Tag Archive for: Sólarvé

Kind

Sólarvé Tryggva Gunnars Hansen í Grindavík ætti enginn að láta fram hjá sér fara sem ferðast um Reykjanesskagann. Í bænum má finna fleiri hleðslur eftir Tryggva, s.s. við Hrafnsbúð.

Tryggvi Gunnar Hansen

Höfundur verksins „Sólarvé“ er heiðinn og er gott að hafa hin fornu trúarbrögð í huga þegar Sólarvéið er skoðað. Hringlaga formin gefa í skyn samfélagsmyndina. Þau eiga rætur sínar að rekja til bronsaldar, tíma frjósemi og lífsgleði, þegar sólin og jarðgyðjan voru dýrkaðar. Hringurinn með eldinn og vatnið innan sinna vébanda er tákn frumþorpsins. Í gegnum mitt Sólarvéið liggur gjá en hún er í farvegi annarrar gjár og er hluti sprungukerfis sem liggur í gegnum Grindavík endilanga, allan Reykjanesskagann, landið og landgrunnið, en Ísland er á mótum tveggja fleka milli heimsálfanna Evrópu og Ameríku.

Í Morgunblaðiðinu 15. júlí 1994 er fjallað um „Sólarvé í Grindavík„: „SÓLARVÉ er nafn á útivistarsvæði sem var vígt í Grindavík 21. júní.
ÁGrindavík þeim degi á að vera lengstur sólargangur samkvæmt tímatali fornmanna og var nafnið valið með hliðsjón af því. Svæðið er við íþróttamannvirkin í Grindavík og var útfært og teiknað af þeim Tryggva Gunnari Hansen steinsmiði og Jóni Sigurðssyni bæjartæknifræðingi.
Vígsluhátíð fór fram með bálkesti og rímkveðskap. Blásarasveit lék undir stjóm Siguróla Geirssonar. Að vígslu lokinni var haldið á Þorbjöm og fylgst með miðnætursólinni og kveiktur varðeldur en að lokum var gestum boðið að baða sig í Bláa lóninu.“

Tryggvi Gunnar Hansen

Tryggvi Gunnar Hansen.

Í Glatkistunni 2018 fjallar Helgi J. um Tryggva Gunnar Hansen: „Tryggvi Gunnar Hansen (1956-); Fjöllistamaðurinn Tryggvi Gunnar Hansen á tónlistarferil að baki en á tíunda áratugnum kom hann að útgáfu þriggja platna.
Tryggvi er fæddur á Akureyri 1956 og bjó nyrðra lengi vel, þar hófst myndlistaferill hans og hann varð einnig þekktur fyrir grjóthleðslufærni sína en hann hefur komið að ýmsum grjóthleðsluverkefnum í gegnum tíðina. Þá hefur hann starfað sem dagskrárgerðarmaður í útvarpi, blaðaútgefandi og grafískur hönnuður.

Tryggvi Gunnar Hansen

Tryggvi Gunnar Hansen.

Tryggvi, sem var forðum öflugur í starfi ásatrúarmanna, hafði verið að kveða rímur frá unglingsárum og hóf síðar að vinna með bókmenntaarfinn með ýmsum hætti, m.a. með því að blanda saman rímnakveðskap og raftónlist. Það fyrsta sem fjölmiðlar fjölluðu um Tryggva sem tónlistarmann var þegar hann flutti Völuspá með aðstoð örtölvu árið 1982 og tveimur árum síðar kom hann nokkuð við sögu á safnkassettu sem bar titilinn Bani 1.

Mörgum árum síðar stofnaði hann tónlistarhópinn Seiðbandið (um miðjan tíunda áratuginn) sem sérhæfði sig í slíkum kokteil raftónlistar og forns kveðskaps.

Tryggvi Gunnar Hansen

Tryggvi Gunnar Hansen.

Um svipað leyti (1995) sendi Tryggvi frá sér sjaldséða snældu sem bar titilinn Seiður, þar sem hann sótti einnig í bókmenntaarfinn en að þessu sinni voru eddukvæðin atkvæðamest, einkum Völuspá og Hávamál.

Þremur árum síðar (1998) sendi Seiðbandið ásamt Tryggva (TH) frá sér plötuna Vúbbið er að koma: Íslensk raf og danskvæði. Sú plata hlaut ekkert sérstaka almenna athygli en fékk þokkalega dóma í Morgunblaðinu og DV. Það sama ár kom út önnur snælda með Tryggva einum en hún bar heitið Inuals dansar en þar var raftónlistarmaðurinn Biogen (Sigurbjörn Þorgrímsson) honum innan handar. Snældan fékk nokkuð jákvæða dóma í Morgunblaðinu.

Tryggvi Gunnar Hansen

Tryggvi Gunnar Hansen.

Lítið hefur spurst til tónlistariðkunar Tryggva eftir það, hann birtist sem gestur á plötu Hallvarðs Ásgeirsonar, Los Casas, og söng kvæðið um Ólaf Liljurós á samnorrænni safnplötu með flytjendum frá Íslandi, Grænlandi, Færeyjum og Lapplandi (World music from the cold seas) árið 2015 en að öðru leyti hefur hann lítt verið viðloðandi tónlist.
Tryggvi hefur hin síðustu ár verið þekktastur fyrir að búa í tjaldi í skóglendi í útjaðri höfuðborgarsvæðisins, sem er svolítið í anda lífsspeki hans.“ Þar hefur hann fengið að vera í friði fyrir áreiti.

Í Morgunblaðinu 11. nóv. 1994 er grein eftir Tryggva Gunnar Hansen; „Þjóðmenning – framlag til heimsmenningar„.

Grindavík

Grindavík – Sólarvé.

Þar segir m.a.: „Í Morgunblaðinu 28. október er grein undir fyrirsögninni „Trúfrelsi er fjöregg“ eftir Einar Sigurbjörnsson prófessor í guðfræði. „Tilefni skrifanna eru þær deilur sem upp hafa komið vegna hofbyggingar í Grindavík. Þar sem mér er málið skylt sé ég mig tilneyddan að leiðrétta nokkrar rangfærslur og misskilning sem fram kemur í grein prófessorsins og í umræðunni allri. Undarlegt verður raunar að teljast að prófessor við Háskóla Íslands skuli ekki afla sér betri upplýsinga áður en hann tjáir sig opinberlega um málið.

Grindavík

Grindavík – Sólarvé.

Enn og aftur verð ég að taka fram að Ásatrúarfélagið stendur ekki að byggingu hofsins. Á þjóðveldisöld voru engin ásatrúarfélög. Íslenskir bændur byggðu sín blóthús sjálfir. Eftir kristnitöku byggðu sjálfstæðir bændur einnig kirkjur á eigin kostnað. Þessi siður hefur haldist alveg fram á tuttugustu öld, þótt oftast séu kirkjur byggðar fyrir almannafé nú á seinni tímum.
Það skal einnig leiðrétt hér að umhverfíslistaverkið Sólarvé í Grindavík var ekki byggt á vegum Vors siðar og þaðan af síður Ásatrúarmanna. Var það unnið sem átaksverkefni í atvinnumálum að tilstuðlan Grindavíkurbæjar. Ég hannaði verkið og vann það með hjálp vaskra Grindvíkinga. Það var þing til samveru og helgað sólinni á sumarsólstöðum 21. júní, en Sólarvé er ekki trúarlegt mannvirki í sjálfu sér.

Grindavík

Grindavík – Sólarvé.

Þjóðmenning og Vor siður Hofið í Grindavík er byggt í nafni félags sem nefnist Vor siður og tveggja einstaklinga. Annar þeirra er höfundur hofsins og heiðinn maður, sá sem þetta ritar, hinn er kristinn. Innan vébanda Vors siðar eru fleiri Ásatrúarmenn en ég, en þeir eru þó ekki í meirihluta í félaginu. Vor siður er þjóðmenningarfélag, ekki trúfélag. Ásatrúarmenn styðja hins vegar byggingu hofs í Grindavík heils hugar. Ég held að flestir Ásatrúarmenn telji það af hinu góða að veita íslenskri menningu lið.

Grindavík

Grindarvík – Sólarvé.

Ég byggi heiðið hof. Það hús er listaverk, sem hefur nálgun við fornan skála, gert af stafverki eða rekaviðarsúlum. Fjórir 6 metra langir stórviðir bera þakið uppi en tólf stafir eru meðfram veggjum. Reft og tyrft yfir þakið með torfi. Þetta er einskonar jarðhýsi, svolítið aflangt, skipslaga, með eldi í miðju gólfi og brann undir hamri. Moldargólf. Stórt op er fyrir miðju gólfi yfir eldinum. Bekkir meðfram veggjum og þiljað að hluta við veggina Húsið er byggt til samveru, til þinghalds og dansa. Ég byggi yfir frjálsa afstöðu nútímamannsins, þar sem hver hefur sína persónulegu mynd af heiminum og ætlar engum að sjá sömu sýnir af þessari annars óskiljanlegu tilvist. Ég vil efla dansa og leika af ýmsu tagi, kveðskap og sönglistir, það helst sem eflir samkennd með fólki.“

Grindavíkurbrim

Grindavíkurbrim.

Það er meginatriði, segir Tryggvi Gunnar Hansen, að upplifa það sem er sérstakt við menningu þeirrar þjóðar, sem heimsótt er. Þannig getur Vor siður allt eins þýtt „það sem við erum vön að gera sarnan“. Önnur merking orðsins siður er tengd siðferði. Siður getur vissulega þýtt átrúnaður í fomri merkingu orðsins og er það vel, flestir meðlimir Vors siðar bera að vonum sína persónulegu trú í hjarta sínu.

„Svo virðist sem fólk haldi að ég ætli að neyða ferðafólk til að láta vígjast til heiðni í hofinu, ferðafólkinu alsendis að óvörum.

Grindavík

Grindavík.

Ég held að það sé ljóst að svona málflutningur er út í hött og ætti að vera fyrir neðan virðingu hins siðavanda guðfræðiprófessors. En heimsóknir ferðafólks í trúarleg samkomuhús eru vel þekkt fyrirbæri.

Reykjavík

Reykjavík – Hallgrímskirkja.

Eflaust rekast ferðamenn inn í Hallgrímskirkju við og við, hver veit hvers siðar það fólk er. Flestir ferðamenn reyna að heimsækja hin frægu Shinto-hof og Zen-garða er þeir heimsækja Japan og ekki nema gott eitt um það að segja að fólk fái að kynnast mismunandi siðum og viðhorfum. Trúarlegar stofnanir draga að sér forvitið ferðafólk eins og hvaðeina sem sker sig úr.

Hvernig tengist hofbygging ferðamenningu? Ferðamenning er í raun samskipti. Hugsjón ferðamennskunnar er að auka samskipti og skilning milli þjóða og menningarsvæða. Vera má að ferðamenning geti „læknað“ jarðarbúa af því hatri og ótta sem hvílir eins og mara á samskiptum manna eins og er.

Brim

Grindavíkursjór.

Það er meginatriði að ferðamenn fái að upplifa það sem er sérstakt við menningu þeirrar þjóðar sem þeir heimsækja. Þannig er þjóðmenningin framlag til heimsmenningarinnar. Okkar er því að leggja rækt við þekkingu og ærlegan skilning á arfleifðinni og veita öðrum aðgang að henni bæði í orði og á borði.

Ekki er nóg að segja sögur og leika leikrit heldur ættum við að kynnast því fólki sem sækir okkur heim. Ferðalög með tilgangi heitir þessi áætlun.

Grindavík

Grindavík – Jónsmessusólin.

Samskiptamunstur eins og söngvar, matarveislur við elda og dansar í gömlum stíl era í fullu gildi. Allt sem eflir bein samskipti fólks er af hinu góða. Ferðamaðurinn er ekkert öðruvísi en við sjálf — erum við ekki öll fólk á ferð?
Þess má að lokum geta að jafnvel þótt teikningar af hofinu hafi verið samþykktar, hafa bygginganefnd og bæjarstjórn í Grindavík ekki enn gefið leyfi fyrir því að hofið rísi á þeim stað þar sem byrjað er á því, hvort sem það er stífni af trúarlegum rótum eða af öðrum „persónulegum“ ástæðum. Vil ég því velta boltanum áfram og spyrja þá sveitarstjómar- og bæjarstjómarmenn, sem þessi orð lesa, að hugleiða hvort þeir hafi hug á nýskapandi aðgerðum í ferðaþjónustu í sínu sveitarfélagi. Vera má að ég gæti orðið að liði.“ – Höfundur er listamaður og
hofbyggjandi í Grindavík.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 15. júlí 1994, Sólarvé í Grindavík, bls. 6.
-https://glatkistan.com/2018/04/19/tryggvi-gunnar-hansen-1956/
-http://www.sudurnes.net/frettir/faerdu-tryggva-hansen-skjolfatnad-og-stigvel/
-https://www.grindavik.is/ahugaverdirstadir
-Morgunblaðið 11. nóv. 1994, Þjóðmenning – framlag til heimsmenningar, Tryggvi Gunnar Hansen, bls. 28.
-http://www.visir.is/afkomandi-huldufolks-byr-i-skogarrjodri-vid-reykjavik/article/2015150928779

Tryggvi Gunnar Hansen

Tryggvi Gunnar Hansen.