Tag Archive for: Straumur

Tjörvaskjól

Í „Svæðisskráningu fyrir Hafnarfjörð 1989“ og í „Örnefnalýsingu fyrir Straum; Gísli Sigurðsson“ er getið um „Tjörvagerði“ og „Tjörvaskjól„.

Tjörvagerði

Tjörvagerði.

„Vestur frá þýskubúð og sunnan undir klöpp eru „Tjörvagerði“ og „Tjörvaskjól“…. hvort tveggja er hlaðið af Guðmundi Tjörva bónda í Straumi og Þýskubúð.“

Straumur

Fjárskjól við Tjörvagerði.

Skjólið er skammt (20m) vestur af gerðinu og rétt sunnan við hleðslu undir girðingu (landamerki Óttarsstaða og Straums“. Í hrauni þar sem langar klappir reynast skeifulaga skjól með opið til suð vesturs.“ „Skjólveggur hlaðinn þvert fyrir og hellisskúta. Veggur hæstur…

„Vestur frá Þýzkubúð er sunnan undir hárri klöpp Tjörvagerði. Þar er Tjörvabyrgi og Tjörvaskjól, hvort tveggja hlaðið af Guðmundi Tjörva bónda í Straumi og Þýzkubúð“.

Svæðið umleikis Straum og nágrenni er fyllilega gönguferðarinnar virði…

Heimild:
-Svæðisskráning fyrir Hafnarfjörð.
-Örnefnalýsing fyrir Straum, Gísli Sigurðsson.

Tjörvagerði

Tjörvagerði.

Straumssel

Gengið var frá Straumi áleiðis upp í Straumssel eftir Straumsgötu. Straumstíg var síðan fylgt upp hraunið til suðurs vestan við hlaðinn túngarð Þorbjarnastaða.

Fornasels-, Gjáselsstígur.

Fornasels-, Gjáselsstígur og Straumsselsstígur eystri.

Í lýsingum er talað um tvær götur upp í Straumssel. Straumsgatan liggur frá Straumi að vestanverðu til suðurs, skammt austan við Straumsréttina. Frá götunni liggur stígur, hér nefndur Straumsstígur, yfir Alfaraleiðina austan Draugadala, upp í gegnum Seljahraunið og áfram upp í gegnum Mjósundið. Gatan fylgir vestanverðu Gráhelluhrauninu og Draughólshrauni, upp með vestanverðum Straumsselshöfða og upp í Straumssel að vestanverðu. Auðvelt er að rekja þessa götu upp frá Straumi þar sem hún liggur til suðurs austan Straumsréttar og undir Reykjanesbrautina og áfram til suðvesturs. Ofan við Mjósundið hverfur stígurinn á kafla undir kjarr, sem hefur gróið þar vel upp, en kemur fljótlega aftur í ljós skammt sunnar.

Straumsselsstígsins er getið í örnefnalýsingu. Hann liggur til suðurs vestan Sölvhóls og áfram fast við vestanverðan túngarð Þorbjarnastaða. Grunsemdir eru um að þessi stígur, sem síðan liggur beint út frá Þorbjarnastaðartúninu til suðurs og áfram upp í Gjársel og Fornasel, sem voru sel frá Þorbjarnastöðum og hugsanlega Lambhaga, hafi fyrrum verið forn gata þaðan, enda greinilega mikið genginn, bæði af mönnum og skepnum. Þessi sel lögðust af fyrr en Straumsselið. Túngarðurinn var hlaðinn um og eftir 1900 og þá hafði selsbúskapur í Hraunum lagst af.

Straumssel

Straumsselsvarða.

Þess vegna er ekki hlið á garðinum þar sem selsstígurinn mætir túninu. Eystri selstígurinn er merktur að hluta.
Þessi selsstígur liggur til suðsuðausturs vestan við Stekkinn sunnan Þorbjarnastaða, yfir Mið-Seljahraunið (þau eru fjögur á þessu svæði), framhjá Miðmundarhæð (á hægri hönd), um “grennsta” haftið á Seljahrauni og áfram til suðausturs austan Grenigjáa, upp með Eystri Tobbuklettum, um Flárnar, meðfram austanverðu Draughólshrauni og upp meðfram Jónshöfða. Stígurinn hlykkjast um hraunið og er ýmist í landi Þorbjarnastaða eða Straums. Nokkuð neðan við Laufhöfða eru gatnamót. Þar beygir Straumsselsstígur til suðurs þar sem hann liggur um Katlana. Skammt þar austan við er Kápuhellir, í landi Þorbjarnarstaða. Norðan undir Straumsselshöfða beygir stígurinn til vesturs og kemur vestan og sunnan hans upp í selið. Reyndar skiptist gatan undir norðurhorni höfðans, en þaðan liggur gata áleiðis að Straumsselshæð og inn í selið að norðaustanverðu.

Straumsselsstígur

Straumsselsstígur.

Á leiðinni sást vel yfir að Tobbuklettum og vörðu við Grenigjár, en í þeim er nokkuð stór rétt innan hraunhólaþyrpingar. Selsstígurinn er vel markaður í klöppina á kafla, einkum neðst í Flánum. Einnig er hægt að komast inn á hann eftir stíg af Gerðarstíg, sem er austastur þessara stíga. Hann liggur til suðurs austast í Seljahraununum.
Fyrir ofan Straumssel er Straumsselshæð og á henni Straumsselshæðarvarða. Ofar og sunnar eru Stórhæðir. Efst austan til er Fremstihöfði en í suðvestur sér í hæstu hæð Gömluþúfu. Í því er Gömluþúfugrenið.
Sunnarlega í Straumselshöfða er Höfðavatnsstæðið, uppi á hól. Þar á sumrum var drykkur fyrir tvo smala og hunda þeirra.

Straumsselsstígur vestari

Skotbyrgi við vestari Straumsselsstíg.

Straumsselið er eitt hið merkilegasta á Reykjanesskaganum. Seltætturnar eru í Straumselstúni. Þarna stóð bær fram á síðustu öld, sem Guðmundur Tjörvi lét reisa. Bærinn brann síðan. Áður var faðir hans, Guðmundur (sonur Krýsuvíkur-Gvendar) um tíma skógarvörður í Almenningum og hélt þá til í selinu.
Seltúnsgarðar liggja um nokkurn hluta túnsins. Fjárhús eru hér innangarðs sem og Selsgarðurinn, matjurtargarður. Vatnsstæði er í skúta norðan við þær, Selsbrunnurinn. Hlaðin hestarétt er vestan við Selstúnið.
Í Straumsseli var búið stundum á 19. öldi. Síðast á árunum 1890-1895. Bæjarhúsin eyddust af bruna og hefur ekki verið búið þar síðan. “Í suðri sést í Hafurbjarnaholt, kennt við Björn Gnúps-Bárðarson, Hafur-Björn, sem samninginn gerði við bergbúann forðum. Gerðu þeir helmingaskipti í fjáreign. Segir sagan að þá hafi komið hafur og hrútur í féð og var þá sem tvö höfuð væru á hverri skepnu. Gerðist Björn þá fjárríkasti bóndi á Suðurnesjum”.

Straumsselsstígur

Straumselsstígur vestari.

Seltúngarðar liggja um nokkurn hluta túnsins. Fjárhús eru innangarðs. Selsgarðurinn um seltóftirnar var matjurtargarður.
Ofan og austan við Straunmsselið er Straumsselshæð. Sunnan í henni er Straumsselshæðarskjólið.
Straumsstígurinn kemur í selið ofan við hestaréttina. Líklega hefur hún verið notuð af hestafólki, t.d. þeim sem þurftu að hitta Guðmund skógarvörð í Straumsseli á meðan hrístakan stóð yfir. Einnig hefur heimilisfólk í selinu notað hesta t.a.m. til vöruflutninga.
Hin gatan, Straumsselsstígur, sem nú er stikuð, hefur frekar verið farin af gangandi fólki, ef þetta er yfirhöfuð mannagata því ekki er ólíklegt að ætla að hún hafi sennilegast verið notuð sem búsmalagata. Ekki er t.d. að sjá gamlar vörður við hana eða „hnoðaða“ steina í götunni, eins og eftir skeifur, sem jafnan sjást í selgötunum vörðulausu.

Förnugötur

Straumsselsstígur/Fornugötur.

Björn Bjarnason frá Grafarholti fjallar um gamlar götur í Árbók fornl.fél. 1914. “Um notkun fornveganna má fræðast af rúnum þeim, sem hestafæturnir hafa rist á jörðina, þar sem tönn tímans eigi hefir til fulls afmáð þær eða útskafið, og sumstaðar hjálpa örnefnin til að skilja. Greinilegastar eru rúnir þessar sem spor í klappir, gatnafjöldi í grónu valllendi, sem ekki hefir legið undir árensli, og troðningar í móum. Þó þeir sé grónir aftur sjást göturnar af því, að þar eru geilarnar dýpri og beinni í sömu stefnu, en annarsstaðar. Í melum og lausagrjótsholtum má einnig finna fornvegina, stundum sem laut eða skoru, en þó einkum með því að athuga grjótið. Í götunni er það troðið, máðar af því nybbur líkt og brimsorfnu grjóti. Af því stafa litaskifti, sem sjást á því, þar sem umferð hefir verið, þó hún sé hætt fyrir löngu.“

Suður frá garði frá selinu liggur Straumshellnastígur, suður að Straumshellum nyrðri, miðja vegu milli Gömluþúfu og Straumssels. Þaðan liggur stígur í Straumshellana syðri. Hér voru allgóð fjárskjól og hafði Tjörvi þarna fé. Við syðri hellana er Gerðið, sem notað var til samrekstar.

Straumssel

Straumssel – selið.

Norðan við neðri hellana er gott varðað vatnsstæði í hraunkvos. Í neðri hellunum er rúmgóður fjárhellir utan í holti og snýr opið til vesturs. Hlaðið er framan við munnann. [Skammt sunnan við opið mótar vel fyrir miklum hleðslum við op. Hleðslurnar eru fallnar og hafði lokast fyrir opið, en hefur nú verið opnað á ný. Þarna mun vera op á öðrum fjárhelli, sem langur gangur átti að hafa verið inn í].

Neðri-straumsselshellar

Neðri-Straumselshellar.

Í efri hellunum er rúmgóður fjárhellir og vel manngengur. Hlaðið er fyrir munnann, en hellisopið er innan við fallega hlaðið gerði í hraunbala. Ofan við gerðið að norðanverðu er hlaðið byrgi eftir refaskyttu, sem Jónas Bjarnason og félagar hlóðu eftir miðja 20. öld, væntanlega úr grjóti réttarinnar.
Vestari selsstígnum var fylgt úr hlaði. Hann liggur til suðurs út frá bænum og beygir síðan til vesturs og loks til norðurs. Stígurinn til vesturs yfir að Óttarsstaðarseli þverar hann vestan við selið. Stígurinnn er vel markaður í landið og er augljós uns hann mætir eystri stígnum norðan við selið.
Straumsselsstígnum var fylgt til norðurs vestan Straumsselshöfða og yfir á Straumsselsstíginn, sem síðan var rakin niður að Þorbjarnastöðum.

Verklag í seli.

Straumssel

Vatnsból skammt sunn-an Straumssels.

Efitt er að finna ritaðar lýsingar á verklagi því er viðhaft var í seljum á Reykjanesi. Tiltækar lýsingar eru þó í flestu samhljóða. Þótt víst megi telja að verklagið hafi tekið einhverjum breytingum í gegnum aldirnar má því eins víst vera að það hafi þó lítið breyst í grundvallaratriðum. Til að gefa einhverja innsýn í verklagið er vitnað hér í grein Ólafs Þ. Kristjánssonar, fyrrverandi skólastjóra Flensborgarskóla og kennara höfundar, sem hann ritaði árið 1978 í Ársrit Sögufélags Ísfirðinga um selsbúskap í Holtaseli í Önundarfirði, og í handriti Sigurlínu Sigtryggsdóttur, Æsustöðum í Eyjafirði, er nefnist “Upp til selja”.

Straumssel

Straumssel – brunnur.

Ólafur virðist hafa leitað eftir og safnað fróðleik um verklag í seljum, “en það er með Holtasel eins og fleiri sel á landinu að næsta lítið er vitað um hvernig vinnubrögðum þar var háttað og yfirleitt hvernig selið var hagnýtt”. Hann skrifaði þó eftirfarandi eftir Ágústi Guðmundssyni, bónda á Sæbóli á Ingjaldssandi, það sem hann hafði eftir móður sinni, Guðrúnu Sakaríasdóttur (hún var í Holti um 1870) um Holtasel: “2-3 stúlkur voru í selinu að jafnaði. Kýrnar voru mjólkaðar fyrst, og var það oftast búið þegar féð kom. Ein stúlkan fór að öllum jafnaði þegar búið var að mjólka kýrnar og ærnar fyrri mjölt til þess að setja mjólkina, en hinar mjólkuðu eftirmjölt. Smérið var flutt heim í krókum, en skyrið einu sinni í viku í strokkum. Drukkurinn var fluttur heim í tvíbytnum að vetrinum, dreginn á sleða”.
Þorkell Guðmundsson, heimildamaður Ólafs lýsir selsbúskapnum svo: “Eftir fráfærur voru ærnar reknar fram í Holtasel. Yfirleitt var ekki setið hjá ánum nema kannski einn dag, heldur var þeim smalað allan fráfærutímann.

Straumssel

Straumssel – selstaðan.

Eftir mjaltir kvölds og morgna voru þær reknar fram á Heiðará á Mjóadal. Ekki er bema 7-8 mínútna gangur frá selinu fram að Heiðará eða tæplega það….”. Smalinn var vakinn kl. 3-4 á nóttunni til smalamennskunnar og einnig var farið að smala um svipað leyti, kl. 3-4, að degi til. Smalinn hélt alltaf til í selinu.
Venjulega voru 3 stúlkur í selinu, selráðskonan og 2 mjaltakonur. Selráðskonan annaðist matseld og mjólkina, renndi trogum og sá um smjörgerðina, en undanrennan var daglega flutt heim að Holti í tveimur 80 marka (40 lítra) kútum og þar var skyrið búið til. Dallur með dagssmjörinu var reiddur ofan á milli á hestunum.

Straumssel

Straumssel – garður.

Selkonurnar fóru oft heim að Holti á daginn til þess að þurrka og raka þegar svo stóð á, en voru alltaf í selinu yfir nóttina.
Í sláttarlok flutti svo fólkið úr selinu heim að Holti og tók ærnar með sér. Eftir þann tíma munu þær ekki hafa verið mjólkaðar nema einu sinni á dag. Kýr voru aldrei hafðar í selinu á æskuárum Þorkels”.
Sigurlína lýsir Hvassafellsseli og segir “mislangt í hinum ýmsu byggðarlögum síðan búsmali í seljum lagðist af. Hann hafi varað einna lengst í Eyjafirði.
Fyrsta verk í selinu var að sópa og hreinsa hátt og lágt og þvo og sjóða öll ílát. Hvassafellssel var hlaðið að mestu úr grjóti. Var það baðstofa, búr og eldhús, mjólkurbúr og skyrbúr… Voru um 120-140 ær í kvíum. Í selinu voru líka 4-5 kýr. Lágu þær úti, en voru mjólkaðar á kvíabóli. Tvær stúlkur mjólkuðu kvíærnar og kýrnar og gerðu skyr og smjör úr mjólkinni. Var flutt heim úr selinu þrisvar í viku á þremur hestum í hvert sinn. Sóttu vinnumennirnir í Hvassafelli fram í selið og komu með þurrt sauðatað á hestunum til eldiviðar.

Straumssel

Efri-Straumsselshellar.

Venjulega stóð seltíminn yfir í mánuð til fimm vikur. Var oft glatt á hjalla í seljunum, þó mikið væri að gera. Var oft um helgar, þegar gestkvæmt var, slegið í leiki úti á sléttum velli og jafnvel glímt af konum sem körlum, því að á þeim tímum voru sumar stúlkur svo leiknar í glímum, að piltarnir máttu vara sig. Þegar komið var heim með mjólkurföngin úr selinu, var skyrið látið í stór keröld eða sái, en smjörinu drepið í hálftunnur og hvort tveggja geymt til vetrar, það sem gekk af daglegri notkun.
Mjög þótti það áríðandi að hafa trúa og ötula selsmala. Ærnar máttu helst ekki missa máls, en svo var það kallað, er vantaði af ánum til að mjalta. En nú eru kvíarnar og selin hrunin og fólkið horfið þaðan. Flest ungt fólk elst nú upp við léttari og betri lífsskilyrði, sem betur fer, en áður þekktist”.

Seljabúskapur.

Straumssel

Í Straumsseli – varða.

Um selsbúskap (úr bókinni Íslenskir þjóðhættir eftir séra Jónas Jónasson):
“Alsiða var það fyrrum, einkum þar sem þröngt var um haga heim um sig, og þurfti ekki til, að hafa búsmala í seli á sumrum frá fráfærum og til tvímánaða eða til þess er nálega 16 vikur voru af sumri. Selin voru byggð til dala eða svo langt frá bæjum, að náðist til betri og kjarnmeiri haga en heima fyrir var að fá. Þangað var farið með allan ásauð og stundum flestar kýrnar. Í selinu var jafnan einn kvenmaður, selmatseljan (selráðskona), og ef fé var mjög margt, hafði hún með sér eina eða tvær unglingsstúlkur. Svo var smali, sem fylgdi fénu úr kvíunum og var yfir því nótt og dag. Ekki var mulið undir smalann í seljunum stundum. Var ekki dæmalaust, að honum væri ætlað að skala strokkinn, á meðan mjaltarkonur mjöltuðu ærnar. Þótti þá vel úr rætast, ef nokkurn veginn félli saman, að strokkurinn væri skilinn og lokið væri mjöltunum. Af því er talshátturinn; “Það stenst á endum strokkur og mjaltir”.

Straumssel

Straumssel – tilgáta.

Sagt var og, að ráðskonur hefðu haft það til, að binda strokkinn upp á bakið á smalanum við smalamennsku og láta hann hlaupa með hann, og hafi skilist þannig smjörið. En ósennilegt er, að þetta hafi verið gert, síst almennt.
Selin voru venjulega þrjú hús; mjólkurhús og selbaðstofa og eldhús til hliðar eða frálaust. Oft voru og selið í beitarhúsum, ef þau voru langt frá bænum. Kvíar voru og til að mjalta í ærnar og kofi handa kúm, ef þær voru hafðar í selinu. Selmatseljan hafði nóg að starfa; að mjalta ærnar, setja mjólkina og hirða hana, búa í stokkinn og strokka hann, búa út smjörið, flóa mjólkina og gera úr henni skyr. Mjólkin var hleypt í skyr í kössum með loki. Voru þeir háir og mjóir, líkir venjulegu kofforti, og mátuleg klyf, er þeir voru fullir; þeir voru kallaðir selskrínur. Bóndinn heima eða einhver annar á bænum hafði það starf á hendi, að flytja heim úr selinu annan eða þriðja hvern dag, eftir því sem á stóð. Var skyrinu steypt í keröld heima og safnað til vetrar (söfnuðurinn).

Straumssel

Straumssel – Neðri-Straumsselshellar.

Smalamaður fylgdi ánum nótt og dag, eða þá að hann fylgdi þeim á daginn, en lét þær leika lausar á nóttunni. Stundum eða sumsstaðar var þeim og sleppt í bæði mál og þá smalað kvöld og morgna. Mikið var undir því komið, að smalinn væri góður. Alltaf átti smalinn að vera kominn með ærnar í sama mund í kvíabólið kvöld og morgna, og vandist hann furðanlega á það, þó að ekki hefði hann úr í vasanum. Oftast voru unglingar hafðir við smalamennsku, og var þeim oft ætlað miklu meora en þeim var treystamdi til, því að þeim er var ekki hlíft, þó að þeir væru bæði ungir og pasturlitlir. Illt áttu þeir oft í meira lagi, er þeir áttu að fylgja fénu nótt og dag og tíð var stirð, rigningar og slagviðri. Þá byggðu þeir sér hús; byrgi eða smalabyrgi, á þeim stöðum, er fénu var mest haldið til haga, og voru þeir þar inni, þegar illt var eða þeir máttu sofna. Ærið voru þessi byrgi smá og lítilfjörleg, en þó skárri en úti.

Straumssel

Smalaskjól við Efri-Straumsselhella.

Þegar komið var fram yfir fardaga, var farið að stía. Til þess var notaður stekkur, einhverskonar rétt, hæfilega stór fyrir ærnar. Í stekknum var kró, lambakró. Lömbin voru tínd úr stekknum og látin inn í króna. Það var gert seint á kvöldin, svo sem stundu fyrir lágnætti, og látið sitja svo um nóttina, þangað til um miðjan morgun daginn eftir. Þá var aftur farið í stekkinn og lömbunum hleypt saman við ærnar.
Eftir Jónsmessuna komu svo fráfærurnar. Þá voru ærnar reknar heim af stekknum og ekki hleypt til lambanna framar, heldur voru þær mjólkaðar fyrst í kvíunum og reknar síðan í haga og setið þar yfir þeim.
Heldur hefir vistin verið einmannaleg fyrir selmatseljuna, þótt mikið hefði hún að gera, enda komst hjátrúin þar að, sem eðlilegt var á þeim tímum. Mörg selmatseljan komst í tæri við huldumenn og urðu þungaðar við þeim; ólu þær svo börnin í seljunum, og veitti maðurinn þeim þar alla aðstoð, svo að einskis varð vart; tók hann svo barnið með sér og ól það upp í álfheimum.

Straumssel

Straumssel – Efri-Straumsselhellar.

En hann gat ekki gleymt ástmeynni úr selinu, og kom oftast einhvern tíma löngu síðar, þegar sonur þeirra var orðinn fullorðinn og selmatseljan gift kona fyrir löngu, og birtist henni til þess að endurnýja fornar ástir. En þeir samfundir verða báðum jafnan að bana. Eru margar þær harmasögur til. Stundum ólu þær börn í seljunum og báru út, og er því víða óhreint hjá gömlum seljum. Aftur er þess sjaldan getið, að útilegumenn hafi komist í tæri við selráðskonur.

Straumssel

Í helli vipð Efri-Straumsselhella.

Svo er að sjá, að selfarir hafi mjög verið farnar að leggjast niður, þegar kom fram á 18. öldina og eymd og ódugnaður landsmanna var kominn á hæsta stig. Gaf þá konungur út lagaboð 24. febr. 1754 að skipa öllum bændum að hafa í seli, að minnsta kosti átta vikna tíma, frá því er átta vikur væru af sumri til tvímánaðar. Lítið mun það lagaboð hafa á unnið, enda var þá landið í kaldakoli af harðindum, fé fallið og fólk að deyja úr harðrétti; og svo kom fjárkláðinn mikli rétt á eftir. Þó var mjög víða haft í seli langt fram á 19. öld, þar sem lítið var um sumarhaga heima, þangað til fólkseklan neyddi menn til að hætta við selfarir og jafnvel fráfærur á síðustu áratugunum.

Straumsselsstígur vestari

Vestari Straumsselsstígur.

Selfara er víða getið, bæði í fornsögum vorum og lögum; má af því ráða, að sá siður hefir flust hingað frá Noregi og orðið hér að fastri venju. Selvenjur hafa þá verið hina sömu og á síðari tímum, nema skyr stundum verið flutt heim í húðum, skyrkyllum eða kollum í krókum, sbr. Njálu.
Ísland hefir alla tíð verið gott sauðland, enda er þess víða getið í fornritum og sögnum, að menn hafi verið fjármargir mjög, enda gekk þá fé sjálfala í skógum, meðan þeir voru óhöggnir á landi hér. En auðvitað var hvorki hús né hey handa þessum fjárfjölda, enda hrundi það niður, þegar harðindin dundu yfir. Fram á 19. öld var það víða enn siður á Suðurlandi, að ekki voru hús yfir sauði, önnur en jötulausar fjárborgir”.

Fornaselsstígur

Fornaselsstígur.

Einkenni seljannna á Reykjanesskaganum.

Sel á Reykjanesi eru í sumu frábrugðin seljum annars staðar á landinu. Víða utan þess voru þau oft höfð upp til dala eða upp undir hlíðum fjarri bæjum. Flest seljanna á Reykjanesi eru u.þ.b. í einnar til tveggja klukkustunda göngufjarlægð frá bænum, sem þau voru frá. Það var talið til kosta að hafa fjarlægðina ekki of mikla eins og t.d. í Grindavíkurselin á Selsvöllum. Yfirleitt voru selin í útjaðri jarðanna eða í óskiptu landi þar sem annað hvort var sæmilegt vatnsstæði eða brunnur. Flest seljanna eru norðvestan til undir hæð eða brekku í skjóli fyrir ríkjandi rigningarátt, þ.e. suðaustanáttinni. Má í því sambandi nefna Oddafellselin, Hvassahraunsselið, Flekkuvíkurselið, Fornasel (Litlasel), Nýjasel, Brunnastaðasel, Gjásel og Arahnúkasel. Yfirleitt hafa selstóftirnar sömu einkenni og önnur sel á landinu, þ.e. samliggjandi baðstofu og búr, en eldhúsið sér.

Straumssel

Straumssel – gerði.

Í mörgum seljanna má sjá misgamlar tóftir, s.s. á Selsvöllum og í Hraunsseli vestan við Núpshlíðarhás. Hið síðarnefnda lagðist reyndar af síðast selja á Reykjanesi, eða árið 1914. Í lýsingu Þorvaldar Thorodsen um ferð hans um Suðurland árið 1883 virðist Hraunssel og Selsvallaselin þá þegar hafa verið aflögð . Þau gætu þó hafa verið endurreist síðar sbr. skrif Guðrúnar Ólafsdóttur um Grindavíkurselin.
Í Andvara, tímariti Hins ísl. þjóðvinafélags, 1884, er sagt frá ferðum á Suðurlandi sumarið 1883 eftir Þorvald Thoroddsen, bls. 48. Þar segir m.a.: “Komum við fyrst að Hraunsseli; það er nú í rústum… Selsvellir eru stórar grassléttur norður með hálsinum… Þar hefir áður verið sel frá Stað í Grindavík, en er nú af tekið; nú hafa menn þar nokkurs konar afrétt…”.

Straumssel

Hellir við Efri-Straumsselshella.

Geirs Bachmanns segir í Lýsingu Grindavíkursóknar 1840-41 bæi í Grindavík þá hafa selstöður á Selsvöllum. Í Lýsingu Árna Helgasonar á Garðaprestakalli 1842 kemur fram að Garðar hafi haft “pening í seli til 1832”. Önnur sel þar hafi verið aflögð fyrir meira en hálfri öld.
Í “Frásögur um Fornaldaleifar”, útg. af Stofnun Árna Magnússonar, 1983, eru birtar skýrslur presta o.fl. af íslenskum fornminjum til dönsku fornleifanefndarinnar á árunum 1817-1823 . Hvorki er minnst á sel í Gullbringu- og Kjósarsýslu né í Árnessýslu (Ölfusi) í skrifum til nefndarinnar. Bendir það til þess að selin hafi þá verið í “eðlilegri” notkun á þeim tíma, nýlega aflögð eða að þau sel, sem vitað var um, en lagst af, hafi ekki verið það gömul að þau hafi talist til fornminja. Hafi svo verið getur ein skýringin verið sú að búsetuminjar eða minjar tengdar atvinnuháttum hafi ekki verið taldar til fornleifa, enda var lítið skrifað um slíkt til nefndarinnar. Hafa ber í huga að sel geta hafa lagst af um tíma, en síðan verið endurreist um sinn.

Straumssel

Eystri-Straumsselsstígur (Fornaselsstígur).

En af framangreindum gögnum að dæma virðist selbúskapur á Reykjanesi að mestu hafa lagst af um og eftir miðja 19. öld; fyrr í Garðasókn en t.d. í Grindavíkursókn þar sem hann tíðkaðist enn um 1840, en selin verið í rústum árið 1883 þegar Þorvald Thoroddsen var þar á ferð. Ef taka á mið af núverandi tóftum selja á Reykjanesi eru þau líka að sjá heillegastar á Selsvöllum og í Þrengslum (Hraunssel). Einnig í Vífilsstaðaseli og Herdísarvíkurseli, Knarrarnesseli, Brunnastaðaseli og Straumsseli. Hins vegar eru seltóftir í Selvogsheiði og í Hafnaheiði greinilega mun eldri. Þá má sjá enn eldri tóftir innan um nýrri sel, s.s. Fornasel við Brunntorfur, Lónakotssel, Fornasel (Litlasel), Hlöðunessel, Baðsvallasel og Selöldusel.
Tóftir seljanna eru greinilega misgamlar. Ekki er vitað til þess að þær hafi verið aldursgreindar, en þó hefur Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur, grafið í Fornasel vestan við Brunntorfur og taldi hann af niðurstöðum kolefnamælinga að dæma að það sel væri frá 14. eða 15. öld.

Straumssel

Straumssel – stekkur.

Við þessi gömlu sel eru yfirleitt hlaðnir tvöfaldir stekkir og einfaldar kvíar. Vatnsstæðin eru í hraunskálum eða á klapparhólum. Nokkur dæmi eru um allnokkur sel þar sem frá varð að hverfa fyrr en ætlað var vegna vatnsskorts. Lækir eru fáir á landssvæðinu. Auk Selsvallalækjar er lækur í Króksmýri norðan Vigdísavallar, á Bleikingsvöllum suðaustan þeirra, í Sogunum sunnan Trölladyngju, Kaldá við Kaldársel og síðan Vestri- og Eystri-lækur í Krýsuvík. Sumstaðar er þó stutt í lítil vötn í gígum og skálum. Annars staðar var erfiðara um slíkt, s.s. í Lónakotsseli og í seljunum í Vatnsleysustrandarheiðinni. Aðstæður gætu þó hafa breyst frá því sem áður var. Þannig er t.d. sagt frá læk og jafnvel fossi fram af Stóru Aragjá ofan við hið sérstaka Gjásel. Það er sérstakt af því leyti að í því eru 7-8 samliggjandi raðhús í svo til beinni röð. Tveir stekkir eru við selið, en þeir gefa oft til kynna fjölda selja á hverjum stað. Þannig eru sel frá þremur bæjum í Brunnastaðaseli, fjögur í Knarrarnesseli, tvö í Flekkuvíkurseli.

Straumssel

Eitt opanna við Neðri-Straumselshella.

Selin á Selsvöllum hafa nokkra sérstöðu því þar munu hafa verið sel frá svo til öllum Grindavíkurbæjunum eftir að Baðsvallaselið norðan Þorbjarnarfells lagðist af vegna ofbeitar. Þar má sjá tóttir a.m.k. þriggja selja. Við mörg seljanna, einkum hraunsseljanna, eru fjárskjól með fyrirhleðslum, stundum fleiri en eitt, s.s. í Óttarstaðaseli og Straumsseli. Stundum eru skjólin nokkuð frá seljunum, s.s. fjárskjólið í Brunntorfum, en það hefur líklega upphaflega verið frá Fornaseli ofan við Gjásel.
Enn eitt einkenni selja á Reykjanesi er nálægð fjárborga og/eða fjárskjóla. Eftir skoðun á yfir 70 fjárborgum á svæðinu er að sjá sem sumar þeirra séu beinlínis byggðar með afstöðu seljanna í huga, s.s. Djúpudalaborgin í Selvogi. Hún er í nálægð við Nesselið austan við Hellisþúfu, auk þess sem efst í Hnúkunum hafa fundist tóftir, sem líklegast hafa verið fornt sel. Þær hafa ekki verið rannsakaðar og hafa reyndar hvorki verið skráðar né er þeirra getið í örnefnalýsingum. Við þær tóftir er hol hraunbóla, hraunsskúti, sem notaður hefur verið til skjóls eða annarra þarfa. Þannig háttar einnig til við Litlalandssel ofan við Ölfus.

Straumssel

Hleðslur í Efri-Straumsselshellum .

Hellar hafa víða og verið nýttir til skjóls, en selin norðaustan við Vörðufell ofan við Strandarhæð, sem greinilega eru mjög gömul, t.d. Eimuból (sel Selvogsmanna voru gjarnan nefnd ból, sbr. Þorkelsgerðisból og Bjarnastaðaból nestan undir Hnúkum). Í því er hlaðinn stekkur inni í víðri hraunrás. Skammt vestar eru tóftir og miklar niðurgönguhleðslur við stóran hraunhelli. Innst í hellissalnum er aðeins eitt bein, en annars er ekkert annað á sléttu gólfinu.
Merkilegur hellir, sem Guðmundur Brynjar Þorsteinsson frá Þorlákshöfn fann nýlega, hefur gengið undir nafninu “Bólið”. Alls óljóst er til hverra nota hann var eða ætlaður. Tóftirnar við hellinn eru heldur ekki til í örnefnalýsingum svo vitað sé. Sama á við tóft við gömlu Selvogsgötuna á milli Strandardals og Strandarhæðar. Þar er tóft og hlaðinn stekkur. Einnig suðaustan undir Svörtubjörgum. Þar er greinilegt sel með nokkrum rústum, löngum stekk, kví og fjárskjóli. Inni í því eru hleðslur.

Straumssel

Í Neðri-Straumselshellum.

Reyndar hefur Selvogsheiðin lítt verið könnuð með tilliti til hugsanlegra fornleifa. Þórarinn bóndi Snorrason á Vogsósum taldi að selið undir Svörtubjörgum hafi heitið Staðarsel og verið fráfærusel þar sem lömbin voru færð frá og aðskilin frá ánum. Hann mundi þá ekki eftir því fyrr en farið var að spyrja hann um rústirnar, sem sumar eru mjög vel greinilegar. Líklegra er að þarna sé annað hvort komið sel frá Strönd, “Strandarsel”, því bæði hefur það verið í landi kirkjujarðarinnar Strandar og auk þess hefur það verið allveglegt á meðan var, eða frá landnámsbænum Hlíð við Hlíðarvatn, sem er þarna nokkru vestar. Vestan við selið eru a.m.k. þrjár fjárborgir; Hlíðarborg, Valgarðsborg og  Borgarskarðsborg. Sunnan þeirra er Vogsósasel og vestan þess “Borgirnar þrjár”; þ.e. þrjár hlaðnar fjárborgir á hól skammt austan Hlíðarvatns. Við Eimuból má sjá tóftir Vindássels, en enn austar eru Þorkelsgerðisból og Bjarnastaðaból, hvorutveggja vegleg sel með mörgum tóftum. Þegar leitað var að síðastnefndu seljunum var farið eftir örnefnaskrám úr Ölfusi og ábendingum fróðra manna, s.s. Kristófers Bjarnasonar, kirkjuvarðar í Strandarkirkju, en samkæmt því átti Bjarnastaðasel að vera skammt frá klöppinni “Fótalaus”, þar sem klappað er LM (landamerki) Ness og Bjarnastaða. Selið er hins vegar mun ofar undir Hnúkabrekkunum og er Þorkelsgerðisból þar skammt (10 mín) vestsuðvestar.

Straumsgata

Straumsgatan.

Við Kaldársel eru nokkrir fjárhellar og hlaðinn bálkur í einum þeirra. Í Setbergsseli er fjárhellir með mikilli hleðslu og skiptir önnur honum í tvennt. Að sunnanverðu var Hamarskotssel um tíma. Við Brunnastaðasel er hlaðin kví í gróinni gjá og er hún ennþá nokkuð heilleg. Séstæðastar eru hleðslur niðri í stóra hraunbólu vestan Hellishæðar, sem fyrr voru nefndar. Við munnan er tótt og aðrar skammt austar. Þar eru og hleðslur fyrir hraunrásir. Skammt norðar er Strandarsel [Staðarsel] undir Svörtubjörgum, en að sögn Þórarins Snorrasonar á Vogsósum mun það hafa verið fráfærusel (en annars mun hafa verið fært frá heima við bæ áður en ærnar voru reknar í sel), enda má sjá þess merki á aflöngum stekk sunnan selsins.

Straumssel

Straumssel – Tilgáta ÓSÁ.

Stakkavíkursel er ofan við Grænubrekkur. Við það er opin hraunbóla, líkt og í Hnúkum. Neðan við selið má, ef vel er að gáð, sjá merki enn eldra sels og torfstekkjar. Við nýrra selið er dæmigerður stekkur og hleðslur í fjárskjóli skammt ofan hans. Garðar höfðu í seli í Selgjá og Búrfellsgjá. Heimildir kveða á um að þar hafi verið 11 sel um tíma. Þau munu þó hafa verið aflögð alllöngu áður en Garðar hættu að hafa í seli. Margar minjar eru beggja vegna Selgjárinnar, en færri í Búrfellsgjá. Þar eru og nokkur fjárskjól með veglegum hleðslum. Mestar eru þær í svonefndum Sauðahelli syðri, skammt suðvestan við Selgjána og við Suðurhelli, sunnarlega í gjánni.

Straumssel

Straumssel.

Á Garðaflötum er getið um tóftir og garðveggi í gömlum heimildum og einnig þar má sjá, ef vel er að gáð, tóftir og veggi, greinilega mjög gamalt. Reyndar átti þar að hafa verið bær til forna, skv. sömu heimildum, en líklegra er þó að um selstöðu hafi verið að ræða. Þær tóftir hafa ekki verið kannaðar af fagfólki.

Enn eitt einkenni seljanna eru hinir mörkuðu selsstígar. Víða má sjá þá klappaða í hart bergið eftir klaufir, hófa og fætur liðinna kynslóða. Dýpstar eru göturnar á stígunum vestan Selsvalla, enda hefur umgangur þar greinilega verið mikill um langan tíma. Straumsselsstígur er einnig vel markaður á kafla, en það er áður en hann greinist frá stíg að Gjáseli og Fornaseli, sem eru skammt norðan þess. Víða má rekja þessar götur enn þann dag í dag, en annars staðar eru þær orðnar grónar eða orðnar landeyðingu að bráð, s.s. efst í Vatnsleysstrandarheiðinni.
Þótt sum seljanna hafi ekki verið mjög stór, s.s. Fornasel (Litlasel) ofan Vatnsleysustrandar og Hraunssel undir Löngubrekkum austan Raufarhólshellis, eru tóftirnar bæði lögulegar og vel læsilegar. Í því er flest það sem prýtt getur hefðbundið sel.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðastekkur.

Nýjasel austan Snorrastaðatjarna sem og Snorrastaðasel vestan þeirra hafa og verið lítil sel af ummerkjum að dæma. Svo hefur einnig verið um Hópsselið norðan við Selsháls, Möngusel í Hafnaheiðinni og Stafnessel austan Ósabotna. Kirkjuvogssel í Hafnaheiði hefur hins vegar verið mun stærra, líkt og Vogaselin efst í Vatnsleysustrandarheiði, fast undir Þráinsskyldi.
Merkinesselin í Hafnaheiði voru tvö, hið nýrra og hið eldra, líkt og Vogaselin. Erfitt er að finna eldra selið, en það er mjög gróið, en sandauðn allt um kring. Nýrra selið er mun austar og fallega hlaðið undir gjávegg. Eitt húsanna er enn allheillegt sem og önnur mannvirki. Dæmi eru um að gömul sel hafi orðið framkvæmdum að bráð, s.s. Hraunsholtsselið undir Hádegishól í Garðahrauni, sem nú er í iðnaðarhverfi Garðbæinga á Hraunum.

Einir

Einir við Straumssel.

Í Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalín koma frásagnir af selstöðum sumra bæja á Reykjanesi, en alls ekki allra. Sjá má selja getið í sóknarlýsingum, en þó virðist eins og almennt hafi ekki verið ástæða til að geta þeirra sérstaklega í eldri lýsingum af lands- og búskaparháttum. Reyndar er búskaparháttum yfirleitt lítið lýst í slíkum heimildum eða máldögum. Ein ástæðan gæti verið sú að þeir hafi þótt það sjálfsagðir og á allra vitorði að ekki hafi verið talin ástæða til að geta þeirra sérstaklega. Einungis væri vert að geta þess sem þótti merkilegt sögulega þá er þær voru skrifaðar.

Straumssel

Straumsselið.

Heimildir og sagnir eru af mjög gömlum seljum, en flestar eru þær frá síðari öldum. Vitað er yfirleitt frá hvaða bæjum hvert sel tilheyrði og höfðu sumir saman í seli, s.s. í Knarrarnessi og Brunnastaðaseli, að ekki sé talað um Selsvellina. Margar gamlar beitarhúsatóftir eru og á Reykjanesi, s.s. í Húshöfða norðan Hvaleyrarvatns (Jófríðastaðir), við Ásfjallsrana (Ás) og vestan við Hlíðarvatn (Stakkavík), en ekki er vitað til þess að þau hafi orðið að seljum eða verið notuð sem sel eins og víða annars staðar á landinu. Sel voru frá Hvaleyri og Ási austan við Hvaleyrarvatn og sel frá Stakkavík ofan við Stakkavíkurfjall.

Almenningur

Í Almenningi ofan Straums.

Dæmi eru um sögur úr seljunum, s.s. frá Hvaleyrarseli þar sem nykur átti, skömmu fyrir aldarmótin 1900, að hafa ráðist á og drepið selráðskonuna í fjarveru smalans . Nykurinn átti að fara á milli Hvaleyrarvatns og Urriðavatns (önnur saga segir Lambústjarnar), en frosið þar í hel frostaveturinn mikla árið 1918. A.m.k. sást ekki til hans eftir það. Í Rauðhólsseli undir Rauðhól skammt norðan við Keili var fólki ekki vært eftir tíundu viku sumars vegna draugagangs, en það sel var frá Vatnsleysu .
Tveggja selja er getið í Öskjuhlíð; Reykjavíkurselsins og Hlíðarhúsaselsins og nokkurra undir Selsfjalli við Lækjarbotna. Þar má enn sjá tóftir þessara selja nálægt skátaskálanum, en þær eru þó orðnar ógreinilegar.

Flugmynd

Straumssel – flugmynd.

Víða um land urðu sel að kotbýlum þegar fram liðu stundir. Á Reykjanesi eru líklega einungis þrjú dæmi um að sel hafi orðið að koti, þ.e. í Straumsseli, á Vigdísarvöllum og í Kaldárseli. Bærinn í Straumsseli brann fyrir aldarmótin 1900 og lagðist þá búseta þar niður, en bærinn á Vigdísarvöllum féll að mestu í jarðskjálfta skömmu eftir aldramótin 1900. Þar voru reyndar um tíma tveir bæir. Annar þeirra nefndist Bali og má vel sjá tóftir hans á vestanverðu túninu. Vigdísarvellir var í fyrstu sel frá Krýsuvík, en bæir þar höfðu auk þess í seli undir Selöldu, sbr. sagnir af ræningjunum er komu upp Ræningjastíg og veittust að selráðskonum þar . Um tíma hafi Krýsuvík aðstöðu í Sogaseli, sem síðan fór undir Kálfatjörn. Auk þess er ekki loku fyrir það skotið að einhver Krýsuvíkurbæjanna hafi um tíma nytjað Húshólmann, en inn í hann er greiður og gróinn stígur og ummerki eftir selstöðu norðvestast í hólmanum. Í Kaldárseli var sel framan af og er síðast getið um búsetu Þorsteins Þorsteinssonar þar um aldarmótin 1900, en síðan nýtti Kristmundur Þorleifsson sér fjárskjólin þar um skamman tíma.

Straumssel

Varða við Eystr-Straumsselsstíg.

Oftast bera selin nöfn þeirra bæja, sem gerðu þau út. Flekkuvíkursel var frá Flekkuvík, Hvassahraunssel var frá Hvassahrauni, Óttarstaðasel frá Óttarstöðum o.s.frv. Þó eru dæmi um að selin hafi dregið nöfn sín af staðháttum, s.s. Sogasel í Sogagíg, Selsvallasel af Selsvöllum og Gvendarsel undir Gvendarselshæð af Krýsuvíkur-Gvendi o.s.frv. Hin þrjú svonefndu Fornusel eru væntanlega nefnd svo vegna þess að ekki var ráðið í hvaðan þau höfðu verið gerð út. Þó er líklegt að Fornasel sunnan við Brunntorfur hafi verið frá Þorbjarnastöðum í Hraunum sem og Gjáselið þar skammt norðvestar. Einnig er getið þar um sel frá Lambhaga. Þorbjarnastaðafjárborgin er skammt frá seljunum. Fornasel eða Fornusel (þau eru tvö) undir Sýrholti er hins vegar á huldu, enda virðist vera mjög komin við aldur. Svo virðist sem Þórusel hafi verið þar um tíma, en frásögn af því er óljós. Flestra seljanna er getið í gömlum heimildum og örnefnalýsingum. Nokkur þeirra, a.m.k. þeirra stærstu, má sjá á gömlu kortum, s.s. dönsku herforingjakortunum svonefndu, en annað það er gefur vísbendingu um að sel hafi verið að ræða á tilteknum stöðum eru nafngiftir tengdar þeim, s.s. Selháls, Selshæð, Selsvallafjall, Selsvellir, Selsfjall, Seljahlíð, Selalda, Selstígur og Selshóll.

Straumssel

Varða við Eystri-Straumsselsstíg.

Hlaðin smalabyrgi eru við eða í nágrenni við sum selin eða nátthaga þeim tengdum. Má þar nefna byrgi við Efri-Straumsselshellana, neðan við Stakkavíkursel og við Óttarstaðasel.
Lítið hefur verið fjallað um sel og selbúskap hér á landi þrátt fyrir að hann hafi skipað veigamikinn þátt í atvinnusögu og þjóðlífinu í langan tíma. Egon Hitzler, þýskur fræðmaður, skrifaði bókina “Sel – Untersuchungen zur geschichte des isländschen sennwesens seit der landnahmzeit”, sem gefin var út í Noregi árið 1979. Hann hafði dvalið hér á landi sem styrkþegi við Háskóla Íslands veturinn 1968/69 og notaði það efni í magesterritgerð sína við háskólann í Erlangen-Nürnberg árið 1972. Árin 1974-77 starfaði hann sem sendikennari við Háskóla Íslands og notaði þá tíma til þess að endurskoða, endurbæta og auka við ritgerð sína. Árangurinn liggur fyrir í nefndri bók hans. Bókin, sem er efnismikil um viðfangsefnið, er skipt upp í 8 kafla: Í fyrsta kafla fjallar höfundur m.a. um alþjóðlegar rannsóknir á seljabúskap, heiti og hugtök og fyrri rannsóknir. Í öðrum kafla er fjallað um selin, selhúsin, sel í hellum, seljaþyrpingar, kvíar, sel á eyðibýlum og breyting selja í býli. Í þriðja kafla um skipulag seljabúskaparins, seltímann, selfólkið, búsmalann, selfarir og selgötur, selflutninga og eldivið og vatnsból.

Straumssel

Rétt við Eystri-Straumsselsstíg – Tobburétt austari.

Í fjórða kafla fjallar höfundur um seljabúskap á Íslandi á miðöldum, eðli og þýðing miðaldaheimilda, heimildir frá þjóðveldisöld og heimildir frá 14. og fram á 16. öld.
Fimmti kafli fjallar um seljabúskap á Íslandi fram á byrjun 18. aldar, selstöður í Húnavatns-, Skagafjarðar- og Eyjafjarðarsýslum, útbreiðslu, tegundir og aldur selja og leigusel.
Í sjötta kafla er lýst núverandi aðstæðum í Sauðadal (Hv) og nýtingu hans til seljabúskapar fyrr á tímum, staðhættir og helstu menjar um nýtingu, skiptingu landsins og tilkall til selstaða, heimidlir frá miðöldum og jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem og tegundir selstaða og tímabundnar sveiflur í seljabúskapnum.
Í sjöunda kafla er fjallað um upphaf, þróun og hvarf seljabúskapr á Íslandi, upphaf seljabúskapar á landnámsöld og einkenni hans á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, seljabúskap og eignaraðild á síðmiðöldum, sveiflur og hnignun seljabúskapar á Íslandi, niðurlagningu seljabúskapar á Íslandi og tilraunir til þess að endurvekja hann og glæða nýju lífi.
Í áttunda og síðasta kaflanum er yfirlit og útsýn, umræður um hugtök, íslenski seljabúskapurinn sem sögulegt fyrirbæri og íslenski seljabúskapurinn og nútíminn.
Loks er viðauki um seljabúskapinn á íslandi um aldamótin 1900 og dagleg störf, íslenskt/þýskt orðasafn um seljabúskap og loks einstakar athugasemdir”.

Heildarfjöldi selja árið 1703.

Straumssel

Fyrirhlesðlur í Efri-Straumsselshellum.

Á vefsíðunni má sjá heildaryfirlit yfir sel, sem skráð hafa verið eða hafa fundist á Reykjanesi. Hægt er að ganga að tóftum þeirra allra, utan þriggja, sem horfin eru (Reykjavíkursel í Ánanaustum, Hraunsholtssel við Flatahraun og Kalmannstjarnarsel undir Stömpum). Þá eru tilgreind selaðstaða á a.m.k. þremur stöðum, sem ekki hefur verið skráð hingað til (við Selöldu, í Húshólma og við Hraunsnes vestan við Lónakot).
Yfirlitið segir til um 139 sel á 102 stöðum. Ef það er borið saman við Jarðabók Páls Vídalíns og Árna Magnússonar frá árinu 1703 kemur í ljós að getið er 63 bæja, sem höfðu selstöðu í Gullbringusýslu, auk þriggja bæja í Ölfusi, sem eru vestan við línu þá sem dregin var, þ.e. Hlíðarenda, Litlalands og Breiðabólstaðar. Ekki er getið selja frá Hrauni og Þorlákshöfn. Innan við 66 sel hafa því verið í notkun á um aldramótin 1700 á þessu svæði, en ekki er getið um önnur jafnmörg.

Hraunin

Gengið um Hraunin.

Margt bendir til að mörg sel hafi verið aflögð þegar upplýsingum var safnað, s.s. Fornusel í Sýrholti. Þá er líklegt að selstaða hafi verið færð til eftir landkostum eða af hagkvæmisástæðum og eldri selin þá yfirgefin. Einhver seljanna gætu hafa verið í notkun um stuttan tíma, en síðan verið aflögð og einnig gætu bændur hafa tekið sig saman um selstöðu, þ.e. að fé (og jafnvel kýr) frá fleiri en einum bæ hafi verið haft í sama selinu. Í heimildum um sel á Reykjanesi virðist lítið hafa verið um kýr í seljum. Ef þær hafa verið þar er þess jafnan getið sérstaklega, s.s. á Selsvöllum og við Snorrastaðatjarnir.
Landfræðilega aðstæður á Nesinu hafa ekki beinlínis þótt heppilegar til kúabeitar. Hins vegar eru nokkur örnefni og mannvirki ekki fjarri bæjum er benda til þess að kúm hefur verið beitt þar um tíma, s.s. Kúadalur við Grindavík og Kúadalur ofan við Brunnastaðahverfið á Vatnsleysuströnd. Þar er hlaðin rétt.

Straumssel

Hreiður við Straumssel.

Í Jarðabókinni er ekki alltaf getið um staðsetningu seljanna, en reynt að lýsa kostum þeirra. Þannig segir frá selstöðu frá Hrauni (Grindavík): “Selstaða langt í frá og þó sæmilega góð”. Þórkötlustaðir eru sagðir brúka selstöðu í Krýsuvíkurlandi [Vigdísarvöllum]. Hóp þurfti að kaupa út selstöðu. Á á “selstöðu í heimalandi”. Ummerki eru eftir hana í Dalnum norðan við Hamranes, en þar má sjá hrunið fjárskjól með hlöðnum inngangi og grasi gríð dalverpi. Hlíðar Dalsins eru grasi grónar og seljalegar á að líta. Krýsuvík er sögð hafa tvær selstöður; “aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar”. Þannig virðist Krýsuvík bæði hafa haft selstöðu á Vigdísarvöllum og líklega austan við Selöldu (eða í Húshólma). Ísólfsskáli á ekki að hafa haft selstöðu, en nafnið Selskál í Fagradalsfjalli bendir til einhverra selnota þar.

Straumssel

Í Straumsseli.

Hóp er sagt hafa þurft að kaupa út selstöðu, en tóftir nýrra sels frá Hópi er norðvestan undir Selshálsi vestan Hagafell. “Gálmatjörn” (Kalmannstjörn) er sögð hafa átt selstöðu, en “nú að mestu eyðilögð fyrir sandi”. Á Stafnesi er ekki minnst á selstöðu, en þó er vitað að bærinn hafði selstöðu skammt ofan við Djúpavog við Ósa. Vindás er sagt eiga “selstöðu í heiðinni”. Stakkavík “á jörðin yfrið erfiða, svo varla er hestum fært á fjöll upp, þarf og vatn til að flytja, nema votviðri gángi því meiri, og er hún fyrir þessara ókosta sakir í margt ár ekki brúkuð”.
Yfirleitt er þess getið að selstaða sé annað hvort vatnslaus eða “stórt mein af vatnsskorti”. Í Jarðabókinni er þess jafnan getið hvort selstaðan hafi haft aðgang að vatni, það slæmt eða alls ekkert. Er að sjá sem vatnið hafi verið ein af forsendunum fyrir vali á góðu selstæði.

Straumssel

Straumssel.

Niðurlag.
Ekki verður sagt með fullkominni vissu hvenær selbúskapur hófst hér á landi, en líklegt má þó telja að hann hafi fylgt fyrstu norrænu ábúendunum hingað til lands í kringum árið 870, en slíkur fjár- og kúabúskapur mun hafa verið vel þekktur í Noregi og á Suðureyjum á þeim tíma. Þó svo að sum mannvirkin, einkum fjárborgirnar, hafi fyrirmynd af írskum eða jafnvel skoskum hringlaga mannvirkjum, sbr. fjárborgina í Óbrennishólma í Ögmundarhrauni, er erfitt um sannanir í þeim efnum. Aðalatriðið er þó að selbúskapur var hluti af atvinnusögu landsins frá öndverðu og fram að aldarmótunum 1900, en um það leyti lögðust slíkir búskaparhættir af á Reykjanesi. Selbúskapurinn er því hluti af þjóðlífi og atvinnusögu landsins í u.þ.b. eittþúsund ár.

Straumssel

Straumssel.

Ástæða er til að varðveita og halda á lofti þessum þætti búskaparháttanna þar sem allt snérist um að halda lífi í sauðkindinni svo sauðkindin gæti haldið lífi í landsmönnum. Hinar fjölmörgu minjar og selsmannvirki á Reykjanesi bera þess glöggt vitni.
Guðrún Sveinbjarnardóttir ritaði grein í Acta Archaeologica 62 árið 1991, sérhefti um rannsóknir á Norður Atlantshafssvæðinu. Þar fjallar hún um einstök sel í Eyjafjallasveit, Skagafirði og Berufirði í tengslum við önnur verkefni. Hún kemst að þeirri niðurstöðu að sel á Íslandi hafi sérkenni sem eru ekki endilega þau sömu og sel frá heimalandi landnámsmanna, Noregi. Meginmunurinn er sennilega vegna ólíks landslags sem kröfðust ólíks skipulags. Af athugun hennar sé ljóst að meiri rannsóknar er þörf á seljum á Íslandi, bæði fornleifafræðilega og fornfræðilegra.
Sjá Myndir.

Heimildir m.a.:
-Örnefnastofnun.
-Gísli Sigurðsson.

Straumssel

Straumsselsvarða.

Straumur

Í bókinni „Á förnum vegi – rætt við samferðafólk“ eftir Loft Guðmundsson er rætt við „Einbúann að Óttarstöðum“ – Guðmund bónda Ingvarsson.

Óttarstaðir

Guðmundur Ingvarsson á Óttarstöðum efri.

„Við ökum fyrir Straumsvíkina út á Vatnsleysuströnd, lognværan sólskinsdag seint í júní. Sjór er ládauður úti fyrir, varla að sjáist kvika við fjörugrjótið og ekkert lífsmark við víkina. Undarlegt til þess að hugsa að þar eigi á næstunni að rísa nýtísku stóriðjuver og voldug hafnarmannvirki. En svo hefur manni verið fortalið, og ekki farið dult með það.
Þó virðist það jafnvel öllu ótrúlegra, þegar manni verður litið út eftir ströndinni, að ekki skuli vera mannsaldur síðan þar var blómlegt athafnalíf og annríki mikið til sjós og lands – hörkuútræði, enda skammt á fengsæl mið, og arðvænlegur sauðfjárbúskapur, því að fé gekk að kalla sjálfala í hrauninu, jafnvel í snjóa- og frostavetrum. Þess sér að vísu merki enn, að þarna hefur verið þéttbýlt, því það er ekki lengra en það síðan þetta var, að bæjarhús standa enn, en yfirleitt auð; þó mun enn einhverskonar búskaður á nokkrum af hinum gömlu stórbýlum. Og kynlegt er það, að sjá hvergi mann við störf úti við á virkum degi; aftur á móti má líta gljáandi lúxusbíla sumstaðar á bæjarhlaði eyðibýlanna, og er örðugt að ímynda sér erindi þeirra í þessa kyrrlífsmynd sofandi túngarða og lágreistra íbúðarhúsa, sem móka undir ryðbrunnu bárujárni og dreymir liðna tíð.

Óttarsstaðir

Óttarstaðir efri.

Veginn þrýtur og við taka þröngir troðningar inn á milli túngarðanna, svo við yfirgefum jeppann og höldum fótgangandi þann spöl, sem eftir er heim til Guðmundar bónda Ingvarssonar að Óttarstöðum efri.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestri – útsýni úr baðstofuglugga.

Ekki höfum við lengi gengið, þegar okkur býður í grun að ekki muni þessi sólbjarta og lognværa kyrrlífsmynd öll þar sem hún sýnist, og um leið förum við að skilja, hvernig þar muni standa á lúxusbílunum. Nýtískuleg tjöldin fyrir litlum og rúðusmáum gluggum á gömlu bæjunum gefa til kynna nýtt landnám innan hárra, mosagróinna grjótgarðanna, er skipta túnskákunum. Við reynum eftir bestu getu að horfa beint fram troðninganna og gjalda þannig líku líkt af riddarlegri hæversku þeim íturvöxnu kvenfulltrúum þeirrar nýju landnámskynslóðar, sem liggja í sólbaði í mjúku grasinu í skjóli túngarðanna og látast ekki vera varir ferða okkar. Og ósjálfrátt hvarflar það að okkur, að einbúanum á Óttarstöðum efri kunni að vera það nokkurt happ að vera kominn yfir á níunda aldurstuginn, annars yrði honum ef til vill tafsamara við túnsláttinn og eiga slíka nágranna. Að minnsta kosti er ekki ólíklegt að einhverntíma hefði það vafist fyrir vermönnunum, sem hlóðu alla þessa grjótgarða í landlegum, að velja þar steini stað, ef þeir hefðu mátt líta það í sýn, sem nú freistar augna okkar í skjóli handverka þeirra.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestari.

En hvað um það; okkur tekst að þræða götuslóðana heim á hlað á Óttarstöðum efri án þess að sú augnafreisting verði okkur að falli. Guðmundur bóndi stendur fyrir dyrum ásamt tveim dóttursonum sínum ungum, og fagnar okkur vel. Ekki ber hann þá utan á sér, þessa rúmlega átta áratugi, og áreiðanlega ekki hið innra með sér heldur, þá mundi ekki eins létt yfir honum og raun ber vitni. Hann er meðalmaður á hæð, tággranur, hreyfingarnar svo mjúkar og stæltar, að margur fertugur skrifstofumaðurinn mættu sannarlega öfunda hann af. Græskulaust kímnisbrosið er honum eiginlegt og glettnisglampinn í daökkgráum augunum, sem eru snör og vökul undir loðnum, hærugráum brúnum.

Óttarsstaðir vestari

Óttarsstaðir efri (vestari).

Fyrir framan bæjarhúsin er allstór kálgarður, vel hirtur og sér hvergi í mold fyrir hávöxnu kartöflugrasi, en í einu horninu er skák vaxin leggdigrum og safamiklum rabbabara. Túnið er allstórt, eftir því sem þarna gerist, og vel sprottið; sléttir harðvellisbalar og víðast hvar grunnt á hraungrjótinu. Guðmundur kveðst nota gamla lagið við þetta; stinga garðinn upp með skóflu og slá túnið með orfi og ljá, – jú það held ég, segir hann og hlær við.
-Hvað er túnið stórt?

Ég fæ venjulega af því hundrað og tuttugu hesta.
-Og slærð það einn?
-Já, það held ég nú. En nú eru drengirnir farnir að hjálpa mér við uppvinnuna og snúninga, en tengdasonur minn ekur töðunni á jeppa heim í hlöðu. Dætur mínar eru hérna viðloðandi á sumrin, önnur hér heima en hin í húsi hérna viðloðandi neðan. Jú, ég hef slegið þetta tún einn í meira en fjörutíu ár.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir.

-Ertu ekki farinn að finna til þreytu eða gigtar?
-Nei, blessaður vertu. Ég kann ráð við því. Fæ mér göngu, hleyp út í hraun að eltast við rollurnar, eða gríp í orfið. Hreyfingin – hún er óbrigðul. Og Guðmundur hlær við enn.
-Hefurðu verið svona heilsuhraustur alla ævi?
-Það held ég. Fékk einhverntíma mislinga, sennilega krakki því mig rekur ekki minni til þess. Síðan ekki söguna meir, ekki legið rúmfastur einn dag. Fékk ekki svo mikið sem snert af spænsku veikinni, þegar hún gekk hérna, og kom þó víða daglega hér í kring.
-Og þú hefur alltaf verið lífsglaður og léttur í skapi?

Óttarsstaðir vestari

Óttarsstaðir efri.

-Já, maður lifandi. Ekki dugar annað, enda ekki ástæða til annars; ekki finnst mér það. Og svo er maður alltaf eitthvað að dudda.
-Þú býrð einn hér í húsum allan veturinn, eftir að dæturnar eru farnar til síns heima?
-Já, mér verður nú ekki mikið fyrir því. Leiðis aldrei. Ég huga að kindunum, elda í mig matinn, soðningu og kartöflur og mjólkurgraut; saltkjöt endum og eins, en annars er ég orðinn ónýtari við kjötið síðustu árin. Og svo drekk ég kaffi og þykir það gott; les bækur og blöð, því að nóg er næðið – en á sumrin má það heita undantekninh, að líta í blað. Og aldrei hef ég verið myrkfælinn um ævina, og aldrei heldur orðið veitt var við þessháttar, hvorki hér né annars staðar, ekki nokkurn hræranlegan hlut…
-Ertu kannski borinn og barnfæddur hérna á Vatnsleysuströndinni, Guðmundur?

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestri fyrrum.

-Nei, nei. Hingað kom ég fyrst tæplega þrítugur, sem vertíðarmaður til Bjarna ríka á Stóru-Vatnsleysu, Stefánssonar og reri hjá honum sex vertíðir. Giftist svo skömmu eftir að ég fór að vera hérna, konu af Vatnsleysuströndinni. Fyrsta árið bjuggum við í tómthúsi að Stóru-Vatnsleysu, en svo keypti ég hálfa Óttarsstaðina og hef verið hér síðan. Keypti jörðina á hálft sjötta þúsund krónur með þeim bæjarhúsum, sem enn standa og þú getur séð, en öll útihús hef ég byggt upp. Nú er konan áttatíu og fjögurra ára og hefur legið í sjúkrahúsi í Hafnarfirði og elliheimilinu þar í full tíu ár. En ég held mig hérna…

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir efri og neðri.

-Eru nokkur sérstök hlunnindi hérna – æðarvarp eða hrognkelsaveiði?
-Hér hefur aldrei verið æðarvarp, að því er ég best veit; ein og ein kolla, sem gerir sér hreiður úti í hrauninu, þar sem enginn fer um. Selur hefur aldrei veiðst hér heldur og sést hér sjaldan neitt að ráði. Fjörubeit hefur alltaf verið góð, en aldrei hefur borið neitt á skjögri, að minnsta kosti ekki á meðan gamla féð var hérna. Og hérna er mikil hrognkelsaveiði á vorin, en nú er hún þorrin, sést hvorki rauðmagi né grásleppa frekar en annar fiskur.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðavör.

Áður gekk þorskurinn hér inn fyrir hólma; við fengum oft stærðaraula í hronkelsanetin. Og einu sinni var ég einn á kænu úti á víkinni og dró sextíu á handfæri á svipstundu að kalla. Hann tók beran öngulinn og var svo óður, að ég hafði ekki við að draga hann. Eftir að ég hætti að róa á áttæringnum hjá Bjarna á Stóru-Vatnsleysu, reri ég margar vertíðir á fjögurra mann afari hérna úr vörinni með bóndanum á Óttarstöðun neðri, og við fiskuðum ágætlega. Ég fékk ellefu hundruð krónur, bara fyrir bolinn, inni í Hafnarfirði eftir eina vertíðina, og þar var drjúgur skildingur þá. Það var þegar þeir Booklesbræður voru með togaraútgerðina í Hafnarfirði. Þeir vildu kaupa Straumsvíkina, gera þar höfn, og vitanlega ætluðu þeir að gera út togara þaðan. Buðu í hana 500.000 krónur, sem þá þótti gífurlegt fé, en eigendunum, Bjarna, sem síðar varð skólastjóri á Laugarvatni, og þórði lækni Edilonssyni, fannst það of lágt boðið og vildu ekki selja. Að minnsta kosti var sagt, að það hefði verið þess vegna…

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – staðfastur girðingarstaur.

-Þú hefur komist í sæmileg efni hér á Óttarstöðum, eftir því sem um var að gera, þegar þú varst og hést?
-Já, það væri vanþakklæti að segja annað.
-Vildirðu vera kominn á manndómsaldurinn aftur, Guðmundur? Um borð í áttæringinn hjá Bjarna á Stóru-Vatnsleysu?
-Ég hefði ekkert á móti því. Og ætli ég kynni ekki áralagið.
-Hvenær á ævinni heldurðu að þér hafi liðið best?
Guðmundur á Óttarstöðum tekur tappann ú bauknum og fær sér í nefið.
-Það veit ég hreint ekki, svarar hann og hlær glaðlega. Mér hefur alltaf liðið vel…“.

Heimild:
-„Á förnum vegi – rætt við samferðafólk“ eftir Loftur Guðmundsson, Ægisútgáfan, Reykjavík 1966. Einbúinn að Óttarstöðum – Guðmundur bóndi Ingvarsson sóttur heim, bls. 113-122.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – örnefni (ÓSÁ).

Litli-Lambhagi

Nokkrir sumarbústaðir voru byggðir í Hraunum við Straumsvík nokkru fyrir miðja 20. öldina. Meðal þeirra sem heilluðust af þessu sérstæða og að margra mati fallega landsvæði voru þrír félagar, bræðurnir Marinó og Kristinn Guðmundssynir sem voru báðir málarameistarar og Björn Jóhannesson doktor í jarðvegsfræði sem hafði mikinn áhuga á hegðun laxfiska. Þeir voru afar heillaðir af Lónakoti og tjörnunum sem þar eru en þar gátu þeir ekki fengið land á leigu eða til kaups. Gengu þeir þá eftir strandlengjunni frá Lónakoti og inn fyrir Straumsvík til Hafnarfjarðar og þaðan út á Álftanes í leit að ákjósanlegum stað til að reisa sumarkofa eins og þeir kölluðu það.

Straumur

Straumur.

Eftir að hafa grandskoðað strandlengjuna voru þeir sammála um að innsti hlutinn við norðaustanverða Straumsvík væri ákjósanlegasti staðurinn. Þar hafði staðið kotbýlið Litli-Lambhagi á tanga sem heitir Stróki og skammt frá honum voru Hólmarnir og Straumsvatnagarðar. Þar voru aflögð útihús og merkilega vel hlaðið eldhús úr hraungrjóti frá því seint á 19. öld. Eftir nokkra eftirgrennslan  fengu þremenningarnir leyfi til að reisa lítið íveruhús innarlega á Stróka.

Bjarni Bjarnason

Bjarni Bjarnason.

Bjarni Bjarnason skólastjóri Héraðsskólans á Laugarvatni átti þetta land allt, en hann eignaðist jarðirnar Straum og Þorbjarnarstaði ásamt Litla- og Stóra-Lambhaga árið 1919. Rak hann um árabil ágætis bú í Straumi og nytjaði allar jarðirnar til heyskapar og beitar. Bjarni lét byggja Straumshúsið sem enn stendur árið 1927 úr steinsteypu eftir að gamli bærinn brann. Sá sem teiknaði húsið var Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins, en húsið ber svipmót burstabæjar, en Guðjón hafði áhuga á að skapa nýja íslenska byggingarhefð með skírskotun til fyrri tíma.

Þegar Bjarni ákvað að selja jarðir sínar við Straumsvík rétt eftir seinni heimsstyrjöldina keypti Björn landspilduna umhverfis sumarkofa þeirra félaga, með landamerkjum nokkru austan Stróka. Höfðu þeir stækkað húsið það mikið að hægt var með sanni að tala um sumarhús enda dvöldu þeir oft ásamt vinum og ættingjum á þessum slóðum sumarlangt og lengur ef aðstæður leyfðu.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambhaga.

Ástæðan fyrir staðarvalinu var sú að við Stróka fannst þeim ríkja fágæt náttúrufegurð. Spilaði þar inn í  hversu merkilegt náttúrufarið er við hina lygnu og friðsælu Straumsvík þar sem ferskt vatn rennur framundan hrauninu og veldur því að sjórinn er afar tær á þessum slóðum. Grashólmar og sker innst í Straumsvík skipta stöðugt um svipmót þar sem sjórinn á það til að hylja landið á flóði og svo birtist það aftur þegar fellur út og fjarar. Fallaskiptin og mismunandi sjávarstaða eftir því hvernig stendur á flóði og fjöru hafa veruleg áhrif á umhverfi Stróka og valda síbreytilegu náttúruspili. Þarna var líka fjölskrúðugt fuglalíf, stundum sáust selir á sundi eða þeir sóluðu sig á skerjum rétt hjá Stróka alveg óhræddir. Sólarlagið var líka töfrandi og myndaði Snæfellsjökul og Snæfellsfjallgarðurinn handan Faxaflóans einskonar ramma sem sólin settist á bak við. Litbrigði náttúrunnar breyttust árið um kring og stundum var hafið ólgandi og skolaði þara og fiski upp á hólmana en á öðrum tímum var þetta kyrrðarinnar staður þar sem tíminn stóð nánast í stað. Refur átti það til að sjást á vappi í fjörunni og minkar gerðu sér greni framarlega á tanganum þar sem fiskur lónaði stutt frá landi.

Straumsvík

Straumsvík 1965.  Á myndinni sjást m.a. Litli- og Stóri-Lambhagi sem og tjarnirnar.

Landspildan var tekin eignarnámi þegar undirbúningur að álverinu hófst um miðjan sjöunda áratuginn en þá höfðu Björn og félagar stundað tilraunir með laxeldi í Straumsvík um nokkurt skeið. Þessar tilraunir grundvölluðust á einstæðum vatnsbúskap svæðisins.

Lambhagi

Lambhagi – stífla v/fiskeldis.

Stuttu eftir að félagarnir byggðu sumarhúsið fóru þeir að mæla og efnagreina ferskt grunnvatnið sem fellur út í Straumsvík undan hrauninu við botn víkurinnar. Reiknuðu þeir út að talsverður hluti Kaldár, sem hverfur ofan í hraunið rúmlega kílómetra neðan upptaka sinna, félli til sjávar rétt vestan við Stróka. Allavega töldu þeir sig geta greint það á fjöru að allstraumhörð ferskvatnskvísl félli í þröngum stokki með fram nyrsta hluta tangans. Þeir mældu hitastig grunnvatnsins sem streymdi undan hrauninu margsinnis og reyndist það vera nákvæmlega 4 gráður á Celsíus árið um kring. Stóðu mælingarnar árum saman og alltaf voru niðurstöðurnar þær sömu. Björn var sannfærður um að vatnið hefði hagstæða efnaeiginleika fyrir laxaklak og sökkti hann vírkörfum í lón við hraunjaðarinn til að sannreyna þetta. Niðurstaðan var sú að laxaklakið skilað góðum árangri en ekki var alveg ljóst hvernig nýta mætti aðstöðuna við Straumsvík til laxaframleiðslu.

Straumsvík

Mannvirki í tjörnunum við Lambhaga.

Þeir prófuðu sig áfram og fljótlega gerðu þeir tilraunapoll í litlu lóni sunnanvert við Stróka nálægt Keflavíkurveginum sem hlaut nafnið Pollurinn. Hann var dýpkaður með jarðýtu en þannig háttaði til að lónið tæmdist ekki þó að fjaraði út vegna þess hversu mikill vatnsstraumurinn var undan hraunjaðrinum. Steyptu þeir félagar einskonar hlið eða dyraumbúnað við mynni Pollsins þar sem hægt var að koma fyrir gildru. Laxar gátu þar með gengið í Pollinn en áttu þaðan ekki undankomu nema þeim væri hreinlega sleppt lausum í sjóinn. Pollurinn var hreinn og moldarlaus til að byrja með, en þegar vegur var lagður að álverinu rétt við hliðina á Pollinum barst talsvert magn af fokefnum í hann. Þar með varð botninn þakinn þykku leðjulagi sem hefði þurft að moka í burtu eða reyna að skola út með útfallinu. Þetta var hins vegar ekki gert þannig að aðstæður í Pollinum breyttust með tíð og tíma.

Straumsvík

Straumsvík 2020.

Félagarnir eyddu mikilli vinnu, tíma og fjármunum í að flytja bleiklax frá Alaska til Íslands 1965 til 1966. Árangurinn varð neikvæður að öðru leyti en því að flutningur á 120.000 aughrognum frá Kódakeyju til Íslands tókst vel. Samvinna við Veiðimálastofnun tókst ekki um framkvæmd þessarar tilraunar, en vorið 1966 sýndu þeir fram á að laxaseiði silfrast við 4 gráðu hita á 6 vikum. Þegar Marinó og Kristinn féllu frá hélt Björn áfram að nýta aðstöðuna á Stróka og stunda þarna tilraunir sínar.

Straumsvík

Straumsvík – Loftmynd af svæðinu.

Sumarið 1980 var sjógönguseiðum sleppt úr Pollinum eftir 56 daga dvöl í körfu og sneri ein 4,5 punda hrygna aftur í Pollinn sumarið eftir. Gerð var hafbeitartilraun í Pollinum 1981 til 1982 og kom í ljós að eftir 84 daga svelti sjógönguseiða í körfu lifðu næstum því öll sumarið 1982. Sumarið áður var sjógönguseiðum haldið í körfu í Pollinum með sáralítilli fóðrun í 56 daga áður en þeim var sleppt til sjávar. Aðeins eitt af þessum seiðum rataði aftur heim í Pollinn árið eftir. Þá var búið að koma fyrir nokkrum laxaseiðum í körfu í Pollinum, en norðmaðurinn Nordeng varpaði þeirri tilgátu fram að lax gangi ekki í vatn nema þar séu fyrir laxaseiði eða lax. Taldi Björn að hrygnan sem skilaði sér í Pollinn um sumarið hefði sennilega ekki gert það ef þar hefðu ekki verið fyrir laxaseiði.

Lambhagi

Lambhagi um 1970.

Laxeldisfyrirtækið Pólarlax var um árabil með aðstöðu Hafnarfjaðrarmegin við álverið og notaði meðal annars hvalalaug Sædýrasafnsins í eldisstarfinu. Sumarið 1981, sem var sama sumar og hrygnan skilaði sér í Pollinn, sleppti Pólarlax þó nokkrum stórum laxaseiðum úr kví sem var í Straumsvík. Sumarið eftir komu miklar laxagöngur inn í Straumsvík og stökk laxinn í víkinni svo að ekki fór á milli mála að þarna var eitthvað um að vera. Kom það fyrir þegar mest gekk á að hálfgert umferðaröngþveiti skapaðist á Reykjanesbrautinni því vegfarendur snarhemluðu og hlupu út úr bílum sínum til að fylgjast með þessari óvenjulegu sjón. Laxinn var að koma heim eftir vetrardvöl í hafinu og þetta sjónarspil var alveg einstakt.

Straumsvík

Straumsvík.

Vonir manna um að laxinn gengi upp í ferskvatnslónin í Straumsvík gengu ekki eftir þar til Björn lagði til að komið yrði fyrir körfu með laxaseiðum í Pollinum. Þetta virkaði eins og segull og 5. ágúst 1982 höfðu 170 laxar gengið í Pollinn. Endurheimtur sjógönguseiðanna sem sleppt var 1981 og komu sem sjógengnir laxar sumarið eftir voru um 20% til 30% en stórar torfur gengu í ystu lónin í lok veiðitímans án þess að hægt væri að handsama þær. Heimtur reyndust ekki eins vel og reiknað var með en menn voru sannfærðir um að þær gætu gengið betur þar sem laxinn skilaði sér aftur á heimaslóðir þó hann gengi ekki allur inn Pollinn. Niðurstaðan var því sú að heimtur gætu vaxið með árunum ef réttum aðferðum væri beitt. Prófað var að sleppa seiðum næstu árin úr kvíunum utan við hvalalaugina en heimtur voru ekkert sérstakar.

Litli-Lambhagi

Eldhús og tóftir við Litla-Lambhaga.

Næsta skipti sem sjógönguseiðum var slepp úr kvíum í Straumsvík var sumarið 1985. Sami háttur var hafður og fyrr. Seiðum komið fyrir í körfu í Pollinum sumarið 1986 sem hafði þau áhrif að laxar gengu í Pollinn og tilraunin sannaði sig í raun og veru. Eftir þetta gerðist ýmislegt sem varð til þess að fiskeldisfyrirtækið Pólarlax var tekið til gjaldþrotaskipta 20. janúar 1989 og lauk skiptunum 20. desember 1991 án þess að nokkuð hefði fengist greitt af lýstum kröfum. Þar með var botninn farinn úr þessum merku tilraunum með laxfiska í Straumsvík.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Sumarhúsið á innanverðum Stróka grotnaði smám saman niður þar til það var ekki talið forsvaranlegt að láta það standa og var það rifið og efniviðurinn fjarlægður. Nú er ekkert annað eftir en steinsteyptar gólfplötur og gamla eldhúsið sem hlaðið var fyrir rúmlega einni öld. Þetta hús er nákvæmlega eins í lögun og að allri gerð og samsvarandi hús við Óttarsstaði eystri og vestri, bara örlítið minna umfangs. Löngu var búið að breyta steinhlaðna húsinu í svefnhýsi með tilheyrandi veggklæðningum úr viði og innanstokksmunum. Húsið stendur nú opið fyrir veðrum, vindum og spellvirkjum og bíður þess sem koma skal, en það væri gustukaverk að halda því við og sjá til þess að síðasta heillega steinhlaðna húsið í Hraunum fengi að standa áfram um ókomna tíð.

Sjá meira HÉR.

Heimild:
http://www.hraunavinir.net/fiskeldi-og-sumardvolvidstraumsvik/#more-950

Lambhagi

Lambhagar fyrrum. Stóri-Lambhagi framar

Lambhagi

Eftirfarandi viðtal við Magnús Guðjónsson birtist í Vísi fimmtudaginn 19. júní 1969 undir yfirskriftinni „Bóndinn í STRAUMSVÍK„:

Straumsvík

Myndin fylgdi viðtalinu (tekin 1969). Álverið í baksýn.

„Hin mikilfenglegu mannvirki, sem rísa upp norðan Straumsvíkur, vekja athygli þeirra vegfarenda, sem ekki eru þar daglega á ferð. En sjálfsagt verður það með þau eins og margt annað, að vaninn slævir eftirtektina og hin því nær kílómetralanga verksmiðjubygging hættir að vekja sérstæð viðbrögð augans.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambhaga.

Hraunið, sem nú hefur verið brotið niður, bjó yfir dulrænni fegurð í litbrigðum ljóss og skugga. Á því var aldrei hinn óumbreytanlegi kuldasvipur steinmúranna. Lifandi mosafeldur brosti við skapara sínum eins og önnur jarðarinnar börn.

Árið 1891 bjuggu í Stóra-Lambhaga í Hraunum, Guðjón Gíslason og Kristbjörg Steingrímsdóttir. Þann 21. september það ár fæddist sonur þeirra Magnús. Þá var fjölbýlt í Hraunahverfinu, enda fólkið margt, búskapur nokkur og áraskipaútgerð. Guðjón var útvegsbóndi, hélt út og stjórnaði sjálfur sex rónu skipi, varð honum gott til manna, því hann var ötull sjósóknari og aflasæll.
Þótt oft væri snöggslægt Lambhagatúnið eftir langvarandi þurrka, tókst honum oftast að hafa tvær kýr og rúmlega eitt hundrað sauðfjár. En sum ár varð hann að sækja nokkurn heyskap inn á Álftanes.

Óttarsstaðir

Hraunin – herforingjaráðskort.

Á þessum tíma voru eftirtalin býli og hjáleigukot í Garðahreppi sunnan Hvaleyrar: Stóri-lambhagi, Litli-Lambhagi, Gerði, Þorbjarnarstaðir, Péturskot, Straumur, Þýzkabúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Eyðikot, Óttarsstaðir og Lónakot. Það var ysti bær í Garðahreppi hinum forna.
Eins og fyrr er sagt, var mikil sjósókn frá þessum bæjum með an enn þá var öld áraskipanna. Oftast var stutt róið. Aðalmiðin voru Lóndjúpið Brúnin eða vestur á Svið. Til bar það, að farið var út í Garðssjó væri ördeyða á innmiðum, en þangað var að eins farið á velbúnum skipum að forviði, veiðarfærum og mannafla.

Straumur

Straumur 1935.

Venjulega var aflavon þangað til togararnir fóru að skafa botninn með fram ströndinni, þá skipti sköpum. Ýmsir útvegsbændur voru brúnaþungir þegar þeir sáu aðfarirnar. Fullir pokar voru dregnir upp. Koli og lúða var hirt en öðrum fiski var hent og flaut hann dauður um allan sjó. Þetta varð til þess að sumir fóru að sækja í togara. Aðrir voru svo stórir af sjálfum sér að þeir höfðu ekki skap til en sátu í landi með sárt ennið, og bölvuðu ástandinu án þess að fá nokkuð að gert.

Á vertíðinni var oft margt að komumanna, sem reru á útvegi heimabænda. Lending var fremur góð umhverfis Straumsvíkina bæði í Stóra-Lambhaga og þó sérstaklega við Straum eða í Straumsós en inn á hann varð aðeins komist á flóði og þarna er mikill munur flóðs og fjöru.

Litli-Lambhagi

Eldhús við Litla-Lambhaga. Straumur fjær.

Á þessari öld, þegar ýmiss konar skoðanakannanir virðast vera mjög ofarlega á dagskrá, er það ekki óalgengt, að þeir sem fræðast vilja taki upp símann, velji númer og spyrji um álit manna, sem þeir aldrei áður hafa átt nein samskipti við.
Vel má vera að með svona hátta lagi þyki sumum sér nóg boðið, jafnvel þótt orðnir séu aldurhnignir og hafi á langri leið ýmsu kynnst og mörgu vanist.
— Hringdu bara, — segir Hrafnkell sölustjóri, og svo hringi ég.

Bifreiðin undir stjórn Magnúsar Guðjónssonar rennur mjúklega suður Hafnarfjarðarveginn. Hann er kunnugur þessari leið gamli maðurinn, því frá árinu 1916, að hann tók bifreiðastjórapróf hjá Agli Vilhjálmssyni, hefur hann oft setið undir stýri og lengst af milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.

Straumsvík

Straumsvík 1965. Á myndinni sjást m.a. Litli- og Stóri-Lambhagi sem og tjarnirnar.

Hann vildi gjarnan láta fólkinu í sín um heimabæ góða þjónustu í té og auðvelda því ferð til höfuðstaðarins. Árið 1922 fékk hann Kristján vagnasmið til þess að byggja fyrir sig farþegahús á vörubíl. Það rúmaði 13 manns. Þá varð Steindór Einarsson reiður og sagði að með þessu væri Magnús að stofna til harðvítugrar samkeppni við sína dýru og fullkomnu fólksbíla, en hann hafði þá keypt eina tuttugu slíka. En Magnús lét sig ekki og hélt sínu striki, sagði aðeins: „Stærri bifreiðar til fólksflutninga er það sem koma skal“, og sú varð raunin á. Það sá Steindór síðar.
Og nú byrjar fræðslan.
– Sjáðu, hérna, þar sem við ökum með fram höfninni í Hafnarfirði var áður sjór. Þetta er nýtt land gjört af mönnum. Þar sem vegurinn liggur framan undir hamrinum var áður hyldýpi. Í Ásbúðum bjó Andrés Jónsson. Ásbúðir, það er litli bærinn með fánalitunum þarna undir brekkunni Andrés safnaði fornminjum. Ég starfaði að þessu með honum af og til í fimmtíu ár, ók út um sveitir og sótti muni. Nú er sérstök deild í Þjóðminjasafninu, sem varðveitir þessar minjar, — Ásbúðasafnið. —

Hafnarfjörður

Ásbúð og nágrenni.

— Hér er Óseyrin, þar var áður býli og oftast vel búið. Einu sinni átti þar heima ísak í Fífuhvammi. Einar Þorgilsson útgerðarmaður þurrkaði fisk á grandanum framan við eyrina. Þarna syðst er svo Hvaleyrin. Sú jörð átti landamerki móti Stóra-Lambhaga. Í Óseyrar og Hvaleyrartjörnum var fyrrum mikil rauðsprettuveiði. Já, ég man vel aðra mynd af Hafnarfirði en þá sem nú er sýnileg þeim sem um veginn fara.
Nú erum við komnir móts við hið mikla mannvirki — Álbræðsluna — sem reist hefur verið á landi Stóra-Lambhaga.
— Hér er orðið breytt síðan ég var að smala hraunin og ára skipum var hrundið á flot og ráðið til hlunns í Straumsvíkur og Lambhagavörum.

Straumsvík

Straumsvík – Loftmynd af svæðinu.

Fyrstu sjóferðina fór ég 9 ára gamall. Ekki mun þá hafa verið til mikillar liðveislu ætlast, enda var pilturinn lítt til stórræða, því sjóveikin þjakaði mig mjög og var svo jafnan, enda þótt ekki þýddi að láta slíkt á sig fá. Uppeldissystur minni, Margréti Magnúsdóttur, var öðruvísi farið. Hún var bæði kjarkmikil og sjósterk, enda reri hún sem dugandi karlmaður væri og þótti engu síður hlutgeng. Ekki sjaldan kom það fyrir, að hún fór á sjóinn þegar verra var veður og ég kaus heldur að hirða fé föður míns.

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi – túnakort 1919.

Einu minjarnar um hina fornu byggð í Stóra-Lambhaga er vörin, sem lent var í og þetta gamla fjárhús við sjóinn. Í Straumi bjó lengi Guðmundur Símonarson. Hann hafði stórt bú. Þó sérstaklega sonur hans, Guðmundur Tjörfi, hann hafði mikinn fénað. Hjá honum var „Stjáni blái“ oft á veturna áður en vertíð hófst. Stjáni ólst upp hjá séra Þórarni í Görðum, kom þangað 7 ára gamall frá Klöpp í Reykjavík. Séra Þórarinn keypti áraskip handa honum og Óla Garða. Stjáni var mikill sjómaður, ég þekkti hann vel.
Þegar hann fór sína síðustu för var ég á bryggjunni í Hafnarfirði. Stjáni var örlítið ör og þegar ég hafði orð á því að honum lægi ekkert, á út eftir, leit hann til mín þeim augum, sem gáfu greinilega til kynna, að það væri hann en ekki ég, er réði þár ferðinni.

Stóri-Lambhagi

Stóri-Lambhagi – túnakort 1919.

Mun ég sennilega hafa verið einn þeirra síðustu, sem rétti honum höndina til kveðju.
Svo „strengdi Stjáni klóna“, settist við stjórn og tók stefnu fyrir Keilisnes. Hann var þá búsettur í Keflavík. Hið snjalla kvæði, sem Örn Arnarson kvað, mun gefa nokkuð sanna hugmynd um þessa síöustu siglingu og einnig um manninn sjálfan, Meðan Stjáni var formaður fyrir séra Þórarin í Görðum reri hann venjulega úr Garðavör og sótti oftast út á Svið.

— Í Straumi bjó síðar Bjarni Bjarnason, sem lengi var skólastjóri héraðsskólans á Laugarvatni. Hann var þá kennari í Hafnarfirði.

Straumur

Straumur.

Nú eru því nær öll hraunabýlin í eyði fallin. Að vísu hefur verið rekið svínabú í Straumi, en heyrt hef ég á orði haft, að þeim rekstri mundi senn lokið. Á Óttarsstöðum eru heimilisföst roskin hjón. Húsbóndinn stundar smíðar og auk þess hafa þau nokkur hænsni.
Öll þau ár, sem ég var heima í Stóra-Lambhaga, voru í Eyðikoti þrjú systkini – bræðurnir Sveinn og Guðmundur og systirin Steinunn Bergsteinsbörn. Sveinn var sjómaður en Guðmundur var sjálfmenntaður járnsmiður. Hann smíðaði mikið af skónálum og brennimörkum.

Lambhagi

Lambhagi.

Smiðjuhurðin bar glögg merki þeirrar iðju. Eins og ég drap á áðan, þá höfðu bændur hér í hverfinu talsverðan búpening. Enda þótt heyfengur væri venjulega rýr, þá kom þar f móti, að sauðfé var mjög létt á fóðrum. Marga vetur kom það aldrei í hús, nema lömbin fyrsta veturinn. Þegar verri voru veður lá féð í hellisskútum hér og þar í hrauninu. Ef tað safnaðist í þá voru þeir þrifnir og stungið út úr þeim, mátti segja að hér væri um að ræða nokkurs konar fjárhús. Þrátt fyrir það, að hraunið virðist gróðurvana yfir að sjá, þá þreifst féð vel bæði vetur og sumar, en hirðingin var erilsöm, sérstaklega á vorin, því víða eru jarðföll og holur, sem hættuleg eru nýfæddum lömbum og þungfærum ám. Yfir þessu þurfti að hafa vakandi auga.

Lambhagi

Lambhagi – stífla v/fiskeldis.

Það féll oft í minn hlut að sinna þessu starfi meðan ég var drengur heima í Lambhaga, þá kunni ég því vel. Þó hér sé ekki stórbrotið til lands að líta er víðáttan fögur og heillandi, sérstaklega á vorin, og hraunið býr yfir meiri og fjölbreyttari náttúruöflum en ætla mætti þegar menn líta yfir það sem hraðfara vegfarendur. Það er margur fagur reitur falinn í skjóli hraunborganna.

Þeir voru engir smákarlar sumir bændurnir hérna á ströndinni í gamla daga. Guðmundur á Auðnum, Guðmundur í Landakoti, Guðmundur i Flekkuvík og Sæmundur á Vatnsleysu. Þeim Guðmundi á Auðnum og Sæmundi þótti nú sopinn góður og komið gat fyrir að kaupstaðarferðin til Reykjavíkur tæki þá upp undir hálfan mánuð. Þá var komið við á bæjunum, þeginn og Veittur beini, sem orsakað gat næturdvöl. En þetta voru dugnaðarmenn, aflasælir og sjálfum sér nógir.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambahaga við Straumsvík.

Og hef svo sem fengist við ýmislegt fleira en aksturinn, enda þótt ég telji hann hafa verið mitt aðalstarf um ævina. Í tíu ár fékkst ég við útgerð og átti um sjö ára skeið elsta skipið í íslenska veiðiflotanum, m.b. Njál, 38 lestir að stærð. Nokkuð kom ég einnig við verslunarsöguna bæði sem sjálfstæður aðili og nú síðustu átta árin verið innheimtumaður hjá firmanu Nathan & Ólsen.
— Jú, ég kvæntist árið 1913. Konan mín hét Herdís Níelsdóttir, ættuð úr Hafnarfirði. Við bjuggum saman í 33 ár, þá lézt hún. Við vorum barnlaus og nú er ég einn míns liðs.
— Okkur liggur ekkert á, ég er minn eigin herra í dag.
— Aka, jú, ég sé vel til að aka þótt ég sé senn 79 ára gamall. Enn þá les ég gleraugnalaust.

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi.

Ég hef aldrei ekið hratt, ó nei, og komist leiðar minnar þrátt fyrir það.
Sérðu hvernig þeir hafa brotið niður hraunið. Á gömlum fjárgötum fortíðarinnar, hrófum áraskipanna, harðbalatúnum og húsatóftum fornra mannabyggða hafa þeir reist þetta verksmiðjuhús.
— Hvort munu þeir, sem þar ráða ríkjum svara betur kalli sinnar samtíðar en hinir, sem áður lifðu þar lífi íslenskra útvegsbænda?“ – Þ.M.

Sjá meira HÉR.

Heimild:
-Vísir – Bóndinn í Straumsvík; Magnús Guðjónsson, fimmtudagur 19. júní 1969, bls. 9-10.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambahaga við Straumsvík.

Lambhagi

Eftirfarandi grein eftir Gísla Sigurðsson um Hraunabæina, „Suður í Hraunum„, birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 1978:

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir í Hraunum – tilgáta.

„Hraunamennirnir gapa hvorki né góna lengur, því þeir eru engir til utan einn maður. Skilyrði til nútíma búskapar eru þar naumast fyrir hendi, en unaðslegt er að ganga þar um í góðu veðri.
Suður í Hraunum er mikill unaðsreitur, sem fáir vita þó um. Þar eru djúpir grasbollar og háir hraunhólar.
Komin er sólin Keili á og kotið Lóna, Hraunamennirnir gapa og góna, Garðhverfinga sjá þeir róna. Þær byggðir, sem við taka á Reykjanesskaga sunnan Hafnarfjarðar, voru fyrr meir kallaðar einu nafni „suður með sjó“. Færi einhver að ná sér í skreið eða annað sjómeti „suður með sjó“ þurfti ekki að skýra þaö nánar. Þessar byggðir voru ekki búsældarlegar; sjórinn var gjöfulli en landið. Fátæktin var einatt förunautur þeirra, sem bjuggu á kotunum suður með sjó, hvort heldur það var allar götur vestur í Leiru, í Höfnum, á Vatnsleysuströnd eða suður í Hraunum.
Straumur-800Nú er byggðin í Hraunum nánast að engu orðin. Eftir standa fáein hús, sem sumpart eru auð og mannlaus og sumpart hefur verið breytt í sumarbústaði. Enda þótt þessi gamla byggð sé í næsta nágrenni við þéttbýli Reykjavíkursvæðisins, munu þó næsta fáir, sem vita um tilvist hennar eða þangað hafa komið. Þeim sem óljósar hugmyndir hafa um Hraunin, skal bent á, að sú byggð hefst þegar komiö er framhjá Álverinu í Straumsvík á leið til Keflavíkur. Sveigt er út á malarveg hjá Straumi, sem dregur trúlega nafn sitt af fallegum lindum með bergvatnsstraumi, og líður undan hrauninu og myndar fallegar tjarnir á leið sinni út í víkina.
Leiðin liggur um hlaðið í Straumi, þar sem stendur þrístafna timburhús í herragarðsstíl og er þó í eyði. Þetta glæsilega íbúðarhús byggði Bjarni Bjarnason, sem síðar varð landskunnur maður sem skólastjóri á Laugarvatni.
Ottarsstadir eystri-800Hann var þá kennari og skólastjóri í Hafnarfirði, en hafði fjárbú og ráðsmann í Straumi og var þá kominn í kynni viö Jónas frá Hriflu. Þaðan og frá Guðjóni Samúelssyni komu áhrifin, sem leiddu til burstabæjarins í Straumi og síðar var þessi stíll endurtekinn í byggingu héraðsskólans á Laugarvatni. Húsið í Straumi var byggt 1927.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambhaga.

Þegar ekið er inn á bílastæði álversins, verða tóftir þar sem hallar niður í fjöruna og standa vel uppi. Þar stóð bærinn Stóri-Lambhagi og á hraunhrygg, sem skagar út í Straumsvíkina, stóð Litli Lambhagi. Báðir þessir bæir fóru í eyði fyrir löngu. Annað bæjarstæði, sem ekki sést af veginum, er á vinstri hönd, þegar farið er suðurúr. Þar hétu Þorbjarnarstaðir og standa þar uppi túngarður og traðir ásamt með rústum af bænum. Þar var hætt búskap um 1930. Þurrabúð eða hjáleiga frá Þorbjarnarstöðum var nær veginum, þar sem nú stendur sumarbústaður undir fallegri brekku. Þar hét í Gerði.
Sé farið um hlaðið í Straumi, liggur malarvegur áfram til norðurs og vesturs yfir hraunhryggi og gjótur, sem því miður hafa of oft orðið athvarf fyrir bílhræ og er til mikilla lýta.

Þýskabúð

Þýskabúð.

Út með víkinni stendur Þýzkabúð ennþá uppi og utar í hvarfi stóð Jónsbúð. Þýzkabúð fór í eyði fyrir 1950 og telur Gísli fræðimaður Sigurðsson í Hafnarfirði, aö nafnið sé dregið af því, að Þjóðverjar hafi verzlað þarna fyrir margt löngu.
Á graskraga, sem verður á hraunjaðrinum vestur með ströndinni, hefur verið einna búsældarlegast í Hraunum og raunar er þar eini grasbletturinn, sem máli skiptir. Þar stóðu bæirnir Eystri og Vestari Óttarsstaðir og bærinn á Vestari Óttarsstöðum stendur enn meö þeim glæsibrag, að ástæða væri til að varðveita hann.
ottarsstadir vestri-800Heiðurinn af því eiga systur, sem þar ólust upp og eignuðust síðan jörðina og búa þar á sumrum. Þar er ævintýri líkast aö koma; svo vel er allt varðveitt og bærinn snýr hvítmáluðum bárujárnsþiljum til suðurs.
Á Eystri Óttarsstööum stendur timburhús, sem ekki er haldið við, en Guðmundur bátasmiður, sem þar er upprunninn, hefur byggt sér íbúðarhús lítið eitt austar og skýli yfir bátasmíðina. Þar stendur uppi
í fjörunni flak af timburskipi, sem hefur orðið málurum yrkisefni og fallegt á sinn hátt, enda þótt það hafi lokið hlutverki sínu. Guðmundur bátasmiður hafði á orði við okkur Helga Sæmundsson að dregist hefði úr hömlu að bera eld að því, en við báðum hann lengstra orða að þyrma flakinu.
Hus GudmundarStundum er mönnum svo mikið í mun að eyða því, sem ónýtt er talið, að þeir gá ekki að því að það geti haft neitt annað gildi. Í nánd við Hafnarfjörð stóðu ekki alls fyrir löngu nokkur falleg flök af timburskipum, sem ævinlega voru augnayndi. Mikið kapp var lagt á að fjarlægja þau með krafti stórvirkra véla og heföi verið nær að beina orkunni gegn mengun frá fiskimjölsverksmiðjunni ellegar smekkleysi Olíufélagsins, sem blasir við meira en flest annað í Hafnarfirði.
Á bæjunum í Hraunum var nálega einvörðungu stundaður fjárbúskapur og stílað uppá beit. Þar er snjólétt, en heyfengur hefur líka verið næsta lítill. Útræði var úr Óttarsstaðavör og Straumsvík.
Sumarbústaðir hafa risið þarna í lautum, en ekki ber mikið á þeim og þurrabúðin Eyðikot frá Óttarsstöðum hefur verið byggð upp og er nú glæsilegur sumarbústaður.
Gudmundur batasmidurVestan við Óttarsstaði þrýtur
graslendi og verður úfið hraun, sem runnið hefur fram í sjó. Er þar spölkorn, sem aldrei hefur byggzt, unz kemur að Lónakoti. Þar stendur íbúðarhúsið uppi að nokkru leyti, en ekki hefur verið búið þar síðan Lónakot fór í eyði eftir 1950. Síðasti bóndi þar var Sæmundur Þórðarson frá Vogsósum en nú á Kornelíus kaupmaður Lónakotið og hefur þar kindur. Beit þótti góð í Lónakoti, en túnið var aðeins örlítill bleðill og lá sífellt undir skemmtum af ágangi sjávar. Ekki voru skilyrði til lendingar viö Lónakot og því ekkert útræöi þaðan. En við Óttarsstaðavör hafa þeir staðið gallvaskir og skinnklæddir við sólarupprás og horft á Garðhverfinga róna eins og segir í vísunni.“

Lambhagi

Litli-Lambhagi; eldhúsið.

Gísli skrifaði einnig eftirfarandi grein um Hraunabæina í Lesbók Morgunblaðsins árið 2000:
NÚTÍMINN fór að mestu leyti hjá garði í Hraununum, en hann sést tilsýndar þaðan. Álverið gnæfir yfir í næsta nágrenni og skammt fyrir sunnan, á Keflavíkurveginum, æðir umferðin viðstöðulaust fram og til baka. Ef til vill er það þversagnarkennt, en nú er hægt að njóta þessa umhverfis einmitt vegna þess að nútímanum þóknaðist að koma ekki við í þessari horfnu byggð. Annars væri búið að setja jarðýtur á alla þessa grjótgarða sem falla svo vel að landinu; það væri búið að moka hólunum ofaní lautirnar, mylja hraunið til að ýta upp vegum og síðan væru athafnaskáldin búin að byggja eitthvað flott úr steinsteypu. En fyrir einhverja guðslukku fóru framfarirnar þarna hjá garði. Og Hraunamennirnir höfðu ekki bolmagn til þess að bylta umhverfinu. Það mesta sem vélaöldin hefur skilið eftir sig eru nokkur bílhræ.
Eydikot-800Svo að segja beint suður af Straumsvík, snertuspöl handan við Keflavíkurveginn, eru rústir bæjarins á Þorbjarnarstöðum. Ekki ber mikið á þeim; grasbeðjan miskunnar sig yfir þessi fátæklegu mannanna verk. Um búskap og mannlíf á Þorbjarnarstöðum er næsta lítið að finna í rituðum heimildum, en búsetu þar lauk eftir 1930. Svo er að sjá af tóftunum að þarna hafi alla tíð verið torfbær. Í kring er talsvert graslendi sem verið hefur tún. Hlaðnir túngarðar standa enn uppi, svo og Þorbjarnarstaðarétt. Einn af morgum fallegum blettum í landi Þorbjarnarstaða, sem nú er í eigu Hafnarfjarðar, er við tjarnirnar sem verða inn af Straumsvík. Þar eru silfurtærar upppsprettur undan hraumnu, vatnsból sem  ekki hefur brugðist.
Þyzkabud-800Steinsteypuöldin náði ekki til Hraunabæjanna svo teljandi væri; þó á að heita svo að standi uppi íbúðarhúsið Þýzkubúð. Hvort þessi hjáleiga frá Straumi hefur einhverntíma verið nefnd Þýzkabúð er ekki vitað.
En samkvæmt talshætti í Hraununum heitir húsið Þýzkubúð og er nafnið rakið til þess að Straumsvík var verzlunarstaður frá árinu 1400 og fram yfir 1600, en þá vöndu þýzkir og enskir kaupmenn komur sínar til landsins.

 

Straumur

Hróf ofan Straumsvarar.

Þá voru verzlunarbúðir þýzkra höndlara settar upp við varir út með Straumsvíkinni og þótt aldir hafi liðið eru nöfnin enn við lýði: Þýzkubúð og Þýzkubúðarvarir syðri og nyrðri. Nú stendur íbúðarhúsið í Þýzkubúð eitt til minningar um verzlunarstaðinn og hjáleiguna sem síðan reis þar. Húsið er af sér gengið, opið fyrir veðrum og vindi, hryggðarmynd. Samt var þetta steinsteypt hús, en hvenær það reis virðist enginn vita með vissu; það var snemma á öldinni. Síðar var byggt við það einhverskonar bíslag sem hangir uppi. Á barnsaldri átti Eiríkur Smith listmálari heima um tíma í Þýzkubúð.
ottarsstadir eystri-801Lítið eitt utar með víkinni og örskammt frá sjávarkambinum og Jónsbúðartjörn var þurrabúðin eða hjáleigan Jónsbúð á örlitlum túnbletti. Grjótgarður í kring, hraunhólar og grasigrónir bollar.
Jónsbúðarvör er beint niður af bænum og skaga Skötuklettar út í Straumsvíkina sunnan við víkina. Tvær samliggjandi tóftir sýna hvernig bærinn hefur verið, en Umhverfis- og útivistarfélag Hafnarfjarðar lét kanna Jónsbúð með prufuholugreftri og Fornleifafræðistofan hefur staðið að samantekt þar sem sjá má niðurstöður Bjarna F. Einarssonar fornleifafræðings. Líklega var ekki eftir neinu stórkostlegu að slægjast, enda fátt markvert sem kom í ljós. Þó voru rústir bæjanns nær óspilltar; ekkert jarðrask hafði átt sér stað þar.

Ástæða er til þess að vekja athygli á þessum stað vegna þess að að minjar af þessu tagi eru hvergi sýnilegar lengur á höfuðborgarsvæðinu.

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Staðurinn geymir allar þær minjar sem við má búast að sjáist eftir þurrabúð eða hjáleigu; þar á meðal bæjarhús, túngarð, skepnuhús, vör, vörslugarð, hjall, sólþurrkunarreit og vatnsból. Tvær prufuholur sem grafnar voru í gólf bæjarhúsanna leiddu í ljós brennd og óbrennd bein fiska, fugla og spendýra. Kindakjöt, fiskur og fugl hefur venð á borðum í Jónsbúð og svartfugl gæti hafa verið veiddur til matar. Þrátt fyrir túna- og slægjuleysi hefur einhvern veginn verið aflað heyja handa einni kú. Önnur tóftin leiðir í ljós að þar hefur verið hálfþil og bæjardyr, en jafnframt fjós, og sást það á flórnum. Úr fjósinu hefur síðan verið gengið lítið eitt upp í baðstofuna, enda var sú skipan vel þekkt og hugsuð til að nýta hitann frá þlessuðum skepnunum.
Á baðstofunni hefur verið hálfþil og gluggi. ottarsstadir eystri-803Það er þurrabúðargerð hin yngri, sem svo er nefnd, en eldn gerðin var alveg án þilja, glugga og bursta; þesskonar bæir urðu nánast eins og hverjir aðrir grasi grónir hólar í landslaginu. Ekki er vitað um upphaf Jónsbúðar en búið var þar á 19. öldinni og eitthvað fram á þá 20. Tvö steinhlaðin mannvirki vekja athygli þegar ekið er eftir vegarspottanum vestur frá Straumi. Annarsvegar er mannhæðarhá tóft úr tilhöggnu og steinlímdu grjóti. Hún heitir Gíslatóft og var í henni útieldhús frá Óttarsstöðum eystri. Vestar er Eyðikot, sem nú er sumarbústaður í burstabæjarstíl og með fagurlega hlöðnum veggum úr hraungrjóti og veruleg prýði er að grjótgarði framan við húsin.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri – eldhús.

Þarna stóð áður hjáleiga með sama nafni; einnig nefnd Óttarsstaðagerði. Umhverfi Óttarsstaðabæjanna er búsældarlegt á móti því sem menn hafa þurft að búa við á öðrum Hraunabæjum. Þarna eru grasgefin og ræktarleg tún sem hestamenn virðast nýta til beitar.
Í Jarðabókinni frá því skömmu eftir 1700 er einungis nefnd ein jörð sem heitir Óttarstaðir, en að auki þrjár hjáleigur; Eyðikotið var eitt af þeim. Jarðardýrleikinn er óviss, segir Jarðabókin og jafn óvisst er hvort átt sé við báðar Óttarsstaðajarðirnar, en kóngurinn á slotið og leigur betalast í smjöri heim til Bessastaða.
lonakot-800Auk þess eru kvaðir um mannlán á vertíð, „item tveir hríshestar“ sem taka á í Almenningi og „leverast in natura“ heim til Bessastaða.
En það er sama sagan og í Lónakoti og áður var nefnt: Ábúandinn kvartar yfir því við Bessastaðavaldið „að ærið bágt sé orðið hrís að útvega og meinar sér léttara vera fyrir þessa tvo hríshesta að betala tíu físka, þá guð gefur fiskinn af sjónum“.
Fimm kýrfóður á túnið að gefa af sér og hefur þótt ekki lítil búsæld í Hraunum. Af hlunnindum nefnir Jarðabókin útigang „þá mestu hörkuvetur ei inn faiia“, hrognkelsatekja er í lónum þegar fjarar, heimræði er árið um kring, lending í meðallagi, en lítil rekavon.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – skipasmíðastöð við Óttarsstaðavör.

Gallar jarðarinnar eru hinsvegar að engjar eru ekki til, að gripir farast stundum í gjám þegar snjóar yfir liggja og afleitt er það líka að torfstunga, þ.e. torfrista, er nánast engin. Vatn var sótt í djúpan brunn í túninu á aðfallnu, en vatnið í honum var alltaf ferskt. Þar gilti sama lögmál og í lónunum sem áður voru nefnd. Þessi brunnur er með grjóthleðslu að innanverðu, en því miður hálffullur af plasti og öðru sem fokið hefur í hann.
Gamalt íbúðarhús er á Óttarsstöðum eystri, en það er ónýtt vegna hirðuleysis. Í gegnum brotna glugga og opnar dyr eiga snjór, regn og vindar greiða leið, en á hlaðinu skartar vörubílshræ.
ottarsstadir vestri-802Annað bílhræ er í fallega hlaðinni tóft lítið eitt sunnar. Óttarsstaðahúsið er samt sögulega merkilegt. Upphaf þess má rekja til skipsstrands sem varð við Þórshöfn, skammt sunnan við Stafnes árið 1881. Þá rak kaupfarið Jamestown mannlaust að landi og var bjargað úr því góðum feng af dýrindis húsaviði, um 100 þúsund plönkum. Þótti þetta mikil himnasending í timburskortinum og risu af þessum viðum mörg ný hús suður með sjó og þetta eina hús í Hraununum, á Óttarstöðum eystri. Húsið var síðar bárujárnsklætt.

Áður hafði bærinn á Óttarsstöðum eystri verið vestar, uppi í brekkunni hjá vesturbænum. Fátt er þar til minja um hann annað en hlöðuveggir sem hafa verið fágætlega vel hlaðnir og standa enn.

Óttarsstaðir

Hesthúsið að Óttarsstöðum eystri. í gamla bæjarstæðinu.

Síðustu ábúendur á jörðinni, hjónin Guðrún Bergsteinsdóttir og Sigurður Kristinn Sigurðsson hættu búskap þar 1952. Síðasti maður sem hafði fasta búsetu í Hraunum var hinsvegar Guðmundur sonur þeirra. Hann var bátasmiður og byggði sér hús niðri við fjörukambinn, en það er nú horfið. Guðmundur bátasmiður lézt 1985. Þennan jarðarpart, sem talinn var 5 ha, á fjölskyldan þó ekki lengur. Guðni Ívar Oddsson keypti hann 1979 og flutti síðan til Ameríku. Hann er dáinn en sonur hans, Paul I. Oddsson, erfði jörðina og hefur hann aldrei til Íslands komið.
Þyskabud-803Spölkorni vestar og uppi á hæð stendur bærinn á Óttarsstöðum vestri, fallega varðveittur timburbær, bárujárnsklæddur, og gefur góða hugmynd um útlit bæja snemma á öldinni áður en steinsteypuöld hófst. Þarna er fallegt bæjarstæði og líklega það elzta í Hraunum, einkum er víðsýnt út yfir Norðurtúnið, Langabakka og flóann til norðurs. Til suðurs sést minna en ætla mætti, því hraunbrúnin þar er há. Vestur af bænum hefur myndast hryggur tignarlegra hraunhóla og eftir honum endilöngum er frábærlega fallega hlaðinn grjótgarður. Austan við bæinn, þar sem eru grasi grónar lautir, er merkilegur hraunhóll í einni lautinni. Hann er svo sprunginn að hann er ekki kallaður hóll, heldur Hrafnagjá, enda hægt að ganga á jafnsléttu í gegnum hann á ýmsa vegu. Munnmæli herma að kirkjugarður hafi verið hjá Óttarsstöðum og hefur verið talið að enn móti fyrir honum. Þar eru og leifar af bænahúsi.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestri.

Á Óttarsstöðum vestri var búið til 1966, en bænum hefur verið vel við haldið. Síðustu ábúendur á Óttarsstöðum vestri voru Ragnheiður Hannesdóttir, húsfreyja á Óttarsstöðum vestri, og Guðmundur Sigurðsson, bátasmiður á Óttarsstöðum, síðasti maður sem átti heima í Hraunum.
Síðustu ábúendur á Óttarsstoðum eystri voru hjónin Áslaug Jónsdóttir og Guðmundur Ingvarsson frá Ketilvöllum í Laugardal. Þau hófu búskap þar 1918, keyptu jörðina þá og bjuggu þar til 1966, en dóu þá með þriggja vikna millibili.
ottarsstadir eystri-805Þau Óttarsstaðahjón áttu tvær dætur, Jónínu og Ragnheiði, sem er 84 ára og lét greinarhöfundi ýmislegt gagnlegt í té. Hún minnist þess úr föðurhúsum að faðir hennar sló allt túnið með orfi og ljá, enda var það ekki véltækt. Bústofninn var um 100 kindur þegar mest var, einn hestur og tvær kýr. Síðustu fimm árin bjuggu þau aðeins með kindur. Ragnheiður minnist þess að fénu var haldið að fjörubeit og þá staðið yfir því, en langmest var þó beitt á hraunið. Faðir hennar og Sigurður bóndi á Óttarsstöðum eystri reru saman til fiskjar þegar gaf á sjó, en þeir fóru aðeins skammt út fyrir og aldrei var vél í bátnum. Vestur með sjónum voru fiskbyrgi, sem enn sjást. Þar var fiskurinn þurrkaður. Börn Ragnheiðar og Jónínu eru núverandi eigendur jarðarinnar og þau eiga heiðurinn af
því að halda bænum í góðu horfi.
Vestur frá Óttarsstaðavör er malarkamburinn næstum þakinn lábörðum steinum, sem einu sinni voru hraunklappir og hafrótið braut upp. Það kom í ljós í Surtsey að brimið við ströndina þurfti ekki ýkja langan tíma til þess að gera lábarinn hnullung úr hrjúfum hraunsteini. En vörin hefur myndazt með því að hraunrani, sem oft flæðir yfir, girðir fyrir að norðanverðu. Þar fyrir utan snardýpkar skyndlega, sögðu mér kafarar sem voru að skoða sig um á botninum. En nú ýtir enginn lengur úr Óttarsstaðavör.“

Óttarsstaðir

Óttarsstaðavör.

Eftirfarandi grein birtist í Vísi árið 1969 um síðasta bóndann við Straumsvík:
Hin mikilfenglegu mannvirki, sem rísa upp norðan Straumsvíkur, vekja athygli þeirra vegfarenda, sem ekki eru þar daglega á ferð. En sjálfsagt verður það með þau eins og margt annað, að vaninn slævir eftirtektina og hin því nær kílómetralanga verksmiðjubygging hættir að vekja sérstæð viðbrögð augans.
Hraunið, sem nú hefur verið brotið niður, bjó yfir dulrænni fegurð í litbrigðum ljóss og skugga. Á því var aldrei hinn óumbreytanlegi kuldasvipur steinmúranna. Lifandi mosafeldur brosti við skapara sínum eins og önnur jarðarinnar börn.
ottarsstadir vestri-805Árið 1891 bjuggu í Stóra-Lambhaga i Hraunum, Guðjón Gíslason og Kristbjörg Steingrímsdóttir. Þann 21. september það ár fæddist sonur þeirra Magnús. Þá var fjölbýlt í Hraunahverfinu, enda fólkið margt, búskapur nokkur og áraskipaútgerð. Guðjón var útvegsbóndi, hélt út og stjórnaði sjálfur sex rónu skipi, varð honum gott til manna, því hann var ötull sjósóknari og aflasæll. Þótt oft væri snöggslægt Lambhagatúnið eftir langvarandi þurrka, tókst honum oftast að hafa tvær kýr og rúmlega eitt hundrað sauðfjár. En sum ár varð hann að sækja nokkurn heyskap inn á Álftanes. Á þessum tíma voru eftirtalin býli og hjáleigukot í Garðahreppi sunnan Hvaleyrar: Stóri-Lambhagi, Litli-Lambhagi, Gerði Þorbjarnarstaðir, Péturskot, Straumur, Þýzkabúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Eyðukot, Óttarsstaði og Lónakot. Það var yzti bær í Garðahreppi hinum forna.
Eins og fyrr er sagt, var mikil sjósókn frá þessum bæjum meðan ennþá var öld áraskipanna. Oftast var stutt róið. Aðalmiðin voru Lóndjúpið, Brúnin eða vestur á Svið. Til bar það, að farið var út í Garðssjó væri ördeyða á innmiðum, en þangað var að eins farið á velbúnum skipum að forviði, veiðarfærum og mann afla.
Eydikot-802Venjulega var aflavon þangað til togararnir fóru að skafa botn inn meðfram ströndinni, þá skipti sköpum. Ýmsir útvegsbændur voru brúnaþungir þegar þeir sáu aðfarirnar. Fullir pokar voru dregnir upp. Koli og lúða var hirt en öðrum fiski var hent og flaut hann dauður um allan sjó. Þetta varð til þess að sumir fóru að sækja í togara. Aðrir voru svo stórir af sjálfum sér að þeir höfðu ekki skap til en sátu í landi með sárt ennið, og bölvuðu ástandinu án þess að fá nokkuð að gert. Á vertíðinni var oft margt að komumanna, sem reru á útvegi heimabænda. Lending var fremur góð umhverfis Straumsvíkina bæði í Stóra-Lambhaga og þó sérstaklega við Straum eða í Straumsós en inn á hann varð aðeins komizt á flóði og þarna er mikill munur flóðs og fjöru.
Á þessari öld, þegar ýmiss konar skoðanakannanir virðast vera mjög ofarlega á dagskrá, er það ekki óalgengt, að þeir sem fræðast vilja taki upp símann, velji númer og spyrji um álit manna, sem þeir aldrei áður hafa átt nein samskipti við. Vel má vera að með svona hátta lagi þyki sumum sér nóg boðið, jafnvel þótt orðnir séu aldurhnignir og hafi á langri leið ýmsu kynnzt og mörgu vanizt.

Straumur

Straumur 1935.

Bifreiðin undir stjórn Magnúsar Guðjónssonar rennur mjúklega suður Hafnarfjarðarveginn. Hann er kunnugur þessari leið gamli maðurinn, því frá árinu 1916, að hann tók bifreiðastjórapróf hjá Agli Vilhjálmssyni, hefur hann oft setið undir stýri og lengst af milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Hann vildi gjarnan láta fólkinu í sín um heimabæ góða þjónustu í té og auðvelda því ferð til höfuðstaðarins. Árið 1922 fékk hann Kristján vagnasmið til þess að byggja fyrir sig farþegahús á vörubíl. Það rúmaði 13 manns. Þá varð Steindór Einarsson reiður og sagði að með þessu væri Magnús að stofna til harð vítugrar samkeppni við sína dýru og fullkomnu fólksbíla, en hann hafði þá keypt eina tuttugu slíka.

Gudmundur batasmidur-2

En Magnús lét sig ekki og hélt sínu striki, sagði aðeins: „Stærri bifreiðar til fólksflutninga er það sem koma skal“, og sú varð raunin á. Það sá Steindór síðar.
– Sjáðu, hérna, þar sem við ökum meðfram höfninni í Hafnarfirði var áður sjór. Þetta er nýtt land giört af mönnum. Þar sem vegurinn liggur framan undir hamrinum var áður hyldýpi. Í Ásbúðum bjó Andrés Jónsson. Ásbúðir, það er litli bærinn með fánalitunum þarna undir brekkunni Andrés safnaði fornminjum. Ég starfaði að þessu með honum af og til í fimmtíu ár, ók út um sveitir og sótti muni. Nú er sérstök deild í Þjóðminjasafninu, sem varðveitir þessar minjar, — Ásbúðasafnið.
— Hér er Óseyrin, þar var áður býli og oftast vel búið. Einu sinni átti þar heima Ísak í Fífuhvammi. Einar Þorgilsson útgerðarmaður þurrkaði fisk á grandanum framan við eyrina. Þarna syðst er svo Hvaleyrin. Sú jörð átti landamerki móti Stóra-Lambhaga. Í Óseyrarog Hvaleyrartjörnum var fyrrum; -mikil rauðsprettuveiði.
-Já, ég man vel aðra mynd af Hafnarfirði en þá sem nú er sýnileg þeim sem um veginn fara.
Nú erum við komnir móts við hið mikla mannvirki — Álbræðsluna — sem reist hefur verið á landi Stóra-Lambhaga.

Lambhagi

Lambhagi – grunnur íbúðarhúss. Eldhúsið fjær.

— Hér er orðin breytt síðan ég var að smala hraunin og ára skipum var hrundið á flot og ráð ið til hlunns í Straumsvíkur- og Lambhagavörum. Fyrstu sjóferðina fór ég 9 ára gamall. Ekki mun þá hafa verið til mikillar liðveizlu ætlazt enda var pilturinn lítt til stórræða, því sjóveikin þjakaði mig mjög og var svo jafnan, enda þótt ekki þýddi að láta slíkt á sig fá. Uppeldissystur minni, Margréti Magnúsdóttur, var öðruvísi farið. Hún var bæði kjarkmikil og sjósterk, enda reri hún sem dugandi karlmaður væri og þótti engu síður hlutgeng. Ekki sjaldan kom það fyrir, að hún fór á sjóinn þegar verra var veður og ég kaus heldur að hirða fé föður míns.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambahaga við Straumsvík.

Einu minjarnar um hina fornu byggð í Stóra-Lambhaga er vörina, sem lent var og þetta gamla fjárhús við sjóinn. Í Straumi bjó lengi Guðmundur Símonarson. Hann hafði stórt bú. Þó sérstaklega sonur hans, Guðmundur Tjörfi, hann hafði mikinn fénað. Hjá honum var „Stjáni blái“ oft á veturna áður en vertíð hófst. Stjáni ólst upp hjá séra Þórarni í Görðum, kom þangað 7 ára gamall frá Klöpp í Reykjavík. Séra Þórarinn keypti áraskip handa honum og Óla Garða. Stjáni var mikill sjómaður, ég þekkti hann vel. Þegar hann fór sína síðustu för var ég á bryggjunni í Hafnarfirði. Stjáni var örlítið ör og þegar ég hafði orð á því að honum lægi ekkert, á úteftir, leit hann til mín þeim augum, sem gáfu greinilega til kynna, að það væri hann en ekki ég, er réði þar ferðinni. Mun ég sennilega hafa verið einn þeirra síðustu, sem rétti honum höndina til kveðju.

ottarsstadir eystri-807

Svo „strengdi Stjáni klóna“, settist við stjórn og tók stefnu fyrir Keilisnes. Hann var þá búsettur í Keflavík. Hið snjalla kvæði, sem Örn Arnarson kvað, mun gefa nokkuð sanna hugmynd um þessa síðustu siglingu og einnig um manninn sjálfan, Meðan Stjáni var formaður fyrir séra Þórarin í Görðum reri hann venjulega úr Garðavör og sótti oftast út á Svið.
— í Straumi bjó síðar Bjarni Bjarnason, sem lengi var skólastjóri héraðsskólans á Laugarvatni. Hann var þá kennari í Hafnarfirði. Nú eru því nær öll hraunabýlin í eyði fallin. Að vísu hefur verið rekið svínabú í Straumi, en heyrt hef ég á orði haft, að þeim rekstri mundi senn lokið.

Straumur

Straumur 1930.

Á Óttarsstöðum eru heimilisföst roskin hjón. Húsbóndinn stundar smíðar og auk þess hafa þau nokkur hænsni. Öll þau ár, sem ég var heima í Stóra-Lambhaga, voru í Eyðikoti þrjú systkini – bræðurnir Sveinn og Guðmundur og systirin Steinunn Bergsteinsbörn. Sveinn var sjómaður en Guðmundur var sjálfmenntaður járn
smiður. Hann smíðaði mikið af skónálum og brennimörkum. Smiðjuhurðin bar glögg merki þeirrar iðju. Eins og ég drap á áðan, þá höfðu bændur hér í hverfinu talsverðan búpening. Enda þótt heyfengur væri venjulega rýr, þá kom þar á móti, að sauðfé var mjög létt á fóðrum. Marga vetur kom það aldrei í hús, nema lömbin fyrsta veturinn.
Þegar Thorbjarnastaðarrett-800verri voru veður lá féð í hellisskútum hér og þar í hrauninu. Ef tað safnaðist í þá voru þeir þrifnir og stungið út úr þeim, mátti segja að hér væri um að ræða nokkurs konar fjárhús. Þrátt fyrir það, að hraunið virðist gróðurvana yfir að sjá, þá þreifst féð vel bæði vetur og sumar, en hirðingin var erilsöm, sérstaklega á vorin, því víða eru jarðföll og holur, sem hættuleg eru nýfæddum lömbum og þungfærum ám. Yfir þessu þurfti að hafa vakandi auga.
Það féll oft í minn hlut að sinna þessu starfi meðan ég var drengur heima í Lambhaga, og kunni ég því vel.

Lambhagi

Litli-Lambhagi; útihús og eldhús.

Þó hér sé ekki sprottið til lands að líta er víðáttan fögur og heillandi, sérstaklega á vorin, og hraunið býr yfir meiri og fjöíbreyttari náttúruöflum en ætla mætti þegar menn líta yfir það sem
hraðfara vegfarendur. Það er margur fagur reitur falinn í skjóli hraunborganna. Þeir voru engir smákarlar sumir bændurnir hérna á ströndinni í gamla daga. Guðmundur á Auðnum, Guðmundur í Landakoti, Guðmundur í Flekkuvík og Sæmundur á Vatnsleysu. Þeim Guðmundi á Auðnum og Sæmundi þótti nú sopinn góður og komið gat fyrir að kaupstaðarferðin til Reykjavíkur tæki þá upp undir hálfan mánuð. Þá var komið við á bæjunum, þeginn og veittur beini, sem orsakað gat næturdvöl. En þetta voru dugnaðarmenn, aflasælir og sjálfum sér nógir.

Ottarsstadavor-800

Ég hef svo sem fengizt við ýmislegt fleira en aksturinn, enda þótt ég telji hann hafa verið mitt aðalstarf um ævina. Í tíu ár fékkst ég við útgerð og átti um sjö ára skeið elzta skipið í íslenzka veiðiflotanum, m.b. Njál, 38 lestir að stærð. Nokkuð kom ég einnig við verzlunarsöguna bæði sem
sjálfstæður aðili og nú síðustu átta árin verið innheimtumaður hjá firmanu Nathan & Ólsen.
— Jú, ég kvæntist árið 1913.
Konan mín hét Herdís Níelsdóttir, ættuð úr Hafnarfirði. Við bjuggum saman í 33 ár, þá lézt hún. Við vorum barnlaus og nú er ég einn míns liðs.
— Okkur liggur ekkert á, ég er minn eigin herra í dag.

Straumsvík

Álverið í Straumsvík. Stói- og Litli-Lambhagi nær.

— Aka, jú, ég sé vel til að aka þótt ég sé senn 79 ára gamall. Ennþá les ég gleraugnalaust. Ég hef aldrei ekið hratt ónei, og komizt leiðar minnar þrátt fyrir það.
Sérðu hvernig þeir hafa brotið niður hraunið. Á gömlum fjárgötum fortíðarinnar, hrófum áraskipanna, harðbalatúnum og húsatóftum fornra mannabyggða hafa þeir reist þetta verksmiðjuhús.
— Hvort munu þeir, sem þar ráða ríkjum svara betur kalli sinnar samtíðar en hinir, er áður lifðu þar lífi íslenzkra útvegsbænda?“

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins 7. maí 1978, Suður í Hraunum, Gísli Sigurðsson, bls. 8-9 og bls. 13.
-Lesbók Morgunblaðsins 25. mars 2000, Byggð og náttúra í Hraunum – Nútíminn fór hjá garði, Gísli Sigurðsson, bls. 4-6.
-Vísir 19. júní 1969, Bóndinn í Straumsvík, bls. 9-10.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestri og eystri.

Straumssel

Almenningsskógur er gamalt heiti hraunasvæðisins suður og vestur af Straumsvík. Þetta var úthagi Hraunajarðanna sem voru í eigu kirkjunnar en komust í konungseign við siðaskiptin 1550. Þessar jarðir voru allar seldar um og eftir 1830 og eftir það voru þær í eigu bænda þar til búskapur lagðist að mestu af u.þ.b. 100 árum seinna.

Almenningur

Almenningur – leiðir.

Á meðan jarðirnar voru í eigu kirkjunnar og konungs gátu íbúar á suðvesturhorni landsins nýtt Almenningsskóg til beitar og þeir fóru þangað til að höggva skóg til kolagerðar. Þegar litla ísöld gekk í garð upp úr 1450 tók að kólna verulega á Íslandi og víðar í norðurhöfum og hratt gekk á skóglendi þar sem viðar- og skógarhögg jókst til muna. Þegar fram í sótti var ekki mikið um stærri tré því þau voru tekin fyrst og með tímanum var lítið annað eftir en nýgræðingur og hverskonar runnagróður, sem var jafnan nefndur einu nafni hrís.

Almenningur

Í Almenningi ofan Straums.

Gegndarlaust hrístaka og skógarhögg gekk nærri gróðrinum í Almenningi og var svo komið um 1700 að varla var lengur hægt að tala um að hrís væri nægjanlegt og skógurinn sem svo hafði verið kallaður var að mestu eyddur. Samt sem áður var haldið áfram að ganga á takmörkuð gæði landsins með sauðfjárbeit og kolagerð. Fyrir kom að tré og runnar voru rifin upp með rótum, sérstaklega næst bæjum en ekki síður upp til fjalla þar sem mest hætta var á uppblæstri. Hirðstjóri konungs lagði álögur á alla bændur sem bjuggu nærri Bessastöðum og þurftu þeir að skaffa einn til tvo hríshesta á ári hverju og stærri jarðirnar þurftu auk þess að útvega einn eða tvo stórviði árlega.

Almenningur

Gengið um Almenning í Hraunum.

Meginhluti hraunmassans ofan Hraunabæjanna er kominn frá Hrútagjárdyngju, nefndur Almenningur og tilheyrði í eina tíð Hraunabæjunum sem voru með fram strandlengjunni milli Straumsvíkur og Vatnsleysuvíkur. Almenningu var beitiland þessara jarða og þar áttu þær skógarítak og sóttu sér eldivið um margra alda skeið. Samkvæmt því sem næst verður komist máttu flestir íbúar Álftaneshrepps hins forna sækja sér hrís í Almenningsskóga á meðan jarðirnar tilheyrðu kaþólsku kirkjunni og seinna Danakonungi. Þessar jarðir voru seldar um og eftir 1830 og þar með féll almannarétturinn til þeirra sem eignuðust jarðirnar, eða svo töldu þeir sem keyptu jarðirnar af ríkisvaldinu.

Straumsselsstígur

Straumsselsstígur (Fornaselsstígur) í Hraunum..

Almenningsnafnið hélst samt sem áður áfram og vísar til þess tíma þegar svo til hver sem var gat nýtt hlunnindin. Bændur og búalið sótti sér skógarvið til húsbygginga á meðan skógurinn gaf eitthvað af sér en eftir að kólna fór verulega á landinu um og eftir 1600 gekk hratt á stærstu trén. Þegar Árni Magnússon og Páll Vídalín unnu Jarðabókartal sitt árið 1703 var mjög farið að sneiðast um skógarvið og hrísrif orðið býsna erfitt í Almenningi enda kvörtuðu bændur mjög undan kröfum hirðstjóra konungs á Bessastöðum um skil á stórviði og hrísknippum til yfirvaldsins.

Straumssel

Gengið um Straumssel.

Þegar Hraunajarðirnar voru seldar hver af annarri úr konungseign voru heimalönd þeirra skilgreind og miðuðust við landsvæði sem náði þó nokkuð suður fyrir selin. Eigendur jarðanna lögðu ríka áherslu á að verja heimalönd sín og bönnuðu hverskonar nytjar svo sem veiði, hrísrif og beit í úthaganum í löndum sínum.

Straumssel

Straumssel – tilgáta.

Ekki fóru allir eftir þessu og töldu sumir að sú hefð að sækja hrís í Almenning og að beita sauðfé þar væri ofar eignarréttinum. Gengu klögumál á víxl þar til sýslumaður kynnti vilja konungs í þessu efni. Landsmenn áttu að leggjast á eitt um að verja þá skóga sem eftir voru í landinu en ekki halda áfram að eyða þeim. Skógarhögg og hrísrif mátti aðeins stunda samkvæmt sérstöku leyfi og undir eftirliti umsjónarmanna skógarhöggs sem konungur lét skipa víða um land.

Straumssel

Straumssel – tilgáta.

Guðmundur Guðmundsson bóndi var skipaður umsjónarmaður skógarhöggs í Álftaneshreppi um miðja 19. öld. Guðmundur bjó ásamt Katrínu Guðmundsdóttur eiginkonu sinni í Straumsseli og átti fremur auðvelt með að fylgjast með því sem fram fór í Almenningi. Sýslumaður undirritaði reglur um skógarhögg í vitna viðurvist á manntalsþingi í Görðum og skipaði Guðmund í embættið á sama tíma.

Straumssel

Efri-Straumsselshellar.

Guðmundur keypti Straum og hálfa Óttarsstaði árið 1849 með gögnum og gæðum og ítökum og öllum herlegheitum sem jörðunum fylgdu og höfðu og fylgt til sjós og lands. Guðmundur kaus að byggja sér bú í Straumsseli og lýsa staðinn lögbýli. Straumur var í ábúð og leiguliðinn mótmælti því harðlega að Guðmundur gerði Straumssel að lögbýli sínu. Áður hafði Guðmundur átt Lambhaga og hluta Þorbjarnarstaða en seldi hvoru tveggja 31. maí 1848 til Eyjólfs Péturssonar. Guðmundur fékk sínu framgengt en sat ekki Straumssel lengi heldur byggði það leiguliðum og settist að á Setbergi.

Efri-Straumsselshellar

Straumselshellar syðri.

Guðmundur skógarvörður varð ekki langlífur. Hann lést 44 ára gamall árið 1855 að Setbergi. Guðmundur Tjörvi sonur hans var aðeins fimm ára gamall, en tók eignir föður síns í arf eftir. Katrín móðir Guðmundar Tjörva og ekkja Guðmundar skógarvarðar giftist stuttu seinna Guðmundi Símonarsyni og bjuggu þau fyrst á Setbergi. Þau tóku við búskap í Straumi þegar jörðin losnaði úr ábúð og bjuggu myndarbúi fram undir aldamótin 1900. Að þeim látnum tók Guðmundur Tjörvi við jörðinni, en hann hafði í raun réttri verið bóndi þar um árabil enda móðir hans og fósturfaðir komin nokkuð við aldur er þau féllu frá.

Litli-Lambhagi

Eldhús við Litla-Lambhaga.

Guðmundur Tjörvi var dugnaðarbóndi, sem átti um hundrað fjár og stækkaði túnin umhverfis Straum. Hann fór í mikla útgræðslu, byggði fjárhús í Fjárhússkarði við Brunntjörn, hljóð Tjörvagerði nálægt Þýskubúð og Gerðið suður af Straumsseli. Þegar ellin fór að gera vart við sig ákvað hann að bregða búi þar sem hann átti enga afkomendur og systur hans höfðu ekki heldur komið neinum börnum á legg, enda gengu þær ekki allar heilar til skógar. Hann seldi Bjarna Bjarnasyni Straum árið 1918. Tveimur árum seinna keypti Bjarni Þorbjarnarstaði ásamt Stóra- og Litla Lambhaga til að eiga möguleika á að fá nægan heyfeng fyrir bústofn sinn.

Bjarni Bjarnason

Bjarni Bjarnason.

Þegar gamli Straumsbærinn brann árið 1925 var ráðist í að reisa nýtt og veglegt hús úr steinsteypu. Þetta var með stærri húsum á landinu og var það tilbúið árið 1926 og stendur enn. Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins teiknaði húsið sem er í svipuðum stíl og Korpúlfsstaðir og Héraðsskólahúsið á Laugavatni.

Bjarni var íþróttakennari við Barnaskóla Hafnarfjarðar frá 1912 en tók við skólastjórn 1915. Hélt hann þeirri stöðu til 1929 er hann var skipaður skólastjóri Héraðsskólans á Laugarvatni. Bjarni var maður framfara og var annálaður dugnaðarforkur. Hann átti eina af fyrstu bifreiðunum sem komu til landsins og ók daglega milli Straums og Hafnarfjarðar. Bjarni átti drjúgan þátt í að ákveðið var að byggja veglegt steinsteypt skólahús í Hraungerðistúninu við Hamarskotslæk árið 1927 þar sem Barnaskólinn (Menntasetrið við Lækinn var til húsa þar til hann flutti í nýtt hús á Hörðuvöllum.

Straumur

Straumur.

Þegar Bjarni var fluttur alfarinn austur að Laugarvatni reyndi hann að selja Straum, Lambhaga og Þorbjarnarstaði. Það gekk ekki og er sennilegasta ástæðan sú að kreppa skall á um þessar mundir og á sama tíma voru búskaparhættir að breytast verulega hér á landi.

Straumur

Straumur 1930.

Bjarni ákvað því að halda búskapnum í Straumi óbreyttum um sinn og fékk bústjóra til að flytja í Straum og annast búreksturinn. Þegar mæðuveiki kom upp á suðvesturhorni landsins um 1937-38 varð að fella bústofn Bjarna og þar með var engin þörf lengur fyrir bústjóra. Þorbjörg Þorkelsdóttir eiginkona Bjarna leigði KFUK í Reykjavík Straumshúsið fyrir lágt verð sumarið 1938. Næstu árin fékk KFUK húsið til afnota og hélst þessi tilhögun til ársins 1946. Straumur var sumardvalarstaður fyrir stúlkur á vegum KFUK en Vindáshlíð tók við þessu hlutverki árið 1949.

Kapelluhraun

Skógrækt ríkisins fór illa með lfyrrum land Straums í Kapelluhrauni.

Bjarni leitaði stöðugt að kaupanda að Straumi, Þorbjarnarstöðum og Lambhaga en lítið þokaðist, enda voru Hraunin farin í eyði áður en fyrri heimsstyrjöldin brast á. Hann leitaði til ýmissa aðila, þar á meðal Hákonar Bjarnasonar skógræktarstjóra sem þótti koma til greina að Skógrækt ríkisins eignaðist jörðina, en vildi lítið sem ekkert greiða fyrir hana.

Brunntorfur

Í Brunntorfum.

Sumarið 1944 var bundist fastmælum að Skógrækt ríkisins keypti nokkurn hluta af löndum Straums og Þorbjarnarstaða, en staðreyndin var sú að Bjarni gaf því sem næst þennan hluta jarðar sinnar. Samkvæmt frétt sem birtist í Vísi 14. desember 1944 var um kjarri vaxin hraun að ræða sem ætlunin var að kaupa fyrst og fremst til þess að sjá hversu miklum þroska trjágróður gæti náð á þessum stað. Reykjanesskaginn var illa farinn vegna óhóflegrar beitar og voru miklar vonir bundnar við að auka mætti gróður til verulegra muna með því að friða landið að hluta eða öllu leyti.

Tjörvagerði

Tjörvagerði.

Vorið 1948 var gengið frá jarðakaupum Skógræktar ríkisins á 600 ha landi í Almenningi úr landi Straums og Þorbjarnarstaða. Sama vor plöntuðu starfsmenn Skógræktarinnar út 1000 sitkagreniplöntum í Almenningi í upplandi Þorbjarnarstaða í um 50 metra hæð yfir sjávarmáli nærri Fornaseli (ofan við Brunntorfur). Vorið 1954 var landsvæðið girt af með 6 km langri girðingu til að vernda barrtrén sem búið var að gróðursetja og til að sjá hvernig sjálfgræðslu lands í hrauninu miðaði ef það væri beitarfriðað.

Þorbjarnastaðarauðimelur

Í Þorbjarnastaðarauðamel.

Bjarni Bjarnason afsalaði Skógrækt ríkisins landinu sem hann seldi árinu áður með bréfi sem var dagsett 16. febrúar 1949. Þar segir: ,,…Þann hluta …sem liggur milli þjóðveganna til Krýsuvíkur og Keflavíkur, frá norðurbrún Nýjahrauns og að landamerkjum Straums og Óttarsstaða, með gögnum og gæðum og án allra kvaða. – Undanskilið gjöfinni er norðausturhorn landsins (neðsti hluti Nýjahrauns), frá vörðu vestarlega á Rauðamelshólum og línum dregnum frá henni, annars vegar hornrétt á Krýsuvíkurveg, en hins vegar í beina stefnu á Reykjanesbraut á hábrún Nýjahrauns, ofan Þorbjarnarstaða og Litla-Lambhaga.

Straumur

Fjárskjól við Tjörvagerði.

Sama dag seldi Bjarni landspilduna sem hann undanskildi til Hákons Bjarnasonar skógræktarstjóra ríkisins. Spildan markaðist af ,,Reykjanesbraut að vestan, að norðan af landamerkjum Hvaleyrar og áðurnefndra jarða, og að öðru leyti af línum dregnum úr vörðu á Rauðamelshólum, eins og nánar er tiltekið í afsali mínu til Skógræktar ríkisins, dagsettu í dag.”
Hákon Bjarnason gaf Landgræðslusjóði þessa landspildu til eignar 7. febrúar 1967, að undanskildu túni Þorbjarnarstaða og 100 metra spildu í allar áttir frá túngarðinum.

Árið 1955 gerði Hafnarfjarðarbær makaskiptasamning við Skógrækt ríkisins um viðbótarhluta úr landi Straums. Þann 7. apríl 1994 afsalaði Landgræðslusjóður öllu landi sínu í Straumi til Hafnarfjarðar en það var 223,6 ha að stærð. Ríkissjóður, fyrir hönd Skógræktar ríkisins, seldi Íslenska álfélaginu Straumi, austan Reykjanesbrautar, u.þ.b. 220 ha, 30. nóvember 2001. Undanskilið var í sölunni land Tjarnarhóls, Gerðis og Þorbjarnarstaða.

Brunntorfur

Skógrækt í Brunntorfum.

Vorið 1956 tóku nokkrir einstaklingar við skógræktarsvæðinu í Almenningi og var litið á þetta sem tilraunareit. Landsvæðið sem var lagt undir verkefnið spannaði 140 ha. hrauns, annarsvegar ágætlega gróið beitiland í Almenningi og hinsvegar brunahraun sem var hluti Nýjahrauns sem rann um 1151. Hafist var handa við að girða landið og hófst útplöntun um 1960. Þeir sem tóku stærsta hluta svæðisins í fóstur voru Björn Þorsteinsson sagnfræðingur, Þorbjörn Sigurgeirsson prófessor, Broddi Jóhannesson skólastjóri Kennaraskólans og Marteinn Björnsson. Fengu þeir plöntur og áburð frá Skógrækt ríkisins en önnuðust sjálfir útplöntun með fjölskyldum sínum og vinum. Á næstu árum bættust Kristinn Skæringsson frá Landgræðslu ríkisins og Arngrímur Ísberg í hópinn. Þessir menn kölluðu sig Landvinningarflokkinn sín á milli.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta ÓSÁ.

Gróskumikill barrskógur er nú á þessu 50 ha landi og víða orðinn svo þéttur að full ástæða er til að ráðast í grisjunarvinnu. Sjálfsánar furur og greni er víða að sjá og landið nánast sjalfbært að þessu leyti. Kjarrlendi í Almenningi hefur jafnframt tekið verulega við sér eftir að sauðfjárbeit var að mestu útrýmt á þessum slóðum. Víðáttumiklir birki- og víðiflákar breiða úr sér og inn á milli má finna stór birkitré. Allvíða eru einirunnar en lynggróður og mosi þekja stærsta hluta Almennings. Þetta er fyrirtaks útivistarsvæði og spennandi gönguland með miklu meiri gróðri en hægt er að ímynda sér og ótrúlega margbreytilegum hraundröngum, klettum, hæðum, hólum, flatlendi, kötlum, gjótum og jarðföllum.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – tilgáta.

Minjar frá þeirri tíð þegar búskapur var stundaður á Hraunabýlunum finnast út um allan Almenning. Gjásel, Fornasel, Straumssel, Óttarstaðasel og Lónakotssel eru í Almenningi miðjum og allt um kring eru grjóthleðslur sem voru fyrrum stekkir, kvíar, fyrirhlaðnir fjárhellar og skjól, eða skotbyrgi, réttir, vörður og hvaðeina sem tilheyrði gamla bændasamfélaginu. Þessutan liggja þarna þvers og kruss fornar götur, alfaraleiðir og innansveitarleiðir, smalaslóðar og fjárgötur sem enn markar fyrir þó svo að gróðurinn sé í óða önn að fela forðum gengin spor.

Heimild m.a.:
http://www.hraunavinir.net/almenningur/#more-1075

Straumssel

Straumssel og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Óttarsstaðir

Lagt var upp frá Straumi, en hann tilheyrir bæjunum í Hraunum. Þeir eru nú í landi Hafnarfjarðar, en höfðu tilheyrt Garðahreppi allt til ársins 1964 er bæjarfélögin höfðu makaskipti á löndum.

Straumur

Straumur 2024.

Bjarni Bjarnason, skólastjóri Barnaskóla Hafnarfjarðar, byggði Straumshúsið 1926. Ætlaði hann að reka þar stórbú. Árið 1948 keypti Hafnarfjarðarbær Straumsbúið og leigði það til ýmisskonar starfsemi. Á níunda áratug 20. aldar voru Straumshúsin gerð upp og hýsa nú listamiðstöð á vegum Hafnarfjarðarbæjar.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri.

Í Hraunum bjuggu Hraunamenn á 12 býlum og kotum um aldamótin 1900. Neðan Reykjanesbrautar, Straumsmegin, eru auk þess Óttarstaðir eystri og Óttarstaðir vestri, Stóri Lambhagi og Lónakot vestar. Sunnan brautarinnar eru Þorbjarnarstaðir. Hjáleigur og þurrabúðir eru og þarna, s.s. Litli Lambhagi, Þýskubúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Óttarstaðagerði og Eyðikot að norðanverðu, en Gerði og Péturskot að sunnanvörðu.

Péturskot

Péturskot – leifar kotsins.

Péturskot var þar sem Reykjanesbrautin liggur nú við norðurkantinn á Fagravelli skammt austan við gatnamótin að Straumi. Norðan Straums eru nokkrir stígar s.s. Sjávargata og Jónsbúðarstígur, en sunnan hans er t.d. Straumsselsstígur er liggur upp með vesturgarði Þorbjarnastaða, yfir Alfaraleið út á Útnes og áfram upp í Straumssel. Umhverfis bæina eru heillegir grjótgarðar, auk fjárrétta, kvía, byrgja og nátthaga. Aðallega var gert út á fjárbúskap, en einnig voru þar einstakar kýr og nokkrir hestar. Hraunamenn gerðu mikið út á sjósókn og má sjá þar varir, þurrabúðir, vörslugarða og fiskreiti enn þann dag í dag. Búskapur lagðist af í Hraunum um 1930, en lengst var búið á Óttarstöðum vestri (1965). Straumsvík var mikill verslunarstaður frá árinu 1400 og fram yfir 1600 þegar þýskir og enskir kaupmenn gerðu út á landann.

Jónsbúð

Jónsbúð.

Gengið var að Norðurgarði. Garðurinn liggur niður að Straumsvör. Ofan hennar eru allnokkrar garðhleðslur, auk bátaskjóls. Þaðan var haldið að Þýskubúð og skoðað í kringum hana. Gamall hlaðinn brunnur er vestan við búðina. Garður liggur umhverfis búðina.

Tjörvagerði

Tjörvagerði.

Haldið var yfir í Tjörvagerði, sem var nátthagi. Þaðan er stutt yfir í Jónsbúð. Hlaðinn garður umlykur einnig þá búð. Jónsbúðartjörnin er norðan hennar. Jónsbúð er ágætt dæmi um búð er varð að bæ. Eftir að bóndinn hafði komið upp fyrsta “káinu”, þ.e. kotinu, fylgdu önnur á eftir í réttri röð; köttur, kindur, kú, kona og krakkar. Norðan við Jónsbúðartjörn er Markhóll, þríklofinn klettur. Í fjörunni mátti sjá mink við veiðar.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var með ströndinni yfir að Óttarstöðum eystri. Þar við eru allmargar tóttir, garðar og gerði. Suðaustan við húsið er brunnur og annar eldri vestan við það. Vestar er Óttarstaðir vestri. Þar eru einnig miklir garðar. Á milli og austan við bæina er gróinn hóll.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir-vestari.

Þar er talið að forn kapella eða kirkja hafi staðið.Gengið var yfir í Klofið, en þar er Óttarstaðaréttin, fallega hlaðin. Utan við hana eru nokkrar tóttir fjárhúsa. Ofan við Klofið er Miðmundarhæð og á henni Miðmundarvarða. Frá henni var haldið eftir stíg suður inn í hraunið uns komið var að Kotaklifsvörðu, hárri og áberandi vörðu vestan í Sigurðarhæð. Frá henni var haldið suðaustur að Kúaréttinni, sem er djúp gróin laut í hrauninu. Við enda hennar eru hlaðnir garðar. Háir veggir lautarinnar er svo til þverhníptir á kafla. Ofar eru miklar sprungur. Undir bakka efst á einum veggnum stóð einmana rjúpa og fylgdist með.

Þýskabúð

Þýskabúð.

Nokkuð austan Kúaréttar, sunnan Sigurðarhæðar, eru tvo hlaðinn byrgi, annað mjög heillegt. Upphaflega gætu þetta hafa verið þurrkbyrgi, en síðar byrgi refaskyttu, sem þaðan hefur ágætt útsýni til vesturs yfir lægðirnar í hrauninu norðan Brunntjarnar. Austan tjarnarinnar er hlaðin Straumsréttin.
Veður var frábært, lygnt, hlýtt og sólbjart. Gangan tók u.þ.b. klukkustund.
Gerður var uppdráttur af svæðinu.

Straumur/Óttarrsstaðir

Straumur/Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Þorbjarnarstaðir

Hér verður vitnað í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar um Þorbjarnarstaði í Hraunum og nágrenni. Hún var upphaflega skráð af Gísla á sjöunda áratugnum eftir Ástvaldi Þorkelssyni frá Þorbjarnarstöðum, Gísla Guðjónssyni frá Hlíð, Magnúsi Guðjónssyni frá Stóra-Lambhaga og Gústaf Brynjólfssyni frá Eyðikoti. Einnig studdist hann við gömul landamerkjabréf.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir og nágrenni – örnefni og minjar.

   3. júní 1978 fóru sr. Bjarni Sigurðsson og Haukur bróðir hans á vettvang ásamt þremur öldruðum mönnum, Gísla Guðjónssyni, Gústaf Brynjólfssyni og Jósef Guðjónssyni. Þeir fimmmenningar gerðu ýmsar athugasemdir við lýsingu Gísla. Flestar þeirra skráði sr. Bjarni jafnóðum, en fáeinar ritaði Sigríður Jóhannsdóttir eftir sr. Bjarna 5. júní 1978. Loks gerði sr. Bjarni fáeinar athugasemdir í október 1980. Gísli Guðjónsson er fæddur á Setbergi 1891, kom í Hraunin um 10 ára og var þar til 1917, 8 ár í Gerði og önnur 8 á Óttarsstöðum. Jósef Guðjónsson er fæddur 1899, kom að Óttarsstöðum 2-3 ára og var þar til 1918. Gústaf er fæddur 1906, kom í Eyðikot 1907 og var þar til 1937. Sr. Bjarni og Haukur bróðir hans ólust upp í Straumi frá 1930.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Hér fer á eftir lýsing Gísla með þeim leiðréttingum, sem að framan greinir. Landamerkjalýsing er tekin upp úr Landamerkjabók fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu.

„Þorbjarnarstaðir eru jörð í Hraununum svonefndu. Þeir tilheyrðu áður Álftaneshreppi, en eru nú innan lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar.
Bærinn stóð í túninu því nær miðju, og sneru stafnar við suðvesturátt. Túnið var umgirt túngörðum á alla vegu. Frá bænum lágu traðir austur túnið og skiptu því í tvennt. Norðan traðarveggsins nyrðri var í túninu Dalurinn nyrðri, smádalur, sem dýpkaði og endaði með hamravegg og hálfgerðum skúta. Kringum dalinn var Flötin nyrðri, lítil lægð í túninu. Hér um lá Lambhúsgatan eða Sjávargatan út í gegnum Lambhúshliðið eða Sjávarhliðið. Frá norðurhlið bæjarins lá svo Réttarstígur út í Réttarhliðið.

Þorbjarnastaðarétt

Þorbjarnastaðarétt.

Við Réttarhliðið er klettur, nefndur Sölvhóll. Þar voru söl þurrkuð. Sölvhóll er háhóllinn, sem réttin stendur norðan undir. Þegar búizt var við halastjörnunni 1910, vildi Þorkell Árnason á Þorbjarnarstöðum safna öllum Hraunamönnum upp á þennan hól, áður en jörðin færist, og láta þá mæta þar örlögum sínum. Sunnan í þessum hól voru Sölvhólsklettar. Þá kom lægð, sem nefnd var Sölvhólsstykki. Innst inni á stykkinu er lítill skúti. Vestar kom Háaklöpp, vestan við sprunguna, sem þarna er í klettunum. Þar sunnar komu Vonduhólar, klappir margsprungnar, sem lágu að nokkru inn í túnið.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur í Brunntjörn.

Í skrá Gísla Sigurðssonar segir: „Heiman frá bænum í suðvestur lá Mosastígur út í Mosaskarð, sem þar var á garðinum.“ Þessi örnefni kannast sr. Bjarni og heimildarmenn hans ekki við. Mosinn var sóttur út í Kapelluhraun (sjá síðar), sem er í annarri átt. Konur báru mosann heim í pokum eða jafnvel sátum. Hann var notaður í eldinn og einnig í einangrun, m.a. í Gerðishúsið, sem Guðjón Jónsson frá Setbergi reisti og enn stendur. Mosi var sóttur frá Lambhögum, Gerði, Þorbjarnarstöðum og Péturskoti. Heiman frá bæ lá Skógarstígur suður túnið fram í Skógarhlið á túngarðinum. Í suðurtúninu var lægð, sem nefnd var Dalurinn syðri. Kringum hann lá Flötin syðri, allt upp að traðargarðinum syðri. Frá traðarhliðinu lá Brunngatan út í Brunninn, sem var í Brunntjörninni.
Meðfram austurtúngarðinum lá Straumsstígurinn, og fylgjum við honum norður með garði.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – Lambúsgerði.

Er þá fyrst komið að Lambhúsinu, sem er rétt utan við Lambhúshliðið. Við norðurtúngarðinn var Þorbjarnarstaðarétt, vel hlaðin rétt af grjóti. Þar var haustrétt fyrir Innhraunin eða Austur-Hraunabæi, þ.e. Litla- og Stóra-Lambhaga, Gerði, Þorbjarnarstaði og Péturskot. (Þess má geta, að í Hraunum voru um 60 manns 1918.)
Eitt örnefni enn er hér nálægt túninu, Mosaflesjur, þar sem mosinn var þurrkaður til eldiviðar. Í skrá Gísla segir, að þær séu út frá Mosaskarði. Litlu norðar var Péturskotsstígur. Hann lá yfir að Péturskoti, sem var þurrabúð í Þorbjarnarstaðalandi. Var það fyrst byggt fyrir aldamót af Pétri Péturssyni, Helgu konu hans og Signýju dóttur þeirra. Þarna var ofurlítið tún, og var túngarður umhverfis það.

Péturskot

Péturskot árið 2000.

Háatún nefndist nokkur hluti túnsins sunnan bæjarins og ofan, oftast þá nefnt Fagrivöllur. Kotið var í spaugi nefnt Hosiló, en það festist aldrei við sem örnefni. Austan við túnið var matjurtagarður. Þar eru nú sumarbústaðir. Þessi garður tilheyrði Litla-Lambhaga, en einnig var kálgarður í Péturskotstúni. Pétursspor var stígur, sem lá heiman frá bæ niður á Straumshólmana og um Straumsrásirnar frá Straumstjörnunum. Stígur þessi lá fram á Pétursbyrgi svokallað. Þar var Byrgisvör eða Pétursbyrgisvör. Í vörinni sér enn djúpar skorir eftir bátskilina. Gísli Sigurðsson segir, að það muni vera þessi staður, sem í bréfi frá 1849 nefnist Brynjólfsskarð og var nyrzta mark landamerkja milli Þorbjarnarstaða og Straums. En þetta kannast sr. Bjarni og heimildarmenn hans ekkert við og þykir það óskiljanlegt, því að ekkert skarð er á þessum slóðum.

Péturskot

Péturshróf.

Annar stígur lá austur hólmana og nefndist Sporið. Segir Gísli, að það hafi legið af hólmunum um Litla-Stróka, sem hann nefnir svo, og þaðan upp á Stróka eða Stóra-Stróka að Litla-Lambhaga, sem í fyrstu nefndist Nýjakot. Sr. Bjarni og heimildarmenn hans kannast ekki við nafnið Litli-Stróki og telja hæpið, að Stróki hafi verið kallaður Stóri-Stróki. – Þetta eru tangar, sem ganga í sjó fram, og standa smáklappir upp úr.

Lambhagi

Lambhagaeyrarbyrgi.

Litli-Lambhagi stóð í Litla-Lambhagatúni. Lá túngarður tvíhlaðinn með allri norðurhlið þess. Fram milli Stróka lá Ósinn eða Nýjakotsósinn, sem eiginlega var lækur. Mest bar á honum við útfall, og var þar í allmikið vatn.
Gísli segir, að í túninu hafi verið þessir matjurtagarðar: Geiragarður, Stórigarður og Hraungarður. Sr. Bjarni og heimildarmenn hans muna ekki eftir kálgörðum í túninu, en garðar voru utan túns og m.a. einn við fjárhúsin við upphaf Ólafsgötu.
Syðst var Hjallatún. Gísli segir, að þar hafi í eina tíð staðið Hjallatúnsfjárhús, en heimildarmenn sr. Bjarna mótmæla því og segja, að tvö fjárhús hafi staðið undir Brunanum, en ekkert inni í túni. Úr Hjallatúni lá Hraunhornsstígur upp á Hraunhornið og suður á alfaraleið. Austan við bæinn var Nýjakotstjörn og suður úr henni Hlöðuvík.
Sjávargatan lá frá bæ norður á Stróka í Litla-Lambhagavör, sem einnig var nefnd Litla-Lambhagalending. Þar hjá var Litla-Lambhagahróf.

Lambhagi

Litla-Lambhagavör.

Lambhagavík lá frá Stróka austur á Eyri. En Lambhagamenn nefndu svo Straumsvíkina sín megin. Um suðurhluta túnsins liggur nú vegur inn til álversins og einnig Reykjanesbrautin. Nokkru sunnar má enn sjá Suðurnesjaveginn ofan af Brunanum niður af Hraunhorninu. En af honum lá Gerðisstígur heim að Gerði eða Gerðisbæ, sem stóð í hjalla í Gerðistúni. Stígur lá frá bænum upp á Brunabrún upp í Hraunhornsstíg. Niður undan Hjallanum voru Gerðisbalar, Stóri-Bali nær og Litli-Bali fjær. Norðan Balanna var Gerðistjörn. Í henni var Gerðisvatnsból og vestur frá henni Stakatjörn. Fyrrnefndur stígur, sem lá upp á Brunabrúnina, var kallaður Kirkjustígur. Hann sést enn, liggur upp frá túninu norðan við Gerði og upp á alfaraleið. Þessi stígur var mest genginn, er sóttur var mosi í Kapelluhraun.

Gerði

Gerði og Gerðistjörn.

Sunnan Gerðistúns var tjörn, er nefndist Gerðistjörn syðri, en sameiginlega voru allar tjarnirnar nefndar Gerðistjarnir eða Þorbjarnarstaðatjarnir.
Lambhagatjarnarós rann fram úr Stóra-Lambhagatjörn til sjávar milli Stróka og (Stóra-)Lambhagagranda. Vestast á grandanum var klettur, er nefndist Laufahjalli. Austan við hann var Þorbjarnarstaðavör og Gerðisvör. Þar má enn sjá móta fyrir hleðslu af bátshrófi eða skipahrófinu.

Lambhagi

Litli-Lambhagi – útihús.

Austar nokkuð var hraundrangur, nokkuð sprunginn að ofan, en gras á honum. Gísli Guðjónsson segir, að hann hafi alltaf verið nefndur Leikarahóll. (Í eldri skránni stendur Leikhóll). Krakkar hafa getað leikið sér þar, en einnig kann nafnið að stafa af því, að lömbin hafi leikið sér þar. Af vesturodda grandans lá garður um þvera Lambhagatjörn. Upp í Aukatún lá gangbraut hlaðin sem garður, nefndist Steinbogi. Aukatún var smátunga út frá Brunahrauninu. Það var grætt upp og notað sem túnblettur frá Stóra-Lambhaga. Túnið var greiðfært, en ekki slétt. Á því stóð hesthús. Nokkru fyrir innan fyrrnefndan Steinboga mátti sjá marka fyrir öðrum Steinboga.

Litli-Lambhagi

Eldhús við Litla-Lambhaga. Straumur fjær.

Á miðjum Stóra-Lambhagagranda stóð bærinn í Stóra-Lambhaga og stendur enn, þótt nú sé þar fjárhús með hlöðu. Austan bæjarins lá skerjagarður fram í víkina. Hann nefndist Kelatangi, en ekki er vitað, af hvaða Kela hann dregur nafn. Þar fyrir sunnan var Lambhagavör og upp af henni Lambhagahróf. Lambhagatúnið lá um grandann og Lambhagahólma, en milli þeirra voru Lambhagatjarnir. Í þeirri, sem næst var bænum, var brunnurinn, grafinn niður í leirinn, og frá honum Brunnstéttin, helluflórað upp til bæjar. Hér úti í tjörninni var lítið, upphlaðið byrgi, Tjarnarbyrgið.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – túnakort 1919.

Stóra-Lambhagastígur lá um hólmana eða austur fyrir þá upp að Brunanum og norðan undir honum og vestur með og var þar nefndur Hallinn. Ef gest bar að garði, sem fór þessa. leið, var vanalega sagt, að gesturinn væri á Hallanum. Hallinn lá út í Aukatún og þaðan út með vesturbrún Brunans fram hjá hesthúsinu á Aukatúni, að vesturtúngarði Aukatúns, sem var stuttur, aðeins ofan úr Brunanum niður að tjörn. Í skrá Gísla segir, að þarna hafi verið Vesturtúngarðshlið og þá komið á Litla-Lambhagastíg. Þetta nafn er hins vegar óþekkt, en gæti hugsanlega átt að vera Aukatúnshlið.

Austurtúngarðurinn lá úr Beinaviki upp á klettastall og suður eftir honum suður á Brunann.

Lambhagi

Lambhagi um 1970.

Um Brunann lá einhlaðinn grjótgarður vestur á Hraunhornið, Brunagarðurinn. Uppi á klettastallinum var Yrðlingabyrgið, sporöskjulaga og nokkuð hátt, með lágum dyrum. Um aldamótin síðustu hafði Guðjón Gíslason þarna yrðlinga í fóstri. Þarna er líka Fiskabyrgið, þar sem fiskur var kasaður hér í eina tíð og síðan hertur. Þarna uppi voru einnig tvö til þrjú fjárhús, og stóðu veggir þeirra til þessa. Sunnan við þau lá stígur upp frá túninu í hlið á austurtúngarðinum. Frá hliðinu lá stígur austur eftir hraunhrygg allháum. Var hann lagður hellum langt austur. Gísli Sigurðsson segir, að hann hafi heitið Ólafsstígur, en það er rangt. Ólafsstígur liggur upp á hraunið hjá kálgörðunum í Litla-Lambhaga.

Lambhagi

Lambhagi – stífla v/fiskeldis.

Skammt austur frá hliðinu á austurtúngarðinum voru tveir hraundrangar, nær mannhæðarháir og áberandi af sjó. Þeir nefndust Riddarar. Um þá og Riddarann á Helgafelli var mið á Rifið út frá Óttarsstaðatúni. Beinavíkurhlið, sem nefnt er í skrá Gísla, er óþekkt.
Fjárslóðin vestari liggur um Lambhagaeyrarkletta, og er stígur þessi heldur ógreiður. Miðja vegu í klettunum var Litlaeyri, vík. Í skrá Gísla Sigurðssonar segir, að upp af henni inni í hrauninu hafi verið Klettstjarnir, með fersku vatni. Þessu mótmælir Gísli Guðjónsson og segir, að þar hafi aðeins verið ein tjörn, sem hét Eyrartjörn. Þó kann að vera, að einhverjar smátjarnir hafi komið upp þarna um hásjávað.

Lambhagi

Lambhagi fyrir 1960.

Víkin var einnig kölluð Litla-Sandvík. Nokkru utar var svo komið á Lambhagaeyri. Lá hún í sveig og var nokkuð stórgrýtt. Hingað rak mikið af sölvum, sem fé sótti mjög í. Gísli Sigurðsson segir, að eyrin hafi líka verið kölluð Stóra-Sandvík, en það kannast heimildarmenn sr. Bjarna ekkert við. Eyrin lá út að Lambhagaeyrarnefi, sem lá fyrir mynni Straumsvíkur. Lambhagaeyrartangar var nefið kallað ásamt Lambhagaeyrarrifi, sem lá beint á sjó út. Háasker var drangur út frá eyrinni, en milli hans og eyrar var Músarsund. Eyrin var allbreið, og hallaði inn af henni. Þar var Lambhagaeyrarflöt og í henni matjurtagarður. Niður frá flötinni var Lambhagaeyrartjörn. Í henni gætti flóðs og fjöru. Þó var þarna ferskt vatn. Vestan við tjörnina var Lambhagaeyrarskjól og þar við Lambahageyrarbyrgi. Sunnan við tjörnina eru Skotbyrgin, Skotbyrgið eystra og Skotbyrgið vestra. Hér upp af ganga geilar og bugður og nefnast Katlar. Af eyrinni liggur fjárslóðin eystri inn eftir Eyrarklettum.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambahaga við Straumsvík.

Út af þeim var klettur, nefndur Einbúi. Slóðin lá allt inn í Þórðarvík, en þar voru mörk milli Þorbjarnarstaða og Hvaleyrar. Hér kemur niður stígur, er sameinast alfaraleiðinni austan og ofan við Gjögur. Sveinn í Eyðikoti, fóstri Gústafs Brynjólfssonar, kallaði hann Lambhagastíg. (Gísli Sigurðsson kallar hann ranglega Ólafsstíg.) Hér út frá Þórðarvík er Þórðarvíkurþari. Gísli Sigurðsson segir, að Hraunavík heiti hér fram undan austan frá Hvaleyrarhöfða vestur að Óttarsstaðatöngum en heimildarmenn sr. Bjarna þekkja hvorki nöfnin Hraunavík né Óttarsstaðatanga. Þó gætu þessir tangar verið nefndir Óttarsstaðatangar frá öðrum bæjum en Óttarsstöðum.

Alfaraleið

Í fornleifaskráningum hefur Alfaraleiðin millum Þorbjarnarstaða og Gerðis ekki verið skráð (einungis sögð „óljós“).

Um Brúnaskarð eystra liggur alfaraleiðin upp á Kapelluhraun, en svo nefnist neðsti hluti Nýjahrauns, sem ofar kallast Bruninn og enn ofar Háibruni. Áður hefur verið getið um mosatekju í Kapelluhrauni. Landamerkjalínan liggur úr Þórðarvík suður og upp um Leynidali og síðan áfram upp austurbrún Brunans. Alfaraleiðin lá suðvestur eftir Brunanum. Nær miðju var Kapellan, húsnefna hlaðin úr grjóti uppi á hól. Var hún 2×2 metrar að ummáli, og sneru dyr í vestur. Kapella þessi var helguð heilagri Barböru, sem var verndari ferðamanna og gegn hvers konar háska af eldsvoða.

Alfaraleið

Alfaraleiðin – Stóravarða við leiðina; einnig landamerki Lambhaga og Hvaleyrar neðan Leynis.

Síðan liggur leiðin áfram, þar til komið er í Brunaskarð vestra. Við hvort skarð eru vörður, er nefnast Stóravarðan eystri og Stóravarðan vestri. Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðaker.

Úr skarðinu liggur alfaraleiðin vestur um Hraunin ofan eða sunnan garðs á Þorbjarnarstöðum. Þegar hér er komið, verður fyrir stígur, er liggur frá Gerðinu, nefnist Gerðisstígur. Lá stígur þessi suður með vesturbrún Brunans. Skammt sunnar lá stígurinn um Hólaskarð milli Brunans og Hólanna, og var hann því allt eins nefndur Hólaskarðsstígur. Rétt sunnan við Skarðið var vik í Brunann. Hér vestur af eru klettaborgir miklar; í lægð milli þeirra er Þorbjarnarstaðaker, djúpt jarðfall, og var þar hætta fyrir fé. Það komst ekki upp úr. Þorkell Árnason bóndi á Þorbjarnarstöðum hlóð tröppur upp, og eftir það var fé engin hætta búin. Lægðin nefndist Stóridalur. Skammt vestar var svo Litlidalur.

Selhraun

Gerðisstígur (Hellnastígur) um Selhraun.

Ofan við Hólana allt frá Bruna og vestur að Óttarsstaðarauðamel liggur Seljahraun. Seljahraunsstígur liggur gegnum það upp með Brunanum. Seljatún nefndist lítil, gróin flöt norðan hraunsins. Þegar komið er yfir Seljahraun, blasir við á hægri hönd mikill melur, Rauðimelur eða Þorbjarnarstaðarauðimelur. Rétt fyrir norðan Rauðamel eru Neðri-Hellar eða Litlu-Hellar. Rauðimelur var einnig nefndur
Rauðhólar. Norðan melsins voru klettaborgir, áberandi vegna gróðurs í kringum þær. Nefndust þær Rauðamelsklettar syðri og Rauðamelsklettar nyrðri eða bara Rauðamelsklettar. Vestur frá þeim tóku við Ennin, lágar brekkur.
En Rauðamelsstígur lá vestur norðan við melinn, samkvæmt skrá Gísla Sigurðssonar. Nú man enginn eftir honum, e.t.v. hafa þetta. bara verið fjárslóðir. Suður frá melnum var Réttargjá. Gjá þessi var sprunga, sem sneri suður og norður.

Vorrétt

Rauðamelsrétt (Vorrétt).

Skammt suður þaðan í Brúnabrúninni var Þorbjarnarstaðarétt eða vorréttin, einnig nefnd Rauðamelsrétt, þótt hún væri drjúgan spöl frá melnum. Héðan var stígurinn kallaður Efrihellnastígur allt upp að Efrihellum, sem hér voru við brúnina á Brunanum. Þegar hér var komið, nefndist hraunið Brenna, ofan Efrihellna, brunatunga, er lá hér suður. Úti á hrauninu var Brennuhóll, neðst í Brennunni. Guðmundur Bergsveinsson í Eyðikoti sótti kvarnarsteina í Brennuna og bar á bakinu, setti mosa undir bakið.

Hrauntunguskjól

Hrauntunguskjól.

Halda skal nú hér fram með Brennu, allt þar til kemur í Hrauntungukjaft. Þar taka við Hrauntungur, sem liggja norðaustur eftir milli Brennu og Brunans. Þær eru nokkrar að víðáttu, og er skógurinn einna mestur þar, allt að 4 m há tré. Úr kjaftinum liggur Hrauntungustígur norðaustur og upp á Háabruna, út á helluhraunið og austur eftir því upp að Hamranesi vestan Hvaleyrarvatns. Er þetta skemmtileg gönguleið. Efrigóm Hrauntungukjafts gerir Hellishóll. Hér í hólnum eru Hrauntunguhellar (að sögn Gísla Guðjónssonar; Gísli Sigurðsson kallar þá hins vegar Hellishólshelli og Hellishólsskjól). Í vætutíð má fá þar vatn. Uppi á hólnum er Hellishólsker. Hér nokkru sunnar er Fjárborgin á tungu út úr brunanum. Hún stendur enn, og er innanmál hennar um 7 m. Suður og upp frá brunanum eru Brundtorfur. Þar var hrútum hleypt til ánna forðum daga. Þar voru Brundtorfuvörður og Brundtorfuhellir.

Brundtorfur

Brundtorfuhellir.

Einnig var þetta svæði kallað Brunntorfur, Brunntorfuvörður og Brunntorfuhellir. Hér vestnorðvestur var Gjásel, sel frá Þorbjarnarstöðum, stoð á Gjáselshæð. Rétt hjá selinu var vatnsstæði. Á hæð skammt suður og upp frá selinu var Gjáselsvarða. Norðaustur frá Gjáselsvörðu (G.G.) voru þversprungnir hólar, Vonduhólar. Frá selinu lá Gjáselsstígur, en hann er nú óglöggur mjög. Upp frá Hrauntungukjafti eru hólar, sem nefnast Skyggnirar. Þar um liggur Hrauntungustígurinn og er ekki vel greinilegur.
Í skrá Gísla Sigurðssonar segir: „Hér lengra og ofar er Þúfuhólshraun með Þúfuhól og þar á Þúfuhólsvörðu. Svæði þetta nefndist líka Hundaþúfuhólshraun, Hundaþúfuhóll og Hundaþúfuhólsvarða.“ En Gísli Guðjónsson og Jósef Guðjónsson segja, að þessi örnefni séu ekki til hér, heldur séu þau vestur af Tóhólum í Óttarsstaðalandi.

Kolbeinshæðarskjól

Kolbeinshæðarskjól.

Í suðvestur uppi á hrauninu frá Efri-Hellum er hraunhæð, nefnd Kolbeinshæð, og er vel gróið kringum hana. Sunnan í henni er vestanvert Kolbeinshæðarskjól, en austanvert er Kolbeinshæðarhellir. Uppi á hæðinni er Kolbeinshæðarvarða. Kolbeinshæðarstígur liggur hér um skarð í hæðinni suður og upp hraunið, og er þá komið að stórri, ferhyrndri laut þarna í hrauninu. Gísli Sigurðsson segir, að hún sé kölluð Kvíin, en það kannast heimildarmenn sr. Bjarna ekki við, telja þó, að það geti staðizt. Hraunflákinn milli Rauðamels og Kolbeinshæðar heitir Gráhelluhraun. Suður og upp frá lautinni, sem fyrr var nefnd, er Fornasel, sel frá Þorbjarnarstöðum. Má enn sjá, að þrjár hafa verið þarna vistarverur.

Gjásel

Gjásel. Í örnefnaslýsingunni er því lýst sem Fornasel.

Selið stendur á Fornaselshæð. Rétt við Selið er vatnsstæði, nokkuð niðurgrafið. Norðan undir hæðinni eru rústir eftir kvíar. Suður og upp frá selinu var Gránuskúti eða Gránuhellir. Suðvestur héðan var Litlaholt og lá milli Straumssels og Hafurbjarnarholts, en um Hafurbjarnarholtsvörðu lá landamerkjalínan. Þaðan lá línan um Nyrztahöfða og um Norðurhöfðaslakka, á Mjóhöfða og um Miðhöfðaslakka, þaðan í Fremsthöfða í Þrívörður. Gísli Sigurðsson segir, að þær hafi verið nefndar Lýritti, en það hafa heimildarmenn sr. Bjarna ekki heyrt. Héðan lá aftur á móti línan austur og ofan við Brundtorfur og kom þar á Stórhöfðastíg, sem lá svo áfram vestur að Fjallinu eina.

Hafurbjarnarholt

Hafurbjarnarholt – varða.

Úr Hafurbjarnarholti lá landamerkjalínan niður um hraunið austur af Straumsseli niður um Katla og niður á Fremri-Flár. Austan við Katlana var Laufhöfðahraun með Laufhöfðavatnsstæði, sunnan undir Laufhöfða. Í brúninni á hrauni þessu var Kápuhellir. Landamerkjalínan liggur um Katlana í Jónshöfða austast í Straumsselshöfðum ofan Kápuhellis (Gísli Guðjónsson). Verður þá Straumsselsstígurinn innan merkjanna.

Héðan frá Jónshöfða liggur Fornaselsstígur suður og upp í Laufhöfðahraun suður í selið.

Gjásel

Gránuskúti í Gjáseli.

Frá Jónshöfða liggur Straumsselsstígurinn niður um Neðri-Flár eða Flárnar. Á miðjum Flánum er Fláavarðan. Eru nú engin örnefni, fyrr en kemur í Tobbukletta, Tobbuklett eystri og Tobbuklett vestri, en þar var Tobbuvarða, og lá landamerkjalínan um hana. Tobbuklettaskarð var allbreið lægð milli klettanna. Hér var stígur, sem lá allt til Krýsuvíkur, jafnframt fjallreiðarvegur á kafla.
Í skrá Gísla segir, að framan í Tobbukletti vestri hafi verið Tobbuklettsrétt. Það nafn þekkist nú ekki lengur, en þó sést enn fyrir réttum í Grenigjám litlu vestar, og ljóst er, að hægt hefir verið að reka að í breiðri sprungu, sem hlaðið hefir verið fyrir í, í Tobbukletti vestri (skoðað 21. júlí ’80, B. S.).
Tobbuvarðan eystri var á eystri klettinum. Þaðan er skammt í Seljahraun, en austur frá klettunum eru Ennin áðurnefnd.

Tobbuklettarvarða eystri

Tobbuklettavarða eystri.

Landamerkjalínan liggur úr Tobbuvörðu norður í Stekkatúnshæð vestari, þaðan í Tóhól eða Tó rétt vestan við Sölvhól og þaðan í Pétursbyrgi. En stígurinn liggur frá Seljahrauni vestan Jóhannshóls og milli Stekkatúnshæðar vestari og eystri. Á Stekkatúnshæð eystri var Hádegisvarða, stóð hátt og var mikil um sig. Hæðin var því allt að einu nefnd Hádegishæð. Varða þessi var ekki eyktamark frá Þorbjarnarstöðum, heldur sennilega Gerði. Norðan undir hæðinni var Stekkurinn eða Stekkatúnið með Stekksgerðinu. Þarna var líka Stekksgatan eða Þorbjarnarstaðagatan. Er þá komið heim að túngarði.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – Miðdegisvarðan; Hádegisvarðan frá Straumi.

Suðvestan Þorbjarnarstaðatúns er Miðmundahæð, eyktamark frá Þorbjarnarstöðum. Þar er stór varða. Enn standa margir túngarðar og veggir óhaggaðir í Hraununum. Eru þeir hlaðnir af Guðmundi Sveinssyni frá Óttarsstöðum, sem var mikill hleðslumaður. M. a. hlóð hann eldhús á Óttarsstöðum upp úr aldamótum, sömuleiðis skemmu í Stóra-Lambhaga, og standa þau enn óhögguð. Athugasemd: Sr. Bjarni kannast ekki við Fremri-Flár. Á þessum stað virðist lýsingin ekki í fullu samræmi við lýsingu Straums, en enginn núlifandi maður treystir sér til að leiðrétta þetta misræmi.“ – Örnefnastofnun, 11. nóv. 1980; Sigríður Jóhannsdóttir [sign.]

Heimild:
-Örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar um Þorbjarnarstaði í Hraunum með athugasemdum.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin- varða.

Straumur

Húsið í Straumi var reist árið 1927, fyrir Björn Bjarnason barnaskólakennara og síðar skólastjóra Barnaskólans í Hafnarfirði, eftir teikningu Guðmundar Einarssonar trésmíðameistara og framkvæmdarstjóra í Dverg.

Straumur

Straumur – ljósmyndina tók Sigríður Erlendsdóttur um 1930.

Ber húsið keim af hönnun Guðmundar en álíka kvistur er á húsi hans, Hverfisgötu 3 sem hann teiknaði árið 1925. Björn Bjarnason hafði eignast Straum árið 1918 og stóðu þá þar eldri byggingar sem urðu eldi að bráð snemma árs 1927.
Í virðingagjörð sem gerð var árið 1928 er íbúðarhúsinu lýst þannig: „Íbúðarhús úr steinsteypu, byggt 1927. Vandað vel. Tvær íbúðarhæðir, steypt gólf og loft, hátt ris með geymslu og þurrklofti. Tvídyrað. Snoturt útlits.

Hverfisgata 3

Hverfisgata 3.

Skýli heilt með járnþaki við aðrar útidyrnar 3 x 2 ½ m. Stærð 8,6 x 8m. meðalhæð um 6,5m. Á neðri hæð eru 3 stofur, eldhús, búr og gangur (forstofa) á efri hæð: 4 herbergi og gangur. Geymsla á 3. lofti.

Útveggir steyptir: að innan lagðir pappa, korklagi og svo veggjapappi á sléttri súð. Milliloft steinsteypt. Dúkar (linoleum) á gólfum. 1 steinsteyptur reykháfur. 3 ofnar, 2 þeirra ósettir niður, 1 eldavél (glerhúðuð)“. Enginn kjallari en steypt breið stétt á 3 hliðar við íbúðarhúsið, sem stendur á klöpp. Virt á 16.700 kr.

Björn Bjarnason

Björn Bjarnason – Kennari við barnaskólann í Hafnarfirði 1912–1915, skólastjóri 1915–1929. Keypti Straum í Hafnarfirði og rak þar búskap 1918–1930.

Útihúsin: „1. Heyhlaða (við húsgafl) tekur um 600h. Steyptir veggir, járnþak, tvíreist. 2. Fjós við, fyrir 13 gripi, steyptir veggir, járn og burðaþak, steypt gólf og áburðargryfjur, vatni dælt að hverjum grip (og í húsið). 3.Fjárhús, tekur 200 að 2 görðum. Steyptir veggir og gólf með baðþró og brunni (300 fjár baðað á kl.st.) járnþak, rimlar á gólfi. „ í virðingu frá 1927 þá af húsinu nýbyggðu eru steypt baðáhöld í fjárhúsinu og fjósið með 14 básum.
Bjarni Bjarnason var kennari og skólastjóri Barnaskólans í Hafnarfirði. Til að drýgja tekjurnar vann hann við heyskap á sumrin þar sem færi gafst en árið 1918 keypti hann Straum og rak þar búskap í rúman tug ára en aldrei bjó hann í húsinu heldur hafði hann þar ráðsmann og leigði út herbergi. Straumur var fyrirmyndar bú, er haft eftir bónda úr Borgarfirði sem kvaðst „aldrei hafa séð 14 kýr í einu fjósi jafn glæsilegar“.

Straumur

Straumur 1935.