Færslur

Másbúðir

Kíkt var á svæðið norðan Helguvíkur, Selvík og Hellisnípu. Áð var við vitann á nípunni og síðan haldið áfram suður með Stakksnípu að Helguvík. Ofan af Stakksnípu blasti kletturinn Stakkur við, skörfum þakinn. Hinn víðfeðmi Stakksfjörður dregur nafn sitt af klettinum. Tengist nafngiftin sögunni af Rauðhöfða (Melabergsmanninum) er brá svo við orð hinnar ókunnugu konu í

Hólmsbergsviti

Hólmsbergsviti.

Hvalsneskirkju eftir nokkra forsögu að hann tók undir eins á rás frá kirkjunni og heim til sín. Ekki stóð hann þar við, heldur æddi sem vitstola norður eftir þangað til hann kom fram á Hólmsberg sem er fyrir vestan Keflavík, en berg það er fram við sjó, býsna hátt og þverhnípt. Þegar hann kom fram á bergsbrúnina staldraði hann við. Varð hann þá allt í einu svo stór og þrútinn að bergið sprakk undir fótum honum og hljóp fram klettur mikill úr hamrinum. Stakkst maðurinn þar fram af í sjóinn og varð í sama augnabragði að feikilega stórum hvalfiski með rauðan haus því maðurinn hafði haft rauða húfu eða hettu á höfðinu þegar hann brást í hvalslíkið. Af þessu var hann síðan kallaður Rauðhöfði. En kletturinn sem fram hljóp með hann í sjóinn stendur enn fram í sjónum austarlega undir Keflavíkurbergi og er kallaður Stakkur.

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes – letursteinn.

Þá var haldið að nesjum á Romshvalanesi og gengið í Másbúðarhólma. Í honum má enn sjá hleðslur gamla bæjarins, garðana og hornrétta grjótgarða, sem notaðir voru til að hlífa bátum þegar gert var út frá Hólmanum alveg fram á byrjun 20. aldar.
Á leiðinni út í Hólmann var gengið um gamla steinbrú, sem liggur í sveig frá landi, milli klappa og út í hann. Sigurbjörn Stefánsson, ábúandi í Nesjum, sem var með í för, sýndi hópnum áletranir á klöpp í Hólmanum, en þar er m.a. klappað á einum stað ANN°1696 og á öðrum stað JJM.
Þá sýndi Sigurbjörn hópnum Kóngsvörina og gekk síðan með honum að Másbúðarvörðu.

Másbúðir

Hústóft í Másbúðarhólma.

Lýsti hann staðháttum og fyrrum bæjarstæðum á leiðinni. Nesjaréttin, sem getið er í örnefnaskrám, ofan við Réttarvik er horfin. Sjórinn hefur náð að krækja í hana. Þá lýsti Sigurbjörn staðháttum við Landavörðuna, sem er vestan við bæinn, og hvernig hún var notuð sem mið við Keili á Landasundinu.
Sagt er að Másbúðir hafi verið landnámsjörð og borið nafn af landnámsmanninum er Már hét. Síðan braut sjórinn landið umhverfis og hann varð aðskilinn landi, nema í fjöru. Þá lagðist verstaðan af, en býli hélst þó fram að aldamótum 1900. Þá flúði kotbóndinn undan sjógangi. “Er þar nú eyðihólmi; sjást aðeins rústir kotsins og dálítill túnblettur í kring uppi á hólnum” – BJ/1902.

Másbúðarhólmi

Tóft í Másbúðarhólma.

Magnús Þórarinsson skrifar um Másbúðarhólma í bókina “Frá Suðurnesjum”, sem gefin var út árið 1960. Þar segir hann m.a.:

“Þar er Másbúðarvarða, gild og gömul mjög, á háum kletttanga, sem er norðvestur úr Fitinni… innan ekki mjög langs tíma mun Másbúðarvarða standa á klettinum úti á sjó á flóði. Sunnan við vörðuna er breitt sandvik, en sunnan við vikið hefir staðið fjárrétt Nesjamanna, stór og vel hlaðin; dregur vikið nafn af réttinni og kallast Réttarvik…. Másbúðir, sýnist mér, hafa verið fornmerkur staður og stórbýli á sinni blómatíð. Þar var oftast fjölmennt, einkum á vertíðum. Þar var konungsútgerð, við Másbúðir er sundið kennt og sundvarðan stóra og myndarlega, sem enn stendur, umhirðulaus um langa tíð… Másbúðir hafa verið höfuðbólið á þessum slóðum á fyrri tíð.

Másbúðarhólmi

Kóngsvörin.

Másbúðarhólmi, sem nú er stór eyðiklettur úti í sjó, 80-100 faðma frá sjávarkampi fyrir ofan, var áður áfastur við land og virðist hafa verið víðátta graslendis, sem nú er þangi vaxin fjara….
Á 17. öld hefir Másbúðarhólmi hlutast frá fastalandinu, en þangað til var samgróið tún á öllu því fjörusvæði, sem nú er milli lands og Hólma…

Síðasti búandi á Másbúðum var Jón Jónsson, frá 1884 til 1895…. Í Hólmanum má finna Kóngsvör. Sáust þar kjölför í klöppunum fram undir síðustu aldamót, en munu varla greinast nú. Eitt ártal er höggvið í klappir þar – 16 hundruð og eitthvað -. Um 1890 var rótað upp gömlum öskuhaug, sem var þar í númunda við bæinn og fannst þá heilmikið af brotnum krítarpípum… Sjávarhúsin stóðu flest vestan við bæinn, þar var Hólminn hæstur. Þar var líka hróf skipanna. Þar var traustur tvíhlaðinn grjótgarður, vinkillagaður, sem var skipunum til öryggis fyrir veðrum og sjógangi.

Másbúðarhólmi

Steinbrúin í Másbúðarhólma.

Útgerð lauk í Másbúðarhólma fyrir 50 árum. Hólminn er að fjarlægjast fastalandið, hægt en öruggt…En Másbúðarhólmi er harður haus og verður til langt fram í aldir og loks grynning, sem boði fellur á, og það verður stór boði, hvert nafn sem hann kann að fá.
Ætlunin er að Sigurbjörn gangi með FERLIR næsta vor um Stafnes, Básenda, Þórshöfn og Gamla-Kirkjuvog.
Farið var að Fuglavík og hús tekin á Magnúsi og Jónínu. Þar var Fuglavíkursteinninn barinn augum öðru sinni (Sjá FERLIR-202).

Stúlknavarða

Stúlknavarða.

Haldið var að Bræðrum og Smala norðvestan Melabergs, en þjóðsagan segir að þar hafi Melabergsbræður orðið að steini sem og allt fé þeirra. Sjá má steinalíkin norðan vegarins skammt vestan við bæinn.
Í bakaleiðinni var stöðvað við Stúlkuvörðuna vestan Reykjanesbrautar á Njarðvíkurheiði. Á klöpp undir vörðunni er klappað ártalið 1773 sem og bókstafir ofan þess (AGH). Talið er að nafngiftin á vörðunni og áletranirnir undir henni séu komin til vegna þess að ung stúlka, sem föður sínum á rjúpnaveiðum, hafi orðið þarna úti í vondu veðri.
Veður var nú bjart og stillt.

-Úrdrátturinn úr sögunni af Rauðhöfða er fenginn af vefsíðu Bókasafns Reykjanesbæjar.

Másbúðarhólmi

Másbúðarhólmi – letursteinn.

Stóra-Knarrarnes
Í bók Árna Óla, Strönd og Vogar, úgt. 1961, er m.a. fjallað um leturstein hjá Stóra-Knarrarnesi á Vatnseysuströnd (bls. 216-229). Benjamín Halldórsson benti Árna Óla á steinninn í samtali, sem þeir áttu saman í herbergi 402 á Hrafnistu, dvalaraheimili aldraðra sjómanna, þ.e. “grágrýtisstein með áletrun”.

Knarrarnes

Árni Óla heimsótti síðan Ólaf Pétursson, bónda á Stóra-Knarrarnesi, sem vísaði á steininn við garðshliðið. Um var að ræða jarðfastan grágrýtisstein, um metri á lengd og toppmyndaður. Steinninn var allur þakinn skófum, sem voru samlitar honum. “Með aðgæzlu mátti þó lesa upphaf fyrstu línu: “17 HVNDRVD…” og svo nafnið “HIARNE EIOLFSSON” í neðstu línu. En þar á milli sá aðeins móta fyrir staf og staf”.
Í manntalinu 1703 er Bjarnir Eyjólfsson sagður búa að Stóra-Knarrarnesi, sem þá var einbýli.
Árni taldi sig loks hefa getað lesið eftirfarandi áletrun af steininum:

Knarrarnessteinninn17 HVNDRVD SEIAST
AR SEN ÞO FIOGUR RI
ETT I VON SO ÞA CIORDE
SEM HIER STAAR SA HIET
BIARNE EIOLFSSON.

Gísli Sigurðsson í Minni-Knarrarnesi hafði heyrt þetta vers í æsku sinni (f. 1850-60). Vísan hafi verið svona:

17 hundruð segjast ár,
senn þó fjögur rétt í von,
svo þá gjörði sem hér stár
sá hét Bjarni Eyjólfsson.

Áletrun þessi mun því vera um 300 ára gömul. Árið 1707 bjó Bjarni þessi enn á Stóra-Knarrarnesi, skv. þinggjaldabók, og ekki er ólíklegt að hann hafi einnig búið þar árið sem ártalið var klappað í “brúarsteininn” (1790) á gamla kirkjuveginum vestan Kálfatjarnar (sjá Kálfatjörn – letursteinn (A°1790)).

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes.

 

Fornistekkur

Gengið var um Kúadal, yfir að Þórustaðaborg, niður að Knarrarnesi og síðan að Kálfatjörn. Í leiðinni var litið á letursteina við heimkeyrsluna að Stóra-Knarrarnesi og í brú á gömlu götunni að Kálfatjarnarkirkju.

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes – letursteinn.

Stuttu ofan og sunnan við Arnarbæli á Vatnsleysuströnd er klapparholt og þar í djúpri gróinni kvos er fallegur stekkur, sem líklega heitir Ásláksstaðastekkur. Fjárgirðingin liggur austan stekksins, en kvosin sjálf heitir Kúadalur. Skammt vestan við Arnarbæli er stekkur í lágri grasbrekku, sem snýr mót norðvestri. Sá heitir Fornistekkur.
Tekin var stefnan í austurátt á Rauðstekk og síðan yfir að Litlastekk. Báðir eru þeir grónir upp, en enn sést móta vel fyrir þeim í heiðinni. Bein lína er úr þeim í Þórustaðaborgina. Hún kúrir á milli gróinna hraunhola ofan við Þórustaði í Kálfatjarnarheiði.

Vogaheiði

Sel í Vogaheiði

Gróðurinn í heiðinni er tiltölulega einhæfur og er grámosinn ríkjandi með góðu gróðurblettum innan um. Heiðina prýða margar lyngtegundir, s.s. krækiberjalyng, sortulyng, beitilyng og blóðberg. Bláberjalyng vex svo til eingöngu við og í nýrri hraununum, Afstapahrauni og Skógfellahrauni, svo og í Hvassahraunslandi. Aðalbláberjalyng finnst á stöku stað uppi til fjalla. Einihríslur sjást á nokkrum stöðum í heiðinni, en sjaldan bera þær aldin. Þó gerðist það sumarið 2004, enda óvenju hlýviðrasamt. Burkni vex víða í gjám og getur orðið risavaxinn og þar er burnirótin aldrei langt undan. Blómplönturnar, sem vaxa í heiðinni eru helstar þessar; geldingahnappur, holtasóley, lambagras, holurt, músareyra og melablóm. Grasgeirar eða svokallaðar lágar, eru víða við hóla og eins eru grasrindar í skjóli undir gjárveggjum.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – letursteinn (skósteinn).

Frá borginni var gengið beint að heimkeyrslunni að Knarrarnesi. Þar við hliðið að Stóra-Knarrarnesi er letursteinn. Á hann er klappað ljóð, sem innifelur bæði höfundarnafn og ártal. Gengið var eftir gömlu götunni að Kálfatjarnarkirkju. Í steinbrú áður en komið er að túngarðinum vestan túnsins (nú golfvallarins) er hlaðin steinbrú. Í henni er ferhyrndur skósteinn með ártalinu A°1790 klappað í. Þaðan er stutt yfir að kirkjunni. Skósteinar munu hafa verið til nálægt kirkjum. Kirkjugestir munu hafa skipt þar um skótau, farið úr farskónum, geymt þá þar, og klætt sig í spariskóna í tilefni athafnarinnar. Slík var virðingin borin fyrir guðsorðinu í þá daga.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Þórustaðaborg

Þórustaðaborg.