Færslur

Stekkjargil

Neðan Stekkjargils vestan Helgafells í Mosfellsbæ eru tvö upplýsingaskilti. Annað fjallar um plöntur og hitt um búskaparhætti.

Stekkjargil

Stekkjargil – skilti.

Á fyrra skiltinu; “Stekkjargil“, segir m.a.: “Í Stekkjargili eru margar tegundir platna. Hér fyrir neðan eru myndir og lýsingar á nokkrum plöntutegundum sem finna má í gilinu. Gáðu hvort þú finnur þesssa fulltrúa íslenskrar náttúru, sem saman mynda eina heild, á göngu þinni og leggðu útlit jurtarinnar, ilm og viðkomu á minnið. Þá hefur þú örugglega gaman af að finna tegundina aftur og þekkja í næstu gönguferð um náttúru landsins”.
Á skiltinu eru síðan myndir og fróðleikur um Gulmöðru, Holurt, Maríustakk, Ljónslappa, Blóðberg, Friggjargras, Holtasóley, Kornsúru, Mjaðjurt, Tungljurt, Fjalldalafífil og Krossmöðru.

Á síðara skiltinu: “Stekkur“, má lesa eftirfarandi fróðleik: “Við erum stödd neðan við Stekkjargil í austanverðu Helgafelli og grjóthóllinn, sem blasir við okkur heitir Stórhóll. Gilið dregur nafn sitt af fjárstekk frá bænum Helgafelli og má sjá rústir hans hér undir brekkunni. Stekkur er lítil fjárrétt, notaður til að mjalta ær og var þessi stekkur sennilega nýttur fram yfir aldamótin 1900 en var þá stækkaður og breytt í fjárhús eða beitarhús.

Stekkjargil

Stekkjargil – skilti.

Í Stekkjargili eru ágætir bithagar en gróðufar í Mosfellssveit mótast af landslagi og hæð yfir sjávarmáli. Efst eru fellin gróðursnauð en gróðurþekja þéttist þegar neðar dregur, líkt og hér í Stekkjargili.
Jarðvegurinn í Mosfellsbæ er víða frjór og lífrænn og reyndist hentugur til mótekju en mór er jurtaleifar sem var áður fyrr notaður til húshitunar og eldamennsku. Mógrafir voru allvíða í sveitarfélaginu, meðal annars í Stekkjarmýri sunnan við Stekkjargil.
Víða í mýrum sveitarfélagsins má finna leifar af birkilurkum og þeir eru vitnisburður um tvö löng birkitímabil sem runnu upp eftir að ísöld lauk fyrir um 10.000 árum. Eftir landnám hófst mikil landeyðing af ýmsum orsökum og í upphafi 20. aldar var allur skógur horfinn úr Mosfellssveit. Með friðun og skipulagðri skógrækt hefur sveitarfélagið tekið miklum stakkaskiptum síðustu áratugina.

Stekkjargil

Stekkjargil – skilti.

Á fyrri tíð voru ær frá Helgafelli hafðar á beit hér í Stekkjargili en reknar á hverjum degi hingað í stekkinn þar sem þær voru mjólkaðar. Samkvæmt íslenskri þjóðtrú stundaði óboðinn gestur þá iðju að sjúga mjólk úr lambám í stekkjum og fjárhúsum. Það var jólasveinninn Stekkjastaur sem Jóhannes úr Kötlum orti um á þessa leið:

Stekkjastaur kom fyrstur,
stinnur eins og tré.
Hann laumaðist í fjárhúsin
og lék við bóndans fé.

Hann vildi sjúgja ærnar,
-þá varð þeim ekki um sel,
því greyið hafði staurfætur,
-það gekk nú ekki vel.

Stekkjargil

Stekkjargil – Stórhóll t.h.

Selvogsheiði

Í “Safn til sögu Íslands og íslenskra bókmennta að fórnu og nýju“, er kafli eftir Finn Jónsson undir yfirskriftinni “Bæjarnöfn á Íslandi”. Þar fjallar hann m.a. um hugtökin “sel” og “stekk“:

Árbæjarsel

Árbæjarsel á Nónhæð – uppdráttur ÓSÁ.

sel
merkir sumardvalarstað, helst á heiðum eða við fjöll uppi, þar sem ær og kýr eru hafðar á beit og með málnytuna farið, eins og lög gera ráð fyrir; húsakynnin voru ætíð lítil og órífleg, ekki nema 2 herbergi eða svo, enda ekki margt manna að jafnaði. Almennt var »haft í seli« á Íslandi lángt fram eftir öldum, uns það hætti, bæði vegna ódugnaðar og eins hins, að þörfin á að hafa í seli var aldrei eins mikil á Íslandi eins og t. d. í Noregi, nema þá rjett á stöku stöðum.
En nöfnin eru [þó] mjög þýðingarmikil, einmitt fyrir búskap Íslendinga á fyrri öldum. Sel urðu að bæjum (kotum) líkt og fjós o.s.frv.

Ottarsstaðastekkur

Óttarsstaðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

stekkr
er samskonar nafn og Fjós og uppruninn víst hinn sami, bær eða kot byggt upp úr stekk eða við gamlan stekk.
Nöfnin eru tiltölulega ekki svo fá: Eint. Stekkr V. VI. IX. XII. XIII. XV (-inn). Flt. Stekkar V (3; 3) -ir, AM).”

Í “Hinni fornu lögbók Íslendinga sem nefnist Grágás“, 2.b., er kafli um “afrétt” þar sem hugtakið sel kemur við sögu, sbr. “Of afrettu“, XXXVI. Capituli, bls. 302 (illlæsilegur nútímafólki):

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel (Bessastaðasel) – uppdráttur ÓSÁ.

“Eigi scal sel göra i afrett. 2) Ef gört er pa er sel oheilact, oc eigo þeir at briota sel er afrett eigo, enda verdr sa utlagr er sel gördi, eda göra let, vid þa alla er afrett eigo, oc sinni utlegp vid hvern þeirra.
Engi madr scal beita afrett þær vicor II er a midil ero pess er YI vicor ero af sumri oc YIII vicor ero af sumri. Þeir menn er næstir bua afrett eigo at beita avalt afrett hufe sino, nema fra þvi er VI vicor ero af sumri, oc til þess annars dags vico er IY vicor lifa sumars, þvatdaginn apr. Ef menn heita afrett þær vicor 3) er fra ero scildar, þat vardar oc utlegd vid hvern þeirra manna er þann afrett a. Þat vardar oc utlegd, ef menn heita afrett or seliom, 4) [vid hvern] þeirra manna er þann afrett eigo.”
Hér að framan kemur fram að byggi maður sel í afrétt annars skal hann útlægur verða, sýnist þeim svo.

Straumssel

Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.

Hlutaðeigandi ákvæði styrkir verulega þá tilgátu Ómars Smára Ármannssonar, fornleifafræðings, að bændur byggðu oftlega selstöður sínar í jaðri jarða þeirra m.a. til að undirstrika eignarhald þeirra. Ómar birti þessa kenningu sína að undangenginni viðarmikilli skoðun á “Seljum vestan Esju” og birtist í samnefndri BA-ritgerð hans við Háskóla Íslands. Frá því að ritgerðin var gerð árið 2004 hefur hann uppgötvað enn fleirri sel á svæðinu er staðfesta enn frekar þessa kenningu hans.

Í “Skýringum yfir fornyrði lögbókar þeirrar, er Jónsbók kallast“, Landslb 12, bls. 635, er fjallað um sel og selfarir:

Hafnasel II

Hafnasel norðan Krossfjalla – uppdráttur ÓSÁ.

“4) er það víst, að ekki skyldi þá ætla kúm fóður, er skyldugt var í sel að færa úr húshaga, því þá væri ómögulegt að vænta; selhagar skydlu þá grónir á fjöllum uppi, er kúm þyrfti fóður í bygð að ætla; og einn ómögulegra, að verða flytja hey til sels, og mega ei gefa þau í vetrarhús sín, ef ei væru grónir selhagar. Nú er þafi ljóst af Llb. 24.3, hafi skylt er í sel að færa, þegar 2 mánuðir eru af sumri, það er í 9. viku sumar, því alt mánaðatal skal vera þrítugnætt éptir tilætlun lögbókarinnar, eins og áður hefi eg sýnt með rökum um erfitt „tvímánuður“, og þar má lesa, af hverju öllu hugleiddu það eptir fylgir, að þíng þetta, sem Llb. cap. 12. talar um, skuli vera fyrr á vorin, en skyldugt er í sel að fara. Á þess hér að gæta, að þegar lögbókin kom hingað anno 1280, voru liðin ein 17 ár frá því, er Grágás gekk hér fyrir lög, og þess vegna öllum í fersku minni, hafi sein eptir hennar bofiorfium hafið verið lángvarandi venja.”

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Bent skal á að víða á vefsíðunni er fjallað um sel og seljabúskap á Reykjanesskaganum, allt þangað til hann var aflagður í lok 19. aldar.

Heimildir:
-Safn til sögu Íslands og íslenskra bókmennta að fórnu og nýju, “Bæjarnöfn á Íslandi” – Finnur Jónsson, 4. bindi, bls. 474-475.
-Hin forna lögbók Íslendinga sem nefnist Grágás, 2.b., “Of afrettu”, XXXVI. Capituli, bls. 302.
-Skýringar yfir fornyrði lögbókar þeirrar, er Jónsbók kallast, Landslb 12, bls. 635.

Selsvellir

Selin á Selsvöllum – uppdráttur ÓSÁ.

 

Hlíðarborg

Stekkir voru nánast við hvern bæ á Reykjanesskaganum, stundum fleiri en einn. Stekkir í seljum voru jafnan tiltölulega litlir. Endurspegluðu þeir fjölda fjár á hverjum tíma. Eftir að hætt var að hafa fé í seli voru stekkir hlaðnir nær bæjunum. Flestir voru þeir svolítið stærri en hinir. Enn má víða sjá leifar af hlöðnum stekkjum og slíkir uppgrónir eru ekki allfáir. Upp úr sumum þeirra voru hlaðnar fjárborgir. Nokkur dæmi eru um að hlaðnar hafi verið réttir við hlið stekkjanna eftir að fráfærur lögðust af, s.s. við Garðastekk, Óttarsstaðastekk og Þorbjarnarstaðastekk. Gjarnan er bent á réttirnar sem stekkina fyrrum, en svo er alls ekki fyrir að fara. Sennilega er það vegna þess að gömlu grónu stekkirnir eru í dag orðnir ógreinilegar fyrir augum ókunnugra.

Garðastekkur

Garðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Garðastekkur er sunnan undir jaðri Garðahrauns. Hann er orðinn gróinn og líkist fremur aflangri húsatóft en stekk. Ef vel er að gáð má sjá tvíhólfa skiptingu í tóftinni; annað fyrir ær og hitt fyrir lömbin. Austan við stekkinn er nú hlaðin fjárrétt, sem oftar en ekki er nefnd Garðastekkur. Uppi á hraunbrúninni er gömlu fjárborg, sennileg frá stekkstíðinni.

Garðastekkur

Garðastekkur efst til hægri.

Óttarsstaðastekkur er norðan undir Miðmundarhæð. Á hæðinni er Miðmundavarða, eyktarmark frá Óttarsstöðum. Stekkurinn er algróinn, en þó vel greinanlegur. Hann hefur verið að svipaðri stærð og Garðastekkur. Vestan við stekkinn er grjóthlaðinn rétt með lambakró/lambhúsi innanvert.

Óttarsstaðastekkur

Óttarsstaðastekkur – stekkurinn er hægra megin við réttina.

Þorbjarnarstaðarstekkur, oftast nefndur Stekkurinn, er norðan undir Stekkatúnshæð. Þar var Stekkatúnið með Stekksgerðinu. Gamli stekkurinn sést enn vel, hlaðinn úr grjóti, en nokkuð gróinn. Gerðið er sunnan við stekkinn. Vestan við stekkinn var síðan hlaðin rétt. Innst í henni er lambakró.
Hér á eftir verður lýst verklagi í og við stekkinn forðum.

Óttarsstaðastekkur

Óttarsstaðastekkur.

Stekkur
Stekkir voru venjulega hlaðnir úr grjóti, en líka úr torfi og grjóti. Í stekknum var stíað. Hann var tvískiptur og var lengri á annan veginn. Stundum voru náttúrlegar aðstæður nýttar til stekkjargerðarinnar að hluta. Yfirleitt var stekkurinn ekki langt frá bænum eftir að selstöðurnar lögðust af í lok 19. aldar, kannski í 10.-15 mín. fjarlægð. Stekkurinn var tvískiptur; annars vegar fyrir ærnar, sem mjólka átti, og hins vegar fyrir lömbin eftir að stíað var frá. Lambhús var sumstaðar fyrir endanum á stekknum, hlaðið úr torfi og grjóti, þó aðallega úr grjóti. Ekki var ræktað tún í kringum stekkinn en þar greri upp og varð grænna en annars staðar, vegna húsdýraáburðarins.

Stekkjatíð

Þorbjarnastaðastekkur

Þorbjarnastaðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Stíað var í viku til hálfan mánuð, byrjað var í miðjum júní og undir mánaðarmótin voru lömbin tekin frá mæðrum sínum fyrir fullt og allt. Talað var um að fara á stekkinn eða fara ofan á stekk. Lambféð var rekið á stekk um 9 leitið á kvöldin. Ærnar voru reknar inn í stekkinn og lömbin færð inn í stíuna. Síðan var ánum hleypt út og þær voru næturlangt í kringum stekkinn, þær höfðu að éta þar og fóru hvergi meðan þær heyrðu í lömbunum. Lömbin fengu broddmjólkina úr ánum og þegar byrjað var að stía var mjólkin orðin nógu góð til að hægt væri að nota hana í hvað sem var, enda var hún nýtt á svipaðan hátt og kvíamjólkin. Lömbin voru yfirleitt ekki mörkuð yngri en viku gömul en eftir það voru þau mörkuð, hvar sem náðist í þau. Börnum var oft gefið fráfærulamb á stekk en ekkert sérstaklega smalanum. Börnum var bannað að kyssa lömb, því að þá gat tófan bitið þau.

Kvíar

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðastekkur. Stekkurinn efst vinstra megin.

Kvíað var í fjárrétt sem hlaðin var úr grjóti. Í einum dilknum í réttinni voru kvíærnar mjólkaðar. Fyrir dilk var sett grind og hann síðan kallaður kvíar. Réttin var notuð til að rétta í henni um haustgöngur og við rúning á sumrin. Oft var réttin líka fyrir nærligghjandi kot eða bæi. Mikil for var í gólfinu og lausagrjót saman við. Réttin var skammt utan við tún og var aðeins nokkurra mínútna gangur þangað. Taðið var ekki hreinsað út, enda mikið grjót saman við úr gólfinu en þetta greri upp strax og hætt var að mjólka.

Komið er heim á kvíaból
kýrnar, féð og smalinn.

Nátthagi

Óttarsstaðastaðasel

Óttarsstaðasel – nátthagi.

Yfirleitt var nátthagi skammt frá stekknum eða kvíabólinu, stundum fleiri en einn. Nátthaginn var skjólgóð hvylft eða lægð í landslaginu. Hlaðið skjól fyrir smalann var við suma nátthaga eða lagaður hraunskúti.

Mjólkurær og lömb

Þórustaðaborg

Þórustaðir – stekkur.

Lömbin voru u.þ.b. mánaðar gömul þegar fært var frá. Málbærar voru þær ær kallaðar sem báru á réttum tíma. Misjafnt var hvort fært var frá öllum málbærum ám. Frekar var fært frá ám með gimbrum, því að fráfærulömb voru oftast sett á, svo og ám með sérlega stórum lömbum. Lömb sem fæddust seint voru kölluð síðborin lömb. Lambgotur voru þær ær sem báru dauðu, þær voru mjólkaðar ef þær voru heimavið til þess þær geltust ekki. Þegar vanið var undir var bjórinn tekinn af dauða lambinu og settur á lambið sem venja átti undir. Ef ær týndi lambi og það fannst ekki var yfirleitt erfitt að venja undir hana, var þó stundum reynt að taka hana inn með lambinu. Lömb sem villtust undan voru kölluð frávillingar og þau sem þrifust illa voru kölluð vanþrifalömb.

Fráfærur

Ás

Ás – stekkur.

Fráfærur var notað um atburðinn að færa frá og tímann sem ær voru mjólkaðar í kvíum. Þegar fært var frá var rekið inn í stekkinn og lömbin sett út. Á óþæg lömb sem ekki vildu fylgja hópnum var snúið saman lambahaft úr ull. Það var sett á framfæturna og var hvert haft bara notað einu sinni. Lömbin voru höfð heima hálfa aðra viku. Voru þau ýmist höfð inni eða setin, þar sem ærnar heyrðu ekki í þeim meðan þau voru að spekjast, annars var hætta á að þau týndust. Síðan voru þau rekin á afvikinn stað í nágrenninu, oft í dalkvos. Geldfé var ekki rekið á fjall með lömbunum, það fór fljótt eftir rúning. Staðurinn sem lömbin voru rekin í var kallaður afrétt. Lömb voru ekki setin á afréttinni. Í undantekningatilfellum voru lömb kefluð.

Hjáseta

Smalaskáli

Smalaskáli í Smalaskálahæð.

Starfið að sitja yfir, kallaðist hjáseta. Orðið búsmali var gjarnan notað um smalann. Sá sem sat yfir fénu á sumrin kallaðist smali. Yfirleitt var eitthvað af börnum húsbónda látið sinna smalastarfinu. Ekki fékk smalinn neitt sérstakt sumarkaup, né önnur hlunnindi fram yfir önnur börn á heimilinu. Smalinn hafði með sér hund ef hann var við og það sem til féll í nesti, bar hann með sér í smápoka. Sniðugir smalar komu sér upp afdrepum. Þeir leituðu sér skjóls í skútum og ef vont var hrófluðu þeir stundum hærra, gömlum tóftarbrotum til að skýla sér í en reftu ekki yfir. Smalar voru notaðir í ýmsa aðra snúninga sem til féllu. Smalar urðu að passa að koma með allt féð heim að kveldi og að láta það ekki vera of þétt saman meðan því var beitt. Setið var yfir fénu frá því um níuleytið á morgnana til níu á kvöldin, fram að mánaðamótum ágúst-september. Setið var yfir í öllum veðrum. Smalarnir fundu út hvað tímanum leið eftir því hvar sólin var stödd. Þegar hún hvarf innundir var orðið framorðið og mál að halda heim. Eftir mjaltir voru ærnar bældar. Þá var orðið áliðið og mál fyrir smalann að fara að sofa.

Kvífé

Smalaskjól

Smalaskjól.

Efnahagur fólks var ógjarnan miðaður við eign í kvífé. Þó voru dæmi þess. Mylkar ær í kvíum kölluðust kvíær. Ær sem sóttu í tún voru kallaðar túnarollur og oft þurfti að vaka yfir túninu til að verjast þeim. Oft var eitur sett í gömul hræ út á víðavangi fyrir tófuna en því var hætt vegna þess að það kom fyrir að hundar drápust af eitrinu. Farið var á greni á vorin til að drepa tófu. Bjöllur voru ekki hengdar á kvífé en þær voru oft hengdar á forystusauði til þess að sauðamaðurinn ætti hægara með að fylgjast með fénu.

Mjaltir

Smali

Smali við færikvíar.

Notaðar voru blikkfötur og tréfötur við mjaltir. Þær voru svipaðar að stærð, c.a. 10 lítra. Þær voru hvorar tveggja heldur víðari að ofan en neðan. Föturnar voru ekki misjafnar að stærð en þær voru nokkuð margar í brúkinu í einu. Þær voru kallaðar skjólur. Eftir að mjólkin hafði verið borin úr kvíunum var hún látin í trébakka, mjólkurbakka. Mjólkin var látin standa í sólarhring, síðan var tappinn tekinn úr og undanrennunni hleypt niður um gatið. Rjóminn var eftir og var strokkað úr honum smjör. Sauðasmjör var feitara og hvítara en kúasmjör og mjög ljúffengt. Undanrennan var soðin og saman við hana látinn hleypir og þéttir. Hleypirinn var búinn til þannig að vinstur úr kálfi var hreinsað og þurrkað og látið síðan í bleyti. Lögurinn af því var notaður sem hleypir í skyrið. Í þéttinn var notað fínt skyr. Undanrennunni var hellt heitri í tréílát sem kölluðust skyrbiður. Þegar mjólkin var mátulega volg var hleypinum og þéttinum bætt í . Skyrbiðurnar voru úr tré, talsvert viðari en venjulegar fötur og tóku 20 til 30 lítra. Eftir sólarhring var skyrið síað. Á kvíarnar var farið í verstu fötunum sem til voru, gömlum flíkum sem hálfpartinn var búið að slíta. Þau voru ekki kölluð neitt sérstakt. Við mjaltir stóðu konurnar hálfbognar fyrir aftan ána og héldu með vinstri hendi utan um júgrið og mjólkuðu fyrst annan spenann með hægri hönd og síðan hinn. Þær studdu löngutöng öðru megin við spenann og hreyfðu hana ekki en með þumalfingri struku þær mjólkina niður úr spenanum.

Venjulega var mjólkað í tveimur umferðum, fyrst obbinn af mjólkinni, síðan var hreinsað. Þær voru kallaðar fyrirmjölt og eftirmjölt. Ekki þurfti að merkja ærnar, því að þær stóðu alltaf í sömu röð. Kvíamjöltum var hætt í byrjun september. Síðasta mjöltunin kallaðist að hreyta. Stundum var kúamjólk blandað í sauðamjólk í vinnslu. Þegar fé barðist, vissi það á veðrabreytingar. Þegar ær leituðu heim var sagt að það legðist vont í þær.

Fráfærur felldar niður
Fráfærur voru víðasthvar felldar niður fljótlega eftir 1920. Þá var farið að rækta meira landrými og hægt var að fjölga kúm. Fólk var að mörgu leyti fegið þessu, frjálsræði þess óx og lömbin urðu vænni og fallegri.

Mjaltarstúlka

Mjaltarstúlka – Daniel Bruun.

 

Búrfellsgjáarrétt

Fjárréttir á Reykjanesskaganum eru ekki svo gömul fyrirbrigði. Þær elstu eru frá því í lok 19. og byrjun 20. aldar. Reyndar eru til minjar um eldri réttir, en þær tengjast venjulega rúningum eða fráfærum. Til eru litlar safnréttir, en þá venjulega nálægt bæjum, enda ekki rekið á afrétt fyrr en eftir að selstöðurnar lögðust af um og eftir 1870. Hugtakið “afréttur” hefur breyst mikið frá fyrri tíð þegar fé var haldið upp frá bæjum á afmörkuðum svæðum uns bændur tóku sig saman og ráku fé upp til heiða í byrjun sumars og söfnuðu því síðan saman að hausti til úrdrátta.

Garðastekkur

Garðastekkur, tóftin óljós lengst til vinstri, og Garðarrétt. Fjárborg ofan við réttina, sennilega frá stekkjartímanum.

Sérhver bóndi hafði fé sitt í seli, að jafnaði frá 6. til 16. viku sumars. Í selinu, sem oftast var ofarlega eða jafn yst á landamerkjum, gætti smali fjárins og selsmatsseljan mjólkaði og vann afurðirnar. Fátt fjár var þá á bæjunum, enda flestir kotbýli er byggðu afkomu sína á útvegi.

Hlíðarborg

Hlíðarborg. Síðar stekkur.

Við endalok selsbúkaparins færðist vinna smalans og selsmatsseljunnar heim á bæ. Selsstekkurinn færðist þangað. Stundum var hann heimfærður upp á “heimasel”. Stekkjartíminn var einhver skemmtilegasti tími vorsins og jafnvel alls ársins. Eftir Jónsmessuna komu fráfærurnar, þá var það einn góðan veðurdag, að ærnar voru reknar heim af stekknum og ekki hleypt til lambanna framar, heldur voru þær mjólkaðar í kvíunum og reknar síðan í haga og setið þar yfir þeim, líkt og í seljunum fyrrum. Sumir heimastekkjanna urðu síðar að réttum. Þannig varð Garðastekkur, sem enn sést þótt grasi gróinn sé orðinn, að rétt fyrir Garðabæina.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Geldfé var hins vegar sleppt á vorin, bæði sauðum og gemlingum, svo snemma sem tök voru á, þar sem það var ekki látið eiga sig úti mestan hluta vetrarins. Því var smalað á vorin, oftast um faradagaleytið, og rúið.
Í dag er “afréttur” landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé. Þannig hefur búskaparháttum verið varið í u.þ.b. 150 ár á Reykjanesskaganum. Síðustu árin hefur fé í auknum mæli verið haldið í afmörkuðum beitarhólfum. Hefðir og aðferðir hafa breyst frá einum tíma til annars.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – Stekkurinn, síðar rétt.

Á Skaganum eru allmargar grjóthlaðnar fjárréttir, sumar hverjar meistara vel gerðar. Má þar t.d. nefna Vörðufellsréttina, Girðingarréttina og Geitafellsréttina (Gjáréttina) í Selvogsheiði, Bakkarétt og Þingvallarétt, Árnakróksrétt ofan Selvatns, Eldborgarrétt, Arnarfellsrétt og Bæjarfellsrétt í Krýsuvík, Borgarhraunsréttina ofan Ísólfsskála, Búrfellsgjárréttina og Selflatarétt í Grafningi. Nýlegri réttir eru t.d. Fossárréttin í Kjós, Þórkötlustaðaréttin í Grindavík, Hafravatnsrétt og Skógarhólarétt á Þingvöllum.

Stóri-Hamradalur

Rétt í Stóra-Hamradal.

Rúningsréttir má finna víða nálægt bæjum. Fær er rúningsréttin í Stóra-Hamradal, Kálfellsrétt, Þorbjarnarstaðarétt, Straumsrétt, Óttarsstaðarétt og Dísurétt.
Minjar fjárréttanna, þótt þær séu ekki mjög gamlar, eru mikilvægur vitnisburður um búskaparhættina fyrrum og ber því að varðveita sem slíkar. Nokkrar réttanna hafa verið annað hvort eyðilagðar eða beinlíns verið fjarlægðar líkt og Hraunsréttin ofan Hafnarfjarðar og Meðalfellsvatnsréttin í Kjós. Aðrar hafa orðið skógrækt að bráð, s.s. gamla Fossárréttin.
Réttir á Reykjanesskagnum eru 204 talsins. Sjá myndir af mörgum þeirra HÉR.

Heimild:
-Íslenskir þóðhættir, Jónas Jónasson frá Hrafnagili, Ísafoldarprentsmiðja 1961, bls. 172.

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt.