Tag Archive for: Stampar

Stampar

Neðan gígs á Stampagígaröðinni vestast á Reykjanesskaganum er skilti með eftirfarandi texta:

Stampar

Stampar.

„Tvær gossprungur liggja frá sjó inn í land á vestanverðu Reykjanesi og mynda gígaraðir. Þessar gígaraðir hafa verið kenndar við Stampa. Gígaraðirnar eru frá tveimur tímaskeiðum og fylgja stefnunni SV-NA sem er algengasta sprungustefna á Reykjanesi.

Sú eldri myndaðist í gosi á tæplega 4 kílómetra langri sprungu fyrir 1.800-2000 árum.

Stampar

Gígur á Stampagígaröðinni.

Yngri-Stampagígaröðin myndaðist í Reykjaneseldum á árunum 1210-1240. Gígaröðin er um 4 kílómetrar að lengd og er flatarmál þess hrauns sem þá rann um 4.6 km2. Þeir tveir gígar sem næst eru veginum, nefndir Stampar, eru við norðurenda gígaraðarinnar. Sunnar á gígaröðinni má sjá stæðilega gíga s.s. Miðahól. Eldborg dýpri og Eldborg grynnri sem allir voru notaðir sem mið við fiskveiðar fyrr á tímum. Flestir gígarnir eru þó klepragígar og lítt áberandi.

Þess má geta að í Reykjaneseldum 1210-1240 runnu fjögur hraun í Reykjanes- og Svartsengiskerfunum auk þess sem neðarsjávargos urðu í sjó undan Reykjanesi.

Stampar

Gígar á eldri gígaröðinni.

Hundrað gíga leiðin, merkt gönguleið, liggur að hluta um Stampahraunið. Leiðin hefst við Valahnúk á Reykjanesi og er 13 kílómetra löng. leiðin liggur m.a. um háhitasvæðið á Reykjanesi, fram hjá gjall- og klepragígum og móbergsfjallinu Sýrfelli að Stampagígunum. Þaðan er gengið um úfið helluhraun og sandskafla og þræðir leiðin sig frá vesturhlið gígsins sem er næst veginum, áfram eftir gígaröðinni, sjávarmegin við Reykjanesvirkjun. Gígarnir sem gengið er með fram eru fjölmargir og viðkvæmir.

Leyfilegt er að ganga á gíginn sem er nær veginum. Mikilvægt er þó að hafa í huga að raska ekki viðkvæmum jarðminjum.“

Stampar

Stampar – skilti.

Grænavatn

Í Krýsuvík er þyrping sprengigíga. Allir eru þeir líklega yfir 6000 ára, þekktastir eru Grænavatn og Gestsstaðavatn. Í þyrpingunni eru a.m.k. fjórar gígaraðir, þrjár liggja norður-suður og ein NA-SV. Sú vestasta og elsta hefur aðallega gosið gjalli (Gestsstaðavatn) en hinar grjótmylsnu með stórgrýti í bland (Grænavatn) auk gjalls sú austasta (vikið austast í Grænavatni).

Krýsuvík

Krýsuvík – Gestsstaðavatn (nær) og Grænavatn. Stampar h.m.v. Grænavatn.

Yngstar eru tvær gígaraðir sem liggja um Grænavatn. Aðalgígurinn í þeirri eldri er vestan megin í því. Þar gaus bergbrotum og bergmylsnu úr undirlaginu. Það myndar a.m.k. 10 m þykkt lag í gígbarminum sunnan megin. Úrkast þaðan hefur dreifst umhverfis og yfir nálæga gíga með því minni blokkum sem fjær dregur. Kleprahraun, morandi af gabbróhnyðlingum, er úr þeirri yngri austan megin í Grænavatni. Efsti hluti hraunsins er ósambrætt lausagjall. Grjót úr undirlaginu er þarna með.

Aldursmunur á Grænavatnsgígunum er sennilega lítill. Augun, smágígar með pollum báðum megin vegar eru á 300 m langri gígaröð með stefnu N50°A. Hún er tvískipt og partarnir standast ekki á.

Krýsuvík

Grænavatn (t.h.) og Stampar.

Sprengigígarnir raða sér í stefnu skjálftasprungna. Hraunmagn í gosunum hefur verið mjög lítið, þeim fylgdi mikið magn gabbróhnyðlinga og gossprungurnar voru stuttar. Því er líkast að gengið hafi yfir skjálftatímabil sem kom hreyfingu á storknandi kvikumassa í rótum megineldstöðvar Krýsuvíkurkerfisins. Gliðnunarsprungur hreyfðar eftir ísöld er ekki að sjá þarna nærlendis. Í Litla-Stampi sunnan Grænavatns er forn stekkur, sennilega frá bænum Fjalli, sem var þar skammt sunnar.

Sprengigígarnir raða sér í stefnu skjálftasprungna. Hraunmagn í gosunum hefur verið mjög lítið, þeim fylgdi mikið magn gabbróhnyðlinga og gossprungurnar voru stuttar. Því er líkast að gengið hafi yfir skjálftatímabil sem kom hreyfingu á storknandi kvikumassa í rótum megineldstöðvar Krýsuvíkurkerfisins.

Grænavatn

Grænavatn.

Grænavatn (Greenlake) er eldgígur sem fékk nafn sitt af óvenjulegum grænum lit. Liturinn er vegna mikils brennisteins í vatninu og dýpt þess. Vatnið er aðeins um nokkur hundruð metrar í þvermál. Þó vatnið sé lítið er það þó nokkuð djúpt eða 45 metrar. Þetta er sýnilegt þegar þú stendur við brúnina og þú getur séð hvernig liturinn breytist við strandlengjuna þar sem vatnið dýpkar. Grænavatn er talið af jarðfræðingum eitt athyglisverðasta jarðfræðifyrirbæri sinnar tegundar á Íslandi. Talið era ð gígurinn sé um 6.000 ára gamall.
Vegna óvenjulegs eðlis og litar hefur vatnið verið uppspretta þjóðsagnasagna í aldanna rás. Um miðja 16. öld sást til undarlegrar veru koma upp úr vatninu.

Krýsuvík

Krýsuvík – sprengigígar.

Reykjanes

Haldið var að Stömpum á Reykjanesi í fylgd Kristjáns Sæmundssonar, jarðfræðings. Leitað var að hlöðnu húsi vestur af Rauðhól á Reykjanesi er gæti hafa verið sjóhús.

Stampar

Stampar – gígur.

Stampahraunin eru í raun 4 talsins. Síðasta gosið var 1226 og myndaðist þá gígaröðin, sem núverandi Stampar standa á. Ystur gíganna er Karlinn skammt utan við ströndina. Þegar staðið er uppi á nærst nyrsta gígnum má vel sjá hvernig gígaröðin liggur í átt að Karlinum. Vestar er önnur gígagröð, sem liggur. Syðsti gígurinn í henni, landfastur, var Kerlingin, sem nú er horfin. Í gígaröðinni var Rauðhóll, en hann hefur nú verið skemmdur til ónýtis vegna malarnáms. Sjá má á annan rauðleitan gíg skammt sunnar og sennilega er nyrsti gígurinn í þeirri röð skammt vestan nærst nyrsta Stampagígsins úr nýjasta gosinu. Hann er fremur lítill, en hraun hefur runnið inn í hann að hálfu og síðan umhverfis hann.

Hreiðrið

Gígurinn Hreiðrið við Sýrfell.

Hraunið úr nýjasta gosinu hefur verið fremur lítið og að mestu runnið til vesturs. Þriðju gígaröðina má sjá austan við Stampana, litla, en fallega. Elstu gígaröðina má sjá austast og eru í henni nokkrir stórir gígar. Syðstur er gígurinn á öxl Sýrfells, en nyrst eru Hörslin, þ.e. ójöfnur. Þeir eru um 4000 ára gamlir. Allt eru þetta gos á sömu sprungureininni. Sjá má munin á hraununum, þau yngri ljósari og áferðafallegri, en þau eldri svartari og úfnari.

Kinnaberg

Kinnaberg – hlaðið hús.

 Gengið var vestur svartan basaltsandinn, sem er eitt aðaleinkenni svæðisins, í gegnum Rauðhól, yfir gamla Reykjanesvitaveginn (Reykjaveginn) og að hina hlaðna húsi, sem stefnt var að, stendur nokkuð heillegt, en þakið er fallið. Innanmálið er ca. 4×1.5m. Við báða gafla eru hleðslur (gætu verið hestagerði eða hleðslur af eldra húsi). Leiðin að vitanum, sem er í u.þ.b. þriggja km fjarlægð, er þéttröðuð háum vörðum. Skammt vestan hússins sést vagnslóð þar sem hún liggur inn á slétt helluhraun og síðan áfram áleiðis að vitanum.

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræðikort.

Neðan hússins er sjóbarin ströndin. Bás liggur inn í bergið nokkru vestar. Hann er þar sem yngra Stampahraunið (feldspatdílótt) leggst sunnan frá ofan á það eldra (næstum dílalaust). Þetta líkist lendingunni við Háleyjahlein, þar sem hraunið úr Mel (útgrafna gígnum við veginn austan við Rauðhóla/Sýrfellsdrög) leggst austan frá að Háleyjabungu. Í fjörunni eru fallegir þarapollar. Efra fjöruborðið er þakið blágrýtishnullungum.
Gata liggur líka til norðurs frá húsinu á grónu landi. Landið nálægt húsinu bendir til þess að elsta hraunið hafi verið orðið nokkuð vel gróið þegar yngra hraun rann að og að hluta yfir það. Sel á að hafa verið norðan undir yngstu Stömpunum, en það gæti vel verið miðað við gróðurfarið á þessu svæði.

Kinnaberg

Hlaðinn grunnur undir geymslu ofan Kistu.

Tekinn var gps-punktur og svæðið rissað upp. Gróinn hóll er austan við húsið, en frá því í vitann er um 3 km. Í örnefnaskrá Hafna segir m.a.: „Rétt áður en kemur að Kistubergi skerst lítill bás inn í klappirnar og til suðvesturs úr básnum skerst gjá, svo sem lítil bátslengd. Þetta heitir Kista. Þegar núverandi viti var byggður, var öllu efni skipað upp þarna í gjánni . . Skammt upp frá sjónum var geymsluhús, sem notað var til geymslu á vörum til vitans fram undir 1930, því enginn vagnvegur var til Reykjaness, en vagnbraut var rudd frá húsi þessu til vitans. .“.

Reykjanes

Berggangur yst á Reykjanesi – norðan Karls.

Skv. upplýsingum Sveins Sverrissonar var sjóhúsið, sem nefnt er í frásögninni hér að framan líklega u.þ.b. einum km sunnar með ströndinni. Þar væri grunnur af húsi og hlaðnir garðar. Hann taldi þar vera kominn grunn af sjóhúsinu, sem væri norðan undir hraunkantinum ofan við Kistubergið. Beint fyrir neðan það væri Kista, básinn, sem nefndur er. Hélt Sveinn að hlaðna húsið norðar gæti hafa verið hlaðið af einhverjum upp úr eldra húsi. Sjálf grunnhleðslan væri stærri og stæði út undan húsinu beggja vegna. Hann hafi verið að leita að fornum býlum þarna, s.s. Skjótastöðum. Þessar minjar gætu verið frá einhverju slíku, jafnvel Skjótastöðum sjálfum. Selið átti skv. korti að vera þarna norðaustar, en það gæti auðvitað hafa skeikað nokkru í staðsetningu því alllangt er síðan það fór í eyði.

Gengið var til suðurs frá tóftinni. Þá var komið inn á gamlan varðaðan veg, sem lagfærður hafði verið í gegnum svart hraunið.

Reykjanes

Reykjanes – Karlinn.

Ofan við Kistu fannst grunnurinn. Hann er ca. 4×6 metrar, fallega hlaðinn hól. Vestan hans er hlaðið gerði. Mikill sandur hefur fokið þarna í lægðir og í hóla og melgresi þekur það að mestu. Að sjá gæti hafa verið hlaðið þarna utan um brunn eða vatnsstæði. Sunnan þess mótar líkt og fyrir nokkrum tóftum, sem erfitt er þó að forma sökum sandsins og melgresins, í skjólgóðri lægð svo til alveg undir hraunkantinum.
Gatan frá grunninum hefur væntanlega legið í sandinum upp með kantinum og síðan inn á hann með svo til beina stefnu í vitann. Leiðin er tiltölulega greiðfær.
Ummerki eru við Kistu, en í henni var lending og nokkuð greiðfært með varning upp á slétta ströndina ofan við hana. Landslagið er tilkomumikð, litskúðugir gígar Stampanna, svart apalhraunið, sandurinn og ströndin.
Til fróðleiks má geta þess að fyrsti vitinn við Íslandsstrendur var byggður á Valahnúk árið 1878. Gamli Reykjanesvitinn var endurnýjaður árið 1897 en hann hafði orðið fyrir skemmdum í jarðskjálftum. „Nýi“ Reykjanesvitinn var byggður á árunum 1907-1908 á Bæjarfelli. Hann stendur 73 m. yfir sjávarmáli.
Gangan tók 2 og ½ klst. Frábært síðdegisveður.

Reykjanes

Reykjanestáin – jarðfræðikort.