavík er þökkuð afnotin því án stigans hefði hrikaleiki undirheimana ekki verið uppgötvaður að þessu sinni.
Til þess að komast niður í Slóðaketil þurfti á öllum fimm metrunum að halda. Í hraunbólu er ketill. Rás liggur upp úr honum á efri hæðinnim þrengist, en víttkar aftur uns hún lokast alveg. Mjó rás, sem sjá má á meðfylgjandi mynd, liggur niður í sléttbotna rás, sem enn er ókönnuð. Þar þarf einhvern mjósleginn til að skríða aftur á bak niður og skoða rásina. Aldrei að vita hvað þar kannn að leynast. Niður í katlinum liggur rás niður á við og beygir til hægri. Þar lokast hún. Í heildina er kannaður hluti Slóðaketils u.þ.b. 30 metrar.

Snorri

Klifrað upp í Snorra.

Þegar komið var að Snorra blasir við geysistórt jarðfall. Niður í því eru mjög stórar rásir. Efri rásin er hruninn skammt eftir að inn er komið. Neðri rásin er stórgrýtt, beygir og þrengist eftir u.þ.b. 15 metra uns hún lokast alveg. Snorri fannst eftir ábendingu frá Snorra Þórarinssyni frá Vogsósum, en hann hafði einhverju sinni átt leið þarna um í smalamennsku og þá gengið fram á jarðfallið. Síðan gerði FERLIR þrjár tilraunir til að finna jarðfallið og fannst það að lokum í svartaþoku með aðstoð GPS-tækis, sem notað hafði verið til að skanna svæðið þvers og kruss.

Snorri

Snorri – þrívíddarmynd.

Undir efri rásinni í Snorra er stór skálalaga kjallari, u.þ.b. 10 metra hár. Hann fannst eftir að aðframkomnir FERLIRsfélagar, sem fundið höfðu jarðfallið, neituðu að gefast upp við svo búið. Eftir að hafa fært til steina í jarðfallinu með miklu erfiði var hægt er að komast niður í kjallarann með því að færa til stóra steina. Efst á vegg í kjallaranum er op, ca. tveir metrar að ummáli í nálægt sex metra hæð. Út um opið virðist koma storknaður þunnfljótandi hraunfoss, en nú sást að allur veggur kjallarans er þannig. Stiginn var dreginn niður í kjallarann og reistur við vegginn. Fulltrúi HERFÍs klifraði upp – og hvarf. Hann kom ekki aftur fyrr en eftir rúmlega hálfa klukkustund. MEGAflott sagði hann bara þegar hann var spurður hvernig þetta væri þarna uppi – og brosti sínu breiðasta. FERLIRsfélagar héldu við stigann á meðan, en ef vel á að vera þarf þarna nálægt átta metra langan stiga til að komast bæði upp og niður með góðu móti. Einn félaginn stalst reyndar til að klifra upp og kíkja inn fyrir. Þessi rás liggur inn fyrir stóra jarðfallið í meginrásinni. Þá tekur við u.þ.b. 5 metra hár og 10 metra breiður sléttbotna hellir, um 300 metra langur. Í honum eru dropasteinar og annað er prýtt getur fallegan hraunhelli. HERFÍsfulltrúinn gaf hellinum einkunina 8 af 10 mögulegum. Það segir jú sína sögu.

Snorri

Leiðangur kominn að Snorra.

Þarna bættist enn ein perlan í safn HERFÍs, ekki langt frá fyrirhuguðu vegstæði svonefnds Suðurstrandarvegar. FERLIRsfélagar er ánægðir með að hafa fengið að taka þátt í uppljóstran þessara gersema Íslands. Ætlunin er að fara fljótlega aftur á staðinn með fulltrúum HERFÍs og skoða, mynda og mæla hellinn. Aldrei er að vita hvað þá kann að finnast.
Snorri er sem sagt ekki fullkannaður. Hellirinn er bæði vandfundinn og aðkoman torfarin – þrátt fyrir stærðina.

Veður var frábært – logn og sól.

Snorri

Unnið að inngöngu í Snorra.