Færslur

Knarrarnes

Gengið var frá letursteininum við garðhliðið að Stóra-Knarrarnesi, um fjöruna og litið á hlaðna garða og sjávarhús á bakkanum neðan við Minna-Knarrarnes.

Knarrarneskirkja

Minna-Knarrarnes.

Birgir Þórarinsson, prestur í Vogum og ábúandi á Minna-Knarrarnesi, fræddi þátttakendur um örnefni, fyrrum bæjarstæði, álagabletti, dysjar, brunna og leturstein. Gamli bærinn að Knarranesi stóð þar sem útihúsin eru núna suðvestan við núverandi hús. Útihúsin eru að hluta til (einn veggur um mið húsin) er hlaðinn úr grjóti er hrökk til afgangs úr byggingu Alþingishússins við Austurvöll (líkt og Breiðabólstaður á Álftanesi). Sjá má í enda vegghleðslunnar á miðjum framgaflinum. Ofar á túninu er svonefnt Brandsleiði, álagablettur, sem ekki hefur mátt hreyfa við.

Knarrararnes

Knarrarnesbrunnur.

Ofan við þjóðveginn er hlaðinn brunnur. Hann hefur verið fylltur upp til að koma í veg fyrir hugsanleg óhöpp líkt og svo margir brunnar aðrir á Reykjanesi. Brunnhleðslan sést vel. Sagðist Birgir hafa séð vatn efst í brunninum s.l. vetur. Ekki liggur ljóst fyrir hvers vegna brunnstæðið er þarna, en þó er vitað að gamli bærinn stóð þarna skammt fyrir norðan brunninn. Hann gæti því hafa tilheyrt honum á þeim tíma. Digravarða (landamerki) er þarna skammt austar á hól. Úr henni liggja landamerki Minna-Knarrarness í Eldborgir ofan við Knarrarnessel, skammt norðan við gamla Hlöðunesselið.

Knararnes

Minna-Knarrarnes – letursteinn.

Digravarða er ofan við hlaðinn garð vestan og sunnan við Hellur. Talið er að hún hafi verið ein kirkjuvarðanna svonefndu, en þarna neðan við á gatan að Kálfatjarnarkirkju að hafa legið fyrrum.
Skoðaður var letursteinn í garði norðan við íbúðarhúsið að Minna-Knarrarnesi. Um er að ræða brotinn myllustein með áletrun. Hann er mosavaxinn og því erfitt að ráða í áletrunina. Birgir taldi að áletrunin gæti verið 1823. Eitthvert skraut er einnig á steininum. Norðan við garðinn eru Krosshólar og Breiðihóll enn norðar.

Knarrarneshverfi

Knarrarneshverfi.

Knarrarnesbrunnurinn er nálægt íbúðarhúsinu. Á túninu eru ýmsar hleðslur og gömul mannvirki, sem fróðlegt væri að skoða nánar.
Sandlóa hafði verpt öðru sinni á einum hraunhólnum. Krían lét illa, enda að verja afkvæmi sín. Birgir sagði krívarpið hafa stækkað umtalsvert undanfarin ár.
Frábært veður.

Knarrarnes

Áletrun á klöpp við Knarrarnes.