Færslur

Dýrfinnuhellir

Gengið var um Grindavík og m.a. hugað að Grindavíkurhelli og Dýrfinnuhelli við Skipsstíg í Skipsstígshrauni. Áhugasömum Grindvíkingum var boðin þátttaka. Upphafsstaður var í Kúadal suðvestan við Hesthúsabrekku.

Kúadalur

Kúadalur í Grindavík.

Við Kúadal er varða við gömlu leiðina frá Þórkötlustaðahverfi inn á Skipsstíg, hina gömlu þjóðleið milli Járngerðarstaða og Njarðvíkur. Frá henni var haldið yfir að Stamphólsgjá. Austan við gjána eru tvær aðrar vörður á sömu leið. Stamphólsgjá lá svo að segja í gegnum núverandi Járngerðarstaðahverfi, frá NA til SV. Hún var síðan fyllt upp eftir því sem byggðin óx. Nú sést gjáin einungs óskert á stuttum kafla efst í landinu norðan og ofan við byggðina, vestan íþróttasvæðisins. Á einum stað í gjánni er hægt að komast niður í hana. Því miður er niðurfallið fullt af rusli svo niðurgangurinn er lítt fýsilegur. Hægt er að komast inn undir hraunið í báðar áttir. Þrengsli eru í syðri hlutanum, en með lagni er hægt að feta sig áfram allnokkurn spöl. Einungis 30 metrar voru farnir að þessu sinni.

Grindavíkurhellir

Grindavíkurhellir.

Í 19. aldar ferðalýsingu er getið um Grindavíkurhelli. Hellinum er ekki lýst nánar en að hann sé alllangur. Slík lýsing gæti vel átt við svonefndan Gauahelli, sem áður var nefndur Jónshellir. Opið á honum er norðvestan við Stamphólsgjá. Fara þarf niður í gjána um op á hraunbólu. Í því er að sjá sem bólan sé þak á nýrra hrauni, rauðlituðu, en undir er eldra grágrýti.
Slæmt er að sjá hveru innopið hefur dregið að sér mikið af alls kyns drasli. Þegar inn er komið er hellirinn vel rúmgóður. Svo er að sjá sem gólfið hafi verið þakið viðarfjölum, sem nú eru farnar að fúna. Innar er stigi svo til lóðrétt niður í jörðina um sprungu í eldra hrauni.
Þegar niður er komið er fyrir rúmgóður hellir og hægt að fara suðvestur eftir gjánni. Áður fyrr var mögulegt að fara alllangt til suðvesturs og koma upp þar sem nú er félagsheimilið Festi. Opinu þeim megin var lokað þegar félagsheimilið var byggt.

Grindavíkurhellir

Grindavíkurhellir í dag – opið þakið rusli.

Fólk var jafnan varað við að fara um hellinn því hann er víða þröngur, auk þess sem dæmi eru um að menn hafi lokast inni í honum um tíma eftir jarðskjálfta. Segir sagan að tveir menn hafi verið í hellinum þegar jarðskjálfti reið yfir. Grunur lá á að hellirinn hafi þá verið notaður til brugggerðar um tíma líkt og Hesthellir í Arnarseturshrauni. Lokuðust mennirnir inni, en opnaðist aftur þegar annar jarðskjálfti fylgdi í kjölfarið. Töldu þeir sig heppna að komast út aftur. Sprungunni var ekki fylgt á leiðarenda að þessu sinni, einungis látið nægja að skoða innviðina næst opinu.

Þá var tekið hús á Tómasi Þorvaldssyni og hann spurður um staðsetningu Dýrfinnuhellis. Tómas tók vel á móti viðkomandi, rifjaði upp ferð sína um Skipsstíginn og lýsti opinu, hvorum megin við stíginn það væri og hversu langt frá honum.

Skipsstígur

Skipsstígur.

Þá var gengið yfir á Skipsstíg vestan Lágafells og honum fylgt áleiðis til norðurs. Stígurinn hefur verið endurgerður á kafla. Líklega hefur sú framkvæmd átt að þjóna vögnum eða bifreiðum. Þar sem kvöldsólin skein á stíginn og heillegar vörðurnar sást hvar hann liðaðist jafnbreiður í gegnum hraunið, vandlega gerður af mannanna höndum. Lítið sem ekkert er vitað um þessar úrbætur á Skipsstíg, sem lengst af var stysta leiðin milli Suðurnesjabyggðalaganna beggja vegna Reykjanesskagans. Það breyttist hins vegar með tilkomu Grindavíkurvegarins um Selháls og í gegnum Arnarseturshraun að Seltjörn og áfram upp á Keflavíkurveginn á Stapa á árunum 1913-1918. Skipsstígur er mjög fallegur á þessari leið þar sem hann liðast í gegnum hraunið.

Skipsstígur

Varða við Skipsstíg.

Norðan og vestan við Lágafellið er Dýrfinnuhellir. Segir Tómas Þorvaldsson frá því í einni bóka sinna að sögn hafi verið um að samnefnd kona hafi flúið þangað með börn sín eftir að “Tyrkirnir” komu að Grindavík og fóru ránshendi um byggðalagið. Á hún að hafa hafst við í hellinum um tíma. Þá er ekki ólíklegt að vegavinnumennirnir á Skipsstíg hafi nýtt hellinn sem skjól. Gegnumgeng braggalaga hraunbóla er þarna skammt norðar, vinstra megin við stíginn. Hleðsla er við annan endann. Ekki er ólíklegt að ferðalangar og vegagerðamenn hafi einnig nýtt sér það sem skjól um tíma.

Dýrfinnuhellir

Dýrfinnuhellir.

Dýrfinnuhellir, skv. lýsingunni er stutt frá stígnum. Nokkrir hellar eða skútar eru einnig við hann eigi langt frá. Einn er vel manngengur og liðast undir hraunið. Dýrfinnuhellir er hins vegar rúmgóður, en ekki mjög hár til lofts. Hann hefur hins vegar veitt ágætt skjól þeim, sem í honum dvöldu. Þykkt lag af sandi er í gólfinu. Skammt frá honum er annar hellir, ekki síður ákjósanlegt skjól. Innhellar hans eru víða lágir. Sandur er í botninum.

Handan við stíginn, skammt frá er hins vegar mjög fallegur hellir, eða m.ö.o. stór hraunbóla. Botninn er alveg sléttur og hlaðið hefur verið upp í kantana. Opið er fremur lítið og að mestu þakið mosa. Mjög góður felustaður. Niðurstigið hefur verið lagað til. Þarna er mjög gott skjól fyrir marga menn.

Skipsstígur

Hellir við Skipsstíg.

Ef lýsingin hefði ekki verið svo nákvæm af staðsetningu Dýrfinnuhellis væri raunhæft að ætla að þarna hafi fólk getað hafst við um tíma og það með góðu móti. Hellir þessi verður skoðaður betur á næstunni.
Í göngunni villtist einn þátttakenda frá hópnum. En eins og jafnan er kynnt er ekki beðið eftir eða leitað að “eftirlegukindum”. Og þar sem þessi þátttakandi hafði ekki göngustað eða önnur verðmæti meðferðis var hann skilinn eftir. Vonandi ratar hann til byggða þá og þegar húmar að kveldi.

Gyltustígur

Gyltustígur (t.h.).

Í bakaleiðinni léku kvöldsólargeislarnir við Þorbjarnarfellið. Við það sást Gyltustígurinn upp vestanvert fellið mjög vel.
Hraunið er þarna víða mjög úfið, en inni á milli eru tiltölulega slétt apalhraun. Hraunkanturinn er u.þ.b. 6 metra hár og sést vel hvernig hann hefur stöðvast á graslendinu norðan Lágafells. Reykjavegurinn svonefndi liðast vestur með sunnanverðum hraunkantinum. Miðsvæðis sunnan við hann er sæluhús fyrir langþreytta ferðalanga.
Frábært veður.

Dýrfinnuhellir

Dýrfinnuhellir.