Tag Archive for: Staðarberg

Krýsuvíkurberg

Bergsendi eða Bergsendar eru algeng örnefni í sjávarbjörgum. Nöfnin skýra sig jafnan sjálf.
Endimörk Krýsuvíkurbjargs (-bergs) heita „Bergsendi“ eystri og vestari. Frá Bergsenda eystri að Eystri-Læk á Strandarbergi heitir bergið „Krýsuvíkurbjarg“. Vestan Strandarbergs að Bergsenda vestari, stundum nefndir Ytri-Bergsendar, var það nefnd „Krýsuvíkurberg“. „Ytri“ og „Innri“ voru algeng viðmið á vestanverðum Reykjanesskaga fyrrum. Ytra þýddi nyrðra og Innra syðra.

Bergsendi

Bergsendi innri (eystri)- útsýni til vesturs.

Í Örnefnalýsingu sem Þorsteinn Bjarnason frá Háholti safnaði og skráði um Krýsuvík er m.a. fjallað um örnefni í og við Krýsuvíkurbjarg (-berg).
„Nöfn í Krýsuvíkurbergi eru þessi: Austast er Strandaberg, vestan Bergsenda eystri, þar átti Strandakirkja ítak til eggjatekju og fuglaveiða. Vestan við það er Kotaberg, þar áttu hjábýli Krýsuvíkur rétt á eggjatekju og fugla. Þar næst er Heimaberg, þar átti höfuðbólið fugla- og eggjatekju. Neðan undir Heimabergi er Skriða. Austan við hana er Ræningjastígur (nú horfinn).

Bergsendi

Bergsendi vestari.

Vestasta hornið á berginu heitir Bergsendi vestari. Vestan við Bergsenda er Hælsvík. Fyrir Krýsuvíkurlandi eru þessi rekapláss: Skriðurekar, Bergsendarekar og Miðrekar.“ Þorsteinn nefnir bergið allt „Krýsivíkurberg“.

Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar, lögregluvarðstjóra í Hafnarfirði, sem Svanur Pálsson afritaði 2004 eftir eintaki, sem varðveitt er á Bókasafni Hafnarfjarðar, er fjallað um Krýsuvíkurberg og Krýsuvíkurbjarg. Aðalheildarmaður Gísla var Ólafur Þorvaldsson og Krýsuvíkurbræður, synir Guðmundar í Krýsuvík, aðallega tveir; voru fluttir til Hafnarfjarðar, annar bjó á Holtsgötu ?, en hinn í Þorgeirstúni. Unnið á milli 1960–70. Lýsingin er frá austri til vesturs:

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Heiðnaberg (Heinaberg).

„Þá var ekkert örnefni fyrr en komið var að Bergsenda eystri eða Gjánni eystri. Hér tekur svo við Krýsuvíkurbjarg það liggur milli Gjárinnar eystri og Gjárinnar vestri og er þar á margt örnefna. Strandarberg er austasti hluti þess og nær frá Bergsenda að Læk á Bergi. Þá tekur við Krýsuvíkurberg. Þá er Básinn og þá Vondasig og þar ofar Berghólar. Þá er komið á Skriðuás og þá er Skriða mikill gosöskustapi. Austan Skriðuáss er Kotaberg að Vondasigi.

Heiðnaberg

Heiðnaberg – loftmynd.

Framan í Skriðu er Ræningjastígur og er gengur með varúð niður í fjöru. Þar sem Skriða snýr við vesturátt er neðarlega á móbergshellunni svo nefnd Hermannshilla. Upp Ræningjastíg áttu Tyrkir að hafa komist 1627 er þeir rændu hér við land. Lundapallur er hér vestan í Skriðu. Hann er einnig kallaður Lundatorfa. Skriðunef tala menn um að hér hafi verið nefnt. Einstigið liggur hér niður skriðurnar niður á Hermannshillu, sem er hér niður undir fjöru, en þó verður að síga af henni niður í fjöruna. Vestan Skriðu tekur við Heiðnaberg eða Heinaberg og nær allt að Fitjalæk, sem hér fellur niður og fram af berginu, og nefnist hér Mígandagróf og Fossinn Mígandi. Kirkjufjara er undir Heinabergi, en þar fyrir vestan tekur við Betstæðingafjara og nær allt vestur að Hæl, Bergsenda vestri eða Gjánni vestri. Af Hælnum hefur víkin hér fyrir framan fengið nafn allt frá Skriðu vestur að Selatöngum og nefnist því Hælsvík.“

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Skriða.

Í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík er jafnframt getið um Bergsenda:
„Þar sem Krýsuvíkurberg endar, heitir Eystri-Bergsendi og Vestri-Bergsendi. Hluti Krýsuvíkurbergs, vestarlega, heitir Skriða. Mun það vera eini staðurinn í berginu, sem einhvers móbergs gætir, en vestanvert við hæð þessa er basaltlag eitt eða fleiri. Efst í bjargbrúninni skagar basaltið lengra fram en móbergið, svo að loftsig er alla leið í urðina þar fyrir neðan. Austast í berginu er Strandarberg; þar átti Strandarkirkja ítak. Þá er Kotaberg; það áttu til afnota þeir, sem bjuggu í hjáleigunum.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg (-berg) – kort.

Svo er Heimaberg; þar er Skriðan fyrrnefnda upp af. Rekarnir þar fram af voru svo nefndir Bergsendarekar, Miðrekar og Skriðurekar. Í berginu var hilla sú, sem nefnd er Lundapallur; þar uppi á brún heitir Lundatorfa. Nýipallur er nafn í berginu. Þá er í Kotaberginu Plankanef. Undir berginu eru tvö áberandi lón, er heita Eystra-Selalón og Vestra-Selalón. Framan í Skriðunni er Ræningjastígur. Hans er getið í þjóðsögum. Stígur þessi er gangur einn, sem myndazt hefur í móbergið og liggur skáhallt niður í flæðarmál af brúninni. Var hann fær til skamms tíma, en nú mun hrunið svo úr honum, að hann sé tæplega fær. Við Hælsvíkina er svo Hæll, sem hún dregur nafn af, og Hermannsstígur í bergið.“

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Ræningjastígur.

Þjóðsagan segir að í “annað sinn komu Tyrkjar undir Krýsuvíkurberg og gengu upp þar sem síðan heitir Ræningjastígur. Þá var sel hjá Selöldu og fóru Tyrkjar þangað, drápu matseljuna, en eltu smalann heim að Krýsuvík.
Það var sunnudagur og var Eiríkur prestur að messa í Krýsuvíkurkirkju. Segja sumir að hann væri fyrir altarinu, en hitt mun sannara að hann væri í ræðustól er smalinn kom hlaupandi í kirkjuna og mælti hátt:
“Tyrkjar komu og drápu matseljuna og eltu mig hingað.”
Prestur mælti: “Viljið ekki lofa mér að ganga fram í dyrnar góðir menn?”
Menn játtu því. Eiríkur gengur fram í dyr og lítur út og sér Tyrkja koma á túninu. Hann mælti til þeirra:
“Farið nú ekki lengra! Drepið þarna hvur annan! Væri annar dagur eða ég öðruvís búinn, mundu þið éta hvur annan.”
Þar börðust þeir og drápust niður. Heitir þar síðan Orrustuhóll eða Ræningjahóll er þeir börðust, en Ræningjaþúfur þar þeir eru dysjaðir. Þar eftir hlóð Eiríkur vörðu á Arnarfelli og mælti fyrir henni sem hinni að meðan hún stæði skyldu Tyrkjar aldrei granda Krýsuvík.”

Ofan við Ræningjastíg, sem sjórinn hefur nú náð að brjóta niður, eru minjar Krýsuvíkursels.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Á Bergsenda vestari (ytri).

Niðurganga á Bergsendana hvoru megin er auðveld. Frá þeim, til beggja átta, er ágætt útsýni út og inn með berginu (bjarginu) í góðu veðri.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel við Selöldu.

Bergsendar eru einnig svo nefndir sitt hvoru megin við Staðarberg neðan Staðarhrauns vestan Grindavíkur.
Í Örnefnalýsingu sem séra Gísli Brynjólfsson skráði og eru í bók hans: Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók. Heimildir Gísla hafa verið frásagnir kunnugra manna og örnefnalýsing Staðar eftir Ara Gíslason, þótt ekki geti Gísli þess. Lýsing Ara er geymd á Örnefnastofnun og er einnig höfð hliðsjón af henni við gerð þessarar lýsingar. Heimildarmenn Ara voru: Gamalíel Jónsson, bóndi á Stað (d. 1964), Guðsteinn Einarsson, hreppstjóri í Grindavík og Þorsteinn Bjarnason frá Háholti.

Staðarberg

Staðarberg – Bergsendi ofan Ræningjaskers.

Í lýsingunni er getið um „Ræningjasker“ og tilnefnd þjóðsaga um Tyrki og komu þeirra að Staðarhverfi. Sagan er ekki ólík þeirri fyrri. Í báðum tilvikum koma prestar að lausn mála.
„Austast á Staðarbergi heitir Bergsendi. Fram af Staðarmölum er Ræningjasker, alltaf upp úr sjó. Þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627, lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker. Gekk þá Staðarprestur upp í Hæðirnar við Húsatóftir og hlóð þar þrjár vörður og mælti svo um að á meðan í þeim stæði steinn yfir steini, skyldi Grindavík ekki verða rænd. Hefur það orðið að áhrínsorðum, enda standa vörður þessar að nokkru enn. Heita þær Nónvörður og eru eyktarmark frá Húsatóftum.
Áður en Mölunum sleppir er Bergsendasker, klettanibbur, sem skaga úr stórgrýtinu fram í sjóinn.

Hróarsbásar

Í Hróarbásum.

Staðarbergið er álíka langt og Malirnar. Um það farast Geir Bachmann svo orð í sóknarlýsingu sinni: „Það er tæp 1/4 míla á lengd. Lágt er það og að öllu leyti ómerkilegt, því hvorki er í því varp né fuglatekja, og eigi er það svo vel, að undir því geti fest nokkurt tré, þó ekki sé það heldur standberg í sjó.“ (Landnám Ingólfs III, bls. 126). – Austast á Bergsendanum er gatklettur mikill, en ekki ber hann sérstakt nafn.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg (-berg fjær) – nafnlausi fossinn.

Þá taka við tvö vik inn í bjargið. Nefnast þau Sölvabásar og Hróabásar. (Ath.: Yfirleitt voru nöfnin á básum þessum höfð í fleirtölu, þótt í rauninni sé hvor um sig bara einn bás). Hróabásar eru við vestari bergsendann. Í þeim var flóruð vör og sjást hennar enn nokkur merki. Bendir það til þess að þarna hafi eitt sinn verið útræði, en um það eru engar skráðar heimildir – aðeins munnmæli. Í Sölvabásum áttu Húsatóftir sölvatekju.“

Sjá skemmtilegt Youtube-myndband frá Krýsuvíkurbergi HÉR.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Þorsteins Bjarnasonar frá Háholti  um Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar um Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík.
-Lýsing Gísla Brynjólfssonar fyrir Stað í Grindavík.

Mígandi

Mígandi í Krýsuvíkurbergi.

Brimketill

Nokkrir svonefndir „brimkatlar“ eru við strandir Reykjanesskagans, misstórir þó. Þeir eru flestir við ströndina undir bjargbrúnum, s.s. Herdísarvíkurbergi, Krýsuvíkurbergi og Staðarbergi.  Einnig eru dæmi er um slíka katla neðan hraunstanda, s.s. neðan Skollahrauns, en sá er hinn stærsti á Skaganum.

Brimketill

Brimketill – Oddnýjarlaug.

Brimketillinn í sjávarklettunum vestast í Staðarbergi utan við Grindavík er sennilega sá margumtalaðisti. Hann, líkt og aðrir bræður hans, hefur myndast í stöðugum öldugangi þegar brimið lemur bergið. Basaltbergið er misfast fyrir, ýmist sem hraunmulningur, berghella eða þéttar hraunrásir. Þar sem sjórinn mætir þeim síðastnefndu á hann erfiðara um vik að vinna á þéttu berginu. Við það myndast framangreindir tímabundnir „katlar“, ekki ólíkt og skessukatlar í móbergi. Í báðum tilvikum leika steinar lykilhlutverkin í samvinnu við vindinn í tilviki skessukatlanna og sjóinn í tilfelli brimkatlanna.

Brimketill

Brimketill. Hart bergið umhverfis.

Hafið hefur mikil áhrif á landmótun á Reykjanesi. Með því að fylgjast með brimi skella á klettunum má sjá þann kraft sem býr í Norður-Atlantshafinu. Aldan vinnur á föstu berginu með því að þrýsta þétt saman lofti í rifum og sprungum. Við útsogið dregur sjórinn loftið með sér. Þá verður til undirþrýstingur. Þannig brýtur hafið upp hraunhelluna smám saman. Við bætist svo rof vegna bergbrota þegar aldan skellur með ofurkrafti á sjávarkletta og laust grjót og þeytir hvorutveggja upp í loft. Þar sem lausara hraunhrap er fyrir myndast sjávarhellar. Þegar þung aldan steypist inn í rásirnar myndast mikill þrýstingur með þeim afleiðingum að „þakið“ innst gefur sig. Þegar það gerist myndast nokkurs konar „strandgeysir“ þar sem aldan nær að spýjast upp innan á ströndinni með tilheyrandi strókamyndun.

Brimketill

Brimketill vestast á Staðarbergi. Hér má sjá takmarkað gagn af brúnni. Annar, minni ketill sést hægra megin við enda brúarinnar, sem virðist ná athygli ferðamanna umfram „Ketilinn“ sjálfan.

Hraunið umhverfis framangreindan Brimketil er gróft, sprungið og með háum úfnum jöðrum og yfirborði. Líklega hefur það runnið í Reykjaneseldum á árunum 1210-1240.

Brimketill

Brimketillinn vestan við brúarpallinn.

Um Brimketilinn austan Grindavíkur er til þjóðsaga. Laugin sú arna mun áður hafa heitið Oddnýjarlaug. Þjóðsaga segir frá nátttröllinu Oddnýju sem bjó í Háleyjabungu, rétt vestan við Brimketil, ásamt Hróari manni sínum og syni þeirra Sölva. Eina nóttina fór hún út að Ræningjaskeri rétt austan við Brimketil til að ná í hvalhræ sem hafði rekið að landi. Í bakaleiðinni hvíldi hún sig og baðaði í Brimkatli. Þegar hún hélt loks heim á leið komst hún ekki langt þar sem sólin kom upp um það leyti. Varð hún því að steini og sást þarna lengi sem hár bergdrangur, allt þar til sjórinn braut hann smám saman niður. Brimketill hefur því einnig verið nefndur Oddnýjarlaug í höfuð á nátttröllinu.

Ísólfsskáli

Kvennagöngubásar – brimketill.

Nú hefur metnaðarfull göngubrú verið handeruð í átt að Brimkatli, en smíðin sú virðist misheppnuð. Í fyrsta lagi fæst ekki nægileg yfirsýn yfir Brimketilinn frá enda brúarinnar. Brúarendinn hefði þurt að ná lengra út til austurs. Í öðru lagi er annar minni brimketill vestan við miðja brúnna. Fjölmargir ferðamenn, sem heimsækja staðinn telja að þar sé hinn eiginlegi „Brimketill“ því þeir ná aldrei sjónhendingu að þeim eina og sanna.

Kvennagöngubásar

Kvennagöngubásar – brimketill.

Austan Ísólfsskála er tilkomumesti brimketillinn á Reykjaneskaganum. Hann er á svonefndum „Kvennagöngubásum“. Básar eru nefndir svo austan við Rangargjögur; Skálabásar, Kirkjubásar og Kvennagöngubásar allt þangað til komið er að Hraunsnesi. Þar austan við er Mölvík.

Þegar Ísólfur Guðmundsson á Ísólfsskála var spurður árið 1983 um tilefni nafnsins Kvennagöngubásar svaraði hann: „Þar var kvenfólk sagt baða sig“. Að öllum líkindum hefur Ísólfur haft í huga þekktu þjóðsöguna um Oddnýjarlaugina vestar á ströndinni.

Kvennagöngubásar

Kvennagöngubásar – brimketill.

Hið réttara er að Básunum austan við Ísólfsskála var skipt upp á milli bæjarins og kirkjustaða, sem fyrrum voru að hluta til eigendur jarðarinnar. Þannig átti Kálfatjörn um tíma rekaítök í Skálalandi, í svonefndum Kirkjubásum, líkt og Garðakirkja átti rekaítök í Kirkjubásum í Krýsuvíkurlandi austan Bersenda. Rekinn skipti hlutaðeigandi miklu máli í þá daga, líkt og kveðið er á um Jónsbók og fleiri gildandi lögbókum. Kvaðir voru á jarðeigendum af kirkjujarðanna hálfu að sinna reka sínum til jafns við þá. Þannig þurfti bóndinn á Ísólfsskála að þjóna presti Kálfatjarnarsóknar og fylgast með rekanum. Kvenfólkinu á Skála var ekki ætlað það hlutverk að ganga rekann lengra en að Kvennagöngubásum, enda þótt Skálabóndi ætti allan reka frá þeim að Dágon á Seltatöngum, en þangað var öðrum ekki ætlað gangandi en karlmönnum.

Brimketillinn í Kvennagöngubásum er hinn tilkomumesti og þangað hafa meðlimir Sjósundsfélaga farið til að njóta hinna tilkomumiklu náttúrulegu aðstæðna.

Hraunið umhverfis Kvennagöngubása er talið hafa runnið um 1151 en Staðarbergshraunið vestan Grindavíkur er talið hafa runnið um 1221.

Ó.

Kvennagöngubásar

Kvennagöngubásar – brimketill. Festarfjall, Fiskidalsfjall og Húsafell fjær.

Staðarberg

Gengið var um hið misgreiðfæra Berghraun austan við Staðarhverfi í Grindavík.

Refagildra

Refagildra á Staðarbergi.

Berghraunið er ofan við Staðarbergið og sennilega eitt af Eldvarparhraunum. Þrátt fyrir úfið apalhraun eru helluhraunssléttur inni á milli. Næst berginu er sambland af hvorutveggja. Þegar gengið var ofan við Klaufir austarlega undan Staðarberginu sást glöggskyggnum heilleg hleðsla uppi í hrauninu. Þegar hún var skoðuð kom í ljós alveg heil refagildra. Meira að segja fellihellan var heil fyrir opinu. Gildran er hlaðin úr hraunhellum, en stoðsteinarnir sitt hvoru megin við helluna eru úr grágrýti. Þetta var 75. hlaðna refagildran, sem FERLIR hefur skoðað á Reykjanesi. Nýlega fannst gömul refagildra austan við Ísólfsskála. Fyrir nokkrum misserum var einungis talið að 3-5 slíkar væru til að Nesinu. Í dag eru u.þ.b. 90 slíkar þekktar á Reykjanesskaganum.
Fyrir skömmu var skoðuð önnur hlaðin refagildra í Básum ofan við Staðarberg (sjá að neðan). Án efa kunna fleiri hlaðnar refagildrur að leynast þarna í hraununum.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Refagildra

Refagildra í Básum.

Staður

Þegar ekið var til Grindavíkur skein sólin skemmtilega á Þorbjarnarfell. Mátti þá vel sjá hvernig misgengið liggur þvert í gegnum fellið hvernig toppur þess hefur sigið með því niður á milli gjárbarmanna.

Staðarvör

Staðarvör.

Gengið var niður að Staðarvör við Staðarklöpp í Arfadalsvík. Innan hennar er flórað gólf í fjöruborðinu Utan við klöppina er festikengur á tanga (Vatnstanga). Ekki var nægilega lágsjávað að þessu sinni til að sjá hann. Haldið var framhjá Kasalóni, gengið með fjörunni og yfir á Gerðistanga. Ofar lágu kollur grafkyrrar á hreiðrum sínum. Ofar mátti slá leifar gamallar réttar á hól.
Á Gerðistanga voru skoðaðar heillegar tóftir Stóra-Gerðis, garðar heimtröðin og brunnurinn. Áður fyrr voru miklir hlaðnir garðar í Staðarhverfi, en þegar bryggjan var byggð í Hópinu var komíð á vörubílum og grjótið úr görðunum, réttinni og öðru, sem hlaðið var, sótt í höfnina. Nú má einungis sjá þarna búta úr görðunum.

Stóra-Gerði

Stóra-Gerði í Staðarhverfi.

Utar á kambinum eru tóftir Litla-Gerðis og síðan Kvíadalur enn utar. Neðan hans er Staðarbótin. Með henni vestanverðri eru Malarendar. Innan þeirra eru tjarnir. Þýski togarinn Schluttup kom upp á Malarenda í ársbyrjun 1924. Sagan segir að fólkið í Móakoti og fleira fólk hafi verið að spila um þokukennt kvöldið þegar einhver hafi haft á orði að gott væri nú að fá svo sem eitt strand þarna fyrir utan. Um morguninn stóð togari í heilu lagi uppi á Mölunum fyrir neðan bæinn. Hafði honum verið siglt upp í fjöruna um nóttina. Varð að reisa planka með síðu hans til að ná skipstjóranum frá borði því feitari gerðust þeir varla í þá daga.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Ofan við Malarenda er gömul fjárhústóft. Í hana voru þeir, sem fórust í strandi Önnu frá Tofte, lagðir. Þessi færeyski kútter kom upp við Bergsendasker, sem er við austurenda Staðarbergs, þann 4. apríl 1924. Fimmtán eða sextán fórust þá, flestir ungir menn úr sömu fjölskyldum frá litlu þorpi í Færeyjum. Þeir voru síðan jarðsettir í kirkjugarðinum í Reykjavík. Tóftin sést enn niður við Endana.

Sléttlent og grösugt er ofan við Staðarmalir. Þar mátti sjá móta fyrir gömlum görðum á tveimur klapparhólum og svo virðist sem gerði hafi verið í lægðinni milli hólanna. Vestan þeirra er nokkuð stór aflöng tóft. Svo er á sjá sem hlaða hafi verið í vesturendanum á henni. Hluti skipsskrokks var upp á Staðarmölum sem og ýmislegt brotakyns. Ofan þeirra mátti t.d. sjá hvalbein og ýmislegt annað forvitnilegt.

Staðarberg

Staðarberg – Bergsendi ofan Ræningjaskers.

Þegar komið var út á Bergsenda mátti sá Bergsendaskerið þar utan við. Ræningjasker er nokkru austar. Klappirnar á Berghrauni eru þarna vel sléttar og þarna er ákaflega fallegt í góðu veðri, eins og nú, en eflaust getur þarna verið skaðvænlegt líkt og verið hefur þegar kútterinn Anna rak þar upp í bergið. Gengið var eftir Staðarberginu. Það er nokkuð slétt að ofan og útsýni af því eftir berginu er fagurt. Litadýrðin er mikil og margt ber fyrir augu. Önd lá t.d. grafkyrr á hreiðri sínu uppi á svörtu bjarginu. Áð var á einni syllunni þar sem lítill gatklettur var undir, en víða eru básar og rásir inn í bergið þar sem hraunrásir hafa legið áður með mýkra bergi í.

Staðarberg

Staðarberg.

Ofan við bergið má sjá lagskiptingu nokkurra hrauna, en meginhraunin eru frá Sandfellshæðargígnum og Eldvörpum. Skammt vestar eru Víkur. Skammt ofan við þær má m.a. sjá litla gíga, sem virðast hvorki vera gervigígar né sprengigígar. Helst er að sjá að lítið gos hafi orðið þarna á tiltölulega afmörkuðu svæði eða í samhengi við annað fjær.Sumstaðar mótar fyrir hraunæðum og öðrum skemmtilegum jarðfræðilegum fyrirbærum.

Skoðuð var hlaðin refagildra í Básum ofan við Víkur, en hún er með þeim heillegri á Reykjanesi.

Reykjanesviti

Vagnvegur að Reykjanesvita frá Grindavík.

Gamli vegurinn úr á Reykjanes liggur þarna skammt ofar, svo til nakinn á sléttu helluhrauninu. Sennilega hefur þetta upphaflega verið vegurinn, sem lagður var út að vitanum árið 1918, en síðan hefur verið farið í far vegarins og hann endurbættur. Veginum var fylgt til baka yfir á nýja veginn. Komið var við á hól norðan vegarins, en á honum eru þrjár vörður. Virðast tvær þeirra nýlegri, en sú stærsta gæti hafa verið nota sem mið af annarri vörðu, eða vörðum, sunnar. Gengið var yfir Grænubergsgjá, en í botni hennar er tandurhreint ferskvatn. Austanhennar er hóll, sem Tyrkjavarðan stendur á. Af fæti vörðunnar að dæma hefur hún verið allmyndarleg á meðan var. Þau álög hvíla á vörðunni að Staðarhverfi sé óhætt á meðan hún stendur. Kríuhreiðrum var raðað í móann umhverfis vörðuna.

Staðarhverfi

Staðarbrunnurinn hefur nú verið endurhlaðinn.

Loks var staldrað við Staðarbrunninn vestan við kirkjugarðinn. Brunnurinn var hlaðinn árið 1914 og nú, níutíu árum síðar, er hann að ganga í gegnum endurnýjun lífdaga. Verið er að gera brunninn upp til ánægju, fróðleiks og yndisauka fyrir aðkomandi vegfarendur. Ekki væri úr vegi, einhvern tímann í framtíðinni, að kíkja inn í hólinn sunnan við brunninn. Í honum á að vera gamall bær, Krukka, sem sandfok lagði í eyði, sennilega á 16. eða 17. öld. Ekki er ósennilegt að minjar kunni að leynast í öðrum hólum við Hundadalinn (í túninu).
Líkt og staðendurnar er lágu á hreiðrum sínum ofan við Staðarvörina lágu frænkur þeirra, syrgjendurnar, á hreiðrum sínum í kirkjugarðinum á Stað. Friður og ró ríkti á svæðinu.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 4 klst. og 4 mín.

Refagildra

Refagildra í Básum.

Grindavík

Gengið var eftir Staðarbergi frá Mölvík yfir að Staðarmölum. Fremst er Brimketillinn – eða brimkatlarnir því þeir eru fleiri en einn. Á leiðinni, við Bergsenda að austanverðu, er Ræningjasker það er „Tyrkir“ komu að þá er þeir rændu Grindavík 1627 ef marka má munnmæli og þar var eitt hörmulegasta sjóslys við Grindavík þann 4. apríl 1924, í strandi Önnu frá Tofte. Þá fórust fimmtán eða sextán menn, flestir ungir menn úr sömu fjölskyldum frá litlu þorpi í Færeyjum. Þessi færeyski kútter kom upp við Bergsendasker, sem er við austurenda Staðarbergs. Þeir voru síðan jarðsettir í kirkjugarðinum í Reykjavík.

Brimketill

Staðarbergið er einn af fjölmörgum úivistarmöguleikum Grindvíkinga – og gesti þeirra. Bergið er bæði fjölbreytt og tiltölulega auðvelt göngu ef rétt er farið. Á leiðinni voru skoðaðar, auk hinna ýmsu bergumbreytinga, nokkrar hlaðnar refagildrur, sem enn eru óhreyfðar í Bergshrauni. Aðaltilgangurinn var þó að skoða slysstaðinn fyrrnefnda og rifja uppp atburðinn.

Þriðjudaginn 9. september var níundi fundur ársins 2008 haldinn í framkvæmdastjórn Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma. Rekstrarstjóri sagði frá framtaki færeysks manns, Jakob Michael Mikkelsen
84 ára, sem hefur látið útbúa minningarskjöld úr steini með nöfnum 17 samlanda sinna sem fórust á vélbátnum „Önnu frá Tofte” við Íslandsstrendur í apríl árið 1924, þeirra á meðal faðir Jakobs. Skjöldurinn verður afhjúpaður í Hólavallagarði næsta laugardag, þann 13. september.

Á Staðarbergi

Í 12. árgangi Bautasteins var í greininni „Minningarmörk atburða“ eftir Björn Th. Björnsson fjallað um
örlög áhafnarinnar á Önnu frá Tofte sem fórst við Grindavík fyrir 85 árum síðan. Jarðarför skipverjanna fór fram þann 11. apríl 1924 og var þar mikið fjölmenni sem sýndi þá virðingu og hlýhug sem ríkti í garð frænda okkar Færeyinga. Í september á síðasta ári var afhjúpuð minningarplata um áhöfnina og á henni má sjá hversu stórt skarð var höggvið í lítið samfélag á sínum tíma sem minnir okkur á hversu margar fórnir voru færðar á fjarlægum miðum.
Jakob Michael Mikkelsen, sonur eins áhafnarmannanna, hefur sýnt einstaka ræktarsemi og
virðingu í minningu föður síns og skipsfélaga hans og beitti hann sér fyrir gerð minningarplötunnar en
Kirkjugarðar Reykjavíkur gáfu vinnu og efni við uppsetninguna í virðingu við þá sem létust í þessu
hryggilega sjóslysi.

Staðarberg

Í bókinni Minningarmörk í Hólavallagarði, eftir Björn Th. Björnsson, segir m.a. um þennan atburð: „Þess eru dæmi, m.a. í Hólavallagarði, að legsteinn sé ekki aðeins minningarmark um liðinn einstakling, heldur um atburð, oftast vofveiflegan, þar sem margir menn eiga í hlut og hvíla saman undir einu og sama legmarki. Vestast í Hólavallagarði, nálægt Ljósvallagötu, má sjá mikið bjarg, óhöggvið að öðru en letri, sem minnir á raunarlegan stóratburð á þriðja áratugi liðinnar aldar. Í bókinni Minningarmörk í Hólavallagarði segir svo frá: „Þegar menn úr Staðarhverfi vestan Grindavíkur fylgdu fé í fjöru morguninn þess 6. apríl 1924, komu þeir auga á torkennilegt brak; síðan sáu þeir lík fljóta upp og óðu út í að draga það undan sjó. RefagildraSíðdegis fóru fleiri menn ofan á Staðarmalir og gaf þá enn að líta: fjögur lík til viðbótar. Á bátsþóftunum og árunum stóð nafnið „Anna Tofte“, eftir því sem bezt varð lesið, en menn voru þó engu nær. Sumir minntust þess nú, að ljós hefðu sézt ískyggilega
nálægt landi í útsynningnum nóttina áður. Þegar hringt var til Reykjavíkur kom brátt það svar, að hér myndi sennilegast vera um að ræða færeyska fiskikútterinn Önnu frá Tofte á Austurey, sem verið hefði á leið til Reykjavíkur utan af Selvogsbanka. Væri þetta 82 smálesta skip, sem áður var í eigu Péturs J. Thorsteinssonar og hét þá Sléttanes, og að færeyskri venju um margmennið á slíkum skútum hefðu líklega verið allt að 25 mönnum um borð.
Refagildra á StaðarbergiE
nn rak lík, og enn brak. Og enn fréttist það frá Reykjavík, að önnur færeysk skúta, Marsdal, hefði haft samflot með Önnu frá Tofte utan af Banka og stefnt fyrir Reykjanes, en skipstjórinn á Marsdal hefði um kvöldið séð af ljósunum að Anna sigldi allt of austarlega, undan veðrinu, og óttazt að hún næði ekki fyrir nesið. Engin fjarskiptatæki voru þá á slíkum skipum; hver varð að sjá fyrir sér. Enn fengust þær upplýsingar frá útgerðinni í Færeyjum, að 17 menn hefðu verið á Önnu, en til þessa hafði aðeins 7 líkum verið bjargað undan sjó.
Lík færeysku sjómannanna voru flutt heim á Stað og þar búizt til að jarða þau, svo sem fyrrum hafði verið siður um sjórekna menn. En þá komu þau orð frá sendiherra Dana í Reykjavík, að flytja ætti líkin þangað og ef til vill áfram til Færeyja. Voru nú sendir af stað bílar þessa torfæru leið að sækja líkin. Var jarðarförin ákveðin föstudaginn 11. apríl og skyldi jarðað hér heima.

Færeyskar

Var allnokkuð skrifað í blöðin um þetta hryggilega slys og skorað á bæjarbúa að fjölmenna við jarðarförina til þess að votta færeysku þjóðinni virðingu og samúð. „Hér eru lagðir í íslenzkan kirkjugarð erlendir menn, en þó frændur vorir, synir smáþjóðar, eins og við erum, norrænir menn, sprottnir af sama stofni og við: hrjóstrugt land, bólgið brim við sand, óblíða náttúru og örðugleika smáþjóðar … Seytján hrausta, vinnandi menn hefir litla færeyska fiskimannaþjóðin misst.“
Daginn sem jarðarförin átti að fara fram var símað frá Grindavík að áttunda líkið hefði rekið, og var bifreið þegar send eftir því. Þegar suðureftir kom, hafði það níunda enn bæzt við, og fylgdust þau öll að í eina og sömu gröf. „Jarðarför þessara manna hefir verið einhver sú hátíðlegasta og fjölmennasta sem hér hefir farið fram í langa tíð. Var kirkjan troðfull út í dyr, og líkfylgd suður í garðinn afar fjölmenn“, segir Morgunblaðið daginn eftir, þann 12. apríl.
Séra Bjarni Jónsson flutti ræðu í kirkjunni og mælti á danska tungu, og þegar sunginn var sálmurinn „Dejlig er Jorden“ , stóðu allir upp. Kisturnar níu voru bornar alla leið suður í garðinn, og gengu undir þeim meðlimir verzlunarráðsins, útgerðarmenn og Færeyingar sem búsettir voru í bænum. Í garð-inum mælti færeyski trúboðinn Alfred Petersen yfir gröfinni, en hann fylgdi færeysku skútunum meðan þær voru hér að veiðum.
„Hafa aldrei verið jarðaðir svo margir menn síðan 1906, að drukknunin mikla varð við Viðey“, segir í blaðinu að lokum.
Færeyingar eru einstakir að því að búa að sínum látnu af mikilli virðingu. Hér brást það heldur ekki. Ekki leið á löngu þar til fluttur var í garðinn mikill klettur með áhöggnu letri og lagður á hlæður yfir gröfinni, í reit D 9 – 8 . Af áletruninni má sjá, að enn hafa fundizt fimm af áhöfn Önnu af Tofte og verið jarðaðir þar nokkru síðar, því framan á steininum stendur:
TIL MINDE OM SYTTEN FÆRØISKE FISKERE
DER FORLISTE MED KUTTER ANNA AF TOFTE
VED GRINDAVÍK DEN 5. APRIL 1924
FJORTEN HVILE HER
Ofan á steininum getur að lesa þessa hendingar:
HVIL I FRED OG GUD I VOLD
VÆRE EDERS SJÆLE
OM JER GRAV BLEV BØLGEN KOLD
ELLER HER I DVÆLE
Steininn yfir sjómennina af Önnu af Tofte er ólíkur öðrum steinum í garðinum, skófum þakið grettishaf á undirsteinum eða hlæðum. Annað minnismerki er í garðinum um færeyska sjómenn sem einnig sker sig nokkuð úr, en á talsvert annan hátt, þar sem það er mjög unninn steinn með gylltu letri og lágmynd af skútu undir fullum seglum. Hann er í reit G9 – 33, nýlega hreinsaður og gull dregið í stafina, svo aldurinn er ekki á honum að sjá. Steinninn er óreglulegur í laginu, grófur að utan, en á framhliðinni eru höggnir tveir sléttir fletir, sá efri með lágmynd skútunnar á bárum, en sá neðri með eftirfarandi áletrun úr gylltum stöfum og nú á færeysku en ekki dönsku:
VIÐ FØROYSKA FISKISKIPNUM
A C O R N
BRENDUST OG DOYÐU HESIR
MENN 20 – 3 – 1928
D. DEBES – GJÓGV
H.J. JOENSEN – –
N. KLEIN – – –
H.J. BISKOPTSTØ –
BrakD.P. OLSEN – FUNNING
H. JACOBSEN – EIÐI
H.D. MØRKØRE – –
TEIR SKOÐAÐU STÓRVERK HARRANS
OG Í DÝPINUM UNDUR HANS
Í NEYÐ SÍNI HEITTU TEIR Á HARRAN
OG HANN HJÁLPTI ÚR TRÓNGDUM.
Orð þessi eru tekin úr Davíðssálmum, 107, 24-28, en í íslenzku biblíunni eru þau svolátandi: „Þeir hafa séð verk Drottins / og dásemdir hans í djúpinu – Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, / og hann leiddi þá úr angist þeirra.“

Lesandi á stein þennan hlýtur að staldra við orðin „brendust og doyðu“, því oftar er að erlendir sjómenn í görðum okkar hafi orðið sjódauðir. En til þess er einkar átakanleg saga sem lesa mátti í íslenzkum blöðum í marslok 1928. Færeyska skútan Acorn var að veiðum á Selvogsbanka er hún fékk skyndilega á sig krappan hnút, svo hún var nærri farin á hliðina, og allt lauslegt um borð kastaðist til. Frammi í lúkar voru níu menn og höfðu hjá sér ljóstýru. Við ágjöfina streymdi sjór niður í lúkarinn, en í sama mund sentist karbíðdunkur ofan af hillu niður á gólf og laskaðist, en um leið varð af ógurleg sprenging. Einn mannanna hné þegar dauður niður, en hinir átta komust upp, flestir í logahafi. Þeir sem höfðu verið aftur á hlupu þegar til, reyndu að slökkva í mönnunum og draga þá aftur í káetuna, meðan skipið logaði framan og sjór gekk yfir það í föllum.
BrakTveir í viðbót létust þegar, og meðan barizt var við eldinn gáfu enn þrír upp öndina, mjög illa brenndir. Var nú reynt að koma upp seglum og stefna fyrir Reykjanes, í átt til Reykjavíkur. „Var það erfið ferð, því að þeir fengu hvorki neytt svefns né matar allan tímann. Í káetunni máttu þeir ekki kveikja upp eld, því hinir brunasáru þoldu ekki hitann. Enda ekki aðgengilegt að vera að matseld innan um líkin.“ Um leið og Acorn kom til Reykjavíkur voru þeir þrír brunasáru, sem enn lifðu, fluttir á Landakotsspítala. Voru þá liðnir þrír sólarhringar frá því að slysið varð. Einmitt þessa dagana var staddur í Reykjavík Jóhannes Patursson kóngsbóndi í Kirkjubæ og flutti hann opinber erindi um færeyska menningu og fiskiveiðar í Nýja Bíó. Kom þessi voðasending af hafinu því sorglega heim við þá erfiðu og frumstæðu sjósókn landa sinna sem Paturson lýsti.
Jarðarför sjómannanna af Acorn fór fram þann 29. mars frá Líkhúsinu í kirkjugarðinum. Kisturnar voru þá orðnar sjö, því einn, Hans Doris Mörköre frá Eiði, hafði látist á spítalanum. Mikið var við haft, séra Bjarni flutti líkræðu, Karlakór KFUM söng, en sendiherrar Dana, Svía og Finna, auk Jóhannesar kóngsbónda og skipverja af Acorn fylgdu kistunum til grafar. Ekki leið heldur á löngu áður en legsteinninn barst hingað til lands, sennilega höggvinn í Færeyjum, og minnir með skútumynd sinni á þann skamma tíma sem liðinn er síðan sjómenn urðu að berjast tækjalausir með berum höndum við ógnaröfl sjávar – og elds.“

Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-Kafli úr bókinni Minningarmörk í Hólavallagarði, eftir Björn Th. Björnsson. Útgefin af Máli og Menningu 1988. Bls. 225-230.
-Þriðjudaginn 9. september, 9. fundur 2008, haldinn í framkvæmdastjórn Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma.

Staðarberg

Staðarberg – Bergsendi ofan Ræningjaskers.