Útgefnar fornleifaskráningar geta oft, við nánari athugun þeirra sem vel þekkja til, reynst meira en lítið skondnar – einkum vegna þess hversu takmarkaðar þær eru. Við birtingu þeirra eru jafnan tilgreindar stofnanir samfélagsins, sem eiga að hafa eftirlit með slíkum skráningum, en virðast allt of oft taka þær bara góðar og gildar – athugasemda-laust.
Tökum eitt lítið dæmi frá árinu 2007 – Smiðjulautina við gamla akveg Suðurlandsvegar (Hellisheiðar-vegar) neðst á vestanverðri Hellisheiðinni. Byrjum á tilfallandi heimildum:
“Hitt er miklu kunnara og eigi eins furðulegt og þó bending um gífurlega breytingu á gróðurfari og landkostum, að Smiðjulaut er nefnd á Hellisheiði. Er hér að vísu um að ræða minjar járngerðar og vitni um þann tíma, er hér var land viði vaxið, meir en nú þykir sumum trúlegt, er lítur yfir öræfin kringum Reykjavik, austur og suður. Í sömu átt bendir nafnið Kolviðarhóll og á þetta saman, þótt síðar hafi um Kolviðarhól myndazt léleg þjóðsaga. Hér eru nefnd aðeins tvö dæmi. Annað af því, að það er nokkuð einstætt og fáum kunnugt, hitt af því, að það er mörgum kunnug, en líklega skilið af fáum.”
Framangreind heimild er vægast sagt einstaklega takmörkuð.
Tökum aðra heimild: “Það er því margs að minnast frá vegavinnuárunum og væri það efni í langa ritgerð. Ég tel, aö vinnuflokkar Jóns Ingvarssonar hafi á þessum árum unnið allmörg stórvirki i vegagerð þeirra tlma, þótt nú sé það gleymt. Ég minnist þó með nokkru stolti strits míns, og um 40 félaga minna, við að endurbæta Hellisheiðarveginn frá
Smiðjulaut og austur undir Hryggjarholt árin 1923 og 1924 (en Tómas Petersen var þar yfirverkstjóri).” Hér er um að ræða raunhæfa lýsingu á vegagerð Suðurlandsvegar (Hellisheiðarvegar) eftir að bifreiðin kom til sögunnar.
Vitnum aftur í framangreinda fornleifaskráningu: “Vert er að geta þess að nú virðist hætta steðja að gamla Hellisheiðarveginum (Ár-721:061) í Smiðjulaut, en frá honum var greint í skýrslu árið 2006. Smiðjulaut og virðast þær liggja fast utan í gamla veginum á 2-300 m löngum kafla. Rétt er að ítreka að vegarspotti þessi er hluti af gamla þjóðveginum sem lagður var á árunum 1894-1895 og er friðaður skv. þjóðminjalögum. Hann hefur mikið varðveislu- og kynningargildi, enda hluti af merkilegri samgöngusögu á Hellisheiði og líklega hvergi jafn sýnilegur og einmitt á þessum stað.”
Í framangreindri skráningu er einungis getið um veginn, sem er jú framför frá því sem áður var. Fornra þjóðleiða var jafnan ekki getið í fornleifaskráningum til skamms tíma. Hvergi í tilnefndri skráningu er getið um tóftir gömlu smiðjunnar í Smiðjulaut, sem hún dregur þó nafn sitt af. Ekki heldur frárennslu-skurðunum umhverfis tjaldstæðin, sem þar voru. Mjög svipað gildir um selsörnefnin um land allt. Nánast alls staðar, sem þeirra er getið, má finna fornar selstöður þótt einungis fárra þeirra hafi verið getið í heimildum. Reynsla FERLIRs er sú, eftir að hafa skoðað fyrrum selstöður á Reykjanesskaganum, í fyrrum landnámi Ingólfs, að einungis þriðjungi þeirra hefur verið getið í skriflegum heimildum, þriðjungur þeirra lifir í skráðum örnefnum og þriðjungur þeirra finnst við markvissa leit að teknu tilliti til landskosta.
Afsökunin varðandi framangreinda fornleifaskráningu kann að vera fólgin í því að minjarnar verða ekki fornleifar, skv. gildandi minjalögum, fyrr en eftir áratug.
Niðurstaðan er þessi; við þurfum að vanda okkur við þau verkefni, sem okkur eru falin hverju sinni. Framtíðin er í húfi..
Sjá skráninguna http://www.instarch.is/pdf/uppgraftarskyrslur/FS351-07061%20Hellishei%C3%B0i.pdf
Heimildir:
-Samvinnan, 24. árg. 1930, 1.bl. bls. 32.
-Íslendingaþættir Tímans, 2. ágúst 1975, bls. 4.
-Fornleifaskráning 2007.
–http://www.instarch.is/pdf/uppgraftarskyrslur/FS351-07061%20Hellishei%C3%B0i.pdf