Færslur

Lambhagi

Eftirfarandi viðtal við Magnús Guðjónsson birtist í Vísi fimmtudaginn 19. júní 1969 undir yfirskriftinni “Bóndinn í STRAUMSVÍK“:

Straumsvík

Myndin fylgdi viðtalinu (tekin 1969). Álverið í baksýn.

“Hin mikilfenglegu mannvirki, sem rísa upp norðan Straumsvíkur, vekja athygli þeirra vegfarenda, sem ekki eru þar daglega á ferð. En sjálfsagt verður það með þau eins og margt annað, að vaninn slævir eftirtektina og hin því nær kílómetralanga verksmiðjubygging hættir að vekja sérstæð viðbrögð augans.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambhaga.

Hraunið, sem nú hefur verið brotið niður, bjó yfir dulrænni fegurð í litbrigðum ljóss og skugga. Á því var aldrei hinn óumbreytanlegi kuldasvipur steinmúranna. Lifandi mosafeldur brosti við skapara sínum eins og önnur jarðarinnar börn.

Árið 1891 bjuggu í Stóra-Lambhaga í Hraunum, Guðjón Gíslason og Kristbjörg Steingrímsdóttir. Þann 21. september það ár fæddist sonur þeirra Magnús. Þá var fjölbýlt í Hraunahverfinu, enda fólkið margt, búskapur nokkur og áraskipaútgerð. Guðjón var útvegsbóndi, hélt út og stjórnaði sjálfur sex rónu skipi, varð honum gott til manna, því hann var ötull sjósóknari og aflasæll.
Þótt oft væri snöggslægt Lambhagatúnið eftir langvarandi þurrka, tókst honum oftast að hafa tvær kýr og rúmlega eitt hundrað sauðfjár. En sum ár varð hann að sækja nokkurn heyskap inn á Álftanes.

Óttarsstaðir

Hraunin – herforingjaráðskort.

Á þessum tíma voru eftirtalin býli og hjáleigukot í Garðahreppi sunnan Hvaleyrar: Stóri-lambhagi, Litli-Lambhagi, Gerði, Þorbjarnarstaðir, Péturskot, Straumur, Þýzkabúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Eyðikot, Óttarsstaðir og Lónakot. Það var ysti bær í Garðahreppi hinum forna.
Eins og fyrr er sagt, var mikil sjósókn frá þessum bæjum með an enn þá var öld áraskipanna. Oftast var stutt róið. Aðalmiðin voru Lóndjúpið Brúnin eða vestur á Svið. Til bar það, að farið var út í Garðssjó væri ördeyða á innmiðum, en þangað var að eins farið á velbúnum skipum að forviði, veiðarfærum og mannafla.

Straumur

Straumur 1935.

Venjulega var aflavon þangað til togararnir fóru að skafa botninn með fram ströndinni, þá skipti sköpum. Ýmsir útvegsbændur voru brúnaþungir þegar þeir sáu aðfarirnar. Fullir pokar voru dregnir upp. Koli og lúða var hirt en öðrum fiski var hent og flaut hann dauður um allan sjó. Þetta varð til þess að sumir fóru að sækja í togara. Aðrir voru svo stórir af sjálfum sér að þeir höfðu ekki skap til en sátu í landi með sárt ennið, og bölvuðu ástandinu án þess að fá nokkuð að gert.

Á vertíðinni var oft margt að komumanna, sem reru á útvegi heimabænda. Lending var fremur góð umhverfis Straumsvíkina bæði í Stóra-Lambhaga og þó sérstaklega við Straum eða í Straumsós en inn á hann varð aðeins komist á flóði og þarna er mikill munur flóðs og fjöru.

Litli-Lambhagi

Eldhús við Litla-Lambhaga. Straumur fjær.

Á þessari öld, þegar ýmiss konar skoðanakannanir virðast vera mjög ofarlega á dagskrá, er það ekki óalgengt, að þeir sem fræðast vilja taki upp símann, velji númer og spyrji um álit manna, sem þeir aldrei áður hafa átt nein samskipti við.
Vel má vera að með svona hátta lagi þyki sumum sér nóg boðið, jafnvel þótt orðnir séu aldurhnignir og hafi á langri leið ýmsu kynnst og mörgu vanist.
— Hringdu bara, — segir Hrafnkell sölustjóri, og svo hringi ég.

Bifreiðin undir stjórn Magnúsar Guðjónssonar rennur mjúklega suður Hafnarfjarðarveginn. Hann er kunnugur þessari leið gamli maðurinn, því frá árinu 1916, að hann tók bifreiðastjórapróf hjá Agli Vilhjálmssyni, hefur hann oft setið undir stýri og lengst af milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.

Straumsvík

Straumsvík 1965. Á myndinni sjást m.a. Litli- og Stóri-Lambhagi sem og tjarnirnar.

Hann vildi gjarnan láta fólkinu í sín um heimabæ góða þjónustu í té og auðvelda því ferð til höfuðstaðarins. Árið 1922 fékk hann Kristján vagnasmið til þess að byggja fyrir sig farþegahús á vörubíl. Það rúmaði 13 manns. Þá varð Steindór Einarsson reiður og sagði að með þessu væri Magnús að stofna til harðvítugrar samkeppni við sína dýru og fullkomnu fólksbíla, en hann hafði þá keypt eina tuttugu slíka. En Magnús lét sig ekki og hélt sínu striki, sagði aðeins: „Stærri bifreiðar til fólksflutninga er það sem koma skal”, og sú varð raunin á. Það sá Steindór síðar.
Og nú byrjar fræðslan.
– Sjáðu, hérna, þar sem við ökum með fram höfninni í Hafnarfirði var áður sjór. Þetta er nýtt land gjört af mönnum. Þar sem vegurinn liggur framan undir hamrinum var áður hyldýpi. Í Ásbúðum bjó Andrés Jónsson. Ásbúðir, það er litli bærinn með fánalitunum þarna undir brekkunni Andrés safnaði fornminjum. Ég starfaði að þessu með honum af og til í fimmtíu ár, ók út um sveitir og sótti muni. Nú er sérstök deild í Þjóðminjasafninu, sem varðveitir þessar minjar, — Ásbúðasafnið. —

Hafnarfjörður

Ásbúð og nágrenni.

— Hér er Óseyrin, þar var áður býli og oftast vel búið. Einu sinni átti þar heima ísak í Fífuhvammi. Einar Þorgilsson útgerðarmaður þurrkaði fisk á grandanum framan við eyrina. Þarna syðst er svo Hvaleyrin. Sú jörð átti landamerki móti Stóra-Lambhaga. Í Óseyrar og Hvaleyrartjörnum var fyrrum mikil rauðsprettuveiði. Já, ég man vel aðra mynd af Hafnarfirði en þá sem nú er sýnileg þeim sem um veginn fara.
Nú erum við komnir móts við hið mikla mannvirki — Álbræðsluna — sem reist hefur verið á landi Stóra-Lambhaga.
— Hér er orðið breytt síðan ég var að smala hraunin og ára skipum var hrundið á flot og ráðið til hlunns í Straumsvíkur og Lambhagavörum.

Straumsvík

Straumsvík – Loftmynd af svæðinu.

Fyrstu sjóferðina fór ég 9 ára gamall. Ekki mun þá hafa verið til mikillar liðveislu ætlast, enda var pilturinn lítt til stórræða, því sjóveikin þjakaði mig mjög og var svo jafnan, enda þótt ekki þýddi að láta slíkt á sig fá. Uppeldissystur minni, Margréti Magnúsdóttur, var öðruvísi farið. Hún var bæði kjarkmikil og sjósterk, enda reri hún sem dugandi karlmaður væri og þótti engu síður hlutgeng. Ekki sjaldan kom það fyrir, að hún fór á sjóinn þegar verra var veður og ég kaus heldur að hirða fé föður míns.

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi – túnakort 1919.

Einu minjarnar um hina fornu byggð í Stóra-Lambhaga er vörin, sem lent var í og þetta gamla fjárhús við sjóinn. Í Straumi bjó lengi Guðmundur Símonarson. Hann hafði stórt bú. Þó sérstaklega sonur hans, Guðmundur Tjörfi, hann hafði mikinn fénað. Hjá honum var „Stjáni blái” oft á veturna áður en vertíð hófst. Stjáni ólst upp hjá séra Þórarni í Görðum, kom þangað 7 ára gamall frá Klöpp í Reykjavík. Séra Þórarinn keypti áraskip handa honum og Óla Garða. Stjáni var mikill sjómaður, ég þekkti hann vel.
Þegar hann fór sína síðustu för var ég á bryggjunni í Hafnarfirði. Stjáni var örlítið ör og þegar ég hafði orð á því að honum lægi ekkert, á út eftir, leit hann til mín þeim augum, sem gáfu greinilega til kynna, að það væri hann en ekki ég, er réði þár ferðinni.

Stóri-Lambhagi

Stóri-Lambhagi – túnakort 1919.

Mun ég sennilega hafa verið einn þeirra síðustu, sem rétti honum höndina til kveðju.
Svo „strengdi Stjáni klóna”, settist við stjórn og tók stefnu fyrir Keilisnes. Hann var þá búsettur í Keflavík. Hið snjalla kvæði, sem Örn Arnarson kvað, mun gefa nokkuð sanna hugmynd um þessa síöustu siglingu og einnig um manninn sjálfan, Meðan Stjáni var formaður fyrir séra Þórarin í Görðum reri hann venjulega úr Garðavör og sótti oftast út á Svið.

— Í Straumi bjó síðar Bjarni Bjarnason, sem lengi var skólastjóri héraðsskólans á Laugarvatni. Hann var þá kennari í Hafnarfirði.

Straumur

Straumur.

Nú eru því nær öll hraunabýlin í eyði fallin. Að vísu hefur verið rekið svínabú í Straumi, en heyrt hef ég á orði haft, að þeim rekstri mundi senn lokið. Á Óttarsstöðum eru heimilisföst roskin hjón. Húsbóndinn stundar smíðar og auk þess hafa þau nokkur hænsni.
Öll þau ár, sem ég var heima í Stóra-Lambhaga, voru í Eyðikoti þrjú systkini – bræðurnir Sveinn og Guðmundur og systirin Steinunn Bergsteinsbörn. Sveinn var sjómaður en Guðmundur var sjálfmenntaður járnsmiður. Hann smíðaði mikið af skónálum og brennimörkum.

Lambhagi

Lambhagi.

Smiðjuhurðin bar glögg merki þeirrar iðju. Eins og ég drap á áðan, þá höfðu bændur hér í hverfinu talsverðan búpening. Enda þótt heyfengur væri venjulega rýr, þá kom þar f móti, að sauðfé var mjög létt á fóðrum. Marga vetur kom það aldrei í hús, nema lömbin fyrsta veturinn. Þegar verri voru veður lá féð í hellisskútum hér og þar í hrauninu. Ef tað safnaðist í þá voru þeir þrifnir og stungið út úr þeim, mátti segja að hér væri um að ræða nokkurs konar fjárhús. Þrátt fyrir það, að hraunið virðist gróðurvana yfir að sjá, þá þreifst féð vel bæði vetur og sumar, en hirðingin var erilsöm, sérstaklega á vorin, því víða eru jarðföll og holur, sem hættuleg eru nýfæddum lömbum og þungfærum ám. Yfir þessu þurfti að hafa vakandi auga.

Lambhagi

Lambhagi – stífla v/fiskeldis.

Það féll oft í minn hlut að sinna þessu starfi meðan ég var drengur heima í Lambhaga, þá kunni ég því vel. Þó hér sé ekki stórbrotið til lands að líta er víðáttan fögur og heillandi, sérstaklega á vorin, og hraunið býr yfir meiri og fjölbreyttari náttúruöflum en ætla mætti þegar menn líta yfir það sem hraðfara vegfarendur. Það er margur fagur reitur falinn í skjóli hraunborganna.

Þeir voru engir smákarlar sumir bændurnir hérna á ströndinni í gamla daga. Guðmundur á Auðnum, Guðmundur í Landakoti, Guðmundur i Flekkuvík og Sæmundur á Vatnsleysu. Þeim Guðmundi á Auðnum og Sæmundi þótti nú sopinn góður og komið gat fyrir að kaupstaðarferðin til Reykjavíkur tæki þá upp undir hálfan mánuð. Þá var komið við á bæjunum, þeginn og Veittur beini, sem orsakað gat næturdvöl. En þetta voru dugnaðarmenn, aflasælir og sjálfum sér nógir.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambahaga við Straumsvík.

Og hef svo sem fengist við ýmislegt fleira en aksturinn, enda þótt ég telji hann hafa verið mitt aðalstarf um ævina. Í tíu ár fékkst ég við útgerð og átti um sjö ára skeið elsta skipið í íslenska veiðiflotanum, m.b. Njál, 38 lestir að stærð. Nokkuð kom ég einnig við verslunarsöguna bæði sem sjálfstæður aðili og nú síðustu átta árin verið innheimtumaður hjá firmanu Nathan & Ólsen.
— Jú, ég kvæntist árið 1913. Konan mín hét Herdís Níelsdóttir, ættuð úr Hafnarfirði. Við bjuggum saman í 33 ár, þá lézt hún. Við vorum barnlaus og nú er ég einn míns liðs.
— Okkur liggur ekkert á, ég er minn eigin herra í dag.
— Aka, jú, ég sé vel til að aka þótt ég sé senn 79 ára gamall. Enn þá les ég gleraugnalaust.

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi.

Ég hef aldrei ekið hratt, ó nei, og komist leiðar minnar þrátt fyrir það.
Sérðu hvernig þeir hafa brotið niður hraunið. Á gömlum fjárgötum fortíðarinnar, hrófum áraskipanna, harðbalatúnum og húsatóftum fornra mannabyggða hafa þeir reist þetta verksmiðjuhús.
— Hvort munu þeir, sem þar ráða ríkjum svara betur kalli sinnar samtíðar en hinir, sem áður lifðu þar lífi íslenskra útvegsbænda?” – Þ.M.

Sjá meira HÉR.

Heimild:
-Vísir – Bóndinn í Straumsvík; Magnús Guðjónsson, fimmtudagur 19. júní 1969, bls. 9-10.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambahaga við Straumsvík.

Þorbjarnarstaðir

Hér verður vitnað í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar um Þorbjarnarstaði í Hraunum og nágrenni. Hún var upphaflega skráð af Gísla á sjöunda áratugnum eftir Ástvaldi Þorkelssyni frá Þorbjarnarstöðum, Gísla Guðjónssyni frá Hlíð, Magnúsi Guðjónssyni frá Stóra-Lambhaga og Gústaf Brynjólfssyni frá Eyðikoti. Einnig studdist hann við gömul landamerkjabréf.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir og nágrenni – örnefni og minjar.

   3. júní 1978 fóru sr. Bjarni Sigurðsson og Haukur bróðir hans á vettvang ásamt þremur öldruðum mönnum, Gísla Guðjónssyni, Gústaf Brynjólfssyni og Jósef Guðjónssyni. Þeir fimmmenningar gerðu ýmsar athugasemdir við lýsingu Gísla. Flestar þeirra skráði sr. Bjarni jafnóðum, en fáeinar ritaði Sigríður Jóhannsdóttir eftir sr. Bjarna 5. júní 1978. Loks gerði sr. Bjarni fáeinar athugasemdir í október 1980. Gísli Guðjónsson er fæddur á Setbergi 1891, kom í Hraunin um 10 ára og var þar til 1917, 8 ár í Gerði og önnur 8 á Óttarsstöðum. Jósef Guðjónsson er fæddur 1899, kom að Óttarsstöðum 2-3 ára og var þar til 1918. Gústaf er fæddur 1906, kom í Eyðikot 1907 og var þar til 1937. Sr. Bjarni og Haukur bróðir hans ólust upp í Straumi frá 1930.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Hér fer á eftir lýsing Gísla með þeim leiðréttingum, sem að framan greinir. Landamerkjalýsing er tekin upp úr Landamerkjabók fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu.

“Þorbjarnarstaðir eru jörð í Hraununum svonefndu. Þeir tilheyrðu áður Álftaneshreppi, en eru nú innan lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar.
Bærinn stóð í túninu því nær miðju, og sneru stafnar við suðvesturátt. Túnið var umgirt túngörðum á alla vegu. Frá bænum lágu traðir austur túnið og skiptu því í tvennt. Norðan traðarveggsins nyrðri var í túninu Dalurinn nyrðri, smádalur, sem dýpkaði og endaði með hamravegg og hálfgerðum skúta. Kringum dalinn var Flötin nyrðri, lítil lægð í túninu. Hér um lá Lambhúsgatan eða Sjávargatan út í gegnum Lambhúshliðið eða Sjávarhliðið. Frá norðurhlið bæjarins lá svo Réttarstígur út í Réttarhliðið.

Þorbjarnastaðarétt

Þorbjarnastaðarétt.

Við Réttarhliðið er klettur, nefndur Sölvhóll. Þar voru söl þurrkuð. Sölvhóll er háhóllinn, sem réttin stendur norðan undir. Þegar búizt var við halastjörnunni 1910, vildi Þorkell Árnason á Þorbjarnarstöðum safna öllum Hraunamönnum upp á þennan hól, áður en jörðin færist, og láta þá mæta þar örlögum sínum. Sunnan í þessum hól voru Sölvhólsklettar. Þá kom lægð, sem nefnd var Sölvhólsstykki. Innst inni á stykkinu er lítill skúti. Vestar kom Háaklöpp, vestan við sprunguna, sem þarna er í klettunum. Þar sunnar komu Vonduhólar, klappir margsprungnar, sem lágu að nokkru inn í túnið.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur í Brunntjörn.

Í skrá Gísla Sigurðssonar segir: „Heiman frá bænum í suðvestur lá Mosastígur út í Mosaskarð, sem þar var á garðinum.“ Þessi örnefni kannast sr. Bjarni og heimildarmenn hans ekki við. Mosinn var sóttur út í Kapelluhraun (sjá síðar), sem er í annarri átt. Konur báru mosann heim í pokum eða jafnvel sátum. Hann var notaður í eldinn og einnig í einangrun, m.a. í Gerðishúsið, sem Guðjón Jónsson frá Setbergi reisti og enn stendur. Mosi var sóttur frá Lambhögum, Gerði, Þorbjarnarstöðum og Péturskoti. Heiman frá bæ lá Skógarstígur suður túnið fram í Skógarhlið á túngarðinum. Í suðurtúninu var lægð, sem nefnd var Dalurinn syðri. Kringum hann lá Flötin syðri, allt upp að traðargarðinum syðri. Frá traðarhliðinu lá Brunngatan út í Brunninn, sem var í Brunntjörninni.
Meðfram austurtúngarðinum lá Straumsstígurinn, og fylgjum við honum norður með garði.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – Lambúsgerði.

Er þá fyrst komið að Lambhúsinu, sem er rétt utan við Lambhúshliðið. Við norðurtúngarðinn var Þorbjarnarstaðarétt, vel hlaðin rétt af grjóti. Þar var haustrétt fyrir Innhraunin eða Austur-Hraunabæi, þ.e. Litla- og Stóra-Lambhaga, Gerði, Þorbjarnarstaði og Péturskot. (Þess má geta, að í Hraunum voru um 60 manns 1918.)
Eitt örnefni enn er hér nálægt túninu, Mosaflesjur, þar sem mosinn var þurrkaður til eldiviðar. Í skrá Gísla segir, að þær séu út frá Mosaskarði. Litlu norðar var Péturskotsstígur. Hann lá yfir að Péturskoti, sem var þurrabúð í Þorbjarnarstaðalandi. Var það fyrst byggt fyrir aldamót af Pétri Péturssyni, Helgu konu hans og Signýju dóttur þeirra. Þarna var ofurlítið tún, og var túngarður umhverfis það.

Péturskot

Péturskot árið 2000.

Háatún nefndist nokkur hluti túnsins sunnan bæjarins og ofan, oftast þá nefnt Fagrivöllur. Kotið var í spaugi nefnt Hosiló, en það festist aldrei við sem örnefni. Austan við túnið var matjurtagarður. Þar eru nú sumarbústaðir. Þessi garður tilheyrði Litla-Lambhaga, en einnig var kálgarður í Péturskotstúni. Pétursspor var stígur, sem lá heiman frá bæ niður á Straumshólmana og um Straumsrásirnar frá Straumstjörnunum. Stígur þessi lá fram á Pétursbyrgi svokallað. Þar var Byrgisvör eða Pétursbyrgisvör. Í vörinni sér enn djúpar skorir eftir bátskilina. Gísli Sigurðsson segir, að það muni vera þessi staður, sem í bréfi frá 1849 nefnist Brynjólfsskarð og var nyrzta mark landamerkja milli Þorbjarnarstaða og Straums. En þetta kannast sr. Bjarni og heimildarmenn hans ekkert við og þykir það óskiljanlegt, því að ekkert skarð er á þessum slóðum.

Péturskot

Péturshróf.

Annar stígur lá austur hólmana og nefndist Sporið. Segir Gísli, að það hafi legið af hólmunum um Litla-Stróka, sem hann nefnir svo, og þaðan upp á Stróka eða Stóra-Stróka að Litla-Lambhaga, sem í fyrstu nefndist Nýjakot. Sr. Bjarni og heimildarmenn hans kannast ekki við nafnið Litli-Stróki og telja hæpið, að Stróki hafi verið kallaður Stóri-Stróki. – Þetta eru tangar, sem ganga í sjó fram, og standa smáklappir upp úr.

Lambhagi

Lambhagaeyrarbyrgi.

Litli-Lambhagi stóð í Litla-Lambhagatúni. Lá túngarður tvíhlaðinn með allri norðurhlið þess. Fram milli Stróka lá Ósinn eða Nýjakotsósinn, sem eiginlega var lækur. Mest bar á honum við útfall, og var þar í allmikið vatn.
Gísli segir, að í túninu hafi verið þessir matjurtagarðar: Geiragarður, Stórigarður og Hraungarður. Sr. Bjarni og heimildarmenn hans muna ekki eftir kálgörðum í túninu, en garðar voru utan túns og m.a. einn við fjárhúsin við upphaf Ólafsgötu.
Syðst var Hjallatún. Gísli segir, að þar hafi í eina tíð staðið Hjallatúnsfjárhús, en heimildarmenn sr. Bjarna mótmæla því og segja, að tvö fjárhús hafi staðið undir Brunanum, en ekkert inni í túni. Úr Hjallatúni lá Hraunhornsstígur upp á Hraunhornið og suður á alfaraleið. Austan við bæinn var Nýjakotstjörn og suður úr henni Hlöðuvík.
Sjávargatan lá frá bæ norður á Stróka í Litla-Lambhagavör, sem einnig var nefnd Litla-Lambhagalending. Þar hjá var Litla-Lambhagahróf.

Lambhagi

Litla-Lambhagavör.

Lambhagavík lá frá Stróka austur á Eyri. En Lambhagamenn nefndu svo Straumsvíkina sín megin. Um suðurhluta túnsins liggur nú vegur inn til álversins og einnig Reykjanesbrautin. Nokkru sunnar má enn sjá Suðurnesjaveginn ofan af Brunanum niður af Hraunhorninu. En af honum lá Gerðisstígur heim að Gerði eða Gerðisbæ, sem stóð í hjalla í Gerðistúni. Stígur lá frá bænum upp á Brunabrún upp í Hraunhornsstíg. Niður undan Hjallanum voru Gerðisbalar, Stóri-Bali nær og Litli-Bali fjær. Norðan Balanna var Gerðistjörn. Í henni var Gerðisvatnsból og vestur frá henni Stakatjörn. Fyrrnefndur stígur, sem lá upp á Brunabrúnina, var kallaður Kirkjustígur. Hann sést enn, liggur upp frá túninu norðan við Gerði og upp á alfaraleið. Þessi stígur var mest genginn, er sóttur var mosi í Kapelluhraun.

Gerði

Gerði og Gerðistjörn.

Sunnan Gerðistúns var tjörn, er nefndist Gerðistjörn syðri, en sameiginlega voru allar tjarnirnar nefndar Gerðistjarnir eða Þorbjarnarstaðatjarnir.
Lambhagatjarnarós rann fram úr Stóra-Lambhagatjörn til sjávar milli Stróka og (Stóra-)Lambhagagranda. Vestast á grandanum var klettur, er nefndist Laufahjalli. Austan við hann var Þorbjarnarstaðavör og Gerðisvör. Þar má enn sjá móta fyrir hleðslu af bátshrófi eða skipahrófinu.

Lambhagi

Litli-Lambhagi – útihús.

Austar nokkuð var hraundrangur, nokkuð sprunginn að ofan, en gras á honum. Gísli Guðjónsson segir, að hann hafi alltaf verið nefndur Leikarahóll. (Í eldri skránni stendur Leikhóll). Krakkar hafa getað leikið sér þar, en einnig kann nafnið að stafa af því, að lömbin hafi leikið sér þar. Af vesturodda grandans lá garður um þvera Lambhagatjörn. Upp í Aukatún lá gangbraut hlaðin sem garður, nefndist Steinbogi. Aukatún var smátunga út frá Brunahrauninu. Það var grætt upp og notað sem túnblettur frá Stóra-Lambhaga. Túnið var greiðfært, en ekki slétt. Á því stóð hesthús. Nokkru fyrir innan fyrrnefndan Steinboga mátti sjá marka fyrir öðrum Steinboga.

Litli-Lambhagi

Eldhús við Litla-Lambhaga. Straumur fjær.

Á miðjum Stóra-Lambhagagranda stóð bærinn í Stóra-Lambhaga og stendur enn, þótt nú sé þar fjárhús með hlöðu. Austan bæjarins lá skerjagarður fram í víkina. Hann nefndist Kelatangi, en ekki er vitað, af hvaða Kela hann dregur nafn. Þar fyrir sunnan var Lambhagavör og upp af henni Lambhagahróf. Lambhagatúnið lá um grandann og Lambhagahólma, en milli þeirra voru Lambhagatjarnir. Í þeirri, sem næst var bænum, var brunnurinn, grafinn niður í leirinn, og frá honum Brunnstéttin, helluflórað upp til bæjar. Hér úti í tjörninni var lítið, upphlaðið byrgi, Tjarnarbyrgið.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – túnakort 1919.

Stóra-Lambhagastígur lá um hólmana eða austur fyrir þá upp að Brunanum og norðan undir honum og vestur með og var þar nefndur Hallinn. Ef gest bar að garði, sem fór þessa. leið, var vanalega sagt, að gesturinn væri á Hallanum. Hallinn lá út í Aukatún og þaðan út með vesturbrún Brunans fram hjá hesthúsinu á Aukatúni, að vesturtúngarði Aukatúns, sem var stuttur, aðeins ofan úr Brunanum niður að tjörn. Í skrá Gísla segir, að þarna hafi verið Vesturtúngarðshlið og þá komið á Litla-Lambhagastíg. Þetta nafn er hins vegar óþekkt, en gæti hugsanlega átt að vera Aukatúnshlið.

Austurtúngarðurinn lá úr Beinaviki upp á klettastall og suður eftir honum suður á Brunann.

Lambhagi

Lambhagi um 1970.

Um Brunann lá einhlaðinn grjótgarður vestur á Hraunhornið, Brunagarðurinn. Uppi á klettastallinum var Yrðlingabyrgið, sporöskjulaga og nokkuð hátt, með lágum dyrum. Um aldamótin síðustu hafði Guðjón Gíslason þarna yrðlinga í fóstri. Þarna er líka Fiskabyrgið, þar sem fiskur var kasaður hér í eina tíð og síðan hertur. Þarna uppi voru einnig tvö til þrjú fjárhús, og stóðu veggir þeirra til þessa. Sunnan við þau lá stígur upp frá túninu í hlið á austurtúngarðinum. Frá hliðinu lá stígur austur eftir hraunhrygg allháum. Var hann lagður hellum langt austur. Gísli Sigurðsson segir, að hann hafi heitið Ólafsstígur, en það er rangt. Ólafsstígur liggur upp á hraunið hjá kálgörðunum í Litla-Lambhaga.

Lambhagi

Lambhagi – stífla v/fiskeldis.

Skammt austur frá hliðinu á austurtúngarðinum voru tveir hraundrangar, nær mannhæðarháir og áberandi af sjó. Þeir nefndust Riddarar. Um þá og Riddarann á Helgafelli var mið á Rifið út frá Óttarsstaðatúni. Beinavíkurhlið, sem nefnt er í skrá Gísla, er óþekkt.
Fjárslóðin vestari liggur um Lambhagaeyrarkletta, og er stígur þessi heldur ógreiður. Miðja vegu í klettunum var Litlaeyri, vík. Í skrá Gísla Sigurðssonar segir, að upp af henni inni í hrauninu hafi verið Klettstjarnir, með fersku vatni. Þessu mótmælir Gísli Guðjónsson og segir, að þar hafi aðeins verið ein tjörn, sem hét Eyrartjörn. Þó kann að vera, að einhverjar smátjarnir hafi komið upp þarna um hásjávað.

Lambhagi

Lambhagi fyrir 1960.

Víkin var einnig kölluð Litla-Sandvík. Nokkru utar var svo komið á Lambhagaeyri. Lá hún í sveig og var nokkuð stórgrýtt. Hingað rak mikið af sölvum, sem fé sótti mjög í. Gísli Sigurðsson segir, að eyrin hafi líka verið kölluð Stóra-Sandvík, en það kannast heimildarmenn sr. Bjarna ekkert við. Eyrin lá út að Lambhagaeyrarnefi, sem lá fyrir mynni Straumsvíkur. Lambhagaeyrartangar var nefið kallað ásamt Lambhagaeyrarrifi, sem lá beint á sjó út. Háasker var drangur út frá eyrinni, en milli hans og eyrar var Músarsund. Eyrin var allbreið, og hallaði inn af henni. Þar var Lambhagaeyrarflöt og í henni matjurtagarður. Niður frá flötinni var Lambhagaeyrartjörn. Í henni gætti flóðs og fjöru. Þó var þarna ferskt vatn. Vestan við tjörnina var Lambhagaeyrarskjól og þar við Lambahageyrarbyrgi. Sunnan við tjörnina eru Skotbyrgin, Skotbyrgið eystra og Skotbyrgið vestra. Hér upp af ganga geilar og bugður og nefnast Katlar. Af eyrinni liggur fjárslóðin eystri inn eftir Eyrarklettum.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambahaga við Straumsvík.

Út af þeim var klettur, nefndur Einbúi. Slóðin lá allt inn í Þórðarvík, en þar voru mörk milli Þorbjarnarstaða og Hvaleyrar. Hér kemur niður stígur, er sameinast alfaraleiðinni austan og ofan við Gjögur. Sveinn í Eyðikoti, fóstri Gústafs Brynjólfssonar, kallaði hann Lambhagastíg. (Gísli Sigurðsson kallar hann ranglega Ólafsstíg.) Hér út frá Þórðarvík er Þórðarvíkurþari. Gísli Sigurðsson segir, að Hraunavík heiti hér fram undan austan frá Hvaleyrarhöfða vestur að Óttarsstaðatöngum en heimildarmenn sr. Bjarna þekkja hvorki nöfnin Hraunavík né Óttarsstaðatanga. Þó gætu þessir tangar verið nefndir Óttarsstaðatangar frá öðrum bæjum en Óttarsstöðum.

Alfaraleið

Í fornleifaskráningum hefur Alfaraleiðin millum Þorbjarnarstaða og Gerðis ekki verið skráð (einungis sögð “óljós”).

Um Brúnaskarð eystra liggur alfaraleiðin upp á Kapelluhraun, en svo nefnist neðsti hluti Nýjahrauns, sem ofar kallast Bruninn og enn ofar Háibruni. Áður hefur verið getið um mosatekju í Kapelluhrauni. Landamerkjalínan liggur úr Þórðarvík suður og upp um Leynidali og síðan áfram upp austurbrún Brunans. Alfaraleiðin lá suðvestur eftir Brunanum. Nær miðju var Kapellan, húsnefna hlaðin úr grjóti uppi á hól. Var hún 2×2 metrar að ummáli, og sneru dyr í vestur. Kapella þessi var helguð heilagri Barböru, sem var verndari ferðamanna og gegn hvers konar háska af eldsvoða.

Alfaraleið

Alfaraleiðin – Stóravarða við leiðina; einnig landamerki Lambhaga og Hvaleyrar neðan Leynis.

Síðan liggur leiðin áfram, þar til komið er í Brunaskarð vestra. Við hvort skarð eru vörður, er nefnast Stóravarðan eystri og Stóravarðan vestri. Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðaker.

Úr skarðinu liggur alfaraleiðin vestur um Hraunin ofan eða sunnan garðs á Þorbjarnarstöðum. Þegar hér er komið, verður fyrir stígur, er liggur frá Gerðinu, nefnist Gerðisstígur. Lá stígur þessi suður með vesturbrún Brunans. Skammt sunnar lá stígurinn um Hólaskarð milli Brunans og Hólanna, og var hann því allt eins nefndur Hólaskarðsstígur. Rétt sunnan við Skarðið var vik í Brunann. Hér vestur af eru klettaborgir miklar; í lægð milli þeirra er Þorbjarnarstaðaker, djúpt jarðfall, og var þar hætta fyrir fé. Það komst ekki upp úr. Þorkell Árnason bóndi á Þorbjarnarstöðum hlóð tröppur upp, og eftir það var fé engin hætta búin. Lægðin nefndist Stóridalur. Skammt vestar var svo Litlidalur.

Selhraun

Gerðisstígur (Hellnastígur) um Selhraun.

Ofan við Hólana allt frá Bruna og vestur að Óttarsstaðarauðamel liggur Seljahraun. Seljahraunsstígur liggur gegnum það upp með Brunanum. Seljatún nefndist lítil, gróin flöt norðan hraunsins. Þegar komið er yfir Seljahraun, blasir við á hægri hönd mikill melur, Rauðimelur eða Þorbjarnarstaðarauðimelur. Rétt fyrir norðan Rauðamel eru Neðri-Hellar eða Litlu-Hellar. Rauðimelur var einnig nefndur
Rauðhólar. Norðan melsins voru klettaborgir, áberandi vegna gróðurs í kringum þær. Nefndust þær Rauðamelsklettar syðri og Rauðamelsklettar nyrðri eða bara Rauðamelsklettar. Vestur frá þeim tóku við Ennin, lágar brekkur.
En Rauðamelsstígur lá vestur norðan við melinn, samkvæmt skrá Gísla Sigurðssonar. Nú man enginn eftir honum, e.t.v. hafa þetta. bara verið fjárslóðir. Suður frá melnum var Réttargjá. Gjá þessi var sprunga, sem sneri suður og norður.

Vorrétt

Rauðamelsrétt (Vorrétt).

Skammt suður þaðan í Brúnabrúninni var Þorbjarnarstaðarétt eða vorréttin, einnig nefnd Rauðamelsrétt, þótt hún væri drjúgan spöl frá melnum. Héðan var stígurinn kallaður Efrihellnastígur allt upp að Efrihellum, sem hér voru við brúnina á Brunanum. Þegar hér var komið, nefndist hraunið Brenna, ofan Efrihellna, brunatunga, er lá hér suður. Úti á hrauninu var Brennuhóll, neðst í Brennunni. Guðmundur Bergsveinsson í Eyðikoti sótti kvarnarsteina í Brennuna og bar á bakinu, setti mosa undir bakið.

Hrauntunguskjól

Hrauntunguskjól.

Halda skal nú hér fram með Brennu, allt þar til kemur í Hrauntungukjaft. Þar taka við Hrauntungur, sem liggja norðaustur eftir milli Brennu og Brunans. Þær eru nokkrar að víðáttu, og er skógurinn einna mestur þar, allt að 4 m há tré. Úr kjaftinum liggur Hrauntungustígur norðaustur og upp á Háabruna, út á helluhraunið og austur eftir því upp að Hamranesi vestan Hvaleyrarvatns. Er þetta skemmtileg gönguleið. Efrigóm Hrauntungukjafts gerir Hellishóll. Hér í hólnum eru Hrauntunguhellar (að sögn Gísla Guðjónssonar; Gísli Sigurðsson kallar þá hins vegar Hellishólshelli og Hellishólsskjól). Í vætutíð má fá þar vatn. Uppi á hólnum er Hellishólsker. Hér nokkru sunnar er Fjárborgin á tungu út úr brunanum. Hún stendur enn, og er innanmál hennar um 7 m. Suður og upp frá brunanum eru Brundtorfur. Þar var hrútum hleypt til ánna forðum daga. Þar voru Brundtorfuvörður og Brundtorfuhellir.

Brundtorfur

Brundtorfuhellir.

Einnig var þetta svæði kallað Brunntorfur, Brunntorfuvörður og Brunntorfuhellir. Hér vestnorðvestur var Gjásel, sel frá Þorbjarnarstöðum, stoð á Gjáselshæð. Rétt hjá selinu var vatnsstæði. Á hæð skammt suður og upp frá selinu var Gjáselsvarða. Norðaustur frá Gjáselsvörðu (G.G.) voru þversprungnir hólar, Vonduhólar. Frá selinu lá Gjáselsstígur, en hann er nú óglöggur mjög. Upp frá Hrauntungukjafti eru hólar, sem nefnast Skyggnirar. Þar um liggur Hrauntungustígurinn og er ekki vel greinilegur.
Í skrá Gísla Sigurðssonar segir: „Hér lengra og ofar er Þúfuhólshraun með Þúfuhól og þar á Þúfuhólsvörðu. Svæði þetta nefndist líka Hundaþúfuhólshraun, Hundaþúfuhóll og Hundaþúfuhólsvarða.” En Gísli Guðjónsson og Jósef Guðjónsson segja, að þessi örnefni séu ekki til hér, heldur séu þau vestur af Tóhólum í Óttarsstaðalandi.

Kolbeinshæðarskjól

Kolbeinshæðarskjól.

Í suðvestur uppi á hrauninu frá Efri-Hellum er hraunhæð, nefnd Kolbeinshæð, og er vel gróið kringum hana. Sunnan í henni er vestanvert Kolbeinshæðarskjól, en austanvert er Kolbeinshæðarhellir. Uppi á hæðinni er Kolbeinshæðarvarða. Kolbeinshæðarstígur liggur hér um skarð í hæðinni suður og upp hraunið, og er þá komið að stórri, ferhyrndri laut þarna í hrauninu. Gísli Sigurðsson segir, að hún sé kölluð Kvíin, en það kannast heimildarmenn sr. Bjarna ekki við, telja þó, að það geti staðizt. Hraunflákinn milli Rauðamels og Kolbeinshæðar heitir Gráhelluhraun. Suður og upp frá lautinni, sem fyrr var nefnd, er Fornasel, sel frá Þorbjarnarstöðum. Má enn sjá, að þrjár hafa verið þarna vistarverur.

Gjásel

Gjásel. Í örnefnaslýsingunni er því lýst sem Fornasel.

Selið stendur á Fornaselshæð. Rétt við Selið er vatnsstæði, nokkuð niðurgrafið. Norðan undir hæðinni eru rústir eftir kvíar. Suður og upp frá selinu var Gránuskúti eða Gránuhellir. Suðvestur héðan var Litlaholt og lá milli Straumssels og Hafurbjarnarholts, en um Hafurbjarnarholtsvörðu lá landamerkjalínan. Þaðan lá línan um Nyrztahöfða og um Norðurhöfðaslakka, á Mjóhöfða og um Miðhöfðaslakka, þaðan í Fremsthöfða í Þrívörður. Gísli Sigurðsson segir, að þær hafi verið nefndar Lýritti, en það hafa heimildarmenn sr. Bjarna ekki heyrt. Héðan lá aftur á móti línan austur og ofan við Brundtorfur og kom þar á Stórhöfðastíg, sem lá svo áfram vestur að Fjallinu eina.

Hafurbjarnarholt

Hafurbjarnarholt – varða.

Úr Hafurbjarnarholti lá landamerkjalínan niður um hraunið austur af Straumsseli niður um Katla og niður á Fremri-Flár. Austan við Katlana var Laufhöfðahraun með Laufhöfðavatnsstæði, sunnan undir Laufhöfða. Í brúninni á hrauni þessu var Kápuhellir. Landamerkjalínan liggur um Katlana í Jónshöfða austast í Straumsselshöfðum ofan Kápuhellis (Gísli Guðjónsson). Verður þá Straumsselsstígurinn innan merkjanna.

Héðan frá Jónshöfða liggur Fornaselsstígur suður og upp í Laufhöfðahraun suður í selið.

Gjásel

Gránuskúti í Gjáseli.

Frá Jónshöfða liggur Straumsselsstígurinn niður um Neðri-Flár eða Flárnar. Á miðjum Flánum er Fláavarðan. Eru nú engin örnefni, fyrr en kemur í Tobbukletta, Tobbuklett eystri og Tobbuklett vestri, en þar var Tobbuvarða, og lá landamerkjalínan um hana. Tobbuklettaskarð var allbreið lægð milli klettanna. Hér var stígur, sem lá allt til Krýsuvíkur, jafnframt fjallreiðarvegur á kafla.
Í skrá Gísla segir, að framan í Tobbukletti vestri hafi verið Tobbuklettsrétt. Það nafn þekkist nú ekki lengur, en þó sést enn fyrir réttum í Grenigjám litlu vestar, og ljóst er, að hægt hefir verið að reka að í breiðri sprungu, sem hlaðið hefir verið fyrir í, í Tobbukletti vestri (skoðað 21. júlí ’80, B. S.).
Tobbuvarðan eystri var á eystri klettinum. Þaðan er skammt í Seljahraun, en austur frá klettunum eru Ennin áðurnefnd.

Tobbuklettarvarða eystri

Tobbuklettavarða eystri.

Landamerkjalínan liggur úr Tobbuvörðu norður í Stekkatúnshæð vestari, þaðan í Tóhól eða Tó rétt vestan við Sölvhól og þaðan í Pétursbyrgi. En stígurinn liggur frá Seljahrauni vestan Jóhannshóls og milli Stekkatúnshæðar vestari og eystri. Á Stekkatúnshæð eystri var Hádegisvarða, stóð hátt og var mikil um sig. Hæðin var því allt að einu nefnd Hádegishæð. Varða þessi var ekki eyktamark frá Þorbjarnarstöðum, heldur sennilega Gerði. Norðan undir hæðinni var Stekkurinn eða Stekkatúnið með Stekksgerðinu. Þarna var líka Stekksgatan eða Þorbjarnarstaðagatan. Er þá komið heim að túngarði.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – Miðdegisvarðan; Hádegisvarðan frá Straumi.

Suðvestan Þorbjarnarstaðatúns er Miðmundahæð, eyktamark frá Þorbjarnarstöðum. Þar er stór varða. Enn standa margir túngarðar og veggir óhaggaðir í Hraununum. Eru þeir hlaðnir af Guðmundi Sveinssyni frá Óttarsstöðum, sem var mikill hleðslumaður. M. a. hlóð hann eldhús á Óttarsstöðum upp úr aldamótum, sömuleiðis skemmu í Stóra-Lambhaga, og standa þau enn óhögguð. Athugasemd: Sr. Bjarni kannast ekki við Fremri-Flár. Á þessum stað virðist lýsingin ekki í fullu samræmi við lýsingu Straums, en enginn núlifandi maður treystir sér til að leiðrétta þetta misræmi.” – Örnefnastofnun, 11. nóv. 1980; Sigríður Jóhannsdóttir [sign.]

Heimild:
-Örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar um Þorbjarnarstaði í Hraunum með athugasemdum.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin- varða.

Reykjanesbraut

Í “Fornleifaskráningu vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar frá Hvassahrauni að Krýsuvíkurvegi”, Reykjavík 2020, er m.a. fjallað um minjar á jörðunum Lónakoti, Óttarsstöðum, Straumi, Þorbjarnarstöðum, Péturskoti, Stóra-Lambhaga og Litla-Lambhaga, auk Hvaleyrar. Hér verður vikið að nokkrum atriðum skráningarinnar.

Lónakot

Lónakot

Lónakot – túnakort 1917.

1703: Jarðardýrleiki er óviss, konungseign, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 159.
1847: 10 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114.
Í eyði frá því um 1930. Árið 1966 áskildi Hafnarfjarðarbær sér forkaupsrétt á jörðinni Lónakoti.
1917: Tún telst 0,9 teigar, slétt, garðar 500 m2.
1703: „Selstöðu á jörðin í eigin landi, og eru hagar þar góðir, en þegar þurkur gengur, verður þar stórt mein að vatnsskorti. Skógur hefur til forna verið, og er það nú meira rifhrís, það brúkar jörðin til kolgjörðar og eldiviðar, og jafnvel til að fóðra nautpeníng um vetur.

Lónakot

Lónakot – uppdráttur ÓSÁ.

Torfrista og stúnga í lakasta máta, valla nýtandi. Lýngrif er nokkurt og brúkast til eldiviðar mestan part og stundum til að bjarga á sauðpeníngi i heyskorti. Fjörugrasatekja nægileg heimilissmönnum. Rekavon lítil.
Sölvafjara hjálpleg fyrir heimamenn. Hrognkelsafjara gagnleg fyrir heimamenn. Skelfiskfjara naumleg og erfiðisssöm til beitu. Heimræði má ekki kalla að hjer sje, því lendíng er engin nema við voveiflega sjáfarkletta, og þarf ábúandinn á næsta bæ, Ottastöðum, skipsuppsátur ár og dag, og hefur haft það frí í fimmtíi ár fyrir tvö tveggja manna för, hvenær sem ábúandinn á Lónakoti hefur viljað sumar og vetur. Inntökuskip hefur hann engin fyrir utan þessa báta og hafa ei heldur verið. Engjar eru öngvar. Utihagar bregðast mjög skjaldan á vetur.“ JÁM III, 160.

Óttarstaðir

Óttarsstaðir

Óttarstaðakot – túnakort 1919.

1703: Jarðardýrleiki óviss, konungseign, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 160.
1847: 20 5/6 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110. Í neðanmálsgrein segir: „Þó að hvorki prestir né sýslumaður nefni hjáleiguna, er hún samt talin með, meðfram vegna ábúenda tölu sýslumanns, á öllum Óttarstöpum, enda var hún í byggð 1803.“
Hjáleiga 1703: Ónefnd.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

1917: Tún 4,7 teigar, garðar 2460 m2. Túnið hólótt og grýtt en þó mikið slétt og sléttað.
1703: „Skóg til kolgjörðar og eldiviðar sækir ábúandi í almenníng betalíngslaust, hver sá eyddur er, sem skamt sýnist að bíða. Er þar ekkert á eður í jörðunni til eldíngar fyrir utan fjöruþáng, sem þar er enn nú nægilegt, og verður þá ábúandinn kol út að kaupa. Lýngrif kann þar nokkuð að brúkast, tíðkast ei nema til eldkveikju. Rekavon af trjám er hjer mjög litil, þó festifjara. Fisk brotinn af sér rekur á stundum, so heldur er gagn að. Sölvafjara nægir heimilissfólki, en er örðug að ná. Hrognkelsatekja í lónum þá út fjarar er hjer oft að góðu liði.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – örnefni (ÓSÁ).

Fjörugrös eru þar nægileg fyrir heimamenn. Bjöllur í fjörunni eru þar nógar, en brúkast ekki nema i stærstu viðlögum. Heimræði er þar árið um kríng. Lending í meðallagi. Þar gánga skip ábúanda og nú engin fleiri. Til forna hafa þar irmtökuskip gengið fyrir undirgil’t, kynni og enn nú eins að vera, ef fiskgengdin yxi.
Hjer gengur eitt kóngsskip, tveggja manna far, undirgiftarlaust; ljær ábúandi skipshöfninni húsrúm í bænum betalíngslaust af umboðsmanns hendi. (Soðningarkaup gefa Þeir sjálfir). Þetta kóngsskip hefur i mörg fyrirfarandi ár stundum hjer verið, stundum ekki, eftir því sem umboðsmanninum litist hefur.

Straumur/Óttarrsstaðir

Straumur/Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Engjar á jörðunni öngvar. Selstöðu á jörðin í almenníngi, eru þar hagar góðir, en vatnslaust í þerrasumrum. Aðra selstöðu á jörðin í Lónakotslandi, so sem á mót þeim skipsuppsátrum, er Lónakotsmenn kafa við Óttarstaði. Peníngur og stórgripir ferst hjer oft i gjám, ef ei er vandlega aðgætt, helst á vetur þá snjóar yfir liggja. Kirkjuvegur er hjer í lengra lagi.
Torfstúnga er so gott sem engin til heyja, þaks og húsa.“ JÁM III, 161.
Árið 1966 áskildi Hafnarfjarðarbær sér forkaupsrétt á jörðunum Óttarsstöðum og Óttarsstaðakoti. ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 114.

Straumur

Straumur

Straumur – túnakort 1919.

1703: Jarðardýrleiki óviss, konungseign, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 163.
1847: 12 1/2 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114.
1491, 10.05: Rætt um deilur Hansakaupmanna og Englendinga. Hansakaupmenn ráku m.a. þá ensku úr höfninni í Straumi. DI XVI, 449.; Sjá einnig sama bindi, 553.

Óttarsstaðir

Straumur og Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

1501, 11.10: Jörðin Straumur út í Hraunum er í Besstaðakirkjusókn. DI VII, 586.
Eyðibýli 1703: Lambhúsgerði.
1919: Tún 1,4 teigar, allt slétt, garðar 560 m2.
1703: „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Straumssel, þar eru hagar slæmir, en oft mein að vatnsskorti þá þurkar gánga. Skóg til kolgjörðar og eldiviðartaks brúkar jörðin í almenníngum, líka er stundum hrís gefið nautpeníngi. Torfrista og stúnga í skárra lagi. Lýngrif getur jörðin ogso haft í almenníngum. Rekavon nær engin. Hrognkelsafjara nokkur. Skelfiskfjara hjálpleg til beitu.
Heimræði er árið um kring og lendíng góð, og gánga skip ábúandans eftir hentugleikum. Inntökuskip eru hjer engin, en hafa þó áður verið og ábúandinn þegið undirgift af. Engjar eru öngvar.“ JÁM III, 164.
Hafnarfjörður keypti hluta úr landi jarðarinnar árið 1947 og áskildi sér forkaupsrétt á öðrum hlutum hennar árið 1966. ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 108, 115.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – túnakort 1919.

1703: Jarðardýrleiki óviss, konungseign, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 164.
1847: 12 1/2 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110.
1395 er minnst á eyðijörðina Þorbjarnarstaði í skrá um kvikfé og leigumála á jarðeignum Viðeyjarklausturs og telja útgefendur DI það var þessa jörð. DI III, 598.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114.

Hjáleiga 1703: Lambhagi.
1919: Tún 1,4 teigar, allt slétt og hólótt, garðar 500 m2.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

1703: „Skóg hefur jörðin átt, en nú má það valla kalla nema rifhrís, það hefu r hún so bjarglega mikið, að það er bæði brúkað til kolgjörðar og eldiviðar, og so til að fæða peníng á í heyskorti. Aldrei ljá það búendur til annara, og eru þetta þau skógarpláts, sem almenníngar eru kölluð.
Torfrista og stúnga í lakasta máta og ekki bjargleg. Fjörugrasatekja nægileg fyrir heimilissmenn. Berjalestur hefur til forna verið til gagns af einirberjum, nú eru þau mestanpart eyðilögð. Rekavon næsta því engin. Sölvafjara nokkur má vera en brúkast ekki. Hrognkelsafjara nokkur og stundum að gagni. Skelfiskfjara naumlega til beitu. Heimræði er árið um kríng og lendíng góð, en leib til að setja skip mjög ill og erfið; þó gánga skip ábúenda eftir hentugleikum árið um kríng. Item hafa hjer bátar frá Bessastaðamönnum gengið til forna, og verið kallaðir kóngsskip, þó ekki stærri en tveggja manna far, og fleiri en eitt í senn um vertið. Hafa bændur hýst þá, er bátnum róið hafa og ekkert fyrir þegið nema soðníngarkaup af hásetum. En þetta hefur ekki verið i næstu þrjú ár.
lnntökuskip hafa hjer aldrei gengið önnur en þessi i næstu fimtíi ár. Engjar eru öngvar.“ JÁM III, 166.

Péturskot

Péturskot

Péturskot – túnakort 1919.

„Litlu norðar var Péturskotsstígur. Hann lá yfir að Péturskoti, sem var þurrabúð í Þorbjarnarstaðalandi. Var það fyrst byggt fyrir aldamót af Pétri Péturssyni, Helgu konu hans og Signýju dóttur þeirra. Þarna var ofurlítið tún, og var túngarður umhverfis það,“ segir í örnefnaskrá. Bærinn er merkur fyrir rétt norðan við miðju túns á túnakort frá 1919. Þrjú hús voru á bæjarstæðinu samkvæmt túnakortinu og snéru stafnar bæjarins til VNV. Kjallari var líklega í húsinu. Lítið er eftir að gamla bænum á yfirborði þar sem mikið rask hefur orðið á svæðinu (á bænum og norðurhluta túnsins) vegna lagningar Reykjanesbrautar.

Péturskot

Péturskot – leifar kotsins.

Enn sjást þó rústir þar sem gamli bærinn stóð en enginn eiginlegur bæjarhóll er greinilegur. Péturskot er rétt sunnan við Reykjanesbraut. Túnið er komið í órækt og er smáþýft. Gróður er nokkur innan túnsins en utan þess er einkum grýtt hraunlendi þar sem gróður er nokkur, mest mosi.
Tún Péturskots er 75×75 m að stærð.
Péturskot kemur fyrst fram í manntali 1880 og kemur fram í manntölum til 1910 en er ekki getið í manntali 1920. Enginn eiginlegur bæjarhóll er greinilegur þar sem gamli bærinn stóð en þar sést þó mikið hleðslugrjót úr hraungrýti á svæði sem er 8×6 m að stærð.

Péturskot

Péturskot – útihús.

Rétt austan við bæjarstæðið var útihús merkt inn á túnakort frá 1919. Á þessum stað er grjóthlaðin L-laga hleðsla. Lagning Reykjanesbrautar árið 1965 umturnaði heimatúni Péturskots og er norðurhluti þess kominn undir veginn.
Enginn eiginlegur bæjarhóll er greinilegur en þar sem gamli bærinn stóð er mikið hraungrýti á svæði sem er 8×6 m að stærð (VNV-ASA).

Péturskot

Péturskot.

Á þessu svæði er óljós tóft og í henni má greina tvö hólf. Það er Tóftir Péturskots, horft til norðurs. Veggir eru grjóthlaðnir. Í hleðslunni má greina 1-3 umför af stæðilegu hraungrýti í bland við smágrýti, en víða eru hleðslur mjög aflagaðar. Veggir eru 0,3-0,6 m á hæð, og standa hæst til norðvesturs. Ekki er hægt að greina skýrt innra lag hólfsins þar sem veggir hafa hrunið inn í hólfið. Tóftin var betur varðveitt þegar Þjóðminjasafn Íslands skráði Péturskot um 1990.

Péturskot

Pétursspor.

Á túnakort frá 1919 er merkt útihús um 10 m austan við Péturskotsbæ. Þar sem útihúsið var má greina L-laga hleðslu. Hún er um 3,5 m á kant en 0,7 m há. Í hleðslunni eru 7 umför af stæðilegu hraungrýti. Hleðslan er í litlu innskoti í mosagrónum kletti sem er í austurhluta túnsins. Þéttur mosi er á efsta umfari hleðslunnar.

Péturskot

Péturshróf.

Pétursspor var stígur milli kotsins og Straumshólana og um Straumsrásirnar frá Straumstjörn,“ segir í örnefnaskrá. Nyrsti hluti leiðarinnar frá Péturskoti og fram í Straumshólmana var kallaður Péturspor. Hlaðnar brýr eru á leiðinni í Straumstjörn, um 170 m ASA við Straumsbæ og rúmum 70 m norðan við Reykjanesbraut.

Péturskot

Péturskot árið 2000.

Brýr liggja yfir fremur grunna tjörn og í grasivaxna hóla. Víða sést þó í bert grjót á hólmunum. Á þessum hluta eru þrjár brýr sem tilheyra Pétursspori. Samtals ná þær yfir svæði sem er 60×40 m að stærð.
Péturshróf var naust neðan Péturskots. „Milli lands þessara jarða [Þorbjarnarstaða, og Stóra-Lambhaga, og jarðarinnar Straums ræður merkjum bein lína frá sjó úr grjótbyrgi í Hólmanum. Pétursspor var stígur, sem lá heiman frá bæ niður á Straumshólana og um Straumsrásirnar frá Straumstjörn.

Péturskot

Péturskot – könnunarskurðir er gefa áttu til kynna aldur kotsins.

Stígur þessi lá fram á Pétursbyrgi svokallað. Þar var Byrgisvör eða Pétursbyrgisvör. Í vörina sér enn djúpar skorir eftir bátskilina,” segir örnefnaskrá. Péturshróf er um 380 m NNV við bæ og rúmum 50 m norðan við Reykjanesbraut. Péturshróf er í Straumsvík, rétt sunnan við mosagróinn klettadranga.
Péturshróf er einföld tóft, 7,5×3,5 m að stærð og snýr hún norður-suður. Veggir eru grjóthlaðnir og nokkuð hlykkjóttir. Í hleðslum sjást mest 2-4 umför af stæðilegu hraungrýti í bland við smágrýti. Veggir eru 0,3-0,6 m á hæð, veglegastir að sunnan. Byrgið er breiðast til austurs en mjókkar aðeins eftir því sem vestar er farið. Byrgið er opið til austurs, að sjó.

Stóri-Lambhagi

Stóri-Lambhagi

Stóri-Lambhagi – túnakort 1919.

1703: Jarðardýrleiki óviss, hjáleiga frá Þorbjarnarstöðum, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 166.
1847: 4 1/6 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114
1919: Rún 0,6 teigar, slétt að mestu af náttúrunnar hendi, garðar 550 m2.
1703: „Selstöðu brúkar jörðin ásamt Þorbjarnarstöðum þar sem heitir Gjásel, eru þar hagar góðir en vatn slæmt. Hríssrif hefur jörðin í Þorbjarnastaðarlandi þar sem heita almenníngar, er það haft til kolgjörðar og eldiviðar og til að fæða peníng í heyskorti.

Lambhagi

Lambhagi fyrir 1960.

Torfrista og stúnga er næsta því engin, og þarf ábúandinn til að fá með miklu erfiði. Fjörugrasatekja er til en brúkast ekki. Rekavon næsta því engin. Sölvafjara nokkur. Hrognkelsafjara gagnvænleg þegar vel árar. Skelfiskfjara valla til beitu. Heimræði er árið um kring, og lendíng í besta lagi, gánga skip ábúandans eftir hentugleikum; undir kóngsskipanafni hefur hjer áður oftastnær gengið bátur, tveggja manna far, og ábúandinti hýst áróðrarmenn og ekkert fyrir þegið nema soðningarkaup af þeim; næstliðið ár var það ekki.

Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambhaga.

Inntökuskip hafa hjer engin gengið nema skjaldan um hausttíma bátar nágranna fyrir góðvilja eður einhverja þóknan. Túnin fordjarfast árlega af sjáfaryfirgángi meir og meir.
Engjar eru öngvar. Útigángur um vetur bágur fyrir fjarlægð haganna, en fjaran er mest til beitar köfð.“ JÁM III, 167–168.
Árið 1966 áskildi Hafnarfjarðarbær sér forkaupsrétt á jörðunum Litla Lambhaga og Stóra-Lambhaga, og var tekið eignarnám í landi Lambhaga vegna hafnargerðar í Straumsvík. ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 116.

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi – túnakort 1919.

„Litli-Lambhagi stóð í Litla-Lambhagatúni. Lá túngarður tvíhlaðinn með allri norðurhlið þess,” segir í örnefnaskrá. Í fasteignamati frá 1917 segir: „Litli-Lambhagi: Hjáleiga frá Þorbjarnarst. […] Ekki virt til dýrleika […]. Hús á jörðinni fylgir eru: „Baðstofa 9×5 ál framdyr, Bæjardyr og eldhús, fjós fyrir 10 kú […]. Hús ábúenda eru: Heyhús, grjótveggir, járnþak. Geymsluhús, 3 fjárhús fyrir 120 fjár.“ Fjögur hús eru merkt innantúns á býlinu á túnakort frá 1919. Samkvæmt því var bærinn rétt norðan við mitt heimatúnið. Stafnar bæjarins sneru til suðvesturs.

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi – eldhús.

Nokkuð rask hefur verið í og við gamla bæinn. Búið er að leggja veg að álverinu í Straumsvík yfir austurhluta þess. Samkvæmt heimasíðu Hraunavina var einnig reistur sumarbústaður fast norðan við bæjarhólinn fyrir miðja 20. öld (af bræðrunum Marinó og Kristni Guðmundssonum). Á heimasíðunni kemur einnig fram að þegar þeir reistu sumarbústaðinn hafi staðið grjóthlaðið eldhús á gamla bæjarstæðinu, sem hefur verið hluti gamla bæjarins. Lítil ummerki um bæjarhól sjást á Litla-Lambhaga og engin ummerki bæjarhúsa. Þau hafa líklega horfið vegna sumarbústaðarframkvæmda og/eða í vegframkvæmdir við álverið í Straumsvík.

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi – bæjarhóllinn.

Gamli bærinn stóð rétt vestan við veg sem liggur að álverinu í Straumsvík. Hóllinn er umhverfis tún sem komið er í órækt. Túnið er smáhæðótt og mosi nokkur í sverði. Víða standa klettanibbur upp úr grasinu. Bæjarhólnum var mikið raskað þegar sumarbústaðurinn var byggður og ekki er útilokað að eitthvað grjót úr gamla bænum hafi verið endurnýtt í þá byggingu en frekari heimildir
skortir til þess að staðfesta það. Líklega leynist einhver mannvist undir sverði á þessum slóðum þrátt fyrir mikið rask.

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi – Steinbogi.

Steinbogi var garður upp í Aukatún; „Upp í Aukatúni lá gangbraut hlaðin sem garður, nefndist Steinbogi,“ segir í örnefnaskrá.
Steinbogi eða hlaðin brú liggur yfir litla tjörn í Aukatúni, um 110 m sunnan við Litla-Lambhaga. Hleðslan liggur yfir tjörn eða deiglendi í grónu hrauni.
Hleðslan er um 5 m löng en 2 m breið. Hún snýr NNA-SSV. Hleðslan rís 0,4 m hærra en umhverfið og er grjóthlaðin en mikið gróin. Ekki sést í umför í hleðslunni þótt víða standi stæðilegt grjót upp úr gróðrinum.

Hvaleyri

Hvaleyri

Hvaleyri – herforingjaráðskort 1903.

1703: Jarðardýrleiki óviss, konungseign, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 168.
1847: 20 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110. Í neðanmálsgrein segir: „Þó jb. 1803 ein nefni 4 bygðar hjáleigur (Bindindi, Lönd, Lásastaði, og Ásgautstaði) og vorði þær allar til dýrleika, er þeim samt sleppt, bæði af presti og sýslumanni (sem nú líklega graslausum).“

Hvaleyri

Hvaleyri – örnefni.

Samkvæmt Hauksbók Landnámu sigldi Hrafna-Flóki í Hafnarfjörð og fann þar hval á eyri einni og kölluðu það Hvaleyri. Í Landnámu segir að Ásbjörn Özzurarson, bróðursonur Ingólfs, hafi numið land milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns og allt Álftanes og bjó hann á Skúlastöðum [sjá Garða]. ÍF I, 39, 394.
1284: Jarðarinnar getið í rekaskrá Viðeyjarklausturs (sjá jarðaítök hér neðar). DI II, 246.

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum. Varða til minningar um Flóka Valgarðsson, þess er elst er getið, í forgrunni. Hvaleyrarbæinn frá 1772 í bakgrunni.

Um 1300 er getið um Hvaleyri í sögn af Teiti bónda þar í jarteinasögu Þorláks helga. Biskupa sögur I, 386.
1343 er minnst á Hvaleyri í Gottskálksannál. Isandske Annaler, 352.
1395: Þá á Viðeyjaklaustur Hvaleyri og var leiga 4 hndr. DI III, 597.
1395: Jarðarinnar getið í skrá Viðeyjarklausturs m kvikfé og leigumála. DI III, 597.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772 – Joseph Banks.

1448 [eða síðar]: „Vitnisburður Hafliða Gizurarsonar um landeign og landamerki Hvaleyrar við Hafnarfjörð […] kirkian aa hvaleyri ætti Þorlakstade og hravnvelle. hamranes ok grisanes ok allt firir svnnann vtann ok ofan ok vp vr hvaleyrar vatnni ok nordvr j kornstapa hravn. ok alltt vp med gotvnni firir svnnan ok vp yfer þormodz hofda nema litinn skog er lavgarnes kirkia aa vid landsydri j hvaleyrar hofda.” DI IV, 751–752..

Hvaleyri

Hvaleyri.

1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114.
Hjáleiga 1703: Hvaleyrarkot. Enn fremur höfðu afbýlismenn heima við bæinn grasnyt. Bóndi jarðarinnar sá um að viðhalda þeim húsum sem þeir voru í.
Jarðaítök 1284: Viðeyjarklaustur á hálfan rekavið á jörðinni. Og skóg í hrauni út frá Hvaleyri. DI II, 246–277.
1703: „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hvaleyrarsel, þar eru hagar sæmilegir og vatnsból gott. Hrissrif nokkurt hefur jörðin í heimalandi og er það að mestu eytt. Item hefur hún hrisrif til eldiviðar í almenningum og svo til kolgjði’ðar. Torfrista og stúnga í lakasta máta nærri ónýt.
HafnarfjörðurLýngrif hefur jörðin nokkurt. Fjörugrasatekja nokkur. Rekavon nokkur. Hrognkelsafjara að nokkru gagnvænleg. Skelfiskfjara nægileg til beitu, liður ágáng af öðrum jörðum. Heimræði er árið um kríng og lending góð, og gánga skip ábúenda eftir hentugleikum. Til forna hefur hjer oft undir kóngsskipa nafni gengið eitt tveggja manna far, en síðan Lauridtz Hansson Siefing var á Bessastöðum Heidemanns vegna hefur það ekki verið. Inntökuskip hafa hjer stundum gengið ekki stærri en tveggja manna för, og hefur ábúandi þegið undirgift af, mætti og enn vera ef menn vildu. Túnin spillast af sandságángi. Engjar eru öngvar. Vatnsból er ilt og þrýtur bæði vetur og sumar.“ JÁM III, 169.

Stóravarða

Stóravarða 2023.

Stóravarða var landamerki Hvaleyrar og Lambhaga; „Þá liggur línan niður um Þórðarvík um Stóruvörðu, sem stóð á hraunbrúninni rétt þar sem
alfaraleið lá upp á Kapelluhraunið,” segir í örnefnaskrá. Varðan var um 2 m á hæð og mjög stæðileg. Árið 1999 var gerður vegarslóði fast sunnan hennar og við þær framkvæmdir rak ýtumaður sig í vörðuna og hrundi hún við það. Í skráningu fornleifa vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar frá 2001 segir að frumkvæði þjóðminjavarðar var hluti vörðunnar hins vegar hlaðinn upp aftur. Þær leifar eru langt utan heimatúns Hvaleyrarbæjar, um 2 km suðvestan við bæ og rúmum 40 m sunnan við Reykjanesbraut. Varðan er á grýtti hæð rétt norðan við malarvegslóða. Varðan er sæmilega hlaðin, 1,5 m á hvorn veg og um 1 m á hæð. Hún er grjóthlaðin og úr blöndu af stæðilegu hraungrýti og smágrýti. Efst á vörðunni eru smásteinar.

Alfaraleið

Í fornleifaskráningum hefur Alfaraleiðin  millum Þorbjarnarstaða og Gerðis (rauð) ekki verið skráð (einungis sögð “óljós”).

Niðurstaða fornleifaskráningarinnar í heild var; “Innan svæðisins voru skráðari 56 fornleifar á 43 minjastöðum. Allir staðirnir teljast til fornleifa og njóta verndar sem slíkir en minjagildi þeirra er misjafnt. Í skýrslunni var gerð tilraun til að leggja mat á gildi hvers minjastaðar og voru niðurstöðurnar þær að þrír minjastaðir hefðu mjög mikið gildi, átta mikið gildi, 15 staðir töldust hafa nokkurt minjagildi og 17 lítið. Rétt er að ítreka að algengara er að margar fornleifar/minjaeiningar falli undir þá staði sem flokkaðir voru með mikið eða mjög mikið minjagildi heldur en þá sem töldust hafa lítið minjagildi sem oftast eru stakar fornleifar fremur en þyrpingar.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Suðurnesjaveginn gegnt Gerði ofan Péturskots.

Í skýrslunni er fjallað sérstaklega um þrjú minjasvæði vegna mikils gildi sem stakar minjar eða minjaheildir. Þó að mögulegt sé að komast hjá raski á nokkrum fjölda minja innan úttektarsvæðins er ljóst að mörgum minjum verði raskað að hluta eða öllu leyti að óbreyttu. Niðurstaðan er því að áhrif framkvæmda við breikkun Reykjanesbrautar á svæði frá Hvassahrauni að Krýsuvíkurvegi muni hafa neikvæð áhrif á fornminjar”.

Ljóst er að fórna þarf nokkrum fornleifum sögunnar millum framangreindra bæja við tvöföldun Reykjanesbrautar á kaflanum frá ofanverðu Lónakoti að ofanverðu Hvaleyri. Samt ert leitt til þess að vita hversu skráningaraðilar hafa haldið illa á málum með því að horfa framhjá augljósum fyrirliggjandi heimildum er kynnu að hafa gert verk þeirra miklu mun markvissara, ekki síst til lengri framtíðar litið.”

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Þegar framangreind skráning er skoðuð er ljóst að skráningaraðilinn hefur hvorutveggja haft takmarkaða þekkingu á viðfangsefninu og ekki reynt að afla sér augljóslegra fyrirliggjandi gagna er koma gætu að gagni. Þá er leitt til þess að vita að starfsfók Minjastofnunnar skuli ekki hafa dug í sér til að gera viðhlýtandi athugasemdir við augsýnilega endurteknar vanskapaðar fornleifaskráningar, sem til þess berast.

Heimild:
-Fornleifaskráning vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar frá Hvassahrauni að Krýsuvíkurvegi, Reykjavík 2020.

Reykjanesbraut

Fyrirhugað vegastæði tvöföldunar Reykjanesbrautar ofan Straums.

 

Þorbjarnastaðir

Í ferð nr. 1 á “Göngudögum Alcan” var gengið milli Hraunabæjanna, skoðuð mannvirki og sagan metin. Á svæðinu, svo til við fótaskör höfuðborgarsvæðisins, eru minjar er endurspegla bæði búsetu- og atvinnusögu kotbændanna svo að segja frá upphafi landnáms hér á landi. Um er og að ræða eina af náttúruperlum landsins. Svæðið hefur í 30 ár búið í sátt við álverið í Straumsvík. Á sama hátt og afurðir þess hafa margfaldast að verðmæti hefur svæði til útivistar orðið dýrmætara með hverju árinu sem líður.

Stóri-Lambhagi

Stóri-Lambhagi.

Hraunin eru merkileg fyrir margt; stórbrotna náttúru, mikilfengleg jarðfræðifyrirbæri, sérstætt gróður- og dýralíf sem og einstakar búsetuminjar. Hraunin eru mikilsverð tákn þess sem var. Að handan er nútíðin. Álverið skilur þar á milli – svo einungis nemur nokkrum gangandi mínútum.

Bæirnir í Hraunum eru nú í landi Hafnarfjarðar, en höfðu tilheyrt Garðahreppi allt til ársins 1967 er bæjarfélögin höfðu makaskipti á löndum. Í Hraunum bjuggu Hraunamenn á 12 býlum og kotum um aldamótin 1900. Neðan Reykjanesbrautar, Straumsmegin, eru auk þess Óttarstaðir eystri og Óttarstaðir vestri, Stóri Lambhagi og Lónakot vestar. Sunnan brautarinnar eru Þorbjarnarstaðir. Hjáleigur og þurrabúðir eru og þarna, s.s. Litli Lambhagi (hét Nýjakot áður). Þýskubúð og Jónsbúð voru hjáleigur Straums. Kolbeinskot, Óttarstaðagerði og Eyðikot vor hjáleigur Óttarsstaða, en Gerði og Péturskot frá Þorbjarnarstöðum að sunnanverðu. Péturskot var þar sem Reykjanesbrautin liggur nú við norðurkantinn á Fagravelli skammt austan við gatnamótin að Straumi.

Stóra-Lambhagavör

Stóra-Lambhagavör.

Norðan Straums eru nokkrir stígar s.s. Sjávargata og Jónsbúðarstígur, en sunnan hans er t.d. Straums(sels)stígur er liggur upp með vesturgarði Þorbjarnastaða, yfir Alfaraleið er liggur út á Útnes, og áfram upp í Straumssel.Umhverfis bæina eru heillegir grjótgarðar, auk fjárétta, kvía, byrgja og nátthaga. Aðallega var gert út á fjárbúskap, en einnig voru þar einstakar kýr og nokkrir hestar. Hraunamenn gerðu mikið út á sjósókn og má sjá þar varir, þurrabúðir, vörslugarða og fiskreiti enn þann dag í dag. Búskapur lagðist af í Hraunum um 1930, Óttarsstöðum eystri 1952, en lengst var búið á Óttarstöðum vestri (1965). Straumsvík var mikill verslunarstaður frá árinu 1400 og fram yfir 1600 þegar þýskir og enskir kaupmenn gerðu út á landann.

Straumur

Straumsvör.

Tjarnirnar ofan við Straumsvík heita Straumstjarnir næst víkinni. Svonefndir Hólmar umlykja þær. Á neðsta hólmanum er Pétursbyrgi – þar voru merki móti Þorbjarnarstöðum.
Ofan vegar er Gerðistjörnin og Brunntjörnin þar fyrir ofan. Austan hennar, sunnan Gerðis, er Gerðistjörnin syðri. Vestan Gerðistjarnar og norðan Brunntjarnar er Stakatjörn. Brunntjörnin heitir svo vegna brunnsins syðst í henni, en þar leysir ferkst vatn undan hrauninu eins og svo víða í tjörnunum. Sameiginlega voru allar tjarnirnar nefndar Gerðistjarnir eða Þorbjarnarstaðatjarnir.

Norðan Reykjanesbrautar, skammt vestan afleggjarans að Straumi er Brunntjörn, oft nefnd Urtartjörn. Þegar staðið er norðaustan við tjörnina í stilltu veðri má sjá líkt og sel ofan í tjörninni. Þarna er um að ræða klett sem líkist sel við vissar aðstæður.

Litli-Lambhagi

Gerði við Litla-Lambhaga.

Gerði reisti Guðjón Jónsson frá Setbergi um aldamótin 1900. Þá var það einungis norðvesturhorn hússins, en síðar var bætt við það litlu húsi við suðausturhlutann. Stefanía hét kona hans. Þau bjuggi í gerði ásamt tveimur sonum og fóstursyni. Búskap var hætt í Gerði um 1930. Starfsmannafélag Álfélagsins endurgerði húsið um 1990 og bætti þá við forstofu og salerni að austanverðu. Útihúsin, hlaðin, eru vestan við bæjarhúsið. Alfaraleiðin út á Útnes lá svo að segja um túnblettinn. Hann lá yfir Kapelluhraunið, eða Brunann, eins og það var stundum nefnt, síðan lá leiðin áfram, þar til komið er í Brunaskarð vestra. Við hvort skarð eru vörður, er nefnast Stóravarðan eystri og Stóravarðan vestri.

Kapella

Kapellan 2022.

Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys. Úr skarðinu liggur alfaraleiðin vestur um Hraunin ofan eða sunnan garðs á Þorbjarnarstöðum. Stígur, er liggur frá Gerðinu, nefnist Gerðisstígur. Lá stígur þessi suður með vesturbrún Brunans. Annar stígur, Kirkjustígur lá frá og upp á Brunabrúnina. Hann sést enn, liggur upp frá túninu norðan við Gerði og upp á Alfaraleið. Þessi stígur var mest genginn, er sóttur var mosi í Kapelluhraun.

Alfaraleið

Alfaraleiðin um Draugadali.

Gengið var eftir Alfaraleiðinni gömlu frá Gerði þar sem hún kemur niður úr Brunanum sunnan við Hraunshornið, norðan Gerðis, og henni fylgt yfir að brunninum í Brunntjörninni. Flóruð brú liggur út að brunninum, sem er í tjörninni. Þarna var og þvottur þveginn og skammt austar var þvegin ull.

Straumur

Garður við Straum.

Þeir eða þau okkar, sem fyrir alvöru spá og spegulera í gömlum minjum, spyrja sig iðurlega spurninga s.s.: a) hvað eru raunverulegar fornminjar?, b) fyrir hverja eru fornminjarnar? og c) hverjir eiga forminjarnar? Segja má að fornminjar séu áþreifnanleg mannanna verk er tengja okkur nútímafólkið við fortíðina, þ.e. forfeður okkar. Þess vegna eru fornminjarnar fyrir okkur, afkomendur þessa fólks. Og það erum við, sem eigum fornminjarnar. Þær eru okkar verðmætu tengsl við fortíðina. Sú staðreynd að framtíðin byggist á fortíðinni gera minjarnar ómetanlegar nútíðinni.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var um þvottastíginn að tóttum Þorbjarnastaða (fóru í eyði um 1939). Tóftir Þorbjarnastaða eru ekki einungis verðmæta vegna þess að þær eru einu ummerkin eftir hinn dæmigerða íslenska torfbæ, heldur og vegna þess að þær segja sögu þess fólks, sem þar lifði og dó.
Gengið var frá heimaréttinni, framhjá bæjarstæðinu, hinum dæmigerða íslenska torfbæ með burstum mót suðvestri og matjurtargarði framan við, yfir heimatúnsgarðhleðslurnar og yfir Alfaraleiðina og að Þorbjarnastaðaréttinni, stundum nefnd stekkurinn, undir hraunhól nokkru sunnan við bæinn, austan Miðdegishóls, eyktarmarks frá bænum. Hádegishóll er þar skammt austar, en hann virðist hafa verið eyktarmark frá Gerði. Þorbjarnastaðaréttin efri er stór hlaðin rúningsrétt. Í henni er heilleg lambakró, sem bendir til þess að hún hafi verið notuð sem stekkur.

Eyðikot

Garður við Eyðikot.

Bæjartóftirnar að Þorbjarnarstöðum eru þær síðustu heillegu er minna á gamla torfbæinn í landi Hafnarfjarðar. Álfélagið keypti uppland bæjarins af Skógrækt ríkisins á litlar 100 milljónir króna fyrir nokkrum árum. Til stóð að kaupa einnig Þorbjarnastaðalandið, þ.e. heimalandið, og reyndar munaði litlu að bærinn seldi það frá sér, en sem betur fer varð ekkert úr því. Ekki það að landið færi ekki vel í höndum álfélagsins, heldur ber bæjarfélaginu skylda til að sjá svo um að svæði sem þetta varðveitist innan þess og verði gert öllum aðgengilegt er þess óska. Ákjósanlegast væri að gera Þorbjarnastaði upp og leyfa síðan fólki að skoða hann sem ímynd og fulltrúa þeirra bæja er fólk lifði og dó í á 19. og byrjun 20. aldar. Fátt mælir á móti því að álfélagið styrki þá framkvæmd, enda í áhugaverðu sjónarhorni frá Þorbjarnastöðum þar sem gamli og nýi tíminn mætast.

Jónsbúð

Jónsbúð.

Þorbjarnastaðir eru hið ákjósanlegasta dæmi um torfbæ þessa tímabils. Burstirnar snéru mót suðvestri (sólaráttinni), heimtröðin liggur milli bæjarins og matjurtargarðsins, sem er hlaðinn til að verja hann ágangi skepna. Útihúsin eru bæði fast við bæinn sem og í nálægð hans. Frá bænum til norðausturs liggur vatnsgatan, sem einnig þjónaði sem heimtröð að og frá Alfaraleiðinni, gömlu þjóðleiðinni milli Innnesja og Útnesja. Til eru frásagnir af viðkomu fólks á þessum síðasta bæ í byggð áður en komið var að Hvassahrauni. Aðrir Hraunabæirnir voru mun neðar og norðar. Í vályndum veðrum gat stundum komið sér vel að finna skjól inna veggja bæjarins, þrátt fyrir mikla ómegð, sem þar var um tíma. Börnin voru 11 talsins undir það síðasta, en Þorkell bóndi Árnason var oft fjarri heimahögum, t.d. við sjósókn, til að afla lífsviðurværis. Á meðan annaðist Ingveldur Jónsdóttir, dóttir Jóns sýslumanns Guðmundssonar á Setbergi, barnahópinn. Auk þess sá hún um skepnurnar og um annað er þurfa þótti til heimilisins. Börnin urðu öll manndómsfólk.

Jónsbúð

Brunnur við Jónsbúð.

Líklegt má telja að Ingveldur og börn hennar hafi löngum gengið brunngötuna niður að tjörnunum norðan við bæinn, bæði til þvotta og til að sækja þangað vatn í brunninn. Þau komu því einnig svo fyrir að hægt var að geyma lifandi fisk um nokkurn tíma í tjörnunum. Með fyrirhleðslum var komið á jafnvægi í hluta tjarnanna, sem annars gætti í fljóðs og fjöru. Ferskt vatn kemur undan hrauninu ofan við brunnstæðið, en með því að veita því í ákveðna rás, var hægt að viðhalda sjávarseltunni í einstaka tjörn. Það var lykillinn að “fiskgeymslunni”. Enn í dag sést brunnurinn vel sem og hvar ferskt vatnið kemur undan hrauninu ofan hans.

Vonandi verður bærinn gerður upp þegar fram líða stundir – og skilningur á mikilvægi þess eykst. Það getur aldrei orðið til annars en bóta. Á og við Þorbjarnastaði er allt, sem prýtt gat dæmigerðan íslenskan bæ, s.s. bæjarhús, matjurtagarður, heimtröð, brunnur, fjárskjól, rétt, stekkur, selsstígur, sel og annað tilheyrandi.

Alfaraleið

Mosastígur.

Heiman frá bænum í suðvestur lá Mosastígur út í Mosaskarð, sem þar var á garðinum. Mosinn var reyndar sóttur út í Kapelluhraun, sem er reyndar í aðra átt. Konur báru mosann heim í pokum eða jafnvel sátum. Hann var notaður í eldinn og einnig í einangrun, m.a. í Gerðishúsið. Mosi var sóttur frá Lambhögum, Gerði, Þorbjarnarstöðum og Péturskoti.

Heiman frá bæ lá Skógarstígur suður túnið fram í Skógarhlið á túngarðinum. Frá traðarhliðinu lá Brunngatan út í Brunninn. Litlu norðar var Péturskotsstígur. Hann lá yfir að Péturskoti, sem var þurrabúð í Þorbjarnarstaðalandi. Var það fyrst byggt fyrir aldamót af Pétri Péturssyni, Helgu konu hans og Signýju dóttur þeirra. Þarna var ofurlítið tún, og var túngarður umhverfis það. Háatún nefndist nokkur hluti túnsins sunnan bæjarins og ofan, oftast þá nefnt Fagrivöllur. Kotið var í spaugi nefnt Hosiló.

Jónsbúð

Brunnur við Jónsbúð.

Ólaf Jónsson, bóndi á Geitabergi, Katanesi, var m.a. um tíma lausamaður á Þorbjarnarstöðum í Hraunum. Það mun hafa verið 1869, sem Ólafur byrjar búskap, þá 31 árs gamall, sem leiguliði á jörðinni Þorbjarnastaðir í Straumsvík við Hafnarfjörð. Þar bjó hann í 12 ár sem leiguliði.
Varla var hægt að kalla þetta jörð eða grasbýli, þarna er allt umhverfi svart brunahraun. En Ólafur vann það þrekvirki þarna að græða upp túnblett úr brunaurðinni. Hann tíndi stærsta grjótið úr og hlóð úr því varnargarð umhverfis túnið, sem enn stendur að nokkru, svo vel hefur verið til verksins vandað. Síðan mylur hann hraunnibburnar með sleggju og breiðir mold yfir og fær hinn besta töðuvöll. Þarna var handaflið eitt að verki, við getum ímyndað okkur þrældóminn. Þarna reisti hann hús að grunni og gerði hinar ótrúlegustu umbætur, sem jarðeigandinn kunni vel að meta, það sýndu ýmsir góðir munir, sem hann gaf Ólafi, sem þakklætisvott, ég man t.d. eftir Vínstaupinu úr púra silfri og upphafsstafirnir hans faglega á grafnir.
Þessi 12 ár, sem Ólafur bjó þarna stundaði hann sjóinn jöfnum höndum og réri frá Óttarsstöðum með Guðmundir Halldórssyi mági sínum. Ólafur var mikill starfsmaður, sem ekki kunni að hlífa sér. Þarna hefur sannast, sem endranær, því talað var um að honum græddist fé og væri vel stæður maður, á mælikvarða þess tíma. Á þessum árum hefur starfsgetan verið óskert.
Svo var það á þessum árum að Ólafur fréttir af jörð til sölu í Hvalfjarðarstrandarhreppi, þar var Geitabergið í Svíndal. Hann fluttist þangað.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Tóftir og tún á Þorbjarnarstöðum ofan við Straum er síðustu heillegu minjar framangreins tíma í Hafnarfirði, sem þá tilheyrði Garðahreppi.
Við norðurtúngarðinn var Þorbjarnarstaðarétt, vel hlaðin rétt af grjóti. Þar var haustrétt fyrir Innhraunin eða Austur-Hraunabæi, þ.e. Litla- og Stóra-Lambhaga, Gerði, Þorbjarnarstaði og Péturskot. (Þess má geta, að í Hraunum voru um 60 manns 1918.) Við Réttarhliðið er klettur, nefndur Sölvhóll. Þar voru söl þurrkuð. Sölvhóll er háhóllinn, sem réttin stendur norðan undir. Þegar búizt var við halastjörnunni 1910, vildi Þorkell Árnason á Þorbjarnarstöðum safna öllum Hraunamönnum upp á þennan hól, áður en jörðin færist, og láta þá mæta þar örlögum sínum. Sunnan í þessum hól voru Sölvhólsklettar. Þá kom lægð, sem nefnd var Sölvhólsstykki. Innst inni á stykkinu er lítill skúti.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – Stekkurinn.

Sunnan við Þorbjarnastaði er Stekkurinn eða Réttin undir háum hraunhól. Hún er vel hlaðin. Í henni er lambakró. Þar er Stekkatún.

Þar mun og vera staður, sem nefnist Himnaríki. Tilefnið er það, að bóndi nokkur í Hraunum ætlaði að fara á Rauð sínum til himnaríkis – eftir viku drykkju. Hann lagði upp undir rökkur með nesti og nýja skó (en kvaðst ekki þurfa sokka, því að nóg væri af þeim í himnaríki). Hesturinn skilaði sér fljótt heim, og sjálfur kom bóndi undir vökulok. Í skrá G.S. segir, að hnakkurinn og beizlið hafi fundizt vestarlega í Draugadölum, en heimildarmenn sr. Bjarna segja, að þetta hafi legið í Stekkatúninu. Síðan er þarna kallað Himnaríki.

Óttarsstaðir

Bátsflak við Óttarsstaði.

Gengið var eftir Straumsselsstíg að Straumi og yfir að Norðurgarði. Gamli bærinn stóð þar sem Straumshúsið er nú.
Vestan þess er Vesturgarðurinn. Bjarni Bjarnason, skólastjóri Barnaskóla Hafnarfjarðar, byggði Straumshúsið 1926. Ætlaði hann að reka þar stórbú. Árið 1986 keypti Hafnarfjarðarbær Straumsbúið og leigði það til ýmisskonar starfsemi. Á níunda áratugnum voru Straumshúsin gerð upp og hýsa nú listamiðstöð á vegum Hafnarfjarðarbæjar. Húsið er teiknað af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins.
Vestan við Straumstúnið er Lambhúsgerði, gömul hjáleiga er lagðist af. Þar var þá sléttur völlur, notaður frá Jónsbúð.

Frá bænum lágu þrjár götur; Sjávargatan til norðausturs, Selsgatan, stundum nefnd Straumsgata, til suðurs og Brunngatan til suðvesturs. Þarna norðvestan við er gömul útgræðsla, Lambhúsgerði. Þess er getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, að þar hafi verið hjáleiga.
Norðurgarðurinn liggur niður að Straumsvör. Ofan hennar eru allnokkrar garðhleðslur, auk bátaskjóls. Í vörinni leysir talsverðan jarðsjó.

Þaðan var haldið að Þýskubúð og skoðað í kringum hana. Gamall hlaðinn brunnur er vestan við búðina. Garður liggur umhverfis hana. Innan við norðvesturhorn hans er stórt hlaðið gerði. Þýskubúðarvarir eru austan við búðina. Sunnan þeirra er Landabyrgistangi.
Við Þýskubúð er talið að Þjóðverjar hafi haft verslun á öldum fyrrum þótt þess sjáist ekki merki í dag. Hins vegar eru þarna ýmsir garðar og gerði frá því að síðast var búið þarna, m.a. hlaðið bátshró. Eiríkur Smith, listmálari, ólst upp í Þýskubúð ásamt fleiru ágætu fólki.

Markaklettur

Markaklettur.

Haldið var yfir í Tjörvagerði, sem var nátthagi, nefndur eftir Guðmundi Tjörva (f: 16.8.1850 – d: 6.21934), beyki í Straumi og Þýskubúð. Í gerðinu er fjárbyrgi og smalaskjól.
Tjörvi þessi var sonarsonur Krýsuvíkur-Gvendar, en faðir hans, Guðmundur Guðmundsson, var m.a. skógarvörður í Almenningum með aðsetur í Straumsseli. Í Straumsseli var búið stundum á 19. öldi. Síðast á árunum 1890-1895. Bæjarhúsin eyddust af bruna og hefur ekki verið búið þar síðan.

Sjóróðrar voru snar þáttur í lífsbaráttunni, ekki sízt á Hraunabæjunum þar sem landkostir voru litlir og landþrengsli mikil. Þá hefur munað um sjávarfangið, en ekki hefur alltaf verið heiglum hent að lenda í Óttarsstaðavör þegar norðanáttin rekur ölduna beint á hraunbrúnirnar sem skaga út í fjöruna. Það hefur á hinn bóginn ekki verið talið gott til afspurnar að híma í vomum þegar sólin var komin “Keili á og kotið Lóna” og Garðhverfingar byrjaðir að lemja sjóinn. Fyrir utan Óttarsstaðavör ýttu menn á flot úr Eyðikotsvör og nokkrum vörum við Straumsvíkina: Péturskotsvör, Jónsbúðarvör, tvær varir voru við Þýzkubúð og ein vör var kennd við Straum.

Óttarsstaðir

Garður við Óttarsstaði.

Annar bjargræðisvegur á Hraunabæjunum var sauðfjárbúskapur, sem hefur þó verið í smáum mæli hjá flestum vegna þess að túnin voru varla annað en smáblettir og engjar ekki til. Hinsvegar var treyst á kvistbeit í hraununum og ekki tíðkaðist að taka sauði á hús. Þeir voru harðgerðar skepnur; leituðu sér skjóls í hraunskútum í aftökum, en gengu hrikalega nærri beitarlandinu.
Á heimildum eins og Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín má sjá að algeng búfjáreign á Hraunabæjunum í upphafi 18. aldar hefur verið 1-3 kýr og aðeins 18-20 kindur. Síðar á sömu öld snarfækkaði fé af völdum fjárkláðans sem átti upptök sín skammt frá, á Elliðavatni. Búfé í Hraunum fjölgaði á 19. öld og fram á þá 20. Þá var algengt að 80-100 fjár væri þar á bæjunum, svo og tvær mjólkandi kýr og ef til vill ein kvíga að auki. Á stærri jörðunum áttu menn tvo hesta en smákotin stóðu ekki undir hrossaeign.
Af manntölum má sjá að víða hefur verið mannmargt á kotunum og stórir barnahópar komust þar upp. Það er nútímafólki gersamlega óskiljanlegt hvernig fjölskyldur gátu framfleytt sér á landlausum hjáleigum, þar sem bústofninn var nokkrar kindur. Líklega hefur munað mest um sjávarfangið.

Byggðin í Hraunum náði frá Straumsvík og vestur með ströndinni. Lónakot er vestast og nokkuð afskekkt; þangað eru 2-3 km frá megin byggðarkjarnanum, en Hvassahraun er á Vatnsleysuströnd og var ekki talið með Hraunabæjunum.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Sem útivistar- og göngusvæði búa Hraunin yfir sérstökum töfrum. Stæðilegir og vel hlaðnir grjótgarðar standa sumstaðar ennþá, aðrir hafa hrunið. Í klofnum hraunhóli vestan við Óttarsstaðavör hefur hraunsprunga nýtzt sem veggir fyrir einhverskonar hús og aðeins þurft að hlaða fyrir endana og refta yfir. Þarna gæti hafa verið sjóbúð, þó er það ekki víst.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – bátasmíðaverkstæði.

Það er alltaf tilbreytingarríkt að skoða grýtta ströndina í nánd við Óttarsstaðavör, allt frá Vatnsskersklöpp og Kisukletti að Snoppu og út eftir Langabakka að Arnarkletti og Hrúðrinum, þar sem “brimið þvær hin skreipu sker”. Á öðrum stöðum eru minjar um þurrabúðir, fiskreiti, gerði og uppsátur þar sem kjalförin sjást enn á grjótinu.
Sunnar í hrauninu sjást aftur á móti minjar um sauðfjárbúskapinn. Þar eru nátthagar, kvíaból og fjárskútar, fallega hlaðin fjárborg og réttir; Þorbjarnarstaðaréttin, lítt hrunin, önnur rétt er við Óttarsstaði, þriðja við Straum og sú fjórða við Lónakot.
Í Almenningi, sem svo eru nefndur suður í hrauni, eru fimm selstöður: Lónakotssel, Óttarsstaðasel, Straumsel, Gjásel og Fornasel. Þar var haft í seli og þar bjó fólk og starfaði sumarlangt.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðastekkur.

En til hvers er verið að gaumgæfa þetta og velta fyrir sér minjum um harða lífsbaráttu á þessari strönd við yzta haf? Hvern varðar um þurrabúðarmenn? Er ekki nóg að njóta þess sem náttúran býður; sjá hvað hraunhólarnir geta verið myndrænir og ströndin falleg þar sem lábarið grjót tekur við af hraunklöppunum og skipskrokkur sem stóð uppi í fjörunni fyrir aldarfjórðungi er orðinn að einskonar beinagrind úr risaeðlu, umvafinn grasi? Það sem eftir er af stefni skipsins stendur hinsvegar upp á endann í fjörunni og gefur engum nútíma skúlptúr eftir.
Vissulega er hægt að njóta náttúrunnar þó að maður viti ekkert um hana og þó að maður þekki ekkert til sögunnar og þess mannlífs sem einhverntíma áður var á staðnum. En það gerir þessa náttúruupplifun dýpri og minnisstæðari að vita að þarna bjó fólk með gleði sína og sorgir fram á miðja 20. öld og lifði nánast á engu eftir því sem okkur finnst nú.
Hraunabæir áttu kirkjusókn að Görðum í Garðahreppi, sem er talsvert löng leið fyrir gangandi fólk. En það var engum vorkennt að ganga þessa leið til kirkju; heldur ekki börnunum sem á fyrstu áratugum 20. aldarinnar gengu alla þessa leið til þess að komast í skóla. Síðar fengu þau skólastofu í húsinu á Óttarstöðum eystri.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir efri (vestari) og neðri (austari).

Í Hraunum var ekki venjuleg, íslenzk sveit eða dreifbýli með talsvert langar bæjarleiðir, heldur einskonar þéttbýli með bæjum, smákotum og þurrabúðum, sem voru nefndar svo. Það voru landlaus eða landlítil býli við sjávarsíðuna, sem höfðu ekki grasnytjar. Þurrabúðarmenn stunduðu tilfallandi vinnu; réðu sig í kaupavinnu á sumrin og voru á sjó á vertíðum. Á nokkrum Hraunabæjum var svokallað heimaræði, það er útræði frá þeim jörðum sem áttu land að sjó. Bændur sem bjuggu fjær sjó fengu hinsvegar stundum leyfi sjávarbænda til þess að nýta lendingaraðstöðu og hafa þar mannskap á vertíðum. Það var kallað að hafa inntökuskip á jörðinni.

Straumur

Bátahróf við Straum.

Við upphaf nútíma fyrir um 10 þúsund árum var öðruvísi um að litast en nú á ströndinni frá Straumsvík vestur að Kúagerði. Raunar var það fagra land, þar sem Hraunabæirnir stóðu, alls ekki til. Ströndin var þá 2-3 km innar, en í goshrinum á Reykjanesskaga, sem einkum hafa orðið á 1000 ára fresti, rann hvert hraunlagið yfir annað og færði ströndina utar. Ein slík hrina varð fyrir um 2000 árum, önnur fyrir um 1000 árum og samkvæmt því ætti að vera kominn tími á næstu hrinu.
Á síðasta jökulskeiði lá jökulfargið meira og minna yfir Reykjanesskaga, en hafði að því er virðist ekki áhrif á gosvirknina. Stundum náðu hraunin að dreifa úr sér þegar íslaust var, en stundum gaus undir ísnum og gosefnin hlóðust upp í geilinni sem þau bræddu, hörðnuðu þar og urðu að móbergi. Sum hraun sem náðu að renna og dreifast hurfu alveg undir önnur nýrri. Það elzta sem sést á yfirborði í námunda við þetta svæði er Búrfellshraun, sem rann fyrir um 7.300 árum og Norðurbærinn í Hafnarfirði er byggður á.
Fyrir um 5000 árum varð mikið gos í Hrútagjá, nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Hraunið, sem kennt er við Hrútagjárdyngju, rann til sjávar og myndaði svæðið vestan við Straumsvík þar sem Hraunabæirnir voru byggðir, nærri 4000 árum síðar.

Hrútagjárdyngja er örnefni sem gamlir Hraunamenn hefðu ekki kannast við, enda er það síðari tíma nafngift. Síðar hafa yngri hraun fyllt upp í lægðir og stundum náð til sjávar. Nærtækt er að benda á snarbratta brún Afstapahrauns við Kúagerði. Það er síðari tíma hraun eins og Kapelluhraunið austar. Hraunið undir landi Hraunabæjanna hafði góðan tíma til að gróa upp áður en nokkur lifandi skepna gekk um það og myndaðist víða kjarr í því, eða skógur, sem eyddist af rányrkju á öldum fátæktarinnar. Stærsti hluti þessa hraunflæmis heitir Almenningar og bendir til að þar hafi verið óskipt beitiland.

Straumur

Tjörvagerði.

Hin áreiðanlega vekjaraklukka gosvirkninnar vakti gosstöðvar að nýju fyrir um 2000 árum. Þá varð enn mikil goshrina og frá einni eldstöðinni, Stórabolla í Grindaskörðum, rann mikið hraun í átt til Straumsvíkur og myndaði nýja strönd milli Straumsvíkur og Hvaleyrar. Dálítil óregla í þessari þúsund ára reglusemi kom upp fyrir 1800 árum þegar gaus nyrst í Krýsuvíkurrein, þar sem heita Óbrinnishólar við Bláfjallaveg. Hraunið, sem nefnt hefur verið Óbrinnishólabruni, rann í mjóum taumi niður undir Straumsvík. Þetta gos hafði þó ekki áhrif á land í Hraunum.
Hin reglubundna dagskrá fór hinsvegar í gang fyrir um 1000 árum; Ísland þá búið að vera numið á aðra öld og ef til vill enn lengur. Þá rann Hellnahraunið yngra, sem svo er nefnt, frá Tvíbollum í Grindaskörðum og náði einn hraunstraumurinn langleiðina til Straumsvíkur, en óvíst er að nokkur bær hafi þá verið í Hraununum; elztu heimildir um byggð þar eru frá því um 1200.

Hálfri öld áður rann Kapelluhraun til sjávar í Straumsvík og hafði áhrif á landmótun þar; yngsta hraunið á þessu svæði. Þó líklegt sé og raunar fullvíst að sagan endurtaki sig létu menn þetta ekki á sig fá þegar álverinu var valinn staður einmitt þar sem Kapelluhraun rann, enda líklegast að margoft væri búið að afskrifa álverið, miðað við venjulega endingu, áður en hraun rennur þar að nýju..

Reykjanes

Reykjanes fyrrum – kort ÓSÁ.

Frá fornu fari hafði ábúendum og öðru fólki á Reykjanesskaga verið skipt í útnesjamenn, sem bjuggu utan við Kúagerði, og innnesjamenn sem til að mynda bjuggu í Hraunum og á Álftanesi. Fram á 20. öld var mikil umferð ríðandi, en mun oftar þó gangandi manna suður með sjó og þaðan “inn” í Hafnarfjörð og Reykjavík. Menn fóru í verið til Suðurnesja og svo þurfti að ná í blessaða þorskhausana og reiða þá austur í sveitir á baggahestum. Þorskhausalestir voru dagleg sjón á vorin. Enginn var vegurinn, aðeins götur sem fótspor hesta og manna höfðu markað og þær lágu í krókum og krákustígum eftir því hvar skást var að komast yfir hraunin.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðavör.

Lengst af voru Hraunabæirnir í Álftaneshreppi, en þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða- og Garðahrepp 1878, var talið að Hraunin væru hluti Garðahrepps eins og Hafnarfjörður. Eftir að Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi 1908 voru Hraunin áfram talin tilheyra Garðahreppi, en þau komu í hlut Hafnfirðinga árið 1967 þegar gerður var makaskiptasamningur við Garðabæ, sem fyrr segir.
Nú má spyrja hvers virði Hraunajarðirnar séu þegar búskapur þar hefur lagzt niður.
Æskilegast væri að friðlýsa Hraunin, sem yrðu þá útivistarsvæði í umsjá Hafnfirðinga. Við ramman reip verður þó að draga því áhugi ráðamanna í Hafnarfirði er að gera svæðið að hafnarsvæði. Ef af verður mun merk saga og einstök náttúra fara fyrir lítið.

Framtíð Hrauna við Straumsvík er óráðin, en samkvæmt aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995-2015 er gert ráð fyrir að stór hluti svæðisins verði notaður undir hafnar- og iðnaðarsvæði. Fyrir nokkrum árum stofnaði áhugafólk um verndun Hrauna, Umhverfis- og útivistarfélag Hafnarfjarðar, til þess að vekja athygli á þessu einstaka svæði.

Búskapur hefur verið stundaður í Hraunum frá fornu fari og hafa verið leiddar líkur að því að rústir við Óttarsstaði séu frá 12. öld.

Fornasel

Fornasel – uppdráttur BFE.

Umhverfis- og útivistarfélag Hafnarfjarðar fékk Bjarna F. Einarsson, fornleifafræðing, árið 1997 til að kanna fornleifar á svæðinu Hraunum við Straumsvík. Ekki var um eiginlega fornleifaskráningu að ræða, heldur fornleifakönnun, sem er leitun að, og staðsetning á rústum á korti/loftljósmynd. Í framhaldi af þessari vinnu kviknaði áhugi félagsins á því að láta kanna Jónsbúð nánar með prufuholugreftri og fór sá gröftur fram á tímabilinu 26. okt. – 13. des. með hléum. Bjarni hafði áður verið fenginn til að leita að og staðsetja rústir á svæðinu og segir í skýrslu hans að minjar eins og rústirnar við Jónsbúð séu mikilvægur minnisvarði um ákveðna búskaparhætti og að minjar af slíku tagi sé ekki að finna annars staðar á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Yfirleitt má segja að rústir og minjar á svæðinu séu óspilltar af mannavöldum og svæðið geymi í heild sinni allar þær minjar sem búast megi við að finna í og við þurrabúðir og hjáleigur. Byggð tók að leggjast af í upphafi þessarar aldar og var horfin um miðja öldina.

Þýskabúð

Þýskabúð.

Auk merkilegra sögulegra heimilda er náttúrufar með nokkuð sérstæðum hætti á þessu svæði. Í hrauninu má finna fjölda ferskvatnstjarna sem koma og fara eftir sjávarföllum þegar sjórinn flæðir inn undir hraunið og streymir síðan út aftur á fjöru. Vegna þess að ferskvatnið, sem flæðir stöðugt undan hrauninu, er eðlisléttara en saltvatnið flýtur það ofan á sjónum meðan flæðir að, en blandast honum síðan þegar flóðið nær hámarki.
Áður fyrr voru börn látin vakta sjávarföllin til þess að ná fersku vatni úr tjörnum og brunnum áður en sjórinn náði að blandast ferskvatninu við háflæði. Í tjörnum sem ekki þorna alveg upp á fjöru hafa nýlega uppgötvast dvergbleikjur sem verða um 12-14 cm og lifa á skilum ferskvatns og sjávar.

Magnús Gunnarsson, þáverandi bæjarstjóri, sagði að ekkert hefði verið ákveðið varðandi skipulag á Hraunasvæðinu. Ljóst sé að menn fari sér hægt við að skipuleggja framtíð þess. Hann kvaðst sannfærður um að menn myndu staldra við og velta hlutunum vel fyrir sér og sérstaklega þeirri staðreynd að ekki væri hægt að taka til baka það sem gert yrði.
Ljóst væri að mikil vakning ætti sér stað varðandi varðveislu náttúru- og sögulegra minja og að engar hafnarframkvæmdir væru áætlaðar á næstu árum vestan Straumsvíkur. Í þeirri vinnu sem framundan væri í skipulagsmálum yrði stigið varlega til jarðar, sérstaklega varðandi perlur eins og Hraunin væru.

Þýskabúð

Hús við Þýskubúð.

Stutt var yfir í Jónsbúð. Hlaðinn garður umlykur einnig þá búð. Jónsbúðartjörnin er norðan hennar. Jónsbúð er ágætt dæmi um búð er varð að bæ. Eftir að bóndinn hafði komið upp fyrsta “káinu”, þ.e. kotinu, fylgdu önnur á eftir í réttri röð; kú, kindur, kona og krakkar.

Stefnt var að, og til þess fengið leyfi, því að kanna fleiri fornleifar í nágrenninu. Annarsvegar er um prufuholugröft við Óttarsstaði, þar sem staðfesta á hvort meint bænahús sé þar að finna eða ekki og hins vegar að kanna aldur Fornasels, sem liggur austan megin við þjóðveginn, talsverðan spöl austur af Álverinu. Sá gröftur gaf til kynna að selið gæti verið frá því á 14. eða 15. öld.

Bæjarstæði Jónsbúðar er aðeins nokkra metra frá sjávarkambinum sem skilur að býlið og uppsátur þess, eða Jónsbúðarvör. Utan um túnin er túngarður úr grjóti sem liggur frá sjávarkambinum utan um stóran klett að sunnanverðu (Skötuklett) og liggur svo að norðan nokkra metra sunnan við Jónsbúðartjörn, sem hefur verið vatnsból Jónsbúðarmanna. Svæðið einkennist mjög af hraunhólum og grasi grónum bollum á milli þeirra. Þessir grasi grónu blettir hafa verið undirstaða skeppnuhalds á staðnum, auk þess sem sjórinn gaf.

Jónsbúð

Garður umhverfis Jónsbúð.

Rústirnar við Jónsbúð eru nær óspilltar af mannavöldum og vélvæðing nútímans hefur ekki náð að eyða eða fela mannvirki sem þar hafa staðið. Minjar af slíku tagi er ekki að finna annars staðar á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Því eru minjarnar við Jónsbúð mikilvægur minnisvarði um ákveðna búskaparhætti fyrri tíma og styrkur þeirra fellst fyrst og fremst í heildinni, þ.e.a.s. staðurinn geymir allar þær minjar sem búast má við að þurrabúð/hjáleiga geymi svo sem bæjarhús, túngarð, skeppnuhús, vör, vörslugarð, sólþurrkunarreit, vatnsból o.fl.

Jónsbúðar er ekki getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, en þess ber að geta að þurrabúða er ekki heldur getið við jarðirnar Lónakot, Óttarstaði og Þorbjarnarstaði, þó að enginn vafi sé á því að þurrabúðir hafi verið við eitthvert þessara býla, ef ekki öll. Hins vegar er hjáleiga getið við Óttarsstaði, Þorbjarnarstaði og Straums. Ekki er víst að greinarmunur hafi verið gerður á hjáleigu og þurrabúð og kemur jafnvel til greina að þær hjáleigur sem voru í eyði í byrjun 18 aldar hafi í raun verið þurrabúðir.
Í Manntali árið 1845 er þess getið að tómthúsmaður hafi verið í Straumi, Björn Pálsson að nafni. Var hann giftur Margréti Snorradóttur og áttu þau árs gamlan son, Jón að nafni (Manntal á Íslandi 1845. Suðuramt. Reykjavík 1982. :406). Bóndinn í Straumi hét þá Bjarni Einarsson. Ekki er tekið fram hvar Björn tómthúsmaður bjó nákvæmlega en vel getur verið að hann hafi búið í Jónsbúð.

Þýskabúð

Þýskubúðarvör.

Í manntali árið 1910 er Jónsbúð nefnd sem þurrabúð í landi Straums (Manntal á Íslandi 1910. IV. Gullbringusýsla og Kjósarsýsla. Reykjavík 1998.:228). Þá bjó þar Gunnar Jónsson, sjómaður á þilskipi, Sigríður Hannesdóttir kona hans og Sigríður dóttir þeirra. Þau komu frá Meðalholti í Flóa árið 1882.

Í manntalinu er bæjarhúsum lýst og um Jónsbúð er sagt að þar hafi verið torfbær með einu heilþili og einu hálfþili.

Jón í Jónsbúð gæti hafa verið síðasti ábúandi Jónsbúðar, en búðin greinilega kennd við einhvern annan Jón en hann og ekki heldur við faðir Gunnars sem bjó í Jónsbúð árið 1910. Ekki er loku fyrir það skotið að búðin hafi haft ýmiss nöfn, stundum eftir ábúendum sínum og stundum eitthvað annað. Dæmi um slíkt eru vel þekkt.

Ekki hefur Jónsbúð verið mjög lengi í eyði áður en Jón þessi í Jónsbúð byggði upp kotið, varla nema nokkur ár (eins og altítt var með hjáleigur og smákot sem oft voru í eyði til skamms tíma).

Bæjarstæði Jónsbúðar er óspillt af seinni tíma athöfnum. Þar eru nær öll mannvirki byggð úr grjóti hvort sem um er að ræða bæjarhús, túngarð eða brunn. Grjótið er fengið úr næsta nágrenni, sérstaklega í hrauninu í kring, en yfirleitt ekki úr fjörunni eða sjávarkambinum. Sunnan við bæjarhúsinn er mikill og áberandi klettur og í gjótu við hann er sagt að hafi verið kolageymsla. Kletturinn er rakinn álfa- eða huldumannabústaður, þó ég þekki engar sögur af slíku um þennan klett.
Sennilega er ruslahaugurinn nokkra metra vestan við bæjarhúsið. Norðan megin við bæjarhúsið er rúst hjallsins og austan við bæjarhúsið er sólþurrkunarreiturinn. Rúman metra vestan af bænum er garður.

Kúarétt

Kúarétt í Kúadal.

Norðan við bæjarstæðið, í Jónsbúðartjörn sunnanverðri, er brunnur og vatnsból. Skammt vestur af bænum er rúst, áfast við túngarðinn, sem er sennilega fjárhús. Vestan megin við túngarðinn hefur verið stekkur og nátthagi umhverfis hann.

Austan við bæinn er vörin og þar má búast við að bátur eða bátar hafi verið dregnir yfir sjávarkambinn og hafðir á þurru vestan megin við sjávarkambinn.

Jónsbúð

Jónsbúð.

Þrjár prufuholur voru teknar við Jónsbúð. Prufuhola 1 var tekin inn í miðju hólfi inn í bæjarhúsinu, prufuhola 2 tekin rúma 5 m frá dyrum bæjarhúss og prufuhola 3 tekin rétt innan við dyr.
Í prufuholum fundust brennd og óbrennd bein fiska, fugla og spendýra, keramík, gler, steinkol, járn, aðrir málmar, skeljar og kuðungar, auk þess sem sjálf mannvistarlögin voru gerð úr, svo sem viðarkol, skeljasandur o.fl. Beinin benda til þess að sauðfé hafi verið hluti af bústofninum, eins og nautgripir sbr. fjósið. Fiskur og fugl hefur verið hluti af fæðunni og svartfuglar verið veiddir til matar (nema að köttur beri ábyrgð á gogginum í baðstofunni!).

Sjá mátti í prufuholu 2 að steinkolin fundust aðeins í efri hluta mannvistarlagsins og það bendir til þess að neðri hluti lagsins sé eldri en tími fyrstu eldavélanna, en þær komu upp úr 1870, þó þær hafi ekki orðið almenningseign fyrr en talsvert síðar. Steinkol voru notuð í þessar vélar. Því má draga þá ályktun að á síðasta skeiði búskaparins í Jónsbúð hafi verið eldavél og hún vafalítið verið í baðstofunni (SA – horninu?).

Straumur

Straumsrétt.

Meðalaglasið, ampúllan, sem fannst í prufuholu 1 er einnig ungt, jafnvel frá þessari öld. Trúlega hefur innihaldið í því verið notað til að bólusetja sauðfé (nautgripir og hestar ekki bólusettir!) Bólusetning af þessu tagi byrjar ekki fyrr en eftir fyrri heimstyrjöldina.

Um aldur gripanna er ekki hægt að segja mikið annað en þeir eru ungir, sennilega frá seinni helmingi síðustu aldar.

Bæjarhúsið í Jónsbúð hefur skipst í baðstofu og fjós. Fjósið liggur lítið eitt lægra en baðstofan, en það gat verið með ráðum gert til að nýta hitann af skepnunum, en hiti stígur upp eins og þekkt er. Slík ráðabreytni er þekkt úr öðrum gömlum bæjum svo sem í Sandártungu í Þjórsárdal, kotbýli frá seinni hluta 17. aldar (Kristján Eldjárn. „Tvennar bæjarrústir frá seinni öldum.” Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1949-50. Reykjavík 1951 og „Bær í Gjáskógum í Þjórsárdal.

Eins og fram kemur hér að framan var eitt heilþil og eitt hálfþil á húsinu. Og eins og fundir gefa til kynna var gluggi á húsinu, jafnvel fleiri en einn. Líklega hefur húsið litið svipað út og Arnarnes nokkuð. Slík hús eru kölluð Þurrabúðargerð yngri, en sú gerð þróaðist upp úr þurrabúðinni (Þurrabúðargerð eldri), sem var án þilja, glugga og bursta. Þessi þróun átti sér stað í lok síðustu aldar.

Straumur

Straumur. Hlaðið byrgi nær.

Í Jónsbúð hefur verið búið á síðustu öld og eitthvað fram eftir þessari. Húsið hefur skipst í baðstofu og fjós og í baðstofunni hefur verið eldavél á seinni stigum búsetunnar og í henni hefur steinkol verið brennt.
Á býlinu hefur verið haldið sauðfé og nautgripir og fiskur og fugl veiddur til matar. Þang hefur verið notað sem eldiviður, auk annars sem nothæft var (bein, sprek o.fl.). Líklega hefur þangið verið talið til hlunninda eins og segir um Krýsuvíkina, ekki síst til að beita sauðfénu á.

Ekki var hægt að rekja aldur býlisins mikið lengra en til seinni hluta síðustu aldar, en baðstofan, gæti verið yngri en sum önnur mannvirki á staðnum. Vel getur hugsast að fyrir hafi verið hús af gerðinni Þurrabúðargerð eldri, sem hafi verið endurhlaðin og bætt samkvæmt þörfum samtímans og ráðandi tísku í lok síðustu aldar, eða þegar þurrabúðin varð að einskonar hjáleigu með tilkomu húsdýra. Til að komast til botns í þessu máli þarf að grafa betur á staðnum, t.d. í gegn um veggi bæjarins og kanna betur öskuhauginn.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðabrunnur.

Haldið var að Jónsbúðartjörn norðan búðarinnar. Þar er brunnstæði og vatnsstæði syðst í tjörninni. Markhóll, klofinn klettur, er norðan við tjörnina. Í gegnum hann liggja mörk Straums og Óttarsstaða. Vatnskersklöpp liggur þar útfrá og má sjá merki yst á henni.
Áður hafði verið gengið með ströndinni til norðurs, en nú beygir hún til norðvesturs. Norðvestan við Markhól er Kotabótartjörn, Kotabót ofar og Kothellan við ströndina. Framundan hægra megin eru Kisuklettar og Bakkatún á vinstri hönd. Heillegur garður liggur með því sunnanverðu.
Eyðikot er þríbursta hús ofan við Kotabótina. Þriðjungi, þeim nyrsta, var bætt við húsið fyrir u,þ.b. 40 árum, en komið var gert upp sem sumarhús árið 1950. Það gerðu þau Vilborg Ólafsdóttir og Erling Smith. Þá var hlaðið fallega upp með veggjum og húsið gert líkt og það var. Þá var húsið nefnt Alsæla.
Kobeinskotið var þar sem bárujárnskofi er ofan við Óttarsstaðavör innan við Sundið. Vestan hennar er Læna og Innri- og Ytri-Hólmi þar út af. Utan við Ytrihólma er sker, sem nefnt er Kirkjusker. Munnmæli eru um, að þar hafi farizt bátur með fólki, sem var að koma frá kirkju í Görðum.
Snoppa heitir hár klettur vestan við vörina. Upp af henni er Fiskhóll. Framundan til norðvesturs er Langibakki neðan við Óttarsstaði-eystri.

Gengið var með ströndinni yfir að Óttarstöðum eystri. Á kvöldin má sjá mink stinga sér innan um þangið í fjörunni í leit að einhverju ætilegu.

Löngum var tvíbýli á Óttarsstöðum. Voru býlin nefnd Efri-Óttarsstaðir eða Vesturbær og Neðri-Óttarsstaðir eða Austurbær. Bæirnir stóðu á Bæjarhól, nokkuð vestarlega í túninu. Vesturbærinn stendur enn þá, en Austurbærinn var rifinn fyrir aldamót. Var þá byggt nýtt hús nokkru austar og neðar í túninu, en gömlu bæjartóftirnar notaðar fyrir fjós og hlöðu. Túnið á Óttarsstöðum var allstórt og var því deilt milli bæjanna í Vesturbæjartún og Austurbæjartún. Kringum öll túnin var hlaðinn tvístæður túngarður, feiknamannvirki.

Gerði

Gerði.

Við Óttarsstaði eystri eru allmargar tóttir, garðar og gerði. Suðaustan við húsið er brunnur og annar eldri vestan við það. Íbúðarhúsið hefur verið reisulegt á sínum tíma, þótt hafi nú láti verulega á sjá. Máttarstoðir þess eru sagðir vera úr strandi Jameswon við Hafnir 1881, eins og svo mörg önnur hús á Reykjanesskagagnum á þeim tíma. Umhverfis Óttarsstaðabæina er eina umtalsverða og samfellda graslendið í Hraunum, enda var byggðin þéttust þar. Enn standa margir túngarðar og veggir óhaggaðir í Hraununum. Eru þeir hlaðnir af Guðmundi Sveinssyni frá Óttarsstöðum, sem var mikill hleðslumaður. M. a. hlóð hann eldhús á Óttarsstöðum upp úr aldamótum, sömuleiðis skemmu í Stóra-Lambhaga, og standa þau enn óhögguð.

Gengið var áfram framhjá fjárhúsi, sem þarna stendur nokkuð heillegt og suður fyrir Óttarstaðabæina. Þar er grasi gróinn hóll, sem talið er að hafi hýst bænahús til forna. Þar við er Álfakirkjan, klettaborg í grónu jarðfalli.

Gengið var um Óttarstaði, skoðaðar minjar, sem þar eru, s.s. útieldhús, útihús og brunnar. Yngsti brunnurinn er austan við Óttarstaði eystri (1944), annar sunnan við húsið og sennilega sá elsti norðan Óttarstaða vestri. Að sögn Bjarna F. Einarssonar eru eldri minjar verslunar norðan Óttarstaða, ofan við Langabakka. Sést móta fyrir útlínum húsa þar skammt ofan við fjörðugarðinn ef vel er að gáð.

Þorbjarnastaðir

Útihús við Þorbjarnastaði.

Rétt norður af Neðri-Óttarsstöðum er lágur rani. Á endanum á honum er smátúnblettur með grjóthleðslu í kring. Er þetta nefnt Rúnugerði, kennt við Guðrúnu, dóttur Friðfinns, sem bjó á Óttarsstöðum skömmu fyrir aldamót.
Rétt austur af Rúnugerði er nokkuð stór hóll, sem kallaður var Fiskhóll. Uppi á þeim hól hafa verið breiðir grjótgarðar, sem enn sést vel móta fyrir, og þar hefur verið þurrkaður fiskur í gamla daga.
Alveg sunnan undir húsinu á Neðri-Óttarsstöðum var jarðfall, lítið um sig. Það var alltaf kallað Prettur, en ekki er vitað um orsök nafnsins. Brunnur var í jarðfallinu, og var alltaf nóg vatn í honum, en fylgdi flóði og fjöru.
Nefndist það efra Torfhús, en það neðra Langabakkahús. Langabakkahús var rifið, svo að veggir einir stóðu eftir, en þeir fóru alveg í stórflóði, líklega 1957.
Kattarhryggur var langur bali rétt suðaustur af Vesturbænum. Sunnan við Kattarhrygginn var klettur margsprunginn, er nefndist Stólpi eða Álfakirkja. Bjó jafnan huldufólk í þessum klettum. Mátti því ekki hreyfa þar við strái, ekki vera í leik eða hafa mikinn hávaða.
Í túninu á Neðri-Óttarsstöðum, alveg við mörkin, var kofi, upphaflega smiðja, seinna hesthús. Rétt austur af tóftinni eru þúfur miklar, og töldu menn, að þar væru leiði.

Vestar er Óttarstaðir vestri. Þar eru einnig miklir garðar. Á milli og austan við bæina er gróinn hóll. Þar er talið að forn kapella eða kirkja hafi staðið.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðaborg.

Gengið var niður Norðurtúnið að Langabakka. Þar mótar fyrir gömlum rústum, mun eldri en aðrar sýnilegar. Aðeins austar, rétt við kampinn, var lítil rétt, sem notuð var fyrir sláturfé á haustin. Hún var kölluð Langabakkarétt. Sjórinn tók hana og jafnaði við jörðu í sama flóði og Langabakkahúsið fór af. Austan við Langabakkarétt eru stórir klapparhólar og sunnan við þá tjörn. Er þetta kallað Vatnsgjá. Þarna var kofi eða byrgi frá Eyðikotinu, og var þar geymdur harðfiskur í gamla daga. Veggirnir standa enn.
Vestan við Langatanga er Arnarklettur og Hrúðurinn norðan hans. Vestar er Langiklettur. Út á hann liggur vandlega hlaðinn garður Óttarsstaðarbæjanna. Stekkurinn er í kvos vestan við Garðinn og leirlág þar sunnan við.

Gengið var yfir í Klofið, en þar er Óttarstaðaréttin, fallega hlaðin. Í henni er m.a. hlaðin lambakróg. Líklega hefur réttin verið heim- og rúningsrétt líkt og Þorbjarnarstaðaréttin (Stekkurinn). Utan við hana eru nokkrar tóttir fjárhúsa.
Ofan við Klofið er Miðmundarhæð og á henni Miðmundarvarða. Frá henni var haldið eftir stíg suður inn í hraunið uns komið var að Kotaklifsvörðu, hárri og áberandi vörðu vestan í Sigurðarhæð. Frá henni var haldið suðaustur að Kúaréttinni, sem er djúp gróin laut í hrauninu. Við enda hennar eru hlaðnir garðar. Háir veggir lautarinnar er svo til þverhníptir á kafla. Ofar eru miklar sprungur.

Straumur

Gengið um Straumssvæðið.

Í Kúarétt eru hleðslur. Réttin er í skjólgóðri hraunlaut með háa barma allt í kring. Rjúpa kúrði enn sem oft áður efst í barminum. Gengið var upp úr réttinni og yfir að Kotaklifsvörðu. Við hana eru gatnamót; annars vegar efri stígurinn yfir að Lónakoti og hins vegar gata niður að Miðmundarhæð. Síðarnefndu götunni var fylgt niður að Miðmundarvörðu vestast í hæðinni. Beint þar fyrir neðan, í stórum hraunkrika er Óttarstaðaréttin, falleg og vel hlaðin rétt. Innst í henni er hlaðin kró.

Gengið var frá gamla Keflavíkurveginum ofan við Straum að Gerði. Gamall vegur liggur frá Keflavíkurveginum að þessum gamla bæ í Hraunum. Þar sem Keflavíkurvegurinn kemur niður og yfir tjarnirnar ofan við Straumsvík má enn sjá minjar hinnar fyrstu vegagerðar sjálfrennireiðarinnnar er tengdi saman byggðalög hér á landi. Einnig má sjá veglegar veghleðslur yfir gjár og jarðföll í gegnum hraunið vestan við Rauðamel, en eftir það má segja að hið gamla handbragð hinna gömlu vegargerðarmanna á Keflavíkurveginum hverfi. Þetta er því dýrmætur vegspotti þegar horft er til verndunar þessara tegunda minja.

Tjörvagerði

Tjörvagerði.

Fagrivöllur var á vinstri hönd. Hlaðinn garður er um hann og var Péturskot við norðausturhornið á honum. Reykjanesbrautin var að hluta til lögð yfir völlinn og skilur af svæðið við Péturskot og Péturskotshróf og Péturskotsvör ofan við Straumstjarnir. Austar og ofan við þjóðveginn er Aukatún. Sjá má hleðslur um túnið undir hraunkantinum þar sem gatnamót gamla vegarins er að Gerði. Hefur garðurinn oft verið nefndur Brunagarður.
Áður fyrr lá flóraður stígur frá Lambhaga langt austur inn á Kapelluhraun.

Heimildir m.a.:
-Örnefnaskrár Örnefnastofnunar.
-Magnús Jónsson.
-Gísli Sigurðsson.
-Ólafur Jónsson.
-Guðjón Jónsson.
-Bjarni F. Einarsson.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta ÓSÁ.

Lambhagi

Þegar gengið var um Lónakot og Svínakot í Hraunum voru rifjaðar upp eftirfarandi upplýsingar um gömlu bæina og Suðurnesjaalmenning þar fyrir ofan í hraununum:

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta.

Í Jarðabók ÁM og PV 1703 er eftirfarandi lýsing: “ Það sem Suðurnesjamenn kalla Almenning tekur til suður við Hvassahrauns land og Trölladyngjur, gengur svo norður eftir fyrir ofan lönd allra Hraunbæjanna og endast svo norðan til þar sem hann mætir Áslandi svo sem við taglið á Kapelluhrauni. Þá kemur Garðastaðaland og selstaða.
Þar fyrir norðan tekur til það, sem Innesingar kalla Kóngsland, gengur það norður og austur með fjöllunum inn að Elliðaám og upp undir Hellisheiði fyrir ofan Vífilsstaði, Urriðakot, Elliðavatn, og hina aðra bæina. Er þetta land eigi sérdeilis kóngsland, þó það svo kallað sé, heldur er það svo sem afréttur eður óskipt land þeirra kóngsjarðanna, sem liggja upp og inn undan Álftanesi.”
Í jarðabókinni er víða getið um Suðurnesjaalmenninga, sem ofangreind býli áttu rétt í. Auk jarða á Vatnsleysuströnd áttu öll lögbýli í Grindavíkurhreppi rétt til kolagerðar í almenningum eða Suðurnesjaalmenningum án þess að getið sé hvar þeir eru. Sama er um margar jarðir Í Rosmhvalaneshreppi og nokkrar í Álftaneshreppi.
Um jörðina Þorbjarnarstaði, sem er nú í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar þar sem Straumsvík er, segir þetta:

Réttarklettar

Réttarklettar- stekkur.

“Skóg hefur jörðin átt, en nú má það varla kalla nema rifhrís. Það hefur hún svo bjarglega mikið, að það er brúkað til kolagerðar og eldiviðar, og svo til að fæða pening á í heyskorti. Aldrei ljá það búendur til annarra og eru þetta þau skógarpláss, sem almenningar eru kölluð.” Ennfremur segir í jarðabókinni um Hamarskot, að hrísrif hafi jörðin í Þorbjarnarstaðalandi, þar sem heita almenningar, er það haft til kolagerðar og eldiviðar og til að fæða pening í heyskorti.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Jarðirnar Stóri-Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir, Lónakot og Svínakot voru fyrrum nefndar Hraunjarðir og voru allar í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því kóngsjarðir við siðaskipti. Sá almenningur, sem hér er fjallað um er fyrir ofan (eða sunnan) lönd þessara jarða og einnig fyrir ofan Hvassahraun hvað þetta mál varðar. Svínakot mun hafa verið þar sem nú eru Réttarklettar vestan Lónakots. Hagar þar mannvirkjum svipað til og í Borgarkoti á Vatnsleysuströnd, austan Kálfatjarnar.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur.

Eftir að jarðir þessar voru seldar á árabilinu 1827-1839 reis upp ágreiningur um eignarheimildir á almenningnum ofan þeirra. Stiftamtmaður fól sýslumanni að skoða málið 1847 og fór áreið fram árið eftir með eigendum og ábúendum hraunsjarðanna,
sem liggja við almenninginn og helst hafa notað landið til beitar og skógaryrkingar sökum afstöðu þeirra og þess að þetta land tekur við, þar sem tún þeirra og Brunahraunsgirðingum um þau sleppa.
Í skoðunar- og áreiðargerðinni var mörkum lýst með þessum hætti:

Lónakot

Grænhólsskjól.

“Að neðan byrjar það nyrst við Kolbeinshæð, gengur svo til vesturs niður að Markhólum fyrir neðan Lónakotssel hvar skógurinn endar á móti suðri. Þó gengur skógartunga þríhyrnt niður frá alfararveginum. Hennar botn og breidd er að ofan og gengur frá Löngubrekkum til suðurs að Markhólum. Sporður skógarspildu þessarar endar í útnorðri við Brunnhólavörðu skammt fyrir ofan Lónakot.
Að norðan gengur skógarlandið frá Kolbeinshæð til landsuðurs langs með Kapelluhrauni og Brunanum upp að Stórhöfðastíg, þaðan til suðurs í Fremstahöfða langs með Brunanum suður að Fjallinu Eina, þaðan til vesturs og útnorðurs í krókum og hlykkjum allt niður að Markhólum.
Yfirvöld mæltu eftir áreiðina fyrir um eins konar friðlýsingu svæðisins vegna lélegs ástands skógar og umsjón var falin einum Hraunjarðarbónda, en þeir einir máttu nýta landið án leyfis yfirvalda.
Segir síðan að allt þetta land álítist vera ein fermíla að stærð (dönsk míla var 7.5 km) eða 56 ferkílómetrar og er þetta svæði nú bæði innan lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar (29.71 ferkílómetri), en einnig upp af Vatnsleysustrandarhreppi, aðallega upp af Hvassahrauni.
Sjá MYNDIR.

Lónakot

Sjóbúð við Lónakot.

Þorbjarnastaðir

“Framtíð Hrauna við Straumsvík er óráðin, en samkvæmt aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995-2015 er gert ráð fyrir að stór hluti svæðisins verði notaður undir hafnar- og iðnaðarsvæði. Fyrir nokkrum árum stofnaði áhugafólk um verndun Hrauna, Umhverfis- og útivistarfélag Hafnarfjarðar, til þess að vekja athygli á þessu einstaka svæði.

Fuglalíf

Í frétt í MBL, þriðjudaginn 6. júlí, 1999, sagði Magnús Gunnarsson, þáverandi bæjarstjóri, að engin ákvörðun hafi verið tekin um framtíð svæðisins.
Hraun kallast landsvæðið vestan og sunnan Straumsvíkur, en víkin hefur myndast milli Lambhagatanga að austan og Hrauna að vestan. Hraunið sem þekur svæðið er 5000-7000 ára gamalt helluhraun sem átt hefur upptök sín í Hrútagjárdyngju.
Búskapur hefur verið stundaður í Hraunum frá fornu fari og hafa verið leiddar líkur að því að rústir við Óttarsstaði séu frá 12. öld. Á svæðinu má sjá fjölda rústa, tóftarbrot býla og gripahúsa, minjar eru um útræði í fjörunni, þurrabúðir, fiskbyrgi, vörslugarðar og fiskreitir eru einnig sýnilegir. Helstu lögbýli í Hraunum voru Stóri-Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir og Lónakot. Þessum býlum fylgdu síðan hjáleigur og þurrabúðir, s.s. Gerði, Péturskot, Litli-Lambhagi, Þýskubúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Óttarsstaðagerði og Eyðikot. Heimild er um forna kirkju á svæðinu og grafreit.

Jónsbúð

Jónsbúð.

Árið 1999 fékk Umhverfis- og útivistarfélagið Bjarna F. Einarsson fornleifafræðing til að grafa prufuholur í Jónsbúð, sem er þurrabúð eða hjáleiga utarlega við vestanverða Straumsvík. Bjarni hafði áður verið fenginn til að leita að og staðsetja rústir á svæðinu og segir í skýrslu hans að minjar eins og rústirnar við Jónsbúð séu mikilvægur minnisvarði um ákveðna búskaparhætti og að minjar af slíku tagi sé ekki að finna annars staðar á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Yfirleitt má segja að rústir og minjar á svæðinu séu óspilltar af mannavöldum og svæðið geymi í heild sinni allar þær minjar sem búast megi við að finna í og við þurrabúðir og hjáleigur. Byggð tók að leggjast af í upphafi þessarar aldar og var horfin um miðja öldina.

Óttarsstaðastekkur

Óttarsstaðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Auk merkilegra sögulegra heimilda er náttúrufar með nokkuð sérstæðum hætti á þessu svæði. Í hrauninu má finna fjölda ferskvatnstjarna sem koma og fara eftir sjávarföllum þegar sjórinn flæðir inn undir hraunið og streymir síðan út aftur á fjöru. Vegna þess að ferskvatnið, sem flæðir stöðugt undan hrauninu, er eðlisléttara en saltvatnið flýtur það ofan á sjónum meðan flæðir að, en blandast honum síðan þegar flóðið nær hámarki.

Áður fyrr voru börn látin vakta sjávarföllin til þess að ná fersku vatni úr tjörnum og brunnum áður en sjórinn náði að blandast ferskvatninu við háflæði. Í tjörnum sem ekki þorna alveg upp á fjöru hafa nýlega uppgötvast dvergbleikjur sem verða um 12-14 cm og lifa á skilum ferskvatns og sjávar.

Óttarsstaðir

Straumur og Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Magnús Gunnarsson, bæjarstjóri, segir í fyrrgreindri MBL-frétt 19999 að ekkert hafi verið ákveðið varðandi skipulag á Hraunasvæðinu. “Ljóst er að menn fara sér hægt við að skipuleggja framtíð þess.” Hann kvaðst sannfærður um að menn myndu staldra við og velta hlutunum vel fyrir sér og sérstaklega þeirri staðreynd að ekki væri hægt að taka til baka það sem gert yrði. Ljóst væri að mikil vakning ætti sér stað varðandi varðveislu náttúru- og sögulegra minja og að engar hafnarframkvæmdir væru áætlaðar á næstu árum vestan Straumsvíkur. Í þeirri vinnu sem framundan væri í skipulagsmálum yrði stigið varlega til jarðar, sérstaklega varðandi perlur eins og Hraunin væru.”

 

Nú, 2008, hefur Samfylkingin í Hafnarfirði uppi áform um að eyðileggja flestar menningarminjarnar á norðanverðu Hraunasvæðinu og þar með hið fjölbreytilega dýralíf sem og hina dýrmætu útivistarmöguleika bæjarbúa.
veggurÍ frétt í Fjarðarpóstinum 11. september (af öllum dögum, en þó vel við hæfi) kom m.a. eftirfarandi fram um þessar áætlanir undir fyrirsögninni: “Nýtt hafnarsvæði á Hraunum? – Hugmyndir eru uppi um nýja stórskipahöfn vestan Straumsvíkur.
„Okkar fyrstu niðurstöður eru þær að fýsilegt sé að byggja nýja höfn vestan Straumsvíkur sem að mestu yrði í landi Óttarstaða,“ segir formaður hafnarstjórnar. „Við höfum einnig kannað möguleikana austan Straumsvíkur, en þar reyndust ekki vera ákjósanlegar aðstæður. Við höfum í samvinnu við Siglingastofnun kannað öldufar og rannsakað botnlög með tilliti til hafnar gerðar vestan Straumsvíkur og virðast aðstæður þar allgóðar. Þetta yrði stór höfn sem þjónað gæti stórum hluta siglinga til höfuðborgarsvæðisins og skapað mikla uppbyggingu og atvinnustarfsemi.“

Straumur

Straumur – uppdráttur ÓSÁ.

Að sögn formannsins eru hugmyndirnar sem hér eru kynnntar hins vegar á frumstigi. Tillögurnar voru kynntar í hafnarstjórn í júní og í skipulags- og byggingarráði á þriðjudaginn. Næsta skref er að sögn formanns að ræða við landeigendur á svæðinu sem eru allmargir. Stefnt er að því að kynna þessar hugmyndir fyrir bæjarbúum og skapa um þær umræðu. Ljóst er að skoðanir verða skiptar um þessar tillögur en við hafnargerðina hverfa margar minjar en gert er ráð fyrir að vernda bæjarstæði Óttarstaðabæjanna í einskonar vin á miðju athafna svæðinu. Einnig yrðu Þýskabúð og Jónsbúð óraskaðar.
Landslagsarkitekt var fenginn til að útfæra þessar fyrstu hugmyndir og aðlaga þær lands laginu þannig að sem best fari, að sögn formanns, „en auðvitað á þetta eftir að fara í umhverfismat og í gegn um skipulagsferil,“ sagði formaðurinn.
HugmyndirSkv. hugmyndunum er gert ráð fyrir að meðfram nýrri legu Reykjanesbrautar verði hafnarsvæði lækkað um 12-14 m en næst sjónum yrðu 6-8 m varnargarðar til að skilja svæðið að en það er um 160 ha. (1,6 millj. m²) sem er svipuð stærð og svæði sem afmarkast af Hjallabraut, Hjallahrauni, Reykjanesbraut, Hvammabraut og Suðurgötu. Hafnargarðurinn yrði gerður úr efni sem þarna fengist en hann yrði skv. hugmyndunum gerður í tveimur áföngum.”

Tjörvagerði

Tjörvagerði.

Segja má með sanni að Samfylkingin hafi tilhneigingu til að vernda minjar og náttúru með vinstri hendinni, en rífa hvorutveggja niður með þeirri hægri. “Vonandi verða hvorki hugmyndir né fulltrúar þeirra langlífir”, varð einum rólyndismanni að orði er hann heyrði tíðindin. Mörg dæmi eru um að vilji til að takmarka verndun minja innan stórra athafnasvæða hafi farið fyrir lítið er á reyndi.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Segja má að einstakir fulltrúar og skipulagsyfirvöld í Hafnarfirði hafi að undanförnu verið í tómu klúðri – sem virðist það því miður fara vaxandi.
Umhverfi og náttúra í Hraunum er einstök á landsvísu og þótt víðar væri leitað. Hluti þeirra njóta náttúruverndar. Auk þess mynda Hraunabæirnir ofan við ströndina heilstætt og dýrmætt minjasvæði með tilheyrandi útstöðvum ofar í hraununum; seljum, fjárskjólum, nátthögum og aðliggjandi götum. Svæðið sem heild er því einstaklega dýrmætt, ekki síst vegna þess hversu nálægt þéttbýlissvæði það er. Þessu virðist eiga að farga án teljandi hugsunar.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – örnefni (ÓSÁ).

Samstarf og samnýting Faxaflóahafna hefur dregið úr þörfinni á hafnargerð sem þessari, enda koma aðrir staðir á höfðuborgarsvæðinu mun betur til greina en landssvæðið þar sem Hraunin eru.
Sjá meira um svæðið HÉR og HÉR. Vefsíðan geymir uppdrætti af u.þ.b. 400 minjasvæðum og yfir 6000 lýsingum á Reykjanesskaganum, auk fróðleiks og frásagna af minjum og örnefnum á svæðinu – fyrrum landnámi Ingólfs. Allt efnið er unnið af áhuga og umhyggju – án ríkisstyrkjar.

Heimildir m.a.:
-Mbl – Þriðjudaginn 6. júlí, 1999 – Smáfréttir
-fjardarposturinn.is – 11. september 2008
http://www.fjardarposturinn.is/images/FP-pdf/FP-2008-34-skjar.pdf

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestri.