Straumsvík

Hafnarfjarðarbær hefur gefið út upplýsingarit um deiliskipulagstillögu vegna fyrirhugaðrar stækkunnar álvers Alcan í Straumsvík. Það verður að segjast eins og er að framsetningin er hrikaleg á ömurlegri tillögu. Fjölmiðlar hafa brugðist. Enginn þeirra hefur fjallað um það sem skiptir máli, þ.e. deiliskipulagstillöguna sjálfa. Þeir hafa einungis fjallað um stækkun álvers, sem þó er aðeins einn þáttur málsins og alls ekki sá stærsti.

Þorbjarnastaðir

Sennilega hefur engu sveitarfélagi á landinu tekist eins illa upp við jafn þarft viðfangsefni. Að tala um íbúalýðræði í þessu samhengi er bara brandari. Það er í rauninni ekki um neina valkosti að ræða.
Tillaga um stækkun álvers væri ágæt – ein og sér. En að taka nánast öll menningarverðmæti í nágrenni svæðisins og leggja til eyðingu á þeim í nánustu framtíð segir íbúunum meira um hugafar stjórnenda og hlutaðeigandi embættismanna bæjarins en orð fá lýst.
Þorbjarnastöðum, eina heilstæða búsetulandslaginu innan bæjarmarkanna, verður verulega ógnað. Um er að ræða áhugavert svæði, sem ástæða væri til að friðlýsa. Skynsamlegra hefði verið að taka upp tillögu umhverfisnefndar frá árinu 2002 og friðlýsa svæðið Straumssvæðið hverfur nánast allt svo og Óttarsstaðahverfið – undir hafnarmannvirki. Ef einhver sá er annt menningu, sögu, umhverfi og náttúrusvæðisins hefði hugsað sér að samþykkja stækkun álvers á þegar röskuðu svæði þá er þessi hluti tillögunnar til þess fallinn að gera þá sömu fráhverfa slíku.
Ef texti tillögurinnar væri lesinn og tekinn sem slíkur mætti ætla að engu verði raskað. Ef textanum er sleppt og skoðaðar tillögur um framtíðarnotkun svæðisins vestan Straumsvíkur verða skilaboðin allt önnur og hræðilegri.
HáspennumösturStækkun álvers fylgja umhverfislýti. Þau nærtækustu er ásættanleg, en þegar kemur að flutningu orku  að svæðinu og tillögum um hvernig standa á að slíkur, verður umsnúningur í skoðunum þeirra sem fylgjandi eru stækkun. Háspennulínur um svo til allt upplandið verður hræðileg ásýnd, bæði fyrir nálæga íbúa og þeirra sem vilja nýta sér náttúru þess. Ef sérfræðingar í orkurannsóknum hefðu verið jafn duglegir á umliðnum árum og áratugum að leysa flutningsvandamálið og þeir hafa verið við afla orkunnar myndi dæmið líta öðruvísi út í dag. Þá væri væntanlega ekki verið að ræða um háspennulínur og þann náttúruóþrifnað sem þeim fylgir. Ekki ætti heldur að grafa strengi í jörðu. Þá á einfaldlega að leggja ofan á jörðina með þeim hætti að um algera afturkræfni geti verið um að ræða. Lausn þess bíður helstu sérfræðinga landsins á þessu sviði. Hana má síðan flytja út til annarra landa sem eiga við sama vandamál að glíma – og þá væntanlega græða peninga á því. Græða peninga – það eitt ætti að vera hvetjandi fyrir einhverja.
Í rauninni skiptir litlu hvort álver er lítið eða stórt, nema kannski fyrir álfélagið sjálft – og ríkis- og bæjarsjóð. Það er heildardæmið sem skiptir máli; umhverfismálin, umgengismálin og ígrundaðar framtíðaráætlanir, þ.e. nýtingaráætlun, varðveisluáætlun byggð á raunverulega rökstuddu verðmætamati. Hafa ber í huga að óröskuð náttúra og menningarminjar eru líka verðmæti til lengri tíma litið.
Það hugarfar sem birtist í deiliskipulagstillögunni er áhyggjuefni. Það lýsir ótrúlegu skammsýni og vanþekkingu á hvar verðmætin liggja. Lausnir eiga að vera aðalatriði þeirra viðfangsefna sem hér eru til efnislegrar meðferðar. Þær er ekki að sjá í framangreindum deildiskipulagstillögum Hafnarfjarðarbæjar. Innihald og framsetning tillögunnar er líklega það versta sem hægt var að gera álfélaginu, sem hingað til hefur þjónað bæjarfélaginu vel með sannanlegum hætti. Skynsamlegast væri fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðar að afturkalla tillöguna og vinna hana betur. Það enn ekki of seint.