Tag Archive for: stekkur

Garðahverfi

Í Archaeologia Islandica 1998 spyr Orri Vésteinsson m.a. um „Hvað er stekkjarvegur langur?„:

Arc 1998

Archaeologina Islandica 1998 – forsíða.

„Allt frá því fyrir 1980 hefur töluverð umræða verið um það meðal fornleifafræðinga og safnamanna að nauðsynlegt sé að gera gangskör að því að skrá fornleifar á Íslandi. Skráningin snýst fyrst og fremst um að þær upplýsingar sem safnað er hafi eitthvert áþreifanlegt gildi fyrir stærri hóp en þann sem hefur atvinnu af því að láta sér annt um menningarminjar. Í þessari grein verður fjallað um hvernig fornleifaskráning getur komið að gagni við rannsóknir á menningarsögu, en einnig verður gerð grein fyrir helstu markmiðum fornleifaskráningar og fjallað um hvernig skráningunni þarf að vera háttað til að þær upplýsingar sem safnað er nýtist til fulls.
Tryggja þarf að skráningargögnin komi að sem mestu gagni. Í því sambandi verður að hafa í huga hverjir munu nota gögnin og í hvaða tilgangi — en þar fyrir utan er fyrirsjáanlegt að stórt gagnasafn um minjastaði verður mjög fljótlega frábært rannsóknargagn fyrir byggða- og menningarsögu.

Orri Vésteinsson

Orri Vésteinsson, fornleifafræðingur.

Það eru ekki bara fornleifafræðingar sem geta þurft að kynna sér gögn um staðsetningu, gerð og ástand minjastaða. Skráningargögn þurfa að vera aðgengileg og skiljanleg öllum sem hafa áhuga á menningarsögu, bæði fræðimönnum úr öðrum vísindagreinum og fróðleiksfúsum almenningi.
Allir sem koma nálægt skipulagsgerð eða annarri áætlanagerð um framkvæmdir sem og þeir sem að framkvæmdum standa þurfa einnig að geta fengið nákvæmar upplýsingar um staðsetningu minjastaða. Þetta þýðir að skráningarmenn geta ekki látið eftir sér að skrá eingöngu eftir sínu eigin höfði og áhugamálum ef þeir vilja að upplýsingarnar sem þeir safna komi að fullum notum fyrir verndun minjastaða.

Gamlasel

Gamlasel frá Villingavatni efst í Gamlaselsgili – stekkurinn t.h. Við sérhverja fjarlæga selstöðu bæja var óhjákvæmilega stekkur. Auk hans má í sérhverju seli á Reykjanesskaganum (þrjú rými; baðstofu, búr og eldhús) finna vatnsstæði (á eða læk), selsvörðu og/eða kví, auk nátthaga og oftlega smalaskjóls.

Það er list að lýsa landslagi og leiðum á svo skýran hátt að ókunnugir sjái fyrir sér staðhætti og geti ratað á þá staði sem verið er að fjalla um. Slíku listfengi er hins vegar sóað á hinn ört vaxandi hóp hönnuða og annars tæknimenntaðs fólks sem mestu ræður núorðið um mannvirkjagerð og jarðrask í landinu. Slíkt fólk kýs yfirleitt frekar að nálgast upplýsingar af þessu tagi á stafrænu eða myndrænu formi og það er því mikilvægt að gögnum um staðsetningu minjastaða sé einnig safnað á þann hátt. Þar á ég bæði við kort með nákvæmum tilvísunum og eins hnit sem auðvelt er að varpa yfir í staðbundin hnitakerfi.
Samkvæmt 18. gr. þjóðminjalaga er skylt að fornleifaskráning fari fram á skipulagsskyldum svæðum áður en gengið er frá skipulagi eða endurskoðun þess. Skráning fornleifa er því liður í að framfylgja þjóðminjalögum. Það er ekki skýrt í lögunum hversvegna löggjafinn vill að til sé skrá um fornleifar, en það er hins vegar augljóst að þekking á staðsetningu, gerð og ástandi minjastaða er forsenda þess að hægt sé að vernda fornleifar í landinu.

Selsvellir

Selsstígurinn að Selsvöllum.

Skilvirk minjavarsla hlýtur að vera meginmarkmið fornleifaskráningar. Það er ekki hægt að vernda minjastaði nema við vitum að þeir séu til og hvar þeir eru. Það er heldur ekki hægt að gera áætlanir um minjavörslu nema fyrir liggi þekking á fjölda, ástandi og gerð minjastaða. Þegar þekkingin liggur ekki fyrir eru slíkar ákvarðanir skot út í loftið og ávallt tekin sú áhætta að verið sé að eyðileggja minjastaði sem hafa varðveislugildi. Taka má sem dæmi að standi til að leggja veg yfir stekkjartóft þá væri auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu að ekki væri stór skaði skeður þó hún viki. Nóg sé af stekkjunum um land allt og langt þangað til þeir verði allir upp urnir.
Það er alveg rétt og við mætti bæta að stekkir hafi tæplega mikið rannsóknargildi – við vitum vel til hvers þeir voru notaðir og erfitt að sjá hvernig hægt er að flækja það mál að ráði. Það hefur hins vegar komið í ljós við fornleifaskráningar að þar sem stekkir eru mjög fjölbreytilegir að gerð, bæði er lögun þeirra með ýmsu móti og stærðin mismunandi. Það er ekki skýrt af hverju þessi munur stafar og bændur þeir sem rætt hefur verið við hafa yfirleitt lýst yfir undrun sinni á að stekkir skuli ekki allir vera eins og stekkurinn þeirra.

Hvassahraun

Hvassahraunsstekkur II – uppdráttur ÓSÁ.

Þangað til við komumst að því af hverju hin fjölbreytilega gerðfræði stekkja stafar og þangað til við vitum hversu margir fulltrúar eru til fyrir hverja gerð tökum við þá áhættu að mikilsverðar heimildir um menningarsögu okkar glatist í hvert skipti sem við leyfum stekkjartóft að hverfa undir veg eða sumarbústað.
Það kann einhverjum að finnast hálfhlægilegt að hafa áhyggjur af málum sem þessu þar sem minjavarsla á Íslandi er langt frá því að vera í stakk búin til að vernda einstaka stekki hvað þá meira. Kerfið er svo ófullkomið að það kemur einfaldlega ekki til þess að taka þurfi illa ígrundaðar ákvarðanir — eftirlitið er ekkert og eyðilegging fornleifa heldur áfram eftir sem áður. Ef
eitthvað hefur dregið úr eyðileggingu minjastaða síðustu árin er það vegna samdráttar í landbúnaði en ekki efldrar minjavörslu.

Heimristekkur

Heimristekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Við hljótum hins vegar að stefna að markvissari verndun fornleifa á Íslandi og við skráningu fornleifa er því nauðsynlegt að taka mið af hugsanlegum þörfum skilvirkari minjavörslu jafnvel þó að langt sé í að hún verði að veruleika. Það má einnig færa rök fyrir því að fornleifaskráning sé ekki einungis forsenda minjavörslu, með því að safna upplýsingum um fornleifar og vera þannig tæki í höndum þeirra sem vernda vilja minjastaði, heldur sé hún bein minjavernd.
Bændur eru auðvitað sú þjóðfélagsstétt sem stendur fyrir hvað stórfelldastri eyðileggingu menningarminja, en það er yfirleitt ekki af illgirni eða fautaskap, heldur einfaldlega af því að þeim hefur ekki verið leitt fyrir sjónir að öðru fólki finnist tóftabrot og rústabungur í landi þeirra merkilegar. Þegar það hefur einu sinni verið gert eru þeir langoftast reiðubúnir til að taka tillit til minjanna og verða oft á tíðum mjög áhugasamir um varðveislu þeirra.

Borgarkotsstekkur

Borgarkotsstekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Á þennan hátt eflir fornleifaskráning meðvitund um fornleifar en það er auðvitað langódýrast og einfaldast ef hægt er að byggja minjavörslu á áhuga heimamanna. Það er jafnframt eðlilegast því minjarnar hafa eða ættu að hafa mest gildi fyrir þá sem næst þeim búa.
Við höfum ekki hugmynd um hversu mikið af fornleifum verður uppblæstri að bráð á ári hverju, né höfum við forsendur til að meta hversu skaðvænleg áhrif stóraukin skógrækt í landinu hefur á fornleifar. Ef við ætlum einhvern tíma að geta spornað gegn eyðileggingu fornleifa hvort heldur sem er af völdum náttúruafla eða af mannavöldum verðum við að hafa aðgang að upplýsingum um umfang eyðileggingarinnar.

Fossárrétt

Fossárrétt 2011 (friðuð). Fornleifarnar hafa hins vegar verið klæddar skógi.

Það er hæpinn málstaður á Íslandi í dag að berjast gegn skógrækt en ef við hefðum í höndum tölulegar upplýsingar um hversu margir minjastaðir væru í hættu vegna trjáræktar þá ættum við mun auðveldara með að fá skógræktarfólk til taka mark á sjónarmiðum minjavörslu.
Ekki er hægt að rannsaka minjastað eða kynna hann fyrir ferðamönnum eftir að búið er að setja jarðýtur á hann. Það hjálpast hins vegar allt að í þessu máli, því að efld meðvitund um fornleifar, hvort heldur sem er með heimsóknum fornleifaskrásetjara, markvissri kynningu eða rannsóknum, mun skila sér í bættri varðveislu minjastaða.

Baðsvellir

Baðsvallasel í miðjum Selskógi.

Kynning á fornleifum er siðferðileg skylda okkar sem erum svo lánsöm að mega hlaupa um holt og móa í leit að minjastöðum; okkur ber að gera þau gögn sem við söfnum aðgengileg fyrir almenning og það stendur einnig upp á okkur að setja skráningarupplýsingarnar í menningarsögulegt samhengi svo að þær komi að sem mestum notum fyrir sem flesta. Sem mögulegir áningarstaðir ferðamanna hafa minja staðir einnig efnahagslegt gildi en skipuleg og yfirgripsmikil skráningarvinna er forsenda þess að hægt sé að velja úr heppilega minjastaði sem eru bæði áhugaverðir og þola ágang.

Húshólmi

Húshólmi – forn skáli.

Saga landsins og menningararfur er í síauknum mæli notuð sem söluvara fyrir erlenda ferðamenn og oft á tíðum er sú markaðssetning meira af vilja en mætti og stundum afar óvönduð. Ferðamálafrömuðum er tæplega neinn akkur í að kynna fortíð landsins eða ákveðinna staða á þann ófullkomna hátt sem oft er raunin, en þeir munu halda áfram á þeirri braut uns vandaðri upplýsingar eru gerðar aðgengilegar. Léleg og óvönduð landkynning er á góðri leið með að verða vandamál sem dregið gæti úr tekjum Íslendinga af erlendum ferðamönnum, en ein af leiðunum til að hamla gegn slíkri þróun er að auka upplýsingasöfnun og þar með talið fornleifaskráningu.

Krýsuvíkursel

Tóftir Krýsuvíkursels austan Selöldu.

Skipuleg gagnasöfnun eins og fornleifaskráning er auðvitað forsenda þess að hægt verði að stunda ýmiskonar rannsóknir. Heildstætt gagnasafn um minjastaði auðveldar mjög starf fornleifafræðinga þegar kemur að því að finna staði sem áhugaverðir væru til að rannsaka nánar. t.d. með uppgrefti.
Mikilvægt er að skipuleggja fornleifaskráningu þannig að gögnin nýtist öllum sem best og komi að fullum notum hvort sem er við verndun, kynningu eða rannsóknir. Engin fornleifaskráning er fullkomin en ef stefnumörkun er skýr og aðferðafræðin liggur ljós fyrir á skráningarvinnan að verða markvissari og leiðréttingar auðveldari.

Bleiksteinsháls

Landamerkjavarða á Bleiksteinshálsi. Hefur nú (2024) verið eyðilögð.

Hefðbundin fornleifaskráning hefur fyrst og fremst miðað að því að skrá minjastaði sem sýnilegir eru á yfirborði. Þar hefur líklega ráðið mestu um að það er auðvitað nærtækast og jafnframt að sýnilegir minjastaðir eru augljóslega meira spennandi við fyrstu sýn en minjastaðir sem búið er að slétta yfir eða byggja á.

Það er hins vegar ljóst að mannvirkjaleifar sem sýnilegar eru á yfirborði eru aðeins brot af öllum þeim fornleifum sem til eru í landinu og jafnframt að slíkir staðir eru næsta tilviljanakennt úrtak af öllum minjastöðum. Á þessari öld hafa átt sér stað gríðarlegar framkvæmdir í landbúnaði og stór hluti láglendis hefur verið ræstur fram og sléttaður undir tún.

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum – nú horfið vegna framkvæmda.

Á milli 1940 og 1980 voru svo til öll tún á Íslandi gerð véltæk og stór landflæmi sem áður höfðu verið móar og mýrar brotin undir tún, en á milli 1917 og 1990 hafa tún að jafnaði meira en tífaldast að stærð. Þessar miklu framkvæmdir og breytingar á landslagi hafa haft í för með sér að stór hluti fornra mannvirkja hefur annað hvort farið forgörðum eða spillst. Þær fornleifar sem verst hafa orðið úti eru einmitt þær sem mest var til af áður — það er bæjarhólar og útihús innantúns. Það leiðir af þessu að flestar þær fornleifar, sem enn eru sýnilegar, eru leifar mannvirkja sem voru í jaðri atvinnu- og efnahagslífs í gamla landbúnaðarsamfélaginu.

Leynir

Byrgi í Leyni. Nú horfið undir framkvæmdir.

Allar mannvistarleifar njóta lagaverndar og gildir þar einu hvort þær eru sýnilegar á yfirborði eða ekki og því er jafnmikilvægt að skrá þær sem ósýnilegar eru og hinar sem enn sjást á yfirborði. Á það má einnig benda að minjar sem huldar eru sjónum eru jafnvel í meiri hættu en þær sem sýnilegar eru því að líklegra er að þær verði fyrir raski af ógáti eða vanþekkingu. Frá sjónarmiði framkvæmdaaðila sem komast vilja hjá því að rekast á fornminjar við jarðrask er því brýnt að til séu upplýsingar um staðsetningu minja sem ekki eru sýnilegar á yfirborði.

Það eru auðvitað ýmis vandkvæði á því að skrá minjar sem ekki eru sýnilegar og vonlítið að hægt verði að komast að staðsetningu allra slíkra staða.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes/Hópsnes – uppdráttur ÓSÁ.

Með skipulegri heimildaöflun er hins vegar hægt að komast nærri um staðsetningu allmargra slíkra staða og einnig má styðjast við óbeinar vísbendingar eins og landslag og gróðurfar til að meta almennar líkur á að mannvistarleifar finnist á tilteknum landsvæðum. Við getum aðeins fengið heildarmynd af mannvirkjagerð og efnahagslífi á hverri jörð ef við reynum að skrá allar mannvistarleifar sem þar eru, hvort sem þær eru sýnilegar eða ekki.
Langflestar fornminjar á Íslandi tengjast búsetu og hefðbundnum búskaparháttum og bendir flest til að mannvirkjagerð því tengd hafi verið í nokkuð föstum skorðum lengst af þeim tíma sem landið hefur verið byggt. Búseta hefur – eftir því sem við best vitum — verið stöðug og ekki er sýnilegt að stórfelldar breytingar hafi orðið í skiptingu landsins í jarðir a.m.k. frá því á hámiðöldum þegar ritheimildir koma til sögunnar. Flestar fornleifar hafa því orðið til í mjög fastmótuðu samhengi og það er nauðsynlegt að skrá upplýsingar um þetta samhengi jafnhliða hinni eiginlegu fornleifaskráningu.

Hvalsnes

Hvalsnes – uppdráttur ÓSÁ.

Með samhengi fornleifanna er átt við byggðamynstur, skiptingu byggðarlaga í jarðir og skiptingu jarða í býli; einnig hagræn og náttúrufarsleg atriði eins og staðsetningu og gæði bithaga eða engja. Aðeins með því að gera okkur grein fyrir eignarhaldi og landnotkun höfum við forsendur til að skilja af hverju hús stóðu þar sem þau stóðu, af hverju byggð hélst á sumum stöðum en öðrum ekki og af hverju byggð var reynd á sumum stöðum en öðrum ekki — en slíkar spurningar eru liður í að skilja hvernig Íslendingar lifðu af þessu landi allar þessar aldir. Sjálfsævisögur hafa reynst mikilsverðar heimildir í þessu samhengi — það er nánast regla að á þriðju eða fjórðu síðu í sjálfsævisögum fólks sem fætt er um eða fyrir síðustu aldamót er sagt frá hvar höfundur sat yfir ám, hvernig háttað var fráfærum og upplýsingar um kúahaga og grasatekju fljóta einnig oft með. Þegar slíkar upplýsingar hafa verið færðar inn á kort fara strax að skýrast staðsetningar mannvirkja sem áður virtist óskiljanlega dritað niður um holt og móa. Á grunni slíkra upplýsinga má jafnvel gera ýmsar áhugaverðar athuganir og verður hér í lokin gerð grein fyrir lítilli tölfræðilegri úttekt sem gerð var á lengd stekkjarvegar.

Smali

Smali og mjaltarstúlka við færikvíar.

Ég er fæddur svo seint á 20. öld að hið litla sem ég veit um sveitalíf og gamla búskaparhætti hef ég þurft að læra af öðrum, og mest af bókum, eftir að ég komst á fullorðinsár. Það er ekki óskaplega langt síðan ég gerði mér grein fyrir til hvers stekkir voru hafðir eða hver væri munurinn á þeim og kvíum. Þó mér hafi nú loksins skilist hlutverk þessara mannvirkja hefur lengdareiningin stekkjarvegur valdið mér heilabrotum. Ég velti því til að mynda fyrir mér hvort tilvist þessa hugtaks væri vísbending um eitthvert aðdáunarvert samræmi í mannvirkjagerð eða hvort það væri einhver einföld og augljós ástæða fyrir því að vegalengdin milli bæjar og stekkjar væri yfirleitt svipuð.

Förnugötur

Straumsselsstígur/Fornugötur.

Af fjölda þekktra stekkja í tiltekinni sveit er u.þ.b. þriðjungur þeirra enn sýnilegir. Auðvelt er að reikna út vegalengdina á milli þessara staða. Yfirleitt er augljóst hvaða bæ stekkur tilheyrði eða til eru góðar heimildir um það. Stekkjarvegir eru mjög mislangir, stystur var hann 213 metrar en lengstur 1276 metrar. Meðaltalið var 575 metrar en tíðustu gildin voru í kringum 400 metrana og virðist það sennilegasta nálgunin á þeirri vegalengd sem hugtakið stekkjarvegur felur í sér. Líklegast er auðvitað að hugtakið hafi verið eins og mörg önnur vegalengdarhugtök í gamla landbúnaðarsamfélaginu verulega teygjanlegt og ekki átt að vera mikið nákvæmara en að vera lengra en fjósvegur en styttra en bæjarleið.
Þetta teljast varla menningarsöguleg stórtíðindi en þetta minnir okkur á að fornleifaskráning getur hjálpað okkur til að skilja betur ýmsa ólíka þætti í menningu Íslendinga.

Stakkavíkursel

Selstígurinn í Stakkavíkursel – Hlíðarvatn fjær.

Þó að gaman sé að hafa hugmynd um lengd stekkjarvegar þá má hugsa sér fleiri samhengi þar sem sú vegalengd getur verið nytsamleg. Það er t.d. áberandi að lengstu stekkjarvegirnir voru á þeim jörðum sem dýrast voru metnar og er þar um allgóða fylgni að ræða. Ef þessi athugun prófast á stærri gagnasöfnum þá er hér komin sjálfstæð vísbending um gæði jarða. Samhengið er líklega það að jarðir sem dýrar voru metnar gátu fóðrað fleira sauðfé, og fleira sauðfé hefur þurft stærri bithaga sem hafa þar með teygt sig lengra frá bæ en á jörðum með færra sauðfé og minni dýrleika. Næsta skrefið í þessum rannsóknum verður að mæla stærð stekkjanna og bera saman við tölur um fjölda sauðfjár á jörðum á 18. og 19. öld. Ef fylgni er milli allra þessara talna þá verður hægt að nota þau hlutföll sem líkön á aðrar jarðir þar sem sambærilegar upplýsingar eru ekki þekktar og líka á eldri tímaskeið, og með því reynt að endurgera búfjárfjölda og stærð bithaga á fornbýlum.

Eldvörp

Eldvörp – minjar (geymslubyrgi) sem ekkert hafa verið sannsakaðar.

Rannsóknir í menningarsögu eru ekki langt á veg komnar á Íslandi og hafa til skamms tíma einskorðast við ritheimildir og munnlegar heimildir og hafa rannsóknarspurningarnar verið mótaðar af fólki sem sjálft stóð með annan fótinn í gamla landbúnaðarsamfélaginu og hafði þar með ekki forsendur til að skilja hvað við sem yngri erum skiljum ótrúlega lítið. Markviss og kerfisbundin fornleifaskráning er augljós leið til draga fram nýjar heimildir og þróa nýjar rannsóknarspurningar sem eru skiljanlegar og áhugaverðar fyrir hinn sístækkandi hóp malbiksbúa. Þær kynslóðir sem höfðu persónulega reynslu af hefðbundnum búskaparháttum eru óðum að hverfa og að þeim gengnum höfum við ekki aðrar heimildir en það sem tókst að skrifa niður eftir þeim og þær leifar sem þær skildu eftir í jörðinni.

Kaldársel

Kaldársel (nú horfið síðan 1925) – tilgáta ÓSÁ.

Fornleifarnar eru að hverfa næstum því jafn hratt og örugglega og fólkið og því er brýnt að sporna gegn eyðileggingunni með fornleifaskráningu sem bæði forðar upplýsingum frá glötun og er forsenda skilvirkrar minjaverndar.“

Frá því að hin framangreindu ágætis áhríningarskrif voru sett á prent árið 1998 hefur a.m.k. tvennt gerts; annars vegar hefur fornleifaskráningum fjölgað til muna og þær gerðar aðgengilegri, settar fram t.d. í þeim tilgangi að minnka líkur á eyðileggingu þekktra fornleifa, og hins vegar hefur þeim embættismönnum og verkfæðingum fjölgað, sem ekkert mark taka á slíkum fyrirliggjandi gögnum.

Flekkuvíkurstekkur

Flekkuvíkurstekkur/rétt – uppdráttur ÓSÁ.

Þá ber einnig þess að geta, í ljósi af framangreindum skrifum, að stekkir voru ekki bara stekkir, þ.e. óumbreytanlegir, frá einum tíma til annars, s.s. frá upphafi landnáms til byrjun 20. aldar er þeir að lokum lögðust af – sjá HÉR. Máli skiptir um hvaða einstaka tímatal er um að ræða. Þegar seljabúskapurinn stóð sem hæst voru stekkirnir jafnan í selstæðum fjarri bæjum, en þegar fjaraði undan selsbúskapnum færðust stekkirnir nær bæjunum og jafnvel heim að túnmörkum undir hið síðasta. Þar með styttist stekkjarvegurinn úr nokkrum kílómetrum í nokkuð hundruð eða jafnvel tugi metra. Máli skiptir því við hvaða tímabil er miðað þegar fjallað er um mælingar á „stekkjarveginum“…
Annars skiptir lengd „stekkjarvegarins“ minnsta máli í framangreindri umfjöllun.  Hins vegar ánægjulegt til þess að vita selsstígunum sé gefinn séstakur gaumur því lengst af í fyrrum fornleifaskráningu var þeirra jafnan hvergi getið. Þá ber að taka skrifin um gildi fornleifanna, skráningu og varðveislu þeirra þess alvarlegar!

Heimild:
-Archaeologia Islandica, 1. tbl. 01.01.1998, Hvað er stekkjarvegur langur? – Orri Vésteinsson, bls. 47-57.

Garðastekkur

Garðastekkur, heimasel sem varð að rétt. Stekkurinn (gróinn) er neðst t.v. á myndinni.

Víkursel

Getið er um Víkursel í heimildum, sjá meðfylgjandi neðangreint. Skv. þeim átti sel þetta, frá fyrsta norrænu byggðinni hér á landi, þ.e. í Reykja[r]vík að hafa verið í Öskjuhlíð.

Reykjavík

Öskjuhlíð – minjar.

Staðsetningin verður, bæði að teknu tilliti til fjarlægðar frá bæ og aðstæðna (í skjóli fyrir austanáttinni), hlýtur að hafa þykið hentug á þeim tíma. Í nokkrum misvísandi fornleifaskráningum á svæðinu hafa leifar selsins, þrátt fyrir fyrirliggjandi upplýsingar um sel og selstöðmannvirki frá fyrri tíð, ýmist verið staðsettar vestast í hlíðinni eða miðsvæðis í henni vestanverðri. Á síðarnefnda svæðinu hafa jafnframt verið staðsettir tveir stekkir, m.a. Skildingarnesstekkur (gæti hafa verið heimasel frá samnefndum bæ), stakur stekkur og nálæg fjárborg (væntanlega nátthagi frá selinu).

Í núverandi skógi, skammt vestan nefndra tófta eru greinilegar selsminjar líkt og sjá má á fyrrum umfjöllunum FERLIRs um Víkursel (sjá neðangreint).

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð.

Allar vangaveltur um efnið eru jafnan vel þegnar, en stundum þarf að staldra við og gaumgæfa aðstæður að teknu tilliti til fyrrum búskaparhátta. Ljóst er að fyrrum herminjar hafa að einhverju leiti villt skráningaraðilum sýn þegar kemur að samhengi hlutanna, en þó ekki að öllu leiti.

Í Öskjuhlíð eru fjölmargar minjar, flestar frá hernámsárunum, en einnig frá fyrrum nálægrar búsetu sem og selsminjanna. Leifar margra skotgrafa má enn sjá í suðvesturhlíðum Öskjuhlíðar, um 160 m norðaustan við Háskólann í Reykjavík. „Þar eru nokkrar skotgrafir sem liggja í sveig 25 m norðvestan við gamlan herveg sem lá að sprengigeymslunum og er nú notaður sem gangstígur. Fast við hann er stekkur og um 28 m norðan við skotgröf er fjárborg“. Stundum mætti ætla, með teknu tiliti til aðstæðna, að um fornar minjar væri um að ræða.

Reykjavík

Öskjuhlíð – leifar Rockfort Camp.

Í vestanverðri Öskjuhlíðinni var lítill kampur, geymsla fyrir skotfæri, er nefndist Rockfort Camp. Enn má sjá leifar hans í hlíðinni.

Í fornleifaskrá um „Göngustíg í Öskjuhlíð“ frá árinu 2020 má lesa eftirfarandi: „Um selstöðu greinir Jarðabók Árna og Páls: „Selstaða er jörðinni eignuð þar sem heitir Víkursel undir Undirhlíðum; sumir kalla það gamla Víkursel; þar hefur jörðin brúkað hrís til eldiviðar fyrir selsins nauðsyn; (Jarðabók, III.bindi, s. 262).
Elín Þórðardóttir minnist á sel það sem faðir hennar hefði átt sunnan undir Öskjuhlíð „sem faðir minn sagði stæði í Reykjavíkurlandi; (Ö.Skild.1).

Reykjavík

Öskjuhlíð – meint Víkursel skv. fornleifaskráningu.

Eftir máldaga kirkjunnar, er Oddgeir biskup setti árið 1379, átti Reykjavíkurkirkja Víkurholt, með skóg og selstöðu. Þessi hlunnindi eru ekki nefnd í Wilchinsmáldaga 1397. Samkvæmt Oddgeirsmáldaga má ætla að Víkurholt sé sama örnefnið og Öskjuhlíð því að ótrúlegt er að sel hafi verið í Skólavörðuholti. Þess vegna getur fullyrðing Georgs Ólafssonar um Víkurholt, sem hið sama og Skólavörðuholt, ekki staðist. Ekki er unnt að segja nákvæmlega til um hvar selið hefur verið en líkur benda til að það hafi verið norðaustan við Nauthól og Seljamýrin því verið fram undan til (Ö.Skild 1). Rústin er í skógajaðri austan við göngustíg.

Reykjavík

Öskjuhlíð – meintar leifar sels.

Selið er um 11×6 m (NNV-SSA). Veggir úr torfi, breidd veggja er um 1,5 – 2,0 m og 0,3 – 0,5 m hæð. Gólf er niðurgrafið. Fornleifarnar eru ógreinilegar og ekki hægt með vissu að skera úr hvort um sel sé að ræða. En það sem styrkir þá tilgátu er: 1) Lækjarspræna rennur við fornleifarnar A – verða. 2) Nánasta umhverfi mjög gott beitiland. Inni í fornleifunum vaxa 6 grenitré. Ekki er ósennilegt að í nánasta umhverfi fornleifarinnar séu fleiri fornleifar.“

Hér að framan er í fornleifaskrá lýst meintum leifum Víkursels. Auk þess segir um eldri byggð í Öskjuhlíð: „Vitað er að í Öskjuhlíð voru áður fyrr beitilönd Víkur og Skildinganess, en auk þess var þar Víkursel.“

Öskjuhlíð

Í Öskjuhlíð.

Í „Fornleifaskrá, Borgarhluti 3 – Hlíðar, Reykjavík 2024“ er getið um endurtekningu á framangreindu Víkurseli, sbr.: „Neðarlega í suðvesturhlíðum Öskjuhlíðar er tóft sem talin er hafa verið Víkursel. Um 70 m norðaustur af Háskólanum í Reykjavík og um 20 m austur af gangstígnum Bæjarleið, sem liggur norður-suður með vestanverðri Öskjuhlíð. Norðaustan við tóftina er lækjarfarvegur. Suðaustan við er rás sem sést vel á gömlum loftmyndum, sennilega eftir herinn, sem hefur raskað suðurgafli.

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð.

Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Selstaða er jörðinni eignuð þar sem heitir Víkursel undir Undirhlíðum; sumir kalla það gamla Víkursel; þar hefur jörðin brúkað hrís til eldiviðar fyrir selsins nauðsyn.“ Undirhlíðar voru í Öskjuhlíð að sunnan- og vestanverðu. Í lýsingu Reykjavíkur og Seltjarnarness segir: „En Seljamýri var kennd við sel frá Hlíðarhúsum, sem var undir Öskjuhlíð.“ Hlíðarhús var hjáleiga frá Vík en var orðin sjálfstæð jörð um 1600. Síðasta selráðskonan í Öskjuhlíð var Elín Þórðardóttir, Sighvatssonar úr Hlíðarhúsum, og segir í örnefnalýsingu frá selinu sem faðir hennar sagði að stæði í Reykjavíkurlandi: „Sel hafði faðir minn og allir hans forfeður vestan og sunnan undir Öskjuhlíð.“
Lýsing: Jarðlæg sporöskjulaga tóft. Inngangur er ekki greinilegur, gæti hafa verið á suðausturgafli sem hefur raskast vegna rásar sem liggur um 15 m suður af henni. Veggjahæð 20 𝑥𝑥 50 cm.

Víkursel

Skotgrafir í Öskjuhlíð.

Í „Fornleifaskráningu lóðar Háskóla Reykjavíkur í Öskjuhlíð – Nauthóll, Reykjavík 2006“ segir um Skildingarnesstekk: „Stekkurinn er í Öskjuhlíð um 3 m vestan við miðjustíginn þar sem hann beygir fyrir stóra klöpp. Undir hamri í skógrækt (barrtré). Lóðréttur klettastallur er á einn veginn og leifar af hlöðnum vegg fyrir framan. Nafnið Skildinganesstekkur virðist vera munnmæli. Stekkurinn er mældur inn á kort frá 1933.24. Stekkurinn er 6×3,5 m (N-S). A-veggurinn er hamar en aðrir veggir eru um 0,3-0,4 m háir og 0,7-1,0 m breiðir. Eru veggirnir úr 0,3-0,7 m stórum steinum auk stærri jarðfastra steina. Í N-hlutanum vottar fyrir þvervegg sem afmarkar lambakróna. Engar dyr eru sjáanlegar en líklegast hafa þær verið gengt lambakrónni í S-hlutanum. Veggir hafa verið endurbættir í seinni tíð.“

Reykjavík

Öskjuhlíð – stekkur.

Um hinn stekkinn í Öskjuhlíðinni segir: „Í Öskjuhlíð vestanverðri er stekkur, neðan við miðjustíg suðaustan við Skildinganesstekk, í skógarjaðri. Stekkurinn er 8×8 m og liggur N – S. Veggir úr grjóti, 1,0-1,3 m breiðir og allt að 1,0 m háir (að innanverðu). A-hlutinn er meira og minna hamar, en aðrir hlutar hlaðnir úr 0,3 – 0,7 m stóru grjóti. Dyr eru í vestur. Grjótveggur liggur úr A-V vegg (N-S) 0,5 – 0,7 m breiður og 0,2 – 0,4 m hár. Við norðurenda garðsins er 1–2 m stór steinn, sem liggur dálítið frá vegg að innanverðu. Um 9 m NV af stekknum eru nokkrar holur sem vafalaust hafa tilheyrt hernum á sínum tíma. Í námundann við þessar holur eru fleiri mannvirki sem tilheyrt hafa hernum og er um 10 rústir að ræða. Rústin gæti hugsanlega hafa verið notuð af hernum og breyst eitthvað í því sambandi.“

Reykjavík

Öskjuhlíð – fjárborg.

Um fjárborgina segir: „Í Öskjuhlíð að vestanverðu. Um 6 m norður af malarstíg í stórgrýttu landi og skógrækt, fjárborgin er merkt inn á kort frá 1933. Fjárborgin er um 5,5×5 m. Veggir úr grjóti um 0,5-1,0 m á breidd og 0,3 – 1,3 m á hæð. Hluti veggjanna er stórt jarðfast grjót en á milli hefur verið hlaðið minna grjóti.“

Um Víkusel segir: „Um selstöðu greinir Jarðabók Árna og Páls: „Selstaða er jörðinni eignuð þar sem heitir Víkursel undir Undirhlíðum; sumir kalla það gamla Víkursel; þar hefur jörðin brúkað hrís til eldiviðar fyrir selsins nauðsyn.“ „Elín Þórðardóttir minnist á sel það sem faðir hennar hefði átt sunnan undir Öskjuhlíð“ sem faðir minn sagði stæði í Reykjavíkurlandi.“

Reykjavík

Öskjuhlíð – fjárborg.

„Eftir máldaga kirkjunnar, er Oddgeir biskup setti árið 1379, átti Reykjavíkurkirkja Víkurholt, með skóg og selstöðu.“
Rústin er í skógarjaðri austan við malbikaðan göngustíg. Selið er um 11×6 m (NNV-SSA). Veggir úr torfi, breidd veggja er um 1,5-2,0 m og 0,3-0,5 m hæð. Gólf er niðurgrafið. Fornleifarnar eru ógreinilegar og ekki hægt með vissu að skera úr hvort um sel sé að ræða. Nánasta umhverfi er mjög gott beitiland. Inni í fornleifunum vaxa sex grenitré. Ekki er ósennilegt að í nánasta umhverfi fornleifarinnar séu fleiri fornleifar.“

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð.

Í ljósi framangreindrar fornleifaskráningar verður, að teknu tilliti til sýnilegra minja á vettvangi Öskjuhlíðarinnar, að Víkursel hafi ekki verið á nefndum stað heldur svolítið austar  og ofar í hlíðinni. Þar eru og a.m.k. leifar tveggja stekkja, auk þess sem lækjarfarvegur hefur runnið þar skammt frá. Tóft sú er vísað er til í skráningunni ber ekki með sér að hafa verið seltóft heldur miklu frekar útihús og þá væntanlega frá Skildinganesi eða jafnvel Nauthóli.

Sjá meira um Víkursel HÉR, HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.

Heimildir:
-Göngustígur í Öskjuhlíð – Fornleifaskrá, Reykjavík 2020.
-Fornleifaskrá, Borgarhluti 3 – Hlíðar, Reykjavík 2024.
-Fornleifaskráning lóðar Háskóla Reykjavíkur í Öskjuhlíð – Nauthóll, Reykjavík 2006.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – meint seltóft skv. fornleifaskráningu.

Mundastekkur

Fornir stekkir, flestir nánast jarðlægir, virðast yfirleitt ekki vera áhugaverðar mannvistarleifar. En við nánari skoðun kemur annað í ljós. Þeir voru jú fyrrum órjúfanlegur hluti af búskaparsögunni.

Flekkuvíkurstekkur

Flekkuvíkurstekkur I – uppdráttur ÓSÁ.

Stekkir voru yfirleitt tvískiptir, hlaðnir úr grjóti og eða torfi, eins konar rétt með viðbyggðri „lambakró“. Í þeim var ám og lömbum haldið fráskildum þegar leið á vorið á meðan á mjöltum stóð sem og næturlangt.

Áður fyrr voru ær mjólkaðar jöfnum höndum í stekkjum nálægt bæ sem og í seljum, en í lok 19. aldar færðust þau búverk nánast alveg heim að bæ uns stekkjartíðin lagðist alveg af skömmu eftir aldamótin 1900. Þó var enn um sinn fært frá heima á bæ, enda þá víðast hvar hafin bygging sérstakra fjárhúsa, uns rekið var á afrétt. Eftir það stækkuðu heimastekkir til mikilla muna í takt við fjölgun fjárins, urðu líkari tvískiptum réttum. Þessir stekkir, eftir að þeir lögðust af sem slíkir, voru gjarnan síðar notaðir sem matjurtargarðar. Þannig má segja að vegghleðslurnar hafi þjónað tvenns konar hlutverki, fyrst að halda fénu innan og síðar utan þeirra.

Fornistekkur

Fornistekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Bæði ummerki benda til og vitað er að stekkurinn var jafnan tvennskonar bygging. Rétt eða innrekstrar byrgi og kró eða lítið hús með þaki. Þar sem lömbin voru byrgð inni, þegar þeim var stíað frá ánum. Stekkurinn hefur jafnan verið valinn staður í skjólsælum hvömmum eða undir hólum, þó jafnan snertispöl frá bæ. Sælst var til að stutt væri í vatn frá stekknum, lækur eða árspræna.

Í seljunum var stekkurinn oftast tvískiptur, en í nærstekkir voru ýmist tví- eða þrískiptir.

Heimristekkur

Heimristekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Ástæðan fyrir þriðja hólfinu er sennilega stækkun á lambakrónni á einhverjum tímapunkti, enda fjölgaði fé eftir því sem leið á. Þessi hólf eru jafnan hliðsett. Í sumum stekkjum er leiðigarður og jafnvel lítil „rétt“.

Tæplega kemur til mála að lambakróin hafi verið notuð sem fjárhús til þess var hún of langt í burt og of lítil. Þar sem svo hagaði til hefur vafalaust einhver ræktun myndast kringum stekkinn, og þá slegið þar, en um aðra ræktun hefur varla verið að ræða.
Dæmi eru um að stekkir ekki fjarri bæ hafi um stund verið notaðir sem „heimasel“, einkum eftir að selstöðurnar í heiðinni lögðust af og fólki fækkaði til sveita. Við þá stekki má gjarnan sjá hliðstæða tóft þar sem afurðirnar voru geymdar tímabundið milli flutninga. Þá eru og dæmi um að fjárborgum hafi um tíma verið breytt í stekki.

Borgarkotsstekkur

Borgarkotsstekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Í Stekkjatíð var lömbunum stíað frá mæðrum sínum í viku til hálfan mánuð, byrjað var í miðjum júní og undir mánaðarmótin voru lömbin tekin frá mæðrum sínum fyrir fullt og allt. Talað var um að fara á stekkinn eða fara ofan á stekk. Lambféð var rekið á stekk um 9 leitið á kvöldin. Ærnar voru reknar inn í stekkinn og lömbin færð inn í stíuna. Síðan var ánum hleypt út og þær voru næturlangt í kringum stekkinn, þær höfðu að éta þar og fóru hvergi meðan þær heyrðu í lömbunum.

Færikvíar

Færikvíar.

Lömbin fengu broddmjólkina úr ánum og þegar byrjað var að stía var mjólkin orðin nógu góð til að hægt væri að nota hana í hvað sem var, enda var hún nýtt á svipaðan hátt og kvíamjólkin. Lömbin voru yfirleitt ekki mörkuð yngri en viku gömul en eftir það voru þau mörkuð, hvar sem náðist í þau. Börnum var oft gefið fráfærulamb á stekk en sjaldnast smalanum.

FERLIRsfélagar skoðuðu 22 þekkta stekki frá bæjum á Vatnsleysuströnd, milli strandar og Reykjanesbrautar.

Litlistekkur

Litlistekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Þeir eru mislangt frá bæ, en þó aldrei lengra en svo að í þá væri ca. tuttugu mínútna gangur – stekkjargangur.

Stekkirnir eru misjafnir að gerð og lögun og hefur hvorutveggja væntanlega bæði markast af byggingaefni og aðstæðum á vettvangi. Stærð þeirra gefur til kynna fjölda mögulegs fjár frá viðkomandi bæ. Staðsetningin er nánast ávallt innan landareignar eða á mörkum.

Mannvirkin bera glögg merki fyrri búskaparhátta og eru því merkilegar fornleifar, ekki síst í heildar búskaparlandslagi hlutaðeigandi bæjar sem og alls sveitarfélagsins.

Miðmundarstekkur

Miðmundarstekkur.

Stekkjargil

Neðan Stekkjargils vestan Helgafells í Mosfellsbæ eru tvö upplýsingaskilti. Annað fjallar um plöntur og hitt um búskaparhætti.

Stekkjargil

Stekkjargil – skilti.

Á fyrra skiltinu; „Stekkjargil„, segir m.a.: „Í Stekkjargili eru margar tegundir platna. Hér fyrir neðan eru myndir og lýsingar á nokkrum plöntutegundum sem finna má í gilinu. Gáðu hvort þú finnur þesssa fulltrúa íslenskrar náttúru, sem saman mynda eina heild, á göngu þinni og leggðu útlit jurtarinnar, ilm og viðkomu á minnið. Þá hefur þú örugglega gaman af að finna tegundina aftur og þekkja í næstu gönguferð um náttúru landsins“.
Á skiltinu eru síðan myndir og fróðleikur um Gulmöðru, Holurt, Maríustakk, Ljónslappa, Blóðberg, Friggjargras, Holtasóley, Kornsúru, Mjaðjurt, Tungljurt, Fjalldalafífil og Krossmöðru.

Á síðara skiltinu: „Stekkur„, má lesa eftirfarandi fróðleik: „Við erum stödd neðan við Stekkjargil í austanverðu Helgafelli og grjóthóllinn, sem blasir við okkur heitir Stórhóll. Gilið dregur nafn sitt af fjárstekk frá bænum Helgafelli og má sjá rústir hans hér undir brekkunni. Stekkur er lítil fjárrétt, notaður til að mjalta ær og var þessi stekkur sennilega nýttur fram yfir aldamótin 1900 en var þá stækkaður og breytt í fjárhús eða beitarhús.

Stekkjargil

Stekkjargil – skilti.

Í Stekkjargili eru ágætir bithagar en gróðufar í Mosfellssveit mótast af landslagi og hæð yfir sjávarmáli. Efst eru fellin gróðursnauð en gróðurþekja þéttist þegar neðar dregur, líkt og hér í Stekkjargili.
Jarðvegurinn í Mosfellsbæ er víða frjór og lífrænn og reyndist hentugur til mótekju en mór er jurtaleifar sem var áður fyrr notaður til húshitunar og eldamennsku. Mógrafir voru allvíða í sveitarfélaginu, meðal annars í Stekkjarmýri sunnan við Stekkjargil.
Víða í mýrum sveitarfélagsins má finna leifar af birkilurkum og þeir eru vitnisburður um tvö löng birkitímabil sem runnu upp eftir að ísöld lauk fyrir um 10.000 árum. Eftir landnám hófst mikil landeyðing af ýmsum orsökum og í upphafi 20. aldar var allur skógur horfinn úr Mosfellssveit. Með friðun og skipulagðri skógrækt hefur sveitarfélagið tekið miklum stakkaskiptum síðustu áratugina.

Stekkjargil

Stekkjargil – skilti.

Á fyrri tíð voru ær frá Helgafelli hafðar á beit hér í Stekkjargili en reknar á hverjum degi hingað í stekkinn þar sem þær voru mjólkaðar. Samkvæmt íslenskri þjóðtrú stundaði óboðinn gestur þá iðju að sjúga mjólk úr lambám í stekkjum og fjárhúsum. Það var jólasveinninn Stekkjastaur sem Jóhannes úr Kötlum orti um á þessa leið:

Stekkjastaur kom fyrstur,
stinnur eins og tré.
Hann laumaðist í fjárhúsin
og lék við bóndans fé.

Hann vildi sjúgja ærnar,
-þá varð þeim ekki um sel,
því greyið hafði staurfætur,
-það gekk nú ekki vel.

Stekkjargil

Stekkjargil – Stórhóll t.h.

Selvogsheiði

Í „Safn til sögu Íslands og íslenskra bókmennta að fórnu og nýju„, er kafli eftir Finn Jónsson undir yfirskriftinni „Bæjarnöfn á Íslandi“. Þar fjallar hann m.a. um hugtökin „sel“ og „stekk„:

Árbæjarsel

Árbæjarsel á Nónhæð – uppdráttur ÓSÁ.

sel
merkir sumardvalarstað, helst á heiðum eða við fjöll uppi, þar sem ær og kýr eru hafðar á beit og með málnytuna farið, eins og lög gera ráð fyrir; húsakynnin voru ætíð lítil og órífleg, ekki nema 2 herbergi eða svo, enda ekki margt manna að jafnaði. Almennt var »haft í seli« á Íslandi lángt fram eftir öldum, uns það hætti, bæði vegna ódugnaðar og eins hins, að þörfin á að hafa í seli var aldrei eins mikil á Íslandi eins og t. d. í Noregi, nema þá rjett á stöku stöðum.
En nöfnin eru [þó] mjög þýðingarmikil, einmitt fyrir búskap Íslendinga á fyrri öldum. Sel urðu að bæjum (kotum) líkt og fjós o.s.frv.

Ottarsstaðastekkur

Óttarsstaðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

stekkr
er samskonar nafn og Fjós og uppruninn víst hinn sami, bær eða kot byggt upp úr stekk eða við gamlan stekk.
Nöfnin eru tiltölulega ekki svo fá: Eint. Stekkr V. VI. IX. XII. XIII. XV (-inn). Flt. Stekkar V (3; 3) -ir, AM).“

Í „Hinni fornu lögbók Íslendinga sem nefnist Grágás„, 2.b., er kafli um „afrétt“ þar sem hugtakið sel kemur við sögu, sbr. „Of afrettu„, XXXVI. Capituli, bls. 302 (illlæsilegur nútímafólki):

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel (Bessastaðasel) – uppdráttur ÓSÁ.

„Eigi scal sel göra i afrett. 2) Ef gört er pa er sel oheilact, oc eigo þeir at briota sel er afrett eigo, enda verdr sa utlagr er sel gördi, eda göra let, vid þa alla er afrett eigo, oc sinni utlegp vid hvern þeirra.
Engi madr scal beita afrett þær vicor II er a midil ero pess er YI vicor ero af sumri oc YIII vicor ero af sumri. Þeir menn er næstir bua afrett eigo at beita avalt afrett hufe sino, nema fra þvi er VI vicor ero af sumri, oc til þess annars dags vico er IY vicor lifa sumars, þvatdaginn apr. Ef menn heita afrett þær vicor 3) er fra ero scildar, þat vardar oc utlegd vid hvern þeirra manna er þann afrett a. Þat vardar oc utlegd, ef menn heita afrett or seliom, 4) [vid hvern] þeirra manna er þann afrett eigo.“
Hér að framan kemur fram að byggi maður sel í afrétt annars skal hann útlægur verða, sýnist þeim svo.

Straumssel

Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.

Hlutaðeigandi ákvæði styrkir verulega þá tilgátu Ómars Smára Ármannssonar, fornleifafræðings, að bændur byggðu oftlega selstöður sínar í jaðri jarða þeirra m.a. til að undirstrika eignarhald þeirra. Ómar birti þessa kenningu sína að undangenginni viðarmikilli skoðun á „Seljum vestan Esju“ og birtist í samnefndri BA-ritgerð hans við Háskóla Íslands. Frá því að ritgerðin var gerð árið 2004 hefur hann uppgötvað enn fleirri sel á svæðinu er staðfesta enn frekar þessa kenningu hans.

Í „Skýringum yfir fornyrði lögbókar þeirrar, er Jónsbók kallast„, Landslb 12, bls. 635, er fjallað um sel og selfarir:

Hafnasel II

Hafnasel norðan Krossfjalla – uppdráttur ÓSÁ.

„4) er það víst, að ekki skyldi þá ætla kúm fóður, er skyldugt var í sel að færa úr húshaga, því þá væri ómögulegt að vænta; selhagar skydlu þá grónir á fjöllum uppi, er kúm þyrfti fóður í bygð að ætla; og einn ómögulegra, að verða flytja hey til sels, og mega ei gefa þau í vetrarhús sín, ef ei væru grónir selhagar. Nú er þafi ljóst af Llb. 24.3, hafi skylt er í sel að færa, þegar 2 mánuðir eru af sumri, það er í 9. viku sumar, því alt mánaðatal skal vera þrítugnætt éptir tilætlun lögbókarinnar, eins og áður hefi eg sýnt með rökum um erfitt „tvímánuður“, og þar má lesa, af hverju öllu hugleiddu það eptir fylgir, að þíng þetta, sem Llb. cap. 12. talar um, skuli vera fyrr á vorin, en skyldugt er í sel að fara. Á þess hér að gæta, að þegar lögbókin kom hingað anno 1280, voru liðin ein 17 ár frá því, er Grágás gekk hér fyrir lög, og þess vegna öllum í fersku minni, hafi sein eptir hennar bofiorfium hafið verið lángvarandi venja.“

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Bent skal á að víða á vefsíðunni er fjallað um sel og seljabúskap á Reykjanesskaganum, allt þangað til hann var aflagður í lok 19. aldar.

Heimildir:
-Safn til sögu Íslands og íslenskra bókmennta að fórnu og nýju, „Bæjarnöfn á Íslandi“ – Finnur Jónsson, 4. bindi, bls. 474-475.
-Hin forna lögbók Íslendinga sem nefnist Grágás, 2.b., „Of afrettu“, XXXVI. Capituli, bls. 302.
-Skýringar yfir fornyrði lögbókar þeirrar, er Jónsbók kallast, Landslb 12, bls. 635.

Selsvellir

Selin á Selsvöllum – uppdráttur ÓSÁ.

 

Hlíðarborg

Stekkir voru nánast við hvern bæ á Reykjanesskaganum, stundum fleiri en einn. Stekkir í seljum voru jafnan tiltölulega litlir. Endurspegluðu þeir fjölda fjár á hverjum tíma. Eftir að hætt var að hafa fé í seli voru stekkir hlaðnir nær bæjunum. Flestir voru þeir svolítið stærri en hinir. Enn má víða sjá leifar af hlöðnum stekkjum og slíkir uppgrónir eru ekki allfáir. Upp úr sumum þeirra voru hlaðnar fjárborgir. Nokkur dæmi eru um að hlaðnar hafi verið réttir við hlið stekkjanna eftir að fráfærur lögðust af, s.s. við Garðastekk, Óttarsstaðastekk og Þorbjarnarstaðastekk. Gjarnan er bent á réttirnar sem stekkina fyrrum, en svo er alls ekki fyrir að fara. Sennilega er það vegna þess að gömlu grónu stekkirnir eru í dag orðnir ógreinilegar fyrir augum ókunnugra.

Garðastekkur

Garðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Garðastekkur er sunnan undir jaðri Garðahrauns. Hann er orðinn gróinn og líkist fremur aflangri húsatóft en stekk. Ef vel er að gáð má sjá tvíhólfa skiptingu í tóftinni; annað fyrir ær og hitt fyrir lömbin. Austan við stekkinn er nú hlaðin fjárrétt, sem oftar en ekki er nefnd Garðastekkur. Uppi á hraunbrúninni er gömlu fjárborg, sennileg frá stekkstíðinni.

Garðastekkur

Garðastekkur efst til hægri.

Óttarsstaðastekkur er norðan undir Miðmundarhæð. Á hæðinni er Miðmundavarða, eyktarmark frá Óttarsstöðum. Stekkurinn er algróinn, en þó vel greinanlegur. Hann hefur verið að svipaðri stærð og Garðastekkur. Vestan við stekkinn er grjóthlaðinn rétt með lambakró/lambhúsi innanvert.

Óttarsstaðastekkur

Óttarsstaðastekkur – stekkurinn er hægra megin við réttina.

Þorbjarnarstaðarstekkur, oftast nefndur Stekkurinn, er norðan undir Stekkatúnshæð. Þar var Stekkatúnið með Stekksgerðinu. Gamli stekkurinn sést enn vel, hlaðinn úr grjóti, en nokkuð gróinn. Gerðið er sunnan við stekkinn. Vestan við stekkinn var síðan hlaðin rétt. Innst í henni er lambakró.
Hér á eftir verður lýst verklagi í og við stekkinn forðum.

Óttarsstaðastekkur

Óttarsstaðastekkur.

Stekkur
Stekkir voru venjulega hlaðnir úr grjóti, en líka úr torfi og grjóti. Í stekknum var stíað. Hann var tvískiptur og var lengri á annan veginn. Stundum voru náttúrlegar aðstæður nýttar til stekkjargerðarinnar að hluta. Yfirleitt var stekkurinn ekki langt frá bænum eftir að selstöðurnar lögðust af í lok 19. aldar, kannski í 10.-15 mín. fjarlægð. Stekkurinn var tvískiptur; annars vegar fyrir ærnar, sem mjólka átti, og hins vegar fyrir lömbin eftir að stíað var frá. Lambhús var sumstaðar fyrir endanum á stekknum, hlaðið úr torfi og grjóti, þó aðallega úr grjóti. Ekki var ræktað tún í kringum stekkinn en þar greri upp og varð grænna en annars staðar, vegna húsdýraáburðarins.

Stekkjatíð

Þorbjarnastaðastekkur

Þorbjarnastaðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Stíað var í viku til hálfan mánuð, byrjað var í miðjum júní og undir mánaðarmótin voru lömbin tekin frá mæðrum sínum fyrir fullt og allt. Talað var um að fara á stekkinn eða fara ofan á stekk. Lambféð var rekið á stekk um 9 leitið á kvöldin. Ærnar voru reknar inn í stekkinn og lömbin færð inn í stíuna. Síðan var ánum hleypt út og þær voru næturlangt í kringum stekkinn, þær höfðu að éta þar og fóru hvergi meðan þær heyrðu í lömbunum. Lömbin fengu broddmjólkina úr ánum og þegar byrjað var að stía var mjólkin orðin nógu góð til að hægt væri að nota hana í hvað sem var, enda var hún nýtt á svipaðan hátt og kvíamjólkin. Lömbin voru yfirleitt ekki mörkuð yngri en viku gömul en eftir það voru þau mörkuð, hvar sem náðist í þau. Börnum var oft gefið fráfærulamb á stekk en ekkert sérstaklega smalanum. Börnum var bannað að kyssa lömb, því að þá gat tófan bitið þau.

Kvíar

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðastekkur. Stekkurinn efst vinstra megin.

Kvíað var í fjárrétt sem hlaðin var úr grjóti. Í einum dilknum í réttinni voru kvíærnar mjólkaðar. Fyrir dilk var sett grind og hann síðan kallaður kvíar. Réttin var notuð til að rétta í henni um haustgöngur og við rúning á sumrin. Oft var réttin líka fyrir nærligghjandi kot eða bæi. Mikil for var í gólfinu og lausagrjót saman við. Réttin var skammt utan við tún og var aðeins nokkurra mínútna gangur þangað. Taðið var ekki hreinsað út, enda mikið grjót saman við úr gólfinu en þetta greri upp strax og hætt var að mjólka.

Komið er heim á kvíaból
kýrnar, féð og smalinn.

Nátthagi

Óttarsstaðastaðasel

Óttarsstaðasel – nátthagi.

Yfirleitt var nátthagi skammt frá stekknum eða kvíabólinu, stundum fleiri en einn. Nátthaginn var skjólgóð hvylft eða lægð í landslaginu. Hlaðið skjól fyrir smalann var við suma nátthaga eða lagaður hraunskúti.

Mjólkurær og lömb

Þórustaðaborg

Þórustaðir – stekkur.

Lömbin voru u.þ.b. mánaðar gömul þegar fært var frá. Málbærar voru þær ær kallaðar sem báru á réttum tíma. Misjafnt var hvort fært var frá öllum málbærum ám. Frekar var fært frá ám með gimbrum, því að fráfærulömb voru oftast sett á, svo og ám með sérlega stórum lömbum. Lömb sem fæddust seint voru kölluð síðborin lömb. Lambgotur voru þær ær sem báru dauðu, þær voru mjólkaðar ef þær voru heimavið til þess þær geltust ekki. Þegar vanið var undir var bjórinn tekinn af dauða lambinu og settur á lambið sem venja átti undir. Ef ær týndi lambi og það fannst ekki var yfirleitt erfitt að venja undir hana, var þó stundum reynt að taka hana inn með lambinu. Lömb sem villtust undan voru kölluð frávillingar og þau sem þrifust illa voru kölluð vanþrifalömb.

Fráfærur

Ás

Ás – stekkur.

Fráfærur var notað um atburðinn að færa frá og tímann sem ær voru mjólkaðar í kvíum. Þegar fært var frá var rekið inn í stekkinn og lömbin sett út. Á óþæg lömb sem ekki vildu fylgja hópnum var snúið saman lambahaft úr ull. Það var sett á framfæturna og var hvert haft bara notað einu sinni. Lömbin voru höfð heima hálfa aðra viku. Voru þau ýmist höfð inni eða setin, þar sem ærnar heyrðu ekki í þeim meðan þau voru að spekjast, annars var hætta á að þau týndust. Síðan voru þau rekin á afvikinn stað í nágrenninu, oft í dalkvos. Geldfé var ekki rekið á fjall með lömbunum, það fór fljótt eftir rúning. Staðurinn sem lömbin voru rekin í var kallaður afrétt. Lömb voru ekki setin á afréttinni. Í undantekningatilfellum voru lömb kefluð.

Hjáseta

Smalaskáli

Smalaskáli í Smalaskálahæð.

Starfið að sitja yfir, kallaðist hjáseta. Orðið búsmali var gjarnan notað um smalann. Sá sem sat yfir fénu á sumrin kallaðist smali. Yfirleitt var eitthvað af börnum húsbónda látið sinna smalastarfinu. Ekki fékk smalinn neitt sérstakt sumarkaup, né önnur hlunnindi fram yfir önnur börn á heimilinu. Smalinn hafði með sér hund ef hann var við og það sem til féll í nesti, bar hann með sér í smápoka. Sniðugir smalar komu sér upp afdrepum. Þeir leituðu sér skjóls í skútum og ef vont var hrófluðu þeir stundum hærra, gömlum tóftarbrotum til að skýla sér í en reftu ekki yfir. Smalar voru notaðir í ýmsa aðra snúninga sem til féllu. Smalar urðu að passa að koma með allt féð heim að kveldi og að láta það ekki vera of þétt saman meðan því var beitt. Setið var yfir fénu frá því um níuleytið á morgnana til níu á kvöldin, fram að mánaðamótum ágúst-september. Setið var yfir í öllum veðrum. Smalarnir fundu út hvað tímanum leið eftir því hvar sólin var stödd. Þegar hún hvarf innundir var orðið framorðið og mál að halda heim. Eftir mjaltir voru ærnar bældar. Þá var orðið áliðið og mál fyrir smalann að fara að sofa.

Kvífé

Smalaskjól

Smalaskjól.

Efnahagur fólks var ógjarnan miðaður við eign í kvífé. Þó voru dæmi þess. Mylkar ær í kvíum kölluðust kvíær. Ær sem sóttu í tún voru kallaðar túnarollur og oft þurfti að vaka yfir túninu til að verjast þeim. Oft var eitur sett í gömul hræ út á víðavangi fyrir tófuna en því var hætt vegna þess að það kom fyrir að hundar drápust af eitrinu. Farið var á greni á vorin til að drepa tófu. Bjöllur voru ekki hengdar á kvífé en þær voru oft hengdar á forystusauði til þess að sauðamaðurinn ætti hægara með að fylgjast með fénu.

Mjaltir

Smali

Smali við færikvíar.

Notaðar voru blikkfötur og tréfötur við mjaltir. Þær voru svipaðar að stærð, c.a. 10 lítra. Þær voru hvorar tveggja heldur víðari að ofan en neðan. Föturnar voru ekki misjafnar að stærð en þær voru nokkuð margar í brúkinu í einu. Þær voru kallaðar skjólur. Eftir að mjólkin hafði verið borin úr kvíunum var hún látin í trébakka, mjólkurbakka. Mjólkin var látin standa í sólarhring, síðan var tappinn tekinn úr og undanrennunni hleypt niður um gatið. Rjóminn var eftir og var strokkað úr honum smjör. Sauðasmjör var feitara og hvítara en kúasmjör og mjög ljúffengt. Undanrennan var soðin og saman við hana látinn hleypir og þéttir. Hleypirinn var búinn til þannig að vinstur úr kálfi var hreinsað og þurrkað og látið síðan í bleyti. Lögurinn af því var notaður sem hleypir í skyrið. Í þéttinn var notað fínt skyr. Undanrennunni var hellt heitri í tréílát sem kölluðust skyrbiður. Þegar mjólkin var mátulega volg var hleypinum og þéttinum bætt í . Skyrbiðurnar voru úr tré, talsvert viðari en venjulegar fötur og tóku 20 til 30 lítra. Eftir sólarhring var skyrið síað. Á kvíarnar var farið í verstu fötunum sem til voru, gömlum flíkum sem hálfpartinn var búið að slíta. Þau voru ekki kölluð neitt sérstakt. Við mjaltir stóðu konurnar hálfbognar fyrir aftan ána og héldu með vinstri hendi utan um júgrið og mjólkuðu fyrst annan spenann með hægri hönd og síðan hinn. Þær studdu löngutöng öðru megin við spenann og hreyfðu hana ekki en með þumalfingri struku þær mjólkina niður úr spenanum.

Venjulega var mjólkað í tveimur umferðum, fyrst obbinn af mjólkinni, síðan var hreinsað. Þær voru kallaðar fyrirmjölt og eftirmjölt. Ekki þurfti að merkja ærnar, því að þær stóðu alltaf í sömu röð. Kvíamjöltum var hætt í byrjun september. Síðasta mjöltunin kallaðist að hreyta. Stundum var kúamjólk blandað í sauðamjólk í vinnslu. Þegar fé barðist, vissi það á veðrabreytingar. Þegar ær leituðu heim var sagt að það legðist vont í þær.

Fráfærur felldar niður
Fráfærur voru víðasthvar felldar niður fljótlega eftir 1920. Þá var farið að rækta meira landrými og hægt var að fjölga kúm. Fólk var að mörgu leyti fegið þessu, frjálsræði þess óx og lömbin urðu vænni og fallegri.

Mjaltarstúlka

Mjaltarstúlka – Daniel Bruun.

 

Búrfellsgjáarrétt

Fjárréttir á Reykjanesskaganum eru 222 talsins og ekki svo gömul fyrirbrigði. Þær elstu eru frá því í lok 19. og byrjun 20. aldar. Reyndar eru til minjar um eldri réttir, en þær tengjast venjulega rúningum eða fráfærum. Til eru litlar safnréttir, en þá venjulega nálægt bæjum, enda ekki rekið á afrétt fyrr en eftir að selstöðurnar lögðust af um og eftir 1870. Hugtakið „afréttur“ hefur breyst mikið frá fyrri tíð þegar fé var haldið upp frá bæjum á afmörkuðum svæðum uns bændur tóku sig saman og ráku fé upp til heiða í byrjun sumars og söfnuðu því síðan saman að hausti til úrdrátta.

Garðastekkur

Garðastekkur, tóftin óljós lengst til vinstri, og Garðarrétt. Fjárborg ofan við réttina, sennilega frá stekkjartímanum.

Sérhver bóndi hafði fé sitt í seli, að jafnaði frá 6. til 16. viku sumars. Í selinu, sem oftast var ofarlega eða jafn yst á landamerkjum, gætti smali fjárins og selsmatsseljan mjólkaði og vann afurðirnar. Fátt fjár var þá á bæjunum, enda flestir kotbýli er byggðu afkomu sína á útvegi.

Hlíðarborg

Hlíðarborg. Síðar stekkur.

Við endalok selsbúkaparins færðist vinna smalans og selsmatsseljunnar heim á bæ. Selsstekkurinn færðist þangað. Stundum var hann heimfærður upp á „heimasel“. Stekkjartíminn var einhver skemmtilegasti tími vorsins og jafnvel alls ársins. Eftir Jónsmessuna komu fráfærurnar, þá var það einn góðan veðurdag, að ærnar voru reknar heim af stekknum og ekki hleypt til lambanna framar, heldur voru þær mjólkaðar í kvíunum og reknar síðan í haga og setið þar yfir þeim, líkt og í seljunum fyrrum. Sumir heimastekkjanna urðu síðar að réttum. Þannig varð Garðastekkur, sem enn sést þótt grasi gróinn sé orðinn, að rétt fyrir Garðabæina.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Geldfé var hins vegar sleppt á vorin, bæði sauðum og gemlingum, svo snemma sem tök voru á, þar sem það var ekki látið eiga sig úti mestan hluta vetrarins. Því var smalað á vorin, oftast um faradagaleytið, og rúið.
Í dag er „afréttur“ landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé. Þannig hefur búskaparháttum verið varið í u.þ.b. 150 ár á Reykjanesskaganum. Síðustu árin hefur fé í auknum mæli verið haldið í afmörkuðum beitarhólfum. Hefðir og aðferðir hafa breyst frá einum tíma til annars.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – Stekkurinn, síðar rétt.

Á Skaganum eru allmargar grjóthlaðnar fjárréttir, sumar hverjar meistara vel gerðar. Má þar t.d. nefna Vörðufellsréttina, Girðingarréttina og Geitafellsréttina (Gjáréttina) í Selvogsheiði, Bakkarétt og Þingvallarétt, Árnakróksrétt ofan Selvatns, Eldborgarrétt, Arnarfellsrétt og Bæjarfellsrétt í Krýsuvík, Borgarhraunsréttina ofan Ísólfsskála, Búrfellsgjárréttina og Selflatarétt í Grafningi. Nýlegri réttir eru t.d. Fossárréttin í Kjós, Þórkötlustaðaréttin í Grindavík, Hafravatnsrétt og Skógarhólarétt á Þingvöllum.

Stóri-Hamradalur

Rétt í Stóra-Hamradal.

Rúningsréttir má finna víða nálægt bæjum. Fær er rúningsréttin í Stóra-Hamradal, Kálfellsrétt, Þorbjarnarstaðarétt, Straumsrétt, Óttarsstaðarétt og Dísurétt.
Minjar fjárréttanna, þótt þær séu ekki mjög gamlar, eru mikilvægur vitnisburður um búskaparhættina fyrrum og ber því að varðveita sem slíkar. Nokkrar réttanna hafa verið annað hvort eyðilagðar eða beinlíns verið fjarlægðar líkt og Hraunsréttin ofan Hafnarfjarðar og Meðalfellsvatnsréttin í Kjós. Aðrar hafa orðið skógrækt að bráð, s.s. gamla Fossárréttin.
Réttir á Reykjanesskagnum eru 204 talsins. Sjá myndir af mörgum þeirra HÉR.

Heimild:
-Íslenskir þóðhættir, Jónas Jónasson frá Hrafnagili, Ísafoldarprentsmiðja 1961, bls. 172.

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt.