Færslur

Straumur

Nokkrir sumarbústaðir voru byggðir í Hraunum við Straumsvík nokkru fyrir miðja 20. öldina.
Meðal þeirra sem heilluðust af þessu sérstæða og að margra mati fallega landsvæði voru þrír félagar, straum-792bræðurnir Marinó og Kristinn Guðmundssynir sem voru báðir málarameistarar og Björn Jóhannesson doktor í jarðvegsfræði sem hafði mikinn áhuga á hegðun laxfiska. Þeir voru afar heillaðir af Lónakoti og tjörnunum sem þar eru en þar gátu þeir ekki fengið land á leigu eða til kaups. Gengu þeir þá eftir strandlengjunni frá Lónakoti og inn fyrir Straumsvík til Hafnarfjarðar og þaðan út á Álftanes í leit að ákjósanlegum stað til að reisa sumarkofa eins og þeir kölluðu það. Eftir að hafa grandskoðað strandlengjuna voru þeir sammála um að innsti hlutinn við norðaustanverða Straumsvík væri ákjósanlegasti staðurinn. Þar hafði staðið kotbýlið Litli-Lambhagi á tanga sem heitir Stróki og skammt frá honum voru Hólmarnir og Straumsvatnagarðar. Þar voru aflögð útihús og merkiklega vel hlaðið eldhús úr hraungrjóti frá því seint á 19. öld. Eftir nokkra eftirgrenslan  fengu þremenningarnir leyfi til að reisa lítið íveruhús innarlega á Stróka.
straum-793Bjarni Bjarnason skólastjóri Héraðsskólans á Laugarvatni átti þetta land allt, en hann eignaðist jarðirnar Straum og Þorbjarnarstaði ásamt Litla- og Stóra-Lambhaga árið 1919. Rak hann um árabil ágætis bú í Straumi og nytjaði allar jarðirnar til heyskapar og beitar. Bjarni lét byggja Straumshúsið sem enn stendur árið 1927 úr steinsteypu eftir að gamli bærinn brann. Sá sem teiknaði húsið var Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins, en húsið ber svipmót burstabæjar, en Guðjón hafði áhuga á að skapa nýja íslenska byggingarhefð með skírskotun til fyrri tíma.
Þegar Bjarni ákvað að selja jarðir sínar við Straumsvík rétt eftir seinni heimsstyrjöldina keypti Björn landspilduna umhverfis sumarkofa þeirra félaga, með landamerkjum nokkru austan Stróka. Höfðu þeir stækkað húsið það mikið að hægt var með sanni að tala um sumarhús enda dvöldu þeir oft ásamt vinum og ættingjum á þessum slóðum sumarlangt og lengur ef aðstæður leyfðu. 

straum-794

Ástæðan fyrir staðarvalinu var sú að við Stróka fannst þeim ríkja fágæt náttúrufegurð. Spilaði þar inn í  hversu merkilegt náttúrufarið er við hina lygnu og friðsælu Straumsvík þar sem ferskt vatn rennur framundan hrauninu og veldur því að sjórinn er afar tær á þessum slóðum. Grashólmar og sker innst í Straumsvík skipta stöðugt um svipmót þar sem sjórinn á það til að hylja landið á flóði og svo birtist það aftur þegar fellur út og fjarar. Fallaskiptin og mismunandi sjávarstaða eftir því hvernig stendur á flóði og fjöru hafa veruleg áhrif á umhverfi Stróka og valda síbreytilegu náttúruspili. Þarna var líka fjölskrúðugt fuglalíf, stundum sáust selir á sundi eða þeir sóluðu sig á skerjum rétt hjá Stróka alveg óhræddir. Sólarlagið var líka töfrandi og myndaði Snæfellsjökul og Snæfellsfjallgarðurinn handan Faxaflóans einskonar ramma sem sólin settist á bak við. Litbrigði náttúrunnar breyttust árið um kring og stundum var hafið ólgandi og skolaði þara og fiski upp á hólmana en á öðrum tímum var þetta kyrrðarinnar staður þar sem tíminn stóð nánast í stað. Refur átti það til að sjást á vappi í fjörunni og minkar gerðu sér greni framarlega á tanganum þar sem fiskur lónaði stutt frá landi.

straum-795

Landspildan var tekin eignarnámi þegar undirbúningur að álverinu hófst um miðjan sjöunda áratuginn en þá höfðu Björn og félagar stundað tilraunir með laxeldi í Straumsvík um nokkurt skeið. Þessar tilraunir grundvölluðust á einstæðum vatnabúskap svæðisins. Stuttu eftir að félagarnir byggðu sumarhúsið fóru þeir að mæla og efnagreina ferskt grunnvatnið sem fellur út í Straumsvík undan hrauninu við botn víkurinnar. Reiknuðu þeir út að talsverður hluti Kaldár, sem hverfur ofan í hraunið rúmlega kílómetra neðan upptaka sinna, félli til sjávar rétt vestan við Stróka. Allavega töldu þeir sig geta greint það á fjöru að allstraumhörð ferskvatnskvísl félli í þröngum stokki meðfram nyrsta hluta tangans. Þeir mældu hitastig grunnvatnsins sem streymdi undan hrauninu margsinnis og reyndist það vera nákvæmlega 4 gráður á Celsíus árið um kring. Stóðu mælingarnar árum saman og alltaf voru niðurstöðurnar þær sömu. Björn var sannfærður um að vatnið hefði hagstæða efnaeiginleika fyrir laxaklak og sökkti hann vírkörfum í lón við hraunjaðarinn til að sannreyna þetta. 

straum-796

Niðurstaðan var sú að laxaklakið skilað góðum árangri en ekki var alveg ljóst hvernig nýta mætti aðstöðuna við Straumsvík til laxaframleiðslu.
Þeir prófuðu sig áfram og fljótlega gerðu þeir tilraunapoll í litlu lóni sunnanvert við Stróka nálægt Keflavíkurveginum sem hlaut nafnið Pollurinn. Hann var dýpkaður með jarðýtu en þannig háttaði til að lónið tæmdist ekki þó að fjaraði út vegna þess hversu mikill vatnsstraumurinn var undan hraunjaðrinum. Steyptu þeir félagar einskonar hlið eða dyraumbúnað við mynni Pollsins þar sem hægt var að koma fyrir gildru. Laxar gátu þar með gengið í Pollinn en áttu þaðan ekki undankomu nema þeim væri hreinlega sleppt lausum í sjóinn. Pollurinn var hreinn og moldarlaus til að byrja með, en þegar vegur var lagður að álverinu rétt við hliðina á Pollinum barst talsvert magn af fokefnum í hann. Þar með varð botninn þakinn þykku leðjulagi sem hefði þurft að moka í burtu eða reyna að skola út með útfallinu. Þetta var hinsvegar ekki gert þannig að aðstæður í Pollinum breyttust með tíð og tíma.
Félagarnir eyddu mikilli vinnu, tíma og fjármunum í að flytja bleiklax frá Alaska til Íslands 1965 til 1966. Árangurinn varð neikvæður að öðru leyti en því að flutningur á 120.000 aughrognum frá Kódakeyju til Íslands tókst vel. Samvinna við Veiðimálastofnun tókst ekki um framkvæmd þessarar tilraunar, en vorið 1966 sýndu þeir fram á að laxaseiði silfrast við 4 gráðu hita á 6 vikum. Þegar Marinó og Kristinn féllu frá hélt Björn áfram að nýta aðstöðuna á Stróka og stunda þarna tilraunir sínar.
straum-797Sumarið 1980 var sjógönguseiðum sleppt úr Pollinum eftir 56 daga dvöl í körfu og sneri ein 4,5 punda hrygna aftur í Pollinn sumarið eftir. Gerð var hafbeitartilraun í Pollinum 1981 til 1982 og kom í ljós að eftir 84 daga svelti sjógönguseiða í körfu lifðu næstum því öll sumarið 1982. Sumarið áður var sjógönguseiðum haldið í körfu í Pollinum með sáralítilli fóðrun í 56 daga áður en þeim var sleppt til sjávar. Aðeins eitt af þessum seiðum rataði aftur heim í Pollinn árið eftir. Þá var búið að koma fyrir nokkrum laxaseiðum í körfu í Pollinum, en norðmaðurinn Nordeng varpaði þeirri tilgátu fram að lax gangi ekki í vatn nema þar séu fyrir laxaseiði eða lax. Taldi Björn að hrygnan sem skilaði sér í Pollinn um sumarið hefði sennilega ekki gert það ef þar hefðu ekki verið fyrir laxaseiði.
Laxeldisfyrirtækið Pólarlax var um árabil með aðstöðu Hafnarfjaðrarmegin við álverið og notaði meðal annars hvalalaug Sædýrasafnsins í eldisstarfinu. Sumarið 1981, sem var sama sumar og hrygnan skilaði sér í Pollinn, sleppti Pólarlax þó nokkrum stórum laxaseiðum úr kví sem var í Straumsvík. Sumarið eftir komu miklar laxagöngur inn í Straumsvík og stökk laxinn í víkinni svo að ekki fór á milli mála að þarna var eitthvað um að vera. Kom það fyrir þegar mest gekk á að hálfgert umferðaröngþveiti skapaðist á Reykjanesbrautinni því vegfarendur snarhemluðu og hlupu út úr bílum sínum til að fylgjast með þessari óvenjulegu sjón. Laxinn var að koma heim eftir vetrardvöl í hafinu og þetta sjónarspil var alveg einstakt.
straum-798Vonir manna um að laxinn gengi upp í ferskvatnslónin í Straumsvík gengu ekki eftir þar til Björn lagði til að komið yrði fyrir körfu með laxaseiðum í Pollinum. Þetta virkaði eins og segull og 5. ágúst 1982 höfðu 170 laxar gengið í Pollinn. Endurheimtur sjógönguseiðanna sem sleppt var 1981 og komu sem sjógengnir laxar sumarið eftir voru um 20% til 30% en stórar torfur gengu í ystu lónin í lok veiðitímans án þess að hægt væri að handsama þær. Heimtur reyndust ekki eins vel og reiknað var með en menn voru sannfærðir um að þær gætu gengið betur þar sem laxinn skilaði sér aftur á heimaslóðir þó hann gengi ekki allur inn Pollinn. Niðurstaðan var því sú að heimtur gætu vaxið með árunum ef réttum aðferðum væri beitt. Prófað var að sleppa seiðum næstu árin úr kvíunum utan við hvalalaugina en heimtur voru ekkert sérstakar.

straum-799

Næsta skipti sem sjógönguseiðum var slepp úr kvíum í Straumsvík var sumarið 1985. Sami háttur var hafður og fyrr. Seiðum komið fyrir í körfu í Pollinum sumarið 1986 sem hafði þau áhrif að laxar gengu í Pollinn og tilraunin sannaði sig í raun og veru. Eftir þetta gerðist ýmislegt sem varð til þess að fiskeldisfyrirtækið Pólarlax var tekið til gjaldþrotaskipta 20. janúar 1989 og lauk skiptunum 20. desember 1991 án þess að nokkuð hefði fengist greitt af lýstum kröfum. Þar með var botninn farinn úr þessum merku tilraunum með laxfiska í Straumsvík. Sumarhúsið á innanverðum Stróka grotnaði smám saman niður þar til það var ekki talið forsvaranlegt að láta það standa og var það rifið og efniviðurinn fjarlægður. Nú er ekkert annað eftir en steinsteyptar gólfplötur og gamla eldhúsið sem hlaðið var fyrir rúmlega einni öld. Þetta hús er nákvæmlega eins í lögun og að allri gerð og samsvarandi hús við Óttarstaði eystir og vestri, bara örlítið minna umfangs. Löngu var búið að breyta steinhlaðna húsinu í svefnhýsi með tilheyrandi veggklæðningum úr viði og innanstokksmunum. Húsið stendur nú opið fyrir veðrum, vindum og spellvirkjum og bíður þess sem koma skal, en það væri gustukaverk að halda því við og sjá til þess að síðasta heillega steinhlaðna húsið í Hraunum fengi að standa áfram um ókomna tíð.


Heimildir:
-Laxaseiði ganga til sjávar úr fjögurra stiga jafnheitu vatni eftir að hafa klæðst sjógöngubúningi. Veiðimaðurinn, 1966.
-Tilraunir með flutning á bleiklaxi frá Alaska til Íslands. Árbók áhugamanna um fiskirækt, 1968.
-Lax leitar á bernskustöðvarnar þótt kaldar séu. Veiðimaðurinn, 1982.
-Um laxalykt. Veiðimaðurinn, 1986.
-Straumsvík og leyndardómar laxins. Ægir, 1988.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambahaga við Straumsvík.

Lambhagi

Þegar gengið var um Lónakot og Svínakot í Hraunum voru rifjaðar upp eftirfarandi upplýsingar um gömlu bæina og Suðurnesjaalmenning þar fyrir ofan í hraununum:

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta.

Í Jarðabók ÁM og PV 1703 er eftirfarandi lýsing: “ Það sem Suðurnesjamenn kalla Almenning tekur til suður við Hvassahrauns land og Trölladyngjur, gengur svo norður eftir fyrir ofan lönd allra Hraunbæjanna og endast svo norðan til þar sem hann mætir Áslandi svo sem við taglið á Kapelluhrauni. Þá kemur Garðastaðaland og selstaða.
Þar fyrir norðan tekur til það, sem Innesingar kalla Kóngsland, gengur það norður og austur með fjöllunum inn að Elliðaám og upp undir Hellisheiði fyrir ofan Vífilsstaði, Urriðakot, Elliðavatn, og hina aðra bæina. Er þetta land eigi sérdeilis kóngsland, þó það svo kallað sé, heldur er það svo sem afréttur eður óskipt land þeirra kóngsjarðanna, sem liggja upp og inn undan Álftanesi.”
Í jarðabókinni er víða getið um Suðurnesjaalmenninga, sem ofangreind býli áttu rétt í. Auk jarða á Vatnsleysuströnd áttu öll lögbýli í Grindavíkurhreppi rétt til kolagerðar í almenningum eða Suðurnesjaalmenningum án þess að getið sé hvar þeir eru. Sama er um margar jarðir Í Rosmhvalaneshreppi og nokkrar í Álftaneshreppi.
Um jörðina Þorbjarnarstaði, sem er nú í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar þar sem Straumsvík er, segir þetta:

Réttarklettar

Réttarklettar- stekkur.

“Skóg hefur jörðin átt, en nú má það varla kalla nema rifhrís. Það hefur hún svo bjarglega mikið, að það er brúkað til kolagerðar og eldiviðar, og svo til að fæða pening á í heyskorti. Aldrei ljá það búendur til annarra og eru þetta þau skógarpláss, sem almenningar eru kölluð.” Ennfremur segir í jarðabókinni um Hamarskot, að hrísrif hafi jörðin í Þorbjarnarstaðalandi, þar sem heita almenningar, er það haft til kolagerðar og eldiviðar og til að fæða pening í heyskorti.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Jarðirnar Stóri-Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir, Lónakot og Svínakot voru fyrrum nefndar Hraunjarðir og voru allar í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því kóngsjarðir við siðaskipti. Sá almenningur, sem hér er fjallað um er fyrir ofan (eða sunnan) lönd þessara jarða og einnig fyrir ofan Hvassahraun hvað þetta mál varðar. Svínakot mun hafa verið þar sem nú eru Réttarklettar vestan Lónakots. Hagar þar mannvirkjum svipað til og í Borgarkoti á Vatnsleysuströnd, austan Kálfatjarnar.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur.

Eftir að jarðir þessar voru seldar á árabilinu 1827-1839 reis upp ágreiningur um eignarheimildir á almenningnum ofan þeirra. Stiftamtmaður fól sýslumanni að skoða málið 1847 og fór áreið fram árið eftir með eigendum og ábúendum hraunsjarðanna,
sem liggja við almenninginn og helst hafa notað landið til beitar og skógaryrkingar sökum afstöðu þeirra og þess að þetta land tekur við, þar sem tún þeirra og Brunahraunsgirðingum um þau sleppa.
Í skoðunar- og áreiðargerðinni var mörkum lýst með þessum hætti:

Lónakot

Grænhólsskjól.

“Að neðan byrjar það nyrst við Kolbeinshæð, gengur svo til vesturs niður að Markhólum fyrir neðan Lónakotssel hvar skógurinn endar á móti suðri. Þó gengur skógartunga þríhyrnt niður frá alfararveginum. Hennar botn og breidd er að ofan og gengur frá Löngubrekkum til suðurs að Markhólum. Sporður skógarspildu þessarar endar í útnorðri við Brunnhólavörðu skammt fyrir ofan Lónakot.
Að norðan gengur skógarlandið frá Kolbeinshæð til landsuðurs langs með Kapelluhrauni og Brunanum upp að Stórhöfðastíg, þaðan til suðurs í Fremstahöfða langs með Brunanum suður að Fjallinu Eina, þaðan til vesturs og útnorðurs í krókum og hlykkjum allt niður að Markhólum.
Yfirvöld mæltu eftir áreiðina fyrir um eins konar friðlýsingu svæðisins vegna lélegs ástands skógar og umsjón var falin einum Hraunjarðarbónda, en þeir einir máttu nýta landið án leyfis yfirvalda.
Segir síðan að allt þetta land álítist vera ein fermíla að stærð (dönsk míla var 7.5 km) eða 56 ferkílómetrar og er þetta svæði nú bæði innan lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar (29.71 ferkílómetri), en einnig upp af Vatnsleysustrandarhreppi, aðallega upp af Hvassahrauni.
Sjá MYNDIR.

Lónakot

Sjóbúð við Lónakot.

Þorbjarnastaðir

Gengið var um land Þorbjarnarstaða í Hraunum. Bæjartóftirnar eru þær síðstu heillegu er minna á gamla torfbæinn í landi Hafnarfjarðar.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir og nágrenni.

Álfélagið keypti uppland bæjarins af Skógrækt ríkisins á litlar 100 milljónir króna fyrir nokkrum árum. Til stóð að kaupa einnig Þorbjarnarstaðalandið, þ.e. heimalandið, og reyndar munaði litlu að bærinn seldi það frá sér, en sem betur fer varð ekkert úr því. Ekki það að landið færi ekki vel í höndum álfélagsins, heldur ber bæjarfélaginu skylda til að sjá svo um að minja svæði sem þetta varðveitist innan þess og verði gert öllum aðgengilegt er þess óska. Ákjósanlegast væri að gera Þorbjarnastaði upp og leyfa síðan fólki að skoða hann sem ímynd og fulltrúa þeirra bæja er fólk lifði og dó í á 19. og byrjun 20. aldar. Fátt mælir á móti því að álfélagið styrki þá framkvæmd, enda í áhugaverðu sjónarhorni frá Þorbjarnarstöðum þar sem gamli og nýi tíminn mætast.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur í Brunntjörn.

Sóknarmannatöl allt frá árinu 1801 varpa ljósi á búsetu á Þorbjarnarstöðum síðustu tvær aldir. Þau segja m.a. til um mannfjölda á bænum. Einnig gefa hreppsreikningar á Þjóðskjalasafni góða sýn á bátakost, búfénað, mannfjölda á bænum. Í reikningum Álftaneshrepps frá 1845 5 kýr á Óttarsstöðum, en bara 2 á Þorbjarnarstöðum og 40 ær á móti 60 á Óttarsstöðum. Einnig eru nefndir bátar, kálgarðar, mótekja, o.fl. Í Jarðabókinni frá 1703 segir margt um jörðina á síðustu öldum. Í Jarðabókinni segir t.d. um Straum varðandi fóðrun kúa: “Fóðrast kann iii kýr ”bjarglega” . En um Þorbjarnarstaði segir : “Fóðrast kann iii kýr, ”naumlega”. Þetta segir að Straumur hafi verið betri jörð árið 1703 en Þorbjarnarstaðir. Sveiflur á milli jarðaverðmæta voru að sjálfsögðu háðar náttúru- sem og þjóðfélagsbreytingum hvers tíma. Margt fleira má lesa út úr Jarðabókinni varðandi jarðarverðmætin á viðkomandi tíma og samanburð á milli jarðanna.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Þorbjarnastaðir eru hið ákjósanlegasta dæmi um torfbæ þessa tímabils. Burstirnar snéru mót suðvestri (sólaráttinni), heimtröðin liggur milli bæjarins og matjurtargarðsins, sem er hlaðinn til að verja hann ágangi skepna. Útihúsin eru bæði fast við bæinn sem og í nálægt hans. Frá bænum til norðausturs liggur vatnsgatan, sem einnig þjónaði sem heimtröð að og frá Alfaraleiðinni, gömlu þjóðleiðinni minni Innnesja og Útnesja.

Þorbjarnastaðir

Þvottarbrú og brunnur við Þorbjarnastaði.

Til eru frásagnir af viðkomu fólks á þessum síðasta bæ í byggð áður en komið var að Hvassahrauni. Aðrir Hraunabæirnir voru mun neðar og norðar. Í vályndum veðrum gat stundum komið sér vel að finna skjól inna veggja bæjarins, þrátt fyrir mikla ómegð, sem þar var um tíma. Börnin voru 11 talsins undir það síðasta, en Þorkell bóndi Árnason var oft fjarri heimahögum, t.d. við sjósókn, til að afla lífsviðurværis. Á meðan annaðist Ingveldur Jónsdóttir, dóttir Jóns sýslumanns Guðmundssonar á Setbergi, barnahópinn. Auk þess sá hún um skepnurnar og um annað er þurfa þótti til heimilisins. Börnin urðu öll manndómsfólk.

Þorbjarnastaðir

Brunnstígurinn við Þorbjarnastaði.

Líklegt má telja að Ingveldur og börn hennar hafi löngum gengið brunngötuna niður að tjörnunum norðan við bæinn, bæði til þvotta og til að sækja þangað vatn í brunninn. Þau komu því einnig svo fyrir að hægt var að geyma lifandi fisk um nokkurn tíma í tjörnunum. Með fyrirhleðslum var komið á jafnvægi í hluta tjarnanna, sem annars gætti í fljóðs og fjöru. Ferskt vatn kemur undan hrauninu ofan við brunnstæðið, en með því að veita því í ákveðna rás, var hægt að viðhalda sjávarseltunni í einstaka tjörn. Það var lykillinn að “fiskgeymslunni”. Enn í dag sést brunnurinn vel sem og hvar ferskt vatnið kemur undan hrauninu ofan hans.
Enn má sjá móta fyrir öllu þessu, og raunar miklu fleiru. Það er alveg á sig leggjandi að ganga frá gamla Keflavíkurveginum, yfir á Alfaraleiðina ofan við Gerði og fylgja henni ofan við tjarnirnar, norðan Þorbjarnastaða. Á leiðinni sést allt það sem að framan er getið. Það sem eftir er birtist ljóslifandi er gengið er í hlað eftir brunngötunni að Þorbjarnastöðum.
Vonandi verður bærinn gerður upp þegar fram líða stundir – og skilningur á mikilvægi þess eykst. Það getur aldrei orðið til annars en bóta. Á og við Þorbjarnastaði er allt, sem prýtt gat dæimgerðan íslenskan bæ, s.s. bæjarhús, matjurtagarður, heimtröð, brunnur, fjárskjól, rétt, stekkur, selsstígur, sel og annað tilheyrandi.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir.

Þorbjarnastaðir

Í bókinni “Neistar – úr 1000 ára lífsbaráttu íslenskrar alþýðu” eru ýmsir mannlífsþættir. Einn fjallar um afleiðingar af aftöku Jóns Arasonar og tengist Straumi. Textinn er tekinn upp úr Grímstaðaannál. Jafnan hefur því verið haldið á lofti að kapellan í Kapelluhrauni hafi tengst því atviki, en þar er um misskilning að ræða.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá því að einn af mönnum Kristjáns skrifara hafi Mannabein verið drepinn í Kapelluhrauni og grafinn í kapellunni til hefnda eftir Jón biskup Arason og syni hans. Rannsókn Kristján Eldjárns í kapellunni árið 1950 gaf þó enga vísbendingu um slíkt. Það, sem ekki kom fram í rannsókninni, enda ekki fyrirséð, var sú mikla eyðilegging á merkilegu minjasvæði er varð í algleymi álversframkvæmdanna á sjöunda áratug síðustu aldar. Ef bara einhver svolítil hugsun hefði kviknað í kolli þeirra er vit hefðu átt að hafa á slíku þá værum við öllu menningarsögulega ríkari nú.
Í örnefnalýsingu fyrir Þorbjarnarstaði segir m.a.: “Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys.” Kapellan, þ.e. húsið, sem þarna var, gæti þess vegna hafa verið hlaðin til minningar um atvikið. Líklegt má telja að aftakan hafði verið framkvæmd þarna skammt frá, en líkamspartarnir síðan skildir eftir við Alfaraleiðina er lá framhjá kapellunni, öðrum til varnaðar. Fyrrum lá gata af leiðinni niður í Lambhagavík, sem mun hafa verið aðallendingastaður verslunarinnar í Straumsvík fyrrum. Gísli Sigurðsson nefndi hana Ólafsstíg, sbr.: “Uppi á Brunabrúninni er líka Fiskabyrgið, þar sem fiskur var kasaður hér í eina tíð og síðan hertur. Þarna uppi voru einnig tvö til þrjú fjárhús. Sunnan við þau lá stígur austur eftir hraunhrygg allháum. Var hann lagður hellum langt austur. Gísli Sigurðsson segir, að hann hafi heitið Ólafsstígur, en það mun vera rangt.
Ólafsstígur lá upp á hraunið hjá kálgörðunum í Litla-Lambhaga.” Þá segir að “Austurtúngarðurinn [á Þorbjarnarstöðum var rétt norðan Alfaraleiðarinnar] lá úr Beinaviki upp á klettastall og suður eftir honum suður á Brunann.” Örnefnið “Beinavik” er hér ekki skýrt nánar, en það mun hafa verið í krikanum þar sem þjóðleiðin lá upp á Brunann. Það gæti gefið til kynna aftökustaðinn, enda jafnan notaður sem áningastaður. Ferskt vatn kemur þarna undan hrauninu og skjólgott er þar fyrir norðanáttinni. 

Kapella

Kapellan.

1551 – Bóndinn þar á Kirkjubóli á Miðnesi og hans maður, Hallur að nafni, hann bjó í Sand(hóla)koti, var ráðsmaður bóndans, þeir voru báðir teknir um sumarið eftir og áttu að flytjast til alþingis. En þeir voru þverbrotnir og bágir viðureignar, fluttu þá að straumi, og voru þeir þar báðir hálshöggnir. Þar var þá kaupstefna [eitt af herskipum Dana kvað þá hafa legið þar, en venjulega kaupstefnan var öll í Hafnarfirði].  Höfuðin voru fest á stengur, en bolirnir á hjóli sundur slitnir, og sá til merkis meir en 20 eður 30 ár. Margur galt þá, bæði sakaður og saklaus, fyrir norðan og sunnan, en Danir tóku sér mestar eignir þeirra feðga. Böðullinn, sem þá feðga hjó í Skálholti, hét Jón Ólafsson. En þegar norðlenzkir riðu frá Kirkjubóli eftir hefnd þeirra, fundu þeir þennan Jón á Álftanesi. Tóku þeir hann og héldu á honum túlanum og helltu ofan í hann heitu biki [blýi, segja aðrir]. Með það lét hann sitt líf, en þeir riðu norður.”

Heimild:
-Björn Sigfússon – Neistar, úr þúsund ára lífsbaráttu íslenskrar alþýðu, 1044, bls. 161 (Grímsstaðaannáll).
-Örnefnalýsingar fyrir Straum og Þorbjarnarstaði.
-Árbók Hif 1954.

Kapellan í Kapelluhrauni 1950

Öskjuholtsskjól

Gengið var með Jónatani Garðarssyni um nokkra skúta í landi Hvassahrauns, Straums og Þorbjarnarstaða. Byrjað var á að rölta upp í skúta í Öskjuholti með viðkomu í Virkinu undir Virkishólum, þaðan var haldið í skúta í Smalaskála, þaðan eftir Alfaraleiðinni yfir að Þorbjarnarstöðum, að Loftskúta (Grænudalaskúta) og stefnan tekin á Gránuskúta og síðan Kápuskjól og Kápuhelli í Jónshöfða með viðkomu í stóru Tobburétt (Grenigjárrétt) og litlu Tobburétt.

Þorbjarnarstaðir

Gránuskúti – fjárskjól ofan Þorbjarnarstaða.

Virkið var nota til tilhleypinga í brundtíð.
Sunnan undir Öskjuholti, klofnum ílöngum hraunhól skammt ofan línuvegarins um Hvassahraun, er gat. Hleðsla er um gatið. Þegar inn var komið sást vel hvar hlaðið hafði verið efst fyrir skútann, en að utan er vel gróið yfir hleðsluna. Um er að ræða lágt, en rúmgott fjárskjól. Innst undir hlöðnum veggnum voru nokkur bein. Erfitt er að koma auga á opið, nema komið sé að holtinu úr suðri.
Á Smalaskálahæð er varða. Önnur er norðar og sú þriðja skammt austar. Sunnan undir holtinu, sem þar er miðsvæðis er gat. Hleðsla er um gatið. Þegar inn var komið blasti við rúmgott fjárskjól. Fyrirhleðsla er innar í því til að varna fé áframhaldandi för inn eftir hvolfinu. Skjólið er nokkuð þurrt. Nokkrir smalaskálar eru í hraununum. Yfirleitt var nafnið notað um skála eða skjól, en það virðist ekki eiga við á Reykjanesskaganum. Þar virðist heitið hafa verið notað um hæðir, nema nöfnin hafi verið tengd hæðum með skjólum í, líkt og þarna.
Skoðaðar voru landamerkjavörður milli Hvassahrauns og Lónakots sem og leiðarvörður við Alfaraleiðina og komið við í Loftskúta, fallegu fjárskjóli. Þar eru og sagnir um að menn frá Hvassahrauni hafi geymt rjúpnafeng sinn er þeir voru við veiðar í hrauninu.
Nokkur leit hefur verið gerð að Gránuskúta, Kápuskjóli og Kápuhelli, en tveimur þeirra er lýst í örnefnaslýsingu fyrir Þorbjarnastaði.

Kápuskjól

Kápuskjól (Kápuhellir).

Gengið var um heimatún Þorbjarnastaða, rústir síðasta torfbæjarins í landi Hafnarfjarðar. Búið var að Þorbjarnastöðum fram undir seinna stríð (1940). Þar bjuggu síðast Ingveldur Jónsdóttir, dóttir Guðmundssonar á Setbergi, og Þorkell Árnason frá Guðnabæ í Selvogi. Þau eignuðust 11 börn – og það þótt húsbóndinn hafi yfirleitt verið fjari bæ til að afla lífsviðurværis. Það færi vel að gera bæinn upp og hafa hann til sýnis sem dæmi um slíka bæi er voru víða í umdæminu. Hann hefur allt til að bera; heimagarð, vörlsugarð, heimtröð, brunn, selstíg, stekk og fjárskjól.
Gránuskúti er ekki auðfundinn. Hann er sunnan við Þorbjarnastaði, austan Miðmundarhæðrar. Falleg hleðsla er um munnann, en þegar inn er komið tekur við flórað gólf að hluta og fyrirhleðslur. Skjólið er mjög rúmgott og hefur verið vel lagfært. Þá er það óvenjuþurrt. Grána gæti verið nafn á á frá Þorbjarnarstöðum, líkt og Grákolla í frásögninni af Arngrímshelli í Klofningum, þeirri er allt fé Krýsuvíkurbænda átti að hafa verið komið frá.
Haldið var upp í gegnum Selhraun og upp í stóru Tobburétt í Grenigjá. Um er að ræða fallegar hleðslur í og um gjána. Greni er skammt norðan við hana. Steintröll vakir yfir gjánum. Svæðið er allvel gróið. Austar er litla Tobburétt. Gengið var að henni í bakaleiðinni.

Tobburétt

Tobba við Tobburétt.

Straumsselsstígnum var fylgt upp í Jónshöfða. Þar í Laufhrauni komu bæði Kápuskjól og Kápuhellir í ljós. Þessa skúta er einnig erfitt að finna. Lítil varða er á höfðanum ofan við skjólin. Hún er á landamerkum Þorbjarnarstaða og Straums. Skjólið er í landi Straums, en hellirinn í landi Þorbjarnastaða. Fallegar fyrirhleðslur er fyrir þeim báðum. Hellirinn er heldur stærri. Fjárkyn Þorkels á Þorbjarnastöðum var sagt kápótt og þótti allsérstakt. Þá var það ferhyrnt og snúið upp á hornin, sem einnig þótti sérstakt.
Straumsselsstíg var fylgt niður að litlu Tobburétt í Tobbuklettum. Fyrirhleðsla er í stórri hraunsprungu, en ef vel er að gáð má sjá að hlaðinn bogadreginn veggur hefur verið framan við hana. Hann hefur verið leiðigarður fyrir fé, sem rekið var að réttinni að ofanverðu. Stígurinn liggur nú í gegnum garðinn. Þegar horft var á þverklett sprungunnar mátti vel sjá móta fyrir andliti í honum. Ekki er ólíklegt að ætla að álfarnir hafi viljað með því láta vita af tilvist sinni á svæðinu með þeim skilaboðum að fólki gæti þar varfærni.
Annars eru álfa- og huldufólksáminningar víða í hraununum. Þeir, sem gaumgæfa og kunna að lesa landið vita og þekkja skilaboðin. Þegar farið er eftir þeim er engin hætta búin, en ef einhver gleymir sér að er ólæs á landið – guð hjálpi honum.
Gengið var til baka eftir Straumsselsstíg í gegnum Selhraunið og niður að Þorbjarnastöðum.

Öskjuholtsskúti

Í Öskjuholtsskúta.

Kappella

Gengið var um Nýjahraun, síðar nefnt Kapelluhraun, frá kapellunni ofan við Álverið við Straumsvík. Skoðaðar voru m.a. leifar hins gamla krákustígs í gegnum hraunið, en enn sést móta fyrir honum á tveimur stöðum. Hraunið sjálft er margbrotið og víða í því hinar fuðurlegustu myndanir. Sjá má t.d., ef vel er að gáð, skapara þess birtast í því í ýmsum myndum, líkt og væri hann að líta yfir unnin afrek.

Kapella

Kapella – skilti.

Við kapelluna eru tvö skilti, annað frá Byggðasafni Hafnarfjarðar og hitt frá Þjóðminjasafninu. Upplýsingarnar eru svipaðar. Friðlýsingarmerki er við innganginn. Á öðru skiltinu segir að talið sé að Kapelluhraun hafi runnið á 11. öld. Á hinu segir að hraunið hafi runnið á 13. eða 14. öld. Nú liggur hins vegar fyrir að hraunið rann hvorki á 11. eða 13. öld, heldur árið 1151. Venjulegur ferðamaður gæti hæglega orðið ráðvilltur þarna og það áður en hann kemur að sjálfum “fornminjunum”. Á sama hátt og upplýsingarnar á staðnum eru misvísandi er kapellan sem fornleif varla “sjálfri sér samkvæm”. Grunnmynd á skilti sýnir ferhyrnda tóft, eins og dr. Kristján Eldján rissaði hana upp á sjötta áratug 20. aldar. Innanmálið er að vísu ferhyrnt svo fá má á tilfinninguna að þar og þannig hafi gólfflöturinn verið upphaflega, en utanmál kapellunnar, eins og hún er í dag, er fremur sporöskjulaga. Önnur, gömul mynd, tekin við sama tækifæri, sýnir að mestu hrunda mosavaxna kapelluna í úfnu hrauninu, en nú er hún svo formlega löguð, ber og svo vel uppi standandi að varla getur talist um forna leif sé að ræða – nema að hluta til. Endurgerð fornleif stendur þó ávallt fyrir sínu – a.m.k. að ákveðnu marki.

Kapella

Alfaraleiðin við kapelluna.

Annar hluti gamla stígsins, sem enn sést, er sunnan við kapelluna. Sennilega er um einskæra tilviljun að ræða að hann skuli hafa fengið að halda sér. Hinn hlutinn er þar sem komið er inn í hraunið af Alfaraleiðinni norðan við Gerði. Í örnefnalýsingu segir m.a. um stíg þennan: “Alfaraleiðin út á Útnes lá svo að segja um túnblettinn. Hann lá yfir Kapelluhraunið, eða Brunann, eins og það var stundum nefnt, síðan lá leiðin áfram, þar til komið er í Brunaskarð vestra. Við hvort skarð eru vörður, er nefnast Stóravarðan eystri og Stóravarðan vestri. Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys. Úr skarðinu liggur alfaraleiðin vestur um Hraunin ofan eða sunnan garðs á Þorbjarnarstöðum”.

Þorbjarnastaðaborg

Fjárborg Þorbjarnastaðafólksins.

Kapelluhraunið hefur að geyma marga fornleifina. Þá þar nefna Þorbjarnastaðaborgina neðan við Brunntorfur, garða og hleðslur ofan við Gerði, hlaðnar brýr og byrgi skammt norðan við gasstöðina. Þá liggja yfir hraunið fornar götur og syðst í því eru myndarlegar hrauntraðir.
Álverið við Straumsvík stendur á Kapelluhrauni, eða Nýjahrauni eins og það fyrst var nefnt, og er allra yngsta hraunið á svæðinu í kringum Hafnarfjörð. Það er frá árinu 1151 skv. upplýsingum frá Íslenskum orkurannsóknum. Það á upptök undir Undirhlíðum og hefur komið úr gígaröðum, sem virðast vera tengdar misgengissprungum. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu hjá Krísuvíkurkerfinu. Þá opnaðist gossprunga undir Undirhlíðum sem var alls um 25 metra löng en slitin í miðjunni.

Kapella

Kapellan.

Kapelluhraun rann norðan á skaganum og til sjávar og myndað þar tanga, en vestan undir honum er Straumsvík.
Kapelluhraun er ákaflega fallegt úfið og mosagróið apalhraun en hörmung er að sjá hvernig karganum hefur verið rutt af yfirborði þess á stórum svæðum. Hraunið er fínkornótt með einstaka tiltölulega stórum dílum. Dílarnir eru oftast plagioklas, pyroxen og einstaka ólivín. Stærð hraunsins er 11,6 km2. Gamli krákustígurinn, sem eitt sinni var ruddur í gegnum hraunið, hefur að mestu verið eyðilagður að undanskildum fyrrnefndum um 6 metra kafla við litla rúst í hrauninu, sem er nefnd kapellan og á fyrrnefndum stað í vestanverðum hraunjaðrinum.

Kapella

Kapellan 1964.

Árið 1950 rannsakaði Kristján Eldjárn þessa kapellu og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er verndardýrlingur ferðamanna. Hún var góð til áheita gegn hvers konar eldsgangi. Einnig var hún verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, slökkviliðs- manna, námumanna, verkfræðinga og jarðfræðinga. Kapellutóftin er á fornminjaskrá og þar má sjá eftirlíkingu af líkneskinu. Fróðlegt er að skoða ljósmyndir, sem teknar voru af tóftinni við upphaf rannsóknar Kristjáns Eldjárns og félaga, en á þeim m.a. úfið mosahraunið og einungis hluti kapellunnar standa upp úr því.

Kapella

Kapella – skilti.

Miklar framkvæmdir hafa verið í kringum Álverið í Straumsvík, auk þess sem Skógrækt ríkisins, fyrrum eigandi svæðisins, hefur leyft töku á gífurlegu efnismagni úr hrauninu. Þá hefur það verið sléttað út á stóru svæði og óþarflega miklu magni efnis hefur verið rutt út yfir hraunjaðrana. Þegar horft er yfir svæðið virðast “skemmdirnar” hafa bæði verið óstjórnlegar og að stórum hluta óþarfa ómarkvissar.
Nú eru jafnvel fyrirhuguð stækkun á Álverinu. Fyrirtækið hefur m.a. í því skyni fest kaup á landinu ofan þess.
Hjörleifur Guttormsson, fyrrum alþingismaður, skrifaði Skipulagsstofnun árið 2002 þar sem hann geldur vara við frekari framkvæmdum Álversins í Kapelluhrauni. Með bréfi sínu til stofnunarinnar gerir hann athugasemdir og bendir á náttúruvá sem steðjað getur að mannvirkjum við Straumsvík og lítil sem engin skil eru gerð í matsskýrslu vegna stækkunar álverksmiðju ÍSALs.

Kapella

Kapella – skilti.

Þegar álverksmiðja var staðsett og reist við Straumsvík fyrir um aldarþriðjungi gerðu menn sér litla sem enga grein fyrir samhengi eldvirkni og hraunstrauma á svæðinu. Síðan hafa verið gerðar ítarlegar rannsóknir á eldvirkni á Reykjanessskaganum, gosstöðvar frá nútíma verið staðsettar og hraunstraumar sem frá þeim hafa runnið eftir að ísöld lauk, sumpart eftir landnám.
Guðmundur Kjartansson fjallar m.a. um aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð árið 1973. Grein hans birtist í Náttúrufræðingnum 42. 159-183. Jón Jónsson gerði jarðfræðikort af Reykjanesskaga 1978. Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson rituðu um Krýsuvíkureldaa I. – Aldur Ögmundarhrauns og Miðaldalagsins – í tímaritið Jökull árið 1989, 38. 71-87. Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir rituðu einnig um Krýsuvíkurelda II. – Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns yngra – í Jökul árið 1991, 41. 61-80. Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson rituðu um hraun í nágrenni Straumsvíkur í Náttúrufræðinginn 1998, 67. 171-177.

Kapelluhraun

Kapelluhraun.

Páll Imsland ritaði um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu í Náttúrufræðinginn árið 1998, 67. 263-273. Hann taldi þar að Kapelluhraun væri frá 13. öld.
Af þessum rannsóknum og greinum höfunda má m. a. ráða, að líkur séu á að þunnfljótandi hraunstraumar geti runnið í sjó fram frá gosstöðvum vestan Undirhlíða og víðar yfir það svæði sem núverandi álverksmiðja stendur á auk þess sem önnur mannvirki svo sem raflínur og vegir eru í hættu á þessu svæði og víða í grenndinni.
Sem dæmi má nefna eftirfarandi úr grein Hauks Jóhannessonar og Sigmundar Einarssonar 1998, s. 175,

Kapella

Kapellan – uppdráttur KE.

“Yngsta hraunið á svæðinu er oftast nefnt einu nafni Kapelluhraun, þó svo að það heiti eigi í raun aðeins við nyrsta hluta þess. Syðri hluti hraunsins hefur gengið undir heitinu Nýibruni. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu í Krísuvíkurrein árið 1151 (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1989). Þá opnaðist gossprunga sem er alls um 25 km löng en þó slitin í miðjunni. Sunnan á skaganum rann Ögmundarhraun í sjó fram og tók það af gamla Krísuvíkurbæinn. Norðan á skaganum rann Kapelluhraun, aðallega frá gígum við Vatnsskarð sem nú heyra sögunni til vegna gjallvinnslu. Hraunið rann til sjávar í Straumsvík … Álverið í Straumsvík stendur á hrauninu”.
Í niðurlagi greinarinnar segja höfundar m. a. (s. 177):

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.

“Eldgos á Rekjanessskaganum virðast koma í hrinum og á milli er minni virkni. Hrinurnar verða á um þúsund ára fresti og hver hrina stendur yfir í nokkur hundruð ár. Síðasta hrinan hófst upp úr miðri tíundu öld og endaði um 1240. Í hverri hrinu verða umbrot í öllum eldstöðvareinunum á skaganum og í síðustu hrinu færðist virknin frá austri til vesturs. Einnig er nokkuð víst að verði eldgos í Brennisteinsfjöllum og í norðanverðum Móhálsadal munu hraun þaðan renna niður til strandar milli Hrútagjárdyngjunnar og Hvaleyrarholts, sömu leið og Hellnahraun eldra og yngra og Kapelluhraun.
Af ofansögðu er ljóst að hraun geta runnið til Straumsvíkur bæði frá Brennisteinsfjallarein, en þar gaus síðast á 10. öld, og frá Krísuvíkurein þar sem síðast gaus um miðja tólftu öld. Síðast urðu með vissu eldsumbrot á Reykjanesskaga á fyrri hluta 13. aldar í Reykjanesrein. Nær útilokað er að hraun frá gosum í þeirri rein geti runnið til Straumsvíkur en hins vegar gæti þar hugsanlega orðið vart landsigs vegna meðfylgjandi gliðnunar í reininni”.

Kapella

Kapellan áður en hún var grafin upp.

Í grein sinni um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu (sjá nr. 6 hér að ofan, s. 271) segir Páll Imsland m. a.:
“Eftir Krýsuvíkurelda á 13. öld hafa ekki komið upp hraun í nágrenni Straumsvíkursvæðisins. Landslagi er þannig háttað að hraun sem koma upp vestanundir Undirhlíðum eiga ekki annarra kosta völ en að renna út á hraunflákana til vesturs og norðurs og leita undan halla og þrýstingi frá kvikunni sem flæðir úr gígunum í átt til strandar, í átt að Straumsvík. Áður en að álverinu sjálfu kemur eru raflagnir, spennuvirki, þjóðvegur og fleira slíkt í rennslisleiðum hrauna; mannvirki sem skipta verulegu máli, bæði fyrir starfrækslu álversins og alla byggð sunnar á skaganum. Það er því ljóst að hraunflóðahætta er þarna til staðar, en ekkert er þekkt sem bendir til yfirvofandi hættu. Náttúran á svæðinu hefur ekki sýnt nein þekkjanleg merki þess að þarna séu eldgos í uppsiglingu. Á hitt ber samt að líta að þetta er afkastamikið, virkt eldgosasvæði þar sem ekki hefur gosið í um 850 ár, og til eru vísbendingar um að virknin á Reykjanesskaganum gangi í hrinum með nokkurra alda aðgerðarlitlum hléum. Hrinur þessar einkennast af jarðskjálftum, sprungumyndun og eldgosum.”

Kapelluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort ISOR.

Í greininni “Hamfarir á höfuðborgarsvæðinu” eftir Þórdísi Lilju Gunnarsdóttur, sem birtist í tímaritinu Ský, 6 2001-2002, s. 36, má lesa eftirfarandi:
“Í Kröflueldum í september 1984 rann glóandi hraunáin um tíu metra vegalengd á sekúndu. Það gera 36 kílómetrar á klukkustund. Að mati jarðfræðinganna Páls Imslands og Karls Grönvolds er það álíka hraði og væri á nýju hrauni við höfuðborgina í dag. Því myndi hraunelfan geta náð efstu byggðum borgarinnar á fáum klukkustundum … Ef eldgos brytist út í Húsfelli, Búrfelli eða Trölladyngju gæti hraun runnið niður Kúagerði og yfir Reykjanesbraut, yfir álverið í Straumsvík, rafstöðina við Hamranes og nýjustu byggð Hafnfirðinga sunnan við Reykjanesbraut sökum þess hve Reykjanesskaginn er mjór sunnan við Hafnarfjörð. Í miklum hamförum á þessum slóðum gæti hraun einnig náð til byggðar í Garðabæ og yfir Álftanesið.”
– Þótt hér sé stiklað á stóru af blaðamanni eru ábendingarnar þó umhugsunarverðar.”

Hraunkarl

Hraunkarl í Kapelluhrauni.

Fornleifavernd ríkisins segir að “hraunið dragi nafn sitt af Kapellunni, rúst af litlu húsi skammt frá veginum vinstra megin þegar ekið er suður Reykjanesbrautina. Sen fyrr segir rannsakaði Kristján Eldjárn kapelluna ásamt fleirum 1950 og segir svo frá:
“Fyrir sunnan Hafnarfjörð liggur leiðin yfir úfinn brunafláka sem á upptök sín í gígaröð meðfram Undirhlíðum og hefur runnið þaðan allt norður í sjó. Í þessu hrauni er Kapellan og eftir henni heitir hraunið Kapelluhraun, en hefur heitið Nýjahraun á miðöldum, því að það hefur runnið eftir að land byggðist, líklega þó mjög snemma á öldum. Kapellan er lítil opin húsarúst rétt við gamla krákustíginn, sem ruddur hefur verið þegar eftir að hraunið rann og hefur verið alfaraleið út á nes öldum saman.“
Kapellan er 2,40 m á lengd og 2,10 m á breidd að innanmáli.

Kapella

Kapellan í Kapelluhrauni.

Veggirnir eru hlaðnir úr hraunhellum og að mestu uppistandandi.
Við uppgröftinn 1950 fundust allmargir gripir. Sá merkasti þeirra er lítið líkneski af heilagri Barböru, brotið um mjaðmir en nú um 3,3 cm á hæð. Líkneskið er varðveitt í Þjóðminjasafni (Þjms. 14293). Þessi fundur bendir til þess að hús þetta sé í raun og veru kapella frá katólskum tíma og að ferðamenn um hraunið hafi komið þar við og gert bæn sína.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá því að einn af mönnum Kristjáns skrifara hafi verið drepinn í Kapelluhrauni og grafinn í kapellunni til hefnda eftir Jón biskup Arason og syni hans. Engin ummerki benda þó til þess að þessi sögn eigi stoð í raunveruleikanum, en sagan er góð búbót við annars sagnaríkt umhverfi á sögulegum tíma.

Kapellan

Kapellan – sjá má leifar Alfaraleiðarinnar, sem lá framhjá henni.

ISOR (Íslenskar orkurannsóknir) kveða á um á vefsíðu sinni að aldur Kapelluhrauns sé 1151. Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151 en minniháttar gos varð 1188. Í því fyrra opnaðist um 25 km löng gosspunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan heitir hraunið Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þetta ár tók af stórbýlið Krísuvík sem stóð niður á sjávarbakka. Hraunið rann allt um kring kirkjuna á staðnum.
Kapelluhraunið er stórbrotið í tvennum skilningi. Annars vegar hefur hraunið mikið gildi vegna þess að það rann á sögulegum tíma og því merkilegt náttúrfyrirbæri sem slíkt. Hins vegar hefur óhóflegum hluta þess verið spillt af mannavöldum. Á því hefur því verið stórlega brotið.

Kapella

Kapellan í Kapelluhrauni endurgerð.

Við þetta má bæta að fyrrnefnd kapella er ekki óhreifð eða óröskuð fornleif í þeim skilningi orðisins. Hún er ónákvæm endurgerð fornleifar frá því um 1960 og virðist nú stenda á sínum upprunalega stað – sem von um fyrirgefningu fyrir fyrrum eyðileggingu. En staðurinn, þar sem hin forna kapella var, er engu að síður merkilegur, bæði út frá fornleifalegum sem og sagnfræðilegum skilningi.
Hins vegar mætti vel, án tilfallandi skaða, ef byggja ætti á annars röskuðu hrauninu, endurreisa kapelluna á ósnortnu hrauninu vestan og ofan við Vestari Brunaskarð, við gömlu götuna skammt ofan við Gerði þar sem alfaraleiðin liggur upp á það. Kapellan yrði þar engu minni “fornleif” en nú er. Mannvirkið “gekk úr sér” á sínum tíma og “týndist”, en var síðan “endurvakið” með fyrrnefndum uppgrefti.
KapellaSem slíkt hefur staðurinn einungis tilfinngalegt gildi líkt og hver annar staður gæti haft með sama tilgang, hvar sem hann er á hverjum tíma. Það hefði hvorki áhrif á sagnfræðina né fornleifafræðina sem slíkar. Í henni mætti taka upp hvaða kvikmynd sem er án þess að til mótmæla kæmi.
Kapellan á Hraunssandi, fyrrum einnig nefnd Dysin, er sambærilegt mannvirki, en öllu merkilegri. Hún var grafin upp á svipuðu tíma, urðuð á ný og hefur því ekki verið “endurgerð”. Við hana eiga að vera grafinn á þriðja tugur manna, án þess að staðnum sé sýnlega nokkur virðing sýnd.
Frábært veður. Gangan tók 2 kls. og 22 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.flensborg.is
-http://www.eldhorn.is
-http://www.isor.is/stadlar/hraun/allt_um_hraun.html
-http://www.reykjanesbaer.is
-Kristján Eldjárn: Heilög Barbara mær og kapella hennar. Hundrað ár í Þjóðminjasafni. Rvk. 1973, 88.
-Kristján Eldjárn. Kapelluhraun og Kapellulág. Fornleifarannsóknir 1950 og 1954. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1955-1956. Rvk. 1957, bls. 5-34.
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar. II bindi. Rvk. 1954, bls. 78.

Kapella

Kapellan með friðlýsingaskilti framan við.

Þorbjarnastaðir

“Framtíð Hrauna við Straumsvík er óráðin, en samkvæmt aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995-2015 er gert ráð fyrir að stór hluti svæðisins verði notaður undir hafnar- og iðnaðarsvæði. Fyrir nokkrum árum stofnaði áhugafólk um verndun Hrauna, Umhverfis- og útivistarfélag Hafnarfjarðar, til þess að vekja athygli á þessu einstaka svæði.

Fuglalíf

Í frétt í MBL, þriðjudaginn 6. júlí, 1999, sagði Magnús Gunnarsson, þáverandi bæjarstjóri, að engin ákvörðun hafi verið tekin um framtíð svæðisins.
Hraun kallast landsvæðið vestan og sunnan Straumsvíkur, en víkin hefur myndast milli Lambhagatanga að austan og Hrauna að vestan. Hraunið sem þekur svæðið er 5000-7000 ára gamalt helluhraun sem átt hefur upptök sín í Hrútagjárdyngju.
Búskapur hefur verið stundaður í Hraunum frá fornu fari og hafa verið leiddar líkur að því að rústir við Óttarsstaði séu frá 12. öld. Á svæðinu má sjá fjölda rústa, tóftarbrot býla og gripahúsa, minjar eru um útræði í fjörunni, þurrabúðir, fiskbyrgi, vörslugarðar og fiskreitir eru einnig sýnilegir. Helstu lögbýli í Hraunum voru Stóri-Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir og Lónakot. Þessum býlum fylgdu síðan hjáleigur og þurrabúðir, s.s. Gerði, Péturskot, Litli-Lambhagi, Þýskubúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Óttarsstaðagerði og Eyðikot. Heimild er um forna kirkju á svæðinu og grafreit.

Jónsbúð

Jónsbúð.

Árið 1999 fékk Umhverfis- og útivistarfélagið Bjarna F. Einarsson fornleifafræðing til að grafa prufuholur í Jónsbúð, sem er þurrabúð eða hjáleiga utarlega við vestanverða Straumsvík. Bjarni hafði áður verið fenginn til að leita að og staðsetja rústir á svæðinu og segir í skýrslu hans að minjar eins og rústirnar við Jónsbúð séu mikilvægur minnisvarði um ákveðna búskaparhætti og að minjar af slíku tagi sé ekki að finna annars staðar á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Yfirleitt má segja að rústir og minjar á svæðinu séu óspilltar af mannavöldum og svæðið geymi í heild sinni allar þær minjar sem búast megi við að finna í og við þurrabúðir og hjáleigur. Byggð tók að leggjast af í upphafi þessarar aldar og var horfin um miðja öldina.

Óttarsstaðastekkur

Óttarsstaðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Auk merkilegra sögulegra heimilda er náttúrufar með nokkuð sérstæðum hætti á þessu svæði. Í hrauninu má finna fjölda ferskvatnstjarna sem koma og fara eftir sjávarföllum þegar sjórinn flæðir inn undir hraunið og streymir síðan út aftur á fjöru. Vegna þess að ferskvatnið, sem flæðir stöðugt undan hrauninu, er eðlisléttara en saltvatnið flýtur það ofan á sjónum meðan flæðir að, en blandast honum síðan þegar flóðið nær hámarki.

Áður fyrr voru börn látin vakta sjávarföllin til þess að ná fersku vatni úr tjörnum og brunnum áður en sjórinn náði að blandast ferskvatninu við háflæði. Í tjörnum sem ekki þorna alveg upp á fjöru hafa nýlega uppgötvast dvergbleikjur sem verða um 12-14 cm og lifa á skilum ferskvatns og sjávar.

Óttarsstaðir

Straumur og Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Magnús Gunnarsson, bæjarstjóri, segir í fyrrgreindri MBL-frétt 19999 að ekkert hafi verið ákveðið varðandi skipulag á Hraunasvæðinu. “Ljóst er að menn fara sér hægt við að skipuleggja framtíð þess.” Hann kvaðst sannfærður um að menn myndu staldra við og velta hlutunum vel fyrir sér og sérstaklega þeirri staðreynd að ekki væri hægt að taka til baka það sem gert yrði. Ljóst væri að mikil vakning ætti sér stað varðandi varðveislu náttúru- og sögulegra minja og að engar hafnarframkvæmdir væru áætlaðar á næstu árum vestan Straumsvíkur. Í þeirri vinnu sem framundan væri í skipulagsmálum yrði stigið varlega til jarðar, sérstaklega varðandi perlur eins og Hraunin væru.”

 

Nú, 2008, hefur Samfylkingin í Hafnarfirði uppi áform um að eyðileggja flestar menningarminjarnar á norðanverðu Hraunasvæðinu og þar með hið fjölbreytilega dýralíf sem og hina dýrmætu útivistarmöguleika bæjarbúa.
veggurÍ frétt í Fjarðarpóstinum 11. september (af öllum dögum, en þó vel við hæfi) kom m.a. eftirfarandi fram um þessar áætlanir undir fyrirsögninni: “Nýtt hafnarsvæði á Hraunum? – Hugmyndir eru uppi um nýja stórskipahöfn vestan Straumsvíkur.
„Okkar fyrstu niðurstöður eru þær að fýsilegt sé að byggja nýja höfn vestan Straumsvíkur sem að mestu yrði í landi Óttarstaða,“ segir formaður hafnarstjórnar. „Við höfum einnig kannað möguleikana austan Straumsvíkur, en þar reyndust ekki vera ákjósanlegar aðstæður. Við höfum í samvinnu við Siglingastofnun kannað öldufar og rannsakað botnlög með tilliti til hafnar gerðar vestan Straumsvíkur og virðast aðstæður þar allgóðar. Þetta yrði stór höfn sem þjónað gæti stórum hluta siglinga til höfuðborgarsvæðisins og skapað mikla uppbyggingu og atvinnustarfsemi.“

Straumur

Straumur – uppdráttur ÓSÁ.

Að sögn formannsins eru hugmyndirnar sem hér eru kynnntar hins vegar á frumstigi. Tillögurnar voru kynntar í hafnarstjórn í júní og í skipulags- og byggingarráði á þriðjudaginn. Næsta skref er að sögn formanns að ræða við landeigendur á svæðinu sem eru allmargir. Stefnt er að því að kynna þessar hugmyndir fyrir bæjarbúum og skapa um þær umræðu. Ljóst er að skoðanir verða skiptar um þessar tillögur en við hafnargerðina hverfa margar minjar en gert er ráð fyrir að vernda bæjarstæði Óttarstaðabæjanna í einskonar vin á miðju athafna svæðinu. Einnig yrðu Þýskabúð og Jónsbúð óraskaðar.
Landslagsarkitekt var fenginn til að útfæra þessar fyrstu hugmyndir og aðlaga þær lands laginu þannig að sem best fari, að sögn formanns, „en auðvitað á þetta eftir að fara í umhverfismat og í gegn um skipulagsferil,“ sagði formaðurinn.
HugmyndirSkv. hugmyndunum er gert ráð fyrir að meðfram nýrri legu Reykjanesbrautar verði hafnarsvæði lækkað um 12-14 m en næst sjónum yrðu 6-8 m varnargarðar til að skilja svæðið að en það er um 160 ha. (1,6 millj. m²) sem er svipuð stærð og svæði sem afmarkast af Hjallabraut, Hjallahrauni, Reykjanesbraut, Hvammabraut og Suðurgötu. Hafnargarðurinn yrði gerður úr efni sem þarna fengist en hann yrði skv. hugmyndunum gerður í tveimur áföngum.”

Tjörvagerði

Tjörvagerði.

Segja má með sanni að Samfylkingin hafi tilhneigingu til að vernda minjar og náttúru með vinstri hendinni, en rífa hvorutveggja niður með þeirri hægri. “Vonandi verða hvorki hugmyndir né fulltrúar þeirra langlífir”, varð einum rólyndismanni að orði er hann heyrði tíðindin. Mörg dæmi eru um að vilji til að takmarka verndun minja innan stórra athafnasvæða hafi farið fyrir lítið er á reyndi.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Segja má að einstakir fulltrúar og skipulagsyfirvöld í Hafnarfirði hafi að undanförnu verið í tómu klúðri – sem virðist það því miður fara vaxandi.
Umhverfi og náttúra í Hraunum er einstök á landsvísu og þótt víðar væri leitað. Hluti þeirra njóta náttúruverndar. Auk þess mynda Hraunabæirnir ofan við ströndina heilstætt og dýrmætt minjasvæði með tilheyrandi útstöðvum ofar í hraununum; seljum, fjárskjólum, nátthögum og aðliggjandi götum. Svæðið sem heild er því einstaklega dýrmætt, ekki síst vegna þess hversu nálægt þéttbýlissvæði það er. Þessu virðist eiga að farga án teljandi hugsunar.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – örnefni (ÓSÁ).

Samstarf og samnýting Faxaflóahafna hefur dregið úr þörfinni á hafnargerð sem þessari, enda koma aðrir staðir á höfðuborgarsvæðinu mun betur til greina en landssvæðið þar sem Hraunin eru.
Sjá meira um svæðið HÉR og HÉR. Vefsíðan geymir uppdrætti af u.þ.b. 400 minjasvæðum og yfir 6000 lýsingum á Reykjanesskaganum, auk fróðleiks og frásagna af minjum og örnefnum á svæðinu – fyrrum landnámi Ingólfs. Allt efnið er unnið af áhuga og umhyggju – án ríkisstyrkjar.

Heimildir m.a.:
-Mbl – Þriðjudaginn 6. júlí, 1999 – Smáfréttir
-fjardarposturinn.is – 11. september 2008
http://www.fjardarposturinn.is/images/FP-pdf/FP-2008-34-skjar.pdf

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestri.

 

Kapella

Jochum Magnús Eggertsson (9. september 1896 – 23. febrúar 1966) var íslenskur rithöfundur og skáld, alþýðufræðimaður og skógræktarmaður, sem skrifaði jafnan undir höfundarnafninu Skuggi.
Skuggi-1Jochum las og rannsakaði allar galdraskræður og fornan fróðleik sem hann kom höndum yfir, og skrifaði meðal annars bókina Galdraskræðu, þar sem hann tók saman ýmsan fróðleik um galdra og galdrastafi. Hann sagðist líka hafa fundið galdrabókina Gullskinnu eða Gullbringu, sem getið er í þjóðsögum, en hún væri í rauninni ekki galdrabók, heldur frumgerð Landnámu og þar væri sögð saga fyrstu alda Íslandsbyggðar eins og hún væri raunverulega. Aldrei vildi Jochum þó sýna neinum Gullskinnu.
Margir telja að Landnáma hafi komið á undan Íslendingabók. Höfundur hennar voru Ari fróði og Kolskeggur hinn vitri.
Samkvæmt kenningum Jochums var Suðurland albyggt þegar landnámsmenn komu og var þar fyrir írskur þjóðflokkur sem naut andlegrar handleiðslu Krýsa (Chrysostomosa eða gullmunna) Skuggi-2og hafi það verið hluti launhelga sem voru til víða um Evrópu og allt suður til Krítar og Egyptalands. Höfuðstöðvar Krýsa voru samkvæmt kenningum Skugga í Krýsuvík. Hann hélt því fram að Krýsar og landnámsmenn hefðu í fyrstu búið saman í friði. Höfuðprestur Krýsa á elleftu öld var Kolskeggur vitri og hafði hann lærisveina sína og ritara á tveimur stöðum, í Krýsuvík, þar sem hann bjó sjálfur, og á Vífilsstöðum undir stjórn Jóns Kjarvalarsonar hins gamla, og voru alls 13 á hvorum stað að meðtöldum lærisveinum. Þeir voru jafnan hvítklæddir.
Þessir fræðimenn sköpuðu menningararf Íslendinga, segir Skuggi. Kolskeggur vitri kenndi Íslendingum að skrifa með latínuletri; hann orti sjálfur Hávamál og skrifaði margar Íslendingasagna, þar á meðal Njálu, Laxdælu, Hrafnkels sögu, Gunnlaugs sögu ormstungu og Bandamanna sögu. En höfðingjum þóttu Krýsar orðnir of voldugir og haustið 1054 söfnuðu þeir miklum her, brenndu Jón Kjarvalarson og menn hans inni á Vífilsstöðum og settust svo um Krýsuvík, sem þeim tókst loksins að vinna þrátt fyrir frækilega vörn. Kolskeggur komst undan á Brimfaxa, arabískum gæðingi, en náðist í hrauninu sunnan Hafnarfjarðar, þar sem hesturinn fótbrotnaði og Kolskeggur var felldur. Eftir þetta var Krýsum útrýmt.
Skuggi-3Mönnum stóð brátt ógn af þeim stað þar sem Kolskeggur hafði fallið og var þar reist kapella og hraunið síðan kallað Kapelluhraun. Hann var sagður galdramaður og djöfull og með tímanum umbreyttist nafn hans í Kölski. Kapellan var reist við fornu reiðgötuna í auðninni þar sem Kolskeggur var veginn; var á miðöldum kölluð “Kölskakapella” eða “Kölska-kyrkja”. Nýtt hraun hefur runnið á hana og kaffært hana að nokkru leyti, en vegsummerki hennar sjást þó enn greinilega á hraunhryggnum og storkunni, austurgaflinn nokkurnveginn heillegur að innan og innganginn og fyllt hana þeim megin. Hraunið dregur síðan nafn af Kapellunni. Það fylgir fornu sögninni, að bein Kölska hafi verið geymd eða dysjuð þar í Kapellunni.
Fornar fræðibækur Krýsa voru bannaðar og kallaðar galdraskræður. Ari fróði var svo fenginn til að umskrifa söguna og afmá hlut Krýsa, en eftir hvarf þeirra varð nær algjör stöðnun í menningararfi og ritstörfum meðal Íslendinga. Síðustu leifar þessa stórbýlis [Krýsuvíkur] hafa varðveizt á undraverðan hátt, umkringdar og greiptar í hraunstorkuna og bíða þar grasi grónar eins og þær hafa gert síðastliðin 600 ár. Yngsta gólfskánin hefur því tíðindi að segja frá þeim tíma.
Þá má þess geta að í þjóðsögunum segir að Eiríkur galdraprestur í Selvogi hafi áskotnast Gullskinna þessi, en hann ákveðið að urða hana í Kálfsgili í Urðarfelli, enda um að ræða “mestu galdrabók allra tíma”.

Skuggi-4

Jochum var ættaður frá Skógum í Þorskafirði og var bróðursonur Matthíasar Jochumssonar skálds. Hann sendi frá sér allnokkurn fjölda bóka og ritlinga, bæði stuttar skáldsögur og smásögur, ljóð, þjóðlegan fróðleik og ritgerðir, og þykja mörg ritverk hans nokkuð sérstæð. Hann var einnig góður teiknari og skrautritari og hafði lært það af eldri bróður sínum, Samúel Eggertssyni kortagerðarmanni og skrautskrifara, sem ól hann upp að einhverju leyti. Jochum myndskreytti sumar bækur sínar og handskrifaði aðrar. Á meðal bóka hans má nefna Brísingamen Freyju, Syndir guðanna – þessar pólitísku, Viðskipta- og ástalífið í síldinni og Skammir.
Jochum keypti Skóga í Þorskafirði árið 1951, dvaldist þar meira og minna öll sumur eftir það og stundaði þar allnokkra skógrækt og gerði tilraunir með ræktun ýmissa trjátegunda. Hann var ókvæntur og barnlaus en arfleiddi Baháí-samfélagið á Íslandi að jörðinni eftir sinn dag.

Sjá meira HÉR.
Sjá einnig Brísingamen Freyju.

Heimildir
– (Jochum M. Eggertsson) Skuggi: Brísingamen Freyju: nokkrar greinar. Reykjavík, 1948.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Garðahverfi

Í ritinu Harðjaxl réttlætis og laga 1924 skrifar “Gamall Garðhreppingur” um “Átthagafræði Garðahrepps“. Um var að ræða verðlaunasamkeppni ritsins þar sem viðkomandi lýsir bæjum og ábúendum í Garðahreppi:

Hr. ritstjóri!

Lónakot

Lónakotsbærinn.

“Þegar eg las í blaði yðar Harðjaxl um hinn mikla framgang Harðjaxlsstefnunnar, sem ennþá er vitanlega mestur í höfuðborginni, datt mér í hug, að þegar þér farið að senda erindreka yðar út um sveitirnar, væri gott fyrir yður að vita nokkur deili á býlum þeim og bændum, þar sem erindrekar yðar fara um. Þess vegna sendi eg yður hér með stuttorða lýsingu á bæjarnöfnum og fleiru smávegis, í þeim hreppi, sem eg er tiltölulega kunnugastur í.
Syðsti bær hreppsins er Lónakot. þar bjó til skamms tíma Guðlaugur; var hann sveitarhöfðingi hinn mesti, og bætti jörð sína mjög, og fór vel með allar skepnur, sérstaklega sauðfé. En nú er hann fluttur til Hafnarfjarðar og mun það mest vera fyrir þá sök, að honum þótti of lítið útsvar lagt á sig í hreppnum. Nú býr í Lónakoti Þorsteinn frá Herdísarvík, sá sem ekki vildi dóttur þórarins. Er hann sagður búhöldur góður.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir.

Næsti bær fyrir innan Lónakot eru Óttarstaðir; þar er tvíbýli. Á öðrumum partinum býr Guðmundur strandamaður. þar bjó áður Guðjón, sem búnaðist best í Krýsuvík. Á hinum partinum býr Sigurður; var hann talinn góður bóndi áður en bílarnir komu. Skammt fyrir ofan Óttarstaði er býlið Eiðskot.
Þar búa bræður tveir, Sveinn og Guðmundur. Eru þeir smiðir góðir og gamlir skútumenn, en hafa nú í seinni tíð hneigst til sauða, eins og stórbóndinn á Hvaleyri. Einnig hafa þeir verið helstu skónálasmiðir hreppsins um mörg ár.
Nú kemur engin bygð. fyr en í Straumi. Þar bjó um langan aldur Guðmundur dýravinur. En nú er hann kominn til Hafnarfjarðar eins og Guðlaugur, og lifir þar á sauðfé sínu og guðs blessun. Bjarni skólastjóri hefir nú útibú í Straumi, og á margt auðfé. Þar er engum úthýst.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Í inn-hraununum eru nú sex býli í eyði, sem búið hefir verið á til skamms tíma, en liggja nú flest undir Straum.
Helsta býlið af þessum sex voru Þorbjarnarstaðir. Þar bjó lengi Þorkell faðir Árna, Ingólfs og Geira. Og var honum að sögn bygt út fyrir þá sök, að hann þótti ekki gresja nóg skóginn.
Hann hafði mikla ást á geldingum, sérstaklega mislitum. Nú er hann kominn til fjarðarins eins og Laugi. Í Péturskoti, sem er eitt af eyðibýlunum, bjó eitt ár Ingólfur sonur Þorkels, en af því að hann gat ekki tekið með köldu blóði að hafa þar margt fé á litlu, fór hann þaðan, og er nú kominn í velsæluna í firðinum. Á eyðibýlinu Litla-Lambhaga bjó fyrir nokkru Brynjólfur, gamall vinur Þorkels. Mun hann hafa farið þaðan fyrir þá sök að honum þótti of lág landskuldin. Í Gerðinu hefir nú Þórarinn sumarbústað; er hann sami maðurinn sem snéri trollurunum aftur við Reykjanes í fyrra, þegar hann komst ekki í bæjarstjórnina í firðinum. Þá grétu Emil og Gísli. Í Stóra-Lambhaga, sem nú er ein af hjálendum Straums, bjó fyrir nokkru Guðjón, sem nú býr á Langeyri við Hafnarfjörð, faðir Magnúsar hugvitsmanns…

Ás

Ás – tilgáta ÓSÁ.

Þegar hinum svokölluðu Hraunabæjum sleppir, er næsti bær Þorgeirsstaðir. Þar nam land Þorgeir hinn sterki. Nú býr þar Brynjólfur frá Litla-Lambhaga. Er hann víst allgóður bóndi, en heldur þykir hann óheppinn með sauðfé nú í seinni tíð. Skammt frá Þorgeirsstöðum er býlið Stekkur. Þar býr Sigurður. Þykir hann gera það gott eftir atvikum. Næsti bær við Stekk er Ás. Þar býr Oddgeir sonur Þorkels; er það sami maðurinn sem ekki bauð sig fyrir hreppstjóra hérna um árið, en varð hreppstjóri samt, eg man ekki hvað lengi. Nú er höfuðbólið Setberg næsti bær. Þar býr nú Jóhannes Reykdal, og hefir mikið um sig. Þar bjuggu áður Halldór og Anna, sem margir kannast við.

Urriðakot

Urriðakot.

Næsti bær við Setberg er Urriðakot. Þar býr Guðmundur. Er hann tengdafaðir Björns bolsivikka í firðinum, og er sagt, að Guðmundur sé ekkert upp með sér af þeim tengdum.
Þá koma næst Vífilsstaðir. Þar er nú rekinn fyrirmyndar búskapur á kostnað ríkissjóðs, undir stjórn Þorleifs. Og mundi vart betur vera búið, þótt einstakur maður ætti. Og sýnir það, að ríkisrekstur á fullkominn tilverurétt, á hvaða sviði sem er, ef honum er viturlega stjórnað. En heldur þykir bændum útsvarið vera lágt á búinu.
Skammt fyrir neðan Vífilsstaði er Hagakot; það er nú í eyði, en beljur látnar slá túnið á sumrum.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir fyrrum.

Þá koma Hofstaðir. Þar býr nú Gísli, sá sem ekki vill komast í hreppsnefndina. Þar bjó áður Jakob faðir Gísla, vel metinn maður. Fyrir neðan Hofstaði er Arnarnes. Þar býr nú prestsekkja með sonum sínum. Og hefir hún meira álit á hærri stöðum en sumir hreppstjórar. Þá er næst Hraunsholt. Þar hefir lengi búið Jakob; er hann með betri bændum hreppsins, og helsti brautryðjandi hreppsins í kaupfélagsmálum. Og sérstaklega er sagt að hann hafi gengið upp, síðan farið var að slá slöku við að mæla fitumagnið í mjólkinni.

Krókur

Krókur.

Þá tekur við Garðahverfið, og er þá best að byrja á Garðastað. Þar býr prófastur Árni Björnsson, tengdafaðir Gunnlaugs stórkaupmanns. Þá er næst Nýibær. Þar býr Magnús, allgóður bóndi, en heldur er sagt að búskap hans hafi hrakað síðan bæjarfulltrúinn tók heimasætuna. Skamt upp af Nýjabæ er Krókur. Þar bjó lengi Björn faðir Guðmundar. Er sagt að Guðmundur sjái um að blikkkassinn hjá gjaldkeranum springi ekki af offylli. Fyrir neðan Krók eru Pálshús. Þar býr nú Guðjón hreppstjóri, sem ekki fékk Arnarnesið.

Garðahverfi

Pálshús.

Fyrir neðan Pálshús eru Dysjar. Þar er tvíbýli. Á öðrum partinum býr Magnús Brynjólfsson. Og er sagt að bærinn hjá honum leki enn, þó að hann kysi Björn. Á hinum partinum býr Guðjón, mágur Steingríms og Óla H. Skamt frá Dysjum er Bakki. Þar býr nú Kristinn Kristjánsson. Þar bjó áður Isak, sem á meinlausu hundana. Þá er Miðengi. Þar býr Gunnar, sláttumaður góður. Þar næst er Móakot. Þar býr Einar, bróðir Steins rithöfundar. Sonur Einars er Sigurður sá, sem engin hjúkrunarkona vill ganga með, jafnvel þó hún sé launuð af bæjarstjórn. Fyrir ofan Móakot er Háteigur. Þar býr Stefán, faðir Páls.

Garðahverfi

Hlíð.

Þá kemur næst Hlíð. Þar hefir til skamms tíma verið tvíbýli. Nú hefir alla jörðina Gísli Guðjónsson. Þá er næsti bær Grjóti. Þar býr nú sprenglærður búfræðingur með mikilli rausn.
Á Hausastöðum býr nú Valgeir Eyjólfsson, talinn gott búmannsefni. Fyrir neðan Hausaataði er Katrínarkot. Þar hefir lengi búið Jónína, gömul vinkona Guðjóns. Þá er norðasti bær hreppsins, Selskarð. Þar bjó til skamms tíma Þórarinn, sem margir Hafnfirðingar kannast við. En nú hafa þeir félagar Jón og Gísli keypt jörðina, og er sagt að þeir ætli að setjast þar að þegar þeir eru búnir að tapa svo miklu á akkorðunum, að þeir haldist ekki lengur við í firðinum. Og telja kunnugir, að það geti vart dregist lengur en fram á næsta vor, sérstaklega, ef þeir hafa uppskipun úr 14 trollurum í vetur.
Þess skal getið réttum hlutaðeigendum til hróss, að þeir hafa sett mjög öfluga girðingu á milli Álftaness og Garðahverfis. En þó Álftnesingurinn sé ekki árennilegur, mun eg ef til vill, ef eg sé mér færi, skjótast í gegnum hliðið á girðingunni og rita þá lítilsháttar um bændur þar og búalið.” – Gamall Garðhreppingur.

Heimild:
-Harðjaxl réttlæstis og laga, 16. tbl. 04.12.1924, Átthagafræði Garðahrepps – verðlaunasamkeppni, bls. 2-3.

Garðahverfi

Garðahverfi.

Lónakot

Í Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021 segir frá Þorbjarnarstöðum:

Þorbjarnarstaðir
HafnarfjörðurÞorbjarnarstaðir voru ein af svokölluðum Hraunjörðum en það voru þær jarðir sem voru innan staðarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum.
Elsta heimild um Þorbjarnarstaði var frá 1395 í skrá um kvikfé og leigumála á jarðeignum Viðeyjarklausturs en þá var jörðin í eyði, þannig hún hefur verið í byggð eitthvað fyrir þann tíma.9 Næst var sagt frá Þorbjarnarstöðum í fógetareikningum frá 1547-48 en þá var jörðin komin aftur í byggð: „Jtem met Torbernestdom j legeko. Xij for. Landskyldt iiij vetter fiske. ij lege iij vether fiske dt. oc ij landskyld iij vether fiske dt. summa iije tals.“
Í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var sagt að jarðardýrleiki Þorbjarnarstaða hafi verið óviss og jörðin hafi verið í konungseigu. Jörðin var þá með selstöð sem nefndist Gjásel (2679-16) en þar voru hagar góðir en vatns slæmt. Sagt var að túnrista og stunga hafi verið í slakara lagi á Þorbjarnarstöðum og ekki nægileg en fjörugrastekja var góð og nægjanleg fyrir heimilismenn. Heimræði var árið í kring og lending góð en þó mjög erfitt að setja skip upp, þó hafi skip ábúenda siglt eftir hentugleika allt árið í kring.
Í jarðatali Johnsen frá 1847 var jörðinni gefið númerið 166, dýrleiki hennar var 12 ½ hndr. landskuldin 0.75 kúgildin 2 og ábúandi einn, sem einnig var eigandi.
Árið 1869 fluttist Ólafur Jónsson að Þorbjarnarstöðum og bjó þar til 1881. Valgarður L. Jónsson ritaði grein um Ólaf í Íslendingaþáttum Tímans: „[…] Það mun hafa verið árið 1869, sem Ólafur byrjar búskap, þá 31 árs gamall, sem leiguliði á jörðinni Þorbjarnarstaðir í Straumsvík við Hafnarfjör, þar býr hann í 12 ár, sem leiguliði.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Satt best að segja átta ég mig ekki hvernig hægt er að kalla þetta jörð eða grasbýli, þarna er allt umhverfi svart brunahraun. En Ólafur vann það þrekvirki að græða upp túnblett úr brunaurðinni. Hann tíndi stærsta grjótið úr og hlóð úr því varnargarð umhverfist túnið, sem enn stendur að nokkru, svo vel hefur verið til verksins vandað. Síðan mylur hann hraunnibburnar með sleggju og breiðir mold yfir og fær hinn besta töðuvöll. Þarna var handaflið eitt að verki, við getum rétt ímyndað okkur þrældóminn. Þarna reisti hann hús að grunni og gerði hinar ótrúlegustu umbætur, sem jarðeigandinn kunni vel að meta, það sýndu ýmsir góðir munir sem hann gaf Ólafi, sem þakklætisvott, ég man t.d. eftir Vínstaupinu úr púra silfri og upphafsstafirnir hans faglega á það grafnir.“

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – túnakort 1918.

Á túnakorti af Þorbjarnarstöðum frá 1919 var sagt að túnin á Þorbjarnarstöðum hafi verið slétt og holótt 1,4 teigar og kálgarðar um 500m2 en kálgarðar Þorbjarnarstaða eru enn vel greinanlegir í dag.
Byggð virðist hafa verið nokkuð samfelld á Þorbjarnarstöðum frá 1703 til 1920 en samkvæmt manntölum þá bjuggu þar mest 19 manns árið 1709 en minnst bjuggu þar 3 manns árið 1920, að undanskildu árinu 1890 þegar enginn var skráður að Þorbjarnarstöðum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðarker.

Ætla má að þær minjar sem eru hvað mest áberandi á Þorbjarnarstöðum sé komnar frá honum Ólafi en búast má við því að jörðin geymi enn eldri minjar þar sem jörðin hefur verið í byggð í hið minnsta frá 14. öld.
Minjarnar við Þorbjarnarstaði tengjast flestar búskap á svæðinu, þ.e. ýmsar útihúsatóftir, matjurtagarðar, gerði og garðlög. Aðrar minjar sem tengjast Þorbjarnarstöðum er einnig að finna í hrauninu í kringum bæjarstæðið, þar má nefna Þorbjarnarstaðarétt, ýmsar vörður sem eru þá bæði kennimörk og eyktarmörk. Norðaustan við bæjarstæðið er að finna steyptan grunn af sumarbústað sem var rifinn um það leiti sem álverið í Straumsvík var byggt. Finna má tvo aðra grunna til viðbótar fast sunnan við Reykjanesbrautina.

Péturskot

Péturskot – útihús.

Norðan við bæjarstæðið og í landi Þorbjarnarstaða og fast sunnan við Reykjanesbrautina má sjá leifar þurrabúðarinnar Péturskots. Bæjarstæði Péturskots hefur þó orðið fyrir miklu raksi vegna Reykjanesbrautarinnar. Finna má lýsingu á Péturskoti í Örnefnaskrá: „ […] Péturskoti, sem var þurrabúð í Þorbjarnarstaðalandi. Var það fyrst byggt fyrir aldamót af Pétri Péturssyni, Helgu konu hans og Signýju dóttur þeirra. Þarna var ofurlítið tún, og var túngarður umhverfis það. Háatún nefndist nokkur hluti túnsins sunnan bæjarins og ofan, oftast þá nefnt Fagrivöllur. Kotið var oft í spaugi nefnt Hosiló, en það festist aldrei við sem örnefni. Austan við túnið var matjurtagarður. Þar eru nú sumarbústaðir. Þessi garður tilheyrði Litla-Lambhaga, en einnig var kálgarður í Péturskotstúni.“
Tvö sel frá Þorbjarnarstöðum voru skráð, Fornasel og Gjásel. Sagt var frá þeim í Örnefnaskrá: „ […] Fornasel, sel frá Þorbjarnarstöðum. Má enn sjá, að þrjár hafa verið þarna vistarverur. Selið stendur á Fornaselshæð. Rétt við selið er vatnsstæði, nokkuð niðurgrafið.
Norðan undir hæðinni eru rústir eftir kvíar“. „[…] Gjásel, sel frá Þorbjarnarstöðum, stóð á Gjáselshæð. Rétt hjá selinu var vatnsstæði. Á hæð skammt suður og upp frá selinu var Gjáselsvarða. Norðaustur frá Gjáselsvörðu voru þversprungnir hólar, Vonduhólar. Frá selinu lá Gjáselsstígur, en hann er nú óglöggur mjög.“
Árið 2001 gerði Fornleifafræðistofan fornleifarannsókn á Fornaseli og var markmið rannsóknarinnar að ná viðarkolum eða húsdýrabeinum til geislakols aldursgreinar og til að kanna í hvaða ástandi minjarnar að Fornaseli voru.17 Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að allt benti til þess að haft hafi verið í seli að Fornaseli frá því um 1600 og fram á 19. öld. Rannsóknin gaf einnig í ljós að tóftir (2679-10) og (2679-8) voru mannabústaðir, tóft gæti hafa verið það en rýmið sem var rannsakað í henni var að öllum líkindum búr eða eldhús.

Straumur

Straumur

Straumur – túbakort 1918.

Straumur var einnig ein af Hraunjörðunum, þær jarðir sem voru innan staðarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum. Þessar jarðir voru í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því konungsjarðir með siðaskiptunum 1550. Konungsjarðirnar voru síðan seldar á árunum 1836-1839.

Jarðarinnar var fyrst getið í fógetareikningum frá 1547-1548 og þar sagði: „Item met Ström j legeko. xiij for. Landskyldt iij vetter fiske. ij lege vj förenger smör dt. oc ij landskyldt iij vetter fiske dt. Thet er jc xxx fiske.“

Straumssel

Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.

Næst var getið um Straum í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar var sagt að jarðardýrleikinn hafi verið óviss, að jörðin var í konungseign og að ábúandi var Hans Ólafsson. Kúgildin voru þrjú og landskuldin var 75 álnir. Jörðin átti selstöð þar sem hét Straumsel en þar voru hagar slæmir og vandræði af vatnsskorti þegar það voru þurrkar. Torfrista og stunga voru í skárra lagi og jörðin notaði skóg í almenningi til kolagerðar og eldiviðar. Heimræði var allt árið í kring, lending góð og skip ábúendans réru eftir hentugleika. Lambhúsgerði var þá eyðihjáleiga á jörðinni sem hafði verið í eyði eins lengi og menn mundu og ekki var talið að þar yrði búið aftur vegna þess að bóndinn á Straumi gat ekki komið túninu þar í lag án þess að það kæmi niður á hans eigin túni.

Straumssel

Í Straumsseli.

Í Jarðatali Johnsens frá 1847 var jörðinni gefið númerið 165, jörðin var þá í bændaeign, dýrleikinn var 12 ½ hndr., landskuldin 0.75, tvö kúgildi, einn ábúandi og var hann eigandi jarðarinnar.
Samkvæmt Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar voru landamerki fyrir jörðina Straum: „Landamerki milli Straums og Óttarsstaða byrja við sjó á Vatnaskersklöpp yfir miðjan Markhól og þaðan beint í Stóra-Nónhól í Gvendarbrunn frá Gvendarbrunni í Mjósundsvörðu, frá Mjósundsvörðu í Klofaklett suður og upp af Steinhúsi.
Á Klofaklett er klappað Ótta Str. og varða hlaðin hjá. Frá Klofakletti í Markastein, suður og upp af Eyjólfshól, á þennan Markastein er klappað Ótta Str. Frá þessum Markasteini sömu stefnu upp að Krýsuvíkurlandi.
Á hliðina milli Straums og Þorbjarnarstaða byrja landamerkin við sjó á Pjetursbyrgi á neðsta hólmanum, og þaðan beint í svonefnda Tóu, úr Tóu beint í Vestari-Tobbukletta yfir miðjum Jónshöfða og í vörðu vestarlega á há-Hafurbjarnarholtinu og þaðan beina stefnu mitt á milli Stóra-Steins og Fjárskjólskletts í vörðu á há-Fremstahöfða og þaðan hina sömu beinu stefnu þar til Krísivíkurland tekur við. (Undirritað í Straumi 31. maí 1890).

Straumssel

Straumssel – bær skógavarðarins.

Merkustu minjarnar sem tengdust Straumi voru án efa minjasvæðið við Straumssel. Þar var haft í seli a.m.k. síðan 1703,24 líklega mun fyrr, og svo var byggður þar bær um miðja 19. öldina. Bæði leifar bæjarins og selsins eru mjög heillegar. Í Örnefnaskrá segir: „Þá er skammt í Straumssel, sem er eitt merkasta selið hér um slóðir, því þar var búið 15 til 20 ár um miðja öldina, sem leið. Selstætturnar eru í Straumsselstúni. Þarna stóð bær fram á þessa öld, sem Tjörvi lét reisa, en ekki var þar stöðug búseta, því að bærinn brann.“
Einungis voru skráðir ábúendur í Straumsseli í manntali árið 1860, þá bjuggu þar Sveinn Gíslason og Þórdís

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri – eldhús.

Óttarsstaðir töldust einnig til hinna svokölluðu Hraunjarða, þær jarðir sem voru innan staðarmarka Hafnarfjarðar. Þessar jarðir voru í eigu Viðeyjarklausturs og urðu konungsjarðir með siðaskiptunum 1550. Konungsjarðirnar voru svo seldar á árunum 1837-1839.
Elsta heimild um Óttarsstaði er frá árinu 1379 og var vitnisburður Kára Þorgilssonar og tveggja annara manna um máldaga og reka kirkjunnar í Viðey frá Kolbeinsskor og inn að Hraunnessvötnum á milli Hvassahrauns og Óttarstaða: „Svo felldann vittnisburd bervm vier kare þorgilsson, jon oddzson oc olafur kodransson, at vier hofvm heyrt lesin maldagann j videy advr en kirkiann brann, oc firnefndur olafur kodransson las hann sialfur, at kirkiann j videy ætti fiordv hvroia vætt vr hval hvar m land kæme fra kolbeinsskor oc in at hravnnes vottvm j millvm hvassaravns oc ottastada nema kæme æ kalfatiarnar reka þeim frateknvm j millvm markkeltz oc nyia garda. hier epter villivm vier sveria ef þvrfa þycker. anno domini Պ iijc. lxxix ar.“

Einnig var sagt frá Óttarsstöðum í bréfi frá 9. september 1447 en þar var bréf um jarðaskipti Einars Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey fyrir hönd klaustursins. Einar mun hafa keypt jarðir í Húnaþingi og selt jarðir á Vatnsleysuströnd til Viðeyjarklausturs og 10/100 í Óttarsstöðum.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – túnakort 1919.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1073 var sagt að jarðardýrleiki Óttarsstaða hafi verið óviss og að jörðin hafi verið í konungseign. Landskuldin var 500 álnir sem greiddist með sex vættum og tveimur fjórðungum fiska í kaupstað síðan leiga var hafin en áður greiddist hún til Bessastaða. Ábúandinn, Guðmundur Guðmundsson, lagði við til húsbóta. Kúgildi jarðarinnar voru þrjú og greiddust leigur í smjöri heim til Bessastaða eða með fiski í kaupstað, ábúandinn uppyngdi kúgildin sjálfur. Útigangur var í betra lagi, ef ekki var um hörkuvetur að ræða, kvikfénaður var fimm kýr og einn hestur. Túnið gat fóðrað fimm kýr en hafði verið í órækt og var úr sér gengið. Heimilsmenn voru átta og sóttu þeir sér skóg til kolagerðar og eldiviðar í almenning greiðslulaust. Lyngrif var nýtanlegt, aðallega til eldkveikju, lítil rekavon, sölvafjaran nægði heimilsfólki og hrognkelstekja í lónum var vel nýtt. Heimræði var á Óttarsstöðum árið um kring og var lendingin í meðallagi. Jörðin átti tvær selstöður, eina í almenningi þar sem hagar voru góðir en það gat orðið vatnslaust á þurrum sumrum, hina í Lónakotslandi á móts við uppsátrið sem Lónakotsmenn fengu að nota í landi Óttarsstaða.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri – meintur kirkjugarður fremst.

Búfénaður fórst oft í gjám í hrauninu, sérstaklega á veturna þegar snjór lá yfir hrauninu.
Torfstunga var svo gott sem engin til heyja, þaks og húsa. Tvær hjáleigur voru á Óttarsstöðum, báðar ónafngreindar í Jarðabókinni, önnur um sextíu ára gömul þegar Jarðabókin var skrifuð en hin eldri en elstu menn mundu.
Í Jarðatali Johnsens frá 1847 fékk jörðin númerið 163 (Óttarsstaðakot 164) og var jörðin í bændaeign. Dýrleikinn var 20 ⅙, landskuldin 1.5, kúgildin 3 og ábúendur voru 1 eigandi og 1 leiguliði.
Þær minjar sem skráðar voru sem helst tengjast Óttarsstöðum voru án efa Óttarsstaðasel og Lónakotssel, en Óttarsstaðir voru með selstöðu í Lónakotslandi á móts við uppsátur sem Lónakot var með í Óttarsstaðalandi og fjallað verður um Lónakotssel í næsta kafla. Í Örnefnaskrá segir: „ […] blasir þá við Óttarsstaðasel. Þar endar Skógargatan. Rústir eru eftir tvö sel, þrjár byggingar í hvoru.32 Snúa dyr í austur og vestur. Gríðarmikið graslendi er hjá selinu. Vestan við túnið er hæð og vestan í henni gríðarstór hellir. Hefur sýnilega ver reft yfir þetta skjól og það þá verið hið bezta fjárskýli. Efst í túninu er klapparkler með vatni, á annan metra að dýpt.
Vatnið þornar mikið upp á sumrin og verður tómt grugg í þurrkum. En vestan í smáhæð vestast í túninu er hola í klöpp og í henni mikið vatn og tært, sem aldrei þornar. Við holuna lá alltaf flaska í gamla daga, til þess að ferðamenn gætu fengið sér vatnssopa.
Í suður frá selinu sér í op á miklum hraunbás. Þar er ævagömul rétt, sem stendur óhögguð enn í dag. Réttin stendur á klöpp og eru veggir hlaðnir frá hvorum kersbarmi og allrúmgott, þegar inn er komið. Sennilega hefur verið haft þar fé á nóttunni.“

Lónakot

Lónakot

Lónakot – túnakort 1917.

Lónakot var einnig ein af hinum svonefndu Hraunjörðum, þær jarðir sem voru innan bæjarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum. Þessar jarðir voru allar í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því konungsjarðir með siðaskiptunum 1550. Konungsjarðirnar voru svo seldar á árunum 1837-1839.
Elsta heimildin um Lónakot var í fógetareikningum frá 1547-1548 og þar sagði: „Item met Lonakot en legeko. landskyld iij vetter fiske oc ij lege en vet fiske d.t. oc ij landskyldt iij vether fiske dt. thet er jc lxxx fiske.“ Lónakot kom fram í öllum fógetareikningum frá 1547-1553.

Lónakot

Lónakot – bærinn.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var sagt að dýrleiki Lónakots hafi verið óviss, því jörðin tíundaðist engum, og jörðin var í konungseign. Landskuldin var xl álnir sem voru borgaðar með átta tunnum af kolum heim til Bessastaða allt til þess að Andres Ívarsson varð umboðsmaður á Bessastöðum, þá kvartaði ábúandinn, Sigurður Oddleifsson, um að skógurinn í almenningnum væri svo foreyddur að hann treysti sér ekki til þess að safna kolviði til landskuldargjaldsins. Eftir það var landskuldin greidd með tveim vættum fiska í kaupstað. Kvikfénaður var þá tvær kýr, tvær kvígur mylkar, ein tvívetra, hin þrívetra, tólf ær, fimm sauðir veturgamlir, sjö lömb, einn hestur og eitt hross. Túnin gátu fóðrað þrjár kýr og heimilsmenn voru fimm. Jörðin átti selstöðu í eigin landi, Lónakotssel, og voru hagar þar góðir en stórt mein af vatnsskorti þegar það var þurrkur. Jörðin notaði rifhrís til kolagerðar og eldiviðar og jafnvel til að fóðra nautgripi um vetur, torfrista og stunga var í lakasta lagi og varla nýtanleg, lyngrif var n

Lónakotssel

Lónakotssel – uppdráttur ÓSÁ.

okkurt og var notað til eldiviðar og stundum til að fóðra sauðfé í heyskorti. Fjörugrastekja var nægileg heimilismönnum, rekavon var lítil, sölvafjaran hjálpleg, hrognkelsfjaran gagnleg en skelfiskfjara naumleg og erfiðsöm til beitu. Ekki var heimræði á Lónakoti því engin almennileg lending var á jörðinni og hafði ábúandinn skipsuppsátur á Óttarsstöðum.

Í Jarðatali J. Johnsen frá 1847 fékk Lónakot númerið 162 og var í bændaeign. Dýrleiki jarðarinnar var 10, landskuld var 0.4, kúgildið 1 og ábúendur einn eigandi.
Árið 1966 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að nýta sér forkaupsrétt á öllum lóðum og fasteignum í Hafnarfirði vestan Krýsuvíkurvegar og var jörðin Lónakot þar á meðal.
Helstu minjarnar sem skráðar voru og tengjast Lónakoti voru án efa Lónakotssel. Þar höfðu Óttarsstaðamenn einnig í seli á móts við uppsátur Lónakotsmanna á Óttarsstaðalandi. Í Örnefnaskrá segir: „[…] Lónakotssel. Þar höfðu í seli auk Lónakotsbónda hjáleigumenn frá Óttarsstöðum. Enda eru þarna þrjár aðgreindar seljatættur. Selið liggur rétt austan við Skorás, sem af þessum ástæðum er nefndur Lónakotsselshæð. Norðan í því er jarðfall nokkurt og nefnist Skorásbyrgi eða Lónakotsselshæðarbyrgi. Þar mátti nátta ásauðum. Norður frá Skorás er Lónakotsselsvatnsstæði [innskot: það fannst ekki] í flagi og þraut oftast í þurrkatíð“.

FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.

Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021 – Þorbjarnarstaðir. https://byggdasafnid.is/wp-content/uploads/2021/10/Fornleifaskra%CC%81-Hafnarfjardar-X-Hraunjardir-sunnan-Reykjanesbrautar.pdf

Markhella

Markhella – áletrun.