Tag Archive for: Straumsvík

Kapella

Í bókinni „Allt hafði annan róm áður í páfadóm – Nunnuklaustrin tvö á Íslandi á miðöldum og brot úr kristnisögu„, sem Anna Sigurðardóttir tók saman 1988, er kafli;  „Heilög Barbara og kapellan í hrauninu“:

Heilög Barbara og kapellan í hrauninu
Kapella
„Bandalag kvenna í Hafnarfirði hefur samþykkt að láta gera félagsmerki. Fyrir valinu varð myndastytta frá fyrri öldum, sem fannst árið 1950 í Kapellunni við gamla Suðurnesjaveginn, nálægt þar sem verksmiðjan í Straumsvík stendur núna.
Þáverandi þjóðminjavörður, Kristján Eldjárn, gróf í gólf kapellunnar og fann þar ofurlítið konulíkneski, sem hann sá undir eins að átti að tákna heilaga Barböru, en hún er sýnd í kirkjulegri myndlist með turn í fanginu.
Þessi litla konumynd mun vera elsta mannsmynd, sem fundist hefur í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar.
Kennimerki Hafnarfjarðarkaupstaðar er viti. Hafnfirskum konum finnst þess vegna eiga vel við að taka þessa fornu konumynd sem merki Bandalagsins, þar sem konan heldur á turni, sem þá er eins og nokkurs konar samsvörun við vita Hafnarfjarðar.
Kapella
En þannig stendur á þessum turni heilagrar Barböru, að hún var kaupmannsdóttir í Litlu-Asíu um 300 árum eftir Krists burð. Þá voru miklar ofsóknir gegn kristnum mönnum. Barbara kynntist kristnum mönnum og gerðist kristin á laun, því að faðir hennar var heiðinn. Þegar hann komst að því, að dóttir hans var orðin kristin, gerði hann allt sem hann gat til að hræða dóttur sína frá trú hennar. Meðal annars lét hann reisa turn, þar sem Barbara átti að sitja innilokuð til þess að hún gæti ekki haft samband við kristna menn. Hún bað þá föður sinn að lofa sér að hafa þrjá glugga á turninum, og faðirinn leyfði það. Síðan spurði hann Barböru, hvers vegna hún hafi viljað hafa gluggana þrjá. Hún svaraði: Þrír merkja föður, son og heilagan anda. Varð þá faðirinn ákaflega reiður og seldi dóttur sína í hendur böðlinum, og var hún loks hálshöggvin fyrir tryggð sína við kristna trú.
Ein af þeim píslum, sem Barbara gekk í gegnum, var að logandi blysum var haldið að líkama hennar. En hún lét ekki bugast fyrir það. Síðan fóru menn að heita á Barböru til hjálpar gegn eldsvoða af ýmsu tagi. (Barbárumessa er 4. desember).
kapellaHraunið, þar sem kapellan stendur, er talið hafa runnið á 13. öld og kom úr Óbrennishólum við Undirhlíðar. Þetta hraun rann yfir alfaraveginn á Suðurnes.
Hvers vegna þessi kapella var reist, vita menn ekki, en fræðimenn hafa giskað á að þarna hafi fólk gert bæn sína áður en það lagði leið sína yfir nýrunnið hraunið. Það er líka einkennileg tilviljun að einmitt í þessari kapellu skuli finnast mynd þessarar helgu konu, sem menn hétu á sér til hjálpar gegn eldsvoða. Myndin er núna á Þjóðminjasafninu og geta allir séð hana þar þó lítil sé.
Bandalag kvenna í Hafnarfirði hefur fengið Gunnar Hjaltason gullsmið og listamann til þess að gera myndamót af Barbörumyndinni úr Kapellunni, og verður það notað sem merki á skjöl félagsins. Gunnar hefir líka verið beðinn að gera hálsmen með sömu mynd, og geta konur keypt það sem félagsmerki.“
Nokkrum árum eftir að Sigurveig Guðmundsdóttir skrifaði þessa grein birtist eftir hana bókarkorn (27 blaðsíður) um hl. Barböru úr Heilagra manna sögum um líf hennar og píslir. Þar eru og nokkur erindi úr Barbörudikti sem menn hafa geymt í minni og sungið allt fram á 19. öld.
Kapella
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er ein saga um Kapelluhraun: „Í Gullbringusýslu er hraun eitt mikið milli Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandar og heitir nokkur hluti þess Kapelluhraun og dregur nafn af kapellu sem í því stendur. Hún er að norðanverðu við veginn, hlaðin upp af hellugrjóti í lögun eins og borg. Dyrnar hafa snúið móti suðri, en nú eru þær fullar af mold og mosa. Kapellan er og hærri að norðan en sunnan. Sagt er að í kapellunni sé grafinn einn af umboðsmönnum þeim sem áður voru á Bessastöðum. Var honum gert umsátur þarna í hrauninu, drepinn þar og grafinn.“
Heilög Barbara er m.a. verndardýrlingur námamanna og jarðfræðinga og þeir tigna hana og tilbiðja. Jarðfræðingar á Orkustofnun minnast Barböru sérstaklega tvisvar á ári allt frá 1980. Þeir halda hátíð í tilefni af messudegi hennar 4. desember og á vorin áður en þeir leggja af stað til rannsókna. Þá fer hátíðin fram í rústum Barbörukapellu í Kapelluhrauni. Þar vígja jarðfræðingarnir hamra sína og tól, gera sér glaðan dag og syngja nýjan Barbörudikt.
Kapella
Fyrsta vísan í Barbörudikti hinum nýja, en það er sálmur til heiðurs Barböru. Lag og texti er eftir Árna Hjartarson jarðfræðing á Orkustofnun, einn Barböruáhangenda þar. Textinn er alls 7 vísur og er Barbörudiktur jafnan sunginn þegar Orkustofnunarmenn koma saman til að minnast síns dýrlings:

Barbörudiktur
Gegn veraldarinnar vélráðum ég verndaður
er með sóma þótt reynt sé að blanda mér
beiskan drykk þá bykarinn fyllist með rjóma. Mín
gætir frú með turn af marmara, minn dýrlingur er Barbara. – (Árni Hjartarson)

Heimildir:
-Íslenskar þjóðsögur og æfintýri – Safnað hefir Jón Árnason, II. Ný útgáfa (Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson), Rvk 1966, Kapelluhraun bls. 74.
-Allt hafði annan róm áður í páfadóm, Heilög Barbara og kapellan í hrauninu, Nunnuklaustrin tvö á Íslandi á miðöldum og brot úr kristnisögu, Anna Sigurðardóttir tók saman, 1988, bls. 326-331.
Kapella

Straumsvík

Hafnarfjarðarbær hefur gefið út upplýsingarit um deiliskipulagstillögu vegna fyrirhugaðrar stækkunnar álvers Alcan í Straumsvík. Það verður að segjast eins og er að framsetningin er hrikaleg á ömurlegri tillögu. Fjölmiðlar hafa brugðist. Enginn þeirra hefur fjallað um það sem skiptir máli, þ.e. deiliskipulagstillöguna sjálfa. Þeir hafa einungis fjallað um stækkun álvers, sem þó er aðeins einn þáttur málsins og alls ekki sá stærsti.

Þorbjarnastaðir

Sennilega hefur engu sveitarfélagi á landinu tekist eins illa upp við jafn þarft viðfangsefni. Að tala um íbúalýðræði í þessu samhengi er bara brandari. Það er í rauninni ekki um neina valkosti að ræða.
Tillaga um stækkun álvers væri ágæt – ein og sér. En að taka nánast öll menningarverðmæti í nágrenni svæðisins og leggja til eyðingu á þeim í nánustu framtíð segir íbúunum meira um hugafar stjórnenda og hlutaðeigandi embættismanna bæjarins en orð fá lýst.
Þorbjarnastöðum, eina heilstæða búsetulandslaginu innan bæjarmarkanna, verður verulega ógnað. Um er að ræða áhugavert svæði, sem ástæða væri til að friðlýsa. Skynsamlegra hefði verið að taka upp tillögu umhverfisnefndar frá árinu 2002 og friðlýsa svæðið Straumssvæðið hverfur nánast allt svo og Óttarsstaðahverfið – undir hafnarmannvirki. Ef einhver sá er annt menningu, sögu, umhverfi og náttúrusvæðisins hefði hugsað sér að samþykkja stækkun álvers á þegar röskuðu svæði þá er þessi hluti tillögunnar til þess fallinn að gera þá sömu fráhverfa slíku.
Ef texti tillögurinnar væri lesinn og tekinn sem slíkur mætti ætla að engu verði raskað. Ef textanum er sleppt og skoðaðar tillögur um framtíðarnotkun svæðisins vestan Straumsvíkur verða skilaboðin allt önnur og hræðilegri.
HáspennumösturStækkun álvers fylgja umhverfislýti. Þau nærtækustu er ásættanleg, en þegar kemur að flutningu orku  að svæðinu og tillögum um hvernig standa á að slíkur, verður umsnúningur í skoðunum þeirra sem fylgjandi eru stækkun. Háspennulínur um svo til allt upplandið verður hræðileg ásýnd, bæði fyrir nálæga íbúa og þeirra sem vilja nýta sér náttúru þess. Ef sérfræðingar í orkurannsóknum hefðu verið jafn duglegir á umliðnum árum og áratugum að leysa flutningsvandamálið og þeir hafa verið við afla orkunnar myndi dæmið líta öðruvísi út í dag. Þá væri væntanlega ekki verið að ræða um háspennulínur og þann náttúruóþrifnað sem þeim fylgir. Ekki ætti heldur að grafa strengi í jörðu. Þá á einfaldlega að leggja ofan á jörðina með þeim hætti að um algera afturkræfni geti verið um að ræða. Lausn þess bíður helstu sérfræðinga landsins á þessu sviði. Hana má síðan flytja út til annarra landa sem eiga við sama vandamál að glíma – og þá væntanlega græða peninga á því. Græða peninga – það eitt ætti að vera hvetjandi fyrir einhverja.
Í rauninni skiptir litlu hvort álver er lítið eða stórt, nema kannski fyrir álfélagið sjálft – og ríkis- og bæjarsjóð. Það er heildardæmið sem skiptir máli; umhverfismálin, umgengismálin og ígrundaðar framtíðaráætlanir, þ.e. nýtingaráætlun, varðveisluáætlun byggð á raunverulega rökstuddu verðmætamati. Hafa ber í huga að óröskuð náttúra og menningarminjar eru líka verðmæti til lengri tíma litið.
Það hugarfar sem birtist í deiliskipulagstillögunni er áhyggjuefni. Það lýsir ótrúlegu skammsýni og vanþekkingu á hvar verðmætin liggja. Lausnir eiga að vera aðalatriði þeirra viðfangsefna sem hér eru til efnislegrar meðferðar. Þær er ekki að sjá í framangreindum deildiskipulagstillögum Hafnarfjarðarbæjar. Innihald og framsetning tillögunnar er líklega það versta sem hægt var að gera álfélaginu, sem hingað til hefur þjónað bæjarfélaginu vel með sannanlegum hætti. Skynsamlegast væri fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðar að afturkalla tillöguna og vinna hana betur. Það enn ekki of seint. 

Staðarborg

Í Morgunblaðið 19. ágúst 2021 skrifar Sigurður Bogi Sævarsson um „Rölt að rústum á Reykjanesskaga„:

„Minjar! Hrundar borgir og veröld sem var. Yfirgefnir staðir við Straumsvík og víðar segja miklar sögur.

Kapella við Straumsvík, Staðarborg á Vatnsleysuströnd og Selatangar vestan við Grindavík. Þrír staðir suður með sjó eru hér til frásagnar, minjar frá fyrri tíð sem greinarhöfundur hefur gert sér erindi til að skoða að undanförnu.

Grúsk í gömlum ritum leiðir í framhaldinu oft til ferðalaga þar sem svör við einu leiða af sér spurningar um annað. Svipur landsins er fjölbreyttur; náttúran og minjar um menningu, sögu og lífsbaráttu.

Barbara við Straumsvík

Kapella

Kapellan í Kapelluhrauni.

Á hraunruðningi sunnan við álverið í Straumsvík er hlaðið byrgi; friðlýstar rústir kapellu sem láta lítið yfir sér. Vegur liggur frá Reykjanesbraut að hólnum þar sem kapellan blasir við. Veggir þessa húss voru endurhlaðnir fyrir margt löngu; en þekjan sem hvíldi á veggjunum er löngu fallin. Alfaraleiðin til byggða og verstöðva á Suðurnesjum lá forum daga nærri kapellunni. Við hana var kennt hraunið sem hér rann seint á 12. öld, segir Jónatan Garðarsson útvarpsmaður í pisli á vefnum hraunavinir.is.
Sjálf húsatóftin er rúmir tveir metrar á hvern kant og dyr snúa til vesturs. Á ví herrans ári 1950 rannsakaði Kristján Eldjárn, þjóðminjavörður og síðar forseti Íslands, rústir kapellunnar og fann þá brot úr líkneski heilagrar Barböru.

Kapella

Stytta af heilagri Barböru í kapellunni.

„Líkneskið sýnir þá að húsarúst þessi mun vera síðan fyrir siðaskipti… Það hefur að líkindum verið kapella þar sem vegfarendur gætu staðnæmst til að gera bæn sína,“ segir Kristján Eldján í grein í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1955. Kristján tók fram að líkneski Barböru sanni ekki fullkomlega að þarna hafi verið kapella „…en hún bendir þó til þess að menn hafi haft þar tilbeiðslu um hönd öðrum stöðum fremur,“ eins og þar stendur.
Á degi heilagrar Barböru þótti gott að heita í háska af eldi, sprengingum og slíku, jafnframt því að vera verndarvættur hermanna. Í dag er í kapellurústinni eftirgerð líkneskis Barböru, en stundum kemur fólk kaþólskrar trúar til bænagjörðar og annars slíks á þessum stað, sem stendur við þjóðbraut þvera.

Hringur á heiði

Staðarborg

Staðarborg.

Á Reykjanesbraut, rétt eftir að komið er suður fyrir Kúagerði og að afleggjaranum á Vatnsleysuströnd, sést Staðarborg, sem er á heiðinni norðan við veginn. Að borginni er best að ganga afleggjarann að Kálfatjarnarkirkju, hvar er skilti og skýrir merkingar sem koma fólki á sporið. Leiðin er um. 1.5 kílómetrar og þegar komið er inn á heiðina sést borgin brátt; hringur sem að utanverðu er umm 35 metrar í ummáli. Tveggja metra háir veggirnir eru hlaðnir úr grjóti og ummál hringsins er um 8 metrar.
Staðarborg var friðlýst árið 1951, en ekki er vitað hvenær hún var hlaðin. Um tilurð hennar er aðeins til munnmælasaga; sú að Guðmundur nokkur hafi hlaðið borgina fyrir Kálfatjarnarprest, sem hafi þótt nóg um þegar honum varð ljóst að fullhlaðið með þekju myndi mannvirkið gnæfa yfir turn kirkjunnar á Kálfatjörn. Hafi prestur þá bannað að haldið yrði áfram, svo Guðmundur hljóp frá verkinu sem síðan hefur staðið óhreyft um aldir.

Verstöð við suðurströnd

Selatangar

Fiskbyrgi á Selatöngum.

Selatangar eru gömul verstöð austan við Grindavík, um þrjá kílómetra vestan við minni Geldingadals þar sem hraunelfur úr Geldingadölum hefur runnið fram í átt að Suðurstrandarvegi. Frá Selatöngum var um aldir og alveg fram til ársins 1880 róið til fiskjar á vegum Krýsuvíkurbónda og Skálholtsbiskups og þarna standa enn minjar um verbúðir, fiskbyrgi og fiskigarða.
Alls eru þarna rústir um 20 húsa og nokkurra annarra mannvirkja. Þarna tíðkaðist til dæmis að þurrka fiskinn; sem síðan var geymdur til vertíðarloka.
„Fiskverkunin fólst fyrst og fremst í því að þurrka fiskinn. Fiskurinn var breiddur á garða eða möl og roðið ætíð látið snúa niður á daginn en upp að næturlagi. Sums staðar var fiskur þurrkaður í grjótbyrgjum eins og þeim sem eru á Selatöngum. Birgin voru einnig notuð til að geyma fullharðnaðan fisk,“ segir í umfjöllun á vef Minjastofnunar Íslands.

Heimild:
-Morgunblaðið 19. ágúst 2021, Rölt að rústum á Reykjanesskaga – Sigurður Bogi Sævarsson, bls. 12.

ísólfs

Gengið um Selatanga.