Erindi þetta var flutt í Kálfatjarnarkirkju á menningardegi í kirkjum á Suðurnesjum 23.10.05.
“Örnefni er dýrmætur arfur sem geymir upplýsingar um sögu, tungu og lifnaðarhætti horfina kynslóða. Örnefni hafa oft augljósa tilvísun til landslags, náttúrunnar og eða tengt atburðum svo sem slysförum. Örnefni er nauðsynleg til að staðsetja sig og aðra og mun persónulegri heldur en gerfihnattarstaðsetning GPS. Samantektin er um nokkur örnefnum sem vakið hafa áhuga höfundar.
Byrjum ferðina inn við landamerki Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandarhrepps, Markaklettur er þar við Hraunsnes. Örnefnin; Markaklettur, Markhella, Markhóll, Markhelluhóll og Markavarða eru öll notuð til aðgreiningar á eignalöndum, þ.e. þau afmarka land hvers bónda.
Upp í Almenningum ofan Hvassahrauns er örnefnið Brennhólar, þar var gert til kola í eina tíð.
Önnur örnefni í Strandarheiðinni sem vísa einnig til kolagerðar eru; Kolgrafarholt, Kolhólar, Kolhólagjá og Kolhóll. Þessi örnefni eru flest í Vatnsleysulandi sem segir að fyrr á öldum hafi verið meiri skógur þar en sunnar í heppnum
Vegrið er ofan Reykjanesbrautar við Hvassahraun, þar eru; Vatnsgjárnar, Helguhola, Þvottargjá og Ullargjá sem augljóslega segja til um notkun. Þar nálægt er Strokkamelur með Strokkunum, sem bera nafn sitt af lögun sinni. Þetta eru hraundrýli, hol að innan og líkjast smjörstrokkum. (Hvassahraunskatlar). Þá er þar næst Brugghellir, þar var soðin landi (heimaunnið brennivín) á bannárunum á síðustu öld.
Mestu undirlendin í hreppnum eru Þráinskjaldarhraun, gamalt hraun sem nú er heiðin, vestan við Afstapahrauni og að Vogastapa. Ekki er vitað af hverju hraunið heitir þetta.
Búðavík, Búðabakkar eða Búðaflatir heitir í Vatnsleysuvík. Þar var fyrrum verslunarstaður og höfn Hansakaupmanna sem voru þýskir. Hafnhólar eru við fjarskiptamöstrin á Strandarheiðinni og tengjast höfninni á Vatnsleysu fyrrum.
Upp með Afstapahraunskanti að vestan miðja vegu til fjalla er hringlaga hlaðin fjárborg, Gvendarborg, hlaðin af Guðmundi Hannessyni sem bjó hér í Breiðagerði, annað örnefni hér er kennt við son hans Brand. Komun að því síðar.
Efstu hjallar heiðarinnar heita Brúnir, þar er Hemphóll, „þjóðsagan“ segir að prestarnir á Stað og Kálfatjörn hafi átt sameiginlega hempu og var þetta afhendingarstaður hennar. Hemphóll er þó ekki miðja vegu milli Staðar og Kálfatjarnar og sagan er ótrúleg enda hóllinn mikið úr leið.
Förum nú niður heiðina í stefnu á Vogana, þar er svæði sem heita Margur Brestur og Huldur og vísa til margra gjáa og sprungna á svæðinu sem sumar geta verið huldar (faldar) þegar snjór liggur yfir og auðvelt að hrapa niður í þær.
Þar suður af er Ólafsvarða og Ólafsgjá, tilurð þess örnefnis er í grófum dráttum þessi. Árið 1900 bjó í Hlöðuneshverfi, Ólafur Þorleifsson, þá 39 ára gamall. Rétt fyrir jól það ár fór Ólafur í heiðina að leita kinda en skilaði sér ekki heim um kvöldið. Hafin var leit að Ólafi daginn eftir með 30-40 mönnum. Til Ólafs hafði sést við Kálffell í Vogaheiði daginn áður, þrengdi það leitarsvæðið dálítið. Leitað var á Aðfangadag og aftur milli jóla og nýárs, án árangurs. Liðu nú 3 áratugir.
Á jólaföstu árið 1930 þegar verið var að smala heiðinna misstu smalarnir þrjár kindur í sprungu og þurfti því að fara aftur daginn eftir með reipi og annan búnað til að síga eftir fénu. Sigmaður var Rafn Símonarson frá Austurkoti á Ströndinni, tvær kindanna náðust upp úr gjánni á lífi, en þar ofan í fann Rafn líka tvö brot af göngustaf sem hann tók með sér til byggða. Um kvöldið fór Rafn að Halakoti til Ágústar bónda þar og biður hann að lýsa staf Ólafs (þá voru liðin 30 ár frá hvarfi hans). Lýsing Ágústar passaði við stafbrotin. Var nú ekki meira gert í bili. Um vorið þegar snjóa leysti héldu 4 menn að gjánni og seig Rafn aftur niður, þá sá hann þar strax mannabein og þóttust menn þess fullvissir að þar væri um bein Ólafs að ræða. Beinin voru tínd saman og grafin að Kálfatjörn.
Yfirgefum nú Ólafsgjá og höldum í suðvestur að Stóru-Aragjá en yfir hana liggur gamla þjóðleiðin til Grindavíkur Skógfellavegurinn, þar heitir gjáin Brandsgjá. Brandur þessi var sonur Guðmundar sem hlóð Gvendarborg sem ég nefndi áðan.
Brandur bjó á Ísólfsskála austan við Grindavík og var kallaður Skála-Brandur.
Í byrjun jólaföstu 1911 fór Brandur til Hafnarfjarðar að selja rjúpur og kaupa inn fyrir heimilið. Dagleið var frá Grindavík til Hafnarfjarðar, og gisti Brandur því í Hafnarfirði og fór að snjóa um nóttina. Á heimleiðinni kom hann við hjá Benedikt Péturssyni (Bensa) í Suðurkoti í Vogum og var langt liðið á dag þegar hann lagði á Skógfellaveginn, hnédjúpur snjór var þá kominn á heiðinni. Honum gekk förin ágætlega í byrjun en margar gjár eru þarna á leiðinni. Þegar hann kom að Stóru-Aragjá sem er síðasta gjáin sem hann þurfti að fara yfir vildi svo illa til að hann missti annan hestinn ofan í gjánna. Þá snýr hann til baka að Suðurkoti í Vogum eftir aðstoð. Bensi útvegar honum þrjá menn sem fara upp eftir í myrkrinu, með byssu meðferðis. Hesturinn náðist ekki upp og var því aflífaður. Hætt var að snjóa og komið harðnandi frost. Skiljast nú leiðir Vogamanna og Brands.
Brandur komst heim að Ísólfsskála undir morgun, þá illa kalinn á báðum fótum. Hann var sendur á Keflavíkurspítala á Þorláksmessu og kom ekki heim aftur fyrr en sumardaginn fyrsta árið eftir, þá orðin örkumla maður og hætti búskap og flutti til Hafnarfjarðar.
Förum næst að Stapanum, Reiðskarð heitir þar sem Stapagatan (gamla þjóðleiðin) fer upp Stapann. Næsta skarð vestan við Reiðskarð heitir Kvennagönguskarð. Karlmenn fóru Reiðskarðið enn kvenfólkið valdi frekar Kvennagönguskarðið og gat þá verið í friði og úr augnsýn karlanna um smá stund.
Förum nú til baka í Brunnastaðahverfi. Í Suðurkotstúni er flöt ein sem heitir Pelaflöt, hún mun hafa verið seld fyrir einn pela af brennivíni segja örnefnaskrár.
Endum nú ferðina í túnfætinum á Kálfatjörn, þar heitir Landabrunnur, þó er ekki neinn landi í honum heldur er um lítið vatnsstæði að ræða ofan við svonefndan Landamóa.”