Gengið var um vestanvert Elliðavatnsland ofan við Vatnsvík við suðaustanvert Vatnsendavatn (Elliðavatn). Þar eru fjárhústóftir frá Elliðavatni.
Tóftirnar standa hátt á grónum hól ofan við skógræktarlund og sjást vel víða að. Líklega er það tilviljun ein að mikil plöntuárátta hlutaðeigandi hefur ekki náð að hylja tóftirnar með trjám líkt og sjá má svo víða. Á hólnum eru heillegar vegghleðslur. Þrjú rými eru í tóftunum. Þrjú snúa gafli mót Vatnsenda (vestri) og eitt til suðurs (aftan við tvær hinar fremri). Garðar eru í fyrrnefndu rýmunum, en sú aftari gæti hafa verið umleikis heystæði (heykuml). Fjárhúsin munu, af ummerkjum að dæma, hafa verið hlaðin í lok 19. aldar eða byrjun 20. aldar, eða fyrir rúmri öld. Þau eru merkilegur vitnisburður um fyrri tíma búskaparháttu, örskammt frá þéttbýlinu, sem hefur verið að teygja sig óðfluga að rótum þeirra – og mun væntanlega eyða þeim með öllu þegar fram líða stundir (m.v. núverandi áhuga- og viljaleysi hlutaðeigandi yfirvalda í þeim efnum).
Fjárhústóftirnar hafa verið mjög nálægt mörkum Vatnsenda og Elliðavatns. Skammt vestan þeirra er tvískipt tóft, sennilega sauðakofi.
Örnefnaskrá Elliðavatns er “eftir Ara Gíslason (heimildarmaður Eggert Norðdahl, Hólmi) og athugasemdir varðandi örnefni Elliðavatns, eru skráðar af Ragnari Árnasyni (eftir Christian Zimsen), með Christian Zimsen, lyfsala, í júlí 1983. Í henni er og stuðzt að litlu leyti við blaðagrein eftir Karl E. Norðdahl, úr Mbl. frá 29. júní 1967. C.Z. telur allt, sem þar er sett fram, vera hárrétt.
Christian Zimsen (f. 26. september 1910) þekkti vel til á Elliðavatni. Faðir hans, Christen Zimsen (1882-1932), keypti 1/4 jarðarinnar árið 1916 af Einari Benediktssyni. Sama ár keyptu Þórður á Kleppi 1/8 jarðarinnar (á móti borginni, sem átti 1/8) og Emil Rokstad (kenndur við Bjarmaland) helming hennar. Emil Rokstad rak búið til 1927, en þá var jörðin öll seld borginni – eða Rafveitunni. Rokstad fékk þá 10 ára ábúð, þ.e. til 1937, en eftir það for jörðin í eyði. Elliðavatn var í Seltjarnarneshreppi, en er nú innan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur.
Christen Zimsen byggði sumarbústað á Elliðavatni árið 1919. Dvalizt hann þar meira og minna á sumrin alla tíð. Ennfremur var hann sumarstrákur á Elliðavatni, þannig að hann hafði aðstöðu til að læra örnefni jarðarinnar. Hann lærði þau helzt af ráðsmönnum Emils Rokstad, Arnbirni Guðjónssyni, sem var lengst þar, og Guðbirni Sigurjónssyni frá Króki í Flóa.
Á Elliðavatni var rekið stórt bú, fjárbú (flest um og yfir 500 fjár). Kýrnar voru á Bjarmalandi, en á Elliðavatni á sumrin. Veiði var einnig stunduð; þá var mikil veiði í vatninu. Rokstad reisti tvö klakhús, sem rústir sjást enn eftir. Eftir að Elliðavatn fór í eyði, var starfrækt þar heimili, útibú frá Kleppi. Síðar var byggt upp þar. Nú nýtir Skógræktarfélag Reykjavíkur húsið; þar dvelur vörzlumaður Heiðmerkur”.
Í örnefnalýsingunni segir m.a. um fjárhústóftina: “Árið 1884 var dæmt í landamerkjadeilum á milli ábúenda Elliðavatns og Vatnsenda. Málsaðilar komu sér saman um, að Strípur í jaðri Strípshrauns væri hornmark fyrir landeignir jarðanna og væri því rétt að ákveða merki þaðan.
Í Dómabókinni segir: „Dómurinn hefur nú komizt að þeirri niðurstöðu, að frá Stríp eigi merki jarðanna að vera eftir beinni stefnu yfir tóftarbrot suðvestanvert við Elliðavatnsfjárhús í Vatnsendavatn, þannig að enginn bugur sé á merkjunum við nefnda tóft, að þaðan séu mörkin með Vatnsendavatni að austan og norðaustan norður í Þingnestá, að úr Þingnestá ræður bein stefna norður yfir Þingnesál, þá ræður enn Vatnsendavatn vestur með Elliðavatnsengjum í Dimmuós, að þá skilur áin Dimma lönd jarðanna niður að Gjávaði…
C.Z. þekkir merkin ekki vel. Mönnum kom aldrei saman um þau. Hann er þó ekki sáttur við, að mörkin séu þau, sem lýst var hér að framan. Honum er tamt að líta þannig á, að Bugða, eins og hún var, hafi verið á mörkum og síðan Dimma, að ós hennar. Úr Dimmuós hafi mörkin legið þvert yfir Vatnsendavatn í Syðra-Vatnsendavatnsvik og þaðan í vestari vörðuna af tveimur, vestur af Elliðavatnsfjárhúsinu, og þaðan upp í Stríp. Að öðru leyti telur hann, að landamerkjalýsingin eigi að vera rétt.
Þannig tilheyrði u.þ.b. 1/4 Vatnsendavatns Elliðavatni. Vörður þær, sem um ræðir.eru fallnar, og eru litlar sem engar leifar eftir af þeim. Þær voru rifnar á stríðsárunum. Fyrir vestan Elliðavatnsfjárhús er tóft eftir ærhús frá Elliðavatni yfir 240 ær. Þar voru þrjár krær og hlaða á bak við tvær þeirra. Vörðurnar voru vestur af tóftunum, önnur 90 faðma frá því, en hin 60 faðma, en í gömlum lögum er ákvæði um, að hús skyldu standa 90 faðma frá landamerkjalínu, ef dyr sneru að henni, en annars 60 faðma frá, þ.e. ef dyr sneru frá.”
Svolítill ónákvæmni er í lýsingunni undir lokin því fjárhúsið, sem var ærhús, gat hýst 240 fjár. Vestan þess er tóft sú er að framan greinir.
Áður en tóftin fyrrnefnda á mörkunum var yfirgefin var kjörið tækifæri að setjast niður í góðvirðinu, horfa heim að Vatnsendabænum sem og Hvammskoti (Elliðahvammi) og rifja svolítið upp forsöguna.
Árið 1847 var Vatnsendi konungseign. Í Fornbréfasafni er máldagaskrá um eignir Maríukirkju og staðar í Viðey á dögum Þorvalds Gissurarsonar. Skráin er talin frá 1234 og er eftir máldagabókum frá Skálholti í safni Árna Magnússonar. Í Fornbréfasafni segir, að hún sé fremst af öllum hinum elztu Viðeyjarskrám og ritað við á spássíu: “gamall máldagi”. Í skránni segir; Hvn a oc Elliðavatz land hálft og allt land at vatzenda með þeim veiðvm og gæðm er þeim hafa fylgt at fornv. Staðr a oc Klepps land allt, oc laxveiði j Elliða ar at helmingi við Lavgnesinga. Hamvndr gaf til staðarins holm þann, er liggr j elliða am niðr frá Vatzenda holmi. Í skrám um leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs árið 1313 segir: At vatx ennda iij merkur. Í skránni frá 1395 um leigumála á jörðum klaustursins segir: at Vatzenda half fjorda mork. Í reikningi Kristjáns skrifara 1547-1548 er eftirfarandi ritað um Vatnsenda: Item met Vatzende iiij legekiór landskyld x óre frj oc xij thónder kuoell ij lege vij fóringer smór dt. her er ij foder en 3 vet nót oc ij landskydt iij for met lame oc 2 ar gamle for oc xij thónder kuóll. Í hlutabók eða sjávarútgerðarreikningi Kristjáns skrifara 1548-1549 segir: Item mett Vatzende iiij legekiór landskyldt x aure frj oc xij thónder kuell. ij lege en vet smór dt. oc ij landskyldt xij tónder kuoell oc desse x aurer tog Halvarder ij sijt kop.
Í reikningum Kristjáns skrifara 1549-1550 er ritað um Vatnsenda: Item mett Watzende iiij kiór landskyldt x óre frj oc xij toonder kúoell ij lege j vet smór etc. her er j foder ar gamel nód oc iiij lamb oc xij tonder koel etc. tog Haluarder thene landskyldt j sit kop. Í reikningum Eggerts fógeta Hannessonar, sem dagsettir eru á Bessastöðum 24. júní 1552, er eftirfarandi skráð um Vatnsenda: Item mett Wassende iiij legequiller landskyldt x óre frijj oc xij tonder koll. ik leger j vett smór. dt. och ij landskyldt x óre och tog Pouell Gurensón den ij sijt kop. oc xij toder kull. dt. Í jarðaskrá Björns Lárussonar (The Old Icelandic Land Registers, Lund, 1967) er Vatnsendi talinn konungseign, jarðadýrleiki 22 hundruð, landskuld 112 álnir og leigukúgildi fjögur. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 segir um Vatnsenda: “Jarðadýrleiki er óviss. Eigandinn kóngl. Majestat. […]” Í skrá um sölu konungsjarða 1760-1846 sést, að Vatnsendi hefur verið seldur 11. september 1816 með fjórum kúgildum. Söluverð var 1384 rd.
Samkvæmt Jarðatali á Íslandi (Kh 1847) er jarðardýrleiki 22 hundruð, landskuld hundrað álnir og leigukúgildi fjögur. Í Nýrri jarðabók fyrir Ísland 1861 er jarðardýrleiki einnig talinn 22 hundruð, en ný hundraðstala 24,4 hundruð. [..].” segir í Örnefnum í landi Kópavogskaupstaðar.
Heimildir, svo sem fasteignamat 1849 og 1916-1918, staðfesti að Vatnsendi hafi frá öndverðu verið landmikil jörð, með mikla og góða sauðfjárhaga en jafnframt að hluta erfið yfirferðar. Fjárhúsin á hæðinni suðaustan við vatnið gefa til kynna að síst hafi dregið úr veldi ábúendanna á síðari öldum. Líklega hefur skógur efrum torveldað aðgengið þótt þess sjáist ekki ummerki nú.
Löngum hafa verið deilur um landamerki Vatnsenda, s.s. milli landeigenda og Reykjavíkurbogar, sem eiganda svokallaðs „eignarnámslands í Heiðmörk. Á því svæði liggur Vatnsendi að Garðakirkjulandi til vesturs, jörðinni Elliðavatni til austurs og að Elliðavatni til norðurs. Að suðvestan og sunnanverðu nær landsvæði þetta Vatnsenda, í Húsfell, Þríhnúka og Stóra-Kóngsfell. Landsvæðið má skipta í annars vegar gróið láglendi og hins vegar hraunfláka. Vestan og sunnan stöðuvatnsins er láglendi, þ. á m. Heiðmörk, gróðursælt og afgirt svæði í 70-150 metra hæð yfir sjávarmáli. Heiðmörkin teygir sig frá vestri til austurs og tekur til landsvæðis innan merkjalýsinga bæði Vatnsenda og Elliðavatns, auk fleiri jarða.
Fyrir u.þ.b. miðri Heiðmörk er Strípur, “hvass hraundrangi”, að sögn. Þangað var einmitt ætlunin að stefna í þessari FERLIRsferð.
Fótstefnan var tekin til suðausturs upp Heiðmörkina, að svonefndum Stríp er Strípshraun dregur nafn sitt af. Hraunið, þakið þykkum hraungambra (er bendir til þess að undirlagið hafi orðið til öðru hvoru við landnám norrænna manna hér á landi), er fremur lítið af hrauni að vera og hefur runnið á sögulegum tíma. Aldur þess hefur ekki verið ákvarðaður af neinni nákvæmni. Hraunið, líkt og flest önnur nútímahraun, sem runnið hafa um Heiðmerkursvæðið, eru komin frá eldvörpum á svæðinu milli Bláfjalla og Þríhnúka. Elstu hraunin í Heiðmörk eru um 7200 ára og hin yngri frá sögulegum tíma.
Íslenska ríkið hefur haldið því fram (í þjóðlendakröfum sínum) að með merkjalýsingum Elliðavatns og Vatnsenda frá 1883 hafi eigendur þessara jarða eignað sér sinn hvorn hlutann úr sameiginlegum afrétti. Þessum lýsingum hafi aldrei verið þinglýst. Þó er vísað til þess í dómi aukaréttar Kjósar- og Gullbringusýslu frá 1884 um merki þessara jarða. Þar segir að Strípur sé hornmark fyrir landareignir jarðanna.
Það mun líklega vera nálægt lagi því ekkert kennileiti á svæðinu er jafn augljóst til upplandsins frá bæjunum og Strípur í miðju Strípshrauni. [Hér hefur ekki verið höfð í huga þau eðlilegu samskipti ábúenda og nágranna er jafnan höfðu náð til að skipta löndum sínum rétt m.v. þörf á hverjum tíma].
Í suðvestri blasti Vatnsendaborgin við uppi á Hjöllunum. Fyrstu og einu heildstæðu lýsinguna á landamerkjum Elliðavatns er að finna í yfirlýsingu eiganda jarðarinnar, dags. 20. júní 1883. Merkjum Elliðavatns að suðvestanverðu er lýst „frá sýslumörkum að austnorðanverðu við Kóngsfell og þaðan beina stefnu norður í svokallaðan Stríp …“. Yfirlýsing þessi er einungis undirrituð af eiganda Elliðavatns og henni hefur ekki verið þinglýst. Skjal þetta var meðal málsskjala í áðurnefndum landamerkjaágreiningi á milli eigenda Vatnsenda og Elliðavatns. Svo sem segir í kafla 6.12. eru einnig slíkir ágallar á þessari merkjalýsingu að hún getur ekki talist lögformlegt landamerkjabréf. Sé tekið mið af merkjalýsingu Vatnsenda, eins og hún hljóðar eftir þá breytingu sem áður greindi, miða báðir jarðeigendur við Stríp og í Kóngsfell. Í dómi aukaréttar Gullbringu- og Kjósarsýslu 19. maí 1884 um merki Vatnsenda og Elliðavatns segir m.a. svo „Málsaðilar hafa orðið ásáttir um, að Strípur í jaðri Strípshrauns sé hornmark fyrir landeignir jarðanna og er því rétt að merki séu ákveðin þaðan.“ Dómurinn sker síðan úr um merki jarðanna frá Stríp og til norðurs.
Landsvæðið þar sunnan við, þ.e. línan á milli Stríps og Kóngsfells var þannig ekki til umfjöllunar í málinu og ekki tekin afstaða til þess af hálfu dómsins hvort merki jarðanna næðu þangað. Orðalagið „hornmark“ í forsendum dómsins verður ekki talið ráða úrslitum að þessu leyti. Ljóst er hins vegar að eigendur jarðanna hafa verið sammála um þá merkjalínu, hvort sem það hefur verið strax við gerð merkjalýsinga Vatnsenda og Elliðavatns í maí og júní 1883, eða þegar yfirlýsingu Vatnsenda var breytt. Samkvæmt framangreindu hefur lýsing austurmerkja í yfirlýsingu eiganda Vatnsenda frá 1883 stuðning af dómi Gullbringu- og Kjósarsýslu 1884 suður í Stríp en lína sú sem dregin er úr Stríp í Kóngsfell, styðst einungis við yfirlýsingu eiganda Elliðavatns. Lýsing vesturmerkja í sömu heimild stangast á við þinglýstar merkjalýsingar aðliggjandi landsvæða en merkjum á milli syðstu punkta til vesturs og austurs er ekki lýst. Eigandi Vatnsenda afmarkar kröfusvæði sitt svo sem að framan greinir með Stóra-Kóngsfelli að suðaustanverðu og Þríhnjúkum að suðvestanverðu og til suðurs með línu þar á milli. Sunnan þessarar línu er suðvesturhorn þess landsvæðis og nefnt Afréttur Seltjarnarneshrepps hins forna. Þar hafa sveitarfélögin Kópavogur, Reykjavík og Seltjarnarnes gert kröfu um eignarland. Kröfusvæði þessara sveitarfélaga vegna afréttarins tekur þó til mun stærra svæðis, nánar tiltekið stórs hluta af svæðum eigenda Vatnsenda og Elliðavatns, auk landsvæðis suðaustan jarðarinnar Lækjarbotna. Ekki hafa komið fram neinar sjálfstæðar merkjalýsingar fyrir afrétt Seltjarnarneshrepps hins forna og verður afmörkun hans því fyrst og fremst ráðin af merkjum aðliggjandi landsvæða, þ.á.m. Vatnsenda.
Af framangreindu má sjá a.m.k. tvennt; annars vegar ágreining um landamerki, sem reyndar er ekkert nýtt hér á landi, og hins vegar mikilvægi Stríps sem kennileitis. Auk þess dregur dularfullt hraun nafn sitt af kennileitinu. Þá er ekki síðra að bæði er Strípur í miðju friðlandi höfuðborgarsvæðisins og auk þess er hann mikilvægt, áberandi, en næsta óþekkt kennileiti á verndarsvæðinu.
Þegar gengið var upp að Stríp svo til beint upp frá fjárhústóftinni virtist einungis einn klettadrangur koma til greina – með beina stefnu á Kóngsfellið. Þegar nær dró birtust tvær vörður á neðri efri brúnum hraunsins skammt vestan Stríps. Þær virtust nýlega hlaðnar, en hafa áreiðanlega verið gerðar í ákveðnum tilgangi. Líklegt má telja að þar hafi einhverjir verið að verki er undirstrikað hafa vilja þeirra afstöðu til greindra marka jarðanna. Þær röskuðu þó ekki fyrri lýsingum af Stríp, sem er þar skammt austar. Á gróinni hæð austan við dranginn kom í ljós að undir gróningunum voru greinilegar leifar af gamalli vörðu. Steinar úr henni lágu og út frá fætinum.
Frá Stríp var hið ágætasta útsýni, hvort sem um varð að ræða niður að Vatnsenda og Elliðahvammi eða upp til Kóngsfells.
Á óvart kom (og þó ekki) hversu landakort voru misvísandi á bæði örnefnaheiti og staðsetningar á þeim. T.d. voru bæði örnefnin “Heykriki” og “Strípur” augljóslega ranglega staðsett á kortunum. Því miður er hér ekki um einstök dæmi um að ræða. Tilgangurinn með ferðinni var hins vegar ekki að leysa úr landamerkjaágreiningi, enda hefur FERLIR jafnan gefið slík tilefni frá sér þrátt fyrir eftirgangssemi í þeim efnum. Ætlunin var, líkt og í upphafi var boðað, að skoða hina heillegu fjárhústóft ofan Vatnsvíkur sem og að líta hinn mikilvæga Stríp augum. Í ferðinni, líkt og svo oft áður, heilsaði “hraunkarlinn/-konan” í Strípshrauni þátttakendum. Áratuga löng reynsla þátttakenda hefur kennt þeim að taka slíku með jafnaðargeði, þ.e. sjálfsögðum hlut.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Heimildir m.a.:
-Landamerkjabréf.
-Örnefnalýsingar.