Tag Archive for: Straumur

Straumsvík

Í Náttúrufræðingnum árið 1998 fjallar Páll Imsland  „Um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu„.

Náttúrufræðingurinn 1998

Náttúrufræðingurinn 1998 – forsíða.

„Ekkert mat á umhverfisáhrifum mannvirkja eða framkvæmda var komið til þegar undirbúningur og bygging álvers við Straum átti sér stað á sjöunda áratug 20. aldar og þá var heldur ekki farið að huga í mikilli alvöru að mögulegum áhrifum náttúrunnar á byggingar eða starfsemi slíkra iðjuvera. Það má því segja að álverið sé við Straum þrátt fyrir að starfsemi þess beri í sér möguleikana á óheillavænlegum áhrifum á umhverfið og þó að þar lúri vár í náttúrunni sem gætu orðið starfseminni til óþurftar. Hér verður ekki fjallað um áhrif álversins á umhverfið heldur reynt að gefa einfalda mynd af því hvernig álverið er í sveit sett með tilliti til náttúruváa. Ekki hefur verið gerð sérstök og magnbundin úttekt á náttúruvám með beinni hliðsjón af mögulegum áhrifum þeirra á álverið, en sitthvað er vitað almenns eðlis um náttúru svæðisins, þær vár sem þar gætu komið upp og hver almenn áhrif þeirra yrðu.

Páll Imsland

Páll Imsland (f. 1943) lauk B.S.-prófi í jarðfræði frá Háskóla íslands 1973 og doktorsprófi frá sama skóla 1985. Páll hefur m.a. unnið að rannsóknum á jarðfræði Jan Mayen og náttúruvám. Páll er fyrrverandi ritstjóri Náttúrufræðingsins.

Þessi umfjöllun er á þeim almennu nótum. Á mjög einfaldan hátt má gefa várnar til kynna með því að lýsa staðsetningu álversins í landinu í ljósi náttúrufars þar: Álverið stendur á opinni ströndu sem liggur í fjölfarinni braut orkuríkra veðurkerfa skammt frá eldvirku landrekssvæði. Með öðrum orðum þýðir þetta að þarna megi vænta náttúruváa sem eiga sér orsakir í hafrænum, jarðlægum og veðurfarslegum ferlum eða í samspili þeirra. Þau jarðlægu öfl sem þarna eru virk tengjast flest landrekinu. Undir Reykjanesskaganum liggja mörkin milli þeirra tveggja jarðskorpufleka sem mynda jarðskorpu Norður-Atlantshafsins mestan hluta norðurhvels og jarðar, Evrasíuflekans og Norður-Ameríkuflekans, og þar verða flekarnir til við gliðnun og eldvirkni. Því eru sterk tengsl milli nokkurra þeirra ferla sem geta valdið ólíkunr vám á þessu svæði, og ef eitt þeirra fer að gera vart við sig má vænta þess að önnur fylgi í kjölfarið.
Skal nú vikið að hverri þessara náttúruváa og reynt að hafa Straumsvík í huga. Þær náttúruvár sem eru líklegastar til að gera verulegan usla á svæðinu eru: ofviðri, strandflóð, jarðskjálftar, sprungumyndun í yfirborði jarðar, eldvirkni, landsig og landbrot við ströndina. Yfirlit yfir náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu er gefið á 1. mynd.

Ofviðri

Páll Imsland

1. mynd. Kortskissa af Suðvesturlandi sem sýnir helstu þætti náttúruhamfara á svœðinu og hvernig þeitn er fyrirkomið í jörð og andrúmslofti með tilliti til Straums. R stendur fyrir Reykjanes-, G fyrir Grindavíkur-, K fyrir Krýsuvíkur-, B fyrir Brennisteinsfjalla- og H fyrir Hengilssprungurein.

Óveður ganga undir ýmsum nöfnum, svo sem illviðri, ofviðri, aftakaveður, fárviðri o.fl. Hér verða einkum notuð orðin ofviðri og aftakaveður. Ofviðri einkennast af sterkum vindi, sem hér á landi er oftast samfara úrkomu. Venjulegast er að miða við 9 vindstig eða meira. Þá fer hlutum að verða hætt við foki og fólk á í erfiðleikum með að ráða sér úti við. Trausti Jónsson (1980 og 1981) hefur fjallað um ofviðri hér á landi. Hann skilgreinir ofviðri þannig að á fjórðungi veðurathugunarstöðva í landinu mælist 9 vindstig eða meira eða að á 10% stöðvanna mælist 10 vindstig eða meira. Mælist 10 vindstig eða meira á 45% stöðvanna kallast veðrið aftakaveður.
Áhrif af ofviðrum eru gífurlega margvísleg og því ógerlegt að tíunda þau öll. Það sem einkum getur orðið fyrir skakkaföllum í ofviðrum, ef við reynum að einfalda yfirlitið, eru fyrst og fremst lausir hlutir, sem vindurinn tekur og feykir, eða hlutir og byggingar sem lausir hlutir fjúka á og skemma. Sjaldgæfara er að heilar byggingar og aðrir fastir hlutir eða þungir fjúki, nema elli og viðhaldsleysi sé farið að setja mark sitt á þá. Þó er plötufok algengt hér á landi. Einkum eru það þakplötur sem vindur nær sér undir og losar og feykir síðan.

Foktjón

Foktjón.

Af slíku foki er tvöfaldur skaði algengur, þ.e.a.s. affoksskaðinn og síðan einnig áfoksskaði annars staðar. Þessu á yfirleitt að vera auðvelt að sjá við og gera ráðstafanir í tæka tíð ef eftirlit er haft með ástandi bygginga. Þar sem sjór gengur á land í óveðrum geta skakkaföllin magnast verulega. Einnig geta fylgt svona veðrum ýmis fyrirbæri sem valda skaða. Má þar t.d. nefna seltu af sjávardrifi, sem getur haft mikil áhrif á flutningsgetu raflína í lofti, og ísingu, sem á það til að sliga slíkar lagnir.
Hér á landi eru illviðri af þessu tagi svo algeng og geta komið svo skyndilega að engan veginn er ráðlegt að skilja eftir létta, lausa hluti óvarða utandyra, að minnsta kosti að vetri til.

Aftakaveður

Aftakaveður.

Samkvæmt samantekt Trausta Jónssonar (1981) voru ofviðri á Íslandi rúmlega 9 á ári að meðaltali á 68 ára tímabili, 1912-1980. Á sama tímabili voru aftakaveður um eitt og hálft á ári að jafnaði. Þessi veður eru langalgengust í NA-, S- og SV-áttum. Ekki liggur fyrir könnun á dreifingu þeirra eða áhrifum þeirra um landið, að öðru leyti en því að hvert veður nær gjarnan yfir stórt landsvæði, eins og fjöldi veðurathugunarstöðvanna í skilgreiningu þeirra gefur til kynna. Þau eru því alls ekki staðbundin fyrirbæri að jafnaði. Eins segja vindáttirnar sem veðrinu fylgja nokkuð um líkur á dreifingu áhrifanna, einkum varðandi sjávaráhrifin, flóð, landbrot og skaða í höfnum og á halfnarmannvirkjum.

Straumsvík

Straumsvíkursvæðið – álverið.

Veðuráhrif eru þó mjög gjarnan staðbundin, þar sem landslag stjórnar vindi á hverjum stað að verulegu leyti, og við slíkar aðstæður geta þung áhrif hitt fyrir ýmis svæði, jafnt við ströndu sem að fjallabaki. Ekki liggur fyrir skýrsla eða samantekt um áhrif ofviðra á Straumsvíkursvæðinu sjálfu, en sterkar S- og SV-áttir eru þar tíðar, einkum að vetrarlagi. Nátengd ofviðrum eru svonefnd strandflóð, sem fjallað er um hér á eftir.

Strandflóð

Strandflóð

2. mynd. Flest strandflóð hérlendis verða i svartasta skammdeginu. Vegna myrkurs og
veðurofsa er erfitt að mynda atburðina sjálfa. Afleiðingarnar er hins vegar auðveldara að
mynda. Strandflóðið 14. okt. 1977 var eitt hinna mestu á síðustu áratugum. Á Stokkseyri mátti sjá mikilfenglegar afleiðingar þess. Þar rak flóðið fjóra fiskibáta á land. Eins og myndin sýnir er einn þeirra alveg uppi á bryggju en hinir uppi á malarkambinum.
Fiskibátar þessir, Bakkavík, sem er uppi á bryggjunni, Hásteinn, Jósep Geir og Vigfús
Þórðarson voru um og yftr 50 tonn að burðargetu. Tveir þeir fyrsttöldu fóru aldrei á sjó
aftur.

Strandflóð eru flókin fyrirbæri sem eiga sér orsök í samspili landslags, áhrifa himintungla og hafrænna og veðurfarslegra ferla. Þær aðstæður sem helst þurfa að vera til staðar í landslaginu til þess að strandflóðahætta skapist eru flatlend og láglend strandsvæði. Gerð strandbergsins og þau rofform sem í því finnast, langt út fyrir fjöruborð, ásamt gerð og magni strandsets, hafa veruleg áhrif á framvindu strandflóða.
Strandflóða gætir mun meir þar sem beinar strendur eru fyrir opnu hafi en þar sem eyjar, sker og skerjagarðar verja ströndina eða þar sem vogar og víkur draga úr ölduhraða og stuðla að öldusveigju. Þá skiptir aðdýpi og grunnsævi fyrir ströndinni og ekki síst ölduaðdragandi (fetch) miklu máli um hæð strandflóða og sjávarmagn sem tekur þátt í flóðinu. Strendur fyrir opnu, víðáttumiklu úthafi verða mun verr fyrir barðinu á slíkum flóðum en strendur innhafa eða þar sem stutt er milli landa og mesti mögulegi ölduaðdragandi því stuttur.
Þau áhrif himintungla sem mestu máli skipta eru togkraftar sólar og tungls. Þannig gætir strandflóða því meir sem þau eiga sér stað nær stórstraumi og þeim mun stærri sem straumurinn er.

Grindavíkurbrim

Brim haföldunnar.

Hafræn og veðurfarsleg ferli, eins og stormur og ölduhæð, krappleiki öldunnar og hraði stormsins og fleira slíkt, eru afgerandi þættir. Í stuttu máli má segja að því meiri sem stormurinn er, því hraðar sem lægðin, sem hann fylgir, fer yfir og því hraðar sem hún dýpkar, þeim mun hærri og krappari verður aldan. För lægðarinnar yfir hafflötinn og lækkandi loftþrýstingi fylgir ris sjávarborðsins, sem verður þeim mun hærra sem loftþrýstingur lækkar meir. Þetta sjávarborðsris myndar bungu á yfirborði sjávar sem eltir lægðina, og mætti kalla hana sjávarskafl (storm surge). Eftir því sem sjávarskaflinn er hærri og meiri um sig, þeim mun meiri verða áhrif hans þegar hann berst upp að ströndu og þeim mun verri verða strandflóðin.

Grindavíkurbrim

Brot haföldunnar.

Veðurlag dægrin á undan lægðinni, sem sjávarskaflinn og flóðið fylgja, skiptir einnig máli, einkum þegar svo háttar til að veðrin valda áhlaðanda, upphleðslu sjávar við ströndina, þ.e.a.s. veðrin hafa blásið sjó að ströndinni svo hann stendur þar hærra en ella. Einnig getur eldra veður, nýlega gengið yfir, haft veruleg áhrif á ölduhæð og öldumynstur á sjónum.
Af þessu ætti að vera ljóst að strandflóðin eru margræð fyrirbæri og þar af leiðandi eru þau einnig æði misjöfn. Hér við land eru strandflóð tíð, enda djúpar, hraðfara lægðir algengar, einkum að vetri, og ölduaðdragandi hér almennt langur.

Grindavíkurbrim

Hafaldan.

Algengast er að lægðirnar komi úr suðvestri og strandflóðin hér fylgi suðvest-, suð- og suðaustlægum stormum. Tíðust eru þau við suður- og suð-vesturströndina. Þessar strendur eru í farvegi lægðanna og suðurströndin er auk þess flöt, lítt vogskorin og að mestu leyti óvarin af eyjum og skerjum.
Svo vill til að Reykjanesskagi ver sunnanverðan Faxaflóa fyrir áhrifum lægðanna, þannig að hinir stóru sjávarskaflar sunnan úr hafi berast þar sjaldan ótruflaðir að ströndu. Í vestlægri öldu er ölduaðdragandi í Faxaflóa tiltölulega stuttur vegna nálægðar Grænlands, og vestanáttir eru sjaldgæfastar allra stífra vindátta hér á landi. Seltjarnarnes og Álftanes verja hluta af sunnanverðum Faxaflóa fyrir norðvestlægum öldum, einkum Hafnarfjörð og Straumsvíkursvæðið. Af þessu leiðir að við sunnanverðan Faxaflóa gætir strandflóða yfirleitt mun minna en veðurfarsleg efni annars standa til.

Grindavíkurbrim

Hafaldan brotnar.

Ströndin við Straum er á svæði þar sem strandflóð eru almennt tíð, en hún er frá náttúrunnar hendi vel varin fyrir áhrifum þeirra, þótt hún sé fremur opin fyrir og ekki varin af skerjagarði.
Á síðustu 200 árum hafa hátt í 60 strandflóð orðið við Suðvesturland, sem í þessu tilviki er talið frá Dyrhólaey vestur um til Skipaskaga. Þetta þýðar að meðaltímalengd milli strandflóða á svæðinu er um 3,3 ár. Ekki gætir þó allra þessara flóða í Faxaflóa, þar eð þau eru að mestu leyti fylgifiskur suðaust-, suð- og suðvestlægra átta og Faxaflói, einkum að sunnanverðu, nýtur skjóls af Reykjanesskaga í þess konar flóðum, eins og áður kom fram. Strandflóðin eru fyrst og fremst vetrarfyrirbæri. (2. mynd).

Jarðskjálftar og sprungumyndun

Sprungumyndun

3. mynd. Við Grindavík,
nánar tiltekið við suður-
endann á annarri þeirra
sprungureina sem valdið
geta sprungum í yfirborði
jarðar á Straumsvíkur-
svœðinu. A myndinni er
horft til NA, sunnan frá sjó
upp til bæjarins. Sprungan
teygist í lítið eitt hliðruðum
sprungubútum alla leið inn
að bœnum. Sprungukerfið
heldur áfram inn undir
byggðina, kemur síðan í
ljós aftur norðan hennar og
teygist þaðan norður eftir
heiðunum og allt að
Straumi.

Það er ekki einfalt mál að gera grein fyrir jarðskjálftavirkni og áhrifum jarðskjálfta þannig að umfangið verði augljóst. Jarðskjálftar eru afar breytilegir að stærð og áhrif þeirra eru því mismunandi. Áhrifin eru ekki einungis misjöfn á upptakasvæðinu og eftir stærð skjálftanna heldur breytast þau líka með fjarlægð og það misjafnlega, í samræmi við byggingu jarðskorpunnar. Því er ekki unnt að gera neina einfalda grein fyrir áhrifum jarðskjálfta á tiltekin svæði, t.d. Straumsvíkursvæðið. Áhrifin fara eftir því hvar upptakasvæði skjálftanna eru, hversu stórir skjálftarnir eru og um hvers konar jarðlög þeir berast.
Þau upptakasvæði jarðskjálfta sem líklegust eru til að hafa áhrif á Straumsvíkursvæðinu eru flekaskil jarðskorpunnar undir Reykjanesskaga, allt austur undir Ölfus, og einnig vestasti hluti þvergengisbeltisins sem liggur um Suðurland. Jarðskjálftar á þessum svæðum hafa tilhneigingu til að koma í hrinum, sem standa vikum, mánuðum eða jafnvel árum saman, með hundruðum og oftast þúsundum einstakra skjálfta. Flestir eru þessir skjálftar svo litlir að þeir finnast ekki, mælast aðeins á jarðskjálftamælum, og hafa því lítil sem engin áhrif á yfirborði. Skjálftunum fækkar yfirleitt jafnt og þétt með stærð. Stærð skjálftanna er gefin í stigum á Richter-kvarða. Kvarðinn er lógariþmískur; þannig er skjálfti upp á 4 stig tíu sinnum öflugri en skjálfti upp á 3 stig o.s.frv. Kvarðinn gefur til kynna orkulosun í upptökum skjálftans en segir ekkert um áhrifm af skjálftanum á mismunandi stöðum. Til þess að lýsa áhrifum jarðskjálfta á tilgreindum stöðum er notaður annar kvarði, Mercalli-kvarðinn, sem er gjörólíkur og minnir meir á stigakvarðann sem notaður er um vindstyrk. Skjálftahrina gekk yfir Reykjanesskagann á ámnum 1971 og 1972 og var hún vel rannsökuð (F.W. Klein o.Il. 1973). Hún einkenndist af einstökum, tiltölulega lillum hrinum og minni virkni þeirra á milli. Í stærstu hrinunni, sem stóð í um 8 sólarhringa, mældust um 14.600 kippir. Skjálftahrina þessi, 1971-1972, varð á flekaskilunum undir Reykjanesskaga og mátti af skjálftunum kortleggja skilin í fyrsta sinn. Síðan hafa fleiri slíkar hrinur komið og er ein slík, að vísu flóknari, í gangi nú og hefur verið undanfarin ár austar á flekaskilunum, á Hengilssvæðinu.

Grindavík

Grindavík – jarðskjálftar í nóv. 2023.

Það er yfirleitt ekki fyrr en skjálftarnir ná 3-4 stigum á Richter-kvarða að verulega áþreifanlegra áhrifa af þeim fer að gæta á yfirborði. Það er hins vegar háð gerð og byggingu jarðskorpunnar, spennuástandi hennar og upptakadýpi skjálftanna hver og hve mikil áhrifin verða. Ef skjálftarnir verða stærri en þetta fer áhrifanna að gæta mun meir, og skjálfti af stærðinni 7 hefur venjulega áhrif svo tugum kílómetra skiptir út fyrir upptakasvæðið. Á plötuskilunum á Reykjanesskaga má vænta stærstu skjálfta í kringum 6 stig, stækkandi austur á bóginn (Páll Halldórsson 1992). líkir skjálftar gætu haft þó nokkuð mikil áhrif á Straumsvíkursvæðinu, en þó varla til mikils skaða.

Jarðskálfti

Þann 26. ágúst 1896 hófust á Suðurlandi einhverjir mestu jarðskjálftar, sem sögur fara af hér á landi. Fyrsti kippurinn var snarpastur í Rangárvallasýslu og í Eystri hrepp í Árnessýslu, þar sem fjölmargir bæir hrundu til grunna. Næsta morgun kom annar kippur og virtist hann hafa verið snarpastur í Hrunamannahreppi, en þar féllu nokkrir bæir. Að kvöldi 5. september kom enn mjög snarpur kippur, sem olli miklu tjóni í Holtum, Skeið og Flóa.

Stærstu skjálftar, sem menn búast við á Suðurlandsþvergengisbeltinu, gætu farið eitthvað yfir 7 stig á Richter-kvarða. Slíkur skjálfti sem ætti upptök vestast á svæðinu, t.d. í Ölfusi eða undir Hellisheiði, mundi að líkindum hafa veruleg áhrif víða vestanfjalls og valda þar þó nokkru tjóni.
Líkur eru fyrir því að auk skjáfta á þessum alþekktu skjálftabeltum, þar sem jarðskorpuflekar snertast, komi öðru hverju skjálftar sem eiga upptök sín utan skjálftabeltanna. Slíkir skjálftar kallast gjaman innflekaskjálftar, til aðgreiningar frá flekajaðraskjálftum. Þeir verða vegna þess að spennubreytingar verða í skorpunni innan flekanna sjálfra, fjarri flekajöðrum, sem afleiðing af spennulosun í jarðskjálftum hingað og þangað við flekaskilin. Þessar spennubreytingar geta leitt til skjálfta, sem eiga sér upptök innan flekans, og virðast slíkir skjálftar geta orðið allsterkir.

Jarðskjálfti

Þann 26. ágúst 1896 hófust á Suðurlandi einhverjir mestu jarðskjálftar, sem sögur fara af hér á landi. Fyrsti kippurinn var snarpastur í Rangárvallasýslu og í Eystri hrepp í Árnessýslu, þar sem fjölmargir bæir hrundu til grunna. Næsta morgun kom annar kippur og virtist hann hafa verið snarpastur í Hrunamannahreppi, en þar féllu nokkrir bæir. Að kvöldi 5. september kom enn mjög snarpur kippur, sem olli miklu tjóni í Holtum, Skeið og Flóa.
Fólk var komið í háttinn þegar skjálfti 7,5 á Richter reið yfir. Síðan um 1700 hafa 7 jarðskjálftar verið á Suðurlandi og hafa haft styrkleika >VIII (1706, 1734, 1752, 1784, 1789, 1896 og 1912).
Svipað er að segja um Rangárvelli. Þar hafa bæir örugglega fallið 12 sinnum, líklega 17 sinnum, og þar hafa að minnsta kosti 5 jarðskjálftar siðan 1700 haft styrkleika >VIII eða 1725, 1732, 1784, 1896 og 1912. Aðeins einu sinni er vitað með vissu, að jarðskjálftar samfara byrjun Heklugoss hafi orðið svo sterkir, að bæir hafa hrunið, en líklegt, að það hafi skeð tvisvar eða þrisvar sinnum.

Upplýsingar um slíka skjálfta eru nokkuð af skornum skammti og við þeim er ennþá aðeins eitt ráð tiltækt: að byggja vel og gera miklar kröfur um styrkleika viðkvæmra mannvirkja. Slfkir skjálftar eru tíðari nærri flekaskilum en fjær þeim og því má ekki útiloka slíka skjálfta á Straumsvíkursvæðinu. Áhrif þeirragætu orðið mikil.
Augljósustu ummerki eftir jarðskjálfta í landslagi eru sprungur og misgengi. Reykjanesskagi einkennist mjög af sprungnum berggrunni og eftir skaganum liggja nokkrar mjög áberandi, samsíða sprungureinar frá suðvestri til norðausturs og sjást þær glöggt á jarðfræðikortum (Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarssson 1980). Á þeim eiga landsrekshreyfingarnar sér fyrst og fremst stað og þær einkennast af þrem megingerðum sprungna: opnum gjám (verða til við gliðnunartilfærslu), misgengjum (verða til við lóðréttar tilfærslur) og gosgígaröðum (sem eru yfirborðsmyndir sprungna sem flytja bergkviku að neðan og upp til yfirborðs). Vestast þessara reina liggur Reykjanessprungureinin, sem nær utan af Reykjaneshrygg um Reykjanes og norðaustur eftir Strandarheiði og Elliðavatni og allt upp í Mosfellssveit (Páll Imsland 1985). Vesturhluti hennar lendir í sjó við Stóru-Vatnsleysu, en eystri hlutinn fylgir þurrlendinu áfram norðaustur á bóginn og stefnir á Straumsvík og Hafnarfjörð.
SprungurÚr sjó stefnir sprungureinin aftur á land á innanverðu Álftanesi fyrir mynni Hafnarfjarðar. Sums staðar er þessi rein mjög áberandi í landinu, einkum á hraununumsem runnið hafa eftir að ísaldarjökulinn leysti af landinu fyrir um 10.000 árum. Þó hafa yngstu hraunin sums staðar runnið yfir sprungurnar og hulið þær. Þannig háttar til við Straum. Sprungur eru þar ekki áberandi í landinu, enda þekja ung hraun svæðið. Sprungureinin liggur samt sem áður undir þessum ungu hraunum og einnig úti fyrir ströndinni, og hún er sá hluti svæðisins sem líklegast er að hreyfist í jarðskjálftum í framtíðinni. Telja má að áhrif af jarðskjálftum á svæðinu í framtíðinni geti einkum orðið í fyrsta lagi má vænta þess að barmar sprungna í berginu gjögti vegna bylgjuhreyfinga sem fara um berggrunninn frá skjálftum á og utan svæðisins. Þetta gjögt getur haft margvísleg minni háttar áhrif á berggrunninn jafnt sem byggingar og önnur mannvirki sem liggja yfir sprungur.

Sprungur

Sprungur í nágrenni Reykjavíkur. Uppdráttur Jóns Jónssonar, jarðfræðings.

Í öðru lagi má vænta þess að á sumum þessara sprungna, á nokkru dýpi, brotni jörðin á ný og hreyfing verði á sprunguflötunum. Þar hliðrast þá barmarnir til og gjár opnast eða lokast, ganga á mis í lóðrétta eða lárétta stefnu. Sambland einhverra eða allra þessara hreyfingarþátta getur einnig átt sér stað. Slíkar hreyfingar gætu einnig átt sér stað við myndun nýrra sprungna á svæðinu, sjá 3. mynd. Myndun nýrra sprungna og hreyfing gamalla eins og hér var lýst er líkleg til að rjúfa vegi, lagnir í jörð og línur í lofti. Hún getur einnig raskað byggingum eða brotið þær illilega.
Í þriðja lagi er ekki ástæðulaust að ætla að misgengishreyfingar á sprungum á sjávarbotni úti fyrir ströndinni geti valdið flóðöldum af þeirri gerð sem kallast tsunami (sjávarskriða), þótt við þekkjum ekki dæmi þess héðan, en aðstæður til slíks eru fyrir hendi á Straumsvíkursvæðinu.
Tíðni sprunguhreyfinga og sprungumyndunar á þessu svæði er óþekkt, eins og raunar víðast hvar. Eðli slíkra atburða er margrætt og litlar tilraunir hafa verið gerðar til að slá tölu á þá.

Eldvirkni og hraunrennsli

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort ISOR af Reykjanesskaga (Jón Jónsson og Kristján Sæmundsson).

Eins og lesa má af jarðfræðikortum (Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarsson 1980) er Straumsvíkursvæðið allt á ungum hraunum sem runnið hafa eftir að ísöld lauk. Austan svæðisins eru móbergshálsar sem orðið hafa til í eldgosum undir jöklum ísaldar. Rétt norðan við svæðið taka við grágrýtisholt mynduð við hraunrennsli á síðustu hlýskeiðum ísaldar. Eldsumbrot hafa því ekki aðeins sett svip sinn á svæðið heldur myndað það allt. Eldvirknin sem hér á hlut að máli er svokölluð rekeldvirkni, en það þýðir að bergkvikan kemur upp á sprungum sem tengjast andrekshreyfingum jarðskorpunnar. Kvika þessi er í nær öllum tilvikum basaltkvika, yfirleitt þunnlljótandi og heit og hefur því litla tilhneigingu til sprenginga.

Eldgos

Eldgos á Reykjanesskaga 2024.

Einkennandi fyrir hana eru þunn hraun sem ná mikilli útbreiðslu. Ekki hefur gosið á þessu svæði síðustu aldirnar.
Yngsta hraunið á Straumsvíkursvæðinu er venjulega kallað Kapelluhraun og er talið vera sama hraun og heitir í fornum heimildum Nýjahraun. Það rann skömmu eftir landnám. Nýlega hafa Sigmundur Einarsson o.fl. (1991) gert grein fyrir þessu hrauni. Kapelluhraun er hluti af hraunaklasa, sem þeir telja hafa runnið í hrinu sprungueldgosa, Krísuvíkureldum, sem stóðu á svæðinu líklegast í nokkra áratugi á 12. öld. Gossprungan, sem var virk í þessari hrinu, náði sunnan frá Latsfjalli við suðurenda Móhálsadals og norður á bóginn undir vesturhlíðum Undirhlíða, allt norður undir Helgafell. Hún er á Krýsuvíkursprungureininni, sem er næsta rein austan við Reykjanessprungureinina.

Helgafell

Austasti gígurinn á Ögmundarhraunsgígaröðinni 1151.

Hraun frá sprungunni runnu í þessum eldum í sjó beggja vegna á Reykjanesskaga, bæði við Krýsuvík hina fornu og Straum. Samkvæmt kolefnisaldursgreiningum rann Kapelluhraun á elleftu eða tólftu öld. Það er í góðu samræmi við hinar fornu heimildir um Nýjahraun. Nafnið Nýjahraun telja menn merki þess að hraunið hafi runnið eftir að menn komu til landsins og það er frá því fyrir árið 1343, því þá braut þar skip, eða eins og segir í Annál Flateyjarbókar (Storm 1888) við árið 1343: „…braut Katrínarsúðina við Nýjahraun…“

Hraunhóll

Hraunhóll undir Vatnsskarði. Upptök Kapelluhrauns.

Á þessu um það bil 850 ára gamla hrauni stendur álverið við Straum. Hraunið kom upp á gossprungu innan Krýsuvíkursprungureinarinnar en hefur runnið út úr henni til norðvesturs og inn yfir norðurhluta Reykjanessprungureinarinnar. Svo norðarlega á Reykjanesreininni hafa ekki komið upp nein eldgos svo vitað sé. Virkni hennar þar einkennist af tiltölulega grunnum jarðskjálftum og sprungumyndun. Það er því fyrst og fremst virkni á Krýsuvíkursprungureininni norðanverðri sem er líkleg til að ógna Straumsvíkursvæðinu með hraunrennsli.

Bollar

Bollagígar austan Lönguhlíðar.

Gosstöðvar eu líklegastar í Undirhlíðum eða vestanundir þeim. Eftir Krýsuvíkurelda á 13. öld hafa ekki komið upp hraun í nágrenni Straumsvíkursvæðisins. Landslagi er þannig háttað að hraun sem koma upp vestanundir Undirhlíðum eiga ekki annarra kosta völ en að renna út á hraunflákana til vesturs og norðurs og leita undan halla og þrýstingi frá kvikunni sem flæðir úr gígunum í átt til strandar, í átt að Straumsvík.

Straumslína

Straumslína frá Hamranesi.

Áður en að álverinu sjálfu kemur eru raflagnir, spennuvirki, þjóðvegur og fleira slíkt í rennslisleiðum hrauna; mannvirki sem skipta verulegu máli, bæði fyrir starfrækslu álversins og alla byggð sunnar á skaganum. Það er því ljóst að hraunflóðahætta er þarna til staðar, en ekkert er þekkt sem bendir til yfirvofandi hæltu. Náttúran á svæðinu hefur ekki sýnt nein þekkjanleg merki þess að þarna séu eldgos í uppsiglingu. Á hitt ber samt að líta að þetta er afkastamikið, virkt eldgosasvæði þar sem ekki hefur gosið í um 850 ár, og til eru vísbendingar um að virknin á Reykjanesskaganum gangi í hrinum með nokkurra alda aðgerðalitlum hléum. Hrinur þessar einkennast af jarðskjálftum, spmngumyndun og eldgosum.

Landsig og strandrof

Hvaleyri

Hvaleyrarfjara.

Ströndin á Suðvesturlandi er almennt að síga, en þó er á því viss óregla. Þetta er hægfara og lítið landsig, sem tengist annars vegar landrekshreyfingum og hins vegar eldvirkni svæðisins. Þessir tveir þættir vinna þannig: Höggunarhreyfingar landreksins valda því að stöku sinnum hrökkva til berggrunnsblokkir sem eru afmarkaðar af sprungum. Þær síga eða lyftast eftir atvikum og getur þá munað miklu, mörgum metrum, á hæðarstöðu þeirra fyrir og eftir. Skrið jarðskorpuflekanna burt frá landreksásnum stefnir þeim út á meira dýpi, í átt að kólnandi umhverfi, og hvort tveggja veldur örlitlu landsigi, millimetrabrotum á ári.

Reykjanesskagi - jarðfræði

Kort Jóns Jónssonar – Eldvirkni á nútíma.

Meginþáttur landsigsins er hins vegar jafnan talinn vera tengdur eldvirkninni. Því háttar þannig til að þegar bergkvikan berst upp á yfirborðið og hleðst þar upp sem hraun eða móbergsfjöll veldur hún auknu fargi á skorpuflekann. Uppbygging jarðlagastaflans hefur þannig tilhneigingu til að pressa flekana niður, þar eð þeir eru stinnir og á floti á seigfljótandi undirlagi. Nánar má lesa um orsakir þessar í áðurtilvitnaðri grein. Þessi síðasti þáttur gæti á Straumsvíkursvæðinu numið 1-3 mm á ári að jafnaði, eða um 2 cm á 10 árum, 20 cm á öld o.s.frv.
Af þessu sést að ekki er líklegt að landsig á Straumsvíkursvæðinu valdi miklum vandamálum. Hinu má samt ekki gleyma að landsigið hefur afleiðingar sem í samspili við sigið sjálft gætu aukið á áhrifin. Þessar afleiðingar eru aukin áhrif strandrofs. Þar sem ströndin sígur á sjórinn smám saman greiðari leið inn á landið og hefur meiri möguleika á að valda rofi og öðrum usla á strandsvæðinu. Engin töluleg gögn liggja fyrir um afköst strandrofs á svæðinu. Hin hljóða vá á ströndinni er greinilega til staðar á Straumsvíkursvæðinu, en í óþekktum mæli.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 3.-4. tbl. 1998, Páll Imsland – Um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu, bls. 263-272.

Straumsvík

Straumsvík 1978 – loftmynd.

Straumur

Í Náttúrufræðingnum 1998 fjallar jarðfræðingurinn Freysteinn Sigurðsson um „Grunnvatnið í Straumsvík„. Þar segir m.a.:

Freysteinn Sigurðsson

Freysteinn Sigurðsson (f. 1941), lauk Diplomprófi í jarðfræði frá Háskólanum í Kiel í Þýskalandi árið 1974. Fresyteinn hefur starfað hjá Orkustofnun æ síðan, einkum við grunnvatnsrannsóknir, neysluvatnsrannsóknir og jarðfræðikortagerð. Hann hefur verið formaður Hins íslenska náttúrufræðfélags frá 1990.

„Gríðarmikil fjöruvötn falla til Straumsvíkur, vestan við álverið og norðan við Keflavíkurveginn. Mikið ber á fjöruvötnum þessum á lágfiri því sjávarföll eru mikil þarna innst í Faxaflóa, eða allt að 4-5 m munur flóðs og fjöru. Hraun eru við víkurbotninn, með rásum og röstum, og eru fjöruvötnin í stœrstu rásunum ár að vexti, upp í nokkra m3/s á stórstraumsútfalli. Svo lek eru hraunin að fjöruvötnin falla sum sem gerðarlegir lœkir í polla bak við hraunkamba og hraunrastir, en útrennsli sést ekki úrpollunum því vatnið rennur skemmstu leið í gegnum hriplek hraunin. Af þessum vatnagangi hefur staðurinn fengið nafnið Straumur og víkin Straumsvík.
Sunnan við þjóðveginn standa nokkrar tjarnir uppi í hraununum og gætir sjávarfalla í þeim, svo verulegan mun sér flóðs og fjöru.
Syðst í tjörnum þessum er Gvendarbrunnur úti í tjörn, hlaðinn í hring úr grjóti, og göngugarður út að honum því brunnurinn fer á kaf þegar sjávarfallaflóð eru mikil. Þarna í Straumsvík er líklega næstmesta útrennsli á einum stað úr grunnvatni til sjávar á landinu, á eftir Lóni í Kelduhverfi.
Þetta mikla útrennsli er afleiðing af jarðfræðilegum og vatnafræðilegum aðstæðum, eins og lög gera ráð fyrir. Menn kunna nokkur deili á þeim aðstæðum því þó nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á grunnvatnsfari á aðrennslissvæði Straumsvíkur og aðliggjandi svæðum.

Gerðistjörn

Gerðistjörn ofan Straums.

Allvíðtæk könnun var gerð á grunnvatni á vatnasviði Straumsvíkur 1975, og var það raunar einhver fyrsta meiriháttar könnun af slíkum toga sem gerð var hérlendis og þar sem beitt var jarðfræði, jarðeðlisfræði, vatnafræði og efnafræði í samþættri rannsókn. Niðurstöður hennar eru enn uppistaðan í þekkingu okkar á grunnvatnsfari svæðisins. Vatnafarskort í mælikvarða 1:25.000 hafa verið gerð af stórum hluta vatnasviðsins á vegum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Á kortum þessum eru jarðlög túlkuð og fiokkuð með tilliti til lektar og annarra vatnafarslegra eiginleika.
StraumurSamkvæmt þessum rannsóknum eru orsakir hins mikla útrennslis í Straumsvík einkum þrjár (2. mynd):
1. Jarðlög á aðrennslissvæðinu (vatnasviðinu) eru mjög lek, svo úrkoman sígur nánast öll í jörðu niður og nær ekkert afrennsli er á yfirborði.
2. Úrkoma á vatnasviðinu er mikil, einkum á fjöllunum þar sem hún fer líklega víða yfir 2.000 mm á ári.
3. Jarðgerð svæðisins beinir grunnvatnsstraumum af stóru svæði til Straumsvíkur.

Vatnshagur vatnasviðsins

Hraun

Hraun ofan Straumsvíkur.

Úrkoman við Straumsvík losar 1.000 mm á ári, eykst upp eftir hraununum og gæti verið komin í um 1.500 mm á ári á Undirhlíðum og nálægt Kaldárbotnum. Þessari úrkomu samsvarar afrennsli sem nemur 30-1001/s á km2 að ársmeðaltali, líklega 55-70 1/s á km2 að meðaltali fyrir svæðið. Ætla má að vatnasviðið sé 150-200 krn2 þegar ráðið er í líkleg mörk þess eftir jarðgerð og vatnafari, líklega þó nær neðri mörkunum. Miðað við það nemur heildarafrennsli til Straumsvíkur 8-14 m3/s. Reynt hefur verið að meta útrennslið við Straumsvík, eða öllu heldur í Hraunavík alla, milli Hvaleyrarhöfða og nessins vestan Straumsvíkur.

Hraun

Hraun ofan Straumsvíkur.

Útrennsli á fjöru fer vaxandi frá Hvaleyrarhöfða til álversins, úr 0,1-1/s í um 1/s á hvern metra fjöru. Á þessu bili falla líklega um eða yfir 2 m3/s til sjávar. Mikið vatn vellur undan álverinu, líklega m3/s eða jafnvel mun meira. Reynt hefur verið að meta vatnsmegin fjöruánna í Straumsvík, en það er torvelt með nákvæmni því fjöruvötnin breyta sér í sífellu, eftir því sem á útfallið líður, og eru að auki stundum ofan jarðar og stundum neðan. Með þeim fyrirvörum var giskað á að útrennsli næmi 3-10 m3/s að meðaltali. Útrennsli til Hraunavíkur er þá 6-15 m3/s, eða svipað og samkvæmt afrennslismati. Meðaltalsgildi væri nærri 10 m3/s. Þetta er í góðu samræmi við niðurstöður líkanreikninga (10-11 m3/s) (Vatnaskil 1991). Má því hafa þetta gildi fyrir satt, þar til annað reynist sannara. Af þessu vatni falla væntanlega um eða yfir 5 m3/s til Straumsvíkur sjálfrar.

Vatnajarðfræðileg gerð svæðisins

Lambhagi

Lambhagi – stífla v/fiskeldis.

Megindrættir í vatnajarðfræðigerð svæðisins eru þessir:
1. Virka gosbeltið, sem liggur eftir endilöngum Reykjanesskaga, stefnir nærri VSV-ANA. Á því hafa hlaðist upp móbergsfjöll á jökulskeiðum en hraun hafa runnið út frá því í átt til strandar. Jón Jónsson (1978) taldi um 200 þekktar gosstöðvar á skaganum sem virkar höfðu verið eftir ísöld. Sýnir það fjörið í eldvirkninni. Gosberg það sem nú er á yfirborði og nokkuð í jörð niður er lekt og veitir vel vatni.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur í Hrauntungum.

2. Hrauntungur hafa fallið frá gosbeltinu á nútíma, einkum um lægðir og slakka. Ofan Straumsvíkur hefur að öllum líkindum verið dalur nokkur, eða jafnvel fjörður, og ná þykk hraun þaðan til sjávar og veita vatni þangað mjög greiðlega.
3. Sprungusveimar skarast yfir gosbeltið og stefna nærri SV-NA. Á mörgum þeirra eru opnar gjár og sprungur og veita þeir þá vatni greiðlega, þar á meðal ofan í hraunfyllta dalinn ofan Straumsvíkur.
Einkum má nefna sprungusveiminn um Heiðmörk, Hjalla og Kaldársel, en hann er svo opinn og lekur að grunnvatnið rennur frekar eftir honum en skemmstu leið til sjávar og þvert á jafnhæðarlínur grunnvatnsborðsins.

Arnarvatn

Arnarvatn á Sveifluhálsi við Ketilsstíg.

Annar sprungusveimur liggur norður með Sveifluhálsi, en vel má vera að þeir séu báðir hluti af sama sprungukerfi eða sprungurein. Þessir sprungusveimar valda misleitni (anisotropi) í lekt á svæðinu, þannig að hún er miklu meiri í stefnu sprungusveimanna en þvert á þá. Niður í eystri skarann rennur grunnvatn frá Bláfjöllum og vestur til Grindaskarða. Sprungumar beina því suðvestur, en norðvestan við sprungusveiminn tekur við grágrýti og annað enn eldra berg, sem veitir vatni treglega í gegnum sig samanborið við hraunin og sprungurnar. Þarna verður því mikill grunnvatnsstraumur vestur í „Straumsvíkurdalinn“.

Sveifluháls

Sveifluháls – móberg.

Sveifluháls er úr móbergi, víða holufylltu af jarðhitaummyndun, og mun tregara á vatnsrennsli en hraunin. Norðan hans er hæðarbunga og er þar líklega einnig eldra og þéttara berg undir hraununum.
Skammt er þar að líkindum suður til vatnaskila og verður grunnvatnsstraumur þessi því sýnu minni en sá sem kemur austan að.
Báðir flæða þeir út úr sprungusveimunum og ofan eftir hraununum í fyllta dalnum suður frá Straumsvík.
Suðaustur af Straumsvík verður lægð í landið upp undir Undirhlíðar, milli lítt lekra grágrýtisholtanna suður af Hafnarfirði og hraunum þakinnar bungunnar í Almenningum. (3. mynd).
StraumsvíkLægð þessi er þakin hraunum sem fara jafnt og þétt hækkandi upp undir Undirhlíðar, en þó í óljósum þrepum. Hér skína í gegn drættir jarðgerðar og landslags undir hraunþekjunni. Á sínum tíma var reynt að greina hæð grunnvatnsborðs á svæðinu með jarðviðnámsmælingum og virðist það hafa tekist þokkalega, miðað við síðari boranir og líkanreikninga á svæðinu. Við þær mælingar komu líka fram ábendingar um dal, forðum fjörð, upp frá Straumsvík, sem síðar hefur fyllst hraunum. Botn þessa dals nær niður á 30-40 m dýpi undir sjávarmáli, samkvæmt mælingunum, en hraunin á stæði álversins ná 20-25 m niður fyrir sjávarmál. Dalur þessi var fundinn með óbeinum aðferðum og mælingum með tækjum, sem þættu ærið ófullkomin núna. Því var traustið á þessari túlkun ekki meira en svo að vesturhlið dalsins var ekki sýnd sem miður lek jarðlög á vatnafarskorti af svæðinu. Við boranir síðar á svæðinu kom þessi hlíð samt í ljós, og verður því að telja líklegt að túlkunin á tilvist dals þessa sé ekki fjarri sanni (4. mynd).

Ástand grunnvatnsins
StraumsvíkGrunnvatnið rennur ákaflega greitt frarmí þessum hraunfyllta dal. Fyrir vikið er halli grunnvatnsborðs þar lítill, en hæð þess er um 2 m y.s. sunnan vegar hjá álverinu og er komin upp undir 10 m y.s. hjá Hrauntungu. Þaðan af hækkar það hraðar, enda eru hraunin þar að meira eða minna leyti ofan grunnvatnsborðs. Í Undirhlíðum og við Kaldársel er grunnvatnsborðið kontið upp í 70-80 m y.s. Úti undir ströndinni flýtur grunnvatnið ofan á jarðsjó í berginu. Saltsvatns er farið að gæta á 100 m dýpi hjá álverinu, en svo snardýpkar á það inn til landsins. Í sprungusveiminum hjá Kaldárseli er talið að öflugt ferskvatnsrennsli sé a.m.k. niður á 800 m dýpi. Ferskvatnið á svæðinu er efnaríkara (einkum auðugra að steinefnum) undan móbergsfjöllunum en af grágrýtinu og hraununum, þ.e. skammt að runnið vatn. Efnaríkast er vatn í Kleifarvatni og umhverfi þess.
StraumsvíkVatnið í Straumsvík er blanda af öllu svæðinu og sést það vel í efnainnihaldi þess. Reynt hefur verið að meta útrennsli úr Kleifarvatni eftir jarðgerð, vatnafari og líkanreikningum en vatnið er afrennslislaust á yfirborði. Áætlað hefur verið að um m3/s renni norður úr en um 1 m3/s suðaustur úr. Hlutfallið gæti þó verið enn lægra fyrir rennslið norður úr, en einnig gæti útrennslið í heild verið talsvert meira, samkvæmt síðari skoðunum.
Grunnvatn það sem rennur vestan að til Straumsvíkur virðist vera bæði heitara og efnaríkara en meginstraumurinn suðaustan að. Þetta staðfesta hitamælingar úti í Hraunum; þar hækkar vatnshiti í fjörulindum úr 5-5’/2°C við Lónakot upp í 8-8’/2°C vestur undir Hraunsnesi en lækkar svo aftur inn til Vatnsleysuvíkur. Þetta, ásamt fleiri ábendingum, hefur verið túlkað svo að grunnvatnsstraumur komi þarna til sjávar ofan frá jarðhitasvæðinu við Trölladyngju. Vatnshitinn við Straumsvík mældist um og innan við 4°C en um 3°C uppi í Kaldárseli. Má af þessu ráða nokkuð um hlutdeild fjallavatnsins í útrennslinu í Straumsvík (5. mynd).

Grunnvatnsauðlind
Straumsvíik.Á flóði stíflast útrennslið uppi og getur þá sjóblandað vatn þrengt sér inn í jarðlögin við ströndina. Þetta veldur saltblöndun í grunnvatninu og fjörulindunum, yfirleitt því meiri sem útrennslið er minna. Kemur það glöggt fram í fjörulindum austarlega í Hraunavík og út við Lónakot, en svo mikill er flaumurinn í Straumsvík að það finnst ekki á bragði vatnsins, þó að blöndunin komi glöggt fram í efnagreiningum. Saltmengun í vatnsbólum var mikið vandamál víða á Reykjanesskaga áður en farið var að afla neysluvatns inni á skaganum. Ferskt grunnvatnið í Straumsvík er gríðarmikil auðlind, enda er þar vatnsmesta grunnvatnssvæði í nánd við meiriháttar þéttbýli á landinu. Á vatnasviði Straumsvíkur eru vatnsból Hafnfirðinga í Kaldárbotnum (7. mynd).
StraumsvíkÞaðan fellur Kaldá skamman spöl, uns hún hverfur í hraunið, en skilar sér svo aftur í útrennslinu í Straumsvík. Vatnsmegin Kaldár er ærið mismikið, enda er hún eins konar yfirfall úr grunnvatninu og rennsli hennar því háð hæð grunnvatnsborðs. Svæði þetta er tengt vatnasviði grunnvatns þess sem fellur til Elliðavatns og býr ekkert þéttbýlissvæði á landinu við slíka auðgi grunnvatns sem höfuðborgarsvæðið, nema Þorlákshöfn, hinum megin á Reykjanesskaganum. (6. mynd).
Full ástæða er til að hugsa vel um auðlind þessa því í henni geta verið fólgin gífurleg verðmæti, ekki síst vegna landslegu Straumsvíkur, hafnaraðstöðu þar og fleiri þátta. Ýmsum þykir pottur brotinn í umhyggjunni um auðlindina, því alls konar mengunarbær starfsemi hefur verið sett niður á vatnasviði Straumsvíkur. Ofar í straumnum spillist allt neðan mengunarstaðar, þ.e.a.s. meira vatn og á mun stærra svæði.

Straumsvík

Álverið í Straumsvík.

Staðsetning álversins og annarra fyrirtækja úti við ströndina veldur lágmarksspjöllum á vatnasviðinu. Meira orkar tvímælis með stálbræðsluna, sem eitt sinn var sett niður á svæðinu, loðdýrabú, sem þar voru eða áttu að vera, en þó ekki síst kappakstursbraut í Kapelluhrauni og ökuþórakappvöll þann sem valinn hefur verið staður lengst uppi í hrauni. Enn má geta gjalltöku á hraununum og efnistöku víða við Undirhlíðar, en mikilli vélavinnu getur fylgt olíuleki, rétt eins og bílaböðulshættinum.
Skynsamlegra, vatnsvænna, fyrirhyggjumeira og gróðavænlegra, til lengri tíma litið, hefði verið að setja svona starfsemi niður sem næst ströndinni, eða þá alls ekki á þessu auðugusta grunnvatnssvæði við meiriháttar þéttbýli á landinu. Enn eru ekki öll sund lokuð fyrir verndun vatnasviðs Straumsvíkur, en þó verður æ brýnna að koma þar á viðunandi lagi meðan enn er tími til. Grunnvatnið í Straumsvík er einstæð auðlind og raunar ómetanleg.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn 67 (3-4), Grunnvatnið í Straumsvík, Freysteinn Sigurðsson, bls. 179-188, 1998.

Straumsvík

Straumsvík.

Þorbjarnastaðir

„Framtíð Hrauna við Straumsvík er óráðin, en samkvæmt aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995-2015 er gert ráð fyrir að stór hluti svæðisins verði notaður undir hafnar- og iðnaðarsvæði. Fyrir nokkrum árum stofnaði áhugafólk um verndun Hrauna, Umhverfis- og útivistarfélag Hafnarfjarðar, til þess að vekja athygli á þessu einstaka svæði.

Fuglalíf

Í frétt í MBL, þriðjudaginn 6. júlí, 1999, sagði Magnús Gunnarsson, þáverandi bæjarstjóri, að engin ákvörðun hafi verið tekin um framtíð svæðisins.
Hraun kallast landsvæðið vestan og sunnan Straumsvíkur, en víkin hefur myndast milli Lambhagatanga að austan og Hrauna að vestan. Hraunið sem þekur svæðið er 5000-7000 ára gamalt helluhraun sem átt hefur upptök sín í Hrútagjárdyngju.
Búskapur hefur verið stundaður í Hraunum frá fornu fari og hafa verið leiddar líkur að því að rústir við Óttarsstaði séu frá 12. öld. Á svæðinu má sjá fjölda rústa, tóftarbrot býla og gripahúsa, minjar eru um útræði í fjörunni, þurrabúðir, fiskbyrgi, vörslugarðar og fiskreitir eru einnig sýnilegir. Helstu lögbýli í Hraunum voru Stóri-Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir og Lónakot. Þessum býlum fylgdu síðan hjáleigur og þurrabúðir, s.s. Gerði, Péturskot, Litli-Lambhagi, Þýskubúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Óttarsstaðagerði og Eyðikot. Heimild er um forna kirkju á svæðinu og grafreit.

Jónsbúð

Jónsbúð.

Árið 1999 fékk Umhverfis- og útivistarfélagið Bjarna F. Einarsson fornleifafræðing til að grafa prufuholur í Jónsbúð, sem er þurrabúð eða hjáleiga utarlega við vestanverða Straumsvík. Bjarni hafði áður verið fenginn til að leita að og staðsetja rústir á svæðinu og segir í skýrslu hans að minjar eins og rústirnar við Jónsbúð séu mikilvægur minnisvarði um ákveðna búskaparhætti og að minjar af slíku tagi sé ekki að finna annars staðar á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Yfirleitt má segja að rústir og minjar á svæðinu séu óspilltar af mannavöldum og svæðið geymi í heild sinni allar þær minjar sem búast megi við að finna í og við þurrabúðir og hjáleigur. Byggð tók að leggjast af í upphafi þessarar aldar og var horfin um miðja öldina.

Óttarsstaðastekkur

Óttarsstaðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Auk merkilegra sögulegra heimilda er náttúrufar með nokkuð sérstæðum hætti á þessu svæði. Í hrauninu má finna fjölda ferskvatnstjarna sem koma og fara eftir sjávarföllum þegar sjórinn flæðir inn undir hraunið og streymir síðan út aftur á fjöru. Vegna þess að ferskvatnið, sem flæðir stöðugt undan hrauninu, er eðlisléttara en saltvatnið flýtur það ofan á sjónum meðan flæðir að, en blandast honum síðan þegar flóðið nær hámarki.

Áður fyrr voru börn látin vakta sjávarföllin til þess að ná fersku vatni úr tjörnum og brunnum áður en sjórinn náði að blandast ferskvatninu við háflæði. Í tjörnum sem ekki þorna alveg upp á fjöru hafa nýlega uppgötvast dvergbleikjur sem verða um 12-14 cm og lifa á skilum ferskvatns og sjávar.

Óttarsstaðir

Straumur og Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Magnús Gunnarsson, bæjarstjóri, segir í fyrrgreindri MBL-frétt 19999 að ekkert hafi verið ákveðið varðandi skipulag á Hraunasvæðinu. „Ljóst er að menn fara sér hægt við að skipuleggja framtíð þess.“ Hann kvaðst sannfærður um að menn myndu staldra við og velta hlutunum vel fyrir sér og sérstaklega þeirri staðreynd að ekki væri hægt að taka til baka það sem gert yrði. Ljóst væri að mikil vakning ætti sér stað varðandi varðveislu náttúru- og sögulegra minja og að engar hafnarframkvæmdir væru áætlaðar á næstu árum vestan Straumsvíkur. Í þeirri vinnu sem framundan væri í skipulagsmálum yrði stigið varlega til jarðar, sérstaklega varðandi perlur eins og Hraunin væru.“

 

Nú, 2008, hefur Samfylkingin í Hafnarfirði uppi áform um að eyðileggja flestar menningarminjarnar á norðanverðu Hraunasvæðinu og þar með hið fjölbreytilega dýralíf sem og hina dýrmætu útivistarmöguleika bæjarbúa.
veggurÍ frétt í Fjarðarpóstinum 11. september (af öllum dögum, en þó vel við hæfi) kom m.a. eftirfarandi fram um þessar áætlanir undir fyrirsögninni: „Nýtt hafnarsvæði á Hraunum? – Hugmyndir eru uppi um nýja stórskipahöfn vestan Straumsvíkur.
„Okkar fyrstu niðurstöður eru þær að fýsilegt sé að byggja nýja höfn vestan Straumsvíkur sem að mestu yrði í landi Óttarstaða,“ segir formaður hafnarstjórnar. „Við höfum einnig kannað möguleikana austan Straumsvíkur, en þar reyndust ekki vera ákjósanlegar aðstæður. Við höfum í samvinnu við Siglingastofnun kannað öldufar og rannsakað botnlög með tilliti til hafnar gerðar vestan Straumsvíkur og virðast aðstæður þar allgóðar. Þetta yrði stór höfn sem þjónað gæti stórum hluta siglinga til höfuðborgarsvæðisins og skapað mikla uppbyggingu og atvinnustarfsemi.“

Straumur

Straumur – uppdráttur ÓSÁ.

Að sögn formannsins eru hugmyndirnar sem hér eru kynnntar hins vegar á frumstigi. Tillögurnar voru kynntar í hafnarstjórn í júní og í skipulags- og byggingarráði á þriðjudaginn. Næsta skref er að sögn formanns að ræða við landeigendur á svæðinu sem eru allmargir. Stefnt er að því að kynna þessar hugmyndir fyrir bæjarbúum og skapa um þær umræðu. Ljóst er að skoðanir verða skiptar um þessar tillögur en við hafnargerðina hverfa margar minjar en gert er ráð fyrir að vernda bæjarstæði Óttarstaðabæjanna í einskonar vin á miðju athafna svæðinu. Einnig yrðu Þýskabúð og Jónsbúð óraskaðar.
Landslagsarkitekt var fenginn til að útfæra þessar fyrstu hugmyndir og aðlaga þær lands laginu þannig að sem best fari, að sögn formanns, „en auðvitað á þetta eftir að fara í umhverfismat og í gegn um skipulagsferil,“ sagði formaðurinn.
HugmyndirSkv. hugmyndunum er gert ráð fyrir að meðfram nýrri legu Reykjanesbrautar verði hafnarsvæði lækkað um 12-14 m en næst sjónum yrðu 6-8 m varnargarðar til að skilja svæðið að en það er um 160 ha. (1,6 millj. m²) sem er svipuð stærð og svæði sem afmarkast af Hjallabraut, Hjallahrauni, Reykjanesbraut, Hvammabraut og Suðurgötu. Hafnargarðurinn yrði gerður úr efni sem þarna fengist en hann yrði skv. hugmyndunum gerður í tveimur áföngum.“

Tjörvagerði

Tjörvagerði.

Segja má með sanni að Samfylkingin hafi tilhneigingu til að vernda minjar og náttúru með vinstri hendinni, en rífa hvorutveggja niður með þeirri hægri. „Vonandi verða hvorki hugmyndir né fulltrúar þeirra langlífir“, varð einum rólyndismanni að orði er hann heyrði tíðindin. Mörg dæmi eru um að vilji til að takmarka verndun minja innan stórra athafnasvæða hafi farið fyrir lítið er á reyndi.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Segja má að einstakir fulltrúar og skipulagsyfirvöld í Hafnarfirði hafi að undanförnu verið í tómu klúðri – sem virðist það því miður fara vaxandi.
Umhverfi og náttúra í Hraunum er einstök á landsvísu og þótt víðar væri leitað. Hluti þeirra njóta náttúruverndar. Auk þess mynda Hraunabæirnir ofan við ströndina heilstætt og dýrmætt minjasvæði með tilheyrandi útstöðvum ofar í hraununum; seljum, fjárskjólum, nátthögum og aðliggjandi götum. Svæðið sem heild er því einstaklega dýrmætt, ekki síst vegna þess hversu nálægt þéttbýlissvæði það er. Þessu virðist eiga að farga án teljandi hugsunar.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – örnefni (ÓSÁ).

Samstarf og samnýting Faxaflóahafna hefur dregið úr þörfinni á hafnargerð sem þessari, enda koma aðrir staðir á höfðuborgarsvæðinu mun betur til greina en landssvæðið þar sem Hraunin eru.
Sjá meira um svæðið HÉR og HÉR. Vefsíðan geymir uppdrætti af u.þ.b. 400 minjasvæðum og yfir 6000 lýsingum á Reykjanesskaganum, auk fróðleiks og frásagna af minjum og örnefnum á svæðinu – fyrrum landnámi Ingólfs. Allt efnið er unnið af áhuga og umhyggju – án ríkisstyrkjar.

Heimildir m.a.:
-Mbl – Þriðjudaginn 6. júlí, 1999 – Smáfréttir
-fjardarposturinn.is – 11. september 2008
http://www.fjardarposturinn.is/images/FP-pdf/FP-2008-34-skjar.pdf

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestri.

 

Kapella

Jochum Magnús Eggertsson (9. september 1896 – 23. febrúar 1966) var íslenskur rithöfundur og skáld, alþýðufræðimaður og skógræktarmaður, sem skrifaði jafnan undir höfundarnafninu „Skuggi“.
Skuggi-1Jochum las og rannsakaði allar galdraskræður og fornan fróðleik sem hann kom höndum yfir, og skrifaði meðal annars bókina Galdraskræðu, þar sem hann tók saman ýmsan fróðleik um galdra og galdrastafi. Hann sagðist líka hafa fundið galdrabókina Gullskinnu eða Gullbringu, sem getið er í þjóðsögum, en hún væri í rauninni ekki galdrabók, heldur frumgerð Landnámu og þar væri sögð saga fyrstu alda Íslandsbyggðar eins og hún væri raunverulega. Aldrei vildi Jochum þó sýna neinum Gullskinnu.
Margir telja að Landnáma hafi komið á undan Íslendingabók. Höfundur hennar voru Ari fróði og Kolskeggur hinn vitri.
Samkvæmt kenningum Jochums var Suðurland albyggt þegar landnámsmenn komu og var þar fyrir írskur þjóðflokkur sem naut andlegrar handleiðslu Krýsa (Chrysostomosa eða gullmunna) Skuggi-2og hafi það verið hluti launhelga sem voru til víða um Evrópu og allt suður til Krítar og Egyptalands. Höfuðstöðvar Krýsa voru samkvæmt kenningum Skugga í Krýsuvík. Hann hélt því fram að Krýsar og landnámsmenn hefðu í fyrstu búið saman í friði. Höfuðprestur Krýsa á elleftu öld var Kolskeggur vitri og hafði hann lærisveina sína og ritara á tveimur stöðum, í Krýsuvík, þar sem hann bjó sjálfur, og á Vífilsstöðum undir stjórn Jóns Kjarvalarsonar hins gamla, og voru alls 13 á hvorum stað að meðtöldum lærisveinum. Þeir voru jafnan hvítklæddir.
Þessir fræðimenn sköpuðu menningararf Íslendinga, segir Skuggi. Kolskeggur vitri kenndi Íslendingum að skrifa með latínuletri; hann orti sjálfur Hávamál og skrifaði margar Íslendingasagna, þar á meðal Njálu, Laxdælu, Hrafnkels sögu, Gunnlaugs sögu ormstungu og Bandamanna sögu. En höfðingjum þóttu Krýsar orðnir of voldugir og haustið 1054 söfnuðu þeir miklum her, brenndu Jón Kjarvalarson og menn hans inni á Vífilsstöðum og settust svo um Krýsuvík, sem þeim tókst loksins að vinna þrátt fyrir frækilega vörn. Kolskeggur komst undan á Brimfaxa, arabískum gæðingi, en náðist í hrauninu sunnan Hafnarfjarðar, þar sem hesturinn fótbrotnaði og Kolskeggur var felldur. Eftir þetta var Krýsum útrýmt.
Skuggi-3Mönnum stóð brátt ógn af þeim stað þar sem Kolskeggur hafði fallið og var þar reist kapella og hraunið síðan kallað Kapelluhraun. Hann var sagður galdramaður og djöfull og með tímanum umbreyttist nafn hans í Kölski. Kapellan var reist við fornu reiðgötuna í auðninni þar sem Kolskeggur var veginn; var á miðöldum kölluð „Kölskakapella“ eða „Kölska-kyrkja“. Nýtt hraun hefur runnið á hana og kaffært hana að nokkru leyti, en vegsummerki hennar sjást þó enn greinilega á hraunhryggnum og storkunni, austurgaflinn nokkurnveginn heillegur að innan og innganginn og fyllt hana þeim megin. Hraunið dregur síðan nafn af Kapellunni. Það fylgir fornu sögninni, að bein Kölska hafi verið geymd eða dysjuð þar í Kapellunni.
Fornar fræðibækur Krýsa voru bannaðar og kallaðar galdraskræður. Ari fróði var svo fenginn til að umskrifa söguna og afmá hlut Krýsa, en eftir hvarf þeirra varð nær algjör stöðnun í menningararfi og ritstörfum meðal Íslendinga. Síðustu leifar þessa stórbýlis [Krýsuvíkur] hafa varðveizt á undraverðan hátt, umkringdar og greiptar í hraunstorkuna og bíða þar grasi grónar eins og þær hafa gert síðastliðin 600 ár. Yngsta gólfskánin hefur því tíðindi að segja frá þeim tíma.
Þá má þess geta að í þjóðsögunum segir að Eiríkur galdraprestur í Selvogi hafi áskotnast Gullskinna þessi, en hann ákveðið að urða hana í Kálfsgili í Urðarfelli, enda um að ræða „mestu galdrabók allra tíma“.

Skuggi-4

Jochum var ættaður frá Skógum í Þorskafirði og var bróðursonur Matthíasar Jochumssonar skálds. Hann sendi frá sér allnokkurn fjölda bóka og ritlinga, bæði stuttar skáldsögur og smásögur, ljóð, þjóðlegan fróðleik og ritgerðir, og þykja mörg ritverk hans nokkuð sérstæð. Hann var einnig góður teiknari og skrautritari og hafði lært það af eldri bróður sínum, Samúel Eggertssyni kortagerðarmanni og skrautskrifara, sem ól hann upp að einhverju leyti. Jochum myndskreytti sumar bækur sínar og handskrifaði aðrar. Á meðal bóka hans má nefna Brísingamen Freyju, Syndir guðanna – þessar pólitísku, Viðskipta- og ástalífið í síldinni og Skammir.
Jochum keypti Skóga í Þorskafirði árið 1951, dvaldist þar meira og minna öll sumur eftir það og stundaði þar allnokkra skógrækt og gerði tilraunir með ræktun ýmissa trjátegunda. Hann var ókvæntur og barnlaus en arfleiddi Baháí-samfélagið á Íslandi að jörðinni eftir sinn dag.

Sjá meira HÉR.
Sjá einnig Brísingamen Freyju.

Heimildir
– (Jochum M. Eggertsson) Skuggi: Brísingamen Freyju: nokkrar greinar. Reykjavík, 1948.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Tjörvaskjól

Í „Svæðisskráningu fyrir Hafnarfjörð 1989“ og í „Örnefnalýsingu fyrir Straum; Gísli Sigurðsson“ er getið um „Tjörvagerði“ og „Tjörvaskjól„.

Tjörvagerði

Tjörvagerði.

„Vestur frá þýskubúð og sunnan undir klöpp eru „Tjörvagerði“ og „Tjörvaskjól“…. hvort tveggja er hlaðið af Guðmundi Tjörva bónda í Straumi og Þýskubúð.“

Straumur

Fjárskjól við Tjörvagerði.

Skjólið er skammt (20m) vestur af gerðinu og rétt sunnan við hleðslu undir girðingu (landamerki Óttarsstaða og Straums“. Í hrauni þar sem langar klappir reynast skeifulaga skjól með opið til suð vesturs.“ „Skjólveggur hlaðinn þvert fyrir og hellisskúta. Veggur hæstur…

„Vestur frá Þýzkubúð er sunnan undir hárri klöpp Tjörvagerði. Þar er Tjörvabyrgi og Tjörvaskjól, hvort tveggja hlaðið af Guðmundi Tjörva bónda í Straumi og Þýzkubúð“.

Svæðið umleikis Straum og nágrenni er fyllilega gönguferðarinnar virði…

Heimild:
-Svæðisskráning fyrir Hafnarfjörð.
-Örnefnalýsing fyrir Straum, Gísli Sigurðsson.

Tjörvagerði

Tjörvagerði.

Straumssel

Gengið var frá Straumi áleiðis upp í Straumssel eftir Straumsgötu. Straumstíg var síðan fylgt upp hraunið til suðurs vestan við hlaðinn túngarð Þorbjarnastaða.

Fornasels-, Gjáselsstígur.

Fornasels-, Gjáselsstígur og Straumsselsstígur eystri.

Í lýsingum er talað um tvær götur upp í Straumssel. Straumsgatan liggur frá Straumi að vestanverðu til suðurs, skammt austan við Straumsréttina. Frá götunni liggur stígur, hér nefndur Straumsstígur, yfir Alfaraleiðina austan Draugadala, upp í gegnum Seljahraunið og áfram upp í gegnum Mjósundið. Gatan fylgir vestanverðu Gráhelluhrauninu og Draughólshrauni, upp með vestanverðum Straumsselshöfða og upp í Straumssel að vestanverðu. Auðvelt er að rekja þessa götu upp frá Straumi þar sem hún liggur til suðurs austan Straumsréttar og undir Reykjanesbrautina og áfram til suðvesturs. Ofan við Mjósundið hverfur stígurinn á kafla undir kjarr, sem hefur gróið þar vel upp, en kemur fljótlega aftur í ljós skammt sunnar.

Straumsselsstígsins er getið í örnefnalýsingu. Hann liggur til suðurs vestan Sölvhóls og áfram fast við vestanverðan túngarð Þorbjarnastaða. Grunsemdir eru um að þessi stígur, sem síðan liggur beint út frá Þorbjarnastaðartúninu til suðurs og áfram upp í Gjársel og Fornasel, sem voru sel frá Þorbjarnastöðum og hugsanlega Lambhaga, hafi fyrrum verið forn gata þaðan, enda greinilega mikið genginn, bæði af mönnum og skepnum. Þessi sel lögðust af fyrr en Straumsselið. Túngarðurinn var hlaðinn um og eftir 1900 og þá hafði selsbúskapur í Hraunum lagst af.

Straumssel

Straumsselsvarða.

Þess vegna er ekki hlið á garðinum þar sem selsstígurinn mætir túninu. Eystri selstígurinn er merktur að hluta.
Þessi selsstígur liggur til suðsuðausturs vestan við Stekkinn sunnan Þorbjarnastaða, yfir Mið-Seljahraunið (þau eru fjögur á þessu svæði), framhjá Miðmundarhæð (á hægri hönd), um “grennsta” haftið á Seljahrauni og áfram til suðausturs austan Grenigjáa, upp með Eystri Tobbuklettum, um Flárnar, meðfram austanverðu Draughólshrauni og upp meðfram Jónshöfða. Stígurinn hlykkjast um hraunið og er ýmist í landi Þorbjarnastaða eða Straums. Nokkuð neðan við Laufhöfða eru gatnamót. Þar beygir Straumsselsstígur til suðurs þar sem hann liggur um Katlana. Skammt þar austan við er Kápuhellir, í landi Þorbjarnarstaða. Norðan undir Straumsselshöfða beygir stígurinn til vesturs og kemur vestan og sunnan hans upp í selið. Reyndar skiptist gatan undir norðurhorni höfðans, en þaðan liggur gata áleiðis að Straumsselshæð og inn í selið að norðaustanverðu.

Straumsselsstígur

Straumsselsstígur.

Á leiðinni sást vel yfir að Tobbuklettum og vörðu við Grenigjár, en í þeim er nokkuð stór rétt innan hraunhólaþyrpingar. Selsstígurinn er vel markaður í klöppina á kafla, einkum neðst í Flánum. Einnig er hægt að komast inn á hann eftir stíg af Gerðarstíg, sem er austastur þessara stíga. Hann liggur til suðurs austast í Seljahraununum.
Fyrir ofan Straumssel er Straumsselshæð og á henni Straumsselshæðarvarða. Ofar og sunnar eru Stórhæðir. Efst austan til er Fremstihöfði en í suðvestur sér í hæstu hæð Gömluþúfu. Í því er Gömluþúfugrenið.
Sunnarlega í Straumselshöfða er Höfðavatnsstæðið, uppi á hól. Þar á sumrum var drykkur fyrir tvo smala og hunda þeirra.

Straumsselsstígur vestari

Skotbyrgi við vestari Straumsselsstíg.

Straumsselið er eitt hið merkilegasta á Reykjanesskaganum. Seltætturnar eru í Straumselstúni. Þarna stóð bær fram á síðustu öld, sem Guðmundur Tjörvi lét reisa. Bærinn brann síðan. Áður var faðir hans, Guðmundur (sonur Krýsuvíkur-Gvendar) um tíma skógarvörður í Almenningum og hélt þá til í selinu.
Seltúnsgarðar liggja um nokkurn hluta túnsins. Fjárhús eru hér innangarðs sem og Selsgarðurinn, matjurtargarður. Vatnsstæði er í skúta norðan við þær, Selsbrunnurinn. Hlaðin hestarétt er vestan við Selstúnið.
Í Straumsseli var búið stundum á 19. öldi. Síðast á árunum 1890-1895. Bæjarhúsin eyddust af bruna og hefur ekki verið búið þar síðan. “Í suðri sést í Hafurbjarnaholt, kennt við Björn Gnúps-Bárðarson, Hafur-Björn, sem samninginn gerði við bergbúann forðum. Gerðu þeir helmingaskipti í fjáreign. Segir sagan að þá hafi komið hafur og hrútur í féð og var þá sem tvö höfuð væru á hverri skepnu. Gerðist Björn þá fjárríkasti bóndi á Suðurnesjum”.

Straumsselsstígur

Straumselsstígur vestari.

Seltúngarðar liggja um nokkurn hluta túnsins. Fjárhús eru innangarðs. Selsgarðurinn um seltóftirnar var matjurtargarður.
Ofan og austan við Straunmsselið er Straumsselshæð. Sunnan í henni er Straumsselshæðarskjólið.
Straumsstígurinn kemur í selið ofan við hestaréttina. Líklega hefur hún verið notuð af hestafólki, t.d. þeim sem þurftu að hitta Guðmund skógarvörð í Straumsseli á meðan hrístakan stóð yfir. Einnig hefur heimilisfólk í selinu notað hesta t.a.m. til vöruflutninga.
Hin gatan, Straumsselsstígur, sem nú er stikuð, hefur frekar verið farin af gangandi fólki, ef þetta er yfirhöfuð mannagata því ekki er ólíklegt að ætla að hún hafi sennilegast verið notuð sem búsmalagata. Ekki er t.d. að sjá gamlar vörður við hana eða „hnoðaða“ steina í götunni, eins og eftir skeifur, sem jafnan sjást í selgötunum vörðulausu.

Förnugötur

Straumsselsstígur/Fornugötur.

Björn Bjarnason frá Grafarholti fjallar um gamlar götur í Árbók fornl.fél. 1914. “Um notkun fornveganna má fræðast af rúnum þeim, sem hestafæturnir hafa rist á jörðina, þar sem tönn tímans eigi hefir til fulls afmáð þær eða útskafið, og sumstaðar hjálpa örnefnin til að skilja. Greinilegastar eru rúnir þessar sem spor í klappir, gatnafjöldi í grónu valllendi, sem ekki hefir legið undir árensli, og troðningar í móum. Þó þeir sé grónir aftur sjást göturnar af því, að þar eru geilarnar dýpri og beinni í sömu stefnu, en annarsstaðar. Í melum og lausagrjótsholtum má einnig finna fornvegina, stundum sem laut eða skoru, en þó einkum með því að athuga grjótið. Í götunni er það troðið, máðar af því nybbur líkt og brimsorfnu grjóti. Af því stafa litaskifti, sem sjást á því, þar sem umferð hefir verið, þó hún sé hætt fyrir löngu.“

Suður frá garði frá selinu liggur Straumshellnastígur, suður að Straumshellum nyrðri, miðja vegu milli Gömluþúfu og Straumssels. Þaðan liggur stígur í Straumshellana syðri. Hér voru allgóð fjárskjól og hafði Tjörvi þarna fé. Við syðri hellana er Gerðið, sem notað var til samrekstar.

Straumssel

Straumssel – selið.

Norðan við neðri hellana er gott varðað vatnsstæði í hraunkvos. Í neðri hellunum er rúmgóður fjárhellir utan í holti og snýr opið til vesturs. Hlaðið er framan við munnann. [Skammt sunnan við opið mótar vel fyrir miklum hleðslum við op. Hleðslurnar eru fallnar og hafði lokast fyrir opið, en hefur nú verið opnað á ný. Þarna mun vera op á öðrum fjárhelli, sem langur gangur átti að hafa verið inn í].

Neðri-straumsselshellar

Neðri-Straumselshellar.

Í efri hellunum er rúmgóður fjárhellir og vel manngengur. Hlaðið er fyrir munnann, en hellisopið er innan við fallega hlaðið gerði í hraunbala. Ofan við gerðið að norðanverðu er hlaðið byrgi eftir refaskyttu, sem Jónas Bjarnason og félagar hlóðu eftir miðja 20. öld, væntanlega úr grjóti réttarinnar.
Vestari selsstígnum var fylgt úr hlaði. Hann liggur til suðurs út frá bænum og beygir síðan til vesturs og loks til norðurs. Stígurinn til vesturs yfir að Óttarsstaðarseli þverar hann vestan við selið. Stígurinnn er vel markaður í landið og er augljós uns hann mætir eystri stígnum norðan við selið.
Straumsselsstígnum var fylgt til norðurs vestan Straumsselshöfða og yfir á Straumsselsstíginn, sem síðan var rakin niður að Þorbjarnastöðum.

Verklag í seli.

Straumssel

Vatnsból skammt sunn-an Straumssels.

Efitt er að finna ritaðar lýsingar á verklagi því er viðhaft var í seljum á Reykjanesi. Tiltækar lýsingar eru þó í flestu samhljóða. Þótt víst megi telja að verklagið hafi tekið einhverjum breytingum í gegnum aldirnar má því eins víst vera að það hafi þó lítið breyst í grundvallaratriðum. Til að gefa einhverja innsýn í verklagið er vitnað hér í grein Ólafs Þ. Kristjánssonar, fyrrverandi skólastjóra Flensborgarskóla og kennara höfundar, sem hann ritaði árið 1978 í Ársrit Sögufélags Ísfirðinga um selsbúskap í Holtaseli í Önundarfirði, og í handriti Sigurlínu Sigtryggsdóttur, Æsustöðum í Eyjafirði, er nefnist “Upp til selja”.

Straumssel

Straumssel – brunnur.

Ólafur virðist hafa leitað eftir og safnað fróðleik um verklag í seljum, “en það er með Holtasel eins og fleiri sel á landinu að næsta lítið er vitað um hvernig vinnubrögðum þar var háttað og yfirleitt hvernig selið var hagnýtt”. Hann skrifaði þó eftirfarandi eftir Ágústi Guðmundssyni, bónda á Sæbóli á Ingjaldssandi, það sem hann hafði eftir móður sinni, Guðrúnu Sakaríasdóttur (hún var í Holti um 1870) um Holtasel: “2-3 stúlkur voru í selinu að jafnaði. Kýrnar voru mjólkaðar fyrst, og var það oftast búið þegar féð kom. Ein stúlkan fór að öllum jafnaði þegar búið var að mjólka kýrnar og ærnar fyrri mjölt til þess að setja mjólkina, en hinar mjólkuðu eftirmjölt. Smérið var flutt heim í krókum, en skyrið einu sinni í viku í strokkum. Drukkurinn var fluttur heim í tvíbytnum að vetrinum, dreginn á sleða”.
Þorkell Guðmundsson, heimildamaður Ólafs lýsir selsbúskapnum svo: “Eftir fráfærur voru ærnar reknar fram í Holtasel. Yfirleitt var ekki setið hjá ánum nema kannski einn dag, heldur var þeim smalað allan fráfærutímann.

Straumssel

Straumssel – selstaðan.

Eftir mjaltir kvölds og morgna voru þær reknar fram á Heiðará á Mjóadal. Ekki er bema 7-8 mínútna gangur frá selinu fram að Heiðará eða tæplega það….”. Smalinn var vakinn kl. 3-4 á nóttunni til smalamennskunnar og einnig var farið að smala um svipað leyti, kl. 3-4, að degi til. Smalinn hélt alltaf til í selinu.
Venjulega voru 3 stúlkur í selinu, selráðskonan og 2 mjaltakonur. Selráðskonan annaðist matseld og mjólkina, renndi trogum og sá um smjörgerðina, en undanrennan var daglega flutt heim að Holti í tveimur 80 marka (40 lítra) kútum og þar var skyrið búið til. Dallur með dagssmjörinu var reiddur ofan á milli á hestunum.

Straumssel

Straumssel – garður.

Selkonurnar fóru oft heim að Holti á daginn til þess að þurrka og raka þegar svo stóð á, en voru alltaf í selinu yfir nóttina.
Í sláttarlok flutti svo fólkið úr selinu heim að Holti og tók ærnar með sér. Eftir þann tíma munu þær ekki hafa verið mjólkaðar nema einu sinni á dag. Kýr voru aldrei hafðar í selinu á æskuárum Þorkels”.
Sigurlína lýsir Hvassafellsseli og segir “mislangt í hinum ýmsu byggðarlögum síðan búsmali í seljum lagðist af. Hann hafi varað einna lengst í Eyjafirði.
Fyrsta verk í selinu var að sópa og hreinsa hátt og lágt og þvo og sjóða öll ílát. Hvassafellssel var hlaðið að mestu úr grjóti. Var það baðstofa, búr og eldhús, mjólkurbúr og skyrbúr… Voru um 120-140 ær í kvíum. Í selinu voru líka 4-5 kýr. Lágu þær úti, en voru mjólkaðar á kvíabóli. Tvær stúlkur mjólkuðu kvíærnar og kýrnar og gerðu skyr og smjör úr mjólkinni. Var flutt heim úr selinu þrisvar í viku á þremur hestum í hvert sinn. Sóttu vinnumennirnir í Hvassafelli fram í selið og komu með þurrt sauðatað á hestunum til eldiviðar.

Straumssel

Efri-Straumsselshellar.

Venjulega stóð seltíminn yfir í mánuð til fimm vikur. Var oft glatt á hjalla í seljunum, þó mikið væri að gera. Var oft um helgar, þegar gestkvæmt var, slegið í leiki úti á sléttum velli og jafnvel glímt af konum sem körlum, því að á þeim tímum voru sumar stúlkur svo leiknar í glímum, að piltarnir máttu vara sig. Þegar komið var heim með mjólkurföngin úr selinu, var skyrið látið í stór keröld eða sái, en smjörinu drepið í hálftunnur og hvort tveggja geymt til vetrar, það sem gekk af daglegri notkun.
Mjög þótti það áríðandi að hafa trúa og ötula selsmala. Ærnar máttu helst ekki missa máls, en svo var það kallað, er vantaði af ánum til að mjalta. En nú eru kvíarnar og selin hrunin og fólkið horfið þaðan. Flest ungt fólk elst nú upp við léttari og betri lífsskilyrði, sem betur fer, en áður þekktist”.

Seljabúskapur.

Straumssel

Í Straumsseli – varða.

Um selsbúskap (úr bókinni Íslenskir þjóðhættir eftir séra Jónas Jónasson):
“Alsiða var það fyrrum, einkum þar sem þröngt var um haga heim um sig, og þurfti ekki til, að hafa búsmala í seli á sumrum frá fráfærum og til tvímánaða eða til þess er nálega 16 vikur voru af sumri. Selin voru byggð til dala eða svo langt frá bæjum, að náðist til betri og kjarnmeiri haga en heima fyrir var að fá. Þangað var farið með allan ásauð og stundum flestar kýrnar. Í selinu var jafnan einn kvenmaður, selmatseljan (selráðskona), og ef fé var mjög margt, hafði hún með sér eina eða tvær unglingsstúlkur. Svo var smali, sem fylgdi fénu úr kvíunum og var yfir því nótt og dag. Ekki var mulið undir smalann í seljunum stundum. Var ekki dæmalaust, að honum væri ætlað að skala strokkinn, á meðan mjaltarkonur mjöltuðu ærnar. Þótti þá vel úr rætast, ef nokkurn veginn félli saman, að strokkurinn væri skilinn og lokið væri mjöltunum. Af því er talshátturinn; “Það stenst á endum strokkur og mjaltir”.

Straumssel

Straumssel – tilgáta.

Sagt var og, að ráðskonur hefðu haft það til, að binda strokkinn upp á bakið á smalanum við smalamennsku og láta hann hlaupa með hann, og hafi skilist þannig smjörið. En ósennilegt er, að þetta hafi verið gert, síst almennt.
Selin voru venjulega þrjú hús; mjólkurhús og selbaðstofa og eldhús til hliðar eða frálaust. Oft voru og selið í beitarhúsum, ef þau voru langt frá bænum. Kvíar voru og til að mjalta í ærnar og kofi handa kúm, ef þær voru hafðar í selinu. Selmatseljan hafði nóg að starfa; að mjalta ærnar, setja mjólkina og hirða hana, búa í stokkinn og strokka hann, búa út smjörið, flóa mjólkina og gera úr henni skyr. Mjólkin var hleypt í skyr í kössum með loki. Voru þeir háir og mjóir, líkir venjulegu kofforti, og mátuleg klyf, er þeir voru fullir; þeir voru kallaðir selskrínur. Bóndinn heima eða einhver annar á bænum hafði það starf á hendi, að flytja heim úr selinu annan eða þriðja hvern dag, eftir því sem á stóð. Var skyrinu steypt í keröld heima og safnað til vetrar (söfnuðurinn).

Straumssel

Straumssel – Neðri-Straumsselshellar.

Smalamaður fylgdi ánum nótt og dag, eða þá að hann fylgdi þeim á daginn, en lét þær leika lausar á nóttunni. Stundum eða sumsstaðar var þeim og sleppt í bæði mál og þá smalað kvöld og morgna. Mikið var undir því komið, að smalinn væri góður. Alltaf átti smalinn að vera kominn með ærnar í sama mund í kvíabólið kvöld og morgna, og vandist hann furðanlega á það, þó að ekki hefði hann úr í vasanum. Oftast voru unglingar hafðir við smalamennsku, og var þeim oft ætlað miklu meora en þeim var treystamdi til, því að þeim er var ekki hlíft, þó að þeir væru bæði ungir og pasturlitlir. Illt áttu þeir oft í meira lagi, er þeir áttu að fylgja fénu nótt og dag og tíð var stirð, rigningar og slagviðri. Þá byggðu þeir sér hús; byrgi eða smalabyrgi, á þeim stöðum, er fénu var mest haldið til haga, og voru þeir þar inni, þegar illt var eða þeir máttu sofna. Ærið voru þessi byrgi smá og lítilfjörleg, en þó skárri en úti.

Straumssel

Smalaskjól við Efri-Straumsselhella.

Þegar komið var fram yfir fardaga, var farið að stía. Til þess var notaður stekkur, einhverskonar rétt, hæfilega stór fyrir ærnar. Í stekknum var kró, lambakró. Lömbin voru tínd úr stekknum og látin inn í króna. Það var gert seint á kvöldin, svo sem stundu fyrir lágnætti, og látið sitja svo um nóttina, þangað til um miðjan morgun daginn eftir. Þá var aftur farið í stekkinn og lömbunum hleypt saman við ærnar.
Eftir Jónsmessuna komu svo fráfærurnar. Þá voru ærnar reknar heim af stekknum og ekki hleypt til lambanna framar, heldur voru þær mjólkaðar fyrst í kvíunum og reknar síðan í haga og setið þar yfir þeim.
Heldur hefir vistin verið einmannaleg fyrir selmatseljuna, þótt mikið hefði hún að gera, enda komst hjátrúin þar að, sem eðlilegt var á þeim tímum. Mörg selmatseljan komst í tæri við huldumenn og urðu þungaðar við þeim; ólu þær svo börnin í seljunum, og veitti maðurinn þeim þar alla aðstoð, svo að einskis varð vart; tók hann svo barnið með sér og ól það upp í álfheimum.

Straumssel

Straumssel – Efri-Straumsselhellar.

En hann gat ekki gleymt ástmeynni úr selinu, og kom oftast einhvern tíma löngu síðar, þegar sonur þeirra var orðinn fullorðinn og selmatseljan gift kona fyrir löngu, og birtist henni til þess að endurnýja fornar ástir. En þeir samfundir verða báðum jafnan að bana. Eru margar þær harmasögur til. Stundum ólu þær börn í seljunum og báru út, og er því víða óhreint hjá gömlum seljum. Aftur er þess sjaldan getið, að útilegumenn hafi komist í tæri við selráðskonur.

Straumssel

Í helli vipð Efri-Straumsselhella.

Svo er að sjá, að selfarir hafi mjög verið farnar að leggjast niður, þegar kom fram á 18. öldina og eymd og ódugnaður landsmanna var kominn á hæsta stig. Gaf þá konungur út lagaboð 24. febr. 1754 að skipa öllum bændum að hafa í seli, að minnsta kosti átta vikna tíma, frá því er átta vikur væru af sumri til tvímánaðar. Lítið mun það lagaboð hafa á unnið, enda var þá landið í kaldakoli af harðindum, fé fallið og fólk að deyja úr harðrétti; og svo kom fjárkláðinn mikli rétt á eftir. Þó var mjög víða haft í seli langt fram á 19. öld, þar sem lítið var um sumarhaga heima, þangað til fólkseklan neyddi menn til að hætta við selfarir og jafnvel fráfærur á síðustu áratugunum.

Straumsselsstígur vestari

Vestari Straumsselsstígur.

Selfara er víða getið, bæði í fornsögum vorum og lögum; má af því ráða, að sá siður hefir flust hingað frá Noregi og orðið hér að fastri venju. Selvenjur hafa þá verið hina sömu og á síðari tímum, nema skyr stundum verið flutt heim í húðum, skyrkyllum eða kollum í krókum, sbr. Njálu.
Ísland hefir alla tíð verið gott sauðland, enda er þess víða getið í fornritum og sögnum, að menn hafi verið fjármargir mjög, enda gekk þá fé sjálfala í skógum, meðan þeir voru óhöggnir á landi hér. En auðvitað var hvorki hús né hey handa þessum fjárfjölda, enda hrundi það niður, þegar harðindin dundu yfir. Fram á 19. öld var það víða enn siður á Suðurlandi, að ekki voru hús yfir sauði, önnur en jötulausar fjárborgir”.

Fornaselsstígur

Fornaselsstígur.

Einkenni seljannna á Reykjanesskaganum.

Sel á Reykjanesi eru í sumu frábrugðin seljum annars staðar á landinu. Víða utan þess voru þau oft höfð upp til dala eða upp undir hlíðum fjarri bæjum. Flest seljanna á Reykjanesi eru u.þ.b. í einnar til tveggja klukkustunda göngufjarlægð frá bænum, sem þau voru frá. Það var talið til kosta að hafa fjarlægðina ekki of mikla eins og t.d. í Grindavíkurselin á Selsvöllum. Yfirleitt voru selin í útjaðri jarðanna eða í óskiptu landi þar sem annað hvort var sæmilegt vatnsstæði eða brunnur. Flest seljanna eru norðvestan til undir hæð eða brekku í skjóli fyrir ríkjandi rigningarátt, þ.e. suðaustanáttinni. Má í því sambandi nefna Oddafellselin, Hvassahraunsselið, Flekkuvíkurselið, Fornasel (Litlasel), Nýjasel, Brunnastaðasel, Gjásel og Arahnúkasel. Yfirleitt hafa selstóftirnar sömu einkenni og önnur sel á landinu, þ.e. samliggjandi baðstofu og búr, en eldhúsið sér.

Straumssel

Straumssel – gerði.

Í mörgum seljanna má sjá misgamlar tóftir, s.s. á Selsvöllum og í Hraunsseli vestan við Núpshlíðarhás. Hið síðarnefnda lagðist reyndar af síðast selja á Reykjanesi, eða árið 1914. Í lýsingu Þorvaldar Thorodsen um ferð hans um Suðurland árið 1883 virðist Hraunssel og Selsvallaselin þá þegar hafa verið aflögð . Þau gætu þó hafa verið endurreist síðar sbr. skrif Guðrúnar Ólafsdóttur um Grindavíkurselin.
Í Andvara, tímariti Hins ísl. þjóðvinafélags, 1884, er sagt frá ferðum á Suðurlandi sumarið 1883 eftir Þorvald Thoroddsen, bls. 48. Þar segir m.a.: “Komum við fyrst að Hraunsseli; það er nú í rústum… Selsvellir eru stórar grassléttur norður með hálsinum… Þar hefir áður verið sel frá Stað í Grindavík, en er nú af tekið; nú hafa menn þar nokkurs konar afrétt…”.

Straumssel

Hellir við Efri-Straumsselshella.

Geirs Bachmanns segir í Lýsingu Grindavíkursóknar 1840-41 bæi í Grindavík þá hafa selstöður á Selsvöllum. Í Lýsingu Árna Helgasonar á Garðaprestakalli 1842 kemur fram að Garðar hafi haft “pening í seli til 1832”. Önnur sel þar hafi verið aflögð fyrir meira en hálfri öld.
Í “Frásögur um Fornaldaleifar”, útg. af Stofnun Árna Magnússonar, 1983, eru birtar skýrslur presta o.fl. af íslenskum fornminjum til dönsku fornleifanefndarinnar á árunum 1817-1823 . Hvorki er minnst á sel í Gullbringu- og Kjósarsýslu né í Árnessýslu (Ölfusi) í skrifum til nefndarinnar. Bendir það til þess að selin hafi þá verið í “eðlilegri” notkun á þeim tíma, nýlega aflögð eða að þau sel, sem vitað var um, en lagst af, hafi ekki verið það gömul að þau hafi talist til fornminja. Hafi svo verið getur ein skýringin verið sú að búsetuminjar eða minjar tengdar atvinnuháttum hafi ekki verið taldar til fornleifa, enda var lítið skrifað um slíkt til nefndarinnar. Hafa ber í huga að sel geta hafa lagst af um tíma, en síðan verið endurreist um sinn.

Straumssel

Eystri-Straumsselsstígur (Fornaselsstígur).

En af framangreindum gögnum að dæma virðist selbúskapur á Reykjanesi að mestu hafa lagst af um og eftir miðja 19. öld; fyrr í Garðasókn en t.d. í Grindavíkursókn þar sem hann tíðkaðist enn um 1840, en selin verið í rústum árið 1883 þegar Þorvald Thoroddsen var þar á ferð. Ef taka á mið af núverandi tóftum selja á Reykjanesi eru þau líka að sjá heillegastar á Selsvöllum og í Þrengslum (Hraunssel). Einnig í Vífilsstaðaseli og Herdísarvíkurseli, Knarrarnesseli, Brunnastaðaseli og Straumsseli. Hins vegar eru seltóftir í Selvogsheiði og í Hafnaheiði greinilega mun eldri. Þá má sjá enn eldri tóftir innan um nýrri sel, s.s. Fornasel við Brunntorfur, Lónakotssel, Fornasel (Litlasel), Hlöðunessel, Baðsvallasel og Selöldusel.
Tóftir seljanna eru greinilega misgamlar. Ekki er vitað til þess að þær hafi verið aldursgreindar, en þó hefur Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur, grafið í Fornasel vestan við Brunntorfur og taldi hann af niðurstöðum kolefnamælinga að dæma að það sel væri frá 14. eða 15. öld.

Straumssel

Straumssel – stekkur.

Við þessi gömlu sel eru yfirleitt hlaðnir tvöfaldir stekkir og einfaldar kvíar. Vatnsstæðin eru í hraunskálum eða á klapparhólum. Nokkur dæmi eru um allnokkur sel þar sem frá varð að hverfa fyrr en ætlað var vegna vatnsskorts. Lækir eru fáir á landssvæðinu. Auk Selsvallalækjar er lækur í Króksmýri norðan Vigdísavallar, á Bleikingsvöllum suðaustan þeirra, í Sogunum sunnan Trölladyngju, Kaldá við Kaldársel og síðan Vestri- og Eystri-lækur í Krýsuvík. Sumstaðar er þó stutt í lítil vötn í gígum og skálum. Annars staðar var erfiðara um slíkt, s.s. í Lónakotsseli og í seljunum í Vatnsleysustrandarheiðinni. Aðstæður gætu þó hafa breyst frá því sem áður var. Þannig er t.d. sagt frá læk og jafnvel fossi fram af Stóru Aragjá ofan við hið sérstaka Gjásel. Það er sérstakt af því leyti að í því eru 7-8 samliggjandi raðhús í svo til beinni röð. Tveir stekkir eru við selið, en þeir gefa oft til kynna fjölda selja á hverjum stað. Þannig eru sel frá þremur bæjum í Brunnastaðaseli, fjögur í Knarrarnesseli, tvö í Flekkuvíkurseli.

Straumssel

Eitt opanna við Neðri-Straumselshella.

Selin á Selsvöllum hafa nokkra sérstöðu því þar munu hafa verið sel frá svo til öllum Grindavíkurbæjunum eftir að Baðsvallaselið norðan Þorbjarnarfells lagðist af vegna ofbeitar. Þar má sjá tóttir a.m.k. þriggja selja. Við mörg seljanna, einkum hraunsseljanna, eru fjárskjól með fyrirhleðslum, stundum fleiri en eitt, s.s. í Óttarstaðaseli og Straumsseli. Stundum eru skjólin nokkuð frá seljunum, s.s. fjárskjólið í Brunntorfum, en það hefur líklega upphaflega verið frá Fornaseli ofan við Gjásel.
Enn eitt einkenni selja á Reykjanesi er nálægð fjárborga og/eða fjárskjóla. Eftir skoðun á yfir 70 fjárborgum á svæðinu er að sjá sem sumar þeirra séu beinlínis byggðar með afstöðu seljanna í huga, s.s. Djúpudalaborgin í Selvogi. Hún er í nálægð við Nesselið austan við Hellisþúfu, auk þess sem efst í Hnúkunum hafa fundist tóftir, sem líklegast hafa verið fornt sel. Þær hafa ekki verið rannsakaðar og hafa reyndar hvorki verið skráðar né er þeirra getið í örnefnalýsingum. Við þær tóftir er hol hraunbóla, hraunsskúti, sem notaður hefur verið til skjóls eða annarra þarfa. Þannig háttar einnig til við Litlalandssel ofan við Ölfus.

Straumssel

Hleðslur í Efri-Straumsselshellum .

Hellar hafa víða og verið nýttir til skjóls, en selin norðaustan við Vörðufell ofan við Strandarhæð, sem greinilega eru mjög gömul, t.d. Eimuból (sel Selvogsmanna voru gjarnan nefnd ból, sbr. Þorkelsgerðisból og Bjarnastaðaból nestan undir Hnúkum). Í því er hlaðinn stekkur inni í víðri hraunrás. Skammt vestar eru tóftir og miklar niðurgönguhleðslur við stóran hraunhelli. Innst í hellissalnum er aðeins eitt bein, en annars er ekkert annað á sléttu gólfinu.
Merkilegur hellir, sem Guðmundur Brynjar Þorsteinsson frá Þorlákshöfn fann nýlega, hefur gengið undir nafninu “Bólið”. Alls óljóst er til hverra nota hann var eða ætlaður. Tóftirnar við hellinn eru heldur ekki til í örnefnalýsingum svo vitað sé. Sama á við tóft við gömlu Selvogsgötuna á milli Strandardals og Strandarhæðar. Þar er tóft og hlaðinn stekkur. Einnig suðaustan undir Svörtubjörgum. Þar er greinilegt sel með nokkrum rústum, löngum stekk, kví og fjárskjóli. Inni í því eru hleðslur.

Straumssel

Í Neðri-Straumselshellum.

Reyndar hefur Selvogsheiðin lítt verið könnuð með tilliti til hugsanlegra fornleifa. Þórarinn bóndi Snorrason á Vogsósum taldi að selið undir Svörtubjörgum hafi heitið Staðarsel og verið fráfærusel þar sem lömbin voru færð frá og aðskilin frá ánum. Hann mundi þá ekki eftir því fyrr en farið var að spyrja hann um rústirnar, sem sumar eru mjög vel greinilegar. Líklegra er að þarna sé annað hvort komið sel frá Strönd, “Strandarsel”, því bæði hefur það verið í landi kirkjujarðarinnar Strandar og auk þess hefur það verið allveglegt á meðan var, eða frá landnámsbænum Hlíð við Hlíðarvatn, sem er þarna nokkru vestar. Vestan við selið eru a.m.k. þrjár fjárborgir; Hlíðarborg, Valgarðsborg og  Borgarskarðsborg. Sunnan þeirra er Vogsósasel og vestan þess “Borgirnar þrjár”; þ.e. þrjár hlaðnar fjárborgir á hól skammt austan Hlíðarvatns. Við Eimuból má sjá tóftir Vindássels, en enn austar eru Þorkelsgerðisból og Bjarnastaðaból, hvorutveggja vegleg sel með mörgum tóftum. Þegar leitað var að síðastnefndu seljunum var farið eftir örnefnaskrám úr Ölfusi og ábendingum fróðra manna, s.s. Kristófers Bjarnasonar, kirkjuvarðar í Strandarkirkju, en samkæmt því átti Bjarnastaðasel að vera skammt frá klöppinni “Fótalaus”, þar sem klappað er LM (landamerki) Ness og Bjarnastaða. Selið er hins vegar mun ofar undir Hnúkabrekkunum og er Þorkelsgerðisból þar skammt (10 mín) vestsuðvestar.

Straumsgata

Straumsgatan.

Við Kaldársel eru nokkrir fjárhellar og hlaðinn bálkur í einum þeirra. Í Setbergsseli er fjárhellir með mikilli hleðslu og skiptir önnur honum í tvennt. Að sunnanverðu var Hamarskotssel um tíma. Við Brunnastaðasel er hlaðin kví í gróinni gjá og er hún ennþá nokkuð heilleg. Séstæðastar eru hleðslur niðri í stóra hraunbólu vestan Hellishæðar, sem fyrr voru nefndar. Við munnan er tótt og aðrar skammt austar. Þar eru og hleðslur fyrir hraunrásir. Skammt norðar er Strandarsel [Staðarsel] undir Svörtubjörgum, en að sögn Þórarins Snorrasonar á Vogsósum mun það hafa verið fráfærusel (en annars mun hafa verið fært frá heima við bæ áður en ærnar voru reknar í sel), enda má sjá þess merki á aflöngum stekk sunnan selsins.

Straumssel

Straumssel – Tilgáta ÓSÁ.

Stakkavíkursel er ofan við Grænubrekkur. Við það er opin hraunbóla, líkt og í Hnúkum. Neðan við selið má, ef vel er að gáð, sjá merki enn eldra sels og torfstekkjar. Við nýrra selið er dæmigerður stekkur og hleðslur í fjárskjóli skammt ofan hans. Garðar höfðu í seli í Selgjá og Búrfellsgjá. Heimildir kveða á um að þar hafi verið 11 sel um tíma. Þau munu þó hafa verið aflögð alllöngu áður en Garðar hættu að hafa í seli. Margar minjar eru beggja vegna Selgjárinnar, en færri í Búrfellsgjá. Þar eru og nokkur fjárskjól með veglegum hleðslum. Mestar eru þær í svonefndum Sauðahelli syðri, skammt suðvestan við Selgjána og við Suðurhelli, sunnarlega í gjánni.

Straumssel

Straumssel.

Á Garðaflötum er getið um tóftir og garðveggi í gömlum heimildum og einnig þar má sjá, ef vel er að gáð, tóftir og veggi, greinilega mjög gamalt. Reyndar átti þar að hafa verið bær til forna, skv. sömu heimildum, en líklegra er þó að um selstöðu hafi verið að ræða. Þær tóftir hafa ekki verið kannaðar af fagfólki.

Enn eitt einkenni seljanna eru hinir mörkuðu selsstígar. Víða má sjá þá klappaða í hart bergið eftir klaufir, hófa og fætur liðinna kynslóða. Dýpstar eru göturnar á stígunum vestan Selsvalla, enda hefur umgangur þar greinilega verið mikill um langan tíma. Straumsselsstígur er einnig vel markaður á kafla, en það er áður en hann greinist frá stíg að Gjáseli og Fornaseli, sem eru skammt norðan þess. Víða má rekja þessar götur enn þann dag í dag, en annars staðar eru þær orðnar grónar eða orðnar landeyðingu að bráð, s.s. efst í Vatnsleysstrandarheiðinni.
Þótt sum seljanna hafi ekki verið mjög stór, s.s. Fornasel (Litlasel) ofan Vatnsleysustrandar og Hraunssel undir Löngubrekkum austan Raufarhólshellis, eru tóftirnar bæði lögulegar og vel læsilegar. Í því er flest það sem prýtt getur hefðbundið sel.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðastekkur.

Nýjasel austan Snorrastaðatjarna sem og Snorrastaðasel vestan þeirra hafa og verið lítil sel af ummerkjum að dæma. Svo hefur einnig verið um Hópsselið norðan við Selsháls, Möngusel í Hafnaheiðinni og Stafnessel austan Ósabotna. Kirkjuvogssel í Hafnaheiði hefur hins vegar verið mun stærra, líkt og Vogaselin efst í Vatnsleysustrandarheiði, fast undir Þráinsskyldi.
Merkinesselin í Hafnaheiði voru tvö, hið nýrra og hið eldra, líkt og Vogaselin. Erfitt er að finna eldra selið, en það er mjög gróið, en sandauðn allt um kring. Nýrra selið er mun austar og fallega hlaðið undir gjávegg. Eitt húsanna er enn allheillegt sem og önnur mannvirki. Dæmi eru um að gömul sel hafi orðið framkvæmdum að bráð, s.s. Hraunsholtsselið undir Hádegishól í Garðahrauni, sem nú er í iðnaðarhverfi Garðbæinga á Hraunum.

Einir

Einir við Straumssel.

Í Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalín koma frásagnir af selstöðum sumra bæja á Reykjanesi, en alls ekki allra. Sjá má selja getið í sóknarlýsingum, en þó virðist eins og almennt hafi ekki verið ástæða til að geta þeirra sérstaklega í eldri lýsingum af lands- og búskaparháttum. Reyndar er búskaparháttum yfirleitt lítið lýst í slíkum heimildum eða máldögum. Ein ástæðan gæti verið sú að þeir hafi þótt það sjálfsagðir og á allra vitorði að ekki hafi verið talin ástæða til að geta þeirra sérstaklega. Einungis væri vert að geta þess sem þótti merkilegt sögulega þá er þær voru skrifaðar.

Straumssel

Straumsselið.

Heimildir og sagnir eru af mjög gömlum seljum, en flestar eru þær frá síðari öldum. Vitað er yfirleitt frá hvaða bæjum hvert sel tilheyrði og höfðu sumir saman í seli, s.s. í Knarrarnessi og Brunnastaðaseli, að ekki sé talað um Selsvellina. Margar gamlar beitarhúsatóftir eru og á Reykjanesi, s.s. í Húshöfða norðan Hvaleyrarvatns (Jófríðastaðir), við Ásfjallsrana (Ás) og vestan við Hlíðarvatn (Stakkavík), en ekki er vitað til þess að þau hafi orðið að seljum eða verið notuð sem sel eins og víða annars staðar á landinu. Sel voru frá Hvaleyri og Ási austan við Hvaleyrarvatn og sel frá Stakkavík ofan við Stakkavíkurfjall.

Almenningur

Í Almenningi ofan Straums.

Dæmi eru um sögur úr seljunum, s.s. frá Hvaleyrarseli þar sem nykur átti, skömmu fyrir aldarmótin 1900, að hafa ráðist á og drepið selráðskonuna í fjarveru smalans . Nykurinn átti að fara á milli Hvaleyrarvatns og Urriðavatns (önnur saga segir Lambústjarnar), en frosið þar í hel frostaveturinn mikla árið 1918. A.m.k. sást ekki til hans eftir það. Í Rauðhólsseli undir Rauðhól skammt norðan við Keili var fólki ekki vært eftir tíundu viku sumars vegna draugagangs, en það sel var frá Vatnsleysu .
Tveggja selja er getið í Öskjuhlíð; Reykjavíkurselsins og Hlíðarhúsaselsins og nokkurra undir Selsfjalli við Lækjarbotna. Þar má enn sjá tóftir þessara selja nálægt skátaskálanum, en þær eru þó orðnar ógreinilegar.

Flugmynd

Straumssel – flugmynd.

Víða um land urðu sel að kotbýlum þegar fram liðu stundir. Á Reykjanesi eru líklega einungis þrjú dæmi um að sel hafi orðið að koti, þ.e. í Straumsseli, á Vigdísarvöllum og í Kaldárseli. Bærinn í Straumsseli brann fyrir aldarmótin 1900 og lagðist þá búseta þar niður, en bærinn á Vigdísarvöllum féll að mestu í jarðskjálfta skömmu eftir aldramótin 1900. Þar voru reyndar um tíma tveir bæir. Annar þeirra nefndist Bali og má vel sjá tóftir hans á vestanverðu túninu. Vigdísarvellir var í fyrstu sel frá Krýsuvík, en bæir þar höfðu auk þess í seli undir Selöldu, sbr. sagnir af ræningjunum er komu upp Ræningjastíg og veittust að selráðskonum þar . Um tíma hafi Krýsuvík aðstöðu í Sogaseli, sem síðan fór undir Kálfatjörn. Auk þess er ekki loku fyrir það skotið að einhver Krýsuvíkurbæjanna hafi um tíma nytjað Húshólmann, en inn í hann er greiður og gróinn stígur og ummerki eftir selstöðu norðvestast í hólmanum. Í Kaldárseli var sel framan af og er síðast getið um búsetu Þorsteins Þorsteinssonar þar um aldarmótin 1900, en síðan nýtti Kristmundur Þorleifsson sér fjárskjólin þar um skamman tíma.

Straumssel

Varða við Eystr-Straumsselsstíg.

Oftast bera selin nöfn þeirra bæja, sem gerðu þau út. Flekkuvíkursel var frá Flekkuvík, Hvassahraunssel var frá Hvassahrauni, Óttarstaðasel frá Óttarstöðum o.s.frv. Þó eru dæmi um að selin hafi dregið nöfn sín af staðháttum, s.s. Sogasel í Sogagíg, Selsvallasel af Selsvöllum og Gvendarsel undir Gvendarselshæð af Krýsuvíkur-Gvendi o.s.frv. Hin þrjú svonefndu Fornusel eru væntanlega nefnd svo vegna þess að ekki var ráðið í hvaðan þau höfðu verið gerð út. Þó er líklegt að Fornasel sunnan við Brunntorfur hafi verið frá Þorbjarnastöðum í Hraunum sem og Gjáselið þar skammt norðvestar. Einnig er getið þar um sel frá Lambhaga. Þorbjarnastaðafjárborgin er skammt frá seljunum. Fornasel eða Fornusel (þau eru tvö) undir Sýrholti er hins vegar á huldu, enda virðist vera mjög komin við aldur. Svo virðist sem Þórusel hafi verið þar um tíma, en frásögn af því er óljós. Flestra seljanna er getið í gömlum heimildum og örnefnalýsingum. Nokkur þeirra, a.m.k. þeirra stærstu, má sjá á gömlu kortum, s.s. dönsku herforingjakortunum svonefndu, en annað það er gefur vísbendingu um að sel hafi verið að ræða á tilteknum stöðum eru nafngiftir tengdar þeim, s.s. Selháls, Selshæð, Selsvallafjall, Selsvellir, Selsfjall, Seljahlíð, Selalda, Selstígur og Selshóll.

Straumssel

Varða við Eystri-Straumsselsstíg.

Hlaðin smalabyrgi eru við eða í nágrenni við sum selin eða nátthaga þeim tengdum. Má þar nefna byrgi við Efri-Straumsselshellana, neðan við Stakkavíkursel og við Óttarstaðasel.
Lítið hefur verið fjallað um sel og selbúskap hér á landi þrátt fyrir að hann hafi skipað veigamikinn þátt í atvinnusögu og þjóðlífinu í langan tíma. Egon Hitzler, þýskur fræðmaður, skrifaði bókina “Sel – Untersuchungen zur geschichte des isländschen sennwesens seit der landnahmzeit”, sem gefin var út í Noregi árið 1979. Hann hafði dvalið hér á landi sem styrkþegi við Háskóla Íslands veturinn 1968/69 og notaði það efni í magesterritgerð sína við háskólann í Erlangen-Nürnberg árið 1972. Árin 1974-77 starfaði hann sem sendikennari við Háskóla Íslands og notaði þá tíma til þess að endurskoða, endurbæta og auka við ritgerð sína. Árangurinn liggur fyrir í nefndri bók hans. Bókin, sem er efnismikil um viðfangsefnið, er skipt upp í 8 kafla: Í fyrsta kafla fjallar höfundur m.a. um alþjóðlegar rannsóknir á seljabúskap, heiti og hugtök og fyrri rannsóknir. Í öðrum kafla er fjallað um selin, selhúsin, sel í hellum, seljaþyrpingar, kvíar, sel á eyðibýlum og breyting selja í býli. Í þriðja kafla um skipulag seljabúskaparins, seltímann, selfólkið, búsmalann, selfarir og selgötur, selflutninga og eldivið og vatnsból.

Straumssel

Rétt við Eystri-Straumsselsstíg – Tobburétt austari.

Í fjórða kafla fjallar höfundur um seljabúskap á Íslandi á miðöldum, eðli og þýðing miðaldaheimilda, heimildir frá þjóðveldisöld og heimildir frá 14. og fram á 16. öld.
Fimmti kafli fjallar um seljabúskap á Íslandi fram á byrjun 18. aldar, selstöður í Húnavatns-, Skagafjarðar- og Eyjafjarðarsýslum, útbreiðslu, tegundir og aldur selja og leigusel.
Í sjötta kafla er lýst núverandi aðstæðum í Sauðadal (Hv) og nýtingu hans til seljabúskapar fyrr á tímum, staðhættir og helstu menjar um nýtingu, skiptingu landsins og tilkall til selstaða, heimidlir frá miðöldum og jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem og tegundir selstaða og tímabundnar sveiflur í seljabúskapnum.
Í sjöunda kafla er fjallað um upphaf, þróun og hvarf seljabúskapr á Íslandi, upphaf seljabúskapar á landnámsöld og einkenni hans á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, seljabúskap og eignaraðild á síðmiðöldum, sveiflur og hnignun seljabúskapar á Íslandi, niðurlagningu seljabúskapar á Íslandi og tilraunir til þess að endurvekja hann og glæða nýju lífi.
Í áttunda og síðasta kaflanum er yfirlit og útsýn, umræður um hugtök, íslenski seljabúskapurinn sem sögulegt fyrirbæri og íslenski seljabúskapurinn og nútíminn.
Loks er viðauki um seljabúskapinn á íslandi um aldamótin 1900 og dagleg störf, íslenskt/þýskt orðasafn um seljabúskap og loks einstakar athugasemdir”.

Heildarfjöldi selja árið 1703.

Straumssel

Fyrirhlesðlur í Efri-Straumsselshellum.

Á vefsíðunni má sjá heildaryfirlit yfir sel, sem skráð hafa verið eða hafa fundist á Reykjanesi. Hægt er að ganga að tóftum þeirra allra, utan þriggja, sem horfin eru (Reykjavíkursel í Ánanaustum, Hraunsholtssel við Flatahraun og Kalmannstjarnarsel undir Stömpum). Þá eru tilgreind selaðstaða á a.m.k. þremur stöðum, sem ekki hefur verið skráð hingað til (við Selöldu, í Húshólma og við Hraunsnes vestan við Lónakot).
Yfirlitið segir til um 139 sel á 102 stöðum. Ef það er borið saman við Jarðabók Páls Vídalíns og Árna Magnússonar frá árinu 1703 kemur í ljós að getið er 63 bæja, sem höfðu selstöðu í Gullbringusýslu, auk þriggja bæja í Ölfusi, sem eru vestan við línu þá sem dregin var, þ.e. Hlíðarenda, Litlalands og Breiðabólstaðar. Ekki er getið selja frá Hrauni og Þorlákshöfn. Innan við 66 sel hafa því verið í notkun á um aldramótin 1700 á þessu svæði, en ekki er getið um önnur jafnmörg.

Hraunin

Gengið um Hraunin.

Margt bendir til að mörg sel hafi verið aflögð þegar upplýsingum var safnað, s.s. Fornusel í Sýrholti. Þá er líklegt að selstaða hafi verið færð til eftir landkostum eða af hagkvæmisástæðum og eldri selin þá yfirgefin. Einhver seljanna gætu hafa verið í notkun um stuttan tíma, en síðan verið aflögð og einnig gætu bændur hafa tekið sig saman um selstöðu, þ.e. að fé (og jafnvel kýr) frá fleiri en einum bæ hafi verið haft í sama selinu. Í heimildum um sel á Reykjanesi virðist lítið hafa verið um kýr í seljum. Ef þær hafa verið þar er þess jafnan getið sérstaklega, s.s. á Selsvöllum og við Snorrastaðatjarnir.
Landfræðilega aðstæður á Nesinu hafa ekki beinlínis þótt heppilegar til kúabeitar. Hins vegar eru nokkur örnefni og mannvirki ekki fjarri bæjum er benda til þess að kúm hefur verið beitt þar um tíma, s.s. Kúadalur við Grindavík og Kúadalur ofan við Brunnastaðahverfið á Vatnsleysuströnd. Þar er hlaðin rétt.

Straumssel

Hreiður við Straumssel.

Í Jarðabókinni er ekki alltaf getið um staðsetningu seljanna, en reynt að lýsa kostum þeirra. Þannig segir frá selstöðu frá Hrauni (Grindavík): “Selstaða langt í frá og þó sæmilega góð”. Þórkötlustaðir eru sagðir brúka selstöðu í Krýsuvíkurlandi [Vigdísarvöllum]. Hóp þurfti að kaupa út selstöðu. Á á “selstöðu í heimalandi”. Ummerki eru eftir hana í Dalnum norðan við Hamranes, en þar má sjá hrunið fjárskjól með hlöðnum inngangi og grasi gríð dalverpi. Hlíðar Dalsins eru grasi grónar og seljalegar á að líta. Krýsuvík er sögð hafa tvær selstöður; “aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar”. Þannig virðist Krýsuvík bæði hafa haft selstöðu á Vigdísarvöllum og líklega austan við Selöldu (eða í Húshólma). Ísólfsskáli á ekki að hafa haft selstöðu, en nafnið Selskál í Fagradalsfjalli bendir til einhverra selnota þar.

Straumssel

Í Straumsseli.

Hóp er sagt hafa þurft að kaupa út selstöðu, en tóftir nýrra sels frá Hópi er norðvestan undir Selshálsi vestan Hagafell. “Gálmatjörn” (Kalmannstjörn) er sögð hafa átt selstöðu, en “nú að mestu eyðilögð fyrir sandi”. Á Stafnesi er ekki minnst á selstöðu, en þó er vitað að bærinn hafði selstöðu skammt ofan við Djúpavog við Ósa. Vindás er sagt eiga “selstöðu í heiðinni”. Stakkavík “á jörðin yfrið erfiða, svo varla er hestum fært á fjöll upp, þarf og vatn til að flytja, nema votviðri gángi því meiri, og er hún fyrir þessara ókosta sakir í margt ár ekki brúkuð”.
Yfirleitt er þess getið að selstaða sé annað hvort vatnslaus eða “stórt mein af vatnsskorti”. Í Jarðabókinni er þess jafnan getið hvort selstaðan hafi haft aðgang að vatni, það slæmt eða alls ekkert. Er að sjá sem vatnið hafi verið ein af forsendunum fyrir vali á góðu selstæði.

Straumssel

Straumssel.

Niðurlag.
Ekki verður sagt með fullkominni vissu hvenær selbúskapur hófst hér á landi, en líklegt má þó telja að hann hafi fylgt fyrstu norrænu ábúendunum hingað til lands í kringum árið 870, en slíkur fjár- og kúabúskapur mun hafa verið vel þekktur í Noregi og á Suðureyjum á þeim tíma. Þó svo að sum mannvirkin, einkum fjárborgirnar, hafi fyrirmynd af írskum eða jafnvel skoskum hringlaga mannvirkjum, sbr. fjárborgina í Óbrennishólma í Ögmundarhrauni, er erfitt um sannanir í þeim efnum. Aðalatriðið er þó að selbúskapur var hluti af atvinnusögu landsins frá öndverðu og fram að aldarmótunum 1900, en um það leyti lögðust slíkir búskaparhættir af á Reykjanesi. Selbúskapurinn er því hluti af þjóðlífi og atvinnusögu landsins í u.þ.b. eittþúsund ár.

Straumssel

Straumssel.

Ástæða er til að varðveita og halda á lofti þessum þætti búskaparháttanna þar sem allt snérist um að halda lífi í sauðkindinni svo sauðkindin gæti haldið lífi í landsmönnum. Hinar fjölmörgu minjar og selsmannvirki á Reykjanesi bera þess glöggt vitni.
Guðrún Sveinbjarnardóttir ritaði grein í Acta Archaeologica 62 árið 1991, sérhefti um rannsóknir á Norður Atlantshafssvæðinu. Þar fjallar hún um einstök sel í Eyjafjallasveit, Skagafirði og Berufirði í tengslum við önnur verkefni. Hún kemst að þeirri niðurstöðu að sel á Íslandi hafi sérkenni sem eru ekki endilega þau sömu og sel frá heimalandi landnámsmanna, Noregi. Meginmunurinn er sennilega vegna ólíks landslags sem kröfðust ólíks skipulags. Af athugun hennar sé ljóst að meiri rannsóknar er þörf á seljum á Íslandi, bæði fornleifafræðilega og fornfræðilegra.
Sjá Myndir.

Heimildir m.a.:
-Örnefnastofnun.
-Gísli Sigurðsson.

Straumssel

Straumsselsvarða.

Straumur

Í bókinni „Á förnum vegi – rætt við samferðafólk“ eftir Loft Guðmundsson er rætt við „Einbúann að Óttarstöðum“ – Guðmund bónda Ingvarsson.

Óttarstaðir

Guðmundur Ingvarsson á Óttarstöðum efri.

„Við ökum fyrir Straumsvíkina út á Vatnsleysuströnd, lognværan sólskinsdag seint í júní. Sjór er ládauður úti fyrir, varla að sjáist kvika við fjörugrjótið og ekkert lífsmark við víkina. Undarlegt til þess að hugsa að þar eigi á næstunni að rísa nýtísku stóriðjuver og voldug hafnarmannvirki. En svo hefur manni verið fortalið, og ekki farið dult með það.
Þó virðist það jafnvel öllu ótrúlegra, þegar manni verður litið út eftir ströndinni, að ekki skuli vera mannsaldur síðan þar var blómlegt athafnalíf og annríki mikið til sjós og lands – hörkuútræði, enda skammt á fengsæl mið, og arðvænlegur sauðfjárbúskapur, því að fé gekk að kalla sjálfala í hrauninu, jafnvel í snjóa- og frostavetrum. Þess sér að vísu merki enn, að þarna hefur verið þéttbýlt, því það er ekki lengra en það síðan þetta var, að bæjarhús standa enn, en yfirleitt auð; þó mun enn einhverskonar búskaður á nokkrum af hinum gömlu stórbýlum. Og kynlegt er það, að sjá hvergi mann við störf úti við á virkum degi; aftur á móti má líta gljáandi lúxusbíla sumstaðar á bæjarhlaði eyðibýlanna, og er örðugt að ímynda sér erindi þeirra í þessa kyrrlífsmynd sofandi túngarða og lágreistra íbúðarhúsa, sem móka undir ryðbrunnu bárujárni og dreymir liðna tíð.

Óttarsstaðir

Óttarstaðir efri.

Veginn þrýtur og við taka þröngir troðningar inn á milli túngarðanna, svo við yfirgefum jeppann og höldum fótgangandi þann spöl, sem eftir er heim til Guðmundar bónda Ingvarssonar að Óttarstöðum efri.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestri – útsýni úr baðstofuglugga.

Ekki höfum við lengi gengið, þegar okkur býður í grun að ekki muni þessi sólbjarta og lognværa kyrrlífsmynd öll þar sem hún sýnist, og um leið förum við að skilja, hvernig þar muni standa á lúxusbílunum. Nýtískuleg tjöldin fyrir litlum og rúðusmáum gluggum á gömlu bæjunum gefa til kynna nýtt landnám innan hárra, mosagróinna grjótgarðanna, er skipta túnskákunum. Við reynum eftir bestu getu að horfa beint fram troðninganna og gjalda þannig líku líkt af riddarlegri hæversku þeim íturvöxnu kvenfulltrúum þeirrar nýju landnámskynslóðar, sem liggja í sólbaði í mjúku grasinu í skjóli túngarðanna og látast ekki vera varir ferða okkar. Og ósjálfrátt hvarflar það að okkur, að einbúanum á Óttarstöðum efri kunni að vera það nokkurt happ að vera kominn yfir á níunda aldurstuginn, annars yrði honum ef til vill tafsamara við túnsláttinn og eiga slíka nágranna. Að minnsta kosti er ekki ólíklegt að einhverntíma hefði það vafist fyrir vermönnunum, sem hlóðu alla þessa grjótgarða í landlegum, að velja þar steini stað, ef þeir hefðu mátt líta það í sýn, sem nú freistar augna okkar í skjóli handverka þeirra.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestari.

En hvað um það; okkur tekst að þræða götuslóðana heim á hlað á Óttarstöðum efri án þess að sú augnafreisting verði okkur að falli. Guðmundur bóndi stendur fyrir dyrum ásamt tveim dóttursonum sínum ungum, og fagnar okkur vel. Ekki ber hann þá utan á sér, þessa rúmlega átta áratugi, og áreiðanlega ekki hið innra með sér heldur, þá mundi ekki eins létt yfir honum og raun ber vitni. Hann er meðalmaður á hæð, tággranur, hreyfingarnar svo mjúkar og stæltar, að margur fertugur skrifstofumaðurinn mættu sannarlega öfunda hann af. Græskulaust kímnisbrosið er honum eiginlegt og glettnisglampinn í daökkgráum augunum, sem eru snör og vökul undir loðnum, hærugráum brúnum.

Óttarsstaðir vestari

Óttarsstaðir efri (vestari).

Fyrir framan bæjarhúsin er allstór kálgarður, vel hirtur og sér hvergi í mold fyrir hávöxnu kartöflugrasi, en í einu horninu er skák vaxin leggdigrum og safamiklum rabbabara. Túnið er allstórt, eftir því sem þarna gerist, og vel sprottið; sléttir harðvellisbalar og víðast hvar grunnt á hraungrjótinu. Guðmundur kveðst nota gamla lagið við þetta; stinga garðinn upp með skóflu og slá túnið með orfi og ljá, – jú það held ég, segir hann og hlær við.
-Hvað er túnið stórt?

Ég fæ venjulega af því hundrað og tuttugu hesta.
-Og slærð það einn?
-Já, það held ég nú. En nú eru drengirnir farnir að hjálpa mér við uppvinnuna og snúninga, en tengdasonur minn ekur töðunni á jeppa heim í hlöðu. Dætur mínar eru hérna viðloðandi á sumrin, önnur hér heima en hin í húsi hérna viðloðandi neðan. Jú, ég hef slegið þetta tún einn í meira en fjörutíu ár.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir.

-Ertu ekki farinn að finna til þreytu eða gigtar?
-Nei, blessaður vertu. Ég kann ráð við því. Fæ mér göngu, hleyp út í hraun að eltast við rollurnar, eða gríp í orfið. Hreyfingin – hún er óbrigðul. Og Guðmundur hlær við enn.
-Hefurðu verið svona heilsuhraustur alla ævi?
-Það held ég. Fékk einhverntíma mislinga, sennilega krakki því mig rekur ekki minni til þess. Síðan ekki söguna meir, ekki legið rúmfastur einn dag. Fékk ekki svo mikið sem snert af spænsku veikinni, þegar hún gekk hérna, og kom þó víða daglega hér í kring.
-Og þú hefur alltaf verið lífsglaður og léttur í skapi?

Óttarsstaðir vestari

Óttarsstaðir efri.

-Já, maður lifandi. Ekki dugar annað, enda ekki ástæða til annars; ekki finnst mér það. Og svo er maður alltaf eitthvað að dudda.
-Þú býrð einn hér í húsum allan veturinn, eftir að dæturnar eru farnar til síns heima?
-Já, mér verður nú ekki mikið fyrir því. Leiðis aldrei. Ég huga að kindunum, elda í mig matinn, soðningu og kartöflur og mjólkurgraut; saltkjöt endum og eins, en annars er ég orðinn ónýtari við kjötið síðustu árin. Og svo drekk ég kaffi og þykir það gott; les bækur og blöð, því að nóg er næðið – en á sumrin má það heita undantekninh, að líta í blað. Og aldrei hef ég verið myrkfælinn um ævina, og aldrei heldur orðið veitt var við þessháttar, hvorki hér né annars staðar, ekki nokkurn hræranlegan hlut…
-Ertu kannski borinn og barnfæddur hérna á Vatnsleysuströndinni, Guðmundur?

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestri fyrrum.

-Nei, nei. Hingað kom ég fyrst tæplega þrítugur, sem vertíðarmaður til Bjarna ríka á Stóru-Vatnsleysu, Stefánssonar og reri hjá honum sex vertíðir. Giftist svo skömmu eftir að ég fór að vera hérna, konu af Vatnsleysuströndinni. Fyrsta árið bjuggum við í tómthúsi að Stóru-Vatnsleysu, en svo keypti ég hálfa Óttarsstaðina og hef verið hér síðan. Keypti jörðina á hálft sjötta þúsund krónur með þeim bæjarhúsum, sem enn standa og þú getur séð, en öll útihús hef ég byggt upp. Nú er konan áttatíu og fjögurra ára og hefur legið í sjúkrahúsi í Hafnarfirði og elliheimilinu þar í full tíu ár. En ég held mig hérna…

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir efri og neðri.

-Eru nokkur sérstök hlunnindi hérna – æðarvarp eða hrognkelsaveiði?
-Hér hefur aldrei verið æðarvarp, að því er ég best veit; ein og ein kolla, sem gerir sér hreiður úti í hrauninu, þar sem enginn fer um. Selur hefur aldrei veiðst hér heldur og sést hér sjaldan neitt að ráði. Fjörubeit hefur alltaf verið góð, en aldrei hefur borið neitt á skjögri, að minnsta kosti ekki á meðan gamla féð var hérna. Og hérna er mikil hrognkelsaveiði á vorin, en nú er hún þorrin, sést hvorki rauðmagi né grásleppa frekar en annar fiskur.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðavör.

Áður gekk þorskurinn hér inn fyrir hólma; við fengum oft stærðaraula í hronkelsanetin. Og einu sinni var ég einn á kænu úti á víkinni og dró sextíu á handfæri á svipstundu að kalla. Hann tók beran öngulinn og var svo óður, að ég hafði ekki við að draga hann. Eftir að ég hætti að róa á áttæringnum hjá Bjarna á Stóru-Vatnsleysu, reri ég margar vertíðir á fjögurra mann afari hérna úr vörinni með bóndanum á Óttarstöðun neðri, og við fiskuðum ágætlega. Ég fékk ellefu hundruð krónur, bara fyrir bolinn, inni í Hafnarfirði eftir eina vertíðina, og þar var drjúgur skildingur þá. Það var þegar þeir Booklesbræður voru með togaraútgerðina í Hafnarfirði. Þeir vildu kaupa Straumsvíkina, gera þar höfn, og vitanlega ætluðu þeir að gera út togara þaðan. Buðu í hana 500.000 krónur, sem þá þótti gífurlegt fé, en eigendunum, Bjarna, sem síðar varð skólastjóri á Laugarvatni, og þórði lækni Edilonssyni, fannst það of lágt boðið og vildu ekki selja. Að minnsta kosti var sagt, að það hefði verið þess vegna…

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – staðfastur girðingarstaur.

-Þú hefur komist í sæmileg efni hér á Óttarstöðum, eftir því sem um var að gera, þegar þú varst og hést?
-Já, það væri vanþakklæti að segja annað.
-Vildirðu vera kominn á manndómsaldurinn aftur, Guðmundur? Um borð í áttæringinn hjá Bjarna á Stóru-Vatnsleysu?
-Ég hefði ekkert á móti því. Og ætli ég kynni ekki áralagið.
-Hvenær á ævinni heldurðu að þér hafi liðið best?
Guðmundur á Óttarstöðum tekur tappann ú bauknum og fær sér í nefið.
-Það veit ég hreint ekki, svarar hann og hlær glaðlega. Mér hefur alltaf liðið vel…“.

Heimild:
-„Á förnum vegi – rætt við samferðafólk“ eftir Loftur Guðmundsson, Ægisútgáfan, Reykjavík 1966. Einbúinn að Óttarstöðum – Guðmundur bóndi Ingvarsson sóttur heim, bls. 113-122.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – örnefni (ÓSÁ).

Litli-Lambhagi

Nokkrir sumarbústaðir voru byggðir í Hraunum við Straumsvík nokkru fyrir miðja 20. öldina. Meðal þeirra sem heilluðust af þessu sérstæða og að margra mati fallega landsvæði voru þrír félagar, bræðurnir Marinó og Kristinn Guðmundssynir sem voru báðir málarameistarar og Björn Jóhannesson doktor í jarðvegsfræði sem hafði mikinn áhuga á hegðun laxfiska. Þeir voru afar heillaðir af Lónakoti og tjörnunum sem þar eru en þar gátu þeir ekki fengið land á leigu eða til kaups. Gengu þeir þá eftir strandlengjunni frá Lónakoti og inn fyrir Straumsvík til Hafnarfjarðar og þaðan út á Álftanes í leit að ákjósanlegum stað til að reisa sumarkofa eins og þeir kölluðu það.

Straumur

Straumur.

Eftir að hafa grandskoðað strandlengjuna voru þeir sammála um að innsti hlutinn við norðaustanverða Straumsvík væri ákjósanlegasti staðurinn. Þar hafði staðið kotbýlið Litli-Lambhagi á tanga sem heitir Stróki og skammt frá honum voru Hólmarnir og Straumsvatnagarðar. Þar voru aflögð útihús og merkilega vel hlaðið eldhús úr hraungrjóti frá því seint á 19. öld. Eftir nokkra eftirgrennslan  fengu þremenningarnir leyfi til að reisa lítið íveruhús innarlega á Stróka.

Bjarni Bjarnason

Bjarni Bjarnason.

Bjarni Bjarnason skólastjóri Héraðsskólans á Laugarvatni átti þetta land allt, en hann eignaðist jarðirnar Straum og Þorbjarnarstaði ásamt Litla- og Stóra-Lambhaga árið 1919. Rak hann um árabil ágætis bú í Straumi og nytjaði allar jarðirnar til heyskapar og beitar. Bjarni lét byggja Straumshúsið sem enn stendur árið 1927 úr steinsteypu eftir að gamli bærinn brann. Sá sem teiknaði húsið var Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins, en húsið ber svipmót burstabæjar, en Guðjón hafði áhuga á að skapa nýja íslenska byggingarhefð með skírskotun til fyrri tíma.

Þegar Bjarni ákvað að selja jarðir sínar við Straumsvík rétt eftir seinni heimsstyrjöldina keypti Björn landspilduna umhverfis sumarkofa þeirra félaga, með landamerkjum nokkru austan Stróka. Höfðu þeir stækkað húsið það mikið að hægt var með sanni að tala um sumarhús enda dvöldu þeir oft ásamt vinum og ættingjum á þessum slóðum sumarlangt og lengur ef aðstæður leyfðu.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambhaga.

Ástæðan fyrir staðarvalinu var sú að við Stróka fannst þeim ríkja fágæt náttúrufegurð. Spilaði þar inn í  hversu merkilegt náttúrufarið er við hina lygnu og friðsælu Straumsvík þar sem ferskt vatn rennur framundan hrauninu og veldur því að sjórinn er afar tær á þessum slóðum. Grashólmar og sker innst í Straumsvík skipta stöðugt um svipmót þar sem sjórinn á það til að hylja landið á flóði og svo birtist það aftur þegar fellur út og fjarar. Fallaskiptin og mismunandi sjávarstaða eftir því hvernig stendur á flóði og fjöru hafa veruleg áhrif á umhverfi Stróka og valda síbreytilegu náttúruspili. Þarna var líka fjölskrúðugt fuglalíf, stundum sáust selir á sundi eða þeir sóluðu sig á skerjum rétt hjá Stróka alveg óhræddir. Sólarlagið var líka töfrandi og myndaði Snæfellsjökul og Snæfellsfjallgarðurinn handan Faxaflóans einskonar ramma sem sólin settist á bak við. Litbrigði náttúrunnar breyttust árið um kring og stundum var hafið ólgandi og skolaði þara og fiski upp á hólmana en á öðrum tímum var þetta kyrrðarinnar staður þar sem tíminn stóð nánast í stað. Refur átti það til að sjást á vappi í fjörunni og minkar gerðu sér greni framarlega á tanganum þar sem fiskur lónaði stutt frá landi.

Straumsvík

Straumsvík 1965.  Á myndinni sjást m.a. Litli- og Stóri-Lambhagi sem og tjarnirnar.

Landspildan var tekin eignarnámi þegar undirbúningur að álverinu hófst um miðjan sjöunda áratuginn en þá höfðu Björn og félagar stundað tilraunir með laxeldi í Straumsvík um nokkurt skeið. Þessar tilraunir grundvölluðust á einstæðum vatnsbúskap svæðisins.

Lambhagi

Lambhagi – stífla v/fiskeldis.

Stuttu eftir að félagarnir byggðu sumarhúsið fóru þeir að mæla og efnagreina ferskt grunnvatnið sem fellur út í Straumsvík undan hrauninu við botn víkurinnar. Reiknuðu þeir út að talsverður hluti Kaldár, sem hverfur ofan í hraunið rúmlega kílómetra neðan upptaka sinna, félli til sjávar rétt vestan við Stróka. Allavega töldu þeir sig geta greint það á fjöru að allstraumhörð ferskvatnskvísl félli í þröngum stokki með fram nyrsta hluta tangans. Þeir mældu hitastig grunnvatnsins sem streymdi undan hrauninu margsinnis og reyndist það vera nákvæmlega 4 gráður á Celsíus árið um kring. Stóðu mælingarnar árum saman og alltaf voru niðurstöðurnar þær sömu. Björn var sannfærður um að vatnið hefði hagstæða efnaeiginleika fyrir laxaklak og sökkti hann vírkörfum í lón við hraunjaðarinn til að sannreyna þetta. Niðurstaðan var sú að laxaklakið skilað góðum árangri en ekki var alveg ljóst hvernig nýta mætti aðstöðuna við Straumsvík til laxaframleiðslu.

Straumsvík

Mannvirki í tjörnunum við Lambhaga.

Þeir prófuðu sig áfram og fljótlega gerðu þeir tilraunapoll í litlu lóni sunnanvert við Stróka nálægt Keflavíkurveginum sem hlaut nafnið Pollurinn. Hann var dýpkaður með jarðýtu en þannig háttaði til að lónið tæmdist ekki þó að fjaraði út vegna þess hversu mikill vatnsstraumurinn var undan hraunjaðrinum. Steyptu þeir félagar einskonar hlið eða dyraumbúnað við mynni Pollsins þar sem hægt var að koma fyrir gildru. Laxar gátu þar með gengið í Pollinn en áttu þaðan ekki undankomu nema þeim væri hreinlega sleppt lausum í sjóinn. Pollurinn var hreinn og moldarlaus til að byrja með, en þegar vegur var lagður að álverinu rétt við hliðina á Pollinum barst talsvert magn af fokefnum í hann. Þar með varð botninn þakinn þykku leðjulagi sem hefði þurft að moka í burtu eða reyna að skola út með útfallinu. Þetta var hins vegar ekki gert þannig að aðstæður í Pollinum breyttust með tíð og tíma.

Straumsvík

Straumsvík 2020.

Félagarnir eyddu mikilli vinnu, tíma og fjármunum í að flytja bleiklax frá Alaska til Íslands 1965 til 1966. Árangurinn varð neikvæður að öðru leyti en því að flutningur á 120.000 aughrognum frá Kódakeyju til Íslands tókst vel. Samvinna við Veiðimálastofnun tókst ekki um framkvæmd þessarar tilraunar, en vorið 1966 sýndu þeir fram á að laxaseiði silfrast við 4 gráðu hita á 6 vikum. Þegar Marinó og Kristinn féllu frá hélt Björn áfram að nýta aðstöðuna á Stróka og stunda þarna tilraunir sínar.

Straumsvík

Straumsvík – Loftmynd af svæðinu.

Sumarið 1980 var sjógönguseiðum sleppt úr Pollinum eftir 56 daga dvöl í körfu og sneri ein 4,5 punda hrygna aftur í Pollinn sumarið eftir. Gerð var hafbeitartilraun í Pollinum 1981 til 1982 og kom í ljós að eftir 84 daga svelti sjógönguseiða í körfu lifðu næstum því öll sumarið 1982. Sumarið áður var sjógönguseiðum haldið í körfu í Pollinum með sáralítilli fóðrun í 56 daga áður en þeim var sleppt til sjávar. Aðeins eitt af þessum seiðum rataði aftur heim í Pollinn árið eftir. Þá var búið að koma fyrir nokkrum laxaseiðum í körfu í Pollinum, en norðmaðurinn Nordeng varpaði þeirri tilgátu fram að lax gangi ekki í vatn nema þar séu fyrir laxaseiði eða lax. Taldi Björn að hrygnan sem skilaði sér í Pollinn um sumarið hefði sennilega ekki gert það ef þar hefðu ekki verið fyrir laxaseiði.

Lambhagi

Lambhagi um 1970.

Laxeldisfyrirtækið Pólarlax var um árabil með aðstöðu Hafnarfjaðrarmegin við álverið og notaði meðal annars hvalalaug Sædýrasafnsins í eldisstarfinu. Sumarið 1981, sem var sama sumar og hrygnan skilaði sér í Pollinn, sleppti Pólarlax þó nokkrum stórum laxaseiðum úr kví sem var í Straumsvík. Sumarið eftir komu miklar laxagöngur inn í Straumsvík og stökk laxinn í víkinni svo að ekki fór á milli mála að þarna var eitthvað um að vera. Kom það fyrir þegar mest gekk á að hálfgert umferðaröngþveiti skapaðist á Reykjanesbrautinni því vegfarendur snarhemluðu og hlupu út úr bílum sínum til að fylgjast með þessari óvenjulegu sjón. Laxinn var að koma heim eftir vetrardvöl í hafinu og þetta sjónarspil var alveg einstakt.

Straumsvík

Straumsvík.

Vonir manna um að laxinn gengi upp í ferskvatnslónin í Straumsvík gengu ekki eftir þar til Björn lagði til að komið yrði fyrir körfu með laxaseiðum í Pollinum. Þetta virkaði eins og segull og 5. ágúst 1982 höfðu 170 laxar gengið í Pollinn. Endurheimtur sjógönguseiðanna sem sleppt var 1981 og komu sem sjógengnir laxar sumarið eftir voru um 20% til 30% en stórar torfur gengu í ystu lónin í lok veiðitímans án þess að hægt væri að handsama þær. Heimtur reyndust ekki eins vel og reiknað var með en menn voru sannfærðir um að þær gætu gengið betur þar sem laxinn skilaði sér aftur á heimaslóðir þó hann gengi ekki allur inn Pollinn. Niðurstaðan var því sú að heimtur gætu vaxið með árunum ef réttum aðferðum væri beitt. Prófað var að sleppa seiðum næstu árin úr kvíunum utan við hvalalaugina en heimtur voru ekkert sérstakar.

Litli-Lambhagi

Eldhús og tóftir við Litla-Lambhaga.

Næsta skipti sem sjógönguseiðum var slepp úr kvíum í Straumsvík var sumarið 1985. Sami háttur var hafður og fyrr. Seiðum komið fyrir í körfu í Pollinum sumarið 1986 sem hafði þau áhrif að laxar gengu í Pollinn og tilraunin sannaði sig í raun og veru. Eftir þetta gerðist ýmislegt sem varð til þess að fiskeldisfyrirtækið Pólarlax var tekið til gjaldþrotaskipta 20. janúar 1989 og lauk skiptunum 20. desember 1991 án þess að nokkuð hefði fengist greitt af lýstum kröfum. Þar með var botninn farinn úr þessum merku tilraunum með laxfiska í Straumsvík.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Sumarhúsið á innanverðum Stróka grotnaði smám saman niður þar til það var ekki talið forsvaranlegt að láta það standa og var það rifið og efniviðurinn fjarlægður. Nú er ekkert annað eftir en steinsteyptar gólfplötur og gamla eldhúsið sem hlaðið var fyrir rúmlega einni öld. Þetta hús er nákvæmlega eins í lögun og að allri gerð og samsvarandi hús við Óttarsstaði eystri og vestri, bara örlítið minna umfangs. Löngu var búið að breyta steinhlaðna húsinu í svefnhýsi með tilheyrandi veggklæðningum úr viði og innanstokksmunum. Húsið stendur nú opið fyrir veðrum, vindum og spellvirkjum og bíður þess sem koma skal, en það væri gustukaverk að halda því við og sjá til þess að síðasta heillega steinhlaðna húsið í Hraunum fengi að standa áfram um ókomna tíð.

Sjá meira HÉR.

Heimild:
http://www.hraunavinir.net/fiskeldi-og-sumardvolvidstraumsvik/#more-950

Lambhagi

Lambhagar fyrrum. Stóri-Lambhagi framar

Lambhagi

Eftirfarandi viðtal við Magnús Guðjónsson birtist í Vísi fimmtudaginn 19. júní 1969 undir yfirskriftinni „Bóndinn í STRAUMSVÍK„:

Straumsvík

Myndin fylgdi viðtalinu (tekin 1969). Álverið í baksýn.

„Hin mikilfenglegu mannvirki, sem rísa upp norðan Straumsvíkur, vekja athygli þeirra vegfarenda, sem ekki eru þar daglega á ferð. En sjálfsagt verður það með þau eins og margt annað, að vaninn slævir eftirtektina og hin því nær kílómetralanga verksmiðjubygging hættir að vekja sérstæð viðbrögð augans.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambhaga.

Hraunið, sem nú hefur verið brotið niður, bjó yfir dulrænni fegurð í litbrigðum ljóss og skugga. Á því var aldrei hinn óumbreytanlegi kuldasvipur steinmúranna. Lifandi mosafeldur brosti við skapara sínum eins og önnur jarðarinnar börn.

Árið 1891 bjuggu í Stóra-Lambhaga í Hraunum, Guðjón Gíslason og Kristbjörg Steingrímsdóttir. Þann 21. september það ár fæddist sonur þeirra Magnús. Þá var fjölbýlt í Hraunahverfinu, enda fólkið margt, búskapur nokkur og áraskipaútgerð. Guðjón var útvegsbóndi, hélt út og stjórnaði sjálfur sex rónu skipi, varð honum gott til manna, því hann var ötull sjósóknari og aflasæll.
Þótt oft væri snöggslægt Lambhagatúnið eftir langvarandi þurrka, tókst honum oftast að hafa tvær kýr og rúmlega eitt hundrað sauðfjár. En sum ár varð hann að sækja nokkurn heyskap inn á Álftanes.

Óttarsstaðir

Hraunin – herforingjaráðskort.

Á þessum tíma voru eftirtalin býli og hjáleigukot í Garðahreppi sunnan Hvaleyrar: Stóri-lambhagi, Litli-Lambhagi, Gerði, Þorbjarnarstaðir, Péturskot, Straumur, Þýzkabúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Eyðikot, Óttarsstaðir og Lónakot. Það var ysti bær í Garðahreppi hinum forna.
Eins og fyrr er sagt, var mikil sjósókn frá þessum bæjum með an enn þá var öld áraskipanna. Oftast var stutt róið. Aðalmiðin voru Lóndjúpið Brúnin eða vestur á Svið. Til bar það, að farið var út í Garðssjó væri ördeyða á innmiðum, en þangað var að eins farið á velbúnum skipum að forviði, veiðarfærum og mannafla.

Straumur

Straumur 1935.

Venjulega var aflavon þangað til togararnir fóru að skafa botninn með fram ströndinni, þá skipti sköpum. Ýmsir útvegsbændur voru brúnaþungir þegar þeir sáu aðfarirnar. Fullir pokar voru dregnir upp. Koli og lúða var hirt en öðrum fiski var hent og flaut hann dauður um allan sjó. Þetta varð til þess að sumir fóru að sækja í togara. Aðrir voru svo stórir af sjálfum sér að þeir höfðu ekki skap til en sátu í landi með sárt ennið, og bölvuðu ástandinu án þess að fá nokkuð að gert.

Á vertíðinni var oft margt að komumanna, sem reru á útvegi heimabænda. Lending var fremur góð umhverfis Straumsvíkina bæði í Stóra-Lambhaga og þó sérstaklega við Straum eða í Straumsós en inn á hann varð aðeins komist á flóði og þarna er mikill munur flóðs og fjöru.

Litli-Lambhagi

Eldhús við Litla-Lambhaga. Straumur fjær.

Á þessari öld, þegar ýmiss konar skoðanakannanir virðast vera mjög ofarlega á dagskrá, er það ekki óalgengt, að þeir sem fræðast vilja taki upp símann, velji númer og spyrji um álit manna, sem þeir aldrei áður hafa átt nein samskipti við.
Vel má vera að með svona hátta lagi þyki sumum sér nóg boðið, jafnvel þótt orðnir séu aldurhnignir og hafi á langri leið ýmsu kynnst og mörgu vanist.
— Hringdu bara, — segir Hrafnkell sölustjóri, og svo hringi ég.

Bifreiðin undir stjórn Magnúsar Guðjónssonar rennur mjúklega suður Hafnarfjarðarveginn. Hann er kunnugur þessari leið gamli maðurinn, því frá árinu 1916, að hann tók bifreiðastjórapróf hjá Agli Vilhjálmssyni, hefur hann oft setið undir stýri og lengst af milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.

Straumsvík

Straumsvík 1965. Á myndinni sjást m.a. Litli- og Stóri-Lambhagi sem og tjarnirnar.

Hann vildi gjarnan láta fólkinu í sín um heimabæ góða þjónustu í té og auðvelda því ferð til höfuðstaðarins. Árið 1922 fékk hann Kristján vagnasmið til þess að byggja fyrir sig farþegahús á vörubíl. Það rúmaði 13 manns. Þá varð Steindór Einarsson reiður og sagði að með þessu væri Magnús að stofna til harðvítugrar samkeppni við sína dýru og fullkomnu fólksbíla, en hann hafði þá keypt eina tuttugu slíka. En Magnús lét sig ekki og hélt sínu striki, sagði aðeins: „Stærri bifreiðar til fólksflutninga er það sem koma skal“, og sú varð raunin á. Það sá Steindór síðar.
Og nú byrjar fræðslan.
– Sjáðu, hérna, þar sem við ökum með fram höfninni í Hafnarfirði var áður sjór. Þetta er nýtt land gjört af mönnum. Þar sem vegurinn liggur framan undir hamrinum var áður hyldýpi. Í Ásbúðum bjó Andrés Jónsson. Ásbúðir, það er litli bærinn með fánalitunum þarna undir brekkunni Andrés safnaði fornminjum. Ég starfaði að þessu með honum af og til í fimmtíu ár, ók út um sveitir og sótti muni. Nú er sérstök deild í Þjóðminjasafninu, sem varðveitir þessar minjar, — Ásbúðasafnið. —

Hafnarfjörður

Ásbúð og nágrenni.

— Hér er Óseyrin, þar var áður býli og oftast vel búið. Einu sinni átti þar heima ísak í Fífuhvammi. Einar Þorgilsson útgerðarmaður þurrkaði fisk á grandanum framan við eyrina. Þarna syðst er svo Hvaleyrin. Sú jörð átti landamerki móti Stóra-Lambhaga. Í Óseyrar og Hvaleyrartjörnum var fyrrum mikil rauðsprettuveiði. Já, ég man vel aðra mynd af Hafnarfirði en þá sem nú er sýnileg þeim sem um veginn fara.
Nú erum við komnir móts við hið mikla mannvirki — Álbræðsluna — sem reist hefur verið á landi Stóra-Lambhaga.
— Hér er orðið breytt síðan ég var að smala hraunin og ára skipum var hrundið á flot og ráðið til hlunns í Straumsvíkur og Lambhagavörum.

Straumsvík

Straumsvík – Loftmynd af svæðinu.

Fyrstu sjóferðina fór ég 9 ára gamall. Ekki mun þá hafa verið til mikillar liðveislu ætlast, enda var pilturinn lítt til stórræða, því sjóveikin þjakaði mig mjög og var svo jafnan, enda þótt ekki þýddi að láta slíkt á sig fá. Uppeldissystur minni, Margréti Magnúsdóttur, var öðruvísi farið. Hún var bæði kjarkmikil og sjósterk, enda reri hún sem dugandi karlmaður væri og þótti engu síður hlutgeng. Ekki sjaldan kom það fyrir, að hún fór á sjóinn þegar verra var veður og ég kaus heldur að hirða fé föður míns.

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi – túnakort 1919.

Einu minjarnar um hina fornu byggð í Stóra-Lambhaga er vörin, sem lent var í og þetta gamla fjárhús við sjóinn. Í Straumi bjó lengi Guðmundur Símonarson. Hann hafði stórt bú. Þó sérstaklega sonur hans, Guðmundur Tjörfi, hann hafði mikinn fénað. Hjá honum var „Stjáni blái“ oft á veturna áður en vertíð hófst. Stjáni ólst upp hjá séra Þórarni í Görðum, kom þangað 7 ára gamall frá Klöpp í Reykjavík. Séra Þórarinn keypti áraskip handa honum og Óla Garða. Stjáni var mikill sjómaður, ég þekkti hann vel.
Þegar hann fór sína síðustu för var ég á bryggjunni í Hafnarfirði. Stjáni var örlítið ör og þegar ég hafði orð á því að honum lægi ekkert, á út eftir, leit hann til mín þeim augum, sem gáfu greinilega til kynna, að það væri hann en ekki ég, er réði þár ferðinni.

Stóri-Lambhagi

Stóri-Lambhagi – túnakort 1919.

Mun ég sennilega hafa verið einn þeirra síðustu, sem rétti honum höndina til kveðju.
Svo „strengdi Stjáni klóna“, settist við stjórn og tók stefnu fyrir Keilisnes. Hann var þá búsettur í Keflavík. Hið snjalla kvæði, sem Örn Arnarson kvað, mun gefa nokkuð sanna hugmynd um þessa síöustu siglingu og einnig um manninn sjálfan, Meðan Stjáni var formaður fyrir séra Þórarin í Görðum reri hann venjulega úr Garðavör og sótti oftast út á Svið.

— Í Straumi bjó síðar Bjarni Bjarnason, sem lengi var skólastjóri héraðsskólans á Laugarvatni. Hann var þá kennari í Hafnarfirði.

Straumur

Straumur.

Nú eru því nær öll hraunabýlin í eyði fallin. Að vísu hefur verið rekið svínabú í Straumi, en heyrt hef ég á orði haft, að þeim rekstri mundi senn lokið. Á Óttarsstöðum eru heimilisföst roskin hjón. Húsbóndinn stundar smíðar og auk þess hafa þau nokkur hænsni.
Öll þau ár, sem ég var heima í Stóra-Lambhaga, voru í Eyðikoti þrjú systkini – bræðurnir Sveinn og Guðmundur og systirin Steinunn Bergsteinsbörn. Sveinn var sjómaður en Guðmundur var sjálfmenntaður járnsmiður. Hann smíðaði mikið af skónálum og brennimörkum.

Lambhagi

Lambhagi.

Smiðjuhurðin bar glögg merki þeirrar iðju. Eins og ég drap á áðan, þá höfðu bændur hér í hverfinu talsverðan búpening. Enda þótt heyfengur væri venjulega rýr, þá kom þar f móti, að sauðfé var mjög létt á fóðrum. Marga vetur kom það aldrei í hús, nema lömbin fyrsta veturinn. Þegar verri voru veður lá féð í hellisskútum hér og þar í hrauninu. Ef tað safnaðist í þá voru þeir þrifnir og stungið út úr þeim, mátti segja að hér væri um að ræða nokkurs konar fjárhús. Þrátt fyrir það, að hraunið virðist gróðurvana yfir að sjá, þá þreifst féð vel bæði vetur og sumar, en hirðingin var erilsöm, sérstaklega á vorin, því víða eru jarðföll og holur, sem hættuleg eru nýfæddum lömbum og þungfærum ám. Yfir þessu þurfti að hafa vakandi auga.

Lambhagi

Lambhagi – stífla v/fiskeldis.

Það féll oft í minn hlut að sinna þessu starfi meðan ég var drengur heima í Lambhaga, þá kunni ég því vel. Þó hér sé ekki stórbrotið til lands að líta er víðáttan fögur og heillandi, sérstaklega á vorin, og hraunið býr yfir meiri og fjölbreyttari náttúruöflum en ætla mætti þegar menn líta yfir það sem hraðfara vegfarendur. Það er margur fagur reitur falinn í skjóli hraunborganna.

Þeir voru engir smákarlar sumir bændurnir hérna á ströndinni í gamla daga. Guðmundur á Auðnum, Guðmundur í Landakoti, Guðmundur i Flekkuvík og Sæmundur á Vatnsleysu. Þeim Guðmundi á Auðnum og Sæmundi þótti nú sopinn góður og komið gat fyrir að kaupstaðarferðin til Reykjavíkur tæki þá upp undir hálfan mánuð. Þá var komið við á bæjunum, þeginn og Veittur beini, sem orsakað gat næturdvöl. En þetta voru dugnaðarmenn, aflasælir og sjálfum sér nógir.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambahaga við Straumsvík.

Og hef svo sem fengist við ýmislegt fleira en aksturinn, enda þótt ég telji hann hafa verið mitt aðalstarf um ævina. Í tíu ár fékkst ég við útgerð og átti um sjö ára skeið elsta skipið í íslenska veiðiflotanum, m.b. Njál, 38 lestir að stærð. Nokkuð kom ég einnig við verslunarsöguna bæði sem sjálfstæður aðili og nú síðustu átta árin verið innheimtumaður hjá firmanu Nathan & Ólsen.
— Jú, ég kvæntist árið 1913. Konan mín hét Herdís Níelsdóttir, ættuð úr Hafnarfirði. Við bjuggum saman í 33 ár, þá lézt hún. Við vorum barnlaus og nú er ég einn míns liðs.
— Okkur liggur ekkert á, ég er minn eigin herra í dag.
— Aka, jú, ég sé vel til að aka þótt ég sé senn 79 ára gamall. Enn þá les ég gleraugnalaust.

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi.

Ég hef aldrei ekið hratt, ó nei, og komist leiðar minnar þrátt fyrir það.
Sérðu hvernig þeir hafa brotið niður hraunið. Á gömlum fjárgötum fortíðarinnar, hrófum áraskipanna, harðbalatúnum og húsatóftum fornra mannabyggða hafa þeir reist þetta verksmiðjuhús.
— Hvort munu þeir, sem þar ráða ríkjum svara betur kalli sinnar samtíðar en hinir, sem áður lifðu þar lífi íslenskra útvegsbænda?“ – Þ.M.

Sjá meira HÉR.

Heimild:
-Vísir – Bóndinn í Straumsvík; Magnús Guðjónsson, fimmtudagur 19. júní 1969, bls. 9-10.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambahaga við Straumsvík.

Lambhagi

Eftirfarandi grein eftir Gísla Sigurðsson um Hraunabæina, „Suður í Hraunum„, birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 1978:

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir í Hraunum – tilgáta.

„Hraunamennirnir gapa hvorki né góna lengur, því þeir eru engir til utan einn maður. Skilyrði til nútíma búskapar eru þar naumast fyrir hendi, en unaðslegt er að ganga þar um í góðu veðri.
Suður í Hraunum er mikill unaðsreitur, sem fáir vita þó um. Þar eru djúpir grasbollar og háir hraunhólar.
Komin er sólin Keili á og kotið Lóna, Hraunamennirnir gapa og góna, Garðhverfinga sjá þeir róna. Þær byggðir, sem við taka á Reykjanesskaga sunnan Hafnarfjarðar, voru fyrr meir kallaðar einu nafni „suður með sjó“. Færi einhver að ná sér í skreið eða annað sjómeti „suður með sjó“ þurfti ekki að skýra þaö nánar. Þessar byggðir voru ekki búsældarlegar; sjórinn var gjöfulli en landið. Fátæktin var einatt förunautur þeirra, sem bjuggu á kotunum suður með sjó, hvort heldur það var allar götur vestur í Leiru, í Höfnum, á Vatnsleysuströnd eða suður í Hraunum.
Straumur-800Nú er byggðin í Hraunum nánast að engu orðin. Eftir standa fáein hús, sem sumpart eru auð og mannlaus og sumpart hefur verið breytt í sumarbústaði. Enda þótt þessi gamla byggð sé í næsta nágrenni við þéttbýli Reykjavíkursvæðisins, munu þó næsta fáir, sem vita um tilvist hennar eða þangað hafa komið. Þeim sem óljósar hugmyndir hafa um Hraunin, skal bent á, að sú byggð hefst þegar komiö er framhjá Álverinu í Straumsvík á leið til Keflavíkur. Sveigt er út á malarveg hjá Straumi, sem dregur trúlega nafn sitt af fallegum lindum með bergvatnsstraumi, og líður undan hrauninu og myndar fallegar tjarnir á leið sinni út í víkina.
Leiðin liggur um hlaðið í Straumi, þar sem stendur þrístafna timburhús í herragarðsstíl og er þó í eyði. Þetta glæsilega íbúðarhús byggði Bjarni Bjarnason, sem síðar varð landskunnur maður sem skólastjóri á Laugarvatni.
Ottarsstadir eystri-800Hann var þá kennari og skólastjóri í Hafnarfirði, en hafði fjárbú og ráðsmann í Straumi og var þá kominn í kynni viö Jónas frá Hriflu. Þaðan og frá Guðjóni Samúelssyni komu áhrifin, sem leiddu til burstabæjarins í Straumi og síðar var þessi stíll endurtekinn í byggingu héraðsskólans á Laugarvatni. Húsið í Straumi var byggt 1927.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambhaga.

Þegar ekið er inn á bílastæði álversins, verða tóftir þar sem hallar niður í fjöruna og standa vel uppi. Þar stóð bærinn Stóri-Lambhagi og á hraunhrygg, sem skagar út í Straumsvíkina, stóð Litli Lambhagi. Báðir þessir bæir fóru í eyði fyrir löngu. Annað bæjarstæði, sem ekki sést af veginum, er á vinstri hönd, þegar farið er suðurúr. Þar hétu Þorbjarnarstaðir og standa þar uppi túngarður og traðir ásamt með rústum af bænum. Þar var hætt búskap um 1930. Þurrabúð eða hjáleiga frá Þorbjarnarstöðum var nær veginum, þar sem nú stendur sumarbústaður undir fallegri brekku. Þar hét í Gerði.
Sé farið um hlaðið í Straumi, liggur malarvegur áfram til norðurs og vesturs yfir hraunhryggi og gjótur, sem því miður hafa of oft orðið athvarf fyrir bílhræ og er til mikilla lýta.

Þýskabúð

Þýskabúð.

Út með víkinni stendur Þýzkabúð ennþá uppi og utar í hvarfi stóð Jónsbúð. Þýzkabúð fór í eyði fyrir 1950 og telur Gísli fræðimaður Sigurðsson í Hafnarfirði, aö nafnið sé dregið af því, að Þjóðverjar hafi verzlað þarna fyrir margt löngu.
Á graskraga, sem verður á hraunjaðrinum vestur með ströndinni, hefur verið einna búsældarlegast í Hraunum og raunar er þar eini grasbletturinn, sem máli skiptir. Þar stóðu bæirnir Eystri og Vestari Óttarsstaðir og bærinn á Vestari Óttarsstöðum stendur enn meö þeim glæsibrag, að ástæða væri til að varðveita hann.
ottarsstadir vestri-800Heiðurinn af því eiga systur, sem þar ólust upp og eignuðust síðan jörðina og búa þar á sumrum. Þar er ævintýri líkast aö koma; svo vel er allt varðveitt og bærinn snýr hvítmáluðum bárujárnsþiljum til suðurs.
Á Eystri Óttarsstööum stendur timburhús, sem ekki er haldið við, en Guðmundur bátasmiður, sem þar er upprunninn, hefur byggt sér íbúðarhús lítið eitt austar og skýli yfir bátasmíðina. Þar stendur uppi
í fjörunni flak af timburskipi, sem hefur orðið málurum yrkisefni og fallegt á sinn hátt, enda þótt það hafi lokið hlutverki sínu. Guðmundur bátasmiður hafði á orði við okkur Helga Sæmundsson að dregist hefði úr hömlu að bera eld að því, en við báðum hann lengstra orða að þyrma flakinu.
Hus GudmundarStundum er mönnum svo mikið í mun að eyða því, sem ónýtt er talið, að þeir gá ekki að því að það geti haft neitt annað gildi. Í nánd við Hafnarfjörð stóðu ekki alls fyrir löngu nokkur falleg flök af timburskipum, sem ævinlega voru augnayndi. Mikið kapp var lagt á að fjarlægja þau með krafti stórvirkra véla og heföi verið nær að beina orkunni gegn mengun frá fiskimjölsverksmiðjunni ellegar smekkleysi Olíufélagsins, sem blasir við meira en flest annað í Hafnarfirði.
Á bæjunum í Hraunum var nálega einvörðungu stundaður fjárbúskapur og stílað uppá beit. Þar er snjólétt, en heyfengur hefur líka verið næsta lítill. Útræði var úr Óttarsstaðavör og Straumsvík.
Sumarbústaðir hafa risið þarna í lautum, en ekki ber mikið á þeim og þurrabúðin Eyðikot frá Óttarsstöðum hefur verið byggð upp og er nú glæsilegur sumarbústaður.
Gudmundur batasmidurVestan við Óttarsstaði þrýtur
graslendi og verður úfið hraun, sem runnið hefur fram í sjó. Er þar spölkorn, sem aldrei hefur byggzt, unz kemur að Lónakoti. Þar stendur íbúðarhúsið uppi að nokkru leyti, en ekki hefur verið búið þar síðan Lónakot fór í eyði eftir 1950. Síðasti bóndi þar var Sæmundur Þórðarson frá Vogsósum en nú á Kornelíus kaupmaður Lónakotið og hefur þar kindur. Beit þótti góð í Lónakoti, en túnið var aðeins örlítill bleðill og lá sífellt undir skemmtum af ágangi sjávar. Ekki voru skilyrði til lendingar viö Lónakot og því ekkert útræöi þaðan. En við Óttarsstaðavör hafa þeir staðið gallvaskir og skinnklæddir við sólarupprás og horft á Garðhverfinga róna eins og segir í vísunni.“

Lambhagi

Litli-Lambhagi; eldhúsið.

Gísli skrifaði einnig eftirfarandi grein um Hraunabæina í Lesbók Morgunblaðsins árið 2000:
NÚTÍMINN fór að mestu leyti hjá garði í Hraununum, en hann sést tilsýndar þaðan. Álverið gnæfir yfir í næsta nágrenni og skammt fyrir sunnan, á Keflavíkurveginum, æðir umferðin viðstöðulaust fram og til baka. Ef til vill er það þversagnarkennt, en nú er hægt að njóta þessa umhverfis einmitt vegna þess að nútímanum þóknaðist að koma ekki við í þessari horfnu byggð. Annars væri búið að setja jarðýtur á alla þessa grjótgarða sem falla svo vel að landinu; það væri búið að moka hólunum ofaní lautirnar, mylja hraunið til að ýta upp vegum og síðan væru athafnaskáldin búin að byggja eitthvað flott úr steinsteypu. En fyrir einhverja guðslukku fóru framfarirnar þarna hjá garði. Og Hraunamennirnir höfðu ekki bolmagn til þess að bylta umhverfinu. Það mesta sem vélaöldin hefur skilið eftir sig eru nokkur bílhræ.
Eydikot-800Svo að segja beint suður af Straumsvík, snertuspöl handan við Keflavíkurveginn, eru rústir bæjarins á Þorbjarnarstöðum. Ekki ber mikið á þeim; grasbeðjan miskunnar sig yfir þessi fátæklegu mannanna verk. Um búskap og mannlíf á Þorbjarnarstöðum er næsta lítið að finna í rituðum heimildum, en búsetu þar lauk eftir 1930. Svo er að sjá af tóftunum að þarna hafi alla tíð verið torfbær. Í kring er talsvert graslendi sem verið hefur tún. Hlaðnir túngarðar standa enn uppi, svo og Þorbjarnarstaðarétt. Einn af morgum fallegum blettum í landi Þorbjarnarstaða, sem nú er í eigu Hafnarfjarðar, er við tjarnirnar sem verða inn af Straumsvík. Þar eru silfurtærar upppsprettur undan hraumnu, vatnsból sem  ekki hefur brugðist.
Þyzkabud-800Steinsteypuöldin náði ekki til Hraunabæjanna svo teljandi væri; þó á að heita svo að standi uppi íbúðarhúsið Þýzkubúð. Hvort þessi hjáleiga frá Straumi hefur einhverntíma verið nefnd Þýzkabúð er ekki vitað.
En samkvæmt talshætti í Hraununum heitir húsið Þýzkubúð og er nafnið rakið til þess að Straumsvík var verzlunarstaður frá árinu 1400 og fram yfir 1600, en þá vöndu þýzkir og enskir kaupmenn komur sínar til landsins.

 

Straumur

Hróf ofan Straumsvarar.

Þá voru verzlunarbúðir þýzkra höndlara settar upp við varir út með Straumsvíkinni og þótt aldir hafi liðið eru nöfnin enn við lýði: Þýzkubúð og Þýzkubúðarvarir syðri og nyrðri. Nú stendur íbúðarhúsið í Þýzkubúð eitt til minningar um verzlunarstaðinn og hjáleiguna sem síðan reis þar. Húsið er af sér gengið, opið fyrir veðrum og vindi, hryggðarmynd. Samt var þetta steinsteypt hús, en hvenær það reis virðist enginn vita með vissu; það var snemma á öldinni. Síðar var byggt við það einhverskonar bíslag sem hangir uppi. Á barnsaldri átti Eiríkur Smith listmálari heima um tíma í Þýzkubúð.
ottarsstadir eystri-801Lítið eitt utar með víkinni og örskammt frá sjávarkambinum og Jónsbúðartjörn var þurrabúðin eða hjáleigan Jónsbúð á örlitlum túnbletti. Grjótgarður í kring, hraunhólar og grasigrónir bollar.
Jónsbúðarvör er beint niður af bænum og skaga Skötuklettar út í Straumsvíkina sunnan við víkina. Tvær samliggjandi tóftir sýna hvernig bærinn hefur verið, en Umhverfis- og útivistarfélag Hafnarfjarðar lét kanna Jónsbúð með prufuholugreftri og Fornleifafræðistofan hefur staðið að samantekt þar sem sjá má niðurstöður Bjarna F. Einarssonar fornleifafræðings. Líklega var ekki eftir neinu stórkostlegu að slægjast, enda fátt markvert sem kom í ljós. Þó voru rústir bæjanns nær óspilltar; ekkert jarðrask hafði átt sér stað þar.

Ástæða er til þess að vekja athygli á þessum stað vegna þess að að minjar af þessu tagi eru hvergi sýnilegar lengur á höfuðborgarsvæðinu.

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Staðurinn geymir allar þær minjar sem við má búast að sjáist eftir þurrabúð eða hjáleigu; þar á meðal bæjarhús, túngarð, skepnuhús, vör, vörslugarð, hjall, sólþurrkunarreit og vatnsból. Tvær prufuholur sem grafnar voru í gólf bæjarhúsanna leiddu í ljós brennd og óbrennd bein fiska, fugla og spendýra. Kindakjöt, fiskur og fugl hefur venð á borðum í Jónsbúð og svartfugl gæti hafa verið veiddur til matar. Þrátt fyrir túna- og slægjuleysi hefur einhvern veginn verið aflað heyja handa einni kú. Önnur tóftin leiðir í ljós að þar hefur verið hálfþil og bæjardyr, en jafnframt fjós, og sást það á flórnum. Úr fjósinu hefur síðan verið gengið lítið eitt upp í baðstofuna, enda var sú skipan vel þekkt og hugsuð til að nýta hitann frá þlessuðum skepnunum.
Á baðstofunni hefur verið hálfþil og gluggi. ottarsstadir eystri-803Það er þurrabúðargerð hin yngri, sem svo er nefnd, en eldn gerðin var alveg án þilja, glugga og bursta; þesskonar bæir urðu nánast eins og hverjir aðrir grasi grónir hólar í landslaginu. Ekki er vitað um upphaf Jónsbúðar en búið var þar á 19. öldinni og eitthvað fram á þá 20. Tvö steinhlaðin mannvirki vekja athygli þegar ekið er eftir vegarspottanum vestur frá Straumi. Annarsvegar er mannhæðarhá tóft úr tilhöggnu og steinlímdu grjóti. Hún heitir Gíslatóft og var í henni útieldhús frá Óttarsstöðum eystri. Vestar er Eyðikot, sem nú er sumarbústaður í burstabæjarstíl og með fagurlega hlöðnum veggum úr hraungrjóti og veruleg prýði er að grjótgarði framan við húsin.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri – eldhús.

Þarna stóð áður hjáleiga með sama nafni; einnig nefnd Óttarsstaðagerði. Umhverfi Óttarsstaðabæjanna er búsældarlegt á móti því sem menn hafa þurft að búa við á öðrum Hraunabæjum. Þarna eru grasgefin og ræktarleg tún sem hestamenn virðast nýta til beitar.
Í Jarðabókinni frá því skömmu eftir 1700 er einungis nefnd ein jörð sem heitir Óttarstaðir, en að auki þrjár hjáleigur; Eyðikotið var eitt af þeim. Jarðardýrleikinn er óviss, segir Jarðabókin og jafn óvisst er hvort átt sé við báðar Óttarsstaðajarðirnar, en kóngurinn á slotið og leigur betalast í smjöri heim til Bessastaða.
lonakot-800Auk þess eru kvaðir um mannlán á vertíð, „item tveir hríshestar“ sem taka á í Almenningi og „leverast in natura“ heim til Bessastaða.
En það er sama sagan og í Lónakoti og áður var nefnt: Ábúandinn kvartar yfir því við Bessastaðavaldið „að ærið bágt sé orðið hrís að útvega og meinar sér léttara vera fyrir þessa tvo hríshesta að betala tíu físka, þá guð gefur fiskinn af sjónum“.
Fimm kýrfóður á túnið að gefa af sér og hefur þótt ekki lítil búsæld í Hraunum. Af hlunnindum nefnir Jarðabókin útigang „þá mestu hörkuvetur ei inn faiia“, hrognkelsatekja er í lónum þegar fjarar, heimræði er árið um kring, lending í meðallagi, en lítil rekavon.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – skipasmíðastöð við Óttarsstaðavör.

Gallar jarðarinnar eru hinsvegar að engjar eru ekki til, að gripir farast stundum í gjám þegar snjóar yfir liggja og afleitt er það líka að torfstunga, þ.e. torfrista, er nánast engin. Vatn var sótt í djúpan brunn í túninu á aðfallnu, en vatnið í honum var alltaf ferskt. Þar gilti sama lögmál og í lónunum sem áður voru nefnd. Þessi brunnur er með grjóthleðslu að innanverðu, en því miður hálffullur af plasti og öðru sem fokið hefur í hann.
Gamalt íbúðarhús er á Óttarsstöðum eystri, en það er ónýtt vegna hirðuleysis. Í gegnum brotna glugga og opnar dyr eiga snjór, regn og vindar greiða leið, en á hlaðinu skartar vörubílshræ.
ottarsstadir vestri-802Annað bílhræ er í fallega hlaðinni tóft lítið eitt sunnar. Óttarsstaðahúsið er samt sögulega merkilegt. Upphaf þess má rekja til skipsstrands sem varð við Þórshöfn, skammt sunnan við Stafnes árið 1881. Þá rak kaupfarið Jamestown mannlaust að landi og var bjargað úr því góðum feng af dýrindis húsaviði, um 100 þúsund plönkum. Þótti þetta mikil himnasending í timburskortinum og risu af þessum viðum mörg ný hús suður með sjó og þetta eina hús í Hraununum, á Óttarstöðum eystri. Húsið var síðar bárujárnsklætt.

Áður hafði bærinn á Óttarsstöðum eystri verið vestar, uppi í brekkunni hjá vesturbænum. Fátt er þar til minja um hann annað en hlöðuveggir sem hafa verið fágætlega vel hlaðnir og standa enn.

Óttarsstaðir

Hesthúsið að Óttarsstöðum eystri. í gamla bæjarstæðinu.

Síðustu ábúendur á jörðinni, hjónin Guðrún Bergsteinsdóttir og Sigurður Kristinn Sigurðsson hættu búskap þar 1952. Síðasti maður sem hafði fasta búsetu í Hraunum var hinsvegar Guðmundur sonur þeirra. Hann var bátasmiður og byggði sér hús niðri við fjörukambinn, en það er nú horfið. Guðmundur bátasmiður lézt 1985. Þennan jarðarpart, sem talinn var 5 ha, á fjölskyldan þó ekki lengur. Guðni Ívar Oddsson keypti hann 1979 og flutti síðan til Ameríku. Hann er dáinn en sonur hans, Paul I. Oddsson, erfði jörðina og hefur hann aldrei til Íslands komið.
Þyskabud-803Spölkorni vestar og uppi á hæð stendur bærinn á Óttarsstöðum vestri, fallega varðveittur timburbær, bárujárnsklæddur, og gefur góða hugmynd um útlit bæja snemma á öldinni áður en steinsteypuöld hófst. Þarna er fallegt bæjarstæði og líklega það elzta í Hraunum, einkum er víðsýnt út yfir Norðurtúnið, Langabakka og flóann til norðurs. Til suðurs sést minna en ætla mætti, því hraunbrúnin þar er há. Vestur af bænum hefur myndast hryggur tignarlegra hraunhóla og eftir honum endilöngum er frábærlega fallega hlaðinn grjótgarður. Austan við bæinn, þar sem eru grasi grónar lautir, er merkilegur hraunhóll í einni lautinni. Hann er svo sprunginn að hann er ekki kallaður hóll, heldur Hrafnagjá, enda hægt að ganga á jafnsléttu í gegnum hann á ýmsa vegu. Munnmæli herma að kirkjugarður hafi verið hjá Óttarsstöðum og hefur verið talið að enn móti fyrir honum. Þar eru og leifar af bænahúsi.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestri.

Á Óttarsstöðum vestri var búið til 1966, en bænum hefur verið vel við haldið. Síðustu ábúendur á Óttarsstöðum vestri voru Ragnheiður Hannesdóttir, húsfreyja á Óttarsstöðum vestri, og Guðmundur Sigurðsson, bátasmiður á Óttarsstöðum, síðasti maður sem átti heima í Hraunum.
Síðustu ábúendur á Óttarsstoðum eystri voru hjónin Áslaug Jónsdóttir og Guðmundur Ingvarsson frá Ketilvöllum í Laugardal. Þau hófu búskap þar 1918, keyptu jörðina þá og bjuggu þar til 1966, en dóu þá með þriggja vikna millibili.
ottarsstadir eystri-805Þau Óttarsstaðahjón áttu tvær dætur, Jónínu og Ragnheiði, sem er 84 ára og lét greinarhöfundi ýmislegt gagnlegt í té. Hún minnist þess úr föðurhúsum að faðir hennar sló allt túnið með orfi og ljá, enda var það ekki véltækt. Bústofninn var um 100 kindur þegar mest var, einn hestur og tvær kýr. Síðustu fimm árin bjuggu þau aðeins með kindur. Ragnheiður minnist þess að fénu var haldið að fjörubeit og þá staðið yfir því, en langmest var þó beitt á hraunið. Faðir hennar og Sigurður bóndi á Óttarsstöðum eystri reru saman til fiskjar þegar gaf á sjó, en þeir fóru aðeins skammt út fyrir og aldrei var vél í bátnum. Vestur með sjónum voru fiskbyrgi, sem enn sjást. Þar var fiskurinn þurrkaður. Börn Ragnheiðar og Jónínu eru núverandi eigendur jarðarinnar og þau eiga heiðurinn af
því að halda bænum í góðu horfi.
Vestur frá Óttarsstaðavör er malarkamburinn næstum þakinn lábörðum steinum, sem einu sinni voru hraunklappir og hafrótið braut upp. Það kom í ljós í Surtsey að brimið við ströndina þurfti ekki ýkja langan tíma til þess að gera lábarinn hnullung úr hrjúfum hraunsteini. En vörin hefur myndazt með því að hraunrani, sem oft flæðir yfir, girðir fyrir að norðanverðu. Þar fyrir utan snardýpkar skyndlega, sögðu mér kafarar sem voru að skoða sig um á botninum. En nú ýtir enginn lengur úr Óttarsstaðavör.“

Óttarsstaðir

Óttarsstaðavör.

Eftirfarandi grein birtist í Vísi árið 1969 um síðasta bóndann við Straumsvík:
Hin mikilfenglegu mannvirki, sem rísa upp norðan Straumsvíkur, vekja athygli þeirra vegfarenda, sem ekki eru þar daglega á ferð. En sjálfsagt verður það með þau eins og margt annað, að vaninn slævir eftirtektina og hin því nær kílómetralanga verksmiðjubygging hættir að vekja sérstæð viðbrögð augans.
Hraunið, sem nú hefur verið brotið niður, bjó yfir dulrænni fegurð í litbrigðum ljóss og skugga. Á því var aldrei hinn óumbreytanlegi kuldasvipur steinmúranna. Lifandi mosafeldur brosti við skapara sínum eins og önnur jarðarinnar börn.
ottarsstadir vestri-805Árið 1891 bjuggu í Stóra-Lambhaga i Hraunum, Guðjón Gíslason og Kristbjörg Steingrímsdóttir. Þann 21. september það ár fæddist sonur þeirra Magnús. Þá var fjölbýlt í Hraunahverfinu, enda fólkið margt, búskapur nokkur og áraskipaútgerð. Guðjón var útvegsbóndi, hélt út og stjórnaði sjálfur sex rónu skipi, varð honum gott til manna, því hann var ötull sjósóknari og aflasæll. Þótt oft væri snöggslægt Lambhagatúnið eftir langvarandi þurrka, tókst honum oftast að hafa tvær kýr og rúmlega eitt hundrað sauðfjár. En sum ár varð hann að sækja nokkurn heyskap inn á Álftanes. Á þessum tíma voru eftirtalin býli og hjáleigukot í Garðahreppi sunnan Hvaleyrar: Stóri-Lambhagi, Litli-Lambhagi, Gerði Þorbjarnarstaðir, Péturskot, Straumur, Þýzkabúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Eyðukot, Óttarsstaði og Lónakot. Það var yzti bær í Garðahreppi hinum forna.
Eins og fyrr er sagt, var mikil sjósókn frá þessum bæjum meðan ennþá var öld áraskipanna. Oftast var stutt róið. Aðalmiðin voru Lóndjúpið, Brúnin eða vestur á Svið. Til bar það, að farið var út í Garðssjó væri ördeyða á innmiðum, en þangað var að eins farið á velbúnum skipum að forviði, veiðarfærum og mann afla.
Eydikot-802Venjulega var aflavon þangað til togararnir fóru að skafa botn inn meðfram ströndinni, þá skipti sköpum. Ýmsir útvegsbændur voru brúnaþungir þegar þeir sáu aðfarirnar. Fullir pokar voru dregnir upp. Koli og lúða var hirt en öðrum fiski var hent og flaut hann dauður um allan sjó. Þetta varð til þess að sumir fóru að sækja í togara. Aðrir voru svo stórir af sjálfum sér að þeir höfðu ekki skap til en sátu í landi með sárt ennið, og bölvuðu ástandinu án þess að fá nokkuð að gert. Á vertíðinni var oft margt að komumanna, sem reru á útvegi heimabænda. Lending var fremur góð umhverfis Straumsvíkina bæði í Stóra-Lambhaga og þó sérstaklega við Straum eða í Straumsós en inn á hann varð aðeins komizt á flóði og þarna er mikill munur flóðs og fjöru.
Á þessari öld, þegar ýmiss konar skoðanakannanir virðast vera mjög ofarlega á dagskrá, er það ekki óalgengt, að þeir sem fræðast vilja taki upp símann, velji númer og spyrji um álit manna, sem þeir aldrei áður hafa átt nein samskipti við. Vel má vera að með svona hátta lagi þyki sumum sér nóg boðið, jafnvel þótt orðnir séu aldurhnignir og hafi á langri leið ýmsu kynnzt og mörgu vanizt.

Straumur

Straumur 1935.

Bifreiðin undir stjórn Magnúsar Guðjónssonar rennur mjúklega suður Hafnarfjarðarveginn. Hann er kunnugur þessari leið gamli maðurinn, því frá árinu 1916, að hann tók bifreiðastjórapróf hjá Agli Vilhjálmssyni, hefur hann oft setið undir stýri og lengst af milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Hann vildi gjarnan láta fólkinu í sín um heimabæ góða þjónustu í té og auðvelda því ferð til höfuðstaðarins. Árið 1922 fékk hann Kristján vagnasmið til þess að byggja fyrir sig farþegahús á vörubíl. Það rúmaði 13 manns. Þá varð Steindór Einarsson reiður og sagði að með þessu væri Magnús að stofna til harð vítugrar samkeppni við sína dýru og fullkomnu fólksbíla, en hann hafði þá keypt eina tuttugu slíka.

Gudmundur batasmidur-2

En Magnús lét sig ekki og hélt sínu striki, sagði aðeins: „Stærri bifreiðar til fólksflutninga er það sem koma skal“, og sú varð raunin á. Það sá Steindór síðar.
– Sjáðu, hérna, þar sem við ökum meðfram höfninni í Hafnarfirði var áður sjór. Þetta er nýtt land giört af mönnum. Þar sem vegurinn liggur framan undir hamrinum var áður hyldýpi. Í Ásbúðum bjó Andrés Jónsson. Ásbúðir, það er litli bærinn með fánalitunum þarna undir brekkunni Andrés safnaði fornminjum. Ég starfaði að þessu með honum af og til í fimmtíu ár, ók út um sveitir og sótti muni. Nú er sérstök deild í Þjóðminjasafninu, sem varðveitir þessar minjar, — Ásbúðasafnið.
— Hér er Óseyrin, þar var áður býli og oftast vel búið. Einu sinni átti þar heima Ísak í Fífuhvammi. Einar Þorgilsson útgerðarmaður þurrkaði fisk á grandanum framan við eyrina. Þarna syðst er svo Hvaleyrin. Sú jörð átti landamerki móti Stóra-Lambhaga. Í Óseyrarog Hvaleyrartjörnum var fyrrum; -mikil rauðsprettuveiði.
-Já, ég man vel aðra mynd af Hafnarfirði en þá sem nú er sýnileg þeim sem um veginn fara.
Nú erum við komnir móts við hið mikla mannvirki — Álbræðsluna — sem reist hefur verið á landi Stóra-Lambhaga.

Lambhagi

Lambhagi – grunnur íbúðarhúss. Eldhúsið fjær.

— Hér er orðin breytt síðan ég var að smala hraunin og ára skipum var hrundið á flot og ráð ið til hlunns í Straumsvíkur- og Lambhagavörum. Fyrstu sjóferðina fór ég 9 ára gamall. Ekki mun þá hafa verið til mikillar liðveizlu ætlazt enda var pilturinn lítt til stórræða, því sjóveikin þjakaði mig mjög og var svo jafnan, enda þótt ekki þýddi að láta slíkt á sig fá. Uppeldissystur minni, Margréti Magnúsdóttur, var öðruvísi farið. Hún var bæði kjarkmikil og sjósterk, enda reri hún sem dugandi karlmaður væri og þótti engu síður hlutgeng. Ekki sjaldan kom það fyrir, að hún fór á sjóinn þegar verra var veður og ég kaus heldur að hirða fé föður míns.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambahaga við Straumsvík.

Einu minjarnar um hina fornu byggð í Stóra-Lambhaga er vörina, sem lent var og þetta gamla fjárhús við sjóinn. Í Straumi bjó lengi Guðmundur Símonarson. Hann hafði stórt bú. Þó sérstaklega sonur hans, Guðmundur Tjörfi, hann hafði mikinn fénað. Hjá honum var „Stjáni blái“ oft á veturna áður en vertíð hófst. Stjáni ólst upp hjá séra Þórarni í Görðum, kom þangað 7 ára gamall frá Klöpp í Reykjavík. Séra Þórarinn keypti áraskip handa honum og Óla Garða. Stjáni var mikill sjómaður, ég þekkti hann vel. Þegar hann fór sína síðustu för var ég á bryggjunni í Hafnarfirði. Stjáni var örlítið ör og þegar ég hafði orð á því að honum lægi ekkert, á úteftir, leit hann til mín þeim augum, sem gáfu greinilega til kynna, að það væri hann en ekki ég, er réði þar ferðinni. Mun ég sennilega hafa verið einn þeirra síðustu, sem rétti honum höndina til kveðju.

ottarsstadir eystri-807

Svo „strengdi Stjáni klóna“, settist við stjórn og tók stefnu fyrir Keilisnes. Hann var þá búsettur í Keflavík. Hið snjalla kvæði, sem Örn Arnarson kvað, mun gefa nokkuð sanna hugmynd um þessa síðustu siglingu og einnig um manninn sjálfan, Meðan Stjáni var formaður fyrir séra Þórarin í Görðum reri hann venjulega úr Garðavör og sótti oftast út á Svið.
— í Straumi bjó síðar Bjarni Bjarnason, sem lengi var skólastjóri héraðsskólans á Laugarvatni. Hann var þá kennari í Hafnarfirði. Nú eru því nær öll hraunabýlin í eyði fallin. Að vísu hefur verið rekið svínabú í Straumi, en heyrt hef ég á orði haft, að þeim rekstri mundi senn lokið.

Straumur

Straumur 1930.

Á Óttarsstöðum eru heimilisföst roskin hjón. Húsbóndinn stundar smíðar og auk þess hafa þau nokkur hænsni. Öll þau ár, sem ég var heima í Stóra-Lambhaga, voru í Eyðikoti þrjú systkini – bræðurnir Sveinn og Guðmundur og systirin Steinunn Bergsteinsbörn. Sveinn var sjómaður en Guðmundur var sjálfmenntaður járn
smiður. Hann smíðaði mikið af skónálum og brennimörkum. Smiðjuhurðin bar glögg merki þeirrar iðju. Eins og ég drap á áðan, þá höfðu bændur hér í hverfinu talsverðan búpening. Enda þótt heyfengur væri venjulega rýr, þá kom þar á móti, að sauðfé var mjög létt á fóðrum. Marga vetur kom það aldrei í hús, nema lömbin fyrsta veturinn.
Þegar Thorbjarnastaðarrett-800verri voru veður lá féð í hellisskútum hér og þar í hrauninu. Ef tað safnaðist í þá voru þeir þrifnir og stungið út úr þeim, mátti segja að hér væri um að ræða nokkurs konar fjárhús. Þrátt fyrir það, að hraunið virðist gróðurvana yfir að sjá, þá þreifst féð vel bæði vetur og sumar, en hirðingin var erilsöm, sérstaklega á vorin, því víða eru jarðföll og holur, sem hættuleg eru nýfæddum lömbum og þungfærum ám. Yfir þessu þurfti að hafa vakandi auga.
Það féll oft í minn hlut að sinna þessu starfi meðan ég var drengur heima í Lambhaga, og kunni ég því vel.

Lambhagi

Litli-Lambhagi; útihús og eldhús.

Þó hér sé ekki sprottið til lands að líta er víðáttan fögur og heillandi, sérstaklega á vorin, og hraunið býr yfir meiri og fjöíbreyttari náttúruöflum en ætla mætti þegar menn líta yfir það sem
hraðfara vegfarendur. Það er margur fagur reitur falinn í skjóli hraunborganna. Þeir voru engir smákarlar sumir bændurnir hérna á ströndinni í gamla daga. Guðmundur á Auðnum, Guðmundur í Landakoti, Guðmundur í Flekkuvík og Sæmundur á Vatnsleysu. Þeim Guðmundi á Auðnum og Sæmundi þótti nú sopinn góður og komið gat fyrir að kaupstaðarferðin til Reykjavíkur tæki þá upp undir hálfan mánuð. Þá var komið við á bæjunum, þeginn og veittur beini, sem orsakað gat næturdvöl. En þetta voru dugnaðarmenn, aflasælir og sjálfum sér nógir.

Ottarsstadavor-800

Ég hef svo sem fengizt við ýmislegt fleira en aksturinn, enda þótt ég telji hann hafa verið mitt aðalstarf um ævina. Í tíu ár fékkst ég við útgerð og átti um sjö ára skeið elzta skipið í íslenzka veiðiflotanum, m.b. Njál, 38 lestir að stærð. Nokkuð kom ég einnig við verzlunarsöguna bæði sem
sjálfstæður aðili og nú síðustu átta árin verið innheimtumaður hjá firmanu Nathan & Ólsen.
— Jú, ég kvæntist árið 1913.
Konan mín hét Herdís Níelsdóttir, ættuð úr Hafnarfirði. Við bjuggum saman í 33 ár, þá lézt hún. Við vorum barnlaus og nú er ég einn míns liðs.
— Okkur liggur ekkert á, ég er minn eigin herra í dag.

Straumsvík

Álverið í Straumsvík. Stói- og Litli-Lambhagi nær.

— Aka, jú, ég sé vel til að aka þótt ég sé senn 79 ára gamall. Ennþá les ég gleraugnalaust. Ég hef aldrei ekið hratt ónei, og komizt leiðar minnar þrátt fyrir það.
Sérðu hvernig þeir hafa brotið niður hraunið. Á gömlum fjárgötum fortíðarinnar, hrófum áraskipanna, harðbalatúnum og húsatóftum fornra mannabyggða hafa þeir reist þetta verksmiðjuhús.
— Hvort munu þeir, sem þar ráða ríkjum svara betur kalli sinnar samtíðar en hinir, er áður lifðu þar lífi íslenzkra útvegsbænda?“

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins 7. maí 1978, Suður í Hraunum, Gísli Sigurðsson, bls. 8-9 og bls. 13.
-Lesbók Morgunblaðsins 25. mars 2000, Byggð og náttúra í Hraunum – Nútíminn fór hjá garði, Gísli Sigurðsson, bls. 4-6.
-Vísir 19. júní 1969, Bóndinn í Straumsvík, bls. 9-10.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestri og eystri.