Færslur

Keilir

Sesselja Guðmundsdóttir skrifar um Keili og nágrenni í bók hennar um “Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins)“.

Keilir

Keilir – Oddafell nær.

Rétt er að rifja upp að gefnum ástæðum, nú þegar það allt virðist vera að fara á hvolf, a.m.k. skv. umfjöllun fjölmiðla að undanförnu, þrátt fyrir aðrar slíkar þar í gegnum aldirnar. Starfsfólk Veðurstofunnar virðist hafa fengið ný tæki, sem það hefur límt augu sín við – teljandi skjálfta út og suður, án þess að við hin séum nokkurs nærri hvers er að vænta…
Svæðið, sem um er fjallað, geymir ekki einungis dýrmætar jarðminjar frá fyrri jarðsögutímabilum, heldur og miklar menningarminjar, sem flestum “talningarvísindamönnunum” hversdagsins virðast vera með öllu ómeðvitaðar…

Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd

“Frá Vestra-Lambafelli höldum við yfir svolítið hraunhaft og komum að Eldborg eða Katli en síðara nafnið er að finna í heimild frá Hvassahrauni. Eldborgin var fallega lagaður gígur um 20 m hár með djúpa og gróna gígskál. Borgin var á náttúruminjaskrá en er þar ekki lengur. Mikið efni hefur verið tekið úr gígnum allt frá því vegur var lagður þarna upp eftir og fram til dagsins í dag. Framkvæmdir við tilraunaborholur á svæðinu hafa tekið sinn toll úr Eldborg og er borgin nú sorglegt merki um aðför að náttúrugersemum. Jarðhiti er í og við borgina. Jón Jónsson jarðfræðingur segir í einni ritsmíð sinni: „Gosið í Eldborg er án efa með þeim síðustu á þessu svœði og sennilega hið síðasta. Það er yngra en Afstapahraun …” (Jarðfrœðikort af Reykjanesskaga, bls. 170). Hraunið er frá sögulegum tíma eins og fyrr segir.
Eldborgarhraun sem þekur tæplega fimm ferkílómetra rann upp að Lambafellum og síðan áfram norður og niður úr. Hraunið liggur m.a. að Mosum, Snókafelli og Sóleyjakrika (sjá síðar). Sumir kalla fyrrnefnt hraun Lambafellshraun en líklega er réttara að kenna það við Eldborgina sem það kom úr.
Trölladyngja (375 m) heitir vestari hnúkurinn og Grænadyngja (402 m) heitir sá eystri. Í fjallinu hefur fundist silfurberg.

Sesselja Guðmundsdóttir

Sesselja Guðmundsdóttir.

Milli Dyngna er skarð sem skipt er þversum aflágum hálsi og heitir hann líklega Söðull. Örnefnið Folaldadalir eða Folaldadalur hefur heyrst og þá notað um skarðið sjálft en þetta örnefni er einnig á Austurhálsinum. Þarna gæti verið um staðarugling að ræða eða þá hitt að sama örnefnið sé til á báðum hálsunum. Góð uppganga er um grasi grónar brekkur á báða hnúkana úr skarðinu.

Þegar upp er komið sjáum við vítt yfir, sérstaklega þó af Grænudyngju sem ber nafnið með sóma enda hnúkurinn grasi gróinn til efstu hjalla.

Út úr Grænudyngju til norðausturs gengur Dyngjuháls eða Dyngjurani og utan í honum er fjöldi gíga sem sent hafa hraunstrauma langt niður í Almenning.

Trölladyngja

Trölladyngja.

Jónsbrennur heitir hitasvæðið suður og vestur af Eldborg og þar sjáum við töluverða gufu á nokkru svæði. Ekki er vitað frá hvaða manni nafnið er komið. Menjar um gamla tilraunaborholu frá Orkustofnun má sjá ofan Jónsbrenna, fast við norðurrætur Trölladyngju.

Grænadyngja

Grænadyngja. Trölladyngja t.v. Sogin framar.

Næst förum við yfir Höskuldarvelli en það eru stórir vellir fast við vesturrætur Trölladyngju. Vellirnir eru rúmlega kílómetri að lengd en tæpur á breidd. Þeir urðu til við leirframburð Sogalækjar sem kemur úr hitasvæðinu Sogum (sjá síðar) og rennur norður um vellina.

Spákonuvatn

Spákonuvatn – Keilir fjær.

Ekki er vitað við hvaða mann vellirnir eru kenndir en líklega er þetta ævagamalt örnefni.
Sóleyjakriki heitir nyrsti endi vallanna þar sem graslendið teygir sig inn á milli hraunveggjanna langleiðina norður að Snókafelli (147 m). Fellið er landamerkjapunktur Vatnsleysu og Hvassahrauns. Samkvæmt orðabók merkir snókur fjallstindur eða klettastrýta og einnig rani eða tota. Fellið er umkringt hrauni á alla vegu en auðveldast er að komast að því um fjárgötu frá botni Sóleyjakrika. Eldborgarhraun liggur að krikanum að austanverðu en Afstapahraun að honum vestanverðum. Fast vestan við krikann liggur Höskuldarvallavegur sem fyrr er nefndur. Sogalækur hverfur niður í hraunið í Sóleyjakrika og þornar reyndar oftast upp á sumrin á miðjum Höskuldarvöllum.

Sóleyjarkriki

Sóleyjarkriki. Höskuldarvellir nær.

Á seinni hluta 18. aldar var rúmlega 20 hreindýrum sleppt lausum á Reykjanesfjallgarðinn og eftir miðja 19. öldina hafa þau líklega skipt hundruðum og dreifðust um fjöllin allt austur í Olfus. Vesturslóðir hreindýranna voru við og ofan Keilis og á árunum milli 1860-70 sáust, líklega á Höskuldarvöllum, um 35 dýr.

Hreindýr

Hreindýrshorn við Hjartartröð ofan Hafnarfjarðar.

Um aldamótin, eða þegar loks voru sett á lög um algjöra friðun, voru hreindýrin hér í fjöllunum útdauð og þá líklega vegna ofveiði enda veidd án takmarkana eða eftirlits í 33 ár.
Við vesturjaðar Höskuldarvalla er Oddafell sem Þorvaldur Thoroddsen kallar Fjallið eina og er það eina heimildin um þetta nafn á fellinu. Líklega er um nafnarugling að ræða hjá Þorvaldi því Fjallið eina er til á þessum slóðum eða nokkrum kílómetrum norðaustan við Dyngjur. Oddafell er lágt (210 m) en um þriggja kílómetra langt og í austurhlíðum þess, nokkuð sunnarlega, er jarðhiti.

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir.

Næst skoðum við tóftirnar af Oddafellsseli sem var frá Minni-Vatnsleysu en það liggur í vesturrótum fellsins skammt fyrir sunnan Höskuldarvallastíg (sjá síðar) þar sem hann beygir út í apalhraunið til vesturs. Þar sjást tvær-þrjár tóftir og einnig kvíahleðslur í hraunjaðrinum rétt sunnan við selið.
Keilir (378 m) er einkennisfjall Reykjanesskagans og fyrrum víðfrægt mið af sjó. Eftirfarandi vísa um Keili er eftir Jón Helgason frá Litlabæ í Vatnsleysustrandarhreppi.

Keilir fríður kennast skal,
knappt þó skrýði runnur,
fagran prýðir fjallasal
fyrr og síðar kunnur.
Þekkti ég siðinn þann afsjón
þekkan liði drengja
Keilir við um flyðrufrón
fiskimiðin tengja.
Sæfarendur reyna rétt
rata’ að lending heilir;
til að benda’ á takmark sett
tryggur stendur Keilir.

Keilir

Keilir. Rauðhólar nær.

Í lýsingu Kálfatjarnarsóknar frá árinu 1840 eftir séra Pétur Jónsson segir að sjófarendur kalli Keili Sykurtopp. Þetta er líklega samlíking við keilulöguð sykurstykki sem menn kölluðu sykurtoppa og voru á markaðnum áður en strásykur kom til sögunnar. Til gamans má geta þess að fjallið sem krýnir innsiglinguna í Rio de Janeiro í Brasilíu heitir Sykurtoppur en það fjall líkist ekki beint „Sykurtoppnum“ okkar. Einnig er til jökulfjall nálægt Syðri-Straumfirði á Grænlandi sem heitir Sykurtoppur.

Keilir

Keilir – séður frá Sogum.

Keilir varð til við gos undir jökli og strýtumynduð lögunin kemur til af gígtappa í honum miðjum sem ver hann veðrun. Fjallið er tiltölulega auðvelt uppgöngu og við pjökkum upp öxlina að austanverðu þar sem þúsundir fóta hafa markað leiðina. Nokkuð ofarlega í Keili er smá torfæra með klungri en stutt þaðan á toppinn. Á hverju ári koma nokkur hundruð manns á Keilistopp og pára nöfn sín í gestabók sem þar er. Það er víðsýnt af Keili og útsýn tilkomumikil til allra átta. Keilir, Höskuldarvellirnir og næsta nágrenni þessara örnefna eru á náttúruminjaskrá.

Oddafellsel

Oddafellssel.

Norðvestan undir Keili eru þrír móbergsstabbar og heitir sá nyrsti Hrafnafell (142 m) og er fellið nefnt í gömlum landamerkjalýsingum. Fellið dregur nafn af hrafnslaupi sem þar var og enn sjást merki um. Stabbarnir hafa verið kallaðir Keilisbörn og virðist það örnefni vera að festast í sessi. Það nafn var ekki notað af heimamönnum fyrrum.
Þorvaldur Thoroddsen notar örnefnið Keilisbörn yfir sömu hnúka í lýsingu sinni og það er einnig á landakorti frá árinu 1910. Á korti Fandmælinga Islands frá árinu 1989 heitir öxl Keilis Hrafnafell sem er jafnrangt. Skilyrðislaust ættu þau örnefni sem eigendur landsins notuðu og fmnast í gömlum landamerkjalýsingum alltaf að vera gildust á kort.

Keilir

Keilir og Keilisbörn, sem sumir nefna Hrafnabjörg.

Í sandhólunum vestur af Keili eru þrjú tófugreni sem kölluð eru Keilisgrenin.
Við austanvert Hrafnafell komu saman a.m.k. tveir stígar frá byggð. Þórustaðastígur er annar þeirra og liggur sá frá Kálfatjarnarhverfi upp heiðina yfir Vesturháls og allt til Vigdísarvalla. Hinn lá upp frá Kúagerði vestan við Afstapahraunið og upp undir Keili, við hann sjást vörðubrot á stöku stað.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Rauðhólsselsstígur lá frá Vatnsleysubæjum og í fyrstu útgáfu þessarar bókar er það nafin sett á götuna upp með Afstapahraunsjaðrinum frá Kúagerði en það er líklega rangt. Trúlega hefur selstígurinn legið beint frá bæ upp í selið eins og aðrar slíkir í hreppnum, ekki er vel ljóst hvar hann lá en þó hafa fundist ummerki um hann, t.d. fyrir neðan Kolhóla. Fólk frá Minni-Vatnsleysu sem nýtti selstöðu við Oddafell hefur líklega einnig notað Rauðhólsselstíginn upp undir það sel en haldið síðan áfram um nú nafnlausa götu upp heiðina og yfir í Oddafellssel. Leiðin upp frá Kúagerði virðist koma inn á Þórustaðastíginn á milli Grindavíkurgjár og Stóra-Kolhóls (Kolhóls) en þar hafa nýlega fundist einhver gatnamót.

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur.

Á korti frá 1936 sést Þórustaðastígur og gatan frá Kúagerði koma saman nokkru norðan Keilis sem stenst miðað við gatnamótin fyrrnefndu. Það er augljóst að töluverð umferð manna hefur verið fyrrum á þessum slóðum, vermenn, fólk á leið til og frá verslunarstöðum, t.d. Straumsvík og Vatnsleysu, fólk að sækja eldivið, fara til og frá seljum o.fl. Af heiðinni yfir hraunið að Oddafelli heitir svo Höskuldarvallastígur eða Oddafellsstígur og var sá notaður fyrrum af selfólki úr Sogaseli (sjá hér á eftir) og Oddafellsseli.
Nú á tímum er hluti hins upprunalega Höskuldarvallastígs genginn af fólki sem fer á Keili. Til þess að finna upphaf núverandi slóða við Oddafell göngum við spölkorn suður með vesturhlíð fellsins þangað til við komum á stíginn sem er mjög greinilegur þar sem hann liggur yfir 7-800 m breitt Höskuldarvallahraun en það liggur milli Oddafells og heiðarinnar austan Keilis.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Björns Gunnlaugssonar.

Á seinni tímum hefur gatan færst sunnar í heiðina og liggur nú að uppgöngunni á fjallið. Gamla selgatan er ekki sjáanleg lengur þarna á háheiðinni en þegar komið er spöl inn í hraunið greinist hún fljótlega út úr núverandi Höskuldarvallastíg og stefnir á selstæðið undir Oddafelli.

Breiðagerðisstígur

Breiðagerðisstígur.

Á uppdrættinum frá árinu 1831 eftir Björn Gunnlaugsson er merkt gata frá Breiðagerði og upp heiðina. Sú gata er sett inn á kortið sunnan Keilis að Driffelli og svo áfram sömu leið og Þórustaðastígur. Í fyrstu taldi ég að Björn hefði merkt Þórustaðastíginn rangt inn á kortið (þ.e. sett hann sunnan við Keili) en nú hefur komið í ljós nokkuð glögg vörðuröð, en óljós gata, þarna niður heiðina sunnan og vestan Keilis í átt að Knarrarnesseli. Leiðin er sérkennilega vörðuð með „lykilvörðum“ á áberandi stöðum með löngu millibili en á milli þeirra litlar „þrísteinavörður“. Sumstaðar þar sem „lykilvörðurnar“ eru sjást eins konar hlið á götunni, þ.e. lítil varða andspænis þeirri stóru og nokkrir metrar í millum. Gatan endar að því er virðist við Knarrarnessel þannig að þeir sem notuðu götuna hafa svo haldið áfram selstíginn en sá er óvarðaður að mestu.

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur við Selsvelli.

Á síðustu öld fóru bændur úr Brunnastaða-, Ásláksstaða- og Knarrarneshverfi með hrossastóðið til beitar í Fjallið þessa leið en þeir sem innar bjuggu á Ströndinni notuðu Þórustaðastíg. Þessi gata sem og Þórustaðastígur hafa ólíklega verið þjóðleiðir fyrrum heldur eingöngu notaðar af hreppsfólki.

Keilir

Litli-Hrútur; eldgos 2023. Keilir t.v.

Nokkurn spöl suðvestur af Keili, u.þ.b. tvo km, er lítil útgáfa af Keili sem heitir Nyrðri-Keilisbróðir og er annar Keilisbræðra. Þessi „bróðir“ er nefndur í landamerkjabréfum Knarrarness og Breiðagerðis frá árinu 1886.
Heimamenn hafa einnig notað nafnið Litli-Hrútur yfir þennan hnúk, þó sérstaklega í seinni tíð. Grindvíkingar nota örnefnið Litli-Keilir þannig að hnúkurinn ber í raun þrjú nöfn. Yngra fólk hér í hrepp er einnig farið að nota nafnið Litli-Keilir enda er hnúkurinn nefndur svo á mörgum kortum Landmælinga Íslands og gætir þar greinilega áhrifa frá Grindvíkingum. Fyrir neðan Nyrðri-Keilisbróður er Hjálmarsgreni í Hábrúnum en það eru hæstu hjallar gömlu hraundyngjunnar Þráinsskjaldar sem við förum um á eftir.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Nú færum við okkur upp fyrir Oddafell og Höskuldarvelli. Milli Trölladyngju og vallanna lá jeppaslóði fyrrum sem nú er orðinn fólksbílafær með rilkomu rannsóknaborana sem gerðar hafa verið sunnan Höskuldarvalla og við Sogalækinn uppi í hálsinum.

Sog

Sogadalur – Keilir framundan.

Vegurinn liggur upp gjallbrekku sem heitir Sogamelar. Þarna hafa orðið töluverð spjöll og breytingar á annars fallegu landi síðustu árin vegna tilraunanna.
Við höldum upp brekkuna og fylgjum Sogalæknum spöl inn í dalverpi sem heitir Sogaselsdalur eða Sogadalur. Þarna á vinstri hönd er stór gamall gígur sem heitir Sogaselsgígur eða Sogagígur og snýr hann opi til suðurs. Gígurinn er girtur skeifulaga hamrabeltum og mynda veggirnir því gott aðhald fyrir skepnur. Þarna var Sogasel frá Kálfatjarnarhverfi og jafnvel Krýsuvík. Margar kofatóftir eru innst í gígnum og kví undir vestari hamraveggnum.

Soagsel

Sogasel í Sogaselsgíg.

Frá Sogaseli förum við í Sogin, djúp gil sem greina Dyngjurnar frá fjöllunum sunnan til og liggja þau þvert um hálsinn. Á leiðinni sjáum við lítinn leirhver nokkuð hátt uppi í grasbrekku handan við Sogalækinn, skammt fyrir ofan efra borplanið. Fyrir neðan brekkuna eru nokkrir djúpir smágígar.

Sogin

Sogadalur – borplan.

Sogin eru 150-200 m djúp litrík leirgil sem mikill jarðhiti hefur verið í fyrrum og aðeins eimir af enn. Frá Sogum er auðveld uppganga á Grænudyngju. Göngufólk ætti að forðast í lengstu lög að ganga í leirnum þarna því hann hleðst undir grófmunstraða skósólana eins og steypa.
Á hálsinum suður og vestur af Sogum er Spákonuvatn og í misgengi rétt vestur afþví er minna vatn og til eru heimildir um Spákonuvötn og þá Stóra-Spákonuvatn og Litla-Spákonuvatn. Heimild er einnig til um Spákonudali og er þá átt við lægðirnar sem vötnin eru í. Þorvaldur Th. nefnir ekki Spákonuvatn en segir umrætt vatn heita Grænavatn og lýsir ítarlega gígafjöldanum sem liggur niður af vatninu til vesturs. Á landakorti frá árinu 1910 er það sama uppi á teningnum.

Grænavatn

Grænavatn.

Grænavatn, sem er stærra er Spákonuvatn, er til þarna á miðjum Vesturhálsi suður af Spákonuvatni og var fyrst sett inn á kort Landmælinga Íslands árið 1936. Vatnið er líklega í Krýsuvíkurlandi og því ekki talið með örnefnum í hrepps landinu. Stangveiðifélag Hafnarfjarðar hefur gert tilraunir með fiskirækt í Grænavatni.
Suður afSpákonuvatni förum við um móbergshryggi og stapa og hæst ber hvassa tinda sem heita Grænavatnseggjar (332 m). Eggjarnar eru nefndar í landamerkjalýsingu Þórustaða frá 1886.

Ofan og sunnan við Grænavatnseggjar er svo Grænavatn sem fyrr er nefnt.
Af Grænavatnseggjum höldum við svo niður á jafnsléttu aftur og að syðri enda Oddafells en spöl suður af honum er Hverinn eini sem nú er nánast útdauður.

Grænavatnseggjar

FERLIRsfélagar í Grænavatnseggjum.

Hverinn var sá stærsti á Reykjanesskaga fyrir aldamótin síðustu og árið 1888 þegar Þorvaldur Th. ferðaðist um svæðið segir hann hverskálina um 14 fet í þvermál: „… það er sjóðandi leirhver … Í góðu veðri sést gufustrókurinn úrþessum hver langt í burtu, t.d. glögglega frá Reykjavík.“

(Ferðabók I, bls. 181). Upp úr aldamótunum fór hvernum að hraka og árið 1930 var hann aðeins volg tjörn (frásögn heimamanns). Nú er þarna stórt hverahrúðurssvæði með smá dæld í miðið en aðeins til hliðar við það er lítið brennisteinsgufuauga í holu milli steina og á nokkrum stöðum umhverfis stíga daufir strókar til lofts.

Hverinn eini

Hverinn eini – brennisteinn.

Í Ferðabók Eggerts og Bjarna segir: „Hver þessi er kringlóttur og allstór, 7 álnir [1 alin = ca 57 cm] /þvermál og 4 álna djúpur, en nafnið ber aðeins einn hver, hinn stærsti af allmörgum heitum hverum og uppgönguaugum, sem liggja þar í þyrpingu … Hverinn eini ber nafn af því, að hann liggur einn út af fyrir sig.“ Og einnig: „Eitthvert fegursta bergið, sem jarðeldurinn á Suðurlandi hefir eftir sig látið, er lagskiptur, bráðinn sandsteinn. Það af honum, sem við fundum hjá Hvernum eina, er dálítið sérkennilegt tilbrigði.“ Menn segja einnig að „eini“ þýði sá frábæri eða einstaki.

Sagnir eru til um Útilegumannahelli nálægt Hvernum eina og í Vallaannál frá árinu 1703 segir: „… á Vatnsleysuströnd. Þar stálu þeir síðast í Flekkuvík og fóru svo til fjalls upp og allt suður um Selsvöllu; þar tóku þeir sér hœli undir skúta nokkrum, … Leizt þeim þá eigi að vera þar lengur, og fóru norður aptur með fjallinu í helli þann, er skammt er frá hverinum Eini. Voru þar síðan 3 vikur, og tóku 3 sauði þar í hálsunum, ræntu einnig ferðamann, …”.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Eins og sést er hverinn þarna nefndur Einir en það nafn sést ekki í öðrum heimildum og gæti verið misritun. Töluverð leit hefur verið gerð að hellinum en án árangurs. Samkvæmt munnmælum er hann lítill og ómerkilegur og sagt er að yfir opið hafi verið lögð hella til þess að forða fé frá því að lenda ofan í honum.

Driffell

Driffell.

Vestur af syðri enda Oddafells er fell úti í hrauninu sem heitir Driffell (254 m). Í fellinu finnst silfurberg og holufyllingar eru þar nokkuð áberandi. Við Driffell að austan og norðan liggur Þórustaðastígur en um hann var féð rekið úr fjallinu á haustin og eins var hestastóð rekið vor og haust um sama veg eins og komið hefur fram. Eins og fyrr segir liggur stígurinn frá Ströndinni upp alla heiðina, fram hjá Hrafnafelli, Keili og Driffelli og síðan upp og yfir hálsinn að Vigdísarvöllum. Þegar farið er um Þórustaðastíg á þessum slóðum þarf aðeins að fara yfir einn apalhrauntaum og liggur sá við Driffell að sunnanverðu.
Melhóll heitir hóll við Þórustaðastíg og stendur hann fast við hraunjaðarinn sem snýr að Keili. Hóllinn er mitt á milli Driffells og Keilis og á gömlum fjallskilaseðlum var mönnum gert að hittast á Melhól og þar var leitum síðan skipt. Nálægt Melhól eru tvö greni, annað er Driffellsgreni en hitt Melhólsgreni.

Trölladyngja

Trölladyngja.

Nafnið Driffell er sérkennilegt og gæti verið komið af nafnorðinu drif, (snjódrífa, fjúk) eða þá af sögninni að drífa eitthvað áfram, reka eitthvað áfram og gæti þá átt við fjárrekstur enda auðveldast að koma fénu yfir úfið hraunið með því að fara Þórustaðastíginn um Driffellsmóana. Á þessum slóðum er stígurinn einnig kallaður Driffellsstígur og hraunið umhverfis fellið Driffellshraun.

Selsvellir

Á Selsvöllum. Moshóll og Keilir fjær.

Við fylgjum stígnum frá Driffelli og yfir að Moshól sem er stór, reglulegur og skeifumyndaður gígur við norðurenda Selsvalla. Mosakápan á austurhlíð hólsins er mjög illa farin eftir hjólför „náttúruníðinga“ sem hafa fundið hjá sér þörf fyrir að aka sem lengst upp í hlíðina. Jón Jónsson jarðfræðingur segir að gosið úr Moshóli hafi líklega verið það síðasta í hrinunni sem myndaði Afstapahraun. Aðeins sunnar er annar svipaður gígur en þó minni. Örnefnið Moshóll er nýtt af nálinni.
Næst komum við að fallegasta gróðursvæðinu á öllum Reykjanesskaganum en það eru Selsvellirnir sem liggja meðfram endilöngu Selsvallafjalli (338 m) að vestanverðu. Fjallið greinist frá Grænavatnseggjum af smá dalverpi eða gili en um það liggur Þórustaðastígurinn upp á fjallið. Vellirnir eru um 2 kílómetrar að lengd en aðeins rúmlega 0,2 á breidd.

Moshóll

Moshóll norðan Selsvalla.

Á Selsvöllum var selstaða frá bæjum í Grindavík og í sóknarlýsingu séra Geirs á Stað frá árinu 1840 er sagt að allir bæir í sókninni nema Hraun hafi þar í seli. Jafnframt segir um sel Staðar í Grindavík: „Stendur selið í Strandarmannalandi, eður fyrir norðan Grindavíkur landamerki.“

Selsvellir

Selsvellir – Selsvallalækur. Moshóll fjær.

Kúalágar heitir lítið dalverpi sem gengur út úr nyrsta hluta Selsvalla að ofanverðu. Á milli Kúalága og Sogalækjar er aragrúi gíga bæði stórra og smárra og þar tala Grindvíkingar um Bergsháls en það er malarhryggur sem gengur út úr Vesturhálsi neðan Grænavatnseggja. Örnefnin í þessum hluta Vatnsleysustrandarhrepps eru að mestu leyti komin frá Grindvíkingum sem eðlilegt er því þarna störfuðu þeir sumarlangt, líklega um aldir. Tveir lækir, Selsvallalækir, renna um vellina en hverfa svo niður í hraunjaðarinn sem afmarkar þá til vesturs. Sá nyrðri kemur úr gili fast sunnan Kúalága en sá syðri rennur fram drjúgum sunnar og nálægt Selsvallaseli. Seltóftirnar kúra í suðvesturhorni vallanna fast við hraunkantinn og þar virðast hafa verið þrjár kofaþyrpingar, líklega frá jafnmörgum bæjum og tvær nokkuð stórar kvíar nálægt þeim. Úti í hrauninu sjálfu fast við fyrrnefndar tóftir er ein kofatóft til og lítil kví á smá grasbletti.

Selsvellir

Á Selsvöllum – seltóft.

Í bréfi frá séra Geir Bachmann á Stað í Grindavík til biskups árið 1844 kemur fram að sumarið áður hafi sjö búendur úr Grindavíkurhreppi í seli á völlunum og að þar hafi þá verið um 500 fjár og 30 nautgripir. Út frá selstæðinu liggur selstígur til Grindavíkur í átt að Hraunsels-Vatnsfelli. Á milli selsins og fellsins sjást djúp hófför í klöppum sem segja okkur að um stíginn hefur verið mikil umferð fyrrum og að hann hafi m.a. verið hluti svonefndra Hálsagatna sem Bjarni Sæmundsson nefnir í skrifum.
Jeppaslóðin liggur með fjallinu og Ijót hjólförin marka endilanga gróðurvinina og þó sérstaklega þar sem lækirnir renna fram. Upp við fjallshlíðina, fast norðan við syðri lækinn, eru eldgamlar tóftir svo grónar að ekki sér í stein og eru þrjár þeirra ofan við vegarslóðann en líklega tvær neðan hans.

Driffell

Driffell.

Fyrir sunnan Selsvelli taka svo Þrengslin við en þau draga nafnið af því að þar er þrengst á milli hrauns og hlíðar. Líklega ná Þrengslin yfir nokkuð langt svæði til suðurs. Í sóknarlýsingunni frá árinu 1840 sem nefnd er hér á undan eru hreppamörkin sögð um Þrengsli og í Framfell (356 m).

Framfell

Framfell. Trölladyngja framundan.

Fellið var kallað Vesturfell af ábúendum Vigdísarvalla en sá bær var austan við Vesturhálsinn. Sóknarlýsingin er eina heimildin um þessi nöfn og e.t.v. væri einhver til með að deila um staðsetningu Framfellsins því annað ámóta fell er þarna rétt austar og innar á hálsinum (285 m). Ef kort og loftmyndir eru skoðaðar með sóknarlýsinguna að leiðarljósi sést þó glöggt að lýsingin á við vestara og fremra fellið, þ.e.a.s. það sem er nær Grindavík. Frá Vigdísarvöllum sést Vesturfell í stefnu 290 gráður eða rétt norðan við hávestur en hinn hnúkurinn sést ekki frá bæjarstæðinu. Á Framfelli er varða.
Nú höldum við eftir fjárgötum vestur með mörkum yfir nokkuð slétta hraunfláka sem heita Skolahraun en flákarnir draga líklega nafn sitt afskollitnum sem á þeim er.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni – kort.

Hraunsels-Vatnsfell (261 m) eða Hraunsvatnsfell verður næst á vegi okkar en um það liggja hreppamörkin samkvæmt elstu heimildum. Í toppi fellsins er stór gígur. Nokkur háls gengur út úr fellinu til norðurs og í honum er lítill gígur með vatni og dregur fellið líklega nafn sitt af því.

Hraunsels-Vatnsfell

Vatnsstæði í Hraunssels-Vatnsfelli.

Við gíginn var stór varða sem Ísólfur bóndi á Ísólfsskála við Grindavík hlóð en hún var hrunin að hluta árið 2005. Annað svipað vatnsstæði er þarna skammt frá. Í elstu heimildum er nafn fellsins Hraunsels-Vatnsfell en Hraunssel var í Þrengslum sunnan landamarkanna.
Frá Hraunsels-Vatnsfelli höldum við að Syðri-Keilisbróður (310 m) sem er þá hinn Keilisbróðirinn og eftir elstu heimildum að dæma er þessi bróðir einnig í hreppslandinu. Eins og nyrðri bróðirinn (sem nefndur var í tengslum við Keili) ber þessi hnúkur fleiri nöfn en eitt og hér í hrepp hefur hann einnig verið kallaður Stóri-Hrútur en af Grindvíkingum Litli-Hrútur.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Frá Syðri-Keilisbróður göngum við upp á gljúpu mosahraunbunguna Þráinsskjöld (240 m) sem nefnd er í kaflanum Heiðar og hraun. Í toppi Þráinsskjaldar eru nokkrir stórir, djúpir, grasi grónir gígar. Sá stærsti er um 200 m á lengd og tæpir 100 m á breidd og heitir Guðbjargarlág en Grindvíkingar kalla hann Guðrúnarlág.

Fagradals-Vatnsfell

Vatnsból í Fagradals-Vatnsfelli.

Nú hallar undan af Þráinsskildi í átt að Hagafelli (270 m) eða Fagradals-Hagafelli og útsýnið er ótrúlega vítt til þriggja átta. Landamörk hreppsins eru í elstu heimildum sögð í nyrðri rætur fellsins en nýrri heimildir segja þær í Vatnskatla, það eru litlir gígar með vatni í á nyrðri brún Vatnsfells (248 m) eða Fagradals-Vatnsfells. Hér í hreppi voru fell þessi aðeins kölluð Hagafell og Vatnsfell en Grindvíkingar þurftu að aðgreina þau frá öðrum fellum í sínu landi með sömu nöfnum og því skeyttu þeir Fagradals- framan við. Á kortum Landmælinga Íslands gætir áhrifa Grindvíkinga mun meira en heimamanna hvað snertir örnefnin á eða við markalínuna á þessum slóðum.
Fellin tvö, Hagafell og Vatnsfell, eru „samvaxin“ og tengjast Fagradalsfjalli (391 m) til suðvesturs. Hraunstraumur úr Þráinsskildi hefur runnið á milli Fagradalsfjalls og Vatnsfells.

Selsvellir

Selsstígurinn að Selsvöllum.

Hrafnabjörg eða Hrafnaklettar heita klettar sem skaga út úr austurhluta Fagradalsfjalls fyrir ofan Vatnsfell og þeir eru áberandi séðir frá Vogum og Strönd. Þeir voru fiskimið í svokallaðri Gullkistu undir Vogastapa en veiðislóðin var nefnd svo vegna mikillar fiskigengdar fyrr á öldum.

Keilir

Keilir og nágrenni.

Áður en við endum ferðina er sjálfsagt að koma við í Dalsseli í Fagradal en dalurinn liggur í krika við nyrðri rætur Fagradalsfjalls og dregur fjallið nafn sitt af honum. Það gæti verið að Fagridalur og þá einnig hluti fjallsins haft tilheyrt hreppnum fyrir margt löngu og þess vegna fá þessi örnefni að fljóta með í lýsingunni. Í Jarðabók 1703 segir um selstöðu Stóru-Voga: «…aðra vill hún eigna sjer þar sem heitir Fagridalur, en þar um eru misgreiningar, því Járngerðastaðarmenn í Grindavík vilja eigna sér þessa selstöðu.“

Dalssel

Dalssel í Fagradal.

Fagridalur má muna sinn fiífil fegurri því nú er hann lítið annað en moldarflög og stendur að engu leyti undir nafni. Nokkuð djúpur lækjarfarvegur liggur úr fjallinu og niður í „dalinn” sem er flatlendi með allháum hraun- og gjallkanti við nyrðri brún. Seltóftirnar eru fast við lækjarfarveginn að sunnan, nálægt rótum fjallsins, og þar sjást tvær-þrjár kofatóftir. Líklega hefur verið mjög gott selstæði þarna meðan dalurinn var grösugur og vatn í farveginum. Fagridalur er á náttúruminjaskrá.

Keilir

Keilir – kort.

Rauðgil heitir gil í fjallinu sunnan Fagradals og er kallað svo vegna rauðamels sem þar er. Gilið er sagt á hreppamörkum í markalýsingu Jóns Daníelssonar bónda í Stóru-Vogum.
Hér lýkur ferð okkar um hreppslandið. Við getum líklega verið sammála um það að svæðið sem við fórum um síðast er það fjölbreytilegasta og fallegasta sem til er í Vatnsleysustrandarhreppi og líklega á öllum Reykjanesskaganum.”

Heimild:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins, Sesselja Guðmundsdóttir, 2007, bls 123-143.

Fagradalsfjall

Stóri-Hrútur í Fagradalsfjalli.

Reykjanesskagi

Helgi Páll Jónsson skrifaði ritgerð um “Eldfjallagarð og jarðminjasvæði á Reykjanesskaga” við jarðvísindadeild Háskóla Íslands 2011. Hér má sjá þann hluta af ritgerðinni er fjallar um einstaka staði innan slíks svæðis:
Eldfjallagarður“Í ritgerðinni er fjallað um jarðminjasvæði á Reykjanesskaga í tengslum við uppbyggingu eldfjallagarðs á svæðinu. Farið er yfir landfræðilega legu skagans, jarðfræðirannsóknir og fjallað almennt um ástæður eldvirkninnar. Helstu jarðmyndunum eldfjallalandslagsins er lýst og fjallað er um jarðfræðilega fjölbreytni, jarðfræðilega arfleifð og jarðfræðitengda ferðaþjónustu sem mun gegna veigamiklu hlutverki í eldfjallagarði verði hann byggður upp á svæðinu. Megininntak ritgerðarinnar er lýsing á 14 jarðminjasvæðum á skaganum sem kæmu til greina sem lykil- eða ítarsvæði í eldfjallagarði, verði ákveðið að skipuleggja hann úr frá slíku svæðisvali.

Reykjanes

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræði.

Reykjanes er í jarðfræðilegu tilliti merkasta svæðið á Reykjanesskaga, þar sem Atlantshafshryggurinn rís úr sæ. Í fjörunni vestur af Valahnúkum er að finna rofnar gígleifar sem eru til marks um sprungugos sem varð bæði í sjó og á landi samtímis. Magnús Á. Sigurgeirsson hefur lýst þessum gosviðburðum í grein sinni um yngra Stampagosið á Reykjanesi sem átti sér stað í goshrinu Reykjaneselda um 1226, en Magnús byggir rannsóknir sínar einkum á athugunum á gjóskulögum. Frá gígunum sem kallast Stampagígar-Yngri er Yngra-Stampahraunið runnið, en það er yngsta hraunið á svæðinu. Í þessu gosi myndaðist einnig Miðaldalagið sem er útbreitt gjóskulag á Reykjanesskaga og þykkast við Reykjanes.
StamparYngri-Stampagígar tilheyra gígaröð sem er sú vestari af tveimur gígaröðum sem þarna ganga inn til landsins frá sjónum, en gosvirkni hefur verið bundin við hana síðustu tvö þúsund árin á meðan ekki hefur gosið á hinni austari í þrjú þúsund ár. Gígaraðirnar stefna í NA-SV frá Kerlingarbás og inn til lands og fylgja þannig algengustu stefnu sprungna á Reykjanesskaga.

Reykjanes

Reykjanes – loftmynd.

Gígarnir í austari gígaröðinni nefnast Stampagígar-Eldri og frá þeim hefur Eldra-Stampahraunið runnið. Víðáttumesta hraunið á Reykjanesi nefnist Tjaldstaðargjárhraun. Það er skammt austur af Eldra-Stampahrauni og hefur runnið frá gígum sem eru í beinu framhaldi af Eldri-Stampagígum. Rannsóknir með gjóskulögum og geislakoli hafa leitt í ljós að þessi síðastnefndu hraun hafa að öllum líkindum myndast í gosum fyrir um 2000 árum en Tjaldstaðagjárhraun hefur þó runnið eitthvað fyrr en Eldra-Stampahraunið.

Skálafell

Skálafell á Reykjanesi.

Á Reykjanesi eru tvær dyngjur sem eru af ólíkum aldri en þó líklega báðar myndaðar í upphafi nútíma. Stærri dyngjan er Skálafell og basaltið í henni er af ólivínþóleiít gerð. Frá Skálafelli hafa hraun runnið ofan á hraun eldri dyngjunnar sem nefnist Háleyjarbunga, en í henni er basaltið af pikrít gerð. Í fjörunni austan við Háleyjarbungu hefur sjórinn rofið dyngjuna og má þar sjá afar fróðlegar opnur sem gefa innsýn inn í hvernig dyngjan er byggð upp. Háhitasvæði er á Reykjanesi og kemur að vel fram á yfirborði en þar er að finna hveravirkni og litskrúðugar ummyndanir á yfirborði.

Gunnuhver

Gunnuhver á Reykjanesi.

Háhitasvæðið er nýtt af Hitaveitu Suðurnesja sem þarna hefur sett upp jarðvarmavirkjun en inni í húsakynnum hitaveitunnar er sýningarsalur þar sem er orkusýning. Saltverksmiðja var reist á þessu svæði eins og áður hefur verið minnst á en hún er ekki í rekstri og eru mannvirkin sem henni fylgja eru nokkuð lýti á þessu svæði.
Mælt er með Reykjanesi sem jarðminjasvæði í eldfjallagarð fyrst og fremst vegna sérstakrar jarðfræðilegrar legu og tengsla við Atlantshafshrygginn en ekki síður vegna fróðlegra jarðmyndana sem þar er að finna.

Önglabrjótsnef

Önglabrjótsnef – Karlinn fjær.

Í fjörunni skammt vestan Valahnúks má fá innsýn í hvernig jarðlög hlaðast upp við neðansjávargos eða Surtseysk gos (nefnd eftir gosinu sem myndaði Surtsey árið 1963) sem mynda gjóskugíga af hverfjallsgerð. Söguleg hraun, dyngjur, gígaraðir og háhitasvæði eru á svæðinu og er landslagið allt mjög mótað af mikill eldvirkni. Auk þess gefst þarna kostur á að kynna sér nýtingu jarðhitans vegna jarðhitavirkjunarinnar sem þar er til staðar. Sprungumyndunin á svæðinu er lýsandi fyrir gliðnun milli jarðskorpufleka og eru fá svæði á jörðu, fyrir utan Afar sigdalinn í Austur-Afríku, þar sem jafn auðvelt er að skoða slíkar jarðfræðilegar aðstæður. Fremur auðvelt aðgengi er víða um Reykjanes, en um það liggja vegir og slóðar og eru til að mynda bílastæði og upplýsingaskilti til staðar við Valahnúk og útsýnispallar við húsakynni orkuveitunnar.

Hafnarsandur

Sandvík

Stóra-Sandvík.

Á Hafnarsandi rétt austan við Stóru-Sandvík, er svæði þar sem sprungur eru sérstaklega áberandi á yfirborði. Sprungurnar liggja í dyngjuhraunum sem runnið hafa frá Sandfellshæð í austri og Langhól rétt norðan við svæðið. Landrekið hefur síðan opnað sprungur í hraunið þar sem gjár hafa myndast. Gjárnar eru breiðar, nokkrar rúmir 40 m á breidd en dýptina er erfiðara að ákvarða þar sem margar þeirra eru að fyllast af sandi, en á þessu svæði er sandfok mikið og hraunið víðast hvar orðið slípað og matt vegna sandroksins. Sprungusvæðið liggur einnig í grágrýtishrauni frá dyngjunum Berghól norðan við svæðið og frá dyngjunni Sandfellshæð sem nánar verður fjallað um síðar. Val á þessu svæði fyrir eldfjallagarð byggðist fyrst og fremst á hinum sýnilegu og stórbrotnu sprungum sem þar eru.

Reykjanes

Reykjanes – “Brú milli heimsálfa”.

Talið að svæðið gæti vel hentað vel til að gera grein fyrir gliðnun jarðskorpuflekanna og þeim ferlum sem því fylgja. Önnur helsta ástæða fyrir vali svæðisins er að þarna hefur þegar verið komið upp aðstöðu fyrir ferðamenn með hinni svonefndu Álfubrú, sem er göngubrú yfir eina sprunguna og einskonar minnisvarði um flekaskilin á Reykjanesskaga. Við brúnna hefur verið komið fyrir bílastæði sem gerir svæðið mjög aðgengilegt og er það þegar orðin að vinsælum viðkomustað á Reykjanesskaga. Svæðið gæti einnig hentað vel sem æfingasvæði í sprungukortlagninu t.d. fyrir jarðfræðinema.

Eldvörp-Sandfellshæð

Eldvörp

Eldvörp – gígaröð.

Eldvörp er stórbrotin gígaröð sem liggur norðvestur af Grindavík. Hún stefnir NA-SV og er hún um 10 km á lengd. Dyngjan Sandfellshæð liggur rétt vestur af gígaröðinni, en hún er stærsta og reglulegasta dyngja á utanverðum Reykjanesskaga.
Norðan Sandfellshæðar er Sandfell sem er lítið fell, að mestu úr bólstrabrotabergi og þar norðan við er svo önnur dyngja er nefnist Lágafell. Hraun á Eldvarpasvæðinu tengjast eldgosum frá tveimur tímaskeiðum eldsumbrota. Á fyrra tímaskeiðinu hefur hraun runnið frá Sandfellshæð, líklega í upphafi nútíma eða fyrir 12.500 árum síðan. Ofan á Sandfellshæðarhraunið leggst síðan Eldvarpahraunið, sem runnið hefur frá gígaröðinni og hafa rannsóknir sýnt fram á að þetta hraun rann í Reykjaneseldum.

Eldvörp

Eldvörp.

Reykjaneseldar geisuðu á tímabilinu 1211-1240, en Eldvarpahraun er líklega frá árinu 1226 líkt og Stampahraun-Yngra á Reykjanesi, Arnarseturshraun og Illahraun við Svartsengi. Sandfellshæðardyngja er eldri en dyngjan Lágafell, því hraun frá Sandfellshæð hafa runnið yfir hraun frá Lágafelli. Lágafell er pikrít-dyngja líkt og Háleyjarbunga á Reykjanesi.

Svæði við Eldvörp og Sandfellshæð voru valin sem jarðminjasvæði í eldfjallagarð af nokkrum ástæðum. Þar er til dæmis einfalt að sýna fram á ákveðna tímaröð jarðlaganna á svæðinu og bera kennsl á hvernig mismunandi eldvörp hafa gosið á mismunandi tíma.

Eldvörp

Eldvörp – borstæði.

Önnur ástæða er hin langa og stórbrotna gígaröð sem liggur á svæðinu en hún hefur að mati höfundar hátt verndargildi en er þó ekki friðuð sem náttúruvætti. Skammt austur af Sandfellshæð liggur háhitasvæði í gígaröðinni og er þar að sjá gufuaugu og ummyndunarskellur í gígunum. Þar hefur nú verið sett niður borstæði þar sem er blásandi jarðhitahola, en af henni er talsverður hávaði sem gefur til kynna orkuna á svæðinu. Borframkvæmdum hefur fylgt vegalagning þannig að auðvelt aðgengi er að háhitasvæðinu auk þess sem gönguleið liggur meðfram gígunum og gerir göngu um umhverfi gígana einfalda.

Sandfellshæð

Sandfellshæð.

Þarna er mikill fjölbreytileiki gjall- og klepragíga, og hraunmyndana sem vert er að skoða. Svæði í kringum Eldvarpagígaröðina og Sandfellshæðardyngju er tiltölulega afskekkt þótt stutt sé í bæði í Grindavíkurkaupstað og baðstaðinn Bláa lónið sem er einn vinsælasti viðkomustaður ferðamanna á Reykjanesskaga.
Það væri því mögulegt að vekja meiri athygli á fróðlegu jarðfræðilegu umhverfi svæðisins t.d. fyrir þá ferðalanga sem viðkomu hafa í baðstaðnum vinsæla.

Hrólfsvík-Festarfjall

Hrólfsvík

Hrólfsvík.

Hrólfsvík er grýtt fjara sem liggur innan stærri víkur, Hraunsvíkur, skammt austur af Grindavík. Rétt norður af þessu svæði eru Vatnsheiðardyngjur, en þær eru sömu gerðar og dyngjurnar Háleyjarbunga á Reykjanesi og Lágafell norðan Sandfellshæðar þar sem bergtegundin er pikrít basalt. Í Hrólfsvík er að finna hraunlag úr pikríti sem inniheldur talsvert magn af hnyðlingum (eða framandsteinum) úr djúpbergstegundinni gabbrói, en þeir hafa borist upp um gosrás við eldgos. Undir hraunlaginu er einnig móbergslag þar sem töluvert er um samskonar hnyðlinga.

Hnyðlingur

Hnyðlingur í Hrólfsvík.

Hnyðlingar eru rannsóknarviðfangsefni innan bergfræðinnar þar sem þeir eru taldir veita upplýsingar um uppruna úthafsbasalts (úthafsþóleiíts). Um bergfræðilega tilurð hnyðlingana í Hrólfsvík hefur Ingar A. Sigurðsson ritað í námsritgerð sína og skal nánar vísað til skrifa hans um það efni. Hnyðlingar finnast reyndar víða á Reykjanesskaga, en hvergi munu þeir þó finnast í jafnmiklum mæli og í Hrólfsvík. Ekki er nákvæmlega vitað hvaðan hraunlagið í Hrólfsvík er komið en það gæti verið komið frá Vatnsheiðardyngjum norðan við víkina, eða verið rofleif af gamalli eldstöð sem að tengist Festarfjalli skammt austur af víkinni og sjórinn hefur nú brotið niður.

Festarfjall

Festarfjall og Ægissandur.

Þegar gengið er austur eftir Hraunsvíkinni frá Hrólfsvík, er komið að móbergsklettum með mjórri sandfjöru neðan við sem nefnist Hraunssandur eða Ægissandur.
Skammt austar er Festarfjall, sem er 190 m hátt og rofið af sjónum til hálfs. Rétt við Festarfjall er hægt að komast niður í sandfjöruna og má þar sjá fróðlegar jarðmyndanir, s.s. rauðleit gjalllög sem hraun hefur runnið yfir, jökulberg, bergganga, auk jarðlagastafla þar sem skiptast á basalthraun og móbergslög frá jökulskeiðum og hlýskeiðum ísaldar.

Festarfjall

Festarfjall – berggangur.

Hrólfsvík er valin sem svæði í eldfjallagarð fyrst og fremst vegna hnyðlinganna sem eru bergfræðilega forvitnilegir og varðveita ákveðna upplýsingar um kvikuna og bergið sem upp kemur í eldgosum á skaganum. Víkin og umhverfi hennar er því fróðlegur staður og þá sérstaklega fyrir fræðimenn á sviði bergfræði og skyldum greinum. Fjaran við Festarfjallið er afar fróðleg vegna jarðlaganna sem þar er að finna auk þess sem hún er skemmtilegt göngusvæði, en sjávargangur verður þó að vera með minnsta móti. Aðgengi að fjörunni þyrfti að bæta ef svæðið ætti að verða aðdráttarafl í eldfjallagarði og fara skyldi með varúð undir háa klettana þar sem talsverð hætta er þarna á grjóthruni og augljós ummerki eru um hrun úr Festarfjalli og móbergsklettunum ofan fjöruna.

Méltunnuklif
Méltunnuklif kallast svæði á milli Grindavíkur og Krýsuvíkur sem liggur í Ögmundarhrauni. Svæðið lætur ekki mikið yfir sér, en við akveginn sem liggur framhjá því er opna þar sem finnast nokkuð athyglisverðar jarðmyndanir.

Méltunnuklif - misgengi

Méltunnuklif- misgengi.

Í rannsóknum sínum á jarðfræði Reykjanesskaga hafa jarðfræðingarnir Jón Jónsson og Freysteinn Sigurðsson sérstaklega lýst jarðlögum við Méltunnuklif. Í opnunni er að finna þrjú grágrýtishraunlög og að minnsta kosti tvö jökulbergslög inni á milli þeirra. Efst í þessum jarðlagastafla er svo að finna móberg.
Hraunlögin eru jökulrákuð við efri lagmót. Méltunnuklif geymir því nokkrar „blaðsíður” í jarðsögu Reykjanesskagans ef svo má að orði komast.

Méltunnuklif

Méltunnuklif – gamla þjóðleiðin til Krýsuvíkur.

Jökulbergið ber vitni þess, að minnsta kosti tvisvar sinnum hafa jöklar gengið yfir þetta svæði. Hraunlögin benda til að svæðið hafi síðan orðið íslaust og eldgos með tilheyrandi hraunrennsli hafi átt sér stað.
Móbergið efst í syrpunni bendir til að jöklar hafi gengið yfir svæðið í þriðja skipti og eldsumbrot hafi orðið undir jökli. Í þessari opnu eru því ummerki um þrjú hlýskeið og þrjú jökulskeið sem orðið hafa á Reykjanesskaga. Önnur sérkennileg myndun á þessu svæði er misgengi og djúp gjá í Katlahrauni, sem rekja má um 2 km til suðvesturs frá opnunni.

Mælifell

Skála-Mælifell.

Í Skála-Mælifelli sem liggur rétt vestur af Méltunnuklifi er einnig að finna jarðsögulega merkilegt hraunlag með öfuga segulstefnu, tengda er við skammlífan viðsnúning í segulstefnu jarðar fyrir um 43 þúsund árum. Hefur hraunið því runnið um það leyti. Þessi viðsnúningur segulsviðsins er kenndur við Laschamp í Frakklandi, en þar finnast jarðlög tengd þessu skeiði auk þess sem þau finnast á Nýja-Sjálandi og víðar.

Keilir-Keilisbörn

Keilir

Keilir og Keilisbörn.

Keilir er líklega þekktasta fjall á Reykjanesskaga, en fjallið er mjög reglulega lagað og formfagurt á að líta. Hæð fjallsins er þó ekki mikil, eða 379 m yfir sjó.
Keilir er myndaður við gos undir jökli, sennilega á stöku gosopi eða stuttri sprungu þar sem hann er hvorki stapa- eða hryggjarmyndun. Fjallið stendur upp úr Þráinsskjaldarhrauni og sker sig nokkuð úr fjallamyndinni þegar horft er yfir Reykjanesskaga úr fjarska. Norðan Keilis eru lægri hnúkar sem nefnast Keilisbörn og eru einnig úr móbergi. Á toppi fjallsins hefur verið komið fyrir útsýnispalli og gestabók en útsýni af toppi fjallsins er afar mikið yfir Reykjanesskaga.

Keilir

Keilir og Keilisbörn.

Í Keili og Keilisbörnum er ekki mikil fjölbreytni jarðmyndana þar sem fjallið er að öllu leyti gert úr móbergi. Þegar hinsvegar móbergið er skoðað nánar og þegar gengið er niður fjallið að norðanverðu eru talsvert fjölbreytt rofform í móberginu og áhugavert að skoða samsetningu þess.
Keilir er valin sem jarðminjasvæði inn í eldfjallagarð einkum vegna þess að hann er einkennisfjall á Reykjanesskaga og vekur mikla eftirtekt vegna forms síns vegna. Hann hefur þannig einnig nokkuð táknrænt gildi fyrir Reykjanesskagann auk þess að vera vinsælt göngufjall og útivistarsvæði sem auðvelt er að komast að.

Trölladyngja-Sog

Trölladyngja

Á Trölladyngju.

Trölladyngja er fjall norðarlega í vesturhluta Núpshlíðarháls, en hún liggur rétt austur af Höskuldarvöllum og er vel gróið svæði. Norðan við Trölladyngju er Eldborg, gígur sem nú er löngu skemmdur vegna efnistöku. Skammt sunnan við Trölladyngju er nokkur lægð í landslagið og er þar litskrúðugt háhitasvæði sem kallast Sog og er grasi gróið allt um kring. Í Sogunum er ekki mikil yfirborðsvirkni jarðhita en fróðlegar rofmyndanir er þar að finna í ummynduðu berginu. Þegar gengið er upp úr Sogunum að sunnanverðu og haldið til austurs, fæst útsýni yfir Móhálsadal á milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls.

Sogin

Sogin.

Eldfjallalandslagið í dalnum er tilkomumikið og þar er mikið um fjölbreytileg eldvörp, gíga, gígaraðir og nútímahraun. Hugsanlega er eitt tilkomumesta útsýni fyrir eldfjallalandslagið á Reykjanesskaga á þessu svæði. Þarna eru nokkur minniháttar stöðuvötn eða tjarnir í landslaginu. Djúpavatn liggur í dalverpi skammt suðaustur af Sogum og minni vötn sem nefnast Grænavatn (sunnar) og Spákonuvatn (norðar) liggja upp á hálsinum sjálfum en líklega hefur eldgos úr gíg stíflað upp lítið dalverpi og myndað tjörnina sem kallast Spákonuvatn.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Vestan við Núpshlíðarhálsinn er eldfjallalandslagið ekki síður tilkomumikið. Þar er til að mynda að finna einn sérstæðasta gíg á Reykjanesskaga er Jón Jónsson hefur nefnt Moshól.
Gígurinn er afar reglulegur og stendur mosavaxin upp úr grasi grónu sléttlendinu. Það er nokkuð lýti á þessu sérstæða náttúrufyrirbæri að reynt hefur verið að aka upp á gíginn að norðanverðu og þar hefur mosakápan skemmst nokkuð. Gígurinn er dæmi um eldvarp sem höfundur telur að ætti að njóta sérstakrar verndar þó ekki væri nema vegna fagurfræðilegs gildis.

Eldborg

Eldborg undir Trölladyngju.

Eftir því sem haldið er í norður frá gígnum í átt að Trölladyngju eru það ýmsar gígmyndanir sem hraun hafa flætt úr á sögulegum tíma og runnið upp að móbergshryggjunum. Þessu svæði hefur nú verið raskað verulega með lagningu vega og slóða auk þess sem borstæði hefur verið komið fyrir á svæðinu og má leiða að því líkum að þetta dragi talsvert úr náttúrulegri upplifun á eldfjallalandslagi svæðisins.
Svæðið var valið sem jarðminjasvæði í eldfjallagarð þar sem þar er hægt að sjá þar afar fjölbreytt eldvörp og litskrúðugt háhitasvæði á nokkuð stuttri og auðveldri göngu. Í öðru lagi er gróðursæld svæðisins sérstök og gefur eldfjallalandslaginu sérstaka ásýnd. Svæðið er nokkuð afskekkt og útsýni er stórbrotið þegar gengið er upp frá háhitasvæðinu og eftir móbergshryggnum.

Grænavatn-Seltún

Grænavatn

Grænavatn í Krýsuvík.

Grænavatn er sprengígur í Krýsuvík. Gígurinn tilheyrir þyrpingu sprengigíga í Krýsuvík sem eru yfir 6000 ára gamlir. Annar sprengigígur rétt við Grænavatn er Gestsstaðavatn. Þess má þó geta þess að Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur lýsir Gestsstaðavatni ekki sem sprengigíg heldur sem dauðísmyndun eða jökulkeri og telur þannig vötnin tvö af gjörólíkum uppruna. Sprengigígar myndast í sprengigosum þar sem lítið er um gjóskumyndun og gosefnin eru aðallega gosgufur og vatnsgufur.

Krýsuvík

Krýsuvík – Gestsstaðavatn (nær) og Grænavatn.

Hægt er að ganga hringinn í kringum vatnið meðfram fjöruborði gígsins, en fróðleg hraunlög eru á austurbakkanum en þar er hraunlag með gabbróhnyðlingum. Vatnið í gígnum hefur sérstakan grænan lit sem mun vera vegna kísils og brennisteins sem í því er. Grænavatn er sérstætt eldvarp og því talið vera ágætt dæmi um jarðminjasvæði í eldfjallagarði og ætti að vekja þar nokkra eftirtekt.
Seltún er vinsæll viðkomustaður í háhitasvæðinu í Krýsuvík og er mjög fjölsóttur ferðamannastaður. Helsta aðdráttarafl svæðisins er yfirborðsvirkni jarðhitans og má þar sjá litskrúðugar ummyndunarskellur og leirhveri. Á þessu svæði þarf þó að fara gætilega því jarðhitasvæði með hveravirkni geta reynst varhugaverð ef göngufólk og ferðafólk gáir ekki að sér, en þegar hefur verið komið upp viðvörunarskiltum og göngupöllum í Seltúni. Bílastæði eru bæði við Seltún og Grænavatn og aðgengi að svæðunum auðvelt.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Á Reykjanesskaga eru nokkrir gígar af eldborgargerð og er einn sá reisulegasti þeirra staðsettur undir móbergsstapanum Geitahlíð. Eldborgir hlaðast upp á gosopi þar sem lítið er um kvikustrókavirkni, en hraunslettur mynda háa gígbarma. Eldborgirnar undir Geitahlíð eru í raun tvær, Stóra-Eldborg og Litla-Eldborg en þeirri síðarnefndu hefur verið raskað verulega með efnistöku. Litla-Eldborg er í raun gígaröð af hraunklepra og gjallgígum og ætti því síður að tala um hana í eintölu líkt og Stóru-Eldborg. Eldborgirnar eru ekki af sama aldri og hraunið sem rann frá Litlu-Eldborg er mjög ólíkt hrauninu frá Stóru-Eldborg að samsetningu. Stóra- Eldborg er þó einnig partur af gígaröð sem stefnir SV-NA sem má greinilega sjá þegar staðið er upp á henni. Þegar komið er upp á Geitahlíð heldur þessi gígaröð þar áfram í sömu stefnu.

Stóra-Eldborg

Eldborgarhraunin – uppdráttur Jón Jónsson.

Hraunið frá eldborgargígunum báðum hefur runnið til sjávar og út frá Stóru-Eldborg liggja nokkrar hrauntraðir. Eldborg er eins og áður hefur komið fram friðað náttúruvætti. Jón Jónsson jarðfræðingur rannsakaði þessar gígmyndanir sérstaklega og lýsir Stóru-Eldborg á eftirfarandi hátt: “Stóra Eldborg er einhver fegursti hraungígurinn á öllu Suðvesturlandi hún er yfir 50 m há yfir næsta umhverfi og gígurinn er um 30 m djúpur. Borgin er hlaðin úr hraunkleprum og gjalli og hin fegursta náttúrusmíði.”

Eldborg

Stóra-Eldborg.

Eldborgir eru sjaldgæf eldvörp utan Íslands, þótt Stóra-Eldborg sé ekki eina eldborgin á Reykjanesskaga eða á landinu. Hún er þegar friðað náttúruvætti og er það áberandi gígmyndun að hún vekur eftirtekt hjá hverjum ferðalangi, sem áhuga hefur á náttúrunni og fer um veginn sunnan við Geitahlíð. Að þessu leyti á Stóra-Eldborg undir Geitahlíð fullt erindi sem jarðminjasvæði í Eldfjallagarði.

Hrútagjárdyngja

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja.

Við norðanverðan Sveifluháls er Hrútagjárdyngja, eitt sérstæðasta eldvarp sem finnst á Reykjanesskaga. Jón Jónsson kortlagði dyngjuna og lýsir henni svo í Árbók Ferðafélags Íslands 1984: “Það er afar stór og mjög sérkennileg eldstöð sem ekki á sinn líka á Reykjanesskaga og ekki þekki ég annað eldvarp þessu líkt. Hingað til hef ég kennt það við Hrútagjá en það er sprunga í annarri hlið þessarar miklu eldstöðvar. Dottið hefur mér í hug að e.t.v. mætti nefna eldstöð þessa Eldriða en skýring þess nafns kann að reynast hæpin.

Hrútagjá

Hrútagjá – hrauntröð í Hrútargjárdyngju.

Ljóst er að nafnið Eldriði hefur ekki haldist um þetta eldvarp, en Hrútagjárdyngja er með sanni furðulegt eldvarp og hefur afar sérstæða lögun. Eins og nafnið gefur til kynna er um að ræða dyngjumyndun og hefur hraun frá henni líklega breiðst yfir um 100 km2 lands (3-4 km3) allt til sjávar á milli Vatnsleysustrandar og Hafnarfjarðar fyrir rúmlega 5000 árum. Það sem einkum gerir Hrútagjárdyngju svo sérstaka er að hún er umkringd gjám á þrjá vegu og er sú stærsta þeirra að vestanverðu og er nefnd Hrútagjá.”

Hrútagjá

Hrútagjárdyngja ofan Hafnarfjarðar.

Hvernig nákvæmlega Hrútagjárdyngja og gjárnar í kringum hana eru til orðnar er ekki að fullu þekkt en Jón Jónsson setur fram eftirfarandi tilgátu um myndun dyngjunnar: “Sennilega hefur hraunið komið upp á tveim stöðum, þ.e. þar sem stóri hraungígurinn nú er og þar sem sigketillinn er. Gosið hefur verið hægfara og yfirborð hraunsins hefur storknað fljótt. Hraunkvikan hefur haldið áfram að streyma upp undir þaki úr storku og á þann hátt hefur myndast hraunbunga, sem fljótandi hraunkvika var undir.

Hrútagjá

Hrútagjá.

Nú er tvennt til: Annað hvort hefur það hraun fengið örvaða útrás einhvers staðar svo að það hefur streymt út en hraunstorkan við það sigið niður og sprunga myndast allt í kring, eða þá að hraunið hefur í lok gossins sigið niður í gosopið, en við það sígur hraunsléttan öll, gjárnar myndast umhverfis hana og jafnframt sigketillinn, sem áður er getið, en hann er vafalítið yfir gosopi.

Að dæma af útliti aðal gígsins hefur að gosinu loknu gígbotninn í heild sigið.
Af ofangreindu má ráða að Hrútagjárdyngja er með forvitnilegri eldvörpum á Reykjanesskaga og er atburðarrásin í kringum myndun hennar nokkur ráðgáta. Ekki hefur höfundur fundið neinar heimildir um frekari rannsóknir sem hafa farið fram varðandi myndun Hrútagjárdyngju. Væri hún eflaust heppilegt viðfangsefni fyrir nemendur í eldfjallafræðum í eldfjallagarði.”
Kleifarvatn

Kleifarvatn

Kleifarvatn vestanvert.

Sveifluháls er einn mesti móbergshryggur á Reykjanesskaga en austan hans og rétt norðan við Krýsuvík liggur stöðuvatnið Kleifarvatn. Krýsuvíkurvegur liggur eftir Sveifluhálsinum austanverðum og meðfram vesturbakka vatnsins. Á þessu svæði frá Miðdegishnúki að Hellutindum eru mjög fjölbreyttar ásýndir móbergs og má þar sjá fróðlegar opnur inn í móbergsmyndun Sveifluhálsins. Svæði sem þetta gæti t.d. verið tilvalið til kennslu (t.d. fyrir jarðfræðinema) um móbergsmyndanir og samspil eldvirkni og jökulíss en líklega eru fá svæði jafn aðgengileg í þeim tilgangi og einmitt þarna við vesturbakka Kleifarvatns. Þarna er hægt að skoða uppbyggingu og samsetningu móbergsmyndana, lagskiptingu, bólstrabrot og bergganga sem ganga í gegnum móbergið. Rofform móbergsins eru fjölbreytt og víða mikið sjónarspil því að móbergið er auðrjúfanlegra en storkubergið. Svæði sem þetta er hér talið hafa talsvert fræðslugildi í eldfjallagarði því móbergsmyndanir eru einna sýnilegastar hér á landi og eru þarna talsvert fjölbreyttar á ekki stærra svæði.

Brennisteinsfjöll-Grindaskörð

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – Kistufellsgígur.

Brennisteinsfjöll liggja suðaustur af Kleifarvatni og eru eitt víðáttumesta svæðið á Reykjanesskaga. Brennisteinsfjöll eru hraunaflæmi prýdd fjölbreyttum eldvörpum sem myndast hafa á eldstöðvarkerfinu sem kennt er við fjöllin. Apalhraun og helluhraun þekja mestan hluta svæðisins. Þarna eru mikil hraunaflæmi sem runnið hafa bæði til norðurs og suðurs meðal annars steypst fram af Herdísavíkurfjalli í hraunfossum og þaðan runnið ofan í sjó.

Ferlir

Í hellinum Ferlir í Brennisteinsfjöllum.

Í helluhrauninu er mikið um hella, stórbrotnar hrauntraðir og niðurföll. Margir reisulegir gígar eru á svæðinu en mesta jarðfræðilega undrið verður þó að telja Kistufell sem er afar sérstæð gígmyndun. Gígveggirnir eru stuðlaðir og hafa yngri hraun runnið inn gíginn. Jafn sérstætt eldvarp og hér um ræðir hefur að mati höfundar mikið verndargildi og spurning hvort slíkt eldvarp ætti ekki að njóta algjörrar friðunar.
Lítið háhitasvæði er í Brennisteinsfjöllum sem sýnir ekki miklar virkni á yfirborði en kemur fram í gufuaugum og ummyndunarskellum á yfirborði.

Brennisteinsfjöll

Gígaröð í Brennisteinsfjöllum.

Helgi Torfason og Magnús Á. Sigurgeirsson, jarðfræðingar, hafa gert úttekt á háhitasvæðinu í Brennisteinsfjöllum í ritgerð þeirra segir meðal annars um fjölbreytileika svæðisins: “Gígaraðir og einstakir gígar, hrauntraðir og hraunhellar, niðurföll í hraunum og ólíkir hraunstraumar gera þetta svæði mjög sérstakt til rannsókna og skoðunar á slíkum myndunum […] Við rannsóknir á jarðhita með borunum á þessum slóðum þarf að taka tillit til umhverfisins auk mikillar umbrotasögu svæðisins, en þar hefur oft verið umbrotasamt og lega mannvirkja þarf að taka mið af því. Þá þarf að huga vel að því að spilla ekki sérstæðri náttúru svæðisins.”

Stóribolli

Stóribolli – gígurinn.

Í Grindaskörðum er einnig fjöldi reisulegra gíga. Þegar komið er upp úr skarðinu er þar allnokkuð misgengi og sigdalur. Í sigdalnum að norðan eru áhugaverðir gígar á gígaröð en sunnar er dalurinn þakin helluhrauni sem er afar auðvelt að ganga eftir. Mestur gíga á þessu svæði er sá sem Jón Jónsson hefur nefnt Gráfeld en frá honum hefur Selvogshraun runnið. Grindaskörð tengjast einnig brennisteinsnámi sem stundað var í Brennisteinsfjöllum um skeið og á sér nokkuð fróðlega sögu.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – námumannahús.

Í pistli Sveins Þórðarsonar um brennisteinsvinnslu á Íslandi vísar hann í rit Páls Eggerts Ólasonar prófessors, Saga Íslendinga, en þar segir: “Var Ísland snemma frægt brennisteins land, og er það til marks, að í tilraunum Danakonungs til að veðsetja landið er því einkum til gildis talið, að þar séu gnægðir miklar af brennisteini. Var þetta þá arðvænleg verzlunarvara, enda nauðsynleg hernaðarþjóðum til púðurgerðar, eins og hún fór þá fram”.
Agnes Stefánsdóttir (2008) fjallar nokkuð um Brennisteinsnámið í Brennisteinsfjöllum í skýrslu um fornleifaskráningu á svæðinu. Þar segir að Jón Hjaltalín landlæknir hafi rannsakað brennisteinsnámur árið 1851.

Brennisteinsnámur

Brennisteinsnámur í Brennisteinsfjöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Fann hann fjórar námur í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvík sem síðar voru keyptar af Englendingnum J. W. Busby fyrir tilstuðlan Jóns. Námastígurinn liggur af Grindaskarðavegi meðfram Draugahlíðum og niður í Námahvamm, en þar sést ennþá rúst Námamannaskálans og ummerki námugraftarins.
Brennisteinninn var unnin bæði í Krýsuvík og Brennisteinsfjöllum, en brennisteinninn úr Brennisteinsfjöllum þótti hreinni og virtist hagkvæmara að flytja hann, þar sem styttri vegalengd var þaðan til Hafnafjarðar. Það reyndist þó örðugra að komast að Brennisteininum í Brennisteinsfjöllum þar sem hann lá undir nærri metra þykku hraunlagi. Fluttur var inn vír frá útlöndum sem áætlað var að strengja frá fjallsbrún niður á jafnsléttu. Var þetta gert til að sleppa við að flytja brennisteininn á hestum niður Kerlingaskarð. Vírinn reyndist hinsvegar of þungur til að flytja hann upp í Brennisteinfjöll og varð því aldrei neitt úr þessum áformum og fór að draga út brennisteinsvinnslunni eftir þetta. Það tók um 12-14 tíma að flytja brennistein á hesti til Hafnafjarðar og var borguð ein króna (þess tíma) á hvern hestburð.

Brennisteinsfjöll

Í Brennisteinsfjöllum.

Ljóst er af ofansögðu að Brennisteinsfjöll eru einstakt jarðminjasvæði og ættu að vera mikið aðdráttarafl í eldfjallagarði á Reykjanesskaga, bæði vegna mikils fjölda eldvarpa og ekki síður vegna menningarminja. Brennisteinsfjöll liggja nokkuð afskekkt og eru fremur óaðgengileg því þangað liggja engir akvegir. Svæðið myndi því henta vel fyrir ferðafólk sem vill njóta ósnortins víðernis og náttúru og í lengri ferðum og upplifa stórbrotnar hraunmyndanir, eldvörp og eldfjallalandslag.

Búrfell

Helgadalur

Helgadalur – Búrfell fjær.

Búrfell er gígur sem er staðsettur skammt austan við Hafnafjörð og myndar nyrsta gíginn í Krýsuvíkur- eða Trölladyngjukerfinu. Gígurinn er af eldborgargerð, en frá honum liggur einhver lengsta hrauntröð á Íslandi sem er Búrfellsgjá. Mikil misgengi eru auk þess á svæðinu við Búrfell og er Hjallamisgengið þeirra mest. Árni Hjartarson skiptir gossögu Búrfells í fjóra þætti eða lotur sem hér segir:

Hraunflæði

Búrfellshraun.

1. Straumsvíkurlota: þá rann Búrfellshraun til suðvesturs í átt að Kaldárbotnum og niður til sjávar hjá Straumsvík og þar í grennd. Hraunið er nú hulið yngri hraunum.
2. Lambagjárlota: Hraunið rennur niður með Ásfjalli og nær hugsanlega til sjávar utan við Hamarinn í Hafnafirði. Þarna myndaðist Lambagjá sem er hrauntröð við Kaldárbotna.
3. Urriðavatnslota: Hraun fyllir sigdalinn neðan við Búrfell og tekur að renna niður með Vífilsstaðahlíð. Það stíflar uppi Urriðavatn og nær til sjávar bæði við Hafnafjörð og í Arnarnesvogi. Hraunrennslið hefur verið langvarandi og þarna myndast Búrfellsgjáin sem meginfarvegur hraunsins frá gígnum.

Búrfell

Búrfellsgjá.

4. Goslok: Hraunrennsli hættir í Búrfellsgjá og hraunrennsli hefst til suðurs frá gígnum um undirgöng. Þá verða til hrauntjarnir sem tæmast svo í goslok og mynduðu Kringlóttugjá. Gosið hefur líklega staðið í 1-2 ár þar sem hrauntraðir og hellar þurfa nokkurn tíma til að myndast.
Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur ritaði ítarlega grein um Búrfellshraun og lét gera aldursgreiningar á gróðurleifum undan því og ofan af því.

Búrfell

Búrfell og nágrenni – herforingjakort 1903.

Árni Hjartarsson umreiknar þessar aldursákvarðanir yfir í raunaldur og sýna niðurstöðurnar að Búrfellshraun er líklega um 8000 ára og hefur því runnið um 6000 f. Kr. Sjávarstaða hefur á þessum tíma verið um 10 m lægri og eru því ystu mörk hraunsins neðan sjávarborðs í dag.
Nokkrar hrauntraðir hafa myndast í eldsumbrotunum sem mynduðu Búrfell. Elsta tröðin nefnist Lambagjá og liggur niður hjá Kaldárseli en yngst er Kringlóttagjá sunnan við Búfellsgíginn.

Kringlóttagjá

Kringlóttagjá.

Búrfellsgjáin er þó sú hrauntröð sem vekur mesta eftirtekt og mun eiga fá sína líka á Íslandi. Veggir traðarinnar eru oft 5-10 m háir og sumsstaðar slútandi þannig að víða hafa myndast skjólríkir skútar sem áður fyrr var notað sem afrep fyrir sauðfé í vondum veðrum, en þar finnast einnig gamlar seljarústir og minjar um forna búskaparhætti. Búrfell og Búrfellsgjár eru jarðminjar um eldgos sem myndað hefur sérstæð eldvörp, Búrfellsgíg og Búrfellsgjánna. Í gjánni eru einnig menningarminjar og er svæðið þegar orðið afar vinsælt útivistar og göngusvæði sem á tvímælalaust heima sem jarðminjasvæði í eldfjallagarði.

Þríhnúkagígur

Þríhnúkagígur

Þríhnúkagígur – op.

Það eldvarp á Reykjanesskaga sem hefur líklega fengið meiri umfjöllun en nokkuð annað sem mögulegt aðdráttarafl í eldfjallagarði er Þríhnúkagígur. Þríhnúkagígur er staðsettur á milli Grindaskarða og Stóra-Kóngfells skammt norðvestan við skíðasvæðið í Bláfjöllum.
Lítið var vitað um tilurð hinnar miklu hvelfingar eða hellis ofan í gígnum fyrr en sigið var ofan í hann árið 1974. Fyrstur til að síga í hellinn var Árni B. Stefánsson, augnlæknir og hellakönnuður sem lýsir hellinum í grein í tímaritinu Náttúrufræðingnum. Sigdýptin í hvelfingunni í hellinum er um 120-130 m og er þvermálið á botni hennar um 50 m. Nákvæma lýsingu á umfangi hellisins er að finna í áðurnefndri grein Árna þar sem ítarlega er fjallað um sigferð í hellinn. Í seinni tíð hefur Árni komið fram með þær hugmyndir að bora í Þríhnúkagíg í þeim tilgangi að kynna almenningi innihald hvelfingarinnar.

Þríhnúkagígur

Í Þríhnúkagíg.

Nokkur svæði á Íslandi eru friðuð sem náttúruvætti vegna sérstöðu sinnar og sé Þríhnúkagígur í slíkum sérflokki sem raun ber vitni, jafnvel einstakur á heimsvísu, má spyrja hvort að ekki væri skynsamlegra að vernda hann algjörlega í stað þess að bora í hann? Samkvæmt Umhverfisstofnun eru 34 svæði á Íslandi friðlýst sem náttúruvætti en um þau segir: “Náttúruvætti eru sérstæðar náttúrumyndanir, s.s. fossar, eldstöðvar, hverir, drangar, hellar og hraun, ásamt fundarstöðum steingervinga og merkilegra steinda. Náttúruvætti eru mörg þess eðlis að á þeim hvílir almenn helgi og markmið friðlýsingar er að koma í veg fyrir jarðrask.”

Þríhnúkar

Þríhnúkar – þverskurður.

Þríhnúkagígur er ekki friðaður sem náttúruvætti en liggur innan Bláfjallafólkvangs sem nýtur friðunar upp að ákveðnu marki. Ljóst má vera að borun í gíginn er rask á eldvarpinu og borframkvæmdir munu hafa jarðrask í för með sér. Sumir hraunhellar landsins eru lokaðir gagnvart átroðningi vegna þeirra dropasteinsmyndana sem þar er að finna og má spyrja hvort slík lokun ekki einnig að gilda um Þríhnúkagíg þar sem hvergi annarsstaðar á Íslandi er vitað um sambærilegar jarðminjar? Á annað borð mætti ef til vill benda á þau rök að engin vissi af innviðum Þíhnúkagígs ef ekki hefði verið sigið í hann og frægð hans myndi aukast ef borað væri í hann og innihaldið sýnt almenningi. Það myndi jafnvel glæða áhuga á jarðfræði nærliggjandi svæðis og vera eitt mesta aðdráttarafl í eldfjallagarði. Þetta gæti verið eitt sjónarmið fyrir borun í gíginn. En gæti verið að Þríhnúkagígur yrði jafnmikið aðdráttarafl ósnertur ef einfaldlega yrði kynnt hvað leyndist í gígnum? Yrði dulúð hans þá meiri og væru ferðalangar og ævintýramenn hugsanlega tilbúnir að borga fyrir dýrar sigferðir ofan í hellinn? Eða á hellirinn einfaldlega að vera öllum opinn? Hvort væri betra í eldfjallagarði á Reykjanesskaga?

Þríhnúkar

Í Þríhnúkagíg.

Hér að ofan hefur verið velt upp ýmsum spurningum hvað varðar borun í Þríhnúkagíg en tekið skal skýrt fram að ekki er verið að taka afstöðu til þess hvort borun í gíginn sé réttlætanleg. Það sem helst vakir fyrir höfundi með ofangreindum vangaveltum er að borun í Þríhnúkagíg á erindi við umræðuna um verndun jarðminja og náttúruvernd. Má vel vera að borunin sjálf gæti leitt til aukinnar verndunar svæðisins og nánasta umhverfi þess. Sjálfsagt er þó að allar hliðar málsins séu skoðaðar. Það er þó ljóst að Þríhnúkagígur hvort
sem borað verður í hann eða ekki, á mikið erindi í eldfjallagarð sem stórbrotið eldvarp og jarðminjasvæði.”

Heimild:
-Eldfjallagarður og jarðminjasvæði á Reykjanesskaga, Helgi Páll Jónsson, Jarðvísindadeild Háskóli Íslands 2011.

Reykjanesskagi

Eldgos á Reykjanesskaga 2021.

Sogin

Gengið var um Lambafellsklofa og Trölladyngju.

Lambafellsklofi

Lambafellsklofi.

Lambafellsklofi er stundum nefndur Lambagjá í Lambafelli. Um er að ræða sprungu, sem myndast hefur eftir misgengi um mitt fellið. Gjáin er nokkuð há og gaman að ganga um hana. Gengið er inn í gjána að norðanverðu og síðan liggur leiðin upp á við í suðurendanum. Ofar má sjá misgengið liggja áfram í gegnum fellið til suðurs. Hraun hafa runnið allt umhverfis. Tófugras vex á gjárbörmunum. Skemmtilegast er að fara um gjána er líða fer á sumarið, en þá er hún jafnan þakin fiðrildum, sem safnast þar saman í skjólinu. Þar sem fyrir liggur lýsing um þetta svæði fer hér á eftir lýsing á því er finna má á vef Hitaveitu Suðurnesja; Fréttaveitunni:
Eftir að áhugi jókst á Trölladyngjusvæðinu, og ekki sízt eftir að tilraunaboranir hófust, hefur nokkuð borið á, að menn færi til og teygi örnefni á svæðinu, svo sem Sog, sem sumir eru búnir að færa allt niður á núverandi borsvæði. Þetta er í sjálfu sér ekki ný bóla. Má t.d. benda á, að eftir að Suðurnesjavegur var skírður Reykjanesbraut og Reykjaneskjördæmi varð jafnframt til, heitir Reykjanesskaginn Reykjanes, Reyknesingar búa allt upp í Hvalfjörð og austur í Ölfus, og orkuver Hitaveitu Suðurnesja er sagt í Svartsengi, enda þott það hafi risið í Illahrauni, sem er í nágrenni Svartsengis.

Keilir

Keilir – handan hraunsins.

Vatnsleysuströndin hefur ekki af mörgum fjöllum að státa, en þau eru þeim mun merkilegri. Þar er Keilir og þar er Vesturháls eða Trölladyngjur, einhverjar merkustu eldstöðvar hér á landi.
Guðmundur G. Bárðarson jarðfræðingur, sem manna mest hefur rannsakað Reykjanesskaga, taldi að hann mundi vera yngsti skag á Íslanda og skapaður af eldgosum. Hann telur skagann því mjög girnilegan til fróðleiks fyrir eldfjallafræðinga. Hér sé svo að segja allar gerðir eldfjalla, gíga og yngri eldmyndana, sem finnist á Íslandi. Móbergsfjöllin hafi jafnvel myndazt við eldgos.

Lambafellsgjá

Lambafellsgjá.

Og Þorvaldur Thoroddsen sagði um eldgígana hjá vestanverðum Núpshlíðarhálsi, að þær gosstöðvar væri mjög merkilegar, því að þær sýni augljóslega hvernig eldgos verða, og hvergi sjáist neitt þessu líkt á Íslandi, og þótt víðar væri leitað.
Það eru tveir brattir og langir hálsar, sem liggja samhliða um miðjan Reykjanesskaga, og eru einu nafnir nefndir Móhálsar. En til aðgreiningar voru þeir kallaðir Austurháls og Vesturháls. Nú er Austurhálsinn alltaf kallaður Sveifluháls, og sunnan að honum er Kleifarvatn og Krýsuvík.
Vesturhálsinn er eins og ey í ólgandi hraunhafi, en hefir það til síns ágætis, að hann er grösugur og víða eru þar tjarnir og lækir, en slíkt er mjög fátítt á Reykjanesskaga. Hann mun upprunalega hafa verið kallaður einu nafni Trölladyngjur, en nú heitir hann ýmsum nöfnum. Nyrzt á honum eru tvö mikil fjöll, Trölladyngja (375 m) og Grænadyngja (393 m).

Sog

Trölladyngja og Grænadyngja (t.h.) – Sogin nær.

Trölladyngja er hvass tindur og blasir við í suðri frá Reykjavík. Í kyrru veðri má þar oft sjá reyki mikla, enda er þar mikill jarðhiti, hverir margir og gufur upp úr hrauninu. Grænadyngja er aftur á móti kollótt og auðvelt að ganga á hana. Þaðan er mjög vítt útsýni. Sér vestur á Eldey og austur til Kálfstinda, en Reykjanesskaginn blasir allur við og má glögglega greina upptök hinna ýmsu hraunelfa og hvernig þær hafa ruðzt hver ofan á aðra. Fyrir sunnan Dyngjurnar er skarð í hálsinn og heitir Sog, og er þar 400-500 feta djúpt gil. Þar fyrir sunnan hækkar svo hálsinn aftur og kallast þar Grænavatnseggjar, hvass fjallshryggur. Þar fyrir sunnan heitir svo Selsvallafjall og Núpshlíðarháls og nær hann vestur í Ögmundarhraun.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – loftmynd.

Flest hraunin á Reykjanesskaga hafa runnið fyrir landnámstíð. Þó geta annálar þess nokkrum sinnum, að eldur hafi verið uppi í Trölladyngjum, svo sem 1151, 1188, 1340, 1360, 1389-90 og 1510. Um gosið 1340 segir Gísli biskup Oddsson, að þá „spjó Trölladyngja úr sér allt til hafs við sjávarsveit þá, er kölluð er Selvogur”. Margir hafa dregið í efa, að þetta geti verið rétt, því að hraun úr Trölladyngju hafi ekki getað runnið niður í Selvog, þar sem há fjöll sé á milli. Þessir menn hafa rígbundið sig við örnefnin Trölladyngju og Selvog, eins og þau eru nú notuð, en gá ekki að því, að þau voru yfirgripsmeiri forðum. Þá var allur Vesturháls nefndur Trölladyngja, en „í Selvogi” mun hafa verið kölluð ströndin þaðan og vestur að Selatöngum.

Einihlíðar

Tröll í Einihlíðum norðan Lambafells.

Margir staðir hér á landi eru kenndir við tröll, og svo var einnig í Noregi. Má því vera að sum nöfnin hafi landnámsmenn flutt með sér hingað. Um uppruna nafnsins Tröllaödyngja vita menn ekkert, má vera að mönum hafi þótt „dyngjan” svo ferleg, að hún hæfði tröllum einum. Vera má og, að menn, sem aldrei höfðu séð eldgos fyrr en þeir komu hingað, hafi haldið að á eldstöðvunum byggi einhverjar vættir og fest trú á hin reykspúandi fjöll.
Landnáma getur þess um Hafurbjörn Molda-Gnúpsson (þeir námu Grindavík), að hann dreymdi að bergbúi kæmi að honum og byði að gera félag við hann, og þá Björn það.

Valahnúkar

Valahnúkar – tröll.

Bergbúar geta verið með ýmsum hætti. Sumir bergbúar voru landvættir. Það er dálítið einkennilegt, að Landnáma getur hvergi landvætta nema á Reykjanesskaga, og segir: „Það sá ófresk kona, að landvættir fylgdu Hafurbirni þá er hann fór til þings, en Þorsteini og Þórði bræðrum hans til veiða og fiski.” Því má vera, að Hafurbjörn hafi talið, að bergbúi sá, er hann gerði félag við, hafi verið landvættur og átt heima í Trölladyngju.

Snorri Sturluson segir frá því í Heimskringlu, að Haraldur Gormsson Danakonungur þóttist þurfa að hefna sín á Íslendingum vegna þess að þeir höfðu orkt um hann níðvísu á nef hvert.

Víkarskeið

Víkarskeið – gleymt örnefni við Ölfusárósa.

Sendi kóngur til Íslands fjölkunnugan mann í hvalslíki til njósna. En hann komst hvergi á land fyrir landvættum. Þegar hann ætlaði seinast að ganga á land á Víkarsskeiði, þá „kom í mót honum bergrisi og hafði járnstaf í hendi, og bar höfuðið hærra en fjöllin, og margir aðrir jötnar með honum”. Þetta voru landvættir. Bergbúinn mikli, sem fyrir þeim var, skyldi þó aldrei vera sá, sem Trölladyngja er við kennd, Hafurbjörn bónda dreymdi, og nú er í skjaldarmerki Íslands?

Keilir

Vegur að Höskuldarvöllum. Keilir fjær.

Vatnsleysubændur hafa nýlega gert akfæran veg að Trölladyngju og er hann um 10 km. Er þá fyrst komið á Höskuldarvelli, en það er einhver stærsti óbrennishólminn á Reykjanesskaga. Er þar vítt graslendi, sem nær frá Trölladyngju langt út í Afstapahraun, eða er þó öllu heldur tunga milli þess og Dyngjuhrauns.

Norður úr Trölladyngju gengur rani og úr honum hafa mestu gosin komið. Vestan í honum er röð af stórkostlegum gígum og eru tveir þeir syðstu langstærstir. Minni gígarnir eru sumir eins og glerjaðir innan og með ávölum brúnum. Aðrir eru eins og steyptir geymar eða stórkeröld úr járni. Menn ætti að fara mjög varlega hjá gígum þessum og ganga ekki tæpt út á brúnir þeirra, því limlestingar eða bani er búið hverjum þeim, sem í þá fellur.

Eldborg

Eldborg.

Norðan við Trölladyngju er stór, gamall og rauður eldgígur, sem nefnist Eldborg. Hann er um 70 fet á hæð [Eldborgin, sem á mínum skátaárum var nefnd Jónsbrenna, er nú ekki orðin svipur hjá sjón, því vegurinn, sem fyrr er getið, var einmitt lagður til að ná í hraungjall úr hlíðum hennar. (Ath.semd ritstj.)]. Milli hans og fjallsins er mikill jarðhiti og koma vatnsgufur þar víða upp, allt inn að Höskuldarvöllum og út að Sogi. Fara má norðan við fjöllin og austur fyrir þau. Blasir þá við fell skammt norðaustur í hrauninu. Kallast það Mávahlíðar. Þar eru einnig stórkostlegar gosstöðvar. Rétt fyrir neðan efsta toppinn á þeim (237 m) er stór gígur, allur sundur tættur af eldsumbrotum. Héðan hafa runnið mikil hraun, og sum eftir landnámstíð.

Fengið að láni úr bók Árna Óla, „STRÖND OG VOGAR – ÚR SÖGU EINNAR SVEITAR Í LANDNÁMI INGÓLFS ARNARSONAR”, sem Bókaútgáfa Menningarsjóðs gaf út árið 1961.

http://hs.is/frettaveitan/greinar.asp?grein=360

Eldborg

Eldborg undir Dyngju.