Hvassahraun

Gengið var um Hvassahraun með það fyrir augum að reyna að finna Alfaraleiðina þar í gegn. Byrjað var að skoða hraundrílin á Strokkamelum. A.m.k. tvö þeirra eru alveg heil, tvö önnur eru fallega formuð og önnur hálfheil eða hrunin. Hraundrílin hafa myndast á svipaðan hátt og tröllakatlanir undir Lögbergsbrekkunni, en eru einungis minni í sniðum. Fegurð þeirra er þó engu minni eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Hvassahraun

Brugghellir ofan Hvassahrauns.

Þaðan var gengið að opi Brugghellisins, en til þess að komast niður í hann þarf a.m.k. 6 metra langan stiga. Þetta er greinilega rúmgóður hellir. Niður í honum eru hleðslur, bæði undir opinu og síðan út frá þeim beggja vegna. Flóðs og fjöru gætir í hellinum og flýtur ferska vatnið ofan á saltvatninu. Í háflæði er einungis hægt að tilla sér á hleðslurnar.

Sagt er að hellirinn hafi áður fyrr verið notaður til brugggerðar, enda erfitt er að finna opið. Björn Blöndal átti að hafa gert nokkrar árangursríkar tilraunir til að finna hellinn á sínum tíma. Hvað sem öðru líður er þarna hin ákjósanlegasta aðstaða til vínandaframleiðslu, hafi menn á annað borð áhuga á slíku.

Hvassahraun

Hraunstrýtur á Strokkamelum.

Gengið var upp Rjúpnadali og síðan austur Flatahraunið uns komið var að klofnum háum hraunhól í því austanverðu. Hægt er að ganga í gegnum hólinn og eru háir hraunveggir á báðar hendur. Þetta er mjög fallegt náttúrufyrirbæri, tiltölulega stutt frá Reykjanesbrautinni. Gjáin er u.þ.b. 60 metra löng, en beygir svo ekki er hægt að sjá á milli enda. Hún er hæst í miðjunni. Gras er í botninum og leiðin því greið í gegn. Trúlega er um einn af svonefndum Einbúum að ræða. Tekin var mynd í gjánni og kom hún skemmtilega út. Skammt austar eru Virkishólar, Virkið, Grænudalir og Loftskútahellir.
Þarna skammt frá er Hvassahraunsselsstígur. Lítil varða er á hæðarbrún skammt austar og önnur á hraunhrygg í vestri. Óljós stígur liggur þar á milli, en erfitt er að greina samfellda götu þarna í grónu hrauninu. Neðar má sjá leifar af tveimur hlöðnum refagildrum. Kjarr hefur vaxið í kringum þær og er önnur öllu heillegri.

Hvassahraun

Alfaraleiðin um Hvassahraun.

Alfaraleiðin sést óljóst á þessu svæði, en með þolinmæði og gaumgæfni má rekja hana niður að Reykjanesbrautinni, þar sem hún hefur verið lögð yfir gömlu götuna ofan við Hvassahraunsbæinn. Þegar komið er vestur fyrir Kúagerði nefnist leiðin Almenningsleið eða “Menningsleið” vegna prentvillu prests. Vel sést móta fyrir henni vestan við Kúagerði áleiðis út á Vatnsleysuströnd.
Gangan tók um klukkustund í logni og hlýju veðri.

Hvasahraun

Strokkamelar – hraundríli.