Ofan við Borgarkot, milli Kálfatjarnar og Keilisnes, frá vestri til austurs, í aflíðandi bogadregna línu frá suðaustanverðum túngarði Bakka og Litlabæjar, og síðan austast í línu til norðurs, er u.þ.b. 1.340 m löng stórgipagirðing, gerð af uppreistu grjóti, ca. 0.60-1.00 m háu með jöfnu millibili. Ofan á og ofarlega til hliðar eru greiptar holur og í þær reknir trétappar.
Margir steinanna eru reyndar fallnir, en auðvelt er að rekja þá í landinu þessa leið.
„Stórgripagirðing-una tel ég ekki eldri en frá seinni hluta 19. aldar. Á Viðeyjarklaustur-stímum voru hungraðir stráklingar notaðir sem fjáryfirsetur. Því ekki til nautayfirsetu á Keilisnesi? Skynsamlegt er að nota til samarburðar á stórgripaveldi Kálfatjarnar og nautaeldistíma Viðeyjarklausturs á Mosfellsheiði, en þar gengu naut frjáls en voru rekin til slátrunar í Marardal við Hengil en þar sést enn til mannvirkja varðandi það (sem og áreiðanlegar ritheimildir).
Tel að ef skoðuð er búfjársaga Færeyja mætti finna álíka Stórgripagirðingu og hér er til umfjöllunar.
Skynsamlegt er að horfa vítt til veggja hvað varðar söguskoðun – og láta skynsemi ráða en ekki óskhyggju.
Líklega hefur Stórgripagirðingin á Keilisnesi verið byggð af stórhugamönnum í lok 19. aldar (flott að ná í vír úr Jamestown-strandinu í Höfnum fyrir lítinn pening og fá ríkisstyrk út á framkvæmdina), en aldrei nýst sem slík, nema fyrir kýrnar á Kálfatjörn sem voru tiltölulega fáar og þurftu enganveginn alla Stórgripagirð-inguna, nema fyrir það að auðveldara var að ná þeim saman að kvöldi til mjalta. Vinnan við að safna og reisa steinana hefur ekki verðið mikið verk á þeim tímum, menn notuðu vogarafl samhliða mannafli eins og sést víða í Íslandsögunni. Til samanburðar má nefna alla túngarða Kálfatjarnar þess tíma.
Nútímamenn gera oft lítið úr verkhyggju og mannafli fyrri tíma.“
Ljóst er að girðingin er yngri en túngarðurinn ofan Bakka og Litlabæjar því ekkert grjót úr girðingunni næst honum hefur verið tekið í vegginn. Þá væri tiltölulega auðvelt að aldursgreina einn trétappa eða fleiri og fá þannig áætlaðan aldur girðingarinnar. Ástand þeirra gefa vísbendingu um að girðingin hafi verið seinna tíma mannvirki, að öllum líkindum frá Kálfatjörn. Enda ólíklegt að til hefðu verið nægilega löng reipi til verskins fyrir þann tíma. Skammt austar, vestan Minni-Vatnsleysu, má sjá hliðstætt mannvirki. Í stað trétappanna voru þar notaðir steypustyrktarteinar.
Sjá meira undir girðinguna HÉR.
Heimild:
-Sesselja Guðmundsdóttir.