Tag Archive for: Strokkamelar

Hraunsnes

Gengið var frá gömlu Hvassahraunsréttinni vestan Skyggnis, niður hraunið að ströndinni og henni síðan fylgt til austurs um Stekkjarnes og með Hvassahraunsbót að Markakletti. Þaðan var gengin bein lína yfir að upphafsstað, áfram að Hjallhólaskúta og síðan haldið yfir Reykjanesbrautina að Strokkamelum og brugghellinum.

Hvassahraun

Hvassahraun – gerði.

Þá var gengið til baka yfir brautina áleiðis að Fögruvík skammt vestar og skoðað hlaðið gerði skammt vestan hennar.
Skammt norður undan hól vestan við Skyggni er gamla Hvassahraunsréttin, fallega hlaðin í hraunkvos. Girðingin, sem liggur frá henni til norðurs, eða öllu heldur undirhleðslan, endar niður við sjó skammt austan við Stekkjarhól. Austan undir hólnum eru hleðslur. Gengið var austur með ströndinni, Hvassahraunsbót. Gatan er að mestu gróin og auðvel yfirferðar. Grjótkampurinn er mikið til sérkennilegt grágrýti, sem ber þess glögg merki að hafa storknað í sjó. Eftir u.þ.b. hálftíma göngu skipti um.

Hraunsnesskjól

Í Hraunsnesi.

Framundan var nokkuð langur, grasi gróinn, tangi, Hraunsnes. Framan við hann voru falleg vatnsstæði. Inn á nesinu er hlaðið fjárskjól. Svæðið ber með sér að þarna hafi verið beitt á árum áður. Haldið var áfram austur með ströndinni. Framundan sást Markaklettur þar sem hann stóð upp úr hrauninu næst sjónum. Kletturinn er landamerki Hvassahrauns og Lónakots. Gömul girðing liggur upp frá honum áleiðis að Skógarhól og síðan áfram upp í Rjúpnadalahraunið. Ofan Markakletts eru tveir staurar og hefur hlið verið á milli þeirra.
Gengið var til baka suðvestur með stefnu suður fyrir Hvassahraun.

Hvassahraun

Hvassahraun – nú horfið.

Ekki er mikið vitað um ábúendur í Hvassahrauni fyrr á öldum, en þó er vitað að árið 1786 bjuggu þar Þorbjörn Jónsson, fæddur 1739, og kona hans Anna Magnúsdóttir, fædd 1734. Líklega hafa þau búið um tíma í Krýsuvík en með vissu eru þau farin að búa í Hvassahrauni 1786. Þau munu hafa komið austan úr Skaftafellssýslu í Skaftáreldum. Þau eru búandi þar í manntalinu 1801.

Þegar gengið er í gegnum annars gróið hraunið er ljóst að talsvert kjarr hefur verið í því fyrrum. Nú hefur berlega komið í ljós hversu vel kjarrið hefur tekið við sér eftir að fé á svæðinu hefur dregið sig til hlés.

Hrístóur

Stígur um Hrístóur í Afstapahrauni.

Árið 1703 var t.d. hrísrif á heimalandi Hvassahrauni og var það einnig notað í heyskorti. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, 1703, eru talin upp hlunnindi jarða, þar á meðal skógarhögg til kolagerðar. Við lauslega athugun teljast sjötíu og sjö jarðir í sýslunni eiga skógarhögg á almenningum. Ekki liggur ljóst fyrir hvar þessir almenningar hafa verið. Þó er örnefnið til á milli Kapelluhrauns og Afstapahrauns. Af orðalagi má þó ráða, að með almenningum sé stundum átt við uppland, þar sem landamerkjum jarða sleppir. Í Álftanes- og Seltjarnarneshreppi er talað um einn eða tvo hríshesta (hestburði) á hverja jörð, en sunnar á Reykjanesinu er ekki talað um slíkar takmarkanir. Við upphaf nútíma fyrir um 10 þúsund árum var öðruvísi um að litast en nú á ströndinni frá Straumsvík vestur að Kúagerði.

Hraun - aldur

Hraun á Reykjanesskaga.

Á síðasta jökulskeiði lá jökulfargið meira og minna yfir Reykjanesskaga, en hafði að því er virðist ekki áhrif á gosvirknina. Stundum náðu hraunin að dreifa úr sér þegar íslaust var, en stundum gaus undir ísnum og gosefnin hlóðust upp í geilinni sem þau bræddu, hörðnuðu þar og urðu að móbergi. Sum hraun sem náðu að renna og dreifast hurfu alveg undir önnur nýrri. Það elzta sem sést á yfirborði í námunda við þetta svæði er Búrfellshraun, sem rann fyrir um 7.300 árum og Norðurbærinn í Hafnarfirði er byggður á.

Fyrir um 5000 árum varð mikið gos í Hrútagjá, nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Hraunið, sem kennt er við Hrútagjárdyngju, rann til sjávar og myndaði svæðið vestan við Straumsvík þar sem Hraunabæirnir voru byggðir, nærri 4000 árum síðar.

Afstapahraun

Í Afstapahrauni.

Afstapahraun er síðari tíma hraun eins og Kapelluhraunið austar. Hraunið undir landi Hraunabæjanna hafði góðan tíma til að gróa upp áður en nokkur lifandi skepna gekk um það og myndaðist víða kjarr í því, eða skógur, sem eyddist af rányrkju á öldum fátæktarinnar.

Hin reglubundna goshrina, sú síðasta, fór hinsvegar í gang fyrir um 1000 árum; Ísland þá búið að vera numið á aðra öld og ef til vill enn lengur. Þá rann Hellnahraunið yngra, sem svo er nefnt, frá Tvíbollum í Grindaskörðum og náði einn hraunstraumurinn langleiðina til Straumsvíkur, en óvíst er að nokkur bær hafi þá verið í Hraununum; elztu heimildir um byggð þar eru frá því um 1200.

Víkingaskip

Víkingaskip í Afstapahrauni.

Hálfri öld áður rann Kapelluhraun til sjávar í Straumsvík og hafði áhrif á landmótun þar; yngsta hraunið á þessu svæði.

Frá fornu fari hafði ábúendum og öðru fólki á Reykjanesskaga verið skipt í útnesjamenn, sem bjuggu utan við Kúagerði, og innnesjamenn sem til að mynda bjuggu í Hraunum og á Álftanesi. Fram á 20. öld var mikil umferð ríðandi, en mun oftar þó gangandi manna suður með sjó og þaðan „inn“ í Hafnarfjörð og Reykjavík. Menn fóru í verið til Suðurnesja og svo þurfti að ná í blessaða þorskhausana og reiða þá austur í sveitir á baggahestum. Þorskhausalestir voru dagleg sjón á vorin. Enginn var vegurinn, aðeins götur sem fótspor hesta og manna höfðu markað og þær lágu í krókum og krákustígum eftir því hvar skást var að komast yfir hraunin.

Afstapavarða

Afstapavarða (nú horfin).

Hraunabyggðin taldist löngum vera í Garðahreppi, en vestan Lónakotslands tekur Vatnsleysustrandarhreppur við. Hvassahraun er austasta jörðin í hreppnum.

Eftir að hafa kíkt á Hjallhólaskúta norðan Reykjanesbrautarinnar var gengið upp fyrir brautina. Byrjað var að skoða hraundrílin á Strokkamelum. A.m.k. tvö þeirra eru alveg heil, tvö önnur eru fallega formuð og önnur hálfheil eða hrunin. Hraundrílin hafa myndast á svipaðan hátt og tröllakatlanir undir Lögbergsbrekkunni, en eru einungis minni í sniðum. Fegurð þeirra er þó engu minni eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Hvassahrauns

Strokkamelar – hraundríli.

Þaðan var gengið að opi Brugghellisins, en til þess að komast niður í hann þarf a.m.k. 6 metra langan stiga. Þetta er greinilega rúmgóður hellir. Niður í honum eru hleðslur, bæði undir opinu og síðan út frá þeim beggja vegna. Flóðs og fjöru gætir í hellinum og flýtur ferska vatnið ofan á saltvatninu. Í háflæði er einungis hægt að tilla sér á hleðslurnar.

Sagt er að hellirinn hafi áður fyrr verið notaður til brugggerðar, enda erfitt er að finna opið. Björn Blöndal átti að hafa gert nokkrar árangursríkar tilraunir til að finna hellinn á sínum tíma. Hvað sem öðru líður er þarna hin ákjósanlegasta aðstaða til vínandaframleiðslu, hafi menn á annað borð áhuga á slíku.

Hvassahraun

Hvassahraun – brugghellir.

Handan Reykjanesbrautarinnar, skammt vestar, er Fagravík. Við hana var áformað að byggja stálbræðslu. Féllst bygginganefnd Vatnsleysustrandarhrepps á það fyrir sitt leyti, en ekkert var úr rekstri hennar þrátt fyrir undirbúningsframkvæmdir á svæðinu.
Vestan við víkna er hlaðið gerði. Búið er að fjarlægja hluta þess, en veggir er enn standa, sýna nokkurn veginn hver stærðin hefur verið. Ekki er útilokað að þarna geti hafa verið um fjárborg eða rétt að ræða.
Fjaran og strandlengjan frá Fögruvík að Straumi á u.þ.b. 500 metra breiðu belti, ásamt ísöltum tjörnum, frá botni Fögruvíkur að Straumi, njóta náttúrverndar fyrir sérstætt umhverfi með einstökum náttúruperlum.

Hraunsnes

Fjárskjól í Hraunsnesi.

Hvassahraun

Erindi þetta var flutt í Kálfatjarnarkirkju á menningardegi í kirkjum á Suðurnesjum 23.10.05.

Ólafsgjá

Ólafsgjá og Ólafsvarða.

„Örnefni er dýrmætur arfur sem geymir upplýsingar um sögu, tungu og lifnaðarhætti horfina kynslóða. Örnefni hafa oft augljósa tilvísun til landslags, náttúrunnar og eða tengt atburðum svo sem slysförum. Örnefni er nauðsynleg til að staðsetja sig og aðra og mun persónulegri heldur en gerfihnattarstaðsetning GPS. Samantektin er um nokkur örnefnum sem vakið hafa áhuga höfundar.

Byrjum ferðina inn við landamerki Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandarhrepps, Markaklettur er þar við Hraunsnes. Örnefnin; Markaklettur, Markhella, Markhóll, Markhelluhóll og Markavarða eru öll notuð til aðgreiningar á eignalöndum, þ.e. þau afmarka land hvers bónda.

Upp í Almenningum ofan Hvassahrauns er örnefnið Brennhólar, þar var gert til kola í eina tíð.
Önnur örnefni í Strandarheiðinni sem vísa einnig til kolagerðar eru; Kolgrafarholt, Kolhólar, Kolhólagjá og Kolhóll. Þessi örnefni eru flest í Vatnsleysulandi sem segir að fyrr á öldum hafi verið meiri skógur þar en sunnar í heppnum

Vegrið er ofan Reykjanesbrautar við Hvassahraun, þar eru; Vatnsgjárnar, Helguhola, Þvottargjá og Ullargjá sem augljóslega segja til um notkun. Þar nálægt er Strokkamelur með Strokkunum, sem bera nafn sitt af lögun sinni. Þetta eru hraundrýli, hol að innan og líkjast smjörstrokkum. (Hvassahraunskatlar). Þá er þar næst Brugghellir, þar var soðin landi (heimaunnið brennivín) á bannárunum á síðustu öld.

Kálfatjörn

Ólafur Erlendsson við Landabrunn.

Mestu undirlendin í hreppnum eru Þráinskjaldarhraun, gamalt hraun sem nú er heiðin, vestan við Afstapahrauni og að Vogastapa. Ekki er vitað af hverju hraunið heitir þetta.

Búðavík, Búðabakkar eða Búðaflatir heitir í Vatnsleysuvík. Þar var fyrrum verslunarstaður og höfn Hansakaupmanna sem voru þýskir. Hafnhólar eru við fjarskiptamöstrin á Strandarheiðinni og tengjast höfninni á Vatnsleysu fyrrum.

Upp með Afstapahraunskanti að vestan miðja vegu til fjalla er hringlaga hlaðin fjárborg, Gvendarborg, hlaðin af Guðmundi Hannessyni sem bjó hér í Breiðagerði, annað örnefni hér er kennt við son hans Brand. Komun að því síðar.

Efstu hjallar heiðarinnar heita Brúnir, þar er Hemphóll, „þjóðsagan“ segir að prestarnir á Stað og Kálfatjörn hafi átt sameiginlega hempu og var þetta afhendingarstaður hennar. Hemphóll er þó ekki miðja vegu milli Staðar og Kálfatjarnar og sagan er ótrúleg enda hóllinn mikið úr leið.

Förum nú niður heiðina í stefnu á Vogana, þar er svæði sem heita Margur Brestur og Huldur og vísa til margra gjáa og sprungna á svæðinu sem sumar geta verið huldar (faldar) þegar snjór liggur yfir og auðvelt að hrapa niður í þær.

Þráinsskjöldur

Í gíg Þráinsskjaldar.

Þar suður af er Ólafsvarða og Ólafsgjá, tilurð þess örnefnis er í grófum dráttum þessi. Árið 1900 bjó í Hlöðuneshverfi, Ólafur Þorleifsson, þá 39 ára gamall. Rétt fyrir jól það ár fór Ólafur í heiðina að leita kinda en skilaði sér ekki heim um kvöldið. Hafin var leit að Ólafi daginn eftir með 30-40 mönnum. Til Ólafs hafði sést við Kálffell í Vogaheiði daginn áður, þrengdi það leitarsvæðið dálítið. Leitað var á Aðfangadag og aftur milli jóla og nýárs, án árangurs. Liðu nú 3 áratugir.

Á jólaföstu árið 1930 þegar verið var að smala heiðinna misstu smalarnir þrjár kindur í sprungu og þurfti því að fara aftur daginn eftir með reipi og annan búnað til að síga eftir fénu. Sigmaður var Rafn Símonarson frá Austurkoti á Ströndinni, tvær kindanna náðust upp úr gjánni á lífi, en þar ofan í fann Rafn líka tvö brot af göngustaf sem hann tók með sér til byggða. Um kvöldið fór Rafn að Halakoti til Ágústar bónda þar og biður hann að lýsa staf Ólafs (þá voru liðin 30 ár frá hvarfi hans). Lýsing Ágústar passaði við stafbrotin. Var nú ekki meira gert í bili. Um vorið þegar snjóa leysti héldu 4 menn að gjánni og seig Rafn aftur niður, þá sá hann þar strax mannabein og þóttust menn þess fullvissir að þar væri um bein Ólafs að ræða. Beinin voru tínd saman og grafin að Kálfatjörn.

Hvassahraun

Brugghellir við Hvassahraun.

Yfirgefum nú Ólafsgjá og höldum í suðvestur að Stóru-Aragjá en yfir hana liggur gamla þjóðleiðin til Grindavíkur Skógfellavegurinn, þar heitir gjáin Brandsgjá. Brandur þessi var sonur Guðmundar sem hlóð Gvendarborg sem ég nefndi áðan.
Brandur bjó á Ísólfsskála austan við Grindavík og var kallaður Skála-Brandur.
Í byrjun jólaföstu 1911 fór Brandur til Hafnarfjarðar að selja rjúpur og kaupa inn fyrir heimilið. Dagleið var frá Grindavík til Hafnarfjarðar, og gisti Brandur því í Hafnarfirði og fór að snjóa um nóttina. Á heimleiðinni kom hann við hjá Benedikt Péturssyni (Bensa) í Suðurkoti í Vogum og var langt liðið á dag þegar hann lagði á Skógfellaveginn, hnédjúpur snjór var þá kominn á heiðinni. Honum gekk förin ágætlega í byrjun en margar gjár eru þarna á leiðinni. Þegar hann kom að Stóru-Aragjá sem er síðasta gjáin sem hann þurfti að fara yfir vildi svo illa til að hann missti annan hestinn ofan í gjánna. Þá snýr hann til baka að Suðurkoti í Vogum eftir aðstoð. Bensi útvegar honum þrjá menn sem fara upp eftir í myrkrinu, með byssu meðferðis. Hesturinn náðist ekki upp og var því aflífaður. Hætt var að snjóa og komið harðnandi frost. Skiljast nú leiðir Vogamanna og Brands.
Brandur komst heim að Ísólfsskála undir morgun, þá illa kalinn á báðum fótum. Hann var sendur á Keflavíkurspítala á Þorláksmessu og kom ekki heim aftur fyrr en sumardaginn fyrsta árið eftir, þá orðin örkumla maður og hætti búskap og flutti til Hafnarfjarðar.

Förum næst að Stapanum, Reiðskarð heitir þar sem Stapagatan (gamla þjóðleiðin) fer upp Stapann. Næsta skarð vestan við Reiðskarð heitir Kvennagönguskarð. Karlmenn fóru Reiðskarðið enn kvenfólkið valdi frekar Kvennagönguskarðið og gat þá verið í friði og úr augnsýn karlanna um smá stund.

Förum nú til baka í Brunnastaðahverfi. Í Suðurkotstúni er flöt ein sem heitir Pelaflöt, hún mun hafa verið seld fyrir einn pela af brennivíni segja örnefnaskrár.

Endum nú ferðina í túnfætinum á Kálfatjörn, þar heitir Landabrunnur, þó er ekki neinn landi í honum heldur er um lítið vatnsstæði að ræða ofan við svonefndan Landamóa.“

Brandsgjá

Vörður við Brandsgjá.

Hvassahraun

Gengið var um Hvassahraun með það fyrir augum að reyna að finna Alfaraleiðina þar í gegn. Byrjað var að skoða hraundrílin á Strokkamelum. A.m.k. tvö þeirra eru alveg heil, tvö önnur eru fallega formuð og önnur hálfheil eða hrunin. Hraundrílin hafa myndast á svipaðan hátt og tröllakatlanir undir Lögbergsbrekkunni, en eru einungis minni í sniðum. Fegurð þeirra er þó engu minni eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Hvassahraun

Brugghellir ofan Hvassahrauns.

Þaðan var gengið að opi Brugghellisins, en til þess að komast niður í hann þarf a.m.k. 6 metra langan stiga. Þetta er greinilega rúmgóður hellir. Niður í honum eru hleðslur, bæði undir opinu og síðan út frá þeim beggja vegna. Flóðs og fjöru gætir í hellinum og flýtur ferska vatnið ofan á saltvatninu. Í háflæði er einungis hægt að tilla sér á hleðslurnar.

Sagt er að hellirinn hafi áður fyrr verið notaður til brugggerðar, enda erfitt er að finna opið. Björn Blöndal átti að hafa gert nokkrar árangursríkar tilraunir til að finna hellinn á sínum tíma. Hvað sem öðru líður er þarna hin ákjósanlegasta aðstaða til vínandaframleiðslu, hafi menn á annað borð áhuga á slíku.

Hvassahraun

Hraunstrýtur á Strokkamelum.

Gengið var upp Rjúpnadali og síðan austur Flatahraunið uns komið var að klofnum háum hraunhól í því austanverðu. Hægt er að ganga í gegnum hólinn og eru háir hraunveggir á báðar hendur. Þetta er mjög fallegt náttúrufyrirbæri, tiltölulega stutt frá Reykjanesbrautinni. Gjáin er u.þ.b. 60 metra löng, en beygir svo ekki er hægt að sjá á milli enda. Hún er hæst í miðjunni. Gras er í botninum og leiðin því greið í gegn. Trúlega er um einn af svonefndum Einbúum að ræða. Tekin var mynd í gjánni og kom hún skemmtilega út. Skammt austar eru Virkishólar, Virkið, Grænudalir og Loftskútahellir.
Þarna skammt frá er Hvassahraunsselsstígur. Lítil varða er á hæðarbrún skammt austar og önnur á hraunhrygg í vestri. Óljós stígur liggur þar á milli, en erfitt er að greina samfellda götu þarna í grónu hrauninu. Neðar má sjá leifar af tveimur hlöðnum refagildrum. Kjarr hefur vaxið í kringum þær og er önnur öllu heillegri.

Hvassahraun

Alfaraleiðin um Hvassahraun.

Alfaraleiðin sést óljóst á þessu svæði, en með þolinmæði og gaumgæfni má rekja hana niður að Reykjanesbrautinni, þar sem hún hefur verið lögð yfir gömlu götuna ofan við Hvassahraunsbæinn. Þegar komið er vestur fyrir Kúagerði nefnist leiðin Almenningsleið eða „Menningsleið“ vegna prentvillu prests. Vel sést móta fyrir henni vestan við Kúagerði áleiðis út á Vatnsleysuströnd.
Gangan tók um klukkustund í logni og hlýju veðri.

Hvasahraun

Strokkamelar – hraundríli.