Færslur

Kristófer Bjarnason

Allt of lítið hefur verið gert að því að leita til eldri Íslendinga með það að markmiði að fá hjá þeim upplýsingar um æviskeið þeirra, sérkenni, breytingar, þróun og aðra vitneskju, t.a.m. um tilvist sjáanlegra minja, tilurð þeirra og notkun. Til eru sérstakar opinberar stofnanir, sem ætlað er að sinna þessu hlutverki, en betur mætti á halda en raun ber vitni.
Eggert KristmundssonÞann 23. nóvember s.l. [2007], stóðu Miðstöð munnlegrar sögu og Minni – félag um munnlegan menningararf fyrir ráðstefnu um byggðarsögu og munnlegar heimildir. Bar ráðstefnan heitið Raddir að heiman – Munnlegar heimildir í byggðarsögu og fór fram í Þjóðarbókhlöðu.
Ráðstefnuna hóf Friðrik G. Olgeirsson sem rakti sögu byggðarsöguritunar á 20. öld. Hann skýrði frá því að hlutur munnlegra heimilda í slíkum rannsóknum væri meiri en flesta renndi í grun. Margir kaflar í byggðarsögu tiltekinna héraða væru reyndar óritanlegir án þess að leitað væri til einstaklinga sem upplifað hefðu söguna á eigin skinni.
Næstur tók til máls Arnþór Gunnarsson. Hann skýrði frá því að fyrir all nokkrum árum hefði bæjarstjórn Hafnar ráðið hann til þess að taka viðtöl við eldri íbúa Hafnar. Verkefnið hefði þróast á þá leið að viðtölin urðu á endanum að tveggja binda verki um sögu Hafnar. Arnþór, sem er alinn upp á Höfn sagði að persónuleg tenging hans við svæðið hefði á margan hátt auðveldað honum vinnuna. Hann hefði þekkt til manna og málefna, staðarnafna og atburða. Það að tilheyra samfélaginu sem hann hafði til rannsóknar gerði það líka að verkum að hann átti greiðan aðgang að viðmælendum sínum. Náin tengsl rannsakandans og viðfangsefnisins höfðu sömuleiðis í för með sér að bæjarbúar voru ófeimnir við að hafa skoðun á vinnu Arnþórs og verklagi.

Gísli Sigurðsson er ágætt dæmi um frumkvæðissafnara

Unnur María Bergsveinsdóttir, verkefnastjóri Miðstöðvar munnlegrar sögu, gerði stöðu munnlegra heimilda að umtalsefni sínu þegar hún spurði “Hvað er í kössunum”? Hún benti á að eitt sérkenni sögu sé sá þáttur sem fræðimaðurinn á öllu jafna í sköpun þeirra heimilda sem hann eða hún vinnur með. Þetta sérkenni á reyndar sérstaklega við hinn íslenska fræðiheim, þar sem hingað til hefur verið erfitt hefur að nálgast munnlegar heimildir á annað hátt en með því að fara á stúfana með upptökutæki og taka viðtöl. Safn Árnastofnunar hefur lengst af verið eina aðgengilega safnið þar sem hægt er að nálgast munnlegar heimildir, en því efni sem þar er að finna er vitanlega fyrst og fremst safnað með þjóðfræðina í huga. Fyrir rétt rúmu ári síðan gerði Miðstöð munnlegrar sögu könnun á því hvað væri til af munnlegum heimildum á íslenskum söfnum og setrum og í ljós kom að til er töluvert magn slíks efnis. Vandinn er hinsvegar sá að þetta efni að mestu leyti óskráð og í ofanálág er aðgengi að því í mörgum tilvikum takmarkað. Unnur María ræddi niðurstöður könnunarinnar, benti á dæmi um athyglisverðar heimildir sem enn hefði ekki verið unnið með og útskýrði hversvegna það væri brýnt að samvinna takist milli allra þeirra sem að málinu koma um varðveislu og skráningu þessa efnis.
Margrét Jóhannsdóttir, kennari, sagði frá Þórður Bjarnason - mikil, en vanrækt heimildlokaverkefni sínu við KHÍ. Upphaf verkefnisins rekur hún aftur áranna 1990 – 92, en þá vann hún í litlu skólaseli stutt frá Borgarnesi. Aðstæður voru erfiðar og nemendur á mismunandi aldri. Ásamt þáverandi samkennara var hún í námi í KHÍ og átti að skila ritgerð í kennslufræðum og tilraunakenna efnið sjálf. Þær ákváðu að vinna verkefni um heimabyggðina og nefnduð það Sögur, líf og list á Mýrum. Efnið skiptist í marga þætti og tók til náttúrufræði, listsköpunar og sagnavinnu. Íslenskunámið féll í hlut Margrétar, en það átti að bjóða upp á fjölbreytt verkefni með listrænu ívafi. Þar vaknaði áhugi Margrétar á sagnahefðinni. Hún bendir á að mikilvægi þess að varðveita sagnir, vinnulag, búskaparhætti, samskipti, tækni og fleira verði okkur æ ljósara þegar við eldumst. Það sé nefnilega svo ótrúlega stutt í það að nútíðin verði fortíð, í þessu hraða samfélagi sem við lifum í. Sagnamenn týna tölunni, þeir eldast eins og aðrir og verða ekki endalaust á meðal okkar og það sé hverjum manni nauðsynlegt að þekkja fortíðina og þá þróun sem hefur átt sér stað í þjóðfélaginu.

Fólk vill sögulegan fróðleik

Í seinni hluta ráðstefnunnar var fulltrúum safna og stofnana boðið að kynna þau verkefni sem er annað hvort nýlokið, yfirstandandi eða í bígerð. Safnafólk hefur á síðustu árum orðið vart við stóraukinn áhuga almennings á sögu og menningu síns byggðarlags og á því að taka virkan þátt í sköpun eigin sögu í samvinnu við menningarstofnanir í héraði. Á sama tíma hefur tilkoma stafrænnar tækni og vefmiðlunar fjölgað þeim möguleikum sem eru á bæði söfnun og miðlun munnlegra heimilda. Þau ótal setur og þær fjölmörgu nýjar sýningar sem sprottið hafa upp síðustu ár eru glöggt merki um þessa þróun Byggðasagan skipar þar sterkan sess en jafnframt hefur áhugi á sértækari sögu t.d. atvinnuvega eflst.
Sigrún Ásta Jónsdóttir, forstöðumaður Byggðasafns Reykjanesbæjar skýrði frá áformum byggðasafnsins um að veita áhugasömum bæjarbúum þjálfun í töku viðtala og veita þeim aðgang að upptökutækjum í þvi skyni að safna frásögnum af svæðinu. [Hér gleymist að sinna þarf hinum áhugasömu því frumkvæðið kemur oftast frá þeim]. Þorsteinn E. Arnórsson frá Iðnaðarsafninu á Akureyri flutti erindi um starfssemi Iðnaðarsafnsins og mikilvægi munnlegra heimilda í starfi þeirra. Heiðrún Konráðsdóttir, sagnfræðingur skýrði frá rannsókn sinni á gamla samfélaginu í Flatey. Björg Erlingsdóttir, forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar, sagði frá því hvernig Menningarmiðstöðin hyggst nýta þær munnlegu heimildir sem þar eru varðveittar.
Ljóst er af framangreindu að áhugi byggðasafna og annarra launaðra “verkefnisstjóra” þeirra virðist fara vaxandi á því hlutverki sínu að sinna menningarsögu byggðalaganna með það fyrir augum að hún varðveitist komandi kynslóðum til handa – en enn er langt í land að sú staða skapist að aldrað fólk og annað fólk með þekkingu á viðfangsefninu fái tækifæri til að skýra arfleifð sína fyrir eftirlifendum.