Færslur

Sögukort

Á “Sögukorti Vegagerðarinnar um Suðvesturland” má lesa eftirfarandi:

Sögukort“Saga Suðvesturlands, frá Hvalfjarðarbotni að Reykjanestá og austur til Krýsuvíkur, er afar áhugaverð. Það var þar sem hið endanlega landnám Íslands hófst um árið 874 þegar Ingólfur Arnarsson nam allt svæðið og er talið að bær hans og Hallveigar Fróðadóttur, konu hans, hafi staðið í Reykjavík. Þar hefur verið grafinn upp skáli frá miðri 10. öld með einum elstu mannvistarleifum sem fundist hafa á íslandi. Má af því álykta að svæðið hafi byggst snemma. Helsti þingstaður þar eftir landnám var á Þingnesi við Elliðavatn og er svæðið einnig sögusvið Kjalnesinga sögu.

Sögukort

Sögukort Suðvesturlands.

Á miðöldum var Viðeyjarklaustur (1226-1539) ein helsta stofnun á þessu landsvæði og eignaðist það fjölda jarða við sunnanverðan Faxaflóa. Frá miðri 13. öld og fram til loka 18. aldar voru Bessastaðir á Álftanesi miðstöð norska og síðar danska konungsveldisins á Íslandi og þar sátu helstu embættismenn konungs. Frá stofnun íslenska lýðveldisins 1944 hefur þar verið aðsetur forseta Íslands.

Helstu verslunarstaðir Reykjanesskagans voru lengi Grindavík og Hafnarfjörður, þar sem Englendingar og Þjóðverjar börðust um verslunaryfirráð. Þeir urðu þó að lúta í lægra haldi fyrir Danakonungi sem náði valdi á allri verslun hérlendis í byrjun 17. aldar. í framhald af því sóru Íslendingar konungi eið á Kópavogsfundinum 1662 og erfðaeinveldi komst á. Hugur landsmanna stóð þó alltaf til sjálfstæðis þótt baráttan hafi lengi verið rislítil.

Sögukort

Samgöngukort Íslands.

Það var ekki fyrr en á 19. öld sem sjálfstæðiskrafan náði flugi með Jón Sigurðsson í fararbroddi og árið 118 var Ísland loks viðurkennt frjálst og fullvalda ríki með eigið þing og eigin ríkisstjórn. Bæði þingið og ríkisstjórnin sitja í höfuðborg Íslands, Reykjavík, sem festi sig í sessi sem höfuðstaður á 19. öld eftir nokkra samkeppni við Hafnarfjörð. Þar var, auk Alþingis, sem endurreist var 1845, biskupsstóll frá 1801 og þangað var Lærði skólinn fluttur frá Skálholti 1785 og síðar frá Bessastöðum 1846. Byggð á höfuðborgarsvæðinu ox jafnt og þétt alla 20. öldina og bjuggu þar um 2/3 hlutar landsmanna árið 2009.

SögukortÚtgerð hefur verið mikil á svæðinu frá fornu fari, einkum á Suðurnesjum, þar sem voru miklar útgerðarjarðir í eigu konungs og Skálholtsstóls og sóttu menn af landinu öllu þangað á vertíð öldum samna. Enn er útgerð mikilvæg atvinnugrein en iðnaður, landbúnaður, verslun, þjónusta og nú síðast stóriðja, eru ekki síður máttarstólpar atvinnu á svæðinu. Í seinni tíð hefur svo bæst við ferðaþjónusta, hátækni- og þekkingariðnaður.

Náttúra og jarðsaga Reykjanesskagans er einstök því að þar gengur eldvirkur goshryggur á land með gliðnandi pötuskilum á milli Evrópu og Ameríku. Skaginn er því mjög eldbrunninn og þar er jarðhiti víða mikill, einkum á Suðurnesjum en einnig í Reykjavík og Mosfellsdal. Mikið fuglalíf er við sunnan- og vestanverðan Reykjanesskagann, á Álftanesi, Seltjarnarnesi og víðar. Í Eldey er ein mesta súlubyggð í veröldinni. Þá eru góðar laxveiðiár í Kjósinni.

SögukortReykjanesskaginn, höfuðborgarsvæðið, Kjalarnes og Kjós eru rík af fjölbreyttum þjóðsögum, svo sem um álfa, drauga og skrímsli. Einna þekktust er saga af hvalnum Rauðhöfða í Hvalfirði og eins sagan af marbendlinum í Vogum. Einnig eru margar góðar gönguleiðir á svæðinu og margskonar afþreying í boði fyrir ferðamenn þar sem Reykjavík er helsta miðstöð menningar og lista. Þá er Bláa lónið einn fjölsóttasti ferðamannastaður á Íslandi.”
Sögukort