Helgi Páll Jónsson skrifaði ritgerð um “Eldfjallagarð og jarðminjasvæði á Reykjanesskaga” við jarðvísindadeild Háskóla Íslands 2011. Hér má sjá þann hluta af ritgerðinni er fjallar um einstaka staði innan slíks svæðis:
“Í ritgerðinni er fjallað um jarðminjasvæði á Reykjanesskaga í tengslum við uppbyggingu eldfjallagarðs á svæðinu. Farið er yfir landfræðilega legu skagans, jarðfræðirannsóknir og fjallað almennt um ástæður eldvirkninnar. Helstu jarðmyndunum eldfjallalandslagsins er lýst og fjallað er um jarðfræðilega fjölbreytni, jarðfræðilega arfleifð og jarðfræðitengda ferðaþjónustu sem mun gegna veigamiklu hlutverki í eldfjallagarði verði hann byggður upp á svæðinu. Megininntak ritgerðarinnar er lýsing á 14 jarðminjasvæðum á skaganum sem kæmu til greina sem lykil- eða ítarsvæði í eldfjallagarði, verði ákveðið að skipuleggja hann úr frá slíku svæðisvali.
Reykjanes
Reykjanes er í jarðfræðilegu tilliti merkasta svæðið á Reykjanesskaga, þar sem Atlantshafshryggurinn rís úr sæ. Í fjörunni vestur af Valahnúkum er að finna rofnar gígleifar sem eru til marks um sprungugos sem varð bæði í sjó og á landi samtímis. Magnús Á. Sigurgeirsson hefur lýst þessum gosviðburðum í grein sinni um yngra Stampagosið á Reykjanesi sem átti sér stað í goshrinu Reykjaneselda um 1226, en Magnús byggir rannsóknir sínar einkum á athugunum á gjóskulögum. Frá gígunum sem kallast Stampagígar-Yngri er Yngra-Stampahraunið runnið, en það er yngsta hraunið á svæðinu. Í þessu gosi myndaðist einnig Miðaldalagið sem er útbreitt gjóskulag á Reykjanesskaga og þykkast við Reykjanes.
Yngri-Stampagígar tilheyra gígaröð sem er sú vestari af tveimur gígaröðum sem þarna ganga inn til landsins frá sjónum, en gosvirkni hefur verið bundin við hana síðustu tvö þúsund árin á meðan ekki hefur gosið á hinni austari í þrjú þúsund ár. Gígaraðirnar stefna í NA-SV frá Kerlingarbás og inn til lands og fylgja þannig algengustu stefnu sprungna á Reykjanesskaga.
Gígarnir í austari gígaröðinni nefnast Stampagígar-Eldri og frá þeim hefur Eldra-Stampahraunið runnið. Víðáttumesta hraunið á Reykjanesi nefnist Tjaldstaðargjárhraun. Það er skammt austur af Eldra-Stampahrauni og hefur runnið frá gígum sem eru í beinu framhaldi af Eldri-Stampagígum. Rannsóknir með gjóskulögum og geislakoli hafa leitt í ljós að þessi síðastnefndu hraun hafa að öllum líkindum myndast í gosum fyrir um 2000 árum en Tjaldstaðagjárhraun hefur þó runnið eitthvað fyrr en Eldra-Stampahraunið.
Á Reykjanesi eru tvær dyngjur sem eru af ólíkum aldri en þó líklega báðar myndaðar í upphafi nútíma. Stærri dyngjan er Skálafell og basaltið í henni er af ólivínþóleiít gerð. Frá Skálafelli hafa hraun runnið ofan á hraun eldri dyngjunnar sem nefnist Háleyjarbunga, en í henni er basaltið af pikrít gerð. Í fjörunni austan við Háleyjarbungu hefur sjórinn rofið dyngjuna og má þar sjá afar fróðlegar opnur sem gefa innsýn inn í hvernig dyngjan er byggð upp. Háhitasvæði er á Reykjanesi og kemur að vel fram á yfirborði en þar er að finna hveravirkni og litskrúðugar ummyndanir á yfirborði.
Háhitasvæðið er nýtt af Hitaveitu Suðurnesja sem þarna hefur sett upp jarðvarmavirkjun en inni í húsakynnum hitaveitunnar er sýningarsalur þar sem er orkusýning. Saltverksmiðja var reist á þessu svæði eins og áður hefur verið minnst á en hún er ekki í rekstri og eru mannvirkin sem henni fylgja eru nokkuð lýti á þessu svæði.
Mælt er með Reykjanesi sem jarðminjasvæði í eldfjallagarð fyrst og fremst vegna sérstakrar jarðfræðilegrar legu og tengsla við Atlantshafshrygginn en ekki síður vegna fróðlegra jarðmyndana sem þar er að finna.
Í fjörunni skammt vestan Valahnúks má fá innsýn í hvernig jarðlög hlaðast upp við neðansjávargos eða Surtseysk gos (nefnd eftir gosinu sem myndaði Surtsey árið 1963) sem mynda gjóskugíga af hverfjallsgerð. Söguleg hraun, dyngjur, gígaraðir og háhitasvæði eru á svæðinu og er landslagið allt mjög mótað af mikill eldvirkni. Auk þess gefst þarna kostur á að kynna sér nýtingu jarðhitans vegna jarðhitavirkjunarinnar sem þar er til staðar. Sprungumyndunin á svæðinu er lýsandi fyrir gliðnun milli jarðskorpufleka og eru fá svæði á jörðu, fyrir utan Afar sigdalinn í Austur-Afríku, þar sem jafn auðvelt er að skoða slíkar jarðfræðilegar aðstæður. Fremur auðvelt aðgengi er víða um Reykjanes, en um það liggja vegir og slóðar og eru til að mynda bílastæði og upplýsingaskilti til staðar við Valahnúk og útsýnispallar við húsakynni orkuveitunnar.
Hafnarsandur
Á Hafnarsandi rétt austan við Stóru-Sandvík, er svæði þar sem sprungur eru sérstaklega áberandi á yfirborði. Sprungurnar liggja í dyngjuhraunum sem runnið hafa frá Sandfellshæð í austri og Langhól rétt norðan við svæðið. Landrekið hefur síðan opnað sprungur í hraunið þar sem gjár hafa myndast. Gjárnar eru breiðar, nokkrar rúmir 40 m á breidd en dýptina er erfiðara að ákvarða þar sem margar þeirra eru að fyllast af sandi, en á þessu svæði er sandfok mikið og hraunið víðast hvar orðið slípað og matt vegna sandroksins. Sprungusvæðið liggur einnig í grágrýtishrauni frá dyngjunum Berghól norðan við svæðið og frá dyngjunni Sandfellshæð sem nánar verður fjallað um síðar. Val á þessu svæði fyrir eldfjallagarð byggðist fyrst og fremst á hinum sýnilegu og stórbrotnu sprungum sem þar eru.
Talið að svæðið gæti vel hentað vel til að gera grein fyrir gliðnun jarðskorpuflekanna og þeim ferlum sem því fylgja. Önnur helsta ástæða fyrir vali svæðisins er að þarna hefur þegar verið komið upp aðstöðu fyrir ferðamenn með hinni svonefndu Álfubrú, sem er göngubrú yfir eina sprunguna og einskonar minnisvarði um flekaskilin á Reykjanesskaga. Við brúnna hefur verið komið fyrir bílastæði sem gerir svæðið mjög aðgengilegt og er það þegar orðin að vinsælum viðkomustað á Reykjanesskaga. Svæðið gæti einnig hentað vel sem æfingasvæði í sprungukortlagninu t.d. fyrir jarðfræðinema.
Eldvörp-Sandfellshæð
Eldvörp er stórbrotin gígaröð sem liggur norðvestur af Grindavík. Hún stefnir NA-SV og er hún um 10 km á lengd. Dyngjan Sandfellshæð liggur rétt vestur af gígaröðinni, en hún er stærsta og reglulegasta dyngja á utanverðum Reykjanesskaga.
Norðan Sandfellshæðar er Sandfell sem er lítið fell, að mestu úr bólstrabrotabergi og þar norðan við er svo önnur dyngja er nefnist Lágafell. Hraun á Eldvarpasvæðinu tengjast eldgosum frá tveimur tímaskeiðum eldsumbrota. Á fyrra tímaskeiðinu hefur hraun runnið frá Sandfellshæð, líklega í upphafi nútíma eða fyrir 12.500 árum síðan. Ofan á Sandfellshæðarhraunið leggst síðan Eldvarpahraunið, sem runnið hefur frá gígaröðinni og hafa rannsóknir sýnt fram á að þetta hraun rann í Reykjaneseldum.
Reykjaneseldar geisuðu á tímabilinu 1211-1240, en Eldvarpahraun er líklega frá árinu 1226 líkt og Stampahraun-Yngra á Reykjanesi, Arnarseturshraun og Illahraun við Svartsengi. Sandfellshæðardyngja er eldri en dyngjan Lágafell, því hraun frá Sandfellshæð hafa runnið yfir hraun frá Lágafelli. Lágafell er pikrít-dyngja líkt og Háleyjarbunga á Reykjanesi.
Svæði við Eldvörp og Sandfellshæð voru valin sem jarðminjasvæði í eldfjallagarð af nokkrum ástæðum. Þar er til dæmis einfalt að sýna fram á ákveðna tímaröð jarðlaganna á svæðinu og bera kennsl á hvernig mismunandi eldvörp hafa gosið á mismunandi tíma.
Önnur ástæða er hin langa og stórbrotna gígaröð sem liggur á svæðinu en hún hefur að mati höfundar hátt verndargildi en er þó ekki friðuð sem náttúruvætti. Skammt austur af Sandfellshæð liggur háhitasvæði í gígaröðinni og er þar að sjá gufuaugu og ummyndunarskellur í gígunum. Þar hefur nú verið sett niður borstæði þar sem er blásandi jarðhitahola, en af henni er talsverður hávaði sem gefur til kynna orkuna á svæðinu. Borframkvæmdum hefur fylgt vegalagning þannig að auðvelt aðgengi er að háhitasvæðinu auk þess sem gönguleið liggur meðfram gígunum og gerir göngu um umhverfi gígana einfalda.
Þarna er mikill fjölbreytileiki gjall- og klepragíga, og hraunmyndana sem vert er að skoða. Svæði í kringum Eldvarpagígaröðina og Sandfellshæðardyngju er tiltölulega afskekkt þótt stutt sé í bæði í Grindavíkurkaupstað og baðstaðinn Bláa lónið sem er einn vinsælasti viðkomustaður ferðamanna á Reykjanesskaga.
Það væri því mögulegt að vekja meiri athygli á fróðlegu jarðfræðilegu umhverfi svæðisins t.d. fyrir þá ferðalanga sem viðkomu hafa í baðstaðnum vinsæla.
Hrólfsvík-Festarfjall
Hrólfsvík er grýtt fjara sem liggur innan stærri víkur, Hraunsvíkur, skammt austur af Grindavík. Rétt norður af þessu svæði eru Vatnsheiðardyngjur, en þær eru sömu gerðar og dyngjurnar Háleyjarbunga á Reykjanesi og Lágafell norðan Sandfellshæðar þar sem bergtegundin er pikrít basalt. Í Hrólfsvík er að finna hraunlag úr pikríti sem inniheldur talsvert magn af hnyðlingum (eða framandsteinum) úr djúpbergstegundinni gabbrói, en þeir hafa borist upp um gosrás við eldgos. Undir hraunlaginu er einnig móbergslag þar sem töluvert er um samskonar hnyðlinga.
Hnyðlingar eru rannsóknarviðfangsefni innan bergfræðinnar þar sem þeir eru taldir veita upplýsingar um uppruna úthafsbasalts (úthafsþóleiíts). Um bergfræðilega tilurð hnyðlingana í Hrólfsvík hefur Ingar A. Sigurðsson ritað í námsritgerð sína og skal nánar vísað til skrifa hans um það efni. Hnyðlingar finnast reyndar víða á Reykjanesskaga, en hvergi munu þeir þó finnast í jafnmiklum mæli og í Hrólfsvík. Ekki er nákvæmlega vitað hvaðan hraunlagið í Hrólfsvík er komið en það gæti verið komið frá Vatnsheiðardyngjum norðan við víkina, eða verið rofleif af gamalli eldstöð sem að tengist Festarfjalli skammt austur af víkinni og sjórinn hefur nú brotið niður.
Þegar gengið er austur eftir Hraunsvíkinni frá Hrólfsvík, er komið að móbergsklettum með mjórri sandfjöru neðan við sem nefnist Hraunssandur eða Ægissandur.
Skammt austar er Festarfjall, sem er 190 m hátt og rofið af sjónum til hálfs. Rétt við Festarfjall er hægt að komast niður í sandfjöruna og má þar sjá fróðlegar jarðmyndanir, s.s. rauðleit gjalllög sem hraun hefur runnið yfir, jökulberg, bergganga, auk jarðlagastafla þar sem skiptast á basalthraun og móbergslög frá jökulskeiðum og hlýskeiðum ísaldar.
Hrólfsvík er valin sem svæði í eldfjallagarð fyrst og fremst vegna hnyðlinganna sem eru bergfræðilega forvitnilegir og varðveita ákveðna upplýsingar um kvikuna og bergið sem upp kemur í eldgosum á skaganum. Víkin og umhverfi hennar er því fróðlegur staður og þá sérstaklega fyrir fræðimenn á sviði bergfræði og skyldum greinum. Fjaran við Festarfjallið er afar fróðleg vegna jarðlaganna sem þar er að finna auk þess sem hún er skemmtilegt göngusvæði, en sjávargangur verður þó að vera með minnsta móti. Aðgengi að fjörunni þyrfti að bæta ef svæðið ætti að verða aðdráttarafl í eldfjallagarði og fara skyldi með varúð undir háa klettana þar sem talsverð hætta er þarna á grjóthruni og augljós ummerki eru um hrun úr Festarfjalli og móbergsklettunum ofan fjöruna.
Méltunnuklif
Méltunnuklif kallast svæði á milli Grindavíkur og Krýsuvíkur sem liggur í Ögmundarhrauni. Svæðið lætur ekki mikið yfir sér, en við akveginn sem liggur framhjá því er opna þar sem finnast nokkuð athyglisverðar jarðmyndanir.
Í rannsóknum sínum á jarðfræði Reykjanesskaga hafa jarðfræðingarnir Jón Jónsson og Freysteinn Sigurðsson sérstaklega lýst jarðlögum við Méltunnuklif. Í opnunni er að finna þrjú grágrýtishraunlög og að minnsta kosti tvö jökulbergslög inni á milli þeirra. Efst í þessum jarðlagastafla er svo að finna móberg.
Hraunlögin eru jökulrákuð við efri lagmót. Méltunnuklif geymir því nokkrar „blaðsíður” í jarðsögu Reykjanesskagans ef svo má að orði komast.
Jökulbergið ber vitni þess, að minnsta kosti tvisvar sinnum hafa jöklar gengið yfir þetta svæði. Hraunlögin benda til að svæðið hafi síðan orðið íslaust og eldgos með tilheyrandi hraunrennsli hafi átt sér stað.
Móbergið efst í syrpunni bendir til að jöklar hafi gengið yfir svæðið í þriðja skipti og eldsumbrot hafi orðið undir jökli. Í þessari opnu eru því ummerki um þrjú hlýskeið og þrjú jökulskeið sem orðið hafa á Reykjanesskaga. Önnur sérkennileg myndun á þessu svæði er misgengi og djúp gjá í Katlahrauni, sem rekja má um 2 km til suðvesturs frá opnunni.
Í Skála-Mælifelli sem liggur rétt vestur af Méltunnuklifi er einnig að finna jarðsögulega merkilegt hraunlag með öfuga segulstefnu, tengda er við skammlífan viðsnúning í segulstefnu jarðar fyrir um 43 þúsund árum. Hefur hraunið því runnið um það leyti. Þessi viðsnúningur segulsviðsins er kenndur við Laschamp í Frakklandi, en þar finnast jarðlög tengd þessu skeiði auk þess sem þau finnast á Nýja-Sjálandi og víðar.
Keilir-Keilisbörn
Keilir er líklega þekktasta fjall á Reykjanesskaga, en fjallið er mjög reglulega lagað og formfagurt á að líta. Hæð fjallsins er þó ekki mikil, eða 379 m yfir sjó.
Keilir er myndaður við gos undir jökli, sennilega á stöku gosopi eða stuttri sprungu þar sem hann er hvorki stapa- eða hryggjarmyndun. Fjallið stendur upp úr Þráinsskjaldarhrauni og sker sig nokkuð úr fjallamyndinni þegar horft er yfir Reykjanesskaga úr fjarska. Norðan Keilis eru lægri hnúkar sem nefnast Keilisbörn og eru einnig úr móbergi. Á toppi fjallsins hefur verið komið fyrir útsýnispalli og gestabók en útsýni af toppi fjallsins er afar mikið yfir Reykjanesskaga.
Í Keili og Keilisbörnum er ekki mikil fjölbreytni jarðmyndana þar sem fjallið er að öllu leyti gert úr móbergi. Þegar hinsvegar móbergið er skoðað nánar og þegar gengið er niður fjallið að norðanverðu eru talsvert fjölbreytt rofform í móberginu og áhugavert að skoða samsetningu þess.
Keilir er valin sem jarðminjasvæði inn í eldfjallagarð einkum vegna þess að hann er einkennisfjall á Reykjanesskaga og vekur mikla eftirtekt vegna forms síns vegna. Hann hefur þannig einnig nokkuð táknrænt gildi fyrir Reykjanesskagann auk þess að vera vinsælt göngufjall og útivistarsvæði sem auðvelt er að komast að.
Trölladyngja-Sog
Trölladyngja er fjall norðarlega í vesturhluta Núpshlíðarháls, en hún liggur rétt austur af Höskuldarvöllum og er vel gróið svæði. Norðan við Trölladyngju er Eldborg, gígur sem nú er löngu skemmdur vegna efnistöku. Skammt sunnan við Trölladyngju er nokkur lægð í landslagið og er þar litskrúðugt háhitasvæði sem kallast Sog og er grasi gróið allt um kring. Í Sogunum er ekki mikil yfirborðsvirkni jarðhita en fróðlegar rofmyndanir er þar að finna í ummynduðu berginu. Þegar gengið er upp úr Sogunum að sunnanverðu og haldið til austurs, fæst útsýni yfir Móhálsadal á milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls.
Eldfjallalandslagið í dalnum er tilkomumikið og þar er mikið um fjölbreytileg eldvörp, gíga, gígaraðir og nútímahraun. Hugsanlega er eitt tilkomumesta útsýni fyrir eldfjallalandslagið á Reykjanesskaga á þessu svæði. Þarna eru nokkur minniháttar stöðuvötn eða tjarnir í landslaginu. Djúpavatn liggur í dalverpi skammt suðaustur af Sogum og minni vötn sem nefnast Grænavatn (sunnar) og Spákonuvatn (norðar) liggja upp á hálsinum sjálfum en líklega hefur eldgos úr gíg stíflað upp lítið dalverpi og myndað tjörnina sem kallast Spákonuvatn.
Vestan við Núpshlíðarhálsinn er eldfjallalandslagið ekki síður tilkomumikið. Þar er til að mynda að finna einn sérstæðasta gíg á Reykjanesskaga er Jón Jónsson hefur nefnt Moshól.
Gígurinn er afar reglulegur og stendur mosavaxin upp úr grasi grónu sléttlendinu. Það er nokkuð lýti á þessu sérstæða náttúrufyrirbæri að reynt hefur verið að aka upp á gíginn að norðanverðu og þar hefur mosakápan skemmst nokkuð. Gígurinn er dæmi um eldvarp sem höfundur telur að ætti að njóta sérstakrar verndar þó ekki væri nema vegna fagurfræðilegs gildis.
Eftir því sem haldið er í norður frá gígnum í átt að Trölladyngju eru það ýmsar gígmyndanir sem hraun hafa flætt úr á sögulegum tíma og runnið upp að móbergshryggjunum. Þessu svæði hefur nú verið raskað verulega með lagningu vega og slóða auk þess sem borstæði hefur verið komið fyrir á svæðinu og má leiða að því líkum að þetta dragi talsvert úr náttúrulegri upplifun á eldfjallalandslagi svæðisins.
Svæðið var valið sem jarðminjasvæði í eldfjallagarð þar sem þar er hægt að sjá þar afar fjölbreytt eldvörp og litskrúðugt háhitasvæði á nokkuð stuttri og auðveldri göngu. Í öðru lagi er gróðursæld svæðisins sérstök og gefur eldfjallalandslaginu sérstaka ásýnd. Svæðið er nokkuð afskekkt og útsýni er stórbrotið þegar gengið er upp frá háhitasvæðinu og eftir móbergshryggnum.
Grænavatn-Seltún
Grænavatn er sprengígur í Krýsuvík. Gígurinn tilheyrir þyrpingu sprengigíga í Krýsuvík sem eru yfir 6000 ára gamlir. Annar sprengigígur rétt við Grænavatn er Gestsstaðavatn. Þess má þó geta þess að Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur lýsir Gestsstaðavatni ekki sem sprengigíg heldur sem dauðísmyndun eða jökulkeri og telur þannig vötnin tvö af gjörólíkum uppruna. Sprengigígar myndast í sprengigosum þar sem lítið er um gjóskumyndun og gosefnin eru aðallega gosgufur og vatnsgufur.
Hægt er að ganga hringinn í kringum vatnið meðfram fjöruborði gígsins, en fróðleg hraunlög eru á austurbakkanum en þar er hraunlag með gabbróhnyðlingum. Vatnið í gígnum hefur sérstakan grænan lit sem mun vera vegna kísils og brennisteins sem í því er. Grænavatn er sérstætt eldvarp og því talið vera ágætt dæmi um jarðminjasvæði í eldfjallagarði og ætti að vekja þar nokkra eftirtekt.
Seltún er vinsæll viðkomustaður í háhitasvæðinu í Krýsuvík og er mjög fjölsóttur ferðamannastaður. Helsta aðdráttarafl svæðisins er yfirborðsvirkni jarðhitans og má þar sjá litskrúðugar ummyndunarskellur og leirhveri. Á þessu svæði þarf þó að fara gætilega því jarðhitasvæði með hveravirkni geta reynst varhugaverð ef göngufólk og ferðafólk gáir ekki að sér, en þegar hefur verið komið upp viðvörunarskiltum og göngupöllum í Seltúni. Bílastæði eru bæði við Seltún og Grænavatn og aðgengi að svæðunum auðvelt.
Stóra-Eldborg
Á Reykjanesskaga eru nokkrir gígar af eldborgargerð og er einn sá reisulegasti þeirra staðsettur undir móbergsstapanum Geitahlíð. Eldborgir hlaðast upp á gosopi þar sem lítið er um kvikustrókavirkni, en hraunslettur mynda háa gígbarma. Eldborgirnar undir Geitahlíð eru í raun tvær, Stóra-Eldborg og Litla-Eldborg en þeirri síðarnefndu hefur verið raskað verulega með efnistöku. Litla-Eldborg er í raun gígaröð af hraunklepra og gjallgígum og ætti því síður að tala um hana í eintölu líkt og Stóru-Eldborg. Eldborgirnar eru ekki af sama aldri og hraunið sem rann frá Litlu-Eldborg er mjög ólíkt hrauninu frá Stóru-Eldborg að samsetningu. Stóra- Eldborg er þó einnig partur af gígaröð sem stefnir SV-NA sem má greinilega sjá þegar staðið er upp á henni. Þegar komið er upp á Geitahlíð heldur þessi gígaröð þar áfram í sömu stefnu.
Hraunið frá eldborgargígunum báðum hefur runnið til sjávar og út frá Stóru-Eldborg liggja nokkrar hrauntraðir. Eldborg er eins og áður hefur komið fram friðað náttúruvætti. Jón Jónsson jarðfræðingur rannsakaði þessar gígmyndanir sérstaklega og lýsir Stóru-Eldborg á eftirfarandi hátt: “Stóra Eldborg er einhver fegursti hraungígurinn á öllu Suðvesturlandi hún er yfir 50 m há yfir næsta umhverfi og gígurinn er um 30 m djúpur. Borgin er hlaðin úr hraunkleprum og gjalli og hin fegursta náttúrusmíði.”
Eldborgir eru sjaldgæf eldvörp utan Íslands, þótt Stóra-Eldborg sé ekki eina eldborgin á Reykjanesskaga eða á landinu. Hún er þegar friðað náttúruvætti og er það áberandi gígmyndun að hún vekur eftirtekt hjá hverjum ferðalangi, sem áhuga hefur á náttúrunni og fer um veginn sunnan við Geitahlíð. Að þessu leyti á Stóra-Eldborg undir Geitahlíð fullt erindi sem jarðminjasvæði í Eldfjallagarði.
Hrútagjárdyngja
Við norðanverðan Sveifluháls er Hrútagjárdyngja, eitt sérstæðasta eldvarp sem finnst á Reykjanesskaga. Jón Jónsson kortlagði dyngjuna og lýsir henni svo í Árbók Ferðafélags Íslands 1984: “Það er afar stór og mjög sérkennileg eldstöð sem ekki á sinn líka á Reykjanesskaga og ekki þekki ég annað eldvarp þessu líkt. Hingað til hef ég kennt það við Hrútagjá en það er sprunga í annarri hlið þessarar miklu eldstöðvar. Dottið hefur mér í hug að e.t.v. mætti nefna eldstöð þessa Eldriða en skýring þess nafns kann að reynast hæpin.
Ljóst er að nafnið Eldriði hefur ekki haldist um þetta eldvarp, en Hrútagjárdyngja er með sanni furðulegt eldvarp og hefur afar sérstæða lögun. Eins og nafnið gefur til kynna er um að ræða dyngjumyndun og hefur hraun frá henni líklega breiðst yfir um 100 km2 lands (3-4 km3) allt til sjávar á milli Vatnsleysustrandar og Hafnarfjarðar fyrir rúmlega 5000 árum. Það sem einkum gerir Hrútagjárdyngju svo sérstaka er að hún er umkringd gjám á þrjá vegu og er sú stærsta þeirra að vestanverðu og er nefnd Hrútagjá.”
Hvernig nákvæmlega Hrútagjárdyngja og gjárnar í kringum hana eru til orðnar er ekki að fullu þekkt en Jón Jónsson setur fram eftirfarandi tilgátu um myndun dyngjunnar: “Sennilega hefur hraunið komið upp á tveim stöðum, þ.e. þar sem stóri hraungígurinn nú er og þar sem sigketillinn er. Gosið hefur verið hægfara og yfirborð hraunsins hefur storknað fljótt. Hraunkvikan hefur haldið áfram að streyma upp undir þaki úr storku og á þann hátt hefur myndast hraunbunga, sem fljótandi hraunkvika var undir.
Nú er tvennt til: Annað hvort hefur það hraun fengið örvaða útrás einhvers staðar svo að það hefur streymt út en hraunstorkan við það sigið niður og sprunga myndast allt í kring, eða þá að hraunið hefur í lok gossins sigið niður í gosopið, en við það sígur hraunsléttan öll, gjárnar myndast umhverfis hana og jafnframt sigketillinn, sem áður er getið, en hann er vafalítið yfir gosopi.
Að dæma af útliti aðal gígsins hefur að gosinu loknu gígbotninn í heild sigið.
Af ofangreindu má ráða að Hrútagjárdyngja er með forvitnilegri eldvörpum á Reykjanesskaga og er atburðarrásin í kringum myndun hennar nokkur ráðgáta. Ekki hefur höfundur fundið neinar heimildir um frekari rannsóknir sem hafa farið fram varðandi myndun Hrútagjárdyngju. Væri hún eflaust heppilegt viðfangsefni fyrir nemendur í eldfjallafræðum í eldfjallagarði.”
Kleifarvatn
Sveifluháls er einn mesti móbergshryggur á Reykjanesskaga en austan hans og rétt norðan við Krýsuvík liggur stöðuvatnið Kleifarvatn. Krýsuvíkurvegur liggur eftir Sveifluhálsinum austanverðum og meðfram vesturbakka vatnsins. Á þessu svæði frá Miðdegishnúki að Hellutindum eru mjög fjölbreyttar ásýndir móbergs og má þar sjá fróðlegar opnur inn í móbergsmyndun Sveifluhálsins. Svæði sem þetta gæti t.d. verið tilvalið til kennslu (t.d. fyrir jarðfræðinema) um móbergsmyndanir og samspil eldvirkni og jökulíss en líklega eru fá svæði jafn aðgengileg í þeim tilgangi og einmitt þarna við vesturbakka Kleifarvatns. Þarna er hægt að skoða uppbyggingu og samsetningu móbergsmyndana, lagskiptingu, bólstrabrot og bergganga sem ganga í gegnum móbergið. Rofform móbergsins eru fjölbreytt og víða mikið sjónarspil því að móbergið er auðrjúfanlegra en storkubergið. Svæði sem þetta er hér talið hafa talsvert fræðslugildi í eldfjallagarði því móbergsmyndanir eru einna sýnilegastar hér á landi og eru þarna talsvert fjölbreyttar á ekki stærra svæði.
Brennisteinsfjöll-Grindaskörð
Brennisteinsfjöll liggja suðaustur af Kleifarvatni og eru eitt víðáttumesta svæðið á Reykjanesskaga. Brennisteinsfjöll eru hraunaflæmi prýdd fjölbreyttum eldvörpum sem myndast hafa á eldstöðvarkerfinu sem kennt er við fjöllin. Apalhraun og helluhraun þekja mestan hluta svæðisins. Þarna eru mikil hraunaflæmi sem runnið hafa bæði til norðurs og suðurs meðal annars steypst fram af Herdísavíkurfjalli í hraunfossum og þaðan runnið ofan í sjó.
Í helluhrauninu er mikið um hella, stórbrotnar hrauntraðir og niðurföll. Margir reisulegir gígar eru á svæðinu en mesta jarðfræðilega undrið verður þó að telja Kistufell sem er afar sérstæð gígmyndun. Gígveggirnir eru stuðlaðir og hafa yngri hraun runnið inn gíginn. Jafn sérstætt eldvarp og hér um ræðir hefur að mati höfundar mikið verndargildi og spurning hvort slíkt eldvarp ætti ekki að njóta algjörrar friðunar.
Lítið háhitasvæði er í Brennisteinsfjöllum sem sýnir ekki miklar virkni á yfirborði en kemur fram í gufuaugum og ummyndunarskellum á yfirborði.
Helgi Torfason og Magnús Á. Sigurgeirsson, jarðfræðingar, hafa gert úttekt á háhitasvæðinu í Brennisteinsfjöllum í ritgerð þeirra segir meðal annars um fjölbreytileika svæðisins: “Gígaraðir og einstakir gígar, hrauntraðir og hraunhellar, niðurföll í hraunum og ólíkir hraunstraumar gera þetta svæði mjög sérstakt til rannsókna og skoðunar á slíkum myndunum […] Við rannsóknir á jarðhita með borunum á þessum slóðum þarf að taka tillit til umhverfisins auk mikillar umbrotasögu svæðisins, en þar hefur oft verið umbrotasamt og lega mannvirkja þarf að taka mið af því. Þá þarf að huga vel að því að spilla ekki sérstæðri náttúru svæðisins.”
Í Grindaskörðum er einnig fjöldi reisulegra gíga. Þegar komið er upp úr skarðinu er þar allnokkuð misgengi og sigdalur. Í sigdalnum að norðan eru áhugaverðir gígar á gígaröð en sunnar er dalurinn þakin helluhrauni sem er afar auðvelt að ganga eftir. Mestur gíga á þessu svæði er sá sem Jón Jónsson hefur nefnt Gráfeld en frá honum hefur Selvogshraun runnið. Grindaskörð tengjast einnig brennisteinsnámi sem stundað var í Brennisteinsfjöllum um skeið og á sér nokkuð fróðlega sögu.
Í pistli Sveins Þórðarsonar um brennisteinsvinnslu á Íslandi vísar hann í rit Páls Eggerts Ólasonar prófessors, Saga Íslendinga, en þar segir: “Var Ísland snemma frægt brennisteins land, og er það til marks, að í tilraunum Danakonungs til að veðsetja landið er því einkum til gildis talið, að þar séu gnægðir miklar af brennisteini. Var þetta þá arðvænleg verzlunarvara, enda nauðsynleg hernaðarþjóðum til púðurgerðar, eins og hún fór þá fram”.
Agnes Stefánsdóttir (2008) fjallar nokkuð um Brennisteinsnámið í Brennisteinsfjöllum í skýrslu um fornleifaskráningu á svæðinu. Þar segir að Jón Hjaltalín landlæknir hafi rannsakað brennisteinsnámur árið 1851.
Fann hann fjórar námur í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvík sem síðar voru keyptar af Englendingnum J. W. Busby fyrir tilstuðlan Jóns. Námastígurinn liggur af Grindaskarðavegi meðfram Draugahlíðum og niður í Námahvamm, en þar sést ennþá rúst Námamannaskálans og ummerki námugraftarins.
Brennisteinninn var unnin bæði í Krýsuvík og Brennisteinsfjöllum, en brennisteinninn úr Brennisteinsfjöllum þótti hreinni og virtist hagkvæmara að flytja hann, þar sem styttri vegalengd var þaðan til Hafnafjarðar. Það reyndist þó örðugra að komast að Brennisteininum í Brennisteinsfjöllum þar sem hann lá undir nærri metra þykku hraunlagi. Fluttur var inn vír frá útlöndum sem áætlað var að strengja frá fjallsbrún niður á jafnsléttu. Var þetta gert til að sleppa við að flytja brennisteininn á hestum niður Kerlingaskarð. Vírinn reyndist hinsvegar of þungur til að flytja hann upp í Brennisteinfjöll og varð því aldrei neitt úr þessum áformum og fór að draga út brennisteinsvinnslunni eftir þetta. Það tók um 12-14 tíma að flytja brennistein á hesti til Hafnafjarðar og var borguð ein króna (þess tíma) á hvern hestburð.
Ljóst er af ofansögðu að Brennisteinsfjöll eru einstakt jarðminjasvæði og ættu að vera mikið aðdráttarafl í eldfjallagarði á Reykjanesskaga, bæði vegna mikils fjölda eldvarpa og ekki síður vegna menningarminja. Brennisteinsfjöll liggja nokkuð afskekkt og eru fremur óaðgengileg því þangað liggja engir akvegir. Svæðið myndi því henta vel fyrir ferðafólk sem vill njóta ósnortins víðernis og náttúru og í lengri ferðum og upplifa stórbrotnar hraunmyndanir, eldvörp og eldfjallalandslag.
Búrfell
Búrfell er gígur sem er staðsettur skammt austan við Hafnafjörð og myndar nyrsta gíginn í Krýsuvíkur- eða Trölladyngjukerfinu. Gígurinn er af eldborgargerð, en frá honum liggur einhver lengsta hrauntröð á Íslandi sem er Búrfellsgjá. Mikil misgengi eru auk þess á svæðinu við Búrfell og er Hjallamisgengið þeirra mest. Árni Hjartarson skiptir gossögu Búrfells í fjóra þætti eða lotur sem hér segir:
1. Straumsvíkurlota: þá rann Búrfellshraun til suðvesturs í átt að Kaldárbotnum og niður til sjávar hjá Straumsvík og þar í grennd. Hraunið er nú hulið yngri hraunum.
2. Lambagjárlota: Hraunið rennur niður með Ásfjalli og nær hugsanlega til sjávar utan við Hamarinn í Hafnafirði. Þarna myndaðist Lambagjá sem er hrauntröð við Kaldárbotna.
3. Urriðavatnslota: Hraun fyllir sigdalinn neðan við Búrfell og tekur að renna niður með Vífilsstaðahlíð. Það stíflar uppi Urriðavatn og nær til sjávar bæði við Hafnafjörð og í Arnarnesvogi. Hraunrennslið hefur verið langvarandi og þarna myndast Búrfellsgjáin sem meginfarvegur hraunsins frá gígnum.
4. Goslok: Hraunrennsli hættir í Búrfellsgjá og hraunrennsli hefst til suðurs frá gígnum um undirgöng. Þá verða til hrauntjarnir sem tæmast svo í goslok og mynduðu Kringlóttugjá. Gosið hefur líklega staðið í 1-2 ár þar sem hrauntraðir og hellar þurfa nokkurn tíma til að myndast.
Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur ritaði ítarlega grein um Búrfellshraun og lét gera aldursgreiningar á gróðurleifum undan því og ofan af því.
Árni Hjartarsson umreiknar þessar aldursákvarðanir yfir í raunaldur og sýna niðurstöðurnar að Búrfellshraun er líklega um 8000 ára og hefur því runnið um 6000 f. Kr. Sjávarstaða hefur á þessum tíma verið um 10 m lægri og eru því ystu mörk hraunsins neðan sjávarborðs í dag.
Nokkrar hrauntraðir hafa myndast í eldsumbrotunum sem mynduðu Búrfell. Elsta tröðin nefnist Lambagjá og liggur niður hjá Kaldárseli en yngst er Kringlóttagjá sunnan við Búfellsgíginn.
Búrfellsgjáin er þó sú hrauntröð sem vekur mesta eftirtekt og mun eiga fá sína líka á Íslandi. Veggir traðarinnar eru oft 5-10 m háir og sumsstaðar slútandi þannig að víða hafa myndast skjólríkir skútar sem áður fyrr var notað sem afrep fyrir sauðfé í vondum veðrum, en þar finnast einnig gamlar seljarústir og minjar um forna búskaparhætti. Búrfell og Búrfellsgjár eru jarðminjar um eldgos sem myndað hefur sérstæð eldvörp, Búrfellsgíg og Búrfellsgjánna. Í gjánni eru einnig menningarminjar og er svæðið þegar orðið afar vinsælt útivistar og göngusvæði sem á tvímælalaust heima sem jarðminjasvæði í eldfjallagarði.
Þríhnúkagígur
Það eldvarp á Reykjanesskaga sem hefur líklega fengið meiri umfjöllun en nokkuð annað sem mögulegt aðdráttarafl í eldfjallagarði er Þríhnúkagígur. Þríhnúkagígur er staðsettur á milli Grindaskarða og Stóra-Kóngfells skammt norðvestan við skíðasvæðið í Bláfjöllum.
Lítið var vitað um tilurð hinnar miklu hvelfingar eða hellis ofan í gígnum fyrr en sigið var ofan í hann árið 1974. Fyrstur til að síga í hellinn var Árni B. Stefánsson, augnlæknir og hellakönnuður sem lýsir hellinum í grein í tímaritinu Náttúrufræðingnum. Sigdýptin í hvelfingunni í hellinum er um 120-130 m og er þvermálið á botni hennar um 50 m. Nákvæma lýsingu á umfangi hellisins er að finna í áðurnefndri grein Árna þar sem ítarlega er fjallað um sigferð í hellinn. Í seinni tíð hefur Árni komið fram með þær hugmyndir að bora í Þríhnúkagíg í þeim tilgangi að kynna almenningi innihald hvelfingarinnar.
Nokkur svæði á Íslandi eru friðuð sem náttúruvætti vegna sérstöðu sinnar og sé Þríhnúkagígur í slíkum sérflokki sem raun ber vitni, jafnvel einstakur á heimsvísu, má spyrja hvort að ekki væri skynsamlegra að vernda hann algjörlega í stað þess að bora í hann? Samkvæmt Umhverfisstofnun eru 34 svæði á Íslandi friðlýst sem náttúruvætti en um þau segir: “Náttúruvætti eru sérstæðar náttúrumyndanir, s.s. fossar, eldstöðvar, hverir, drangar, hellar og hraun, ásamt fundarstöðum steingervinga og merkilegra steinda. Náttúruvætti eru mörg þess eðlis að á þeim hvílir almenn helgi og markmið friðlýsingar er að koma í veg fyrir jarðrask.”
Þríhnúkagígur er ekki friðaður sem náttúruvætti en liggur innan Bláfjallafólkvangs sem nýtur friðunar upp að ákveðnu marki. Ljóst má vera að borun í gíginn er rask á eldvarpinu og borframkvæmdir munu hafa jarðrask í för með sér. Sumir hraunhellar landsins eru lokaðir gagnvart átroðningi vegna þeirra dropasteinsmyndana sem þar er að finna og má spyrja hvort slík lokun ekki einnig að gilda um Þríhnúkagíg þar sem hvergi annarsstaðar á Íslandi er vitað um sambærilegar jarðminjar? Á annað borð mætti ef til vill benda á þau rök að engin vissi af innviðum Þíhnúkagígs ef ekki hefði verið sigið í hann og frægð hans myndi aukast ef borað væri í hann og innihaldið sýnt almenningi. Það myndi jafnvel glæða áhuga á jarðfræði nærliggjandi svæðis og vera eitt mesta aðdráttarafl í eldfjallagarði. Þetta gæti verið eitt sjónarmið fyrir borun í gíginn. En gæti verið að Þríhnúkagígur yrði jafnmikið aðdráttarafl ósnertur ef einfaldlega yrði kynnt hvað leyndist í gígnum? Yrði dulúð hans þá meiri og væru ferðalangar og ævintýramenn hugsanlega tilbúnir að borga fyrir dýrar sigferðir ofan í hellinn? Eða á hellirinn einfaldlega að vera öllum opinn? Hvort væri betra í eldfjallagarði á Reykjanesskaga?
Hér að ofan hefur verið velt upp ýmsum spurningum hvað varðar borun í Þríhnúkagíg en tekið skal skýrt fram að ekki er verið að taka afstöðu til þess hvort borun í gíginn sé réttlætanleg. Það sem helst vakir fyrir höfundi með ofangreindum vangaveltum er að borun í Þríhnúkagíg á erindi við umræðuna um verndun jarðminja og náttúruvernd. Má vel vera að borunin sjálf gæti leitt til aukinnar verndunar svæðisins og nánasta umhverfi þess. Sjálfsagt er þó að allar hliðar málsins séu skoðaðar. Það er þó ljóst að Þríhnúkagígur hvort
sem borað verður í hann eða ekki, á mikið erindi í eldfjallagarð sem stórbrotið eldvarp og jarðminjasvæði.”
Heimild:
-Eldfjallagarður og jarðminjasvæði á Reykjanesskaga, Helgi Páll Jónsson, Jarðvísindadeild Háskóli Íslands 2011.