Færslur

Gufuskálar

Í 101. kafla Landnámu (Sturlubók) er sagt frá Steinuði (Steinunni) er síðar nam land á Rosmhvalanesi; “Steinuður hin gamla, frændkona Ingólfs, fór til Íslands og var með Ingólfi hinn fyrsta vetur. Hann bauð að gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf fyrir heklu flekkótta og vildi kaup kalla; henni þótti það óhættara við riftingum”. Þá segir jafnframt að “Eyvindur hét maður, frændi Steinunnar og fóstri; honum gaf hún land milli Kvíguvogabjarga og Hvassahrauns. Hans son var Egill, faðir Þórarins, föður Sigmundar, föður Þórörnu, móður Þorbjarnar í Krýsuvík”.
Hólmur - fornmannaleiði fremst?Steinunn gamla, sem svo var nefnd, gæti hafa búið á eyjunum við Skotland eða dvalið þar – til þess bendir nafnið Njáll á öðrum syni hennar og heklan sem hún galt með fyrir land Ingólfs. Annar sonur hennar hét Arnórr. Maður Steinunnar var Herlaugur Kveldúlfsson, sagður bróðir Skalla-Gríms, og virðist hann hafa verið látinn er hún kom til Íslands. Mikil vígsár voru þá í Noregi. Í það minnsta kom hún án hans til landsins. Trúlega hefur Steinunn numið land sitt hér fr
á u.þ.b. 880-891, sennilegast þó um 890, því líklegt má telja að Ingólfur hafi látist á bilinu 900-905. Hann fór nokkrar ferðir til Noregs eftir að hann settist að í Reykjavík um 874 og trúlega hefur Steinunn fylgt honum til baka í einhverri þeirra því talið er að eiginmaður hennar hafi verið drepinn af mönnum Haraldar hárfagra ásamt frændum hans um 890. Ingólfur var einmitt staddur á heimaslóðum sínum í Fjörðum í Noregi um 890 eða 891. Kveld-Úlfur fluttist búferlum um þetta leyti (891), en lést á leiðinni til Íslands, þá orðinn gamall maður.
Þegar hingað til lands var komið fékk Steinunn Rosmhvalanesið í skiptum fyrir hekluna. Gufi Ketilsson af Akranesi hafði freist
ast til að setjast að í Gufunesi í landi Ingólfs í Reykjavík (Þórðarbók/Melabók Landnámu) en í óþökk landnámsmannsins. Þetta hefur væntanlega verið fyrir 900. Eftir að Ingólfur hafði rekið Gufa á brott fór hann á Rosmhvalanes og vildi taka sér bólfestu á Gufuskálum í Leiru en þau Steinunn “keyptu saman” að hann færi þaðan á brott og vermannastöð yrði þar ávallt frá Hólmi. Samkvæmt þessu hefur Steinunn þá enn verið lifandi.
Eftir landakaupin ól Steinunn upp frænda sinn, Eyvind og gaf honum síðan hluta úr landnámi sínu, landið frá Hvassahrauni að Vogastapa, innsta hlutann af hinu forna Rosmhvalanesi sem á 9. öld náði þá líka yfir Vatnsleysuströndina sem kom í hlut Eyvindar er bjó í Vogum. Hann fluttist að Bæjarskerjum að lokum, eins og fram kemur í Landnámu. Vilja sumir meina að þar hafi Steinunn þá búið fyrrum.
Byggð hefur hafist á austanverðu Rosmhvalanesi með því að menn reru þaðan til fiskjar í byrjun. Um það vitna Gufuskálar, Miðskálar og Útskálar í Garði. Upp frá því hafa síðan jarðir byggst. Af Egilssögu að merkja hefur Rosmhvalanesið verið allbyggt nálægt 939. Ljóst er þó að ysti hluti Nessins innan Skagagarðsins virðist hafa byggst síðast enda var erfiðast að sækja þaðan sjó vegna skjóleysis við landið. Nokkur rök eru þess vegna til að þær jarðir sem bestar höfðu lendingar hafi byggst allsnemma og ekki var verra ef sæmilegt vatnsból voru nærri slíkum jörðum. Ein af slíkum jörðum var Hólmur í Leiru. Þar virðist hafa verið greiðara að ná í vatn en víða annars staðar á svæðinu. Í fjörunni undan Gufuskálum var og er enn sístreymandi vatn, volgt en ekki kalt, og hefur því ekki frosið á vetrum. Á landnámsöld hefur vatnið e.t.v. verið heitara og á stigið upp af því gufa. Sennilega hefur útstreymi þetta staðið ofar í fjörunni svo greiðara var að komast að því en er í dag. Ljóst er að í vatnsleysinu á Suðurnesjum var aðgangur að slíku vatni allt árið gulls í gildi. [Rétt er að geta þess að vatn hefur víða verið að finna á Suðurnesjum. Þess bera bæði kaldavermsl og vatnsstæði glögg merki. Eitt slíkt, hlaðið umhverfis, er t.a.m. ofan við Gufuskála og annað ofan við Hólm, auk þess tjarnir voru ofan strandar utan Bergvíkur].
VatnsstæðiAðgangur að nægu vatni gat því verið full ástæða til að ábúandi á Hólmi gerði allt sem í hans valdi stóð til að hindra fasta búsetu á Gufuskálum. Þetta gætu því verið allgóð rök fyrir því hvers vegna Steinunn “keypti” Gufu brott af staðnum. [Það að Steinunn hafi þurft að “kaupa” hann úr landnámi sínu, bendir til þess að Ingólfur hafi annað hvort ekki verið til staðar eða að hún hafi ekki sest þar að fyrr en um 900]. Efamál er hvort bátalending hafi fyrrum verið betri á Gufuskálum en á Hólmi, en nú er þar ólíku saman að jafna, enda þéttist byggðin síðar mest um Hólm. Ýmislegt bendir til þess að upplýsingar í Melabók um Gufu Ketilsson séu réttar og að Steinunn hafi kannski ekki búið ýkja langt frá Gufuskálum, jafnvel þar til að byrja með.
[Við þetta má bæta að utan við núverandi íbúðarhús á Hólmi, nálægt hinu gamla bæjarstæði, er bátslaga blettur með grjóti umgerðis. Blettur þessi var lengi vel afgirtur og mátti aldrei hrófla við honum, ella hlytist verra af].

Heimild m.a.:
-Landnáma (Sturlubók).
-Skúli Magnússon – Faxi, 3. tbl. 2007, bls. 15.

Refagildra

Gengið var frá Brunnastaðahverfinu á Vatnsleysuströndinni, um Brunnastaðasund að Hausthús, Vorhús og Hvamm, að Grænuborg ofan við Djúpavog og áfram með ströndinni í Voga.

Bieringstangi

Frá Efri-Brunnastöðum var gengið yfir að Skjaldarkoti, austasta kotinu í hverfinu. Skjaldarkot er nú í eigu Eggerts Kristmundssonar á Efri-Brunnastöðum. Ýmis óvenjuleg nöfn prýða staði á Ströndinni og ofan við hana. Má í því sambandi nefna orðið Kánabyrgi, sem er hóll eða há klettaborg skammt ofan Reykjanesbrautar, þar sem talið er að leitarmenn hafi safnast saman áður en skipt var í göngur. Orðið káni er til á 18. öld, sjaldgæft orð sem merkir “þrjótur, slæpingi; seppi”. Þarna hefur hóllinn sennilega heitið Gangnabyrgi, en latmæli breytt því í Kánabyrgi.
Gengið var vestur með ströndinni, framjá Naustakoti ofan við Brunnastaðasund og yfir að Halakoti. Vestar var gengið um Bieringstanga og gengið fram hjá bænum Töðugerði. Þar var tíbýli fyrir aldamótin 1900; Suður og Norðurbær. Hann lagðist í eyði rétt eftir aldamótin. Komið var við tóftir bæjarins Grund á Bieringstanga. Á tanganum var mikil útgerð áður fyrr, þar var mikil sjóbúð og salthús. Í fjörunni er letursteinn. Á honum virtist vera eitthvert fangamark hoggið þar í klöpp, ómögulegt reyndist að lesa það.

Halakot

Halakot.

Frá Bieringstanga var haldið að Vorhúsum þar var tvíbýlt; Austur og Vesturbær. Við Vorhús er fallegur brunnur. Á Klapparholti þar skammt fyrir ofan var sjóbúð.
Gengið var að Hausthúsum og rústirnar þar barðar augum og svo áfram að Hvammi. Þar hafa verið tveir brunnar. Í Djúpavogi eru hverfamörk Brunnastaðahverfis og Voga.

Komið var við að Grænuborg. Grænaborg var byggð árið 1881, húsið byggði Ari Egilsson frá Austurkoti. Þarna hafði áður verið bær er Hólakot hét, en hann brann, og eru litlar sagnir til um hann.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ.

Grænaborg hefur varla verið byggð á sama stað og Hólakot, því sagnir voru til um að á þessum stað ætti hús að brenna þrisvar. Líklega hefur Ari þekkt þessa sögu og flutt til hússtæðið og nefnd húsið Grænuborg en ekki Hólakot. Tveim árum síðar eða 1883 brann svo Grænaborg, allir komust af nema ein vinnukona er brann inni. Grænaborg var ekki byggð upp aftur fyrr en 1916 og endurbætt 1932. Þar brann svo aftur í árslok 2002.
Á Vatnsleysuströnd eru elztu hraunin. Frá Grænuborg er ágætt útsýni upp hraunin í Vogaheiði og upp Þráinskjöld. Þráinsskjaldarhraun runnu við hærri sjávarstöðu skömmu eftir síðasta kuldaskeið. Það sést á rúlluðu grjóti ca 5m ofar núverandi sjávarstöðu (9000 ára). Þráinsskjaldarhrauni, er talið hafa runnið til sjávar fyrir um 9000 árum. Byggðin á Vatnsleysustönd er eingöngu á örmjórri ræmu við ströndina að mestu í hverfum sem mynduðust við bestu lendingarnar. Hún er 15 km löng milli Hvassahrauns og Kvíguvogastapa. Líkast til er nafnið dregið af danska orðinu „vandløse”, sem þýðir lauslega lindasvæði, en mikið ferskvatn kemur upp meðfram ströndinni úr beljandi móðum undir hrauninu, þótt ekkert slíkt sé að hafa inn til landsins.

Grænaborg

Í Landnámu er getið um að Steinunn gamla hafi þegið Rosmhvalanes af frænda sínum, Ingólfi Arnarssyni, þar með alla Vatnsleysuströnd inn að Hvassahrauni. Eyvindur, frændi Steinunnar og fóstri, fékk að gjöf frá henni landið milli Kvíkuvogabjarga og Hvassahrauns. Hann bjó í Kvíguvogum, sem nú heitir í Vogum, en Kvíkuvogabjörg heita nú Vogastapi, Njarðvíkurstapi eða einungis Stapi.
Gengið var með ströndinni áleiðis í Voga. Byggðahverfið er ört vaxandi kauptún við Vogavík.

Fyrrum hétu Vogar Kvíguvogar en það nafn er nú með öllu aflagt.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar.

Í Vogum var hálfkirkja að fornu eins og á Vatnsleysu en höfuðkirkja byggðarinnar hefur ávallt verið Kálfatjörn. Mest jörð í Vogunum og hin upphaflega heimajörð sem mörg afbýli og útkot voru síðar byggð úr var Stóru-Vogar. Árið 1893 var Vogavík löggilt verslunarhöfn. Árið 1930 hóft útgerð tveggja vélbáta í eigu hreppsbúa, gerð var stöpplabryggja og fiskhús reist. Síðan hefur bæði ýmislegt orðið þar til framfara, en annað hefur farið miður, s.s. almennt viðhorf gagnvart sögu og minjum svæðisins.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ.

Gufuskálar

Brynjúlfur Jónsson segir m.a. frá Gufuskálum í Leiru í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1903 undir fyrirsögninni “Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902“:

“Gufuskálar

Gufusálar

Gufuskálar – brunnur.

Miðskálar og Útskálar eru nefndir í fornum rekaskrám Rosmhvalaness, svo og Miðskálaós og Útskálaós. Miðskálar eru einnig nefndir Miðskálagarður, sem mun eiga að merkja heimajörð með hjáleigum. Í óprentuðu riti eftir séra Sigurð B. Sivertsen á Útskálum hefi eg séð það, að bærinn á Miðskálum heiti nú í Vörum og Miðskálaós Varaós, en Útskálaós Króksós. Sr. S. B. S. getur þess til, að þessir þrennir »skálar«, svo skamt hver frá öðrum, hafi í fyrslu verið eitt land með einu nafni (Gufuskálar), en skifzt fyrst í 3 jarðir, er allar hafi haldið nafninu, en hinar yngri verið aðgreindar með afstöðuorði framanvið nafnið (Mið-Gufuskálar, Út-Gufuskálar), en svo hafi nöfnin verið stytt í framburðinum er frá leið. Þessi tilgáta gerir ráð fyrir því, að bygð á Gufuskálum hafi eigi lagzt niður, þó Ketill gufa færi þaðan, heldur hafi landeigandi þá sezt að í »skálum« hans, og er ekkert á móti því. Það gerir tilgátuna sennilegri, að samskonar tilfelli hefir átt sér stað með Arnarbæli undir Eyjafjöllum. Úr þeirri jörð hafa verið bygðar jarðirnar: Mið-Arnarbæli og Yzta-Arnarbæli, en nöfnin síðar orðið að: Miðbæli og Yztabæli. Fleiri dæmi lík þessu mun mega finna. Eg vil nú bæta þeirri tilgátu við, að Miðskálagarður hafi í fyrstu verið haft um Miðskála sem hjából, en smámsaman verið látið ná yfir alt það hverfi, sem þar myndaðist.
Nafnið hafi svo í daglegu tali verið stytt og að eins nefnt: Garðurinn.
Miðskálanafnið hafi síðan týnzt, en nafnið: »Garðurinn« haldist, og loks náð bæði yfir Miðskálahverfi (nú Inn-Garðinn) og Útskálahverfi (nú Út-Garðinn). — Rit séra Sigurðar er að mörgu fróðlegt, sem von er af
slíkum fræðimanni. Ætti Landsbókasafnið að eignast það.”

Í Faxa 1968 er grein eftir Ólaf B. Björnsson; “Þar fékk margur sigg á lófa“:

Gufuskálar

Gufuskálar – óskilgreindar tóftir ofan sjávarsíðunnar.

“Lengi fara litlar sögur a£ Leirunni, enda er hún ekki nema lítill hluti úr stórum hreppi. Þar búa fáir bændur og þar eru ekki margar góðjarðir, en þar hefur lengi þótt útræði gott. Þegar á landnámsöld koma þó við sögu Gufuskálar og Hólmur, og er líklegt, að þar hafi búið Steinunn gamla, frændkona Ingólfs landnámsmanns. Um hana eru ekki margar línur í Landnámu. Þó opna þessi fáu orð fyrir manni heilan heim um þessa konu. Hún hefur verið veraldarvön, óvenjulega hyggin og framsýn. Um hana segir svo í Landnámu:
„Steinunn (Steinunn) hin gamla, frændkona Ingólfs fór til Íslands ok var með Ingólfi inn fyrsta vetur. Hann bauð að gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun. En hún gaf honum fyrir heklu flekkótta enska og vildi kaup kalla. Henni þótti það óhættara við riftingum. Steinunni hafði átt Herlaugr bróðir Skalla-Gríms. Þeirra synir voru Njáll og Arnórr”.

Gufuskálar

Gufuskálar

Gufuskálar – óskilgreindar tóftir ofan sjávarsíðunnar.

Jörðin er þá kóngsins eign. Í landsskuld greiðir ábúandinn 10 vættir af fiski í kaupstað. Henni fylgja tvö kvígildi, og leigur af þeim verður ábúandinn einnig að gjalda með fiski, en auk þess að leggja sjálfur við til húsabóta. Einnig verður hann að yngja kúgildin upp. Enn er sú kvöð ábúandans, hann verður að lána mann á kóngsskip um vertíð.
„Heimræði er árið um kring og ganga skip ábúandans að hentugleikum. Inntökuskip eru mjög sjaldan, nema kóngsskip. Þau hafa stundum gengið eitt og það oftast, sjaldan tvö, og ekki stærri en sex manna far, og það undirgiftarlaust.
Verbúð fylgir kóngsskipunum fyrir fimm menn, henni viðheldur ábúandinn. Lending slæm um stórstraum”. Þessari jörð fylgja tvær hjáleigur.”

Í Lesbók Morgunblaðsins 1966 fjallar G.Br. um “Leiruna”:

Gufuskálar

Gufuskálar – óskilgreindar tóftir á hól.

“Gufuskálar eru landnámsjörð Ketils gufu Örlygssonar. En ekki átti það fyrir honum að liggja, eða fólki hans, að setja svip sinn á byggðina í Leirunni. Frá honum segir svo í Egilssögu:
Ketill gufa kom til Íslands, þá er land var mjög byggt. Hann var hinn fyrsta vetur að Gufuskálum á Rosmhvalanesi. Ketill hafði komið vestan um haf af Írlandi. Hann hafði með sér þræla marga írska.
Lönd voru öll byggð á Rosmhvalanesi þann tíma. Réðst Ketill því þaðan á brott og inn í Nes og sat annan vetur á Gufunesi og fékk þar engan ráðstafa. Síðan fór hann í Borgarfjörð og sat þar hinn þriðja vetur. Ketill gufa fór síðan vestur í Breiðafjörð og staðfestist í Þorskafirði.”

Í Faxa 1999 skrifar Skúli Magnússon um “Gufuskála í Leiru“:

Gufuskálar

Gufuskálar – óskilgreindar tóftir á hól.

“Í Landnámu er alþekkt sögn um Ketil gufu, sem flæktist á milli staða við Faxaflóa og á Vesturlandi, sem hafa gufu að forlið í nafni.
Ekki er ljóst hvað vakað hefur fyrir skrásetjurum Landnámabókar með sögninni. Helst virðist svo að þeir séu að reyna að skýra tilurð staðarnafnanna með þessum forlið, með manns eða auknefninu gufu. Þar af leiðandi er mjög varasamt að treysta nokkuð á sannleiksgildi sagnarinnar og eins lfklegt að Ketill gufa hafi aldrei í Leiruna stigið fæti. Raunar tengjast “katlar” eldamennsku og “gufu” en hvort í sögninni leynist um leið orðaleikur eða kímni fullyrði ég ekki um. Þó má vera að hér sé á ferðinni gamansemi Landnámu skrásetjara.

Gufuskálar

Gufuskálar – hleðslur ofan við Gufuskálavör.

Þórhallur Vilmundarson hefur, sem kunnugt er, fyrir löngu sýnt fram á, að mörg nöfn landnámsmanna, sem menn töldu að hefðu verið til, væru tilbúin, dregin af staðháttum, en staðir ekki nefndir eftir mönnum jafnmikið og talið var. Leitaði Þórhallur þar annarra skýringa, m. a. í staðháttum í náttúrufari. Ef ég man rétt taldi hann gufuforliðinn í nafninu Gufuskálum, dreginn af sjóroki og ágjöf.
Einu sinni, þegar við Ólafur frá Litla-Hólmi, vorum á ferð úti í Leiru, lögðum við leið okkar niður að Gufuskálum. Fórum við þar niður í fjöru og þar sýndi Ólafur mér hvar allvolgt eða heitt vatn vall undan klöppunum niður í fjöruna. Gat hann þess að fyrrum hefði verið þveginn eða skolaður þvottur þarna. Þó var vatnið ekki svo heitt að úr því ryki. Þetta er hins vegar á fárra vitorði og hefur ef til vill alltaf verið sökum þess, að heita vatnið er neðan flóðmarks og fer á kaf á flóði.
Gufuskálar.Þetta leiðir hugann að nafninu Gufuskálum og hvernig umhorfs var þar fyrrum. Var þar við landnám, 870-900, svo mikill hiti að úr vatninu rauk? Varð heitt vatn þarna ef til vill til þess að fommenn komu sér þar snemma upp verbúð eða viðlegu til fiskjar? Er ef til vill kjarni sannleiks í sögn Landnámu um að Steinunn gamla hafi haft þar útræði? Ekki er ólíklegt að á Gufuskálum hafi verið búið fyrr en til að mynda á Hólmi í Leiru, vegna hitans, hafi hann verið meiri á þeirri tíð.
Í öllu eldiviðarleysinu fyrrum, einkum þegar leið fram um landnám, var sírennandi heitt vatn, sem von er, almesta nauðsyn á köldum vetrum, ekki síst í verstöð þar sem kaldir og hraktir menn tóku oft lendingu.
Aldrei hefur það verið kannað, svo ég viti, hvort og hve mikið af heitu vatni mætti finna á Gufuskálum. Ef til vill gæfi slík rannsókn einhverja vísbendingu um hvernig ástand þar var í vatnsmálum við upphaf landnáms. – Skúli Magnússon.”

Í Faxa 1979 segir Njáll Benediktsson frá “Sögnum af Suðurnesjum“, nýútkominni bók Guðmundar Á. Finnbogasonar:

Gufuskálar

Gufuskálar – tóftir ofan við Gufuskálavörina.

“Sagnir af Suðurnesjum heitir ný bók eftir Guðmund Á. Finnbogason frá Hvoli í Innri-Njarðvík. Kom hún út fyrir síðustu jól, útg. er Setberg.
Guðmundur rifjar upp gamlar minningar um menn og málefni sem eru kryddaðar notalegri kímni. Það verður enginn svikinn af þessari bók, enda finnst í henni mikill fróðleikur og grunur minn er margir bíði með eftirvæntingu eftir meiru frá Guðmundi og má hann ekki gleyma kviðlingum.
Guðmundur segir í bók sinni m.a. frá Símoni Sigurðssyni og Þórdísi Ófeigsdóttur, konu hans, sem bjuggu í Kóngsgerði í Leiru 1860. Guðmundur yrkir um Símon:

Lítið oft þó léti í maga
lundu glaða Símon bar.
Fátæktina festi á snaga
fór að semja skrítlurnar.
Hafinn yfir heimsins gengi
hungur basl og mæðustand.
Grannur sló á gamans strengi
gullu hljómarvítt um land.
Það er besti auður öllum
andanns gull sem verða kann.
Mikið ofar matardöllum
marga gleði Símon fann.

Með þessum vísum lýsir Guðmundur Símoni best.

Gufuskálar

Gufuskálar – Hausthús.

Þegar ég var að vaxa úr grasi í Garðinum heyrði ég marga brandara hafða eftir Símoni og lifa þeir enn á vörum manna. Skulu nokkrir þeirra sagðir hér eins og ég man þá best.
Árið 1860 búa í Kóngsgerði í Leiru Símon Sigurðsson, 34 ára ættaður úr Sigluvíkursókn og kona hans Þórdís Ófeigsdóttir, 31 árs, ættuð úr Njarðvíkursókn. Eitt barn var hjá þeim þá, Sigurður 3 ára.
Árið 1860 er kaupmaður í Keflavík sem hét Pétur Duus, 65 ára. Símon átti oft erindi í verslun Duus enda líka byttan þar á stokkum en Símoni þótti sopinn góður. Símon þótti orðheppinn og fljótur til svara og margir brandarar eftir honum hafðir sem flestir eru gleymdir, þó skal rifja upp nokkra: Kóngsgerði var talið til tómthúsa en þó mun hafa verið þar smá túnblettur.

Gufuskálar

Gufuskálar – Vesturkot.

Eitt sumar voru þau hjón að taka saman heytugguna vildi Símon leggja lítið undir sátuna til þess að fá hana sem hæsta. Svo kom að því að Símon náði í stiga og rétti Þórdís honum heytugguna. Þegar allt heyið var svo komið í sátuna fer Símon upp á hana og kallar: „Er logn á jörðu Þórdís mín”. Með þessu vildi Símon láta það út ganga að í Kóngsgerði væru há hey.
Eitt vor var Símon að þurrka vertíðarfiskinn sinn á klöppunum fyrir neðan Kóngsgerði. Staflaði hann fiskinum í stakk rétt fyrir ofan flóðfarið en um nóttina gerði austan strekkings vind með nokkrum sjógangi og fór allur staflinn í sjóinn. Morguninn eftir kemur nágranni Símonar á gluggann til hans og segir að allur fiskurinn sé kominn í sjóinn en Símon rís upp með hægð og segir: „Hann átti með það blessaður sjórinn, hann var úr honum hvort sem var”, og Símon lagði sig til svefns aftur. – Njáll Benediktsson.”

Í Faxa 1991 fjallar Njáll benediktsson um “Mannlíf í Leiru“:

“Nú höldum við í norður og komum í Gufuskálaland, það var kallað Út-Leira.

Gufuskálar

Gufuskálar – Vesturkot.

Við komum í Gufuskála, þar býr Eyjólfur Eyjólfsson húsbóndi 51 árs, Sigrún Halldórsdóttir kona hans 47 ára, Halldóra Eyjólfsdóttir dóttir þeirra 16 ára, Björn Eyjólfsson sonur þeirra 12 ára, Ingibjörg Eyjdlfsddttir dóttir þeirra 5 ára, Sigrún Oddleif Eyjólfsdóttir dóttir þeirra 3 ára, Guðjón Jónsson hjú þeirra 27 ára, Sigurður Guðmundsson hjú 65 ára, Elfn Magnúsdóttir hjú þeirra 55 ára, Eyjólfur Eyjólfsson sonur hjónanna 13 ára. Þá er haldið í norðvestur og komið að Vesturkoti, þar býr Eggert Einarsson húsbóndi og sjómaður 56 ára, Þóra Þorsteinsdóttir kona hans 63 ára, Þorsteinn Eggertsson sonur þeirra 33 ára, Björn Eggertsson sonur þeirra 30 ára, Þorgerður Eggertsdóttir dóttir hjónanna 22 ára, Jón Jónsson leigjandi, sjómaður 64 ára, Eiríkur Þorsteinsson sjómaður 59 ára, Guðmundur Guðmundsson sjómaður 39 ára. Nú höldum við niður að sjó, þar stóð Hausthús, fallegur bær með blóm í haga. Þar býr Jósep Oddsson húsbóndi og sjómaður 46 ára, Gróa Jónsdóttir kona hans 33 ára, Jósepína Jósepsdóttir dóttir hans 11 ára, Jónína Halldóra Jósepsdóttir dóttir þeirra 7 ára, Ólafur Jósepsson sonur þeirra 3 ára, Oddný Jósepsdóttir dóttir þeirra 1 árs. Fyrir vestan Hausthús er Kóngsgerði, þar býr Þórarinn Eyjólfsson húsbóndi 39 ára, Sigríður Arnadóttir kona hans 43 ára, Ingibjörg Þórarinsdóttir dóttir hans 11 ára, Guðrún Þórarinsdóttir dóttir hans 10 ára, Guðbjörn Þórarinsson sonur þeirra 8 ára, Katrín Árnea Þórarinsdóttir dóttir þeirra 6 ára, Eyjólfur Þórarinsson sonur þeirra 4 ára, Helgi Þórarinsson sonur þeirra 1 árs. Þá höfum við gengið Leiruna á enda.”

Í Lesbók Morgunblaðsins, Jólalesbók 1984, segir Guðmundur Á. Finnbogason frá “Leirunni“:

Gufuskálar

Gufuskálar – lindin.

“Landnám Steinunnar gömluLeiran var á landnámsöld einn þeirra staða við sunnanverðan Faxaflóa, sem Ingólfur landnámsmaður Arnarson skenkti Steinunni gömlu frænku sinni. Hún hafði átt Herlaug bróður Skalla-Gríms, sem land nam á Mýrum og hún bjó í Leiru, þar sem hét Hólmur og síðar Stóri-Hólmur eða Stokkhólmur. Síðan fer engum sögum af búskap í Leiru þar til 1703, að manntalið fór fram, en þá voru 4 býli í Leiru og íbúar samtals 51.”

Í ferð FERLIRs um Gufuskála nýlega komu í ljós nánast jarðlægar tóftir, auk tóftir nafngreindra bæja, á a.m.k. tveimur stöðum, en hvorugra er getið í örnefnalýsingum. Annað tóftarsvæðið er skammt ofan varanna og hitt á grónum hól miðja vegu ofarlega. Þar eru augljós merki skála. Skammt vestar er greinilega forn vatnslind, umhlaðin.

Heimildir:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 01.01.1903, Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902, Brynjúlfur Jónsson, bls. 35.
-Faxi, 9. tbl. 01.11.1968, Þar fékk margur sigg á lófa, Ólafur B. Björnsson, bls. 166.
-Lesbók Morgunblaðsins, 40. tbl. 12.11.1966, Leiran, G.Br. bls. 14.
-Faxi, 3. tbl. 01.10.1999, Gufuskálar í Leiru, Skúli Magnússon, bls. 63.
-Faxi, 2. tbl. 01.05.1979, Sagnir af Suðurnesjum, Njáll Benediktsson, bls. 22.
-Faxi, 4. tbl. 01.06.1991, Mannlíf í Leiru, Njáll Benediktsson, bls. 128.
-Lesbók Morgunblaðsins, 34. tbl. Jólalesbók 22. 12. 1984, Leiran, Guðmundur A. Finnbogason, bls. 33.

Gufuskálar

Gufuskálar – Kóngsgerði.

Leiran

Í Lesbók Jólalesbókar Morgunblaðsins 1984 segir Guðmundur A. Finnbogason frá Leirunni:

Morgunblaðið

Jólalesbók Morgunblaðsins árið 1984.

“Sjávarpláss á Suðurnesjum, sem eitt sinn slagaði uppí Keflavík — þyrping fátæklegra býla með ofurlitlar grasnytjar, en lífsbjörgin kom umfram allt úr sjónum. Nú býr þar enginn, — bærinn á Stórhólmi stendur einn eftir, en þotur koma í lágflug inn yfir þessa grænu vin, þar sem Suðurnesjamenn koma nú saman í frístundum til að leika golf.
Þegar nútímafólk ekur veginn úr Keflavík og vestur í Garð eða útá Garðskaga blasir Leiran við á hægri hönd. Hér var áður fyrr sjávarpláss með útræði og mörgum smábýlum, sem stóðu á undirlendinu, sem verður þarna. Nú er fátt til minja um þá hörðu lífsbaráttu, sem þar var lifað. Engin kot standa þar lengur; ekki heldur bátar í vörum, en þess í stað má sjá vel búna kylfinga leika kúlum sínum fram og aftur um golfvöllinn, sem Keflvíkingar hafa lagt og ræktað með miklum glæsibrag í Leirunni. Þetta er tímanna tákn. Þar fyrir er óþarft að gleymist, að í sumum af þessum lágu kotum, sem nú sést ekkert eftir af, uxu dugandi menn úr grasi: Tryggvi Ófeigsson útgerðarmaður til dæmis og bræður hans. Menn komu þangað langt að fótgangandi til sjóróðra og fátæktin var fylginautur þeirra sem kusu sér búsetu þar.
Sjaldan er logn í Leiru — og þegar hann blæs að norðan, hellast brimskaflarnir uppá klappirnar og inní vörina og sýna hvað lendingin gat verið varasöm. Um miðja síðustu öld voru meira en 100 manns, sem töldust eiga heimili í Leiru og kotin stóðu engan veginn öll á graslendinu hjá Stóra-Hólmi, heldur á víð og dreif um grýtta fláka, sem verða vestur af Leirunni og standa tóftirnar eftir. Af lífsbaráttunni þar fara litlar sögur.

Landnám Steinunnar gömlu
Leiran
Leiran var á landnámsöld einn þeirra staða við sunnanverðan Faxaflóa, sem Ingólfur landnámsmaður Arnarson skenkti Steinunni gömlu frænku sinni. Hún hafði átt Herlaug bróður Skalla-Gríms, sem land nam á Mýrum og hún bjó í Leiru, þar sem hét Hólmur og síðar Stóri-Hólmur eða Stokkhólmur. Síðan fer engum sógum af búskap í Leiru þar til 1703, að manntalið fór fram, en þá voru 4 býli í Leiru og íbúar samtals 51. Á Stóra-Hólmi tóldust 23 til heimilis; þar af fern hjón í húsmennsku. Á Litla-Hólmi voru 6 manns í heimili, sjö í Hrúðunesi og 15 á Gufuskálum. Í bændatali á Suðurnesjum 1735 eru skráðir 6 bændur í Leiru, en 13 býli voru þar árið 1801 og íbúarnir 74. Eitthvað hefur árferðið í Leiru ekki verið sem best á fyrriparti síðustu aldar, því býlum fór fækkandi og voru aðeins 6 eftir í byggð árið 1836. Þá brá svo við, að nýtt líf færðist í plássið; býlin urðu 12 og íbúarnir 82. Þessi býli voru í byggð: Hrúðunes (heimajörð), Melbær (tómthús), Stóri-Hólmur (heimajörð), Ráðagerði, Garðhús, Kötluhóll, Nýlenda, Bakkakot og Litli-Hólmur, er öll voru hjáleigur frá Stóra-Hólmi, Gufuskálar (heimajörð) og Vestur-kot, hjáleiga frá Gufuskálum.
Stóri-Hómlur
Fjölmennasta heimilið var sem áður Stóri-Hólmur. Tíu árum síðar hafði íbúum í Leirunni fjölgað og voru þeir nú orðnir 103 og nú voru bæjarnöfnin orðin 13 og tvö þeirra ný, Krossabrekka skammt frá Nýlendu og Kóngsgerði skammt frá Gufuskálum.
Næstu árin stendur íbúatalan í Leirunni næstum í stað frá því sem hún var 1845. Voru tveir búendur á sumum býlunum og enn var mannflest á Stóra-Hólmi.
Árið 1855 voru Keflavíkurbúar 153 að tölu og höfðu þá 47 manns yfir Leirubúa. Upp frá því fer Keflvíkingum fækkandi en Leirubúum fjölgandi. Árið 1870 eru Keflvíkingar 130 en Leirumenn 138 og þá voru bændabýlin í Leirunni 16 að tölu frá Hólmsbergi talið út Leiruna.
Á Hólmsbergi (Leirubergi) hafa með vissu 15 manns orðið úti á tímabilinu 1785 til 1894, í allflestum tilfellum karlmenn, sem voru á ferð frá Keflavík út í Leiru eða Garð að kvöld- eða næturlagi, oft í vondum veðrum og margir undir áhrifum áfengis.
Þegar ég var unglingur heyrði ég um það talað að reimt væri í Berginu og eitthvað hefur hinn landsþekkti Símon Dalaskáld vitað um draugana á Hólmsbergi, eða Leirubergi er hann nefnir svo. Bendir eftirfarandi vísa hans til þess.
Þó að æði eldingar
og ramskæðir smádjöflar
ég mun hræðast ekki þar
úti á svæði Leirunnar.

Nær allir áttu fleytur
Leiran
Leiran var á sínu blómaskeiði eitt af allra bestu fiskiþorpum við sunnanverðan Faxaflóa. Þaðan var róið sem víða annars staðar svo til árið um kring. Vetrarvertiðirnar voru þó almesti sjósóknartíminn og oftast allra besti fiskitíminn.
Úr Leirunni var oft á tíðum hægt að sækja til fiskjar á bæði borð, þegar frá landi var á flot komið og þá ekki síður mátti sækja fram af landsteinunum út í Leirusjóinn, sem einatt var gjöfull þegar netafiskur gekk inn á grunnmiðin á vetrarvertíðum frá mars til maí. Eins gátu Leirumenn sótt innar í Flóann, inn á Njarðvíkurleir og Njarðvíkurbrúnir, inn undir Stapa, Voga og Strandarbrúnir. Var það helst þegar fiskur var genginn hjá í Leirusjó og lagstur þar inn á leir og brúnum. Svo var það Garðsjórinn, hinn næstum því ótæmandi aflasjóður (áður en erlendu togararnir komu), er einatt mátti leita til jafnt vetur, sumar, vor og haust.
Leiran
Hann hafði oftast eitthvað gott að gefa bótt misjafnt væri að magni. Voru gæðin einatt þau sömu, glæný ýsa, koli, lúða, steinbítur og svo framvegis.
Á árabilinu 1631 til 1910 hafa svo vitað sé 14 skip og bátar farist er gengu úr Leirunni. Á þessum fleytum fórust 68 menn, þar af tvær konur. 23 menn fórust á þessu tímabili af Gufuskálaskipunum, 15 af Litla-Hólmsskipunum og 8 af Stóra-Hólmsskipunum en færri af öðrum. Leirubændur og hjáleigumenn áttu nær allir árafleytur til sjósóknar — þó ekki allir vertíðarskip. Voru þeir er smærri fleyturnar áttu þá vetrarvertíðarsjómenn á stærri skipunum. Einstöku réru þó árið um kring á sínum bátum, 2—4 manna förum.
Innnesingar voru þeir nefndir er komu suður í Leiru í byrjun vetrarvertíðar með skipshafnir sínar til að róa þaðan. Það mun hafa verið á síðustu tugum sl. aldar, að stærri útvegsskip af Álftanesi og Seltjarnarnesi fóru að heiman suður í Leiru. Þar var oft á tíðum meiri aflavon og styttra að sækja á fiskimiðin. Þessir bændur áttu sín fiskibyrgi og sumir verbúðir í Leirunni (ef verbúðir skyldi kalla). Sumir hverjir fengu inni með sig og sína skipshöfn á bæjunum þar í Leirunni. Meðal þeirra er hýstu Innnesinga á vetrarvertíð voru hjónin í Ráðagerði, þau Gísli Halldórsson og Elsa Dórothea Jónsdóttir, foreldrar hins landsþekkta hagyrðings Ísleifs Gíslasonar, kaupmanns á Sauðárkróki.

Sofið á þangi milli rúmanna
Leiran
Dóróthea Gísladóttir, dóttir þeirra hjóna, sem fæddist í Ráðagerði 1886 og ólst þar upp, varð háöldruð kona, dó á miðjum tíræðisaldri, gáfuð og minnug. Hún sagði mér að þegar hún var telpa í foreldrahúsum hefði skipshöfn af Innnesjum haft viðlegu á heimili foreldra hennar í Ráðagerði. Þar svaf heimilisfólkið í baðstofu í rúmum sitt til hvorrar handar en dálítið gangpláss á milli rúmanna. Á því gangplássi- fékk aðkomuskipshöfnin svefnpláss. Ekki var um annað pláss að ræða á þeim bæ. Þang var látið á gólfið á milli rúmanna. Sváfu sjómennirnir á þanginu en höfðu teppi eða brekán ofan á sér. Á daginn var svo þanginu ýtt með fótunum undir rúmin — tekið svo fram að nýju á kvöldin.
Stóra-Hólmsbændur fengu oft góða hrognkelsaveiði í Hólmósnum. Þar fékkst og síld í lagnet. Allur reki undir Hólmsberginu tilheyrði Stóra-Hólmi. Var Helguvík besti rekastaðurinn. Rak þar oft mikið á stríðsárunum og lengur. Fuglatekja var og nokkur í berginu — mest svartfugl.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.

Árið 1930 voru aðeins 5 bændabýli eftir í Leirunni í byggð, en það voru: Bakkakot, Litli-Hólmur, Stóri-Hólmur, Lindarbær og Vesturkot og íbúarnir alls ekki nema 33. Síðan fór býlunum enn fækkandi þar til eftir var orðið aðeins eitt. Var það hið forna býli Stóri-Hólmur er þar stóð enn í byggð 1960.
Síðasti bóndinn í Leirunni bjó á Stóra-Hólmi sem og hinn fyrsti. Aldir, ár og dagar voru á milli Steinunnar gömlu sem fyrst var ábúandi og Kjartans Bjarnasonar sem var þeirra síðastur og margt hafði gerst í Leirunni á því tímabili, bæði til sjós og lands og aldrei fékk hún Steinunn að fylgjast með golfmóti á heimatúninu sínu.
Kjartan Bjarnason síðasti bóndinn á Stóra-Hólmi er Dýrfirðingur að ætt og er nú 86 ára að aldri. Hann og kona hans tóku við búskap á jörðinni 1936 og bjuggu góðu búi í röska tvo áratugi.
Í dag eiga tveir synir Kjartans heima á Stóra-Hólmi en hafa engan búskap þar.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 34. tbl. Jólalesbók 22.12.1984, Leiran, Guðmundur A. Finnbogason, bls. 33-34.
Leiran

Leira

Njáll Benediktsson skrifar um “Fyrsta íbúann á Suðurnesjum” í Faxa árið 1989:

Steinunn gamla

Skáli.

“Það er haft fyrir satt, að Steinunn gamla frændkona Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns hafi verið fyrsti íbúi á Suðurnesjum. Ingólfur nam land í Reykjavík árið 874. Ingólfur helgaði sér allt land norðan vatna. Ingólfur vildi gefa Steinunni gömlu frændkonu sinni allt land frá Hvassahrauni og suður, norðan megin við Faxaflóa, en Steinunn vildi heldur gera við Ingólf kaup. Taldi slíkt haldbetra er fram liði og borgaði skagann með hlut, sem „flekka” var nefnd. Enginn veit með vissu hvað þessi hlutur var. Kannski var þetta vaðmálsflík eða prjónaflík? Það má geta þess að formenn notuð höfuðfat, sem náði yfir allt höfuðið og niður á herðar. Það voru aðeins göt fyrir augu, nef og munn. Þetta var kallað „flekka”. Svo breyttust þessar höfuöflíkur og allt andlitið kom fram, þá var farið að kalla þessar höfuðflíkur hettur og síðar lambhúshettur. Steinunn gamla mun hafa byggt sér skála á Steinum í Leiru, sem síðar hét Hólmur og enn síðar Stóri-Hólmur.

Steinunn gamla

Steinunn gamla.

Steinunn gamla var dugmikil kona. Hún hafði fyrstu verstöð við Faxaflóa. Að vísu var hún búin að leyfa Katli gufu Örlaugssyni að byggja skála að Gufuskálum í Leiru og hafði hann þaðan útræði í tvo vetur.
Steinunn gamla vildi koma Katli gufu í burtu og fékk Ingólf frænda sinn í lið með sér. Fór þá Ketill inn í Gufunes við Reykjavík og síðar upp í Gufudal. Sennilega hafði Ketill gufa Örlygsson útræði á Gufuskálum á Snæfellsnesi. En Steinunn gamla hélt sinni verstöð við Faxaflóa.
Steinunn gamla var gift kona, þegar hún kom til íslands. Maður hennar hét Herlaugur Kveldúlfsson. Hann var bróðir Skallagríms Kveldúlfssonar. Herlaugur kom aldrei til íslands. Hann fórst í víking við England, eins og það var kallað.
Steinar í Leiru
Herlaugur og Steinunn gamla áttu tvo syni, sem vitað er um, annar hét Arnór og hinn hét Njáll. Sennilega hafa þessir bræður komið til Íslands þó ekki sé hægt að finna hvar þeir bjuggu. Það er eins og það vanti heila öld á spjöld sögunnar, frá 930-1030. Það er eins og eldgos hafi geisað á þessari öld á Suðurnesjum, sem valdið hafi mengun og mannflótta þaðan. Ég hefi verið að velta því fyrir mér hvort það gæti staðist, að Njáll Herlaugsson hafi getað átt son á Íslandi, sem skírður var Þorgeir og þessi Þorgeir hafi svo átt son, sem skírður var Njáll og þar sé kominn Njáll Þorgeirsson fyrrum bóndi að Bergþórshvoli í Landeyjum. Með vissu vitum við það, að Njáll bóndi á Bergþórshvoli var fæddur árið 935. Hann kafnaði inni í brunanum á Bergþórshvoli árið 1010, þá 75 ára gamall. Njáll var oft ráðagóður. Hann ætlaði að bjarga sér og Bergþóru konu sinni og breiddi yfir þau skinnhúðir. Ætlaði að verja þau fyrir hita á meðan bærinn brann. En þar feilaði Njáli. Það vantaði loft undir húðirnar, þess vegna fór sem fór.

Leiran

Kannski er nú allt þetta draumarugl, sem ekki hefur við nein rök að styðjast.
Eitt er víst, Suðurnesjamenn góðir, að það er kominn tími til þess, að reisa Steinunni gömlu minnisvarða og staðsetja hann á klöppunum fyrir ofan Steina í Leiru. Gerðahreppur á býlið Steina. Það ætti að vera auðvelt aö fá lóð undir styttuna. Nú á þessu ári 1989 ættu Njarðvíkurbær, Keflavíkurbær og Gerðahreppur að sameinast um að reisa Steinunni gömlu minnisvarða.” – Garði 20. apríl 1989; Njáll Benediktsson.

Heimild:
-Faxi, 4. tbl. 01.04.1989, Fyrsti íbúi á Suðurnesjum, Náll Benediktsson, bls. 120-121.

Faxi, 10. tbl. 01.12.1967, Skipstrand í Höfnum fyrir 85 árum – Rabbað við Friðrik Gunnlaugsson, 95 ára sækempu, bls. 156-163.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.