Í bókinni „Allt hafði annan róm áður í páfadóm – Nunnuklaustrin tvö á Íslandi á miðöldum og brot úr kristnisögu„, sem Anna Sigurðardóttir tók saman 1988, er kafli; „Heilög Barbara og kapellan í hrauninu“:
Heilög Barbara og kapellan í hrauninu
„Bandalag kvenna í Hafnarfirði hefur samþykkt að láta gera félagsmerki. Fyrir valinu varð myndastytta frá fyrri öldum, sem fannst árið 1950 í Kapellunni við gamla Suðurnesjaveginn, nálægt þar sem verksmiðjan í Straumsvík stendur núna.
Þáverandi þjóðminjavörður, Kristján Eldjárn, gróf í gólf kapellunnar og fann þar ofurlítið konulíkneski, sem hann sá undir eins að átti að tákna heilaga Barböru, en hún er sýnd í kirkjulegri myndlist með turn í fanginu.
Þessi litla konumynd mun vera elsta mannsmynd, sem fundist hefur í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar.
Kennimerki Hafnarfjarðarkaupstaðar er viti. Hafnfirskum konum finnst þess vegna eiga vel við að taka þessa fornu konumynd sem merki Bandalagsins, þar sem konan heldur á turni, sem þá er eins og nokkurs konar samsvörun við vita Hafnarfjarðar.
En þannig stendur á þessum turni heilagrar Barböru, að hún var kaupmannsdóttir í Litlu-Asíu um 300 árum eftir Krists burð. Þá voru miklar ofsóknir gegn kristnum mönnum. Barbara kynntist kristnum mönnum og gerðist kristin á laun, því að faðir hennar var heiðinn. Þegar hann komst að því, að dóttir hans var orðin kristin, gerði hann allt sem hann gat til að hræða dóttur sína frá trú hennar. Meðal annars lét hann reisa turn, þar sem Barbara átti að sitja innilokuð til þess að hún gæti ekki haft samband við kristna menn. Hún bað þá föður sinn að lofa sér að hafa þrjá glugga á turninum, og faðirinn leyfði það. Síðan spurði hann Barböru, hvers vegna hún hafi viljað hafa gluggana þrjá. Hún svaraði: Þrír merkja föður, son og heilagan anda. Varð þá faðirinn ákaflega reiður og seldi dóttur sína í hendur böðlinum, og var hún loks hálshöggvin fyrir tryggð sína við kristna trú.
Ein af þeim píslum, sem Barbara gekk í gegnum, var að logandi blysum var haldið að líkama hennar. En hún lét ekki bugast fyrir það. Síðan fóru menn að heita á Barböru til hjálpar gegn eldsvoða af ýmsu tagi. (Barbárumessa er 4. desember).
Hraunið, þar sem kapellan stendur, er talið hafa runnið á 13. öld og kom úr Óbrennishólum við Undirhlíðar. Þetta hraun rann yfir alfaraveginn á Suðurnes.
Hvers vegna þessi kapella var reist, vita menn ekki, en fræðimenn hafa giskað á að þarna hafi fólk gert bæn sína áður en það lagði leið sína yfir nýrunnið hraunið. Það er líka einkennileg tilviljun að einmitt í þessari kapellu skuli finnast mynd þessarar helgu konu, sem menn hétu á sér til hjálpar gegn eldsvoða. Myndin er núna á Þjóðminjasafninu og geta allir séð hana þar þó lítil sé.
Bandalag kvenna í Hafnarfirði hefur fengið Gunnar Hjaltason gullsmið og listamann til þess að gera myndamót af Barbörumyndinni úr Kapellunni, og verður það notað sem merki á skjöl félagsins. Gunnar hefir líka verið beðinn að gera hálsmen með sömu mynd, og geta konur keypt það sem félagsmerki.“
Nokkrum árum eftir að Sigurveig Guðmundsdóttir skrifaði þessa grein birtist eftir hana bókarkorn (27 blaðsíður) um hl. Barböru úr Heilagra manna sögum um líf hennar og píslir. Þar eru og nokkur erindi úr Barbörudikti sem menn hafa geymt í minni og sungið allt fram á 19. öld.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er ein saga um Kapelluhraun: „Í Gullbringusýslu er hraun eitt mikið milli Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandar og heitir nokkur hluti þess Kapelluhraun og dregur nafn af kapellu sem í því stendur. Hún er að norðanverðu við veginn, hlaðin upp af hellugrjóti í lögun eins og borg. Dyrnar hafa snúið móti suðri, en nú eru þær fullar af mold og mosa. Kapellan er og hærri að norðan en sunnan. Sagt er að í kapellunni sé grafinn einn af umboðsmönnum þeim sem áður voru á Bessastöðum. Var honum gert umsátur þarna í hrauninu, drepinn þar og grafinn.“
Heilög Barbara er m.a. verndardýrlingur námamanna og jarðfræðinga og þeir tigna hana og tilbiðja. Jarðfræðingar á Orkustofnun minnast Barböru sérstaklega tvisvar á ári allt frá 1980. Þeir halda hátíð í tilefni af messudegi hennar 4. desember og á vorin áður en þeir leggja af stað til rannsókna. Þá fer hátíðin fram í rústum Barbörukapellu í Kapelluhrauni. Þar vígja jarðfræðingarnir hamra sína og tól, gera sér glaðan dag og syngja nýjan Barbörudikt.
Fyrsta vísan í Barbörudikti hinum nýja, en það er sálmur til heiðurs Barböru. Lag og texti er eftir Árna Hjartarson jarðfræðing á Orkustofnun, einn Barböruáhangenda þar. Textinn er alls 7 vísur og er Barbörudiktur jafnan sunginn þegar Orkustofnunarmenn koma saman til að minnast síns dýrlings:
Barbörudiktur
Gegn veraldarinnar vélráðum ég verndaður
er með sóma þótt reynt sé að blanda mér
beiskan drykk þá bykarinn fyllist með rjóma. Mín
gætir frú með turn af marmara, minn dýrlingur er Barbara. – (Árni Hjartarson)
Heimildir:
-Íslenskar þjóðsögur og æfintýri – Safnað hefir Jón Árnason, II. Ný útgáfa (Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson), Rvk 1966, Kapelluhraun bls. 74.
-Allt hafði annan róm áður í páfadóm, Heilög Barbara og kapellan í hrauninu, Nunnuklaustrin tvö á Íslandi á miðöldum og brot úr kristnisögu, Anna Sigurðardóttir tók saman, 1988, bls. 326-331.