Færslur

Kálfatjörn

Eftirfarandi, Suður með sjó, er byggt á óbirtu handriti er Erlendur Magnússon frá Kálfatjörn (f: 1892) skyldi eftir sig. Um er að ræða handrit á stílabókarblöðum er urðu eftir undir berum himni er eyðibýlið Norðurkot var flutt með nútímatækjum yfir að Kálfatjörn. (Svo virðist sem að hér sé um að ræða erindi, sem Erlendur hélt af gefnu tilefni um leiðina milli Innnesja og Útnesja (Reykjavíkur og Njarðvíkur).
BrunnurÁrtalsins er ekki getið, en Erlendur, sem manna fróðastur var um Kálfatjörn og nágrenni, lést árið 1975). Norðurkot var einn fyrsti barnaskólinn á Vatnsleysuströnd (næst á eftir Brunnastaðaskóla) og þar var Erlendur kennari um skeið. Eftir að skólinn lagðist af sem og ábúðin á jörðinni var þar innan dyra safnað saman ýmsum persónulegum munum og minjum fólksins, sem hafði búið á svæðinu. Ekki virðist hafa verið lögð rækt við varðveislu þessa því vindur, vatn og vegfarendur áttu greiða leið að gögnunum. Sumt var borið á aðra bæi, en sumt annað varðveitt á staðnum.
FERLIR kom stílabókinni, að afritun lokinni, á sinn stað, en hvort einhver áhugasamur hefur fangað hana til frekari varðveislu skal ósagt látið. Áhugi “þarlendra” á sögulegum og áþreifanlegum menningarverðmætum sínum virðist hafa verið takmarkaður – hingað til a.m.k.
(Eftirfarandi er endurritað sbr. handritað blaðsíðutal (1-11) ásamt athugasemdum, sem á það eru skráðar).

“Leiðin suður með sjó – þ.e. vegurinn frá Innnesjum til Suðurnesja, liggur hvorki um fjöll né fyrnindi. Í meir en 10 aldir var hún farin af ríðandi en þó fremur af gangandi fólki, og var ein af fjölförnustu leiðum landsins og á því sögu s.a.s. í hverju fótmáli. Enn þá á fólk heima suður með sjó – aldrei fleira en nú – kemur sunnan með sjó og fer suður með sjó. Ingólfur Arnarson lét ýmsa hafa af landnámi sínu til búsetu þ.á.m. Steinunni frændkonu sína í Hvassahrauni og allt land þar fyrir sunnan að hún greiddi með heklu flekkóttri og kvað kaup skyldu kallast. Árni Óla telur að Steinunn hafi búið í Hólmi í Leiru, en Eyvindi fóstra sínum og frænda gaf hún land frá Hvassahrauni að Vogastapa. Hann bjó að Stóru-Vogum. Hrolleifur í Heiðarbæ vildi hafa jarðabítti við Eyvind og skoraði hann á hólm er hann vildi ekki öðru vísi láta [merkt við]. Fluttist Eyvindur að Heiðarbæ og bjó þar lengi. Fluttist síðar suður á Nes og bjó á Bæjar(Býjar)skerjum.
Fjárskjól– Ketill Gufa kemur og við sögu Suðurnesja. Hann bjó skamman tíma á Gufuskálum í Leiru, en Steinunn í Hólmi þoldi hann ekki í nábýli við sig og kvað þar skyldu verstöð vera á Gufuskálum. Þaðan var stutt á fiskimið og gott á land að leggja fisk til herslu, (sem var algengasta verkunaraðferðin í þá daga).
Fljótlega verður fjölfarið austan úr sveitu og suður með sjó.  Skipti á land- og sjávarafurðum var fólkinu nauðsyn. Vorferðirnar voru aðallega um Jónsmessuleytið og hélst svo fram á 2. áratug þessarar aldar að austanbændur fjölmenntu þá suður með sjó með afurðir sínar og til kaupa á fisk[meti] í staðinn.
Skal nú lagt upp í ferð suður með sjó og ferðin hafi á Skólavörðuholtinu sem kennt er við vöröuna sem nú er horfin illu heilli. – Við höldum suður yfir Eskilhlíðina og ofan í Fossvog. Ef þetta er um lestirnar eru þarna mörg tjöld, margir ferðamenn með fjölda hesta, margir þeirra á leið suður með sjó, aðrir að koma þaðan. Þetta er góður áningarstaður, grasivaxinn dalur með straumlygnum læk með krystaltær[u] vatni til svölunar mönnum og málleysingjum.
Við förum yfir Kópavogshálsinn og síðan yfir Kópavogslækinn, sem ekki getur nú kallast vatnsfall, þótt allmikill geti hann orðið í leysingum eins og t.d. þegar börnin frá Hvammkoti drukknuðu og Matthías orti um sín [fögru] eftirmæli. Í stórstraumsflóðum fellur sjórinn langt upp í lækinn.
Nú tekur við Arnarneshálsinn, sem er lægri og styttri en Kópavogshálsinn. Sunnan við hann er Arnarneslækurinn sem rennur út í Skerjafjörð eins og fyrrnefndir lækir. Norðan við lækinn stóð bærinn Arnarnes, en sunnan við hann tóku við allstór mýri, sem nú er löngu ræktuð og að sumu leyti byggð eins og hálsarnir, sem báðir eru þéttsetnir húsum. Fyrrum var mikill mór tekinn upp í Arnarnesmýri, því þar var mótak allgott og nærtækt.

Gamla gatan

Í gamla daga voru stórar þúfur hlaðnar sem vörður við veginn [götuslóðann] sem lá eftir mýrinni endilangri. Komu þær sér oft vel fyrir vegfarendur. Syðst í mýrinni var Hraunsholtslækur, mjór en nokkuð niðurgrafinn og djúpur og því víðsjáll í myrkri a.m.k. fyrir ókunnuga. Þegar kemur yfir Hraunsholtið tekur við Garðahraun – nú oft nefnt Hafnarfjarðarhraun.
Yfir það liggur vegurinn niður í Hafnarfjörð þann eina með því nafni af landsins mörgu fjörðum og ber vissulega nafn með rentu. Þar er stutt sigling um og út og var það ómetanlegt hagræði á dögum seglskipanna. Inni í höfninni var hið bezta lægi, ágætur akkerisbotn, þéttur djúpur leirbotn. Hafnarfjörður var mikið notaður fyrir [vetrar]lægi á skútuöldinni.
Yfir hraunið lá vegurinn niður í plássið, slétt svæði undir háuum kambi hraunsins þar sem framrennsli þess hafði stanzað. Plássið liggur niður að höfninni. Þar var athafnasvæði ferðamanna, bæði af sjó og landi og þar kom fyrsta bátabryggja Hafnfirðinga – Brydesbryggjan. Nú hefur allt þetta svæði og suður fyrir læk verið fyllt upp og þar er nú umferðargata. Við það fór lending og smábátauppsátur margra Hafnfirðinga. Af plássinu lá vegurinn með sjóum eftir mölinni yfir lækinn – Hafnarfjarðarlækinn – sem var aðalvatnsból byggðarinnar og þar tóku skipin [sjómenn] vatn og fluttu á tunnum út í skipin.
Þótt lækurinn í Hafnarfirði sé ekki stór á hann samt merka sögu. Þar var reist fyrsta vatnsaflsrafstöð á Íslandi og timburverksmiðja af dugnaðariðjuhöldinum Jóhannesi Reykdal. Vegurinn lá svo yfir lækinn og ofan við mölina neðan við Hamarskot og svo skáhalt upp og suður yfir Hamarinn og niður hjá bænum Hellu og á mölina er þar tók við suður fyrir Flensborg. Malarsvæði þetta sem er botn fjarðarins var kallað Bankinn þótt þarna væri um langan aldur skipum lagt á þurrt til að hreinsa af þeim slí og annan gróður. Ofan við mölina var tjörn og umhverfis hana mýri. Þar var mótak. Einhverntíma hefur þar vaxið skógur. Það sýndu sverir lurkar sem komu upp úr mógröfunum.
Rétt sunnan við Flensborg komum við að litlum læk, Ásbúðarlæk. Eru þá talin vatnsföll á leiðinni frá Rvík suður með sjó.
Gamla Þegar yfir lækinn kemur, liggur vegurinn til suðurvesturs ofan við bæina Ós, oftast nefndur Óseyrarós, stundum Flensborgarós eða Ásbúðarós því upp af honum var býlið Ásbúð.
Beggja vegna við ósinn var uppsátur þeirra er heima áttu sunnan til í firðinum. Var þar alltaf margt báta. Í ósinn sjálfan voru á haustin sett þilskip, sem flutu vel inn í hann um flóð en voru svo rétt á þurru um fjöru. Þar var gert við þau eftir því sem þurfa þótti og aðstaða leyfði. Einn þeirra, sem að þeim smíðum vann var Óli norski – sérkennilegur [dugnaðar]karl, krypplingur og hafði kikinn herðakistil. Hann mun hafa verið skipstjóra lærður enda sagði hann stundum – Mig getur allt – til sjós og lands.
En höldum nú áfram suður með sjó – Vegur lá suðvestur með Óseyrartúni og meðfram Hvaleyrartjörn þar sem nú er skipasmíðastöðin Bátalón og yfir Hvaleyrina meðfram hinu fallega Hvaleyrartúni, yfir Hvaleyrarsand inn í Hellnahraunið þar sem nú er Sædýrasafnið. Þá er farið suður yfir suður yfir Kapelluhraun ofan við Hraunabæina og suður yfir Almenninginn svonefnda – þ.e. hraunið milli Hraunabæja og Hvassahrauns. Í Almenningi er mikið skógarkjarr. Þar var gert til koma áður fyrr og þar var rifið hrís og lyng til eldiviðar á Bessastöðum og víðar, margir hestburðir á ári hverju og var furða hvað það entist. Nú er Almenningur að gróa upp bæði að grasi og skógi. – Í Almenningi er Gvendarbrunnur, hraunhola með grasbala í kring. Í henni er alltaf einhver vatnslögg. – Flestir stoppuðu við Gvendarbrunn og margir skáru fangamark sitt í grasið.
VarðaÞau voru orðin æðimörg. – Þau gömlu greru og hurfu en eönnur ný komu í staðinn. Eftir að upphlaðni vegurinn kom um hraunið 1912 tók af alla umferð hjá Gvendarbrunni.
– Skammt norður af Gvendarbrunni er, eða var öllu heldur, Rauðhóll – allhár og mikill um sig, en hefur verið tekinn í ofaníburð í vegi og lóðir og til fyllingar í húsgrunna að ógleymdum Reykjavíkurflugvelli sem að mestu er gerður úr Rauðhól sem segja má að sé nú orðinn eins mikið niðurgrafinn eins og hann var [stóð] upp úr áður. – Vestur-suðvestur af Gvendarbrunni er svonefndur Smalaskáli – hrauntunga með helli í og horfir munninn gegnt Gvendarbrunni. Við munnan eru hleðslur nokkrar enda er þetta gömul fjárgeymsla Hraunamanna. Sunnan við Smalaskála er fjárborg – Óttarstaðaborg, hlaðin af Kristrúnu á Óttarsstöðum og fjármanni hennar. Nú er skammt til hreppsmarka [seinasta bæjar] í Vatnsleysustrandarhreppi – Hvassahrauns – alkunnur bær fyrir gestrisni og greiðasemi um aldaraðir enda lá það vel við til að fá hvíld og hressingu eftir gönguna frá Hafnarfirði suður með sjó. Austan og ofan við bæinn er hraunið allhátt. Þar er hóll með vörðu á og heitir Skyggnir enda er frá honum víðsýni til allra átta. – Suður frá Hvassaahrauni heita [Siggudagur] og Látur. Þaðan var útgerð fyrrum. Þarna kemur ferskt vatn undan hrauninu sem blandast sjó og myndast tjarnir í hraunlágunum þegar að fellur [og gæti í þeim sjávarfalla]. – Þá erum við komin í Afstapahraunið. Neðan ogs unnan við það er Kúagerði – alkunnur áningarstaður, en nafnið dregið af kúahögum Vatnsleysulenda, enda er þetta einn af fáum gróðurblettum á þessum slóðum. Þar var bær ekki alls fyrir löngu. Hann reisti Einar nokkur kallaður lóni – enda frá Lónakoti – hafði áður verið í siglingum. Einar reri einn á báti og sóttust strákar eftir því að vera með honum því að Einar var barngóður. Þegar krakkarnir hlýddu honum ekki nógu fljótt sagði Einar og brýndi raustina: Þið verðið að læra að hlíða strákar – það eru hörð sjólögin. – Var þetta síðan haft að orðtaki. Sunnan við Kúagerði heitir Akurgerði –dálítið graslendi alveg við Vatnsleysuvíkurbotninn.
Gamla – Frá Afstapahrauni liggur vegurinn eftir Ströndinni ofan við byggðina alla leið á Vogastapa. Ofan við hann liggur Strandarheiðin frá Afstapahrauni að innan að Grindavíkurhrauni að sunnan. Innstu bæir á ströndinni eru Vatnsleysurnar og Flekkuvík. Fyrir sunnan hana gengur Keilisnesið út í sjó. Eftir því og upp á heiðina liggur hæðarhryggur, Stefánsvörðuhæð, því Stefán bóndi Pálsson á Stóru-Vatnsleysu hlóð þar vörðu, ágætlega gerða og hefur henni verið haldið við af þeim feðgum frá Litlabæ, Jóni Helgasyni og Magnúsi syni hans sem klöppuðu nafnið á hana. Frá vörðunni er mjög víðsýnt, því þaðan sést allur fjallahringurinn frá Snæfellsjökli og út að Garðskagatá.
Byggðin á Ströndinni er nokkuð samfelld en þó skipt Innströnd, Miðströnd og Suðurströnd að Bieringstanga, sem dregur nafn af Bireing, sem þar hóf útgerð og athafnasemi. Frá tanganum er nokkurt óbyggt bil suður að Vogum sem nú er pláss í miklum uppgangi.
Á Vatnsleysuströnd hefur alltaf verið nokkur landbúnaður og sjást menjar þess enn í dag, þar sem eru selin mörgu á Strandarheiðinni og stekkirnir, sem [fylgdu] s.a.s. hverju byggðu bóli. Byggðin er meðfram sjónum eða skamt frá ströndinni og vegur lá milli bæjanna og leiðarinnar. Kirkjustaður Vatnsleysustrandar er á Kálfatjörn og þar var prestsetur frá öndverðri kristni og til ársins 1919 er síðasti presturinn, sr. Árni Þorsteinsson andaðist [eyða] (vantar sem innskot prestatalið frá Kálfatjörn, sem var í kassanum) því árið 1907 hafði brauðið verið lagt niður með lögum og sameinað Görðum á Álftanesi.
Sunnan við Vogana liggur vegurinn um svonefnt Reiðskarð upp á Vogastapa, sem áður hét Kvíguvogabjarg. Vegurinn upp skarðið var brattur, en ekki langur. Reiðskarð mun heita svo af því að það var eina leiðin með hesta upp á Stapann. Gönguleiðir voru um Kvennagönguskarð, Brekkuskarð og Rauðastíg, sem þótti illfært en var þá stundum farinn um fjöru til að stytta sér leiðina um Vogasand, því að fjöruborð er þarna allmikið. Undir Stapanum stóðu bæirnir Brekka og Stapabúð. Á þeim – og syðstu bæjunum í Vogunum, Suðurkoti og Bræðraparti, var fyrrum talsverð gestnauð og mikil gestrisni líkt og áður er sagt frá um Hvassahraun. –
Reiðskarð Upp af Reiðskarði liggur vegurinn suðvestur yfir Stapann – fram hjá Grímshól, sem er á Vogastapa þar sem hann er hæstur.
Þarna – hjá Grímshól er Vogastapi hæstur, lækkar aflíðandi. Til landsins er er standberg í sjó fram. Vegur liggur suðvestur niður Grynnriskoru, í gömlum ritum nefnd Kolbeinskora – Þar eru mörk milli Vatnsleysustrandar og Njarðvíkurhrepps. – Úr Grynnriskoru var farið yfir hæðarbungu og yfir í Dýpriskoru, sem skerts lítið undir?? Stapann. Bilið milli Skoranna heitir Hörsl?? Á því eru 3 smáhæðir, sem eru kallaðar Grynnsta-hörsl? Miðhörsl og Dýpsta hörsl og voru notaðar fyrir mið úti á fiskislóðum. Nú er aflíðandi halli niður að Stapakoti í Innri-Njarðvík. Við veginn má sjá garð hlaðinn í Kross úr grjóti og torfi. Þetta mannvirki eins og mörg önnur slík voru byggð til þess að útigangsfénaður gæti haft þar skjól hvaðan, sem vindurinn blés.
Enda þótt all-langt sé á (leiðar)enda þess vegar, sem kallað er “suður með sjó” skal hér látið látið staðar numið.”

Handritið er óundirritað, en við samanburð á ritun hliðstæðra og jafnvel sömu upplýsinga má sjá að þær eru skráðar með eigin hendi Erlendar. Ummerki eru um brunaleifar á handritinu, en eins og kunnugt er brann húsið á Kálfatjörn, fyrrum heimili Erlendar árið 1988.
Enn þann dag í dag má sjá hluta leiðarinnar, sem Erlendur lýsir í framangreindu handriti, s.s. um norðanverða Arnarneshæð, um Hellnahraunið þar sem nú er golfvöllur að hluta og framkvæmdarsvæði, austan við Brunann, spotti við kapellluna í Kapelluhrauni, um Brunaskarð ofan Gerðis, Alfaraleiðin ofan Hraunabæjanna, Almenningsleiðin um Vatnsleysuströnd, Reiðskarð og Stapagötuna á Vogastapa. Skógfellavegur frá Vogum til Grindavíkur, Skipsstígur og Árnastígur frá Njarðvíkum og Prestastígur frá Höfnum til Grindavíkur má enn feta um gróin hraunin – klappaða í berghelluna. Þá má enn sjá Sandgerðisveginn milli Grófarinnar og Sandgerðis og bæði Efri- og Neðrileið (Garðstíg) milli Grófarinnar og Garðs. Auk þessa sér enn fyrir Fuglavíkurleiðinni og Hvalsnesleiðinni milli Grófarinnar og framangreindra staða.
Gamla Ljóst er að víða hafa hinar gömlu þjóðleiðir, fótfetungar horfinna kynslóða, verið eyðilagðar bæði af vanþekkingu og vangá. Oft hefði verið lítið mál að hliðra nýrri vegum spölkorn án vandkvæða og þar með varðveita gömlu leiðirnar sem áþreifanlegan minnisvarða um þar sem var og nú má telja til hluta af arfleifðar eftirlifandi kynslóða. Hún sem og afkomendur þeirra munu hafa gott af því að verða meðvituð með með augljósum hætti hvernig og við hvaða aðstæður forfeður og -mæður þeirra komu þeim til manns (og kvenna).
Hinar gömlu alfaraleiðir eru hluti af sögðu svæðisins, líkt og verstöðvar, sel eða aðrar búskaparminjar er undirstrika tilvist fólksins fyrr á öldum – fólksins, sem kom okkur til þessa lífs.
Þegar horft er á vinnuvélarnar í Hellnahrauni sunnan Hafnarfjarðar skafa ofan af hraunhellunni og þar með afmá forna þjóðleið um hraunið, þegar horft er á hús byggð þvert á leiðirnar þar sem má vænta ómældrar umferðar framliðinna um ókomna tíð og raska þannig heimildisfriði nýbúanna, þegar horft er á óþarfa jarðrask í nálægð nýrra þjóðvega og þegar horft er upp á algert meðvitundarleysi ungra sérfræðinga nýrra úrræða um minjar gamalla tíma verður ekki hjá því komist að undirmeðvitundinni sárni. Margir fá fyrir hjartað þegar þeir horfa upp á óþarfa rask á ósnortu umhverfi. Sama gildir um þá, sem sjá og þekkja til gamalla mannvirkja í landslaginu er öðrum virðist hulið – og allrar þeirra sögu sem þær fela í sér, jafnvel þótt jarðlægar séu.
Þegar haldnar eru sérstakar menningarhátíðir í sveitarfélögunum á Suðurnesjum er áherslan einkum lögð á “hoppukastala” og sölutjöld. Hvernig væri að horfa að hluta til á og gefa þátttakendum, hvort sem um er að ræða heimafólki eða gestum þess, a.m.k. svolitla innsýn í aðdraganda og forsögu þess að viðkomandi samfélag hafi orðið til og getað dafnað með þeim hætti, sem raunin er. Sá þáttur hlýtur bæði óneitanlega og óhjákvæmilega að vera hluti af “menningu” þess svæðis, sem er jú jafnan megintilefni fagnaðarins.
Heimild:
-Suður með sjó – Erlendur Magnússon frá Kálfatjörn (f: 1892, d: 1975) – óbirt handrit.

Norðurkot flutt til nýrra heimkynna

Norðurkotshúsið flutt af grunni.