Færslur

Stóra-Kóngsfell

Húsfellsbruni er samheiti nokkurra hrauna umleikis og ofan Húsfells í landi Garðabæjar, s.s. Hólmshraunin, Strípshraun, Rjúpnadyngjuhraun, Eyrarhraun og Kóngsfellshraun. Ekkert hraunanna er komið frá Húsfelli. Fellið það er í rauninni saklaust af nafngiftinni, stóð bara þarna eftir að hafa fyrrum áður fæðst undir jökli samfara hánu sinni Helgafelli og Valahnúkum á millum.

Húsfellsbruni

Húsfellsbruni – upptökin við Stóra-Kóngsfell (Kóngsfell). Ruglingur nafngiftarinnar er vegna þess að Kóngsfell er til ekki víðs fjarri, sem og Litla-Kóngsfell. Þá er “Kóngsfell” sýnt á kortum fyrrum, en átti að vera “Konungsfell”. Eftir stendur nefnt “Stóra-Kóngsfell”. Örnefnaruglingur þessi hefur verið tilefni til landamerkjadeilna og dómsmála í gegnum tíðina.

Flest eru brunahraunin svonefndu frá mismunandi tímaskeiðum runnin niður að Húsfelli úr gígum vestan við Kóngsfell (Stóra-Kónsgfell) norðvestan Bláfjalla. Stærsti gígurinn þar er Eldborg austan Drottningar.

Húsfellsbruni er örnefni sem nær yfir mörg nútímahraun og tvö söguleg hraun, Mið-Húsfellsbruna og Elsta-Húsfellsbruna, sem talin eru hafa runnið árið 950. Hraunin hafa þó hlotið önnur örnefni. Hraunið er á köflum úfið, brotið og þakið mosa. Í Húsfellsbrununum leynast eldri hraun, eins og Strípshraun og Stampahraun, sem eru oft töluvert meira gróin. Þá er einnig mikið um gjótur og niðurföll á svæðinu sem sjást vel þegar flogið er yfir svæðið.

Litluborgir

Litluborgir – gervigígur.

Í hrauninu austan og sunnan við Helgafell er að finna fjölda gervigíga og kynjamyndir sem að öllum líkindum hafa myndast þegar Hellnahraun rann yfir grunnt vatn á svæðinu í kringum árið 950. Hluti af svæðinu hefur verið nefnt Litluborgir en þar er að finna áhugaverðar hraunborgir og hraunmyndanir. Sunnan Helgafells er Skúlatúnshraun.

Húsfellsbruna er getið í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar um “Garðakirkjuland”: “Sunnan Einihlíðar er Húsfellið fyrrnefnda, og kringum Húsfell heitir Húsfellsbruni. Norður af því heita Grænulautir. Vestur frá Húsfelli er gamalt fróðlegt eldfjall, sem heitir Búrfell.”

HúsfellsbruniÍ “Rannsókn á Kóngsfellshrauni með fjarkönnun og landupplýsingum“, sem Tryggvi Már Sigurjónsson gerði í Jarðvísindadeild Háskóla Íslands 2021, segir m.a.:

Kóngsfellshraun
Kóngsfellshraun er er myndað við eldgos í Brennisteinsfjallakerfinu. Kóngsfellshraun er talið hafa orðið til við eldvirkni kringum árið 950. Kóngsfellshraun er partur af stærri hraunbreiðu sem er kölluð Húsfellsbruni II eða Mið-Húsfellsbruni. Ekki er þekkt hvort Kóngsfellshraun hafi myndast í sama eldgosi og Húsfellsbruni eða hvort hraunin sem hafa myndað Húsfellsbruna einni samfelldri eða ósamfelldri goshrinu. Í þessari ritgerð var notast við kort Jóns Jónssonar (1978) sem viðmið fyrir Kóngsfellhraun ásamt korti Helga Torfason (1999).
HúsfellsbruniÁ myndinni má sjá Kóngsfellshraun ásamt Húsfellsbruna eins og var sett fram Helga Torfasyni o.fl. (1999). Jón Jónsson setti ekki fram áætlun á rúmmáli Kóngsfellshrauns, en hann setti fram áætlun á rúmmáli Rjúpnadyngjuhrauns og Eldborgarhrauns sem hann taldi vera 0,36 km3 hvort. Hans nálgun á áætlun á rúmmáli er að miða við 20 metra meðalþykkt og að áætla flatarmál þess hluta hraunanna sem eru huldir öðru hrauni.

Upptök Kóngsfellshrauns er frá gossprungu sem liggur við og er að hluta til í Stóra-Kóngsfelli sem er 1500 m löng og stefnir N40°.

Húsfellsbruni

Húsfellsbruni.

Stærstu gígarnir liggja á hásléttu við suðvesturhlíð Stóra-Kóngsfells en í suður og norður frá gígunum eru aflíðandi hlíðar sem hraunið hefur runnið niður eftir. Frá tveimur stærstu gígunum hefur verið mesta hraunrennslið. Hraunrennslið úr gígunum var í norðurátt meðfram vesturhlíð Stóra-Kóngsfells og í austurátt meðfram suðurhlíð Stóra-Kóngsfells þar sem það rann áfram milli Stóra-Kóngsfells og Drottningar og þaðan dreifði það sér til vestur, norður og austur. Tvö stór hraunflóð runnu í norður og vestur en minni flæddu í austur meðfram Rauðuhnúkum. Á svæðinu í kringum Stóra-Kóngsfell og Drottningu er hraunið úfið og einkennist af hraunrásum, hraunflóðum og hraunsepum sem hafa runnið yfir hvort annað.

Kóngsfellshraun og Húsfellsbruni
HúsfellsbruniÞað hraun sem skoðað hefur verið í þessari ritgerð er Kóngsfellshraun eins og Jón Jónsson (1978) lýsti því. Eftir nánari skoðun á því má vel búast við því að Kóngsfellshraun gæti verið talsvert umfangsmeira en Jón taldi. Hraun það sem Jón telur vera dyngjuhraun og nefndi Rjúpnadyngjuhraun og liggur milli vestur og norðurhraunflóðanna. Það telst líklegt að það sem Jón Jónsson (1978) taldi vera upptök Rjúpnadyngjuhrauns eru aðeins risgjótur og því ekki gosgígur. Síðari kortlagning af svæðinu sem er á vegum Orkustofnunnar hefur breytt skilgreiningu hrauna á svæðinu. Rjúpnadyngjuhrauni var skipt upp í Húsfellsbruna I og II og einnig var Eldborgarhraun skilgreint sem Húsfellsbruni II.
KóngsfellshraunKóngsfellshraun hafi myndast í sama eldgosi og Húsfellsbruni eða hvort hraunin sem hafa myndað Húsfellsbruna einni samfelldri eða ósamfelldri goshrinu. Jón Jónsson (1978) gaf þó vísbendingar um að Rjúpadyngjuhraun (Húsfellsbruni) gæti verið hluti af Kóngsfellshrauni þar sem bergfærði þeirra voru líkar.
Eins og sést er svæðið sem er skilgreint sem Húsfellsbruni gríðarlega stórt. Svæðið sem það þekur er 29 km2 að stærð og lágmarksrúmmál sem var reiknað er 0,3 km3.
Samanborið við áætlanir Jóns Jónssonar á rúmmáli Rjúpnadyngjuhrauns og Eldborgarhrauns sem hann áætlaði vera 0,36 km3 að rúmmáli eru þetta svipuð gildi. Þó menn séu ekki sammála skilgreiningu hraunanna er ljóst að þetta eru rúmmálsstór hraun sem finnast á þessu svæði.
HúsfellsbruniÞað má telja víst að rannsóknir á Húsfellsbruna og Kóngsfellshrauni hafi verið ófullnægjandi og þarfnist frekari rannsókna. Það er meiri þörf á að rannsaka þessi svæði eftir að gos hófst í Geldingadölum. Það eru því auknar líkur á því að það muni gjósa í fleiri eldstöðvakerfunum sem eru í næsta nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Það er því mikilvægt að fá betri mynd á það hvaðan hraunin komu og hversu umfangsmikil eldgosin sem mynduðu þau voru. Það er mikilvægt að vita það til þess að geta áætlað hvert hraun mun geta flætt og hversu langt það getur runnið. Hraun af sömu stærðargráðu og Húsfellsbruni gæti hæglega ógnað byggð.
Eldstöðvar og hraun kringum Stóra-Kóngsfell

Húsfellsbruni

Húsfellsbruni – Herforingjaráðskort frá 1903.

Stóra-Kóngsfell (596 m) er móbergsstapi sem liggur um 12 km frá Reykjavík og 2 km frá skíðasvæði Bláfjalla. Tvö misgengi ganga í gegnum það. Frá suðvesturhlíð Stóra-Kóngsfells liggur háslétta sem nær vestur til Grindaskarða. Rétt austan við Stóra-Kóngsfell er Drottning (513 m) sem er einnig móbergsstapi en þó töluvert smærri.

Hólmshraun

Hólmshraun – uppdráttur Jón Jónsson.

Hólmshraunin er að finna í suðaustur átt frá Höfuðborgarsvæðinu. Hraunbreiður þeirra teygja anga sína í Heiðmörk við Reykjavík og hafa runnið yfir hluta af Leitarhrauni.
Hraunin liggja á svæði norður frá Þríhnúkum og Stóra-Kóngsfelli, austan frá Húsfelli að Rjúpnadalshnúka og niður í Heiðmörk. Hólmshraun er ekki eitt hraun heldur nokkur hraun sem eiga upptök sín á svæðinu milli Bláfjalla og Þríhnúka.

Bláfjöll

Bláfjöll – Eldborg er einn þriggja gíga af eldborgargerð hjá fjallinu Kóngsfelli, sem er áberandi fjall í Bláfjallafjallgarðinum.
Þegar þunnt hraun flæðir upp úr gossprungu myndar það smám saman litla gíga úr hraunslettum. Við það verður til glóandi hrauntjörn innan gígveggjanna. Hraunið slettist og streymir jafnvel yfir barmana sem hækka og þykkna. Þannig myndast eldborg. Gígveggirnir verða brattir efst og þunnir. Verði veggirnir mjög háir finnur kvikan sér stundum leið í gegnum þá.

Eldborg er stærsti gígur á 1,5 km langri gossprungu með norðaustur stefnu sem úr rann hraun sem er nefnt Hólmshraun V af Jóni Jónssyni (1972). Eldborg liggur um 0,5 km austan við Drottningu. Samkvæmt jarðfræðikorti er hraunið frá Eldborg partur af hraunbreiðu sem er nefnd Húsfellsbruni I. Það hraun rann vestur að Húsfelli og norðan Selfjalls.

Á hásléttunni sem liggur vestur frá Stóra-Kóngsfelli eru Þríhnúkar sem samanstanda af þrem hnúkum, af þeim eru tveir gjallhnúkar og einn móbergshnúkur. Tvö þekkt hraun hafa komið frá Þríhnúkum, Þríhnúkahraun eldra og yngra. Þríhnúkahraun eldra hefur náð alla leið til Helgafells og hefur líklega runnið að einhverju leyti að Stóra-Kóngsfelli. Bæði hraunin eru talin hafa gosið fyrir meira en 4500 árum .

Eyra

Eyra.

Vestan við Stóra-Kóngsfell og norðaustan frá Þríhnúkum er einn stakur gígur sem Jón Jónsson (1978) nefnir Eyra. Kóngsfellshraun rennur alveg upp að honum og hylur hraunið sem hefur komið frá honum. Samkvæmt Jóni Jónssyni er Strípshraun sem liggur sunnan Elliðavatns komið frá þessum gíg. Um 5 kílómetra vegalengd er þakin yngra hrauni milli Eyra og Strípshrauns. Norðurhluti Kóngsfellshrauns rennur að Strípshrauni og hefur runnið yfir hluta þess.

Heimild m.a.:
-Rannsókn á Kóngsfellshrauni með fjarkönnun og landupplýsingum, Tryggvi Már Sigurjónsson, Háskóli Íslands, 2021.
-Örnefnaskrá, Ari Gíslason; “Garðakirkjuland”.

Stóra-Kóngsfell

Gígur í Stóra-Kóngsfelli.

Bollar

Selvogsgatan var gengin frá Bláfjallavegi áleiðis að Grindarskörðum við Kristjánsdali.

Ekkitilvatn

Ekkitilvatn.

Gamla þjóðleiðin var fetuð upp skörðin, upp á brún og síðan haldið áfram til vesturs ofan hennar. Komið var inn í tiltölulega sléttan dal, opinn til suðurs. Haldið var upp úr honum að norðanverðu. Þegar komið var upp yfir brúnina að austanverðu blasti við fallegt lítið ónafngreint vatn. Á vatninu var gullkista.
Sú saga fylgdi kistunni að hún sæist á vatninu einungis einn dag á ári. Reyndar væri vatnið ekki til, stundum nefnt Ekkitilvatn, en hér verður það nefnt Gullkistuvatn.

Ekkitilvatn

Við Ekkitilvatn.

Sagan segir að í fyrndinni hafi bóndi nokkur, vel efnum búinn, staðið í búferlaflutningum að vetrarlagi. Á leiðinni suður með sjóð sinn hafi hann villst af leið í ófærð, orðið hræddur og ákveðið að sökkva kistlinum, sem sjóðinn geymdi, í vatnið í von um að enginn myndi verða hans var. Auðnaðist honum að komast til byggða myndi hann koma aftur síðar og sækja sjóðinn. Það gekk eftir, en er hann ætlaði að leita vatnsins nokkrum dögum síðar, fann hann það hvergi. Kom hann þá þeirri sögu á framfæri að ef einhver kæmi að vatni á þessum slóðum skyldi hinn sá sami varast að snerta það því vatnið væri eitrað.

Kóngsfell

Kóngsfell.

Nú voru góð ráð dýr. Þarna var gullkista úti á vatninu, en ekki mátti snerta vatnið. Á bakkanum lágu nokkrir bandspottar. Einhverjum datt í hug að binda þá saman í einn langan, ganga síðan með annan endann yfir á öndverðan bakka og reyna að slæða kistuna þannig yfir vatnið. Það gekk eftir. Þegar kistan var opnuð leyndist í henni bréf frá bóndanum forna, en hins vegar engin veraldleg verðmæti. Kistunni ásamt bréfinu góða var því komið fyrir aftur á sama stað á vatninu. Þess skal getið að er FERLIR kom þarna að nokkrum dögum seinna var ekkert vatn þar að sjá.

 

Stóri-Bolli

Stóri-Bolli, Kóngsfellsgígur, í Kóngsfelli (Konungsfelli).

Gengið var niður af hlíðunum að sunnanverðu og strikið síðan tekið að Kóngsfelli, landamerkjum Gullbringu- og Árnessýslu. Sumir segja þau reyndar vera í Stóra-Kóngsfellið við Drottningu í Bláfjöllum og enn aðrir í Litla-Kóngsfell undir Stórkonugjá, sem er suðaustan við fyrstnefnda Kóngsfellið. Kóngsfellið er fallegur eldgígur, klofinn og auðveldur gegnumgöngu. Í miðju hans er laut, gott skjól fyrir öllum áttum. Segir sagan að nafngiftin sé komin til vegna þess að þarna hafi fjárkóngarnir hist í upphafi leita, ráðið ráðum sínum og skipt liði.
Þá var gengið til vesturs sunnan við Stórabolla og Miðbolla að Kerlingarskarði, niður það með stuttu stoppi við Drykkjarsteininn efst í því og götunni síðan fylgt uns komið var að upphafsstað við Bláfjallaveginn.
Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Bollar

Bollar.

Eldborg

Gengið var um Eldborg, Drottningu og Stóra-Kóngsfell vestan Bláfjalla. Eyrað er fjær og væntanlega hluti af eldri gígaröð vestan í hálsunum.
Eldborg hangir utan í smáfjallinu Drottningu sem er svo aftur við hliðina á Stóra-Kóngsfelli. Eldborg er það fyrsta sem Göngusvæðiðgrípur augað, en hún mjög glæsileg á að líta, regluleg í lögun og með skarði sem hraunið hefur runnið út um og myndað glæsilega hrauntröð út frá henni. Rétt er að gefa sér tíma til að skoða þetta fyrirbæri, en ekki er svo ýkja langt síðan eldar brunnu þarna, eða svona ca. 1000 ár. Hraun það sem vall þarna út hefur runnið alla leið niður í Heiðmörk og myndar efsta lagið í s.k. Hólmshraunum. Þegar gengið er um hraunin umhverfis Drottningu og Stóra-Kóngsfell svo og litið yfir afurðir Þríhnúka má telja ljóst að þau hafi öll runnið á svipuðum, ef ekki sama, tíma. Þríhnúkar, gígarnir suðvestan Stóra-Kóngsfells og Eldborg eru augljóslega á sömu sprungureininni og því að öllum líkindum gosið á sama tíma. Út frá gígunum undir hlíðum Stóra-Kóngsfells, er og smáþvergígaröð yfir í vesturöxl fjallsins. Miklar og langar hrauntraðir liggja út frá öllum  gígunum svo og margar aðrar grennri – og ekki síst tilkomuminni. Ein meginhrauntröðin liggur frá gígunum undir Stóra-Kóngsfelli til norðurs niður í Heiðmörk, alla leið að Hólshrauni, og önnur til austurs að miklu kvikuhólfi milli fellanna.
DrottningÁfram skal svo haldið upp með Stóra-Kóngsfelli að sunnanverðu og halda svo vestur frá því og í átt að Þríhnúkum. Þó er rétt að veita því athygli að uppi við Stóra-Kóngsfell vestanvert og skammt þar fyrir vestan eru gígar sem þónokkuð hraun hefur runnið úr, Kóngsfellshraun og Rjúpnadyngjuhraun. Þarna gaus skömmu á eftir Eldborg.
Þríhnúkar, eru eins og nafnið gefur til kynna, þrír hnúkar sem allir eiga það sameiginlegt að vera gígkeilur og eru um 1000 ára gamlir. Sá austasti geymir eitt sérstæðasta náttúrufyrirbrigði í nágrenni höfuðstaðarins, og jafnframt eitthvað það hrikalegasta. Óhætt er að segja að hægt sé að fá í hnén, bara við það eitt að standa við svart gímaldsop í toppi hnjúksins, vitandi það að það eru um 121 metrar niður á fast og það í frjálsu falli í 150.000 rúmmetra rými. Með öðrum orðum, það er rétt að fara ekki of nálægt.
Eldborg vestur af Bláfjöllum er einn þriggja gíga af eldborgargerð hjá Kóngsfelli. Friðlýst 1971. Um friðlýsinguna segir í Stjórnartíðindum B, nr. 121/1974:

 

Varða á Drottningu

“Auglýsing um náttúruvætti í Eldborg í Bláfjöllum:
Samkvæmt heimild í 22. gr. laga nr. 47/1971, um náttúruvernd, hefur [Umhverfisstofnun] ákveðið fyrir sitt leyti að lýsa Eldborg í Bláfjöllum náttúruvætti.
Mörk hins friðlýsta svæðis eru þessi: Að austan ræður (1) Bláfjallavegur eins og hann er nú. Að sunnan (2) hugsuð lína skemmst 200 m frá rótum Eldborgar frá vegi að suðurenda. Drottningar, (3) með hábrún hennar að norðurenda hennar og (4) þaðan til austurs að vegi, 200 m frá rótum hið næsta.
Um svæðið gilda eftirfarandi reglur:
1. Óheimilt er að ganga um hlíðar og barma gígsins utan merktra gönguslóða. Enn fremur er hvers konar akstur utan vega á hinu friðlýsta svæði bannaður.
2. Skylt er vegfarendum að sýna varúð, svo ekki spillist gróður eða aðrar minjar á hinu friðaða svæði í umhverfi eldstöðvarinnar.
Gígur suðvestan við Kóngsfell3. Jarðrask allt og mannvirkjagerð á hinu friðaða svæði er háð leyfi [Umhverfisstofnunar]
4. Ekki má fara með hesta um svæðið utan vegar og stranglega er bannað að beita þeim innan þess.
Um viðurlög vegna brota á reglum þessum fer eftir ákvæðum náttúruverndarlaga.
Felld eru úr gildi eldri ákvæði um friðun svæðisins.
Ráðuneytið er samþykkt friðlýsingunni og birtist hún hér með með skírskotun til 32. og 33. gr. laga nr. 17/1971, um náttúruvernd, og tekur friðlýsingin gildi við birtingu þessarar auglýsingar í Stjórnartíðindum.
Menntamálaráðuneytinu, 3. apríl 1974.
Magnús T. Ólafsson.”

 

Gígur suðvestan við Kóngsfell

Þegar vegur var lagður að skíðalöndunum við Bláfjöll fyrir nokkrum árum [1982] opnaðist nýr og ókunnur heimur fyrir flestum. Til þess tíma höfðu fáir lagt leið sína um þær slóðir en vegurinn breytti öllum aðstæðum í einni svipan. Það sem áður var torsótt almenningi varð nú aðgengilegt. Má þar m.a. nefna hellana i hrauninu, gönguferðir á hæstu kolla Bláfjalla og vestur á Heiðina há svo eitthvað sé nefnt. Um þessar mundir er unnið að gerð vegar frá Krýsuvíkurveginum áleiðis að Bláfjöllum og þegar þeirri vegargerð er lokið opnast fjölbreytt og skemmtileg ökuleið um nýtt svæði, sem er fáum kunn, en mjög forvitnileg. Að vestan hefur vegurinn verið þegar lagður að Lönguhlíð, en eftir er að gera ca. 12-15 km langan kafla svo endar nái saman. En sá hluti leiðarinnar er mjög áhugaverður, einkum frá jarðfræðilegu sjónarmiði. Jón Jónsson jarðfræðingur hefur kannað þetta svæði manna mest og birt niðurstöður sínar bæði í ræðu og riti. Til hans er því sóttur mestur sá fróðleikur um hraun og eldgos sem getið verður um hér á eftir.
Skömmu áður en við komum áleiðis upp að skíðaskálanum í Bláfjöllum yfirgefum við bílinn við Eldborgina, en það er reglulega lagaður og mosavaxinn gígur vestan við veginn. Götuslóði liggur upp a gígbarminn og er sjálfsagt að ganga þangað upp að vestanverðu. Gígurinn er reglulega lagaður, um 200 m í þvermál og um 30 m djúpur.

Hrauntröð vestan Stóra-Kóngsfells

Frá Eldborginni hafa runnið mikil hraun og munu lengstu hraunstraumarnir hafa runnið alla leið niður í Lækjarbotna. Eldborgin var friðlýst árið 1971 sbr. framangreint.
Eftir að hafa skoðað Eldborgina er stefnan tekin Drottningu. Uppgangan var auðveld sem framhald að aðkomunni að suðaustanverðu. Þegar upp var komið blasti við hið ágætasta útsýni yfir Eldborgina í austri og á háan “ektamakann” í vestri. Gengið var niður af fellinu að vestanverðu og stefnan tekin yfir og upp hraunið á barmi hrauntraðar að Stóra-Skógfelli.
Stóra-Kóngsfell bar við loft í vesturátt. Við göngum fram hjá allstórum móbergshnúk, sem nefnist Drottning. Fær hann efalaust þetta nafn vegna nálægðar við Kóngsfellið, sem er miklu ábúðarmeira til að sjá. Stóra-Kóngsfell er um 602 m y.s. og þaðan er frábært útsýni yfir nágrennið og til strandarinnar við Faxaflóann. Fjallið er auðvelt uppgöngu og sjálfsagt að glíma við það en ekki er síður skemmtilegt að að ganga með því að vestan. Þar hafa hraunstraumar runnið upp að hlíðarrótum og þar sem hraun og malarskriður mætast eru jafnan gott að ganga.
GengiðAð þessu sinni var gengið á fellið að norðvestan. Uppgangan var auðveld og án vandræða. Þegar upp var komið blasti við hið mikla útsýni til allra átta; yfir að höfðuborgarsvæðinu, upp á Þríhnúkum, niður á hrauntraðir og yfir að Strompum, auk þess sem Rauðuhnúkar og og Vífilsfellið sáust baða sig í kvöldsólinni í norðaustri.
Efst á Kóngsfellinu er merkjavarða því þar koma saman landamerki fjögurra sveitafélaga þ.e. Reykjavíkur, Kópavogs, Selvogshrepps og Grindavíkur. Þegar gengið var í kringum vörðuna á fellinu má segja að gengið hafi verið um fjögur sveitarfélög á innan við 10 sekúndum. Þetta var þó skammvinn skmmtun því í raun og veru eru landamerkin alls ekki þarna heldur á Litla-Kóngsfelli sbr. eftirfarandi landamerkjalýsingu fyrir Ölvus og Selvog: ,,Að vestanverðu; Úr steyptum stöpul á Borgarhólum, þaðan beina línu í Sýsluþúfu, þaðan bein lína í Sýslustein austan Lyklafells, og þaðan bein lína í steyptan stöpul á Vífilsfelli. Úr stöpli á Vífilsfelli eftir hæstu tindum Bláfjalla í Bláfjallahorn, þaðan í Kóngsfell (Litla-Kóngsfell).
,,Að sunnanverðu; Úr Kóngsfelli (Litla-Kóngsfelli) beina línu í Kálfahvamm, vestan í Geitafelli, þaðan beina stefnu afur í Fálkakletta. (Ofangreind lína styðst við hrd. 1996:2848.)

Varða á Stóra-Kóngsfelli - Þríhnúkar fjærVestan við fellið eru nokkrir smágígar sem vekja forvitni, bæði sökum lögunar og fjölbreytni í litum. Aðalgígarnir eru þrír og sá vestasti þeirra er mestur. Hraunið úr þessum gígum þekur svæðið milli Kóngsfells og Drottningar og telur Jón það ljóst, að þarna hafi gosið á sögulegum tíma, eða eftir að norrænir menn settust að hér á landi. Gígarnir og þetta eldbrunna svæði umhverfis umhverfis Kóngsfellið er mjög áhugavert og væri unnt að dvelja þar lengi dags, en tíminn líður og gönguferðinni er ekki lokið enn. Vestan við Kóngsfellið eru Þríhnúkarnir og þeir verða næst á leið okkar.
Þríhnúkarnir eru fornar eldstöðvar og segir Jón Jónsson að þeir séu meðal “sérstæðustu eldstöðva á Reykjanesskaga bæði hvað snertir útlit eldstöðvanna sjálfra og eins hraun, sem frá þeim hafa komið”. Þar hafa orðið tvö gos að minnsta kosti og í síðara gosinu mun austasti hnúkurinn hafa myndast. Upp á þann hnúk munu allir ganga, sem eiga þarna leið um, því gígurinn er opinn og því skoðunarverður. Hann er lóðréttur, nokkuð á annað hundrað metra á dýpt eftir því sem best er vitað, en nokkrir fullhugar hafa sigið til botns í gígnum og kannað hann lauslega. Það er óhugnanleg tilfinning að standa á gígbarminum og horfa niður í kolsvart gímaldið. Er þá eins gott að gæta sín og kunna vel fótum sínum forráð.

Útsýni

Þegar hér er komið sögu geta menn valið um tvennt: að ganga sömu leið tilbaka að bílnum eða halda áfram, fram hjá Stóra-Bolla, niður Grindaskörðin og vestur að Lönguhlíð, að vegarendanum og láta sækja sig þangað. Ekki skiptir máli hvor kosturinn er valinn. Það sem fyrir augun hefur borið í þessari ferð ætti flestum að vera nægilegt umhugsunarefni eftir daginn. Fjölda margir gígar, stórir og smáir, hafa verið skoðaðir, og hvarvetna blasir við eldbrunnið, gróðursnautt land. Þetta tvennt er talandi tákn um þau reginöfl sem liggja dulin í undirdjúpunum og minnir okkur um leið á nálægð þeirra. En þeir sem hafa mesta unun af hressandi gönguferð með víðsýni til allra átta fá einnig nokkuð fyrir snúð sinn því útsýnið yfir strandlengjuna við Faxaflóann er frábært, hvort sem staðið er á Stóra-Kóngsfelli, Þríhnúkum eða Stóra-Bolla. Það þekkja þeir sem þangað hafa komið. HÉR má sjá myndband af svæðinu.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimild m.a.:
-Mbl. 7. ágúst 1982.

Göngusvæðið úr vestri

Stóribolli

Gengið var upp með vestanverðu Stóra-Kóngsfelli austan við hraungíginn Eyra. Stefnt var að því að komast í Litla-Kóngsfell, en í því vestanverðu er Dauðsmannsskúti þar sem maður varð úti.

Eyra

Eyra.

Haldið var á bratt hraunflæmið þar sem það kemur í breiðum fossi fram af hlíðinni norðvestan við fellið. Nokkur myndarleg op eru í hlíðinni og líklegt er að þar kunni að leynast nokkrar hraunrásir, sem vert er að skoða við tækifæri.
Framundan var fallegur eldgígur, sem stundum hefur verið nefndur Kóngsfell, en er í rauninni hinn myndarlegasti þrátt fyrir ruglinginn. Nafnið er sennilega tilkomið vegna þess að gígurinn hefur nokkurn veginn sömu lögun og hinir tveir kóngsfellsgígarnir á svæðinu. Gamburmosinn er þykkur á kafla og rjúpan virtist kunna vel við sig á “teppinu”.
Haldið var áfram suður með vestanverðum Strompum. Ekki var kíkt í hellana að þessu sinni, heldur gengið hiklaust áfram upp með gígaröðinni og suður fyrir hana. Þar mátti sjá u.þ.b. fimm metra rifu í sléttu helluhrauni. Undir var greinileg rás, en ekki var hugað frekar að henni að þessu sinni, enda lljóslaust. Þoka lagðist að á báðar hendur, en ratljóst var til suðurs.

Bláfjöll

Gengið um Bláfjallasvæðið.

Stefnan var tekin á sérkennilega nafnlausa gígaröð í nálægt hálftíma gang frá syðsta hluta Strompanna. Yfir slétt helluhraun var að fara. Gígaröð þessi liggur frá SV til NA eins og venjulega gildir um slíkar raðir. Hún er innan við kílómeters löng. Hún gæti verið hluti af lengri sprungurein lengra til norðurs. Fremur lítið hraun hefur runnið frá gosinu, aðallega til vesturs. Um er að ræða apalhraunsafsprengi inni í miðju helluhrauninu allt um kring. Hraunæðar voru víðar, en allar stuttar og þröngar. Norðan við gígaröðinni lá greinileg gömul gata áleiðis inn á heiðina há. Varða var þar skammt austar.
Frá gígaröðinni var að sjá að nálægt tuttugu mínútna gangur væri yfir að Litla-Kóngsfelli, þ.e. fjörutíu mínútur fram og til baka. Ákveðið var því að geyma heimsóknina í Dauðsmannskúta til betri tíma. Þá verður farið um Kerlingarskarð og áleiðis niður Selvogsgötu. Um 1 og 1/2 klst gang er að ræða þá leiðina.

Stóra-Kóngsfell

Stóra-Kóngsfell og nágrenni.

Þegar staðið var á gígaröðinni rofaði til. Ágætt útsýni var yfir að Miðbolla og Þríhnúkagígunum. Dökk þokuslæðan lá hins vegar yfir austrinu. Þá heyrðist sérkennilegt hljóð í þögninni er nálgaðist óðfluga. Skyndilega flugu fjölmargar gæsir í oddaflugi út úr þokunni til vesturs. Fögur sjón og einstök. Farfuglarnir á heimleið.

Talsverður ruglingur hefur verið á Kóngsfellsnafninu í gegnum tíðina. Líklega er það vegna þess að Kóngsfellin eru þrjú á þessum slóðum; Kóngsfell, Stóra-Kóngsfell og Litla-Kóngsfell.

Stóra-Kóngsfell

Gígur í Stóra-Kóngsfelli.

Landamerkin hafa verið dregin um “Kóngsfell”, svonefnt “Konungsfell”, einnig nefnt “Stóri-Bolli”, og því sýna landakort hinar ýmsustu útgáfur landamerkjalínanna. Þær eru ýmist dregnar í Kóngsfell (Konungsfell/Stórabolla) ofan við Miðbolla, Stóra-Kóngsfell norðvestan Drottningar eða Litla-Kóngsfell sunnan Stórkonugjár. Kóngsfellið var nefnt svo vegna þess að á haustin söfnuðust í því fjárkóngar svæðanna, sem áttu mörk um fjallið. Þar réðu þeir ráðum sínum áður en hver hélt í sína áttina með sínum mönnum.
Haldið var til baka að Strompunum og þeir síðan þræddir til norðurs, að upphafsreit. Snjór lá í lautum svo ráðlegra var að halda sig á hraunhryggjum í göngunni. Þarna eru víða göt og hellar undir svo allur er varinn góður.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Konungsfell

Konungsfell – kort 1908.