Tag Archive for: Suðurnes

Suðurnes

Birgir Kjaran skrifaði þrjár greinar í Lesbók MBl, „Svipast um á Suðurnesjum„, árið 1960 um Suðurnes, einkum þó Grindavík og nágrenni. Fyrsta greinin birtist 3. apríl. Í henni segir m.a.:
GeirfuglÁ Reykjanessvæðinu hefur íslensk náttúra beðið tvo ósigra. Annar þeirra er eyðing hreindýranna. Hinn var sýnu ferlegri. Það var útrýming geirfuglsins af yfirborði jarðar. En telja má hann aldauða, er þeir síðustu voru skotnir árið 1844. – Vonandi geldur íslenzk náttúra ekki svipað afhroð í okkar tíð. Þó skulum við gæta okkar, ef næsta áfallið á ekki að verða við Breiðafjörð, því að ekki verður það í framtíðinni talinn vegsauki fyrir þessa kynslóð, ef íslenzka haferninum yrði útrýmt á okkar árum, en vitað er núm um tæplega 40 erni í landinu og hafa þeir allir búsetu við Breiðafjörð og á Vestfjarðarkjálkanum..
Leiðin liggur um hraunin, endalaus hraun… Í Hvassahrauni sjáum við þrjár stokkendur á lóni, og senn komum við í Kúagerði… Sjávarfuglinn hefur sett margan svanginn fyrr og síðar. Á þessum slóðum voru þeir að rangla útilegumannagrey fyrir röskum tvöhundruð og fimmtíu árum. Þeir einu, sem sögur fara af á Reykjanesskaga. Þeir bjuggu í helli á Selsvöllum við Hverinn eina. Leituðu til sjávar hér niður á Vatnsleysuströndina. Menn og fuglar hafa löngum leitað bjargar við sjórinn. Að vísu stálu þeir á á leiðinni einhverju frammi í Flekkuvíkinni. Saga þeirra varð víst annars aldrei löng og afrekin ekki stór, en þóttu þó nægilegt tilefni þess, að tveir þeirra voru hengdir á alþingi árið 1703. Það voru reikningsskil þjóðfélagsins við fátæktina á þeim árum.
 GrindavíkVið erum senn komnir á vegamót. Grindavík – 16 kílómetrar stendur á vegvísinum. Við ökum beint mót sól. Jafnvel stórgrýtisurð og rauð moldarflög lifna í skæru ljósvarpi febrúarsólarinnar. Seltjörn er á ísi. Illahraun er á báðar hendur, hraunborgir, gjallfjöll, skuggatröll. Ég gæti trúað, að í svörtu skammdegi gæti mönnum stafað stuggur af þessum hrauntröllum. Í slíku umhverfi sækja hrollkenndar sögur frá  vofveiflegum atburðum á dimmuborgir hugans.
Það stendur heldur ekki á einni slíkri. „Þarna er Fagradalsfjall. Ég held að það hafi verið þar, sem hann fórst í stríðinu hann Andrews yfirmaður alls loftflota Bandaríkjamanna í Norðurhöfum. eða var það í Sandfelli? Hann var að koma hingað til landsins í liðskönnun, ætlaði að lenda í Keflavík. Þeir heyrðu í vélinni inn yfir landið, en svo þagnaði hún allt í einu. Það var brugðið við og farið að leita. Þeir fundu brennandi flakið. Ég held á hæðunum hér fyrir ofan Fagradalsfjall. Þetta var sjálfur yfirhershöfðinginn, sem fór svona“.
 GrndavíkÞað er áreiðanlega ekki allt hugnanlegt, sem skeð hefur á slóðum Illahrauns. – Á vinstri hönd eru vörður, sem vísa leiðina í hellinn í hrauninu. Hann er sagður allstór. Í Þorbjarnarfelli er fé að kroppa snögga lyngmóana. Heldur sýnist það harður kostur. Það er líka kuldagjóstur í Skarðinu.
Við rennum við í Grindavík. Þetta er ósvikið sjávarþorp. Hér standa bátar við hlið bíla fyrir húsdyrum. Það er hvíldardagur og fáir á stjái. Helzt er það fólk á ferð í bakaríið, sunnudagsklæddir krakkar vafstrandi með mjólk og vínarbrauð og bakkelsi í stærðarpokum. Leiðin liggur samt fram á bryggju, Þarna standa þau enn gömlu verslunar- og útgerðarhúsin, Eyrarbakkaverslunarhúsin, Dúshús og hús Einars í Garðhúsum. Einhver hefur logið því að mér, að skúrinn sá arna hafi verið vínhjallur, og svo fylgdi það sögunni, að eigandinn, karlinn, hafi átt þar jafnan tunnu á stokkunum, og þegar bátarnir voru að koma að, þá hafi hann selt þeim hnall af brennivíni fyrir stærsta þorskinn í kastinu. Svo sagði hann á lokadaginn, karlinn: „Þetta er hluturinn minn“. – Það var brennivínshluturinn, staflinn, sem hann fékk fyrir staupin. Hann sagði: „Jahá“, maðurinn, sem sagði mér þetta og saug vænan tóbakshrygg af handarbakinu langt upp í nefið og bætti við: „Maður lætur þetta flakka, það er svo sem ekkert guðlast“.
Það var napur strekkingur þarna. Hestar standa í höm undir bryggjuhúsunum. Einn sótóttur stendur undir rauðmáluðu verslunarhúsi. Hann er loðinn og lubbalegur, greyið með langt tagl, en skorinn ennistopp. Hann stendur grafkyrr með hálflygndum augum. Þegar ég nálgast hann, pírir hann  augunum, svo opnar hann þau nokkurnveginn til fulls og hreyfir svo annað eyrað svona eins og kveðjuskyni. Undir veggnum á gamalli kró hama sig þrír, þeir eru allir skjóttir og álíka áhugasamir um samtíð sína og sá sótótti. Það sýnist vera reitingur af hestum á Nesinu. Fjárbóndi nokkur hefur þó sagt mér, að þar ættu sannarlega engin hross að vera, því þau kroppuðu á við tíu sauðkindur.
MávarÞað er ekkert brim í dag. Það er skýlt hérna megin á nesinu í norðanáttinni. Á bryggjum og í fjöru getur að líta svipaða sjón og tíðkast í sjávarplássum á vertíð. Fyrir framan dyr verbúðar eru stampar með beittri lóð, netakúlur og í hálfbrotinni kró eru hrúgur af netasteinum. Í fjörunni liggja þorskhausar, fiskhryggir og fleira. Á malarkambinum eru bátskeljar á hvolfi og ryðguð spil. Fuglinn er í fjörunni. Í flæðarmálinu situr stór hópur af stelkum, og þar valsa sauðkindur um og slafra í sig þang og fiskúrgang. Ég held þær éti hreint allt, rollurnar, sem ganga í fjöru sjávarþorpanna. Yfir öllum þessu fisklega umhverfi svífur svo einhver sá þéttasti fulgasveimur, sem ég hef augum litið. Þúundir eða tugþúsundir af hvítfugli. Hér er líka nóg um ætið. Það eru engir smábitar, sem mávarnir bera í nefninu. Við hafnargarðinn liggur flotinn bundinn á þessum hvíldardegi. Þar er skógur af siglutrjám.
Oddur V. GíslasonÍ gegnum skipaskóginn grillum við í nýja vitann. hann er gulur og ber nafnið Oddsviti, og fer vel á því. Enda trúlega kenndur við séra Odd V. Gíslason, prest á Stað, þann mikla brautryðjanda slysavarnanna á Íslandi. Hann var fæddur árið 1836 og tók við prestskap að Stað á Reykjanesi í kringum 1878 og þjónaði þar í hartnær tvo áratugi, jafnframt sem hann stundaði sjóróðra og var sívökull í hvatningarstarfi sínu til varnar slysum á sjónum.
För okkar er nú einmitt heitið að Stað. Það er ekið fram hjá kirkjunni, um hlaðið á Járngerðarstöðum, fæðingarstað Bjarna Sæmundssonar náttúrufræðings. Hann skrifaði um erni á þessum slóðum. Það var eitthvað á þá leiðina, að anarhjón áttu hreiður í Arnarsetri í Illahrauni á milli Grindavíkur og Voga. Þau stunduðu álaveiðar. Það var dálítil flæðitjörn skammt frá bænum að Járngerðarstöðum og mikið af ál í henni eins og víðar á þessum slóðum. Arnarhjónin lögðu þá í vana sinn að koma um miðmorgunsleytið og setjast á þúfu skammt frá tjörninni. Um nónbilið lyfti fuglinn sér, seig hægt niðiur að tjörninni og dýfði sér í hana og kom fljótlega með spriklandi ál í kónum, sem hann sveif á braut með. Stundum, segir Bjarni, að assa hafi misst álinn úr klónum. Þetta hlýtur að hafa verið einkennileg sjón að líta, örn með spriklandi ál í klónum.

Heimild:
-Birgir Kjaran – Svipast um á Suðurnesjum I – Lesbók Morgunblaðsins 3. apríl 1960, bls. 181 – 186.

Grindavík

Grindavík.

Leira

Njáll Benediktsson skrifar um „Fyrsta íbúann á Suðurnesjum“ í Faxa árið 1989:

Steinunn gamla

Skáli.

„Það er haft fyrir satt, að Steinunn gamla frændkona Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns hafi verið fyrsti íbúi á Suðurnesjum. Ingólfur nam land í Reykjavík árið 874. Ingólfur helgaði sér allt land norðan vatna.

Gufuskálar

Gufuskálar – óskilgreind skálatóft á hól.

Ingólfur vildi gefa Steinunni gömlu frændkonu sinni allt land frá Hvassahrauni og suður, norðan megin við Faxaflóa, en Steinunn vildi heldur gera við Ingólf kaup. Taldi slíkt haldbetra er fram liði og borgaði skagann með hlut, sem „flekka“ var nefnd. Enginn veit með vissu hvað þessi hlutur var. Kannski var þetta vaðmálsflík eða prjónaflík? Það má geta þess að formenn notuð höfuðfat, sem náði yfir allt höfuðið og niður á herðar. Það voru aðeins göt fyrir augu, nef og munn. Þetta var kallað „flekka“. Svo breyttust þessar höfuöflíkur og allt andlitið kom fram, þá var farið að kalla þessar höfuðflíkur hettur og síðar lambhúshettur. Steinunn gamla mun hafa byggt sér skála á Steinum í Leiru, sem síðar hét Hólmur og enn síðar Stóri-Hólmur.

Steinunn gamla

Steinunn gamla.

Steinunn gamla var dugmikil kona. Hún hafði fyrstu verstöð við Faxaflóa. Að vísu var hún búin að leyfa Katli gufu Örlaugssyni að byggja skála að Gufuskálum í Leiru og hafði hann þaðan útræði í tvo vetur.
Steinunn gamla vildi koma Katli gufu í burtu og fékk Ingólf frænda sinn í lið með sér. Fór þá Ketill inn í Gufunes við Reykjavík og síðar upp í Gufudal. Sennilega hafði Ketill gufa Örlygsson útræði á Gufuskálum á Snæfellsnesi. En Steinunn gamla hélt sinni verstöð við Faxaflóa.
Steinunn gamla var gift kona, þegar hún kom til íslands. Maður hennar hét Herlaugur Kveldúlfsson. Hann var bróðir Skallagríms Kveldúlfssonar. Herlaugur kom aldrei til íslands. Hann fórst í víking við England, eins og það var kallað.
Steinar í Leiru
Herlaugur og Steinunn gamla áttu tvo syni, sem vitað er um, annar hét Arnór og hinn hét Njáll. Sennilega hafa þessir bræður komið til Íslands þó ekki sé hægt að finna hvar þeir bjuggu. Það er eins og það vanti heila öld á spjöld sögunnar, frá 930-1030.

Gufuskálar

Gufuskálar – uppdráttur ÓSÁ.

Það er eins og eldgos hafi geisað á þessari öld á Suðurnesjum, sem valdið hafi mengun og mannflótta þaðan. Ég hefi verið að velta því fyrir mér hvort það gæti staðist, að Njáll Herlaugsson hafi getað átt son á Íslandi, sem skírður var Þorgeir og þessi Þorgeir hafi svo átt son, sem skírður var Njáll og þar sé kominn Njáll Þorgeirsson fyrrum bóndi að Bergþórshvoli í Landeyjum. Með vissu vitum við það, að Njáll bóndi á Bergþórshvoli var fæddur árið 935. Hann kafnaði inni í brunanum á Bergþórshvoli árið 1010, þá 75 ára gamall. Njáll var oft ráðagóður. Hann ætlaði að bjarga sér og Bergþóru konu sinni og breiddi yfir þau skinnhúðir. Ætlaði að verja þau fyrir hita á meðan bærinn brann. En þar feilaði Njáli. Það vantaði loft undir húðirnar, þess vegna fór sem fór.

Leiran

Kannski er nú allt þetta draumarugl, sem ekki hefur við nein rök að styðjast.
Eitt er víst, Suðurnesjamenn góðir, að það er kominn tími til þess, að reisa Steinunni gömlu minnisvarða og staðsetja hann á klöppunum fyrir ofan Steina í Leiru. Gerðahreppur á býlið Steina. Það ætti að vera auðvelt aö fá lóð undir styttuna. Nú á þessu ári 1989 ættu Njarðvíkurbær, Keflavíkurbær og Gerðahreppur að sameinast um að reisa Steinunni gömlu minnisvarða.“ – Garði 20. apríl 1989; Njáll Benediktsson.

Heimild:
-Faxi, 4. tbl. 01.04.1989, Fyrsti íbúi á Suðurnesjum, Náll Benediktsson, bls. 120-121.
-Faxi, 10. tbl. 01.12.1967, Skipstrand í Höfnum fyrir 85 árum – Rabbað við Friðrik Gunnlaugsson, 95 ára sækempu, bls. 156-163.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.