Færslur

Smalaskúti

Svavar Sigmundsson skrifaði um örnefnin “Smalaskáli” og “Smalabyrgi” á vef Árnastofnunar árið 2018 (birtist upphaflega árið 2008):

Svavar Sigmundsson

Svavar Sigmundsson.

“Á Íslandi eru mörg örnefni sem eiga rætur að rekja til fyrri tíðar búskaparhátta sem nú eru horfnir. Eitt þeirra örnefna er Smalaskáli sem þekkt er sérstaklega um Suðurland og Suðvesturland (Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Gullbringu- og Kjósarsýslu) en er þó til víðar á landinu. Þetta er oftast nafn á holtum, hólum eða hæðum og eru sumstaðar leifar af rústum eða tóftum í þeim en hvergi nærri allstaðar. Margir smalar í hjásetunni munu hafa haft svonefnda smalakofa til að skýla sér. Smalinn gerði sér þannig eitthvert skýli, þar sem landslagi var svo háttað að ekki var skjól frá náttúrunnar hendi. Þar hefur verið ákjósanlegur staður fyrir smalann að geyma mal sinn og á stað þar sem sást vel yfir þar sem ánum var haldið til haga. Oft eru þessi örnefni nærri landamerkjum eða beinlínis á landamerkjum, t.d. hóll sem hornmark fleiri jarða á svonefndum Sorta í Flóa. Á Norðurlandi var slíkt skýli fremur nefnt Smalabyrgi.

Efri-Straumsselshellar

Straumselshellar syðri. Smalabyrgi neðst fyrir miðju.

Í örnefnaskrám í örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar eru þessi dæmi um lýsingu á örnefninu Smalaskáli: hóll, klettur, strýta, rimi, holt, grjótholt, skerhóll, klapparhóll, ás, hæð, þúfa, heiðarhryggur, klapparhryggur, en einnig hvammur. Sumstaðar er haft orðið ‘tóftarbrot‘.

Ég nefni nokkur einstök dæmi um Smalaskála úr Árnessýslu:

Smalaskjól

Smalaskjól á Reykjanesskaga.

Smalaskáli er strýta í hraunbrún … Sunnan undir henni er lítil öskjulaga tóft, smalaskálinn. (Þjórsárholt)
Hóll með tóftum af gömlum fjárhúsum og tveim minni kofum, sem nefnist Smalaskáli. (Baugsstaðir)
Smalaskáli: Grjótholt í Laxárdal. [Strákar í yfirsetu höfðu hlaðið skýli þar.] (Villingavatn)
Elsta dæmi um orðið smalaskáli er frá 1664 úr hdr. AM 277 fol., skv. ritmálsskrá Orðabókar Háskólans: „þadann J smalaskalann, sem er austann til a Hnukaheidi“ (101r).

Smalavarða

Smalavarða við Þorlákshöfn.

Samheiti við smalaskála er smalahreysi (þýðing úr latínu attegiæ) úr orðabók frá 18. öld (Nucleus, bls. 349), en sem þýðing er einnig gefið orðið graskofar. Í sömu orðabók er einnig orðið smalakofi, sem þýðing á latínu habitus pastoralis, tectum pastorale en þar er einnig gefið orðið hitta (= hytte). Orðið smalakofi er einnig gefið sem þýðing á latínu tugurium og samheiti við það hreysi. Þá er latneska orðið mapalia þýtt með smalakofar eða smalahíbýli.

Í orðabók Björns Halldórssonar, sem Rasmus Chr. Rask gekk frá til útgáfu 1814, er orðið smalamannskofi og það þýtt með „attigiæ, en Hytte for faarehyrder“. Seint á 19. öld kemur fyrst fram í heimildum orðið smalabyrgi: „selhreysi og smalabyrgi“ (Ísafold 1890, 230).

Smalaskjól

Smalaskjól ofan Straums.

Eftirfarandi svör við spurningaskrám Þjóðminjasafns um fráfærur nefna smalaskála:

Nr. 497 (Fráfærur)

Smalabyrgi

Smalabyrgi við Flekkuvík.

Víða er til örnefnið Smalaskáli, sem mun vera frá þeim tíma að setið var yfir ám. Ærnar voru reknar í haga af stöðli og úr haga á stöðul, þar sem ég þekkti til, en haft vakandi auga með þeim að deginum, einkum í þurrkatíð, norðanátt, þá vildu ærnar rása í vindinn, jafnvel strjúka til fjalla.

Nr. 554: (Fráfærur)

Smalaskálaskúti

Smalaskálaskúti.

Sér til skemmtunar í tómstundum las smalinn, byggði byrgi, hlóð vörður, hitti oft smala á næstu bæjum, og fór þá við þá í leiki, m.a. blámannaleik. Smalinn átti skýli, oft nefnt smalaskáli. Nesti smalans var hverskonar búrmatur. … Mislengi var setið hjá kvífé, af ýmsum ástæðum. Smalað þegar leið að hausti.

Smalaskáli er gott dæmi um það hvernig löngu aflagt fyrirbæri lifir í örnefnunum.”

Smalaskáli og Smalaskálahæð eru örnefni í landi Óttarsstaða. Hæðin kom við sögu manndrápsmáls árið 2004, sjá HÉR. Smalabyrgi er til við Flekkuvík og Smalavarða stendur enn ofan Þorbjarnarstaða. Smalaörnefnin eru því víða á Reykjanesskaganum.

Heimild:
-https://www.arnastofnun.is/is/greinar/smalaskali-og-smalabyrgi

Smalaskjól

Smalaskjól við Smalaskálahæð.