Færslur

Sól og skuggar

FERLIR fékk senda eftirfarandi frásögn skömmu eftir áramót 2012-2013:

“Ég sendi lýsingu á ótrúlegri, stórkostlegri ljósadýrð á svæðinu á milli Þorbjarnar og Þórðarfells föstudaginn 14. desember 2012.

geimur-3Það var föstudaginn 14. desember 2012 sem ég var staddur á Grundartanga í Hvalfirði í ákaflega góðu veðri, landið skartaði sínu fegursta með sólina í aðalhlutverki, birtan sérstök, sólin lagt á lofti sem setti sérstakan litblæ á landið og magnaði upp gil og skorninga með skuggavarpi.

Það var svo þegar klukkuna vantaði um það bil 15 mínútur í fjögur þegar ég var á leið til höfuðborgarinnar nýkominn á þjóðveginn að framundan eru tvö sterk ljós í fjarska, í stefnu á höfuðborgarsvæðið,  þó greinilega ekki frá Reykjavík, heldur nokkru hærra og fjær að sjá úr Hvalfirðinum. Ljósamagnið var svo mikið að þau voru líkust stórum þorpum, þar sem ég vissi fyrir að á þessu svæði sem ljósin birtust væri engin mannabyggð, var ég að velta fyrir mér hvar þetta gæti verið. Það sem var ljóst var að ljósin sáust á milli fellanna Þorbjörns og Þórðarfells, en þau sjást ágætlega og eru vel þekkjanleg úr Hvalfirði.

geimur-5Á örstuttum tíma breytist ljósadýrðin, þannig ljósið sem er nær Þórðarfelli myndar nokkurskonar hyllingar og þá er eins og stórt skemtiferðaskip birtist, varir þetta ljós í mjög stuttan tíma, og skyndilega hverfa þessi ljós, en nú  sést hvað er að gerast, sólin hverfur loks á bakvið landslagið, og þá er eins og hvítar ljósaseríur logi á landslaginu sem stendur hæst milli fellanna. Þegar betur er að gáð, eru það gígar í Eldvörpum sem sólin lýsti svo fallega upp, og menn horfðu á og hrifust af alla leið ofan úr Hvalfirði.

Þennan dag sá ég fallegust jólaljós sem ég hef séð.

Ég sendi þér þessa lýsingu, vegna þess að mér þykir hún svo sérstök, og hún lýsir landslagi á Reykjanesskaga, sem hefur áhrif  á fólk í mikilli fjarlægð, jafnvel þó landslagið sé ekki hátt yfir sjávarmáli.
Þá vill ég að lýsingin geymist, en gleymist ekki.

Það er sjálfsagt að birta þessa lýsingu, enda skrifaði ég hana niður til að festa þessa minningu í sessi. Því miður var ég ekki með myndavél meðferðis, en ef hún hefði verið til staðar hefði ég stoppað og tekið eins mikið af myndum og ég hefði getað.”

Takk fyrir mig;
Eyjólfur Guðmundsson.