Færslur

Dyrafjöll

Í “Fornleifaskráningu á Hengilssvæðinu II” frá árinu 1997 er m.a. fjallað um Dyrnar í Dyradal og Sporhelluna ofan Sporhelludala norðan Henglafjalla. Um Dyrnar segir:

Dyradalur

Dyradalur.

“Dyravegur var gamall lestavegur úr Grafningi til Reykjavíkur. Dyr eru austast í Dyradal, milli hamraveggja. Um þær liggur vegurinn, segir í örnefnalýsingu. Dyradalur er í landi Nesja en Dyrnar sjálfar, sem eru austanmegin í dalnum, munu vera í Nesjavallalandi. Þær eru skammt norðan við Nesjavallaveginn sem liggur um brekkuna ofan við þær og um þær liggur merkt gönguleið.
Dyrnar eru 15-20 m háar og aðeins um 2 m breiðar þar sem þær eru þrengstar vegna hruns, en víðast um 5-6 m. Austan við skarðið hefur hrunið mikið í það. Vestan við Dyrnar sjást reiðgötur sem beygja til suðurs með austurhlíð Dyradals og virðast stefna upp í fjallshlíðina hinumegin í dalnum, talsvert sunnar en vikið sem Nesjavallavegurinn liggur um.”

Dyr

Dyrnar í Dyradal.

Um Sporhelluna segir:
“Austur af Dyrunum er Sporhellan, móbergshellur með niðurgröfnum götuslóðum í móbergið, frá þeim tímum, er lestavegur lá úr Grafningnum, um Dyradal, til Reykjavíkur. Norðan við Vörðuskeggja er Skeggjadalur. Norður af honum kemur [svo] Sporhelludalir. Þeir bera nafn sitt af hellu, er heitir Sporhella. Eru í hellunni djúpar götur eftir hestafætur. Α segir í örnefnalýsingum. Sporhellan er fleiri en ein, en dýpstar og lengstar eru rásirnar fyrir botni Sporhelludals, en þar norðan og vestan við eru líka rásir á nokkrum stöðum.

Sporhellan

Sporhellan – Vatnsstæðið fjær.

Vegurinn hlykkjast um dalshlíðar og skorninga, ýmist um grasmóa eða berar móbergsklappir og á þeim hafa rásirnar myndast. Sporhellan er á leið sem er framhald leiða til austurs. Víðast er aðeins ein rás en á nokkrum stöðum hafa þær kvíslast. Alls eru rásirnar 175 m langar, á 5 stöðum á um 500 m bili. Að vestan eru kaflarnir 112 m, 34 m, 8 m, 19 m og 2 m austast. Rásirnar eru víðast 20-30 cm breiðar í botninn og 10-40 cm djúpar.”

Í “Endurskoðun fornleifaskráningar í Grímsnesi og Grafningi” er einnig fjallað um Dyraveg og Sporhelluna:

Sporhella

Sporhellan – Skeggjadalur fjær.

“Suður úr Foldadölum eru smáskörð og lyngmóar vestan við svokallaða Skriðu, sem er upp af miðdalnum. Þá er komið á Dyraveg, sem er þar suður úr og inn í Dyradal, sem er allur í Nesjalandi. Dyravegur var gamall lestavegur úr Grafningi til Reykjavíkur. Dyr eru austast í Dyradal, milli hamraveggja. Um þær liggur vegurinn.” segir í örnefnalýsingu. “Norðan við Vörðuskeggja er Skeggjadalur. Norður af honum kemur [svo] Sporhelludalir. Þeir bera nafn sitt af hellu, er heitir Sporhella. Eru í hellunni djúpar götur eftir hestafætur. Vestur frá Sporhelludölum er Dyradalur. Eftir honum liggur Dyravegur.” “Við vesturendann á Háhrygg liggur Dyravegur. […] Dyravegur lá í gegnum [Litluvelli].” Dyravegur er merkt gönguleið eftir dalnum og upp að dyrunum í Nesjavallalandi. Dyrnar sjálfar eru í Nesjavallalandi. Frá dyrunum er 4,5 km í Botnadal og 3,6 km. að Nesjavöllum.”

Sporhella

Sporhellan.

Á skilti við Dyraveginn á Sporhellunni má lesa eftirfarandi: “Rásirnar sem hér sjást í berginu hafa markast af hófum hesta sem hér hafa farið um í aldanna rás. Þær eru minjar um Dyraveg, hinn forna lestarveg milli Grafnings og Reykjavíkur. Fyrir bílaöld var hesturinn eina farartækið og snemma urðu til aðalreiðgötur um sveitir og óbyggðir. Skemmtiferðir voru þá fátíðar og flestar ferðir voru farnar í nauðsynjaerindum. Fyrir utan búferlaflutninga vour slíkar ferðir mest lestarferðir, með ýmsar vörur milli sjávarsíðu og sveita. Slíkar ferðir hafa tíðkast allt frá fyrstu tíð og má ætla að Dyravegur hafi verið notaður allt frá landnámsöld.

Dyravegur var notaður af bændum í Grafningi og uppsveitum Árnessþings sem leið áttu í ver og kaupstaði við Faxaflóa. Einnig var þessi leið notuð af Skálholtsbiskupum og áttu þeir vöruskemmur við Sogin þar sem lestirnar voru ferjaðar yfir.

Sporhellan

Sporhellan.

Þó að leiðin virðist nú ekki greiðfær var hún þó einna styst milli byggða í Árnessýslu og Kjalarnesþingi og auk þess liggur hún ekki eins hátt og Hellisheiðarvegur og af þeim sökum oftar fær.

Á vorin var skreið flutt úr verstöðvum á Suðurnesjum eftir Dyravegi en seinna á sumrin var farið í kaupstað.
Helstu vörur sem fluttar voru til kaupstaðar voru ull, smjör og kjötskrokkar. Á móti sóttu menn byggingarefni, mjöl og járnvöru í kaupstaðina og frá 17. öld í vaxandi mæli sykur, kaffi og tóbak. Í timburflutningum var annar endi trjánna bundinn í klakk en hinn endinn látinn dragast með jörð.

Sporhellan

Sporhellan.

Slíkt hefur verið afar þreytandi fyrir hestana en ekki mun hafa verið óalgengt að þeir hafi borið allt að 150 kílóa klyfjar. Ýmist voru þeir reknir eða teymdir. Lestirnar vour oft langar og klyfjahestarnir misjafnir að skapferli og burðum.
Dýrt var að hafa marga hesta á fóðrum yfir vetrarmánuðina og mikill munur var á meðferð áburðarhesta og reiðhesta.
DyravegurFlestir áburðarhestar voru settir út á guð og gaddinn yfir veturinn, fengu í mesta lagi moð sem kýrnar vildu ekki éta. Margir féllu úr hor. Í miklum harðindum átu hestar oft ýmislegt sem í raun er hreinasta viðurstyggð og andstætt eðli þeirra.
Þannig segir Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson frá því í ferðabók sinni frá 18. öld að hestar hafi étið mold og viði í húsum, hárið hvor af öðrum og eyru af dauðum hestum.
Af þessu má ljóst vera að oft hafi hestur þurft að líða fóðurskort og ekki lifað sældarlífi en um leið verið húsbændum sínum ómissandi í harðri lífsbaráttu.”

Skeggjadalur

Skeggjadalur.

Í Örnefnaskrá fyrir Nesjavelli eftir Guðmund Jóhannsson segir: “Þar suðvestur af [Hellu] er Dyradalshnjúkur og Dyradalur. Austast í honum eru Dyrnar, milli tveggja hamraveggja. Austur af Dyrunum er Sporhellan, móbergshellur með niðurgröfnum götuslóðum í móbergið, frá þeim tímum, er lestavegur lá úr Grafningnum, um Dyradal, til Reykjavíkur. Upp af þeim er Skeggjadalur og Skeggi. Suðaustur af Skeggjadal er Kýrdalshryggur, hár melhryggur með móbergi að vestan.

Dyradalur

Dyradalur.

Þar suður upp við Hengilinn er Kýrdalur. Þar var áður heyjað. Þar norður af heita Hryggir. Austur á þeim er Miðaftanshnúkur, eyktamark frá gamla bænum á Nesjavöllum.
Norðaustan í Hryggjum eru Rauðuflög. Þar lá lestavegur um þau til Dyradals.
Norður af Rauðuflögum er Svínahlíð. Þar upp af Háhryggur. Vestur af honum eru Sporhelludalir (norður af Sporhellu), grasgrónir dalbotnarnir.”

Henglafjöll

Dyrakambur.

Í skrá Þorsteins Bjarnasonar frá Háholti; “Hengillinn og fjallgarðurinn kringum hann“, segir: “Hengillinn er stórt og hátt fjall. Hæsti hnúkur hans er nefndur í daglegu tali Vörðu-skeggi. Vestan í Henglin[um] er Marardalur, er hann neðan undir Vörðuskeggja. Vestan dalsins er fellið Þjófahlaup. Norðvestur frá Marardal eru Grashólar. Norðan við Vörðuskeggja er Skeggjadalur. Norður frá honum kemur (svo) Sporhelludalir. Þeir bera nafn sitt af hellu, er heitir Sporhella. Eru í hellunni djúpar götur eftir hestafætur. Vestur frá Sporhelludölum er Dyradalur. Eftir honum liggur Dyravegur. Hjá Dyravegi er Dyradalshnúkur. Norðan við hann eru Folaldadalir. Vestan við Folaldadali er Sköflungur. Í vesturenda hans er Eggin.”

Heimildir:
-Fornleifaskráning á Hengilssvæðinu II: Fornleifar í landi Nesjavalla og Ölfusvatns, Árbæjarsafn (Fornleifastofnun Íslands 1997).
-Endurskoðun fornleifaskráningar í Grímsnesi og Grafningi, 2018.
-Örnefnaskrá fyrir Nesjar.
-Örnefnaskrá fyrir Nesjavelli – Nesjavellir eftir Guðmund Jóhannsson, skrifað sept. 1949. Sigurður Jónsson hreppstjóri á Torfastöðum skráði.
-Hengillinn og fjallgarðurinn kringum hann; skráð hefur Þorsteinn Bjarnason frá Háholti.