Færslur

Járngerðarstaðir

Gengið var að Járngerðardysinni í Járngerðarstaðahverfi ofan við Járngerðarstaðabót og gamla sjávargatan rakin áleiðis niður að Fornuvör, þá leið er Tyrkirnir rötuðu 1627 heim að Járngerðarstaðabænum og hnepptu á annan tug heimamanna í þrældóm.

Gerðisvellir

Gerðisvellir – leifar virkis Jóhanns breiða.

Skammt frá Fornuvör er Stokkavör. Vestan Fornuvarar eru Flúðirnar, þriggja stranda, og enn vestar er Litlabót. Þá tekur Hellan við ofan við Stórubót. Þar fremst á grasodda er Engelskalág og virki Jóhanns breiða (Joen Breen) þar sem 15 Englendingar voru drepnir á einni nóttu 1532 í atlögu hirðstjórans á Bessastöðum ásamt Þjóðverjum og landsmönnum úr Hafnarfirði, Njarðvíkum og Básendum, auk heimamanna í Grindavík. Þetta gerðist þann 11. júní kl. 02:00. Auk þeirra, sem drepnir voru, fórust nokkir Englendingar á flótta undan ströndinni. Með þessum atburði lauk “ensku öldinni” hér á landi.

Gerðavellir

Gerðavellir – leifar virkis Jóhanns.

Breski togarinn Trocadero frá Grimbsby strandaði utan við Stórubót 6. september 1936. Öllum 14 skipverjunum var bjargað. Ýtarleg umfjöllun um strandið er í árbók SVFÍ 1936 með mörgum myndum sem Einar í Krosshúsum tók meðan á björguninni stóð. Á fjöru má sjá ketilinn úr togarnum í bótinni beint fyrir neðan Rásina.
Gengið var yfir Rásina frá Gerðisvallabrunnum, yfir Gerðisvelli og eftir Gerðinu þar sem Junkarar munu hafa hafst við. Garðurinn sést enn nokkuð vel. Getið er um Junkara á þessum stað í einni þjóðsögu og munnmælum. Sumir telja að á Gerðavöllum kunni að leynast minjar allt frá landnámsöld – ef vel væri að gáð.

Gerðavellir

Gengið um Gerðavelli.

Skyggnisréttin á Skyggni var næsti áfangastaðurinn, en síðan var gengið yfir á Stekkhól og litið á stekkinn vestan undir hólnum, en hann er nú orðinn að mestu jarðlægur. Þá var haldið yfir að Hrafnagjá. Gjánni var fylgt til austurs, gengið um Hraunstekkina, framhjá Skjöldunni, fátækrahverfi þess tíma, og yfir í Einisdal. Einisdalur er falleg, stór, hraunlaut með vatni í botninn.
Þá var haldið að Stóruflöt skammt norðar, handan þjóðvegarins út á Reykjanes, en þar áttu skv. munnmælum að vera hlaðnar refagildrur. Það reyndist rétt. Þarna var a.m.k. að sjá eina refagildru og sporöskjulaga mosavaxna torráðna hleðslu. Loks var gengið til baka að upphafsstað, en að því búnu var boðið upp á bakkelsi í boði innbúa.

Skyggnir

Skyggnisrétt á Gerðavöllum.