Færslur

Hvassahraun

Gengið var um Hvassahraun með það fyrir augum að reyna að finna Alfaraleiðina þar í gegn. Byrjað var að skoða hraundrílin á Strokkamelum. A.m.k. tvö þeirra eru alveg heil, tvö önnur eru fallega formuð og önnur hálfheil eða hrunin. Hraundrílin hafa myndast á svipaðan hátt og tröllakatlanir undir Lögbergsbrekkunni, en eru einungis minni í sniðum. Fegurð þeirra er þó engu minni eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Hvassahraun

Brugghellir ofan Hvassahrauns.

Þaðan var gengið að opi Brugghellisins, en til þess að komast niður í hann þarf a.m.k. 6 metra langan stiga. Þetta er greinilega rúmgóður hellir. Niður í honum eru hleðslur, bæði undir opinu og síðan út frá þeim beggja vegna. Flóðs og fjöru gætir í hellinum og flýtur ferska vatnið ofan á saltvatninu. Í háflæði er einungis hægt að tilla sér á hleðslurnar.

Sagt er að hellirinn hafi áður fyrr verið notaður til brugggerðar, enda erfitt er að finna opið. Björn Blöndal átti að hafa gert nokkrar árangursríkar tilraunir til að finna hellinn á sínum tíma. Hvað sem öðru líður er þarna hin ákjósanlegasta aðstaða til vínandaframleiðslu, hafi menn á annað borð áhuga á slíku.

Hvassahraun

Hraunstrýtur á Strokkamelum.

Gengið var upp Rjúpnadali og síðan austur Flatahraunið uns komið var að klofnum háum hraunhól í því austanverðu. Hægt er að ganga í gegnum hólinn og eru háir hraunveggir á báðar hendur. Þetta er mjög fallegt náttúrufyrirbæri, tiltölulega stutt frá Reykjanesbrautinni. Gjáin er u.þ.b. 60 metra löng, en beygir svo ekki er hægt að sjá á milli enda. Hún er hæst í miðjunni. Gras er í botninum og leiðin því greið í gegn. Trúlega er um einn af svonefndum Einbúum að ræða. Tekin var mynd í gjánni og kom hún skemmtilega út. Skammt austar eru Virkishólar, Virkið, Grænudalir og Loftskútahellir.
Þarna skammt frá er Hvassahraunsselsstígur. Lítil varða er á hæðarbrún skammt austar og önnur á hraunhrygg í vestri. Óljós stígur liggur þar á milli, en erfitt er að greina samfellda götu þarna í grónu hrauninu. Neðar má sjá leifar af tveimur hlöðnum refagildrum. Kjarr hefur vaxið í kringum þær og er önnur öllu heillegri.

Hvassahraun

Alfaraleiðin um Hvassahraun.

Alfaraleiðin sést óljóst á þessu svæði, en með þolinmæði og gaumgæfni má rekja hana niður að Reykjanesbrautinni, þar sem hún hefur verið lögð yfir gömlu götuna ofan við Hvassahraunsbæinn. Þegar komið er vestur fyrir Kúagerði nefnist leiðin Almenningsleið eða “Menningsleið” vegna prentvillu prests. Vel sést móta fyrir henni vestan við Kúagerði áleiðis út á Vatnsleysuströnd.
Gangan tók um klukkustund í logni og hlýju veðri.

Hvasahraun

Strokkamelar – hraundríli.

Hvassahraun

Gengið var frá Hvassahrauni. Veður var ekki bara ágætt – það var frábært, logn, hiti og sól. Gengið var eftir stíg, sem liggur til suðurs sunnan Reykjanesbrautar. Stígurinn liggur áfram til suðurs skammt austan við Brugghellinn. Í botni hellisins, beint undir opinu, er ferköntuð upphækkun, sbr. meðfylgjandi mynd. Í botninum var vatn, u.þ.b. fet á dýpt. Gólfið er flórað að hluta svo ganga megi þurrum fótum í hluta hellisns, sem er í rauninni stór rúmgóð hvelfing, um sex metrar á dýpt.

Hvassahraun

Brugghellir ofan Hvassahrauns.

Stígnum var fylgt áfram suður Rjúpnadalshraun og áfram til suðurs í jarði Flatahrauns. Stígurinn gerðist greinilegri eftir því sem ofar dró. Haldið var yfir línuveginn vestan Öskjuholts, áfram upp í Bælin og alveg upp í Höfða. Við efsta hólinn, Sauðhól, var snúið við, en frá honum sést vel til suðurs upp í tiltölulega slétt og víðfeðmt hraunið. Suðvestan í hólnum er Sauðhólsbyrgið. Veðrið var svo gott þarna að því miður gleymdist að taka GPS-punkt á byrgið.

Nú var snúið til norðurs með sólina á bakborða. Fallegt útsýni var niður að Öskjuholti og áfram upp að Brennhólum. Þegar komið var að Öskjuholti úr þessari átt blasti Öskjuholtsbyrgið við sunnan undir holtinu. Opið er tiltölulega lítið þar sem það er þarna í lyngi vöxnum bakkanum. Það er hlaðið, en fyrir innan er mjög rúmgott fjárskjól, enda greinilega mikið notað. Holtið sjálft er klofið eftir endilöngu með mikilli gjá. Annar klapparhóll, en minni, er austan við holtið.

Hvassahraun

Öskjuholtsskúti.

Gengið var til norðurs, upp að Smalaskála. Þar eru vel grónar lægðir og mörg náttúrleg skjól. Efst á Smalaskála er Smalaskálavarða. Gott útsýni er frá henni niður að Hvassahrauni. Í suðsuðaustri sést í háa vörðu á hæð, Jónsvörðu. Húner nokkurs konar “vendivarða” þegar farið er upp í Hvassahraunssel. Í henni er steinn, sem bendir til austurs, en frá henni er enga vörðu að sjá. Ef hins vegar er gengið frá henni til austurs kemur Hvassahraunsselsvarðan fljótlega í ljós. Norðvestan við hana er selið undir holti.
Sunnan við Smalaskála er náttúrlegt skjól undir hæð, mjög góður hellisskúti með tiltölulega litlu opi. Vel gróið er í kring. Ef smalaskáli ætti að vera í Smalskála þá væri þetta staðurinn. Skammt norðnorðvestan við það er lítið, en djúpt, jarðfall. Í því lá dauð rolla, enn í reifum.
Vestan í Smalaskála er lítið gat, en fyrir innan er rúmgóður skúti, sem greinilega hefur verið notaður sem fjárskjól. Allt í kring er vel gróið. Skammt norðan við hrygginn, sem fjárskjólið er í, er gat, u.þ.b. 5 metrar á dýpt. Ummálið er ca. 2×2 metrar. Við það er lítil varða.
Á smáhól norðan við Smalaskála er grönn og nokkuð há varða. Leitað var í kringum vörðuna, en ekkert markvert fannst. Útsýni er frá henni að Virkishólum og er varðan sennilega greinilegust þar. Hins vegar ber þessa vörðu í Smalaskálavörðuna þegar komið er neðan að austan Bláberjahryggjar. Við hana er gata. Götunni var fylgt til norðurs og var þá komið inn á nokkuð áberandi götu, sem kom að austan ofan við Virkishóla. Gengið var eftir götunni til vesturs. Sást hún vel í kvöldsólinni þangað til hún fór undir nýju Reykjabrautina gegnt gatnamótunum að Hvassahrauni.
Frábært veður.

Öskjuholtsskúti

Í Öskjuholtsskúta.

Hraunsnes

Gengið var niður hraunið frá Gamla Keflavíkurveginum skammt austan við Hvassahraun, að Stóra Grænhól, yfir Skógarhól og að Vondaskúta skammt ofan við suðvestanvert Hraunsnes. Ætlunin var að skoða skútann og halda síðan áfram yfir að Lónakoti þar sem Vatnagarðahellir er fyrir, gamalt fjárskjól og brugghellir. Fjárgata liggur niður hraunið vestan við skútann.

Vatnagarðahellir

Vatnagarðahellir.

Elsti hluti Keflavíkurvegarins, Suðurvegurinn, var lagður um 1900. Hluti af efninu var þá tekið úr Litla-Rauðamel. Einnig var efni tekið þar nokkru fyrr þegar unnið var við lagfæringar á gamla Sýsluveginum (JG).
Vondiskúti er undir margklofnum kletti upp af austanverði Hvassahraunsbót. Opið snýr í norður. Fjárgata liggur niður hraunið vestan við hraunhólinn. Skútinn ber nafn með rentu því þar endaði sauður ævi sína fyrir löngu. Skútinn var þyrnir í augum fjármanna sem þurftu sífellt að vera á varðbergi og gæta að fjársafni sínu. Víða má sjá hlaðið fyrir skúta í hraununum til að varna fé inngöngu. Þá eru einnig hleðslur við veggi jarðfalla til að auðvelda fénu uppgöngu ef það á annað borð leitaði þar skjóls. Líf bænda og búanda fyrrum snérist meira og minna við að eltast við og gæta að sérhverjum sauð og sérhverri skjátu því án þeirra var vandlifað í og við Hraunin.
Í Hraunsnesi er einnig fjárskjól undir bakka í grunnu jarðfalli, Hraunsnessfjárskjólið. Hleðslur eru fyrir því. Ofan við Hraunsnesið eru fallegar tjarnir og er ferskvatn í sumum þeirra.

Vondiskúti

Vondiskúti.

Gengið var niður að Markakletti, mörkum Hvassahrauns og Lónakots ofan við ströndina, áfram til austurs með ströndinni, Dulaklettum, framhjá minjunum við Réttarkletta og yfir að Lónakoti. Sunnan þeirra er Grænhólsskjól. Sumir telja að þarna hafi Lónakot verið fyrrum, en aðrir að selstaðan hafi verið flutt þangað úr heiðinni. Aðrir telja að þarna hafi svonefnt Svínakot, sem minnst er á í annálum. Í leiðinni var litið á fjárskjólið í skeifulaga hraunskál skammt sunnan við klettana. Troðningur liggur með ströndinni svo leiðin er nokkuð greið.
Ofan lónanna við Lónakot er Vatnagarðahellir í sunnanverðu jarðfalli. Myndarlagar hleðslur eru þar fyrir.

Vatnagarðahellir

Í Vatnagarðahelli.

Vatnagarðahellir var vetrarhellir Lónakotsbænda, skammt undan bænum, en samt utangarðs. Þar rúmaðist góður tugur fjár sem leitaði sjálft skjóls í óveðrum. Þar sem hellirinn er á mörkum Óttarsstaða og Lónakots gerðu báðir tilkalla til hans. Munnmæli herma að göróttur drykkur hafi verið bruggaður í hellinum á bannárunum. Orðrómur var um allnokkra slíka á Reykjanesskaganum. Einn þeirra er í Hvassahrauni, skammt sunnan við Reykjanesbrautina, en yfirvaldið, Björn Blöndal, mun hafa leitað árangurslaust að honum, enda erfitt að koma auga á opið.
Lónakot var einn Hraunbæjanna.
Haldið var inn á Lónakotsselsstíg og honum fylgt upp á þjóðveginn. Gróðurangan fyllti loftið eftir rigningar undanfarna daga.

Lónakot

Grænhólsskjól.

Hraunsnes

Gengið var frá gömlu Hvassahraunsréttinni vestan Skyggnis, niður hraunið að ströndinni og henni síðan fylgt til austurs um Stekkjarnes og með Hvassahraunsbót að Markakletti. Þaðan var gengin bein lína yfir að upphafsstað, áfram að Hjallhólaskúta og síðan haldið yfir Reykjanesbrautina að Strokkamelum og brugghellinum.

Hvassahraun

Hvassahraun – gerði.

Þá var gengið til baka yfir brautina áleiðis að Fögruvík skammt vestar og skoðað hlaðið gerði skammt vestan hennar.
Skammt norður undan hól vestan við Skyggni er gamla Hvassahraunsréttin, fallega hlaðin í hraunkvos. Girðingin, sem liggur frá henni til norðurs, eða öllu heldur undirhleðslan, endar niður við sjó skammt austan við Stekkjarhól. Austan undir hólnum eru hleðslur. Gengið var austur með ströndinni, Hvassahraunsbót. Gatan er að mestu gróin og auðvel yfirferðar. Grjótkampurinn er mikið til sérkennilegt grágrýti, sem ber þess glögg merki að hafa storknað í sjó. Eftir u.þ.b. hálftíma göngu skipti um.

Hraunsnes

Hraunsnes-rétt.

Framundan var nokkuð langur, grasi gróinn, tangi, Hraunsnes. Framan við hann voru falleg vatnsstæði. Inn á nesinu er hlaðið fjárskjól. Svæðið ber með sér að þarna hafi verið beitt á árum áður. Haldið var áfram austur með ströndinni. Framundan sást Markaklettur þar sem hann stóð upp úr hrauninu næst sjónum. Kletturinn er landamerki Hvassahrauns og Lónakots. Gömul girðing liggur upp frá honum áleiðis að Skógarhól og síðan áfram upp í Rjúpnadalahraunið. Ofan Markakletts eru tveir staurar og hefur hlið verið á milli þeirra.
Gengið var til baka suðvestur með stefnu suður fyrir Hvassahraun.

Hvassahraun

Hvassahraun – nú horfið.

Ekki er mikið vitað um ábúendur í Hvassahrauni fyrr á öldum, en þó er vitað að árið 1786 bjuggu þar Þorbjörn Jónsson, fæddur 1739, og kona hans Anna Magnúsdóttir, fædd 1734. Líklega hafa þau búið um tíma í Krýsuvík en með vissu eru þau farin að búa í Hvassahrauni 1786. Þau munu hafa komið austan úr Skaftafellssýslu í Skaftáreldum. Þau eru búandi þar í manntalinu 1801.

Þegar gengið er í gegnum annars gróið hraunið er ljóst að talsvert kjarr hefur verið í því fyrrum. Nú hefur berlega komið í ljós hversu vel kjarrið hefur tekið við sér eftir að fé á svæðinu hefur dregið sig til hlés.

Hrístóur

Stígur um Hrístóur í Afstapahrauni.

Árið 1703 var t.d. hrísrif á heimalandi Hvassahrauni og var það einnig notað í heyskorti. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, 1703, eru talin upp hlunnindi jarða, þar á meðal skógarhögg til kolagerðar. Við lauslega athugun teljast sjötíu og sjö jarðir í sýslunni eiga skógarhögg á almenningum. Ekki liggur ljóst fyrir hvar þessir almenningar hafa verið. Þó er örnefnið til á milli Kapelluhrauns og Afstapahrauns. Af orðalagi má þó ráða, að með almenningum sé stundum átt við uppland, þar sem landamerkjum jarða sleppir. Í Álftanes- og Seltjarnarneshreppi er talað um einn eða tvo hríshesta (hestburði) á hverja jörð, en sunnar á Reykjanesinu er ekki talað um slíkar takmarkanir. Við upphaf nútíma fyrir um 10 þúsund árum var öðruvísi um að litast en nú á ströndinni frá Straumsvík vestur að Kúagerði.

Hraun - aldur

Hraun á Reykjanesskaga.

Á síðasta jökulskeiði lá jökulfargið meira og minna yfir Reykjanesskaga, en hafði að því er virðist ekki áhrif á gosvirknina. Stundum náðu hraunin að dreifa úr sér þegar íslaust var, en stundum gaus undir ísnum og gosefnin hlóðust upp í geilinni sem þau bræddu, hörðnuðu þar og urðu að móbergi. Sum hraun sem náðu að renna og dreifast hurfu alveg undir önnur nýrri. Það elzta sem sést á yfirborði í námunda við þetta svæði er Búrfellshraun, sem rann fyrir um 7.300 árum og Norðurbærinn í Hafnarfirði er byggður á.

Fyrir um 5000 árum varð mikið gos í Hrútagjá, nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Hraunið, sem kennt er við Hrútagjárdyngju, rann til sjávar og myndaði svæðið vestan við Straumsvík þar sem Hraunabæirnir voru byggðir, nærri 4000 árum síðar.

Afstapahraun

Í Afstapahrauni.

Afstapahraun er síðari tíma hraun eins og Kapelluhraunið austar. Hraunið undir landi Hraunabæjanna hafði góðan tíma til að gróa upp áður en nokkur lifandi skepna gekk um það og myndaðist víða kjarr í því, eða skógur, sem eyddist af rányrkju á öldum fátæktarinnar.

Hin reglubundna goshrina, sú síðasta, fór hinsvegar í gang fyrir um 1000 árum; Ísland þá búið að vera numið á aðra öld og ef til vill enn lengur. Þá rann Hellnahraunið yngra, sem svo er nefnt, frá Tvíbollum í Grindaskörðum og náði einn hraunstraumurinn langleiðina til Straumsvíkur, en óvíst er að nokkur bær hafi þá verið í Hraununum; elztu heimildir um byggð þar eru frá því um 1200.

Víkingaskip

Víkingaskip í Afstapahrauni.

Hálfri öld áður rann Kapelluhraun til sjávar í Straumsvík og hafði áhrif á landmótun þar; yngsta hraunið á þessu svæði.

Frá fornu fari hafði ábúendum og öðru fólki á Reykjanesskaga verið skipt í útnesjamenn, sem bjuggu utan við Kúagerði, og innnesjamenn sem til að mynda bjuggu í Hraunum og á Álftanesi. Fram á 20. öld var mikil umferð ríðandi, en mun oftar þó gangandi manna suður með sjó og þaðan “inn” í Hafnarfjörð og Reykjavík. Menn fóru í verið til Suðurnesja og svo þurfti að ná í blessaða þorskhausana og reiða þá austur í sveitir á baggahestum. Þorskhausalestir voru dagleg sjón á vorin. Enginn var vegurinn, aðeins götur sem fótspor hesta og manna höfðu markað og þær lágu í krókum og krákustígum eftir því hvar skást var að komast yfir hraunin.

Afstapavarða

Afstapavarða (nú horfin).

Hraunabyggðin taldist löngum vera í Garðahreppi, en vestan Lónakotslands tekur Vatnsleysustrandarhreppur við. Hvassahraun er austasta jörðin í hreppnum.

Eftir að hafa kíkt á Hjallhólaskúta norðan Reykjanesbrautarinnar var gengið upp fyrir brautina. Byrjað var að skoða hraundrílin á Strokkamelum. A.m.k. tvö þeirra eru alveg heil, tvö önnur eru fallega formuð og önnur hálfheil eða hrunin. Hraundrílin hafa myndast á svipaðan hátt og tröllakatlanir undir Lögbergsbrekkunni, en eru einungis minni í sniðum. Fegurð þeirra er þó engu minni eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Hvassahrauns

Strokkamelar – hraundríli.

Þaðan var gengið að opi Brugghellisins, en til þess að komast niður í hann þarf a.m.k. 6 metra langan stiga. Þetta er greinilega rúmgóður hellir. Niður í honum eru hleðslur, bæði undir opinu og síðan út frá þeim beggja vegna. Flóðs og fjöru gætir í hellinum og flýtur ferska vatnið ofan á saltvatninu. Í háflæði er einungis hægt að tilla sér á hleðslurnar.

Sagt er að hellirinn hafi áður fyrr verið notaður til brugggerðar, enda erfitt er að finna opið. Björn Blöndal átti að hafa gert nokkrar árangursríkar tilraunir til að finna hellinn á sínum tíma. Hvað sem öðru líður er þarna hin ákjósanlegasta aðstaða til vínandaframleiðslu, hafi menn á annað borð áhuga á slíku.

Hvassahraun

Hvassahraun – brugghellir.

Handan Reykjanesbrautarinnar, skammt vestar, er Fagravík. Við hana var áformað að byggja stálbræðslu. Féllst bygginganefnd Vatnsleysustrandarhrepps á það fyrir sitt leyti, en ekkert var úr rekstri hennar þrátt fyrir undirbúningsframkvæmdir á svæðinu.
Vestan við víkna er hlaðið gerði. Búið er að fjarlægja hluta þess, en veggir er enn standa, sýna nokkurn veginn hver stærðin hefur verið. Ekki er útilokað að þarna geti hafa verið um fjárborg eða rétt að ræða.
Fjaran og strandlengjan frá Fögruvík að Straumi á u.þ.b. 500 metra breiðu belti, ásamt ísöltum tjörnum, frá botni Fögruvíkur að Straumi, njóta náttúrverndar fyrir sérstætt umhverfi með einstökum náttúruperlum.

Hraunsnes

Fjárskjól í Hraunsnesi.