Færslur

Arnarhóll

Arni Óla skrifar í Lesbók Morgunblaðsins árið 1958 um “Úr sögu Arnarhóls“:

Arnarhóll

Arnarhóll – fornleifarannsókn 1955.

“Nú er byrjað að grafa upp gömlu traðirnar í Arnarhólstúni. Er því ekki úr vegi að rifja upp gamlar minningar frá þessum stað.
Arnarhóls er fyrst getið í Landnámu, ekki sem jarðar, heldur sem örnefnis. Ingólfur Arnarson varpaði öndvegissúlum sínum fyrir borð, er hann var kominn í landsýn, og hét að byggja þar sem þær kæmi á land. Öndvegissúlurnar fundust síðar reknar „við Arnarhvol fyrir neðan heiði”. Heiðin, sem hér er átt við, er Mosfellsheiði.

Arnarhóll

Arnarhóll og nágrannajarðir 1703.

Út af orðalagi frásagnar Landnámu hafa ýmsir haldið því fram, að Ingólfur muni hafa reist bæ sinn á Arnarhóli. En það getur ekki verið rétt. Ari fróði kallar bæ hans Reykjavík, og það er sami bærinn, sem lengi var aðeins kallaður Vík og stóð undir brekkunni syðst í Aðalstræti, sem nú er. Auðvitað hefir bær Ingólfs verið höfuðbólið hér, og það sem tekur af allan vafa hér, er það, að Vík átti allt landið upphaflega. Af vitnisburði um landamerki Víkur, teknum um 1500, má glögglega sjá að bæirnir Hlíðarhús, Sel, Skildinganes og Arnarhóll voru allir byggðir í Víkurlandi. Hitt er ekki vitað hvenær þeir voru reistir, né heldur hvenær þeir urðu sjálfstæðar jarðir. En það hefir verið löngu fyr en þetta var og þó var enn óskipt beitiland.
Arnarhóll
Af Vík og bæunum þar um kring fara engar sögur um aldir. Veit því enginn hvernig stendur á því, að jörðin var brytjuð niður í mörg býli. En Arnarhóls er næst getið í gjafabréfi, dagsettu í Engey 27. marz 1534. Það bréf er svo: „Það geri eg, Hrafn Guðmundsson, heill að viti, en krankur á líkama, góðum mönnum kunnugt með þessu mínu opnu bréfi, að eg gef jörðina alla Arnarhól, er liggur á Seltjarnarnesi í Víkur kirkjusókn, heilögu klaustri í Viðey til ævinlegrar eignar, en mér til eilífs bænahalds, með þeim skilmála, að jörðin skal hvorki seljast né gefast frá klaustrinu, en tíundast ævinlega þar sem hún liggur, þeim mönnum hjáveröndum: húsfrúnni Þórey Narfadóttur, Guðbrandi Jónssyni og Ingjaldi Jónssyni. En ef guð gefur mér minn bata, heilsu og styrk, þá er fynefnd jörð, Arnarhóll, mín eign og í minni umsjá svo lengi sem guð gefur mér lífdagana, en eftir mína framferð skal hún klaustursins eign vera, sem fyr segir”.

Arnarhóll

Arnarhóll – býli 1787.

Ekki er víst að Hrafn hafi búið á Arnarhóli, en hann er seinasti bóndinn, sem á þá jörð. Nokkrum árum seinna kastaði konungur eign sinni á allar jarðir Viðeyarklausturs, og þá hafa verið rofnir þeir skilmálar, sem Hrafn setti fyrir gjöfinni, því að þá mun hafa verið lokið hinu „eilífa bænahaldi” fyrir sál hans. Um hitt skilyrðið, að jörðin mætti hvorki gefast né seljast, er að vísu það að segja, að hún var hvorki gefin né seld, heldur var henni bókstaflega rænt. Húsfrú Þórey Narfadóttir, sem var vitundarvottur að gjöf Hrafns, hefir sennilega verið mágkona Orms sýslumanns Jónssonar í Vík og móðursystir Narfa Ormssonar sýslumanns, sem var seinasti sjálfseignarbóndi í Vík. Narfi sýslumaður lét dóttur sína heita Þórey, og bendir það til skyldleikans.

Arnarhólsland

Reykjavík

Reykjavík 1801.

Það mun sennilega hafa verið um þetta leyti, eða þó öllu heldur fyr, að Arnarhólslandi var skipt úr Víkurlandi. Þykir líklegast að það hafi verið gert um leið og hjáleigurnar Skálholtsskot og Stöðlakot byggðust. Nafnið Stöðlakot bendir til þess, að þar hafi verið stöðull. Nokkru ofar, eða þar sem nú er lóð Ingólfsstrætis 9, var þá varða, sem kölluð var Stöðulvarða og bendir það nafn til hins sama. Efst á holtinu, þar sem minnisvarði Leifs heppna stendur nú, voru beitarhús frá Arnarhvoli, og allt holtið var þá kallað Arnarhólsholt, en Öskjuhlíðin Víkurholt. Þegar landamerki voru nú ákveðin milli Víkur og Arnarhóls, voru þau úr Stöðulvörðu og vestanhalt við beitarhúsin og þaðan upp í Breiðamýri að Rauðarárlæk, en síðan réði lækurinn landamerkjum til sjávar. Þetta var þá allt Arnarhólsland.

Skólavarðan

Skólavarðan á Arnarhólsholti.

Þegar beitarhúsin voru reist, hefir bóndinn á Arnarhóli sjálfsagt átt allmargar kindur. En nokkuru eftir að skiptin fóru fram, munu húsin hafa verið lögð niður, því að þess er getið 1777, að þau sé ekki annað en gamlar rústir. En upp úr þessum rústum munu skólapiltar hafaa tekið efni í Skólavörðuna, sem hlaðin var á árunum 1785—86. Þannig hafa beitarhúsin horfið. Og þær eru einnig horfnar Skólavarðan og Stöðulvarðan.
Arnarhóll hefir eflaust misst spón úr askinum sínum þegar landinu var skipt. Áður hefir hann haft kúahaga og hrossahaga suður í Vatnsmýri, í sameiginlegu beitilandi, en eftir það ekki aðra haga heldur en meðfram Rauðarárlæknum. Sennilega hafa þó verið sæmilegir sauðfjárhagar í holtinu um þær mundir. Annars missti Arnarhóll ekki öll sín hlunnindi af sambýli við Vík, því að hann átti enn um langt skeið torfristu, stungu og móskurð til eldiviðar í Víkurlandi, og er þess getið í Jarðabókinni 1703.

Arnarhóll um 1700

Arnarhóll

Arnarhóll – kaupstaðalóðin 1787.

Fyrstu glöggvar upplýsingar um Arnarhól er að fá í Jarðabókinni. Þá er þar tvíbýli og búa þar bræður tveir, Tómas og Jón Bergsteinssynir. Var heimilisfólk hjá öðrum 6 manns, en hjá hinum 5. En auk þess var hjá Tómasi tómthúsmaður, Guðni Eyólfsson að nafni, með konu og barn, og þar að auk húsmaður, sem Klemens Jónsson hét. Hjá Jóni var og tómthúsmaður, sem Guðlaugur Höskuldsson hét, og bjó hann með öðrum manni í kofa heima við bæinn. Heimilisfólk hefir því verið 17 manns. En svo voru löngum aðkomumenn þar, því að þaðan gengu 1—3 kóngsskip og fylgdi þeim engin verbúð, svo að bændur voru skyldaðir til að hýsa skipshafnirnar, hvort sem voru ein eða fleiri, og fengu ekkert fyrir nema soðningarkaup. Á þessu má sjá, að þarna hafa þá verið allmikil húsakynni.

Arnarhóll

Arnarhóll 1787.

Vatnsból var talið slæmt á Arnarhóli. Það var brunnur neðst í túninu rétt þar hjá sem Söluturninn stendur nú. Margir Reykvíkingar muna eflaust eftir honum, því að hann var þarna til skamms tíma, en nú hefir verið steypt stétt yfir hann. Við vitum ekki hve mikil eftirsjá er að þessum brunni, en þessi hafa orðið örlög margra gamalla minja hér — þær hafa verið afmáðar þegjandi og athugalaust. Það var ekki eina kvöðin á bændum að hýsa sjómenn kóngs, heldur urðu þeir sjálfir að kosta viðhald bygginga. Auk þess urðu þeir að flytja Bessastaðamenn, hvenær sem þeir kölluðu, annaðhvort sjóveg út í Viðey, eða upp á Kjalarnes, og svo landveg til Skildinganess. Enn urðu þeir að slá einn dag hvor úti í Viðey og gjalda tvo heyhesta til fálkanna, eftir að farið var að flytja þá út í Hólmi.

Arnarhóll

Arnarhóll 1850.

Bessastaðavaldið var sjaldan nærgætið við landseta konungs. Það hafði þó átakanlegast komið í ljós í fardögum 1681. Þá kom maður frá Bessastöðum og krafðist þess af einum ábúanda Arnarhóls, Ásbirni Jóakimssyni (sem líklega hefir búið á Litla-Arnarhóli en var þá að flytja sig búferlum þaðan), að hann ferjaði sig yfir Kollafjörð (eða inn í sund). Ásbjörn þóttist ekki skyldugur til þess, þar sem hann var að flytja burt af jörðinni. En fyrir þessa neitun var hann hýddur á Kópavogsþingi stórhýðingu, er næst gekk lífi hans. Og aldrei fékk hann leiðrétting sinna mála.

Tukthúsið kemur

Arnarhóll

Arnarhóll og tukthúsið um 1820.

Árið 1759 olli straumhvörfum í sögu Arnarhóls. Þá gaf konungur út skipun um að þar skyldi reist tukthús. Er mælt að Skúli Magnússon landfógeti hafi verið hvatamaður þess, og hafði hann ráðlagt stjórninni að leggja eignir Þingeyraklausturs til stofnunarinnar. Stjórnin fellst á þetta á þann hátt, að tekjur Þingeyraklausturs og Arnarhóll skyldi lagt tukthúsinu þangað til það gæti séð um sig sjálft. Þótti henni sem tukthúsið væri vel sett þarna, því að það gæti alltaf fengið ull hjá iðnstofnununum og látið fangana tæta úr henni, og þar að auki lægi jörðin svo vel við sjó, að ætíð væri hægt að fá fisk handa föngunum.

Arnarhóll

Arnarhóll 1874.

Magnús Gíslason amtmaður fann upp á því snjallræði, að nota skyldi íslenzka afbrotamenn til þess að vinna að byggingu tukthússins, og skyldu þeir með því kaupa sig undan Brimarhólmsvist. Þetta þótti stjórninni fyrirtak, því að með þessu móti mundi kostnaður við bygginguna verða minni. Var svo byrjað á því 1762 að láta hina sakfelldu grafa fyrir grunni og draga að grjót.
Tukthúsið mun hafa verið talið fullsmíðað árið 1764. Þótti þetta furðumikið hús, 44 alna langt og 16 alna breitt. Það hafði líka kostað 700—800 ríkisdali. Til tukthússins voru ráðnir tveir embættismenn, ráðsmaður (kallaður ökonomus) og fangavörður. Skyldu þeir hafa hálfar tekjur hvor af Arnarhóli, auk launa sinna.

Arnarhóll

Arnarhóll 1882.

Fyrsti „ökonomus” varð Guðmundur Vigfússon lögréttumanns Sigurðssonar í Hjörsey. Hafði hann stundað lögfræðinám við háskólann í Kaupmannahöfn í fjögur ár, en ekki lokið prófi. Var talið að hann hefði hlotið þetta embætti vegna þess, að hann var systursonur Þórunnar konu Magnúsar amtmanns Gíslasonar. Hann gegndi þessu starfi í 22 ár, eða fram til 1786.
Um þessar mundir bjó á Arnarhóli Gissur Jónsson lögréttumaður. Hann var kvæntur Silfu dóttur Jóns Oddssonar Hjaltalíns sýslumanns, sem var seinasti ábúandi í Vík (Reykjavík). Gissur var talinn meðal fremstu manna hér um slóðir á sinni tíð. Var hann hreppstjóri um 25 ára skeið og meðhjálpari í 20 ár. Hann var fæddur á Arnarhóli, ólst þar upp og fékk byggingarbréf fyrir jörðinni 1744, líklega lífstíðar ábúð.

Arnarhóll

Arnarhóll – Hafnarstræti og Reykjavíkurhöfn 1931.

Vorið 1768 byggði Guðmundur „ökonomus” honum út af jörðinni. Gissuri kom þetta mjög á óvart, og þóttist hart leikinn. Leitaði hann þá á náðir stiftamtmanns, ritaði honum bréf á alþingi við Öxará þá um sumarið og bað hann að styrkja sig til þess að hann fengi haldið jörðinni. En það bar engan árangur. Gissur varð að flæmast þaðan. Fluttist hann þá suður með sjó. Silfa kona hans var enn á lífi 1777 og átti þá heima í Kirkjuvogi í Höfnum.

Arnarhóli hrakar

Traðarkot

Traðarkot.

Nú tók Guðmundur „ökonomus” undir sig túnið á Arnarhóli, sem var stórt og gott og girt með ramefldum grjótgarði. Náði garður sá utan frá sjó um það bil er Klapparstígur kemur nú niður á Skúlagötuna og lá svo skáhalt uppeftir um það bil er nú stendur hús prentarafélagsins við Hverfisgötu, neðan við Traðarholt og að Laugavegi 3 sem nú er, en þaðan beint niður að læk, eins og gangstéttin norðan Bankastrætis liggur nú. En tún þetta skiptist í tvennt af tröðunum miklu, sem náðu frá Traðarkoti niður að lækjarósnum, og voru aldar 120 faðmar á lengd. Eftir að Gissur var hrakin frá Arnarhóli bjuggu þar tómthúsmenn, fyrst Sigurður Magnússon smiður frá Skálabrekku. Hann var jafnan kallaður timburmaður, og við hann var kenndur Timburmannsbærinn, nú Tjarnargata 5 B.

Traðarkot

Traðarkot.

Húsakosti jarðarinnar tók mjög að hnigna upp úr þessu, því að þurrabúðarmenn voru ekki skyldugir að sjá um viðhald húsa, og ekki mun Guðmundur „ökonomus” hafa hugsað um það. Þegar hann lét af ráðsmennsku tukthússins, voru húsin tekin út og voru „í mestu niðurlægingu” Baðstofan þar er þá talin 10 alnir á lengd, en ekki nema 3 3/4 alin á breidd. Þetta ár fluttist þangað Ólafur Valdason frá Rauðará og átti þar lengi heima. Hann var faðir Hróbjartar í Traðarkoti, sem var hinn efnilegasti maður í æsku, heljarmenni að burðum og syndur sem selur. En hann lagðist í óreglu og gat sér það orð, að hann væri mesti brennivínsberserkur bæarins. Ólafur Valdason drukknaði í mannskaðaveðrinu mikla 6. apríl 1830. Vegna þess manntjóns, sem þá varð, var efnt til samskota. En samskotafénu var ekki öllu úthlutað, heldur sumt af því sett á vöxtu, og síðan myndaður af því Fiskimannasjóður Kjalnesinga.

Málfríður Sveinsdóttir

Málfríður Sveinsdóttir.

Árið 1828 var bærinn á Arnarhóli orðinn svo hrörlegur, að hann gat naumast talizt mannabústaður. Þá lét Hoppe stiftamtmaður rífa hann og slétta yfir rústirnar. Sá, sem seinastur átti heima í þessu greni, hét Sveinn Ólafsson. En þótt vistarverurnar væri lélegar, ólst þarna upp sú stúlka, er talin var fegurst allra kvenna í bænum á sinni tíð. Hún hét Málfríður og var dóttir Sveins. Hún var framreiðslustúlka á klúbbnum þegar Gaimards-leiðangurinn var hér, og virðist svo sem þeim Frökkunum hafi litizt mætavel á hana, því að málarinn Auguste Mayer gerði af henni mynd í viðhafnarbúningi, en Xavier Marmier, sem þá var aðeins 26 ára, eignaðist barn með henni. Var það drengur og hét Sveinn Xavier. —

Marmier Xavier

Marmier Xavier.

Þegar Sveinn Ólafsson varð að fara frá Arnarhóli, reisti hann sér bæ, er hann kallaði Þingvöll, þar sem nú er Skólastræti. Á Arnarhóli var hjáleiga 1703 og nefndist Litli-Arnarhóll, stundum nefnd Arnarhólskot. Það fór í eyði um 1800. En þá var komið annað tómthúsbýli í túninu og hét Sölvahóll. Það reisti Einar Eiríksson, sem áður var í Þingholti. Sölvahól endurreisti Jón hreppstjóri Snorrason 1834, og var það talið snotrasta tómthúsmannsbýli í bænum um þær mundir. Seinna reyndu stiftamtmenn að koma Sölvahól burt, en þar var ekki hægt um vik, því að Hoppe hafði gefið lífstíðar ábúð. Seinna reisti Benedikt sótari bæ í Arnarhólstúni (1886) og kallaði Höfn. Stóð hann þar sem nú er hús Fiskifélags Íslands.

Tukthúsið verður að kóngsgarði

Tukthús

Tukthúsið – teikning. (Teikningin virtist glötuð, en fannst síðar á Þjóðskajalasafninu.)

Um sögu tukthússins er óþarft að skrifa, því að það hefir verið gert áður. Þess má aðeins geta, að árið 1813 rak Castenskjöld stiftamtmaður fangana burt og heim á sínar sveitir, en 1816 var tukthúsið lagt niður. Árið 1819 kom Moltke stiftamtmaður hingað og settist að í tukthúsinu; var því þá breytt svo sem hæfði bústað svo virðulegs embættismanns. Og þá skipti það auðvitað um nafn. Áður hafði það í daglegu tali verið nefnt „Múrinn”, en nú var farið að kalla það Kóngsgarð. Þarna var svo bústaður stiftamtmanna hvers fram af öðrum fram til 1873 og síðan bústaður landshöfðingja fram til ársins 1904, er innlend stjórn tók við. Þá var húsið gert að skrifstofu stjórnarinnar og hefir síðan verið kallað Stjórnarráð.

Helgi G. Thordersen

Helgi G. Thordersen, biskup.

Þess má ef til vill geta, að í tukthúsinu fæddist einn af nafnkenndustu mönnum þjóðarinnar. Þá var þar ráðsmaður Guðmundur Þórðarson frá Sámsstöðum, alltaf nefndur „Thordersen í Múrnum” á þeirrar tíðar reykvísku. Árið 1794 fæddist honum sonur, og var það Helgi Thordersen dómkirkjuprestur og síðar biskup. Eftir að tukthúsið lagðist niður höfðu stiftamtmenn og síðar landshöfðingjar Arnarhólstún til eigin nota endurgjaldslaust. Þóttu það mikil hlunnindi. Var þeim sárt um túnið og vildu ekki missa neitt af því undir byggingar. Aftur á móti leyfðu þeir tómthúsmönnum að reisa býli ofan garðs, og munu elztu býlin þar hafa verið Traðarkot og Skuggi. En við hið síðarnefnda býli var svo hverfið þarna kennt og kallað Skuggahverfi. Sjálfsagt má þakka það fastheldni stiftamtmanna í Arnarhólstún, að Arnarhóll er enn óbyggður. En á hinn bóginn varð þessi fastheldni Reykjavíkurbæ til mikils tjóns, eins og nú skal sagt.

Arnarhólstún lagt til Reykjavíkur

Sölvhóll

Sölvhóll mun hafa staði austan við húsið Sölvhólsgötu 4. Hjáleigan Sölvhóll mun hafa byggst úr landi Arnarhóls laust fyrir 1780. Nafnið Sölvahóll er einnig til í gömlum heimildum og kann að vera dregið af því að söl hafi verið breidd til þerris á hólnum. Upphaflega eru ábúendur tveir “grashúsmenn” en 1801 er Einar Eiríksson talinn einn ábúandi.
Ábúendur í Sölvhóli stunduðu útræði og var Sölvhólsvör beint niður undan bænum. Lítil vör var nokkru austar, nefnd Krummaskuð, var nauðlendingarvör. 

Fyrir 170 árum var ákveðið að stækka kaupstaðarlóðina og gæfi konungur land til þess. Hinn 12. febrúar 1789 framkvæmdi svo Vigfús Thorarensen sýslumaður útmælingu á þessum viðauka við kaupstaðarlóðina, ásamt Jóni Guðmundssyni hreppstjóra og Pétri Bárðarsyni vefara og í viðurvist Lewetzows stiftamtmanns. Sést á útmælingunni hvaða land það er sem konungur hefir ákveðið að gefa Reykjavík, en það er m.a. allt Arnarhólstúnið fyrir norðan traðirnar (því að tukthúsið mátti ekki missa þá lóð, sem það stóð á). Þessi hluti Arnarhólstúns mældist 12.000 ferfaðmar. Segir í útmælingargerðinni að þetta land sé Reykjavík mjög hagkvæmt, einkum vegna þess að þá fái hún meira athafnasvæði við höfnina, góðar lendingar, nóg rúm fyrir sjóbúðir og fiskreita. Síðar segir: „Þar sem allt þetta áðurnefnda land, sem bætast á við kaup staðarlóð Reykjavíkur, er eign hans hátignar konungsins og hann hefir allra mildilegast gefið Reykjavík það, án þess að nokkuð komi í staðinn, þá verður hér ekki heldur um neina greiðslu til annara að ræða”.

Stöðlakot

Stöðlakot 1876.

Þessi útmæling var send Rentukammeri þá um veturinn, ásamt uppdrætti eftir R. Lievog stjörnumeistara, er hann hafði gert af kaupstaðnum og hinni fyrirhuguðu viðbót kaupstaðarlóðarinnar. Jafnframt var því skotið til stjórnarinnar hvort ekki væri rétt að allir úthagar væri lagðir undir bæinn, svo að íbúarnir bætti nota þá eftir þörfum. Stjórnin gaf þann úrskurð árið eftir, að úthagar skyldu fylgja bænum til sameiginlegra afnota. Þetta hefir líklega þótt ráðgjöf, því að stjórnin tekur Örfirisey af bænum aftur 1791. En þar er ekkert minnzt á Arnarhól og hann var aldrei tekinn aftur.

Stöðlakot

Arnarhóll – Stöðlakot. Tukthúsið er nr. 3.

Árið 1792 var svo kaupstaðarlóðin stækkuð þannig, að við hana var bætt Skálholtskoti og Stöðlakoti. Er þá tekið fram í útmælingu, að þetta sé viðbót við kaupstaðarlóðina, eins og hún var ákveðin 1787. Þar má sjá, að Reykjavík hafði eignazt Arnarhólstúnið. En Reykjavík fékk það aldrei. Fyrst mun hafa verið þumbast við að afhenda það, vegna þess að tugthúsið hafði nytjar þess. En eftir að tukthúsið var lagt niður, og stiftamtmenn sölsuðu undir sig túnið, mun það ekki hafa legið lausara fyrir. Um þetta segir Jón biskup Helgason (1916): „Afleiðingin hefir því orðið sú, að kaupstaður vor hefir nú í senn 130 ár verið látinn kaupa háu verði af landstjórninni hverja feralin í þessu túni, sem sannanlega var honum í upphafi gefið af konungi, og því kaupstaðarins ótvíræð eign”.

Mannvirki á Arnarhóli

Arnarhóll

Arnarhóll – virki um 1880.

Einn kaflinn í sögu Arnarhóls er um Batteríið. Honum hefi eg áður gert skil í greininni „Víggirðingar Reykjavíkur” (í bókinni Fortíð Reykjavíkur). En oft hefir verið talað um að byggja stórhýsi á Arnarhóli. Þegar latínuskólinn skyldi flytjast frá Bessastöðum til Reykjavíkur, vildu margir að hús yrði reist handa honum þar. Ýmsir smámunir réðu, að ekki varð úr því Þegar reisa skyldi alþingishúsið, var talsverður áhugi fyrir því, að það skyldi standa á Arnarhóli, og var fyrst ákveðið að setja það þar, en hætt við „eftir allskonar þref, deilur og undirróður”, segir Klemens Jónsson. Var svo byrjað á byggingu þess rétt fyrir ofan Stjórnarráðið, en þegar Bald yfirsmiður kom, harðneitaði hann að reisa það í halla. Varð það því úr, að því var „holað niður í kálgarð” niðri í miðbænum. Og þegar rætt var um byggingu landspítala, vildu sumir að hann stæði á Arnarhóli, en ekkert varð úr því.

Arnarhóll

Arnarhóll – stytta af Ingólfi Arnarssyni.

Það mun hafa verið í janúar 1863, að Jón Árnason þjóðsagnaritari hreyfði því fyrstur manna, að Íslendingar ætti að reisa Ingólfi Arnarsyni minnismerki, og skyldi það standa á Arnarhóli, þar sem öndvegissúlur hans komu á land. Þetta líkneski kom 1931 og stendur nú þar sem gamli bærinn var. Traðirnar og túngarðurinn Arnarhólstraðir og garðurinn mikli umhverfis túnið, eru samstæður, og verður ekki um annað skrifað án þess minnzt sé á hitt.

Arnarhóll

Arnarhóll – upplýsingaskilti um Arnarhólstraðir.

Í Grágás er svo fyrirmælt, að hver maður skuli gera löggarð um töðuvöll sinn. Og í Jónsbók segir: „En það er löggarður, er 5 feta þykkur er við jörð niðri, en þriggja ofan; hann skal taka í öxl þeim manni af þrepi, er hann er hálfrar 4. alnar hár”. Björn M. Ólsen færði rök að því í grein í Árbók Fornleifafélagsins 1910, að forn íslenzk alin hafi samsvarað 49.143 sentimetrum. Sá maður, sem var hálf fjórða alin á hæð, hefir því verið 172 sm hár, og mun þar vera miðað við meðalmann. En sé gert ráð fyrir að hæðin frá öxl á hvirfil sé 28 sm, þá hefir löggarður átt að vera 144 sm á hæð. Og slíkur garður hefir eflaust einhvern tíma verið um Arnarhólstún.
Nú segir enn í Jónsbók, að ef þjóðgata liggi um bæ manns, eða að garði, þá megi maður færa hana frá bæ sínum og gera aðra jafngóða, ef hún sé ekki lengri en 240 faðmar. En ef þjóðvegur liggur að garði, og verður ekki færður, þá á þjóðhlið að vera á garðinum, 4 1/2 alin á breidd, en þjóðgata er 5 alnir. Fyrir hliðinu skal vera hjaragrind og rimar í, svo að fé smjúgi ekki á milli, okar tveir á endum og krossband á. Það er löggrind og skal setja hana svo að hún falli sjálf aftur, ef ríðandi maður opnar hana. Ekki verður nú vitað hvort slík grind hefir verið í þjóðhliðinu á Arnarhólsgarði, né hvenær traðirnar hafa verið gerðar. En þær voru til þess að fé og gripir kæmist ekki í túnið, enda þótt inn fyrir hliðið færi. Traðirnar skiptu sem sé túni Arnarhóls í tvo afgirta hluta, eða svo hefir verið á seinni öldum. En auðvitað gat grind líka verið þar í þjóðhliði.

Arnarhóll

Arnarhóll – upplýsingar um elstu götu Reykjavíkur.

Engar upplýsingar eru til um það hvenær vörzlugarður var settur þarna fyrst, en það getur verið nógu gaman að reyna að geta í eyðurnar stundum. Og þá finnst mér líklegt, að mikið æðarvarp hafi verið á Arnarhóli, er Ingólfur kom hingað, eða eggver, eins og það var kallað. Reykjavíkurbændum hafi snemma þótt nauðsyn til bera að friða þetta eggver, einkum þar sem um það lá eina leiðin til bæarins. Eggver verður líka að friða fyrir búfé, ef varp á að haldast þar. Er því ekki ósennilegt, að þegar á fyrstu árum byggðarinnar í Reykjavík hafi verið hlaðinn vörzlugarður umhverfis hólinn og hafi hann náð utan frá sjó upp að þjóðveginum, og síðan meðfram honum niður að lækjarósnum. Þegar fram í sótti hefir svo varpið gengið úr sér, því að forfeðrum vorum hætti við að stunda rányrkju. Og eftir svo sem 100—200 ár, er svo komið, að varpinu er lokið, og þá hefir einhverjum litist það heillaráð að reisa bæ þarna innan girðingar og á túni, sem fuglinn hafði ræktað. Síðan bætir bóndinn við sig annarri skák og girðir hana löggarði frá þjóðveginum suðvestur að læknum og hleður svo garð samhliða þeim garði er lá meðfram þjóðveginum og þó svo langt frá, að þjóðvegarbreidd sé á milli. Hann mátti ekki loka þjóðgötunni, og ekki gat hann heldur fært hana. Þess vegna varð hann að hafa tvöfalda girðingu meðfram henni. Við þetta myndast svo traðirnar í gegn um Arnarhólstún.

Arnarhóll

Arnarhóll – Arnarhólstraðir á miðri mynd h.m.

Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur um, að vegurinn um þessar traðir er elzti þjóðvegur á Íslandi. Þessa leið hefir Ingólfur Arnarson komið til hins fyrirheitna staðar. Lækurinn úr Reykjavíkurtjörn, sem kallaður var Arnarhólslækur, hefir þá máske verið vatnsmeiri heldur en síðar varð, og hann var ófær alls staðar nema á vaðinu við ósinn. Þjóðleiðin til Reykjavíkur og vestur á Seltjarnarnes lá því þarna um nær 1000 ára skeið, eða frá landnámstíð fram til ársins 1866, þegar steinbrú var gerð á lækinn og Bankastræti rutt, svo að þar varð fær vegur.” – Á.Ó.

Í “Húsakönnun og fornleifaskráningu vegna fyrirhugaðs tónlistar- og ráðstefnuhúss við Reykjavíkurhöfn“, Minjasafn Reykjavíkur 2005, er fjallað um Arnarhól:

Arnarhóll

Arnarhóll – Arnarhólstraðir v.m.

“Arnarhóllinn hefur í gegnum aldirnar verið einn af miðpunktum Reykjavíkur. Sunnan í hólnum liggur fyrsti þjóðvegurinn til Reykjavíkur, Arnarhólstraðirnar. Af þykkum mannvistarlögum, sem er að finna á stórum hluta hólsins, má draga þá ályktun að þar hafi verið búið fljótlega eftir að Ísland byggðist. Elstu jarðlög sem gefa til kynna byggð á hólnum eru eldri en gjóska sem féll 1226.
Í rituðum heimildum er Arnarhóls og byggðarinnar þar sjaldan getið. Elsta frásögn af hólnum er frá 16. öld og virðist Arnarhólsjörðin þá vera sjálfstæð eign. Í heimildum kemur fram að jörðin er í eigu Hrafns Guðmundssonar bónda í Engey. Árið 1534 gaf Hrafn síðan Viðeyjarklaustri jörðina.

Reykjavík

Reykjavík 1936.

Þegar Brynjólfur biskup Sveinsson skoðaði kirkjuna í Reykjavík og áhöld hennar árið 1642 kemur fram að Arnarhóll tilheyrði Reykjavíkursókn og að jörðin var þá eign konungs. Þetta kemur einnig fram í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703.
Árið 1786 var stofnaður kaupstaður í Reykjavík og uppmæling gerð á Reykjavíkurlóðinni 1787. Í skjalinu vegna uppmælingarinnar kemur fram að konungur hefur ætlast til að Arnarhóllinn skuli leggjast til kaupstaðarlóðarinnar. Þetta fórst þó fyrir og Arnarhóll lenti fyrir utan Reykjavíkurlóðina. Upp kom deilumál og þurfti Reykjavíkurborg síðar meir að kaupa jörðina. Bæjarlandið var stækkað í febrúar 1835 er ýmsum bújörðum í nágrenninu, þar á meðal Arnarhóli, var bætt við það. Upp frá því hefur Arnarhóll tilheyrt Reykjavík.

Arnarhóll

Klöpp.

Ábúendur Arnarhóls hafa verið margir í gegnum tíðina. Arnarhóll þótti hið myndarlegasta býli þar til tukthúsið var reist syðst á Arnarhólstúninu á árunum 1759-64. Þá fór að halla undan fæti og um það bil hálfri öld síðar var býlið orðið mjög hrörlegt. Ástæðurnar má rekja til þess að tekjur Arnarhóls voru lagðar til reksturs tukthússins og smám saman fengu einnig hinir ýmsu embættismenn tukthússins jörðina til eigin afnota.
Arnarhóll
Fyrstu ábúendur Arnarhóls, sem getið er í rituðum heimildum, voru Tómas Bergsteinsson, f. 1652 og Guðrún Símonardóttir. Þau bjuggu þar árið 1703 ásamt bróður Tómasar, Jóni Bergsteinssyni. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns bjó Tómas á hálfri jörðinni og Jón hálfri. Heimilsmenn hjá Tómasi voru sex og fimm hjá Jóni. Innibúandi hjá Tómasi voru einhleypur húsmaður og tómthúsmaður með konu og barni. Hjá Jóni bjuggu tveir tómthúsmenn og húsi þeirra hélt Jón við. Samkvæmt þessu voru því íveruhúsin að minnsta kosti tvö á býlinu.
Kvaðir Arnarhólsbænda voru að flytja Bessastaðamenn til Viðeyjar og til baka hvenær sem þeim þóknaðist, jafnt á nóttu sem degi. Þessu til viðbótar komu tvær dagsláttur í Viðey á ári, einn á hvorn bónda, og skyldi bóndinn fæða sig sjálfur í þessum ferðum. Við til húsagerðar áttu bændur að útvega sér sjálfir en torf og eldivið sóttu þeir í land Reykjavíkur.

Arnarhóll

Arnarhóll – 17. júní 1948.

Sonur Tómasar og Guðrúnar, Jón Tómasson (f. 1687, d. 1754), bjó á Arnarhóli um nokkurt skeið eftir að foreldrar hans brugðu búi. Gissur lögréttumaður Jónsson (sonur Jóns Tómassonar), bjó síðan á Arnarhóli eftir föður sinn. Hann fluttist nauðugur af jörðinni árið 1768 að beiðni Guðmundar Vigfússonar, ráðsmanns í tukthúsinu, en eins og áður sagði fengu embættismenn fangelsisins býlið til ábúðar sem launauppbót. Fyrir utan embættismenn bjuggu ýmsar fjölskyldur á Arnarhóli upp frá þessu. Ábúendur sátu þar yfirleitt skamma hríð eftir þetta og voru fjölskyldurnar sjaldnast tengdar innbyrðis eins og áður. Guðmundur Vigfússon lét af ráðsmennsku tukthússins árið 1786 og við starfinu tók Gunnar Sigurðsson til bráðabirgða í eitt ár. Henrik Scheel tók síðan við ráðsmannstarfinu árið 1787.

Arnarhóll

Sölvhóll – teikning Jóns Helgasonar, biskups. Klöpp fjær.

Við ráðsmannsskiptin voru gerðar úttektir á Arnarhólsbýlinu, sú fyrri í maí 1786 og sú seinni í júní 1787. Úttektunum ber nokkurn veginn saman hvað varðar innihald en í þeim kemur fram að býlið var í mikilli niðurníðslu og ítrekað nefnt að viðgerð sé nauðsynleg. Baðstofan mældist við úttektina aðeins 10 álna löng og 3 3/4 álna breið. Göng frá baðstofu voru 3 álna löng og 2 álna breið. Skálinn mældist 12 álna langur og 4 álna breiður. Eldhúsið var 8 álna langt og 4 álna breitt, nokkuð viðgert. Íbúðarhúsið virðist því samkvæmt þessu hafa verið gangabær, sem var ráðandi byggingarstíll á Íslandi fram á 18. öld. Síðasti ábúandinn á Arnarhóli var Sveinn Ólafsson. Þar bjó hann til ársins 1828. Hann var faðir Málfríðar, sem þótti fríðust kvenna í Reykjavík um 1830 og er talin hafa verið fyrsta fyrirsæta á Íslandi.

Arnarhóll

Sölvhóll 1843.

Við upphaf 19. aldar þótti Reykjavík ekki bera neinn sérstakan höfuðborgarsvip og lítið bar einnig á fegurð staðarins. Landslagið þótti þó bjóða upp á ýmsa möguleika en húsakynni íbúa voru aftur á móti í mikilli vanhirðu. Fegrunarátak var þá sett í gang og eitt af byrjunarverkefnum var að rífa Arnarhólsbýlið. Það var Peter Fjelsted Hoppe stiftamtmaður sem stóð fyrir því árið 1828 og þótti það mikið og gott framlag til fegrunar Reykjavíkur. Arnarhólsbýlinu er lýst þar sem kofaþyrpingu eða rústum, sem voru til mikillar óprýði, þannig að ekki hafa bæjarhúsin verið ásjáleg þau seinustu ár sem þau voru í notkun. Oft var rætt um það í skipulagsnefnd Reykjavíkur hvort nota ætti Arnarhólinn sem byggingarlóð eða hvernig mætti nota svæðið.

Ingólfur Arnarsson

Ingólfur Arnarsson – stytta Einars Jónssonar.

Árið 1916 kom Guðmundur Hannesson með þá hugmynd að reisulegar byggingar nytu sín vel efst á hólnum. Þessi hugmynd fékk lítinn hljómgrunn hjá bæjaryfirvöldum í Reykjavík á þeim tíma. Um svipað leyti kom danski arkitektinn Alfred Raavad með þá hugmynd að reisa útsýnisskála á hólnum, áþekkum þekktum skála í Kaupmannahöfn. Þessi hugmynd fékk einnig litlar sem engar undirtektir. Ákveðið var síðan að stytta Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns skyldi standa efst á hólnum. Haustið 1923 var hafist handa við að reisa stall undir styttuna og í febrúar 1924 var styttan afhjúpuð að viðstöddu miklu fjölmenni. Styttuna gerði Einar Jónsson myndhöggvari. Hugmyndin var þó ekki ný því á fundi Kvöldfélagsins árið 1863 lagði Jón Árnason fram tillögu þess efnis að Ingólfi Arnarsyni yrði reistur minnisvarði á Arnarhóli. Sigurður Guðmundsson, málari vakti einnig máls á þessu í Þjóðólfi árið 1864 og vildi hann að þetta yrði framkvæmt árið 1874 í minningu þúsund ára byggðar á Íslandi.”

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins, 34. tbl. 21.09.1958, Úr sögu Arnarhóls, bls. 457-462.
-Húsakönnun og fornleifaskráning vegna fyrirhugaðs tónlistar- og ráðstefnuhúss við Reykjavíkurhöfn, Minjasafn Reykjavíkur 2005.

Arnarhóll

Arnarhóll um 1930.

Sölvhóll

Nafnið Sölvhóll vísar að öllum líkindum til gamalla búskaparhátta. Mikið var um sölvatekju í Örfirisey eða á Víkurfjörum. Vel má hugsa sér að Sölvhóllinn hafi verið notaður til að þurrka söl. Eldri orðmynd gæti þá hafa verið Sölvahóll.

Solvholl-1

Bærinn Arnarhóll var um aldir næsta bújörð við býlið Reykjavík, en eftir að jörðin var lögð undir tugthús hrakaði búskapnum hratt. Elstu heimildir um búsetu á Sölvhóli, sem þá hefur verið hjáleiga Arnarhóls, eru úr tíundarreikningum og fólkstali frá 1779.

Tímamót urðu í sögu býlisins árið 1834. Þá settist þar að Jón Snorrason hreppstjóri í Seltjarnarneshreppi og reisti nýjan og veglegan torfbæ. Ári síðar var Arnarhólsland flutt undir Reykjavíkurkaupstað og Sölvhóll þar með. Jón var kjörinn í fyrstu bæjarstjórn Reykjavíkur árið 1836 sem fulltrúi tómthúsmanna.

Solvholl-2Bærinn sem Jón reisti stóð uppi í tæpa öld. Búið var að Sölvhóli fram á þriðja áratug tuttugustu aldar, en stöðugt þrengdi að býlinu. Mest þó árið 1919 þegar Samband íslenskra Samvinnufélaga reisti höfuðstöðvar sínar við gafl Sölvhólsbæjarins, í gamla kartöflugarðinum.

Nokkrum árum síðar fluttu síðustu ábúendurnir úr húsinu. Það var rifið árið 1930, ef til vill í tengslum við komu Danakonungs og Alþingishátíðina sama ár. Ekki hefur þá verið talið við hæfi að hinir tignu gestir þyrftu að horfa upp á lúinn torfbæ í bæjarlandinu.

Gatan Sölvhólsvegur í Reykjavík dregur nafn sitt af bænum Sölvhóli.

Heimild:
-wikipedia.com

Sölvhóll