Færslur

Staðarhverfi

Farið var með Helga Gamalíassyni frá Stað áleiðis út að Héleyjabungu, en þar undir bungunni á að vera gömul klukka. Á leiðinni lýsti Helgi Litluvör og Stóruvöllum, litlum grasbölum suðvestan við farskiptamöstrin ofan við byggðina í Grindavík. Þar eru hleðslur er gætu einhverjar hýst refagildrur og það gamlar.

Staðarhverfi

Óli Gam. sýnir FERLIRsfélögum fornan brunn.

Vestan við kirkjugarðinn á Stað og sunnan við Staðarbrunninn er hóll í túninu. Í hólnum á að vera gamall bær er nefndist Krukka (Krubba). Hann var yfirgefinn í miklum sandstormi er gekk yfir fyrir einhverjum öldum síðan. Gamli Staðarbærinn var hins vegar vestan og fast við kirkjugarðinn. Honum var ýtt um koll þegar farið var að slétta túnin neðan við nýja húsið, sem stóð utan í hólnum norðvestan við garðinn. Helgi hafði gengið með þann draum í maganum að Staðarbrunnurinn, sem hlaðinn var 1914, yrði einhvern tímann hlaðinn upp og hafður áhugasömu fólki til sýnis, enda hið fallegasta mannvirki.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – klukkuport.

Í hól vestan Móakots, nálægt sjónum, voru flestir skipshafnarmeðlima færeyska kúttersins Anne fra Tofte (frá Austurey) lagðir til og síðan jarðaðir í kirkjugarðinum í Reykjavík (Hólavallakirkjugarði). Um tugur ungra manna fórst með bátnum þarna fyrir utan, austan Staðarbergs, flestir úr sömu fjölskyldunum. Atburðurinn var mikil harmsaga.

Í kirkjugarðinum á Stað er klukknaport. Í því er klukka úr Alnaby, sem strandaði austan við Stað, í Jónsbás, árið 1901. Mannskaði varð, en skipstjórinn, Nilson, kom við sögu í Dýrafjarðarmálinu svonefnda þegar Hannes Hafstein, sýslumaður, ætlaði ásamt heimamönnum að handsama þar landhelgisbrjóta í firðinum eins og frægt varð.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – klukkuport.

Þegar komið var út í Háleyjabungu benti Helgi á staðinn þar sem hann hafði síðast séð nefnda klukku. Ekki var nægilega fallið frá til þess að hægt væri að nálgast hana að þessu sinni, en svo til nákvæm staðsetning er komin á hana. Helgi sagðist hafa verið að eltast við mink þegar hann hafi allt í einu rekist á klukkuna í fjörunni. Þá hafi verið mjög lágsjávað. Hún er líkast til um 60 cm á hæð og virðist vera úr járni. “Ef hún hefði verið út kopar hefði einhver verið búinn að hirða hana fyrir löngu”, sagði Helgi og glotti. Brotið er úr henni á einum stað. Klukka þessi gæti verið fjörgömul, en enginn veit hversu lengi hún hefur legið á þessum stað.

Háleyjar

Tóft undir Háleyjarbungu.

Utan í Háleyjabungu er m.a. tóft af hlöðnu húsi. Enginn veit hvaða hlutverk það hefur þjónað. Þó er jafnvel talið að Skálholtskirkja hafi átt reka við Háleyjar og Krossavík, sem er skammt vestar. Ekki er ólíklegt að menn biskups hafi unnið reka og/eða setið um reka því hann þótti mikil hlunnindi áður fyrr. Aðal siglingaleiðin til landsins var þarna fyirr utan og og aldrei var að vita hvað kynni að gerast í vondum veðrum. Gat þá skipt miklu máli að vera til staðar þegar eitthvað bar út af. Hval gat líka rekið fyrirvarlalaust á land og var þá betra að geta brugðist fljótt og vel við.
Farið verður fljótlega aftur á staðinn við hentugri aðstæður og þess freistað að ná klukkunni á land.

Anlaby

Skipsklukka Anlaby í klukknapotrinu.