Ísleifur Jónsson (f:1927), verkfræðingur frá Einlandi í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík, hefur kynnt sér mjög vel landamerki Grindavíkur annars vegar og nágrannabyggðalaganna hins vegar. Hann er ekki í nokkrum vafa um að landamörk Grindavíkur og Vatnsleysustrandarhrepp séu rangt skráð á nýmóðins landakort sem og jafnvel sum þeirra eldri. Sneið norðan við Litla-Skógfell ætti með réttu að tilheyra Grindavík – og þar með Þórkötlustaða-hverfisbæjunum, sbr. landamerkjalýsingu frá árinu 1890, en ekki Vatnsleysustrandar-hreppi, eins og vilji væri til í dag – hvernig sem það væri nú allt til komið?
Að hans sögn voru öll hornmörk Grindavíkur fyrrum svo og Grindavíkur-jarðanna klöppuð með bókstöfunum “LM”. Þannig hefði t.d. mátt sjá LM á steini (Markasteini við Markalón) í fjöruborðinu ca. 60 m vestan við Þórkötlustaða-nesvita (Nesvita) þangað til óveður árið 1942 hefði þakið hann grjóti. Steinninn væri landamerki Hóps og Þórkötlustaða. Þaða hefði línan legið upp í Moshól og um Skógfellin (Stóra-Skógfell og Litla-Skógfell), í klett norðan við það síðarnefnda og áfram að mörkum Vatnsleysu-strandarhrepps, í klöpp austan gömlu götunnar (Skógfellavegar) þar sem hún beygir til norðurs að Vogum. Í klöppina hafi verið klappaðir bókstafirnir “LM”. Austan við merkið hefði verið reistur mannhæðahár steinn.
Þetta vissi hann því fyrir u.þ.b. 70 árum hefði hann verið sendur til að smala Grindavíkurlandið ásamt öðrum. Hefði hann verið vestastur smalanna (þ.e. farið var upp frá Vogum) að mörkum sveitarfélaganna og þeir beðið við steininn. Á klöppina, sem hann hafi síðan hafið smalagönguna áleiðis til Grindavíkur, u.þ.b. 1.5 km norðan við Litla-Skógfell, hefði þessi áletrun verið greinileg. Hún hafi verið vestan við nefndan stein. Allir fjárbændur í Grindavík fyrrum, ekki síst í Þórkötlustaðahverfi, hefðu vitað af klöppinni og merkingunni. Hún hafi verið í línu millum Arnarkletts sunnan Snorrastaðatjarna (þar sem “LM” ætti að vera klappað). Ekkert merki hefði verið á þeirri klöpp norðan við Litla-Skógfell sem Vatnsleysustrandarbændur hefðu löngum talið mörkin liggja um. Þau hefðu fremur verið óskhyggja en staðreyndir og eru að öllum líkindum runnar undan rifjum Vogabænda.
Þegar skoðaðar voru markalýsingar Grindavíkur annars vegar og Vatnsleysustrandarhrepps annars vegar kom ýmislegt áhugavert í ljós – og ekki allt samkvæmt bókinni.
Í lýsingu fyrir Voga segir m.a. um markalínuna á þessum slóðum: “Úr Vatnskötlum liggja mörkin til útsuðurs um Kálffell og í kletta við götuna nyrst í Litla-Skógfelli. Úr Litla-Skógfelli liggja mörkin á Arnarklett, allháan klett og auðkennilegan í brunahrauninu sunnan Snorrastaðatjarna.” Þetta er eina lýsingin sem getur þess að mörkin liggi um Litla-Skógfell norðanvert. Í jarðalýsingu Vatnsleysustrandarhrepps segir hins vegar: “Þar austar er svo annað lágt fell á merkjum, Kálffell.”
Í lýsingu Þórkötlustaða segir: “Úr Stóra-Skógfelli liggur markalínan í gjána í Kálffelli en það er lágt fell eða bunga sem er framarlega í Kálffellsheiði. Frá Kálffelli liggja landamerkin í Vatnskatla í Fagradals-Hagafelli og þaðan í Innstuhæð á Vatnsheiði.” Hafa ber í huga að Litla-Skógfelli er sleppt í þessari lýsingu, enda engin mörk þar. Þarna er Kálffellið á landamerkjum.
Í lýsingdu Þórkötlustaðahverfis segir ennfremur: “Samkv. þessu er Sandhóll sem er vestur af Kasti og Fagridalur sem er kvos inn í Fagradalsfjall austan við Aura í landi Þórkötlustaða. Fagradals-Vatnsfell sem er norðvesturöxl Fagradalsfjalls er sömuleiðis í landi Þórkötlustaða. Aurar heita melar innan við og austan Dalahraun og þar norður af eru grasflatir sem heita Nauthólaflatir. Þar var heyjað af bændum á Þórkötlustöðum. Vesturhluti Beinavörðuhrauns nær vestur í land Þórkötlustaða.”
Hér er augljóst að allt land innan við Litla-Skógfell, þar með talinn Fagridalur, tilheyrir Þórkötlustaðabæjunum sex; þ.e. Þórkötlustöðum I, II og III sem og Klöpp, Buðlungu og Einlandi.
Þegar skoðuð eru landamerki Hrauns kemur eftirfarandi fram: “Þaðan til vesturs sunnanvert við Keili um Vatnskatla og í Kálffell, sem er lágt og frekar lítið áberandi fell.” Merkin eru gjarnan miðuð við Kálffell. Ágreiningurinn hefur hins vegar staðið um sneiðingin suðvestan við Kálffellið.
Ari Gíslason segir m.a. í örnefnalýsingu sinni um Voga: “Suður frá Vogunum lá æfaforn vegur sem nefndur er Sandakravegur. Hefur hann verið mikið notaður ef marka má það að sumstaðar eru þar djúp för niður í hraunklappirnar. Vegur þessi lá að Ísólfsskála í Grindavík… Ofanverðu við Stóru-Aragjá skiptist vegurinn og heitir sá vestri Skógfellsvegur. Krókar heitir svo á Stóru-Aragjá niður af felli því sem heitir Litla-Skógfell.”
Samkvæmt lýsingu Ara, sem var nákvæmnismaður í lýsingum sínum (skrifaði fremur stuttar lýsingar en lengri ef skipin lágu þannig) voru Skógfellavegirnir tveir. Það verður að þykja athyglisvert því löngum hefur önnur gata, auk Skógfellavegar, verið merkt inn á landakort. Sú gata á að hafa legið um Fagradal (Nauthólaflatir), Mosadali og inn á Skógfellaveginn (Sandakragötuna) á fyrrnefndum mörkum.
Í vettvangsferð um Skógfellaveginn (algerlega í hlutlausum gír) var hann fetaður frá Vogum allt að Litla-Skógfelli (4.7 km í beinni línu). Þegar hnit voru tekin við Litla-Skógfell og gengið til baka (eftir símtal við Ísleif) var ljóst að ganga þurfti ca. 1.5 km bakleiðis. Eftir 1.2 km var gengið út úr apalhrauni austasta hluta Sundhnúkagíga-raðargossins (frá ca. 1220) inn á slétt helluhraun (Skógfellahraunið, ca. 11.500 > 8000 ára). Þar var komið inn á sléttar hellur í hrauninu þar sem gamla gatan var vel mörkuð. Á einum stað, þar sem gatan beygir til suðurs, mátti telja augljóst að væru mörk. Þrátt fyrir ítarlega leit í skamman tíma var ekki hægt að finna þarna áletrunina “LM”. Ef góður tími væri gefin til leitarinnar mætti eflaust finna hana þarna. A.m.k. gaf staðsetningin tilfinningu fyrir einhverju væntanlegu.
Þegar staldrað var um stund á þessum stað virtist augljóst að um landamerki væri að ræða. Suðaustan við staðinn var skófvaxin varða með stefnu í Kálffell. Norðvestan við hann var hraunhóll með gróinni vörðu. Fjær hafði hella verið reist við með tilheyrandi stuðningi. Stefnan á framangreindu var á fyrrnefndan Arnarklett sunnan við Snorrastaðatjarnir.
Þegar kennileiti á línunni milli Kálffells og Arnarkletts voru skoðuð kom margt forvitnilegt í ljós. Hvarvetna eru fallnar grónar vörður á hólum, hæðum og á gjám eða ummerki um slíkt, s.s. uppreistar hellur, hringhleðslur o.fl. Á einum stað virtist augljóst að vörðu hafði verið raskað, af óljósri ástæðu.
Í landamerkjalýsingu Þórkötlustaða frá 1890, undirrituð af fulltrúum allra jarðanna og staðfest af sýslumanni, segir m.a. um markalínuna: “…sjónhending í toppinn á Stóra-Skógfelli, þá áfram sömu stefnu yfir Litla-Skógfell, að steini sem þar stendur við götuna, þaðan að Kálffelli… Einkennismark markalínunnar er L.M. er þýðir landmerki…”. Í lýsingunni er vitnað í landamerki frá 1270, endurnýjuðum 28. júní 1620.
Telja verður, af vettvangsferðinni lokinni, að landamerki Vatnsleysustrandar-hrepps og Grindavíkur hafi fyrrum legið um Arnarklett í Kálffell og þaðan í Vatnsfell-Hagafell (Vatnskatla). Því má telja, án efa, að Fagridalur og Nauthólaflatir hafi fyrrum tilheyrt Þórkötlustaðalandi, líkt og heimildir um selstöður (Dalssel) segja til um.
FERLIR hefur ógjarnan blandað sér í landamerkjamál og -deilur, hvort sem um er að ræða einstakar jarðir eða fyrrum hreppa. Í þessu tilviki verður þó varla hjá því komist sökum réttmæts rökstuðnings þess og þeirra er mest og best hafa kynnt sér málavexti.
Fljótlega verður farið aftur á vettvang og þá með Ísleifi Jónssyni með það fyrir augum að staðsetja L.M. merkið á hellunni við nefndan stein rétt við gömlu götuna, sem þar er enn mjög greinileg.
Þegar niður á neðanverða Vatnsleysustrandarheiðina kom mættu þátttakendum tokennilegt brak; sennilega af einhverjum beltabryndreka hernámsliðs fyrri tíðar.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín, enda voru gengnir 12.3 km með tilheyrandi frávikum fram og aftur um hraunhellurnar.
Heimildir m.a:
-Ísleifur Jónsson, f: 22.05.1927.
-Örnefnalýsingar fyrir Járngerðarstaði, Þórkötlustaði og Hraun.
-Landamerkjalýsing fyrir Vatnsleysstrandarhrepp.
_Landamerkjalýsing Þórkötlustaðahverfis 20. júní 1890.
-Vettvangsferð.