Tag Archive for: Suðurnesjabær

Sandgerði

Nokkur minnismerki eru í Suðurnesjabæ; Garði og Sandgerði.

Eggert Gíslason (1927-2015)

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Eggert Gíslason.

Hann gerði Garðinn frægann
Eggert Gíslason, skipstjóri, fæddist 12. maí 1927 í Kothúsum í Garði. Foreldrar hans voru Gísli Árni Eggertsson skipstjóri og Hrefna Þorsteinsdóttir kona hans.
Eggert lauk fullnaðarprófi frá Gerðaskóla 1940 og fiskimannaprófi hinu meira frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1949.
Hann hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1964. Aflakóngur árið 1952 á Víði GK-510. Varð aflakóngur 1957 á Víði II og margfaldur aflakóngur í heimaverstöð og á landsvísu árin 1955-1959.
Eggert var frumkvöðull í notkun ýmissa tækninýjunga. Hann notaði dýptarmæli til að finna síldina og kastaði síðan nótinni eftir skrúfuvatninu. Þá varð Eggert fyrstur íslenskra skipstjóra til að ná verulegum árangri í notkun ASDIC-fiskileiktartækis, en með asdicinu var hið fullkomna fiskileitartæki komið til sögunnar. Þá var Eggert í hópi frumherja við notkun kraftblakka á síldveiðum.

Minnisvarðinn stendur við Byggðasafnið í Garði sunnan við Reykjanesvita.

Þormóðsslysið 1943

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Þormóðsslysið.

Þormóðsslysið varð 18. febrúar 1943. Vélskipið Þormóður BA 291 frá Bíldudal fórst við Garðskaga 18. febrúar 1943 eftir langa og stranga baráttu í óveðri á utanverðum Faxaflóa. Með skipinu fórst þrjátíu og einn, tuttugu og fjórir farþegar og sjö í áhöfn. Fern hjón voru í hópi farþega og eitt barn.

Skipverjar á Þormóði BA 291:

Gísli Guðmundsson, skipstjóri
Bárður Bjarnason, stýrimaður
Lárus Ágústsson, 1. vélstjóri
Jóhann Kr. Guðmundsson, 2. vélstjóri
Gunnlaugur Jóhannsson, matsveinn
Björn Pétursson, háseti
Ólafur Ögmundsson, háseti.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Þormóðsslysið.

Farþegar úr Dalahreppi:

Benedikta Jensdóttir
Guðbjörg Elíasdóttir

Farþegar frá Patreksfirði:

Séra Þorsteinn Kristjánsson
Þórður Þorsteinsson

Farþegi frá Hvammstanga:

Guðmundur Pétursson

Farþegar frá Bíldudal

Ágúst Sigurðsson
Jakobína Pálsdóttir
Áslaug Jensdóttir
Bjarni Pétursson
Fjóla Ásgeirsdóttir
Gísli Kristjánsson
Séra Jón Jakobsson
Jón Þ. Jónsson
Karl Eiríksson
Kristján Guðmundsson
Indíana Jónsdóttir
Loftur Jónsson
Málfríður Jónsdóttir
Óskar Jónsson
Salóme Kristjánsdóttir
Þorkell Jónsson
Sigríður Eyjólfsdóttir
Bjarni 7 ára sonur Sigríðar og Þorkels
Þorvaldur Friðfinnsson

Minnisvarðinn er á Garðskaga, á sjóvarnargarðinum skammt frá vitanum og var afhjúpaður árið 2023.
Annar minnisvarði um Þormóðsslysið er á Bíldudal.

Hallgrímur Pétursson (1614-1674)

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Hallgrímur Pétursson.

Prestur og sálmaskáld, hann var þekktastur fyrir Passíusálmana.

Hallgrímur fæddist árið 1614 í Gröf á Höfðaströnd, en ólst upp á Hólum. Hann fór til iðnnáms til Danmerkur og Þýskalands um 1630. Hann lærði járnsmíði og steinsmíði en kom síðar til Kaupmannahafnar og stundaði þar nám í Frúarskóla. Í Kaupmannahöfn kynntist hann Guðríði Símonardóttur sem kom til Kaupmannahafnar ásamt fleirum sem rænt var í Tyrkjaráninu 1627. Þau felldu hugi saman og komu til Íslands 1637 og settust þau að á Bolafæti í Njarðvík (sjá næsta minnisvarða).
Hallgrímur varð prestur í Hvalsnesi árið 1644 og bjó þar til 1651 og líkaði Hallgrími þunglega vistin þar. Honum fæddist dóttir þar, Steinunni, en hún dó ung og varð föður sínum mikill harmdauði. Hallgrímur gerði legstein yfir gröf Steinunnar og er steinninn nú í Hvalsneskirkju. Lengi vel var steinninn týndur en fannst um miðja 20. öld í kirkjustéttinni á Hvalsnesi.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Magnús Magnússon.

Árið 1651 fékk Hallgrímur veitingu fyrir Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Þar líkaði honum visitin vel og þar bjó hann og þjónaði til dauðadags. Í Saurbæ orti hann Passíusálmana og aðra sálma sem enn eru sungnir.

Minnisvarðann, sem er við Hvalsneskirkju, gerði Páll Guðmundsson á Húsafelli.

Magnús Magnússon (1915-1994)
Í Listigarði norðan garðvegar er grágrýtissteinn. Á honum er skjöldur: „Til minningar um Magnús Magnússon Bræðraborg, f. 29. ágúst 1915 – d. 26. 4. 1994.
Garður þessi er gefinn bæjarfélaginu Garði á 90 ára árstíð Magnúsar sem var mikill áhugamaður um ræktun og umhverfi. Gefendur eru: Unnur Björk Gísladóttir og afkomendur þeirra hjóna.“

Sigurður B. Sivertsen

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Sigurður Sívertsen.

Sóknarprestur á Útskálum f. 2.11.1808 – d. 24.5.1887.
Stofnandi Gerðaskóla 1872.

Sveitarstoð og styrkur
stöðugt reyndist hann
landiog lýð til heilla
lífsstarf fagurt vann.

Sigurður B. Sívertsen (f. 2. nóvember 1808 í Seli í Reykjavík, d. 24. maí 1887 á Útskálum í Garði), var prestur á Útskálum.

Hann var sonur hjónanna Brynjólfs Sívertsens (Sigurðssonar) prests á Útskálum (áður dómkirkjuprests í Reykjavík og prests í Holti undir Eyjafjöllum) og Steinunnar Helgadóttur konu hans. Sigurður var vígður aðstoðarprestur föður síns með konungsundanþágu vegna aldurs þann 18. september 1831. Hann bjó á Gufuskálum í Leiru 1833 en tók við Útskálum af föður sínum 1. mars 1837 og var prestur þar til ársins 1886, þá orðinn blindur. Kona hans var Helga Helgadóttir (1809-1882) og komust 3 barna þeirra upp. Hálfbróðir Sigurðar var Helgi G. Thordersen biskup, en þeir voru sammæðra.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Sigurður Sívertsen.

Séra Sigurður var mikill og góður búmaður og hlaut verðlaun bæði frá Búnaðarfélagi Suðuramts og frá danska landbúnaðarfélaginu. Hann var forgöngumaður um stofnun barnaskóla í Garði, sem hefur starfað þar óslitið frá árinu 1872. Hann varð riddari af Dannebrog árið 1874. Sigurður var ötull og vel metinn og góður kennimaður. Hann stundaði ritstörf alla tíð á meðan hann hélt sjón og eftir að hann varð blindur lét hann skrifa fyrir sig. Eftir hann liggja æviminningar, greinar í blöðum, Suðurnesjaannáll og Bæjaannáll í Útskálaprestakalli auk fleiri rita sem ekki hafa verið gefin út.

Minnisvarðinn stendur framan við Gerðaskóla.

Minnisvarði til minningar um drukknaða sjómenn

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; minnismerki um drukknaða sjómenn.

Leiði óþekkta sjómannsins í Útskálakirkjugarði. Við minnisvarðan er skilti: „Árið 1946 fannst sjórekið lík í Lambastaðavör í Garðahreppi. Lík þetta var þannig á sig komið að það var með öllu óþekkjanlegt.
Við kistulagningu atvikaðist það svo að ekki náðist til prests, en Þorlákur Benediktsson í Akurhúsum flutti þar hugnæma bæn.
Var líkið svo jarðsett í Útskálakirkjugarði og hefur leiði þess síðan verið leiði hins óþekkta sjómanns.
Þessi frásögn birtist í jólablaði Faxa árið 1960.“

Súlan er fagurlega skreydd. Undir henni eru nokkrir skildir með nöfnum drukkaðra sjómanna.

Jón Forseti RE 108

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Jón forseti.

Minnismerkið er skjöldur á grágrýti. Ofan á því er eftirmynd af togaranum. Á skildinum stendur: „28. febrúar 1928 strandaði togarinn Jón Forseti RE 108. Togarinn strandaði á skerinu Kolaflúð sem er beint framunan Stafnesvita. 15 manns fórust og 10 menn björguðust við illan leik.
Strandið varð til þess að flýta stofnun Slysavarnafélags Íslands.
23. júní sama ár var Slysavarnasveitin Sigurvon stofnuð í Sandgerði og er hún elsa sveit innan SVFÍ.
Jón Forseti var fyrsti togarinn sem smíðaður var fyrir Íslendinga.

Blessuð sé minning þeirra sem fórust í þessu slysi.“

Minnisvarðinn stendur við bifreiðastæði skammt frá Stafnesvita og var upphaflega afhjúpaður árið 2009. Við minnisvarðann eru 15 stórir steinar sem tákna þá 15 sem fórust við strandið.

Minnisvarði um drukknaða sjómenn

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; mnnismerki um drukknaða sjómenn.

Minnisvarðinn eru þrír stuðlabergsstandar. Við þá er skilti: „Minnisvarði um drukknaða sjómenn.

Þegar brotnar bylgjan þunga
brimið heyrist yfir fjöll,
þegar hendir sorg við sjóinn
syrgir tregar þjóðin öll. – J. Magnússon.“

Minnisvarðinn var reistur á Sjómannadaginn 1999.
Varðinn er verk systkinanna Írisar Jónsdóttur og Þorsteins Jónssonar og var reistur að frumkvæði Axels Arndal Vilhjálmssonar, formanns sjómannadagsráðs Sandgerðis. Undir minnismerkinu eru steinar og skidir með nöfnum horfinna sjómanna.

Minnisvarðinn stendur nyrst í Hvalsneskirkjugarði.

Álög – Minnisvarði um drukknaða

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Álög.

Horfnir sjómenn Sandgerði – Minnisvarði um drukknaða í Sandgerði.
Minnisvarðinn er eftir Steinunni Þórarinsdóttur og var afhjúpaður á Sjómannadaginn 1986 í tilefni af 100 ára afmæli Miðneshrepps.
Þrjár rústfríar öldur tákna að hafið sé eilíft, en maðurinn er úr pottstáli og ryðgar, sem táknar að maðurinn sé forgengilegur.

Minnisvarðinn stendur við innaksturinn í Sandgerði, sunnan Sandgerðisvegar skammt norðan íþróttasvæðisins.

Grímsvarða

Grímsvarða

Suðurnesjabær – minnisvarði; Grímsvarða.

Á minnsivarðanum er skjöldur: „Grímsvarða endurreist 2014.
Til minningar um þá sem látist hafa á Miðnesheiði. Vörðurnar voru tvær“.

Grímsvarða eða Grímsvörður við Sandgerðisveg voru sunnan vegarins, skammt frá gamla Sandgerðisveginum. Vörðurnar voru fjarlægðar þegar nýi Sandgerðisvegurinn var lagur. Varða á þeim stað hefur nú verið endurreist og er nú minnisvarði um þá sem látist hafa á Miðnesheiði. Það var fyrir tilstuðlan þeirra Guðmundar Sigurbergssonar og Sigurðar Eiríkssonar í Norðurkoti að varðan var endurreist.

Þeir Guðmundur og Sigurður eru áhugamenn um sögu Miðnesheiðar og hafa m.a. endurhlaðið vörður á þjóðleiðinni yfir heiðina, s.s. Einmenningshólsvörðu, Gotuvörðu og Efri-Dauðsmannsvörðuna gegnt Vegamótahól.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Grímsvarða.

Miðnesheiði er mannskæðasta heiði landsins og í kirkjubókum á Útskálum eru nafngreindir næstum 60 einstaklingar sem orðið hafa úti á heiðinni í aldanna rás. Talið er að þeir séu mun fleiri. Nú er Miðnesheiði sakleysisleg á að horfa en ástæða þess að svo margir hafa orðið úti þar er að heiðin veitir lítið skjól og þar eru fá kennileiti og því var auðvelt að villast þar á árum áður þegar hvergi sást til ljósa.

Prestsvarða

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Prestsvarða.

Sagt var, að síra Sigurður Sívertsen, sem prestur var á Útskálum fyrrum, hafi einhverju sinni verið þarna á ferð að vetrarlagi. Kom hann úr Keflavík og ætlaði heim til sín að Útskálum. Talið var að leiðin væri tveggja tíma gangur eða meira eftir þeim vegi sem þá var farinn. En við lestagang voru allar vegalengdir miðaðar á þeim tímum. Þegar prestur kom út á móts við miðja Leiru villtist hann af leið. Fannst honum líðan sín þannig að hann treystist ekki til þess að halda áfram ferðinni. Prestur tók það ráð að leggjast fyrir og vera kyrr alla nóttina. Nokkru síðar lét síra Sigurður hlaða upp vörðu á þessum stað. Var hún ferstrend eins og margar grjótvörður. En eitt var það, sem gerði hana frábrugðna öðrum vörðum. Á hlið þeirri sem að austri snéri var allstór flöt hella sem á var höggvið sálmavers.

Leturhella er við Prestsvörðuna. Á hana er letrað:

„1876 21.JAN Í FRIDI LEGST ÉG
FYRIR Í FRIDI ER ÉG ÞVÍ ÞÚ
EINN DROTTINN ERT ÞAÐ SEM
LÆTUR MIG BÚA ÓHULTAN Í NÁÐUM.“

Framangreint vers er greinilega úr Davíðsálmi 4. kafla 9. vers: „Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhultan í náðum.”

Varðan er skammt sunnan við gamla Garðveginn sunnan Leirunnar.

Ólafur Jónsson (1853-1920) – Einar Ólafsson (1877-1925)

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Ólafur Jónsson.

„Til minningar um Ólaf Jónsson (stóra) frá Kotvogi í Höfnum f. 19.10.1853, d. 31.12.1920.
Makar: Sólveig Einarsdóttir Kötluhóli Leiru og Ingibjörg Tómasdóttir Naustakoti Hvalsnesi.

Einar Ólafsson frá Klapparkoti Miðneshreppi f. 8.9.1877 d. 30.7.1925.
Maki: Ágústa Jónsdóttir Réttarholti Skagaströnd.
Blessuð sé minning þeirra.“

Minnisvarðinn, steinn með skilti er sýnir framangreinda áletrun stendur í Útskálakirkjugarði.

Efri-Dauðsmannsvarða

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Efri-Dauðsmannsvarða.

Vestan við Vegamótahól, þar sem voru gatnamót Sandgerðisgötu og Bæjarskersvegar, liggur gatan undir nýja Sandgerðisveginn, en kemur aftur undan honum í Draugaskörðum. Ofan við þau eru t.d. endurhlaðin Efri-Dauðsmannsvarðan. Þar liggur hann áfram til suðurs framhjá Dynhól. Fallnar vörður eru vinstra megin götunnar svo til alla leið upp að Gotuvörðu. Á þeirri leið fer gatan aftur undir Sandgerðisveginn, liggur síðan samhliða honum spölkorn, og fer þá enn á ný undir hann til vesturs.

Vegmótahóll er nefndur eftir vegamótum Bæjarskersgötu og Sandgerðisgötu, sem þar eru sunnan hans. Sandgerðisgata er greinileg með sunnanverðum Vegamótahól og þar sem hún liggur vestur með hólnum, yfir slóða og í gegnum lúpínubreiðu. Handan hennar er hann vel greinilegur og víða hefur verið kastað upp úr veginum. Norðar sést vel til Digruvörðu í heiðinni.

Efri-Dauðsmannsvarða er sunnan Sandgerðisvegar og sést vel frá veginum, innan girðingar beitarhólfsins.

Neðri-Dauðsmannsvarða

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Neðri-Dauðsmannsvarða.

Skammt vestar og sunnan við Sandgerðisveginn gamla er vörðubrot; Dauðsmannsvarðan neðri. Þar segir sagan að maður hafi orðið úti, líkt og svo margir aðrir á Miðsnesheiði í gegnum tíðina. Auk hins hefðbundna segir sagan að þar eigi að vera áletrun á steini. Sú áletrun hefur enn ekki fundist þrátt fyrir ítrekaða leit.

Til fróðleiks er rétt að geta þess að auk Dauðsmannsvarðanna efri og neðri, er til Dauðsmannsvarða í heiðinni við Fuglavíkurleiðina. Henni er gerð nánari skil í annarri FERLIRslýsingu.

Neðri-Dauðsmannsvarða er fallin og sést einungis ógreinlega þar sem hún hverfur í móann vestan Vegamótahóls.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Dauðsmannsvarða.

Dauðsmannsvarða ofan við Bjarghús
Enn ein Dauðsmannsvarðan er í heiðinni ofan við Bjarghús. Hún stendur nokkuð heil enda hafði Sigurður Eiríksson í Norðurkoti lappað duglega upp á hana. Varðan er ekki við þekkta leið, en er eftir sem áður þannig staðsett að greiðfært hefur verið þarna yfir heiðina millum Keflavíkur og Fuglavíkurhverfisins.

Fornmannaleiði í Garði – Haugbúinn
Skammt frá bænum Vegamótum í Garði, sem nú er kominn í eyði, er stór steinn, hellulaga, og eru undir og við hann þrír steinar, sem hann hvíldi áður á. Munnmæli eru um, að eitthvert torráðið fornletur hafi verið á steininum. Ef vel er að gáð má sjá leifar áletrunarinnar þvert yfir steinhelluna. Hún virðist vera sem rúnir, en hefur hingað til verið ólæsileg þeim er til þekkja. En sögn er, að undir þessum steini hvíli fornmaður nokkur, og steininn megi alls ekki hreyfa.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Haugbúinn.

Nú er það á öldinni sem leið, að á Lykkju í Garði bjó Þorsteinn Ólafsson, faðir Björns hafnsögumanns í Hafnarfirði og afi sér Þorsteins Björnssonar fríkirkjuprests í Reykjavík. Þorsteinn Ólafsson var framkvæmdamaður mikill og kappsfullur. Eitt sinn stóð hann í einhverjum byggingum og vantaði tilfinnanlega stóran stein. Kom honum þá í hug að steinninn á leiði fornmannsins mundi henta sér ágætlega. Þorsteinn vissi þó hverjar sagnir gengu um steininn, að hann mætti ekki hreyfa, því að þá mundi illt hljótast af. En hann var maður ófælinn og kjarkmikill og lét sér ekki smámuni fyrir brjósti brenna, enda var hann hið mesta karlmenni. Varð það svo úr, að hann safnaði mönnum til að bera steininn heim, og urðu þeir 8 saman. En steinninn var svo þungur, aðþeir áttu fullt í fangi með hann, enda þótt þeir væru svo margir. Eftir mikið og langt erfiði komu þeir honum þó á þann stað, en Þorsteinn hafði ætlað honum.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Haugbúinn.

Eftir að þessu stórvirki var lokið, var Þorsteinn að vinna eitthvað úti við. Skyndilega syfjaði hann þá svo mjög, að hann mátti ekki halda sér vakandi. Fór hann því heim, gekk upp á baðstofuloft, hallaði sér upp í rúm og var þegar sofnaður. Dreymir hann þá, að upp úr baðstofustiganum kemur maður, stór og aðsópsmikill, og skipar honum harðalega að skila steininum þangað sem hann var tekinn. Þorsteinn hrökk upp við þetta og þóttist sjá á eftir manninum niður stigann.

Var Þosteinn nú glaðvaknaður. Ekki setti hann þetta neitt fyrir sig, heldur fór á fætur og gekk út til vinnu sinnar, sem hann hafði frá horfið.

En hér fór sem áður, að skyndilega sækir hann svefn svo að hann má ekki halda sér vakandi. Lagðist hann þá út af og sofnaði skjótt. Kemur þá sami maðurinn að honum aftur og er nú enn byrstari í bragði, er hann skipar Þorsteini að skila steininum. Þorsteinn hrekkur upp við þetta og íhugar draum sinn. En vegna þess að hann trúði ekki á neina fyrirburði, ætlaði hann að humma þetta fram af sér. Og enn fer hann til vinnu sinnar.
Fór nú sem fyr, að brátt syfjar hann svo, að hann má ekki annað en leggjast til svefn og sofnar þegar. Kemur hinn ókunni maður þá til hans í þriðja sinn og er nú ærið gustmikill. Gengur hann að Þorsteini, tekur um fót hans og kreistir fast og segir að honum skuli hefnast fyrir, vilji hann ekki skila steininum.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Haugbúinn.

Nú vaknar Þorsteinn og er honum þá nokkuð brugðið. Finnst honum sem hinn ókunni maður haldi enn heljartaki um fót sinn. Og rétt á eftir laust æðisverk í fótinn, svo hann mátti varla bera þær kvalir hljóðalaust.
Hann sagði nú konu sinni frá draumum sínum, en hún sagði að steininn skyldi þegar flytja á sinn stað. Þorsteini var ekki um það, vildi ógjarna láta undan því er hann kallaði draumarugl. En ú varð konan að ráða.

Voru þá fengnir menn til að flytja steininn aftur á sinn stað, og urðu þeir fjórir saman.
Einn af þessum mönnum hét Stefán Einarsson og var frá Króksvelli í Garði. Hann sagði mér svo frá síðar, að þeim hefði virzt steinninn mjög léttur og veitzt miklu auðveldara fjórum að bera hann en þeim 8, sem höfðu sótt hann.
Síðan hefur enginn hróflað við steininum.

Við fornleifauppgröft á hólnum, sem letursteinninn liggur undir, fyrir nokkrum árum kom í ljós að þar er enga dys að finna, einungs grjótklöpp.

Ellustekkur í Garði

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Ellustekkur.

Skammt ofan við þjóðveginn í gegnum Leiruna er lítill grasi gróinn hóll eða þúfa, sem kölluð er Elínarstekkur (Ellustekkur). Það var að sögn heygð Elín, niðursetningur frá Gufuskálum, sem dó á dularfullan hátt á 18. öld.

Sögu þessa og staðsetningu stekksins hef ég eftir ábendingum Ólafs Sigurjónssonar frá Litla-Hólmi.
“Þegar bílvegur var lagður um Leiruna, um og eftir 1920, var honum valið stæði ofan við byggðina, skammt austan við Elínarstekk. Þessi vegur var síðan breikkaður, eins og fleiri þjóðvegir á árum seinni heimstyrjaldarinnar, og náði þá uppundir stekkinn.

Ellustekkur

Ellustekkur.

Það var sumarið 1787 að Elín Stefánsdóttir, blásnauður niðursetningur á Gufuskálum, fannst örend í snærisspotta í hjalli þar skammt frá bænum. Vegna deilna hennar og vinnumanns, þar á bænum, þótti dauði hennar ekki einleikinn.

Haldgóðar vísbendingar fengust þó ekki um að Elín hafi verið myrt, þrátt fyrir réttarhöld. Þess vegna var talið að hún hefði tekið líf sitt í skyndilegu æði, sem að hefði borið um nótt.
Elín var því, samkvæmt kirkju- og landslögum, heygð utan vígðrar moldar og var holað niður utan túngarðs í Leirunni, í sauðfjárstekk frá bænum á Gufuskálum.

Ellustekkur er sunnan Garðvegar, skammt austan Garðs.

Gerðaskóli – Skólinn í Garði

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Gerðaskóli.

Veturinn 1871-72 gekkst Sigurður fyrir því að bændur í Garði hlaði veggina í skólann í Gerðum. Voru það heljar þykkir veggir úr grjóti, utan og innan og sandur á milli. Auk aðalhússins voru byggð baðstofa með þriggja rúma lengd, þrjú rúm hvoru megin, var hún upphaflega ætluð börnum sem sóttu skólann lengra að. Aftan við hana var feykimikið eldhús handa skólanum. Þessar byggingar stóðu þar sem nú heitir í Fjósum eða Skúlhúsum. Húsaskipan var svo háttað, að tvær kennslustofur voru niðri og loft uppi til íbúðar fyrir kennara, en efst var hanabjálki. Var byggingunni lokið á öndverðu hausti árið 1872.
Gerðaskóli var svo settur 7. október 1872. Var mikið fölmenni þar saman komið. Hélt séra Sigurður þar skörulega ræðu og skýrði þar meðal annars frá tilætlan sinni og framkvæmdum. Til kennara hafði séra Sigurður valið Þorgrím Þ. Guðmundsson. Prestur fékk kennara í hendur bók þá, er enn er til hér í skólanum og heitir Dagbók barnaskólans í Gerðum. Í þá bók skyldi rita nöfn allra þeirra barna er í skólann gengu, lengri eða skemmri tíma, svo og skýrslu um kennslu hans og yfirheyrslur barnanna að hverri viku liðinni og svo vitnisburð um framför barnanna, gáfur og siðferði.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Gerðaskóli.

Nemendur fyrsta skólárið voru 15 talsins. Námsgreinarnar sem kenndar voru í Gerðaskóla fyrstu árin voru, kristindómur (kver og biblíusögur), lestur (nýja testamentið, lestrarbók), skrift (eftir skrift kennarans), réttritun, reikningur. Skólinn stóð til aprílloka fyrstu tvö árin, eftir það ákvað nefndin að skólinn skyldi vera í tveimur deildum og börnum skipt eftir aldri, kunnáttu og þroska, og skyldi skóla vera lokið 14. mars og var þá ákveðið að kennarar skildu vera tveir og stóð svo lengi.
Hætt var að nota bygginguna til skólahalds árið 1887. Síðar var húsið notað sem samkomuhús um áraraðir.

Minnismerki um Gerðaskóla er grágrýtissteinn. Steinninn stendur skammt frá Sjólyst ofan Gerðahafnar. Á skildi á steininum stendur: „Gerðaskóli – Hér stóð fyrsta hús Barnaskólans í Gerðum, byggt af fríviljugum samskotum. Í því var kennt 1872-1887.“

Tómasarhóll

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Tómasarvarða.

Á Tómasarhól er Tómasarvarða. Hvorutveggja er skammt frá Fuglavíkurseli, innan varnargirðingarinnar á Miðnesheiði.
Margir urðu úti á þessari leið á 18. og 19. öld og er að finna í heiðinni nokkrar
vörður til minnis um þá; a.m.k. þrjár tilteknar Dauðsmannsvörður, Tómasarhóll og
Ólafsvarða eru dæmi um slíkar vörður.

Ólafsvarða
„Landamerkjavörður og stakar vörður eru víða að finna á heiðinni. Hlutverk hverrar og einnar er ekki alltaf ljóst og mun e.t.v. ekki verða hægt að segja til með vissu hvort þær séu allar landamerkjavörður fyrr en skráningar liggja fyrir á öðrum landmerkjavörðum, eða mörkum milli jarðanna neðar í landinu, að teknu tilliti til þróunar byggðar frá landnámi, en landamerki færðust til frá einum tíma til annars þegar jarðir skiptust upp – ein af annarri.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Ólafsvarða.

Sumar þessara stöku varða gætu líka verið minnismerki um fólk, sem hefur orðið úti á heiðinni, en nákvæm vitneskja um það hafi síðan glatast. Fjöldi slíkra varða er hins vegar þekktur á Reykjanesi. Ein er innan girðingar en það er Ólafsvarða og rétt utan girðingar norðanmegin við flugvöllinn er Dauðsmannsvarða og Tómasarhóll. Ólafsvarða mun raskast við framkvæmdina og lendir undir flugbrautinni en aðrar stakar vörður eru ekki í hættu. Má hugsa sér sem mótvægisaðgerð að taka grjótið og endurhlaða Ólafsvörðu rétt utan við Vestan við Rafnkelsstaði í Garði er Kisturgerði“. segir í Fornleifaskráningu á Miðnesheiði árið 2014.

Ekki er vitað hvaða Ólafur þetta var. Í örnefnaskrá segir: „Þá er Ólafsvarða. Með gamla veginum ofan við Melabergsvötn er Neðri-Glæsir. Það er varða á hól. Þar rétt ofar er önnur, sem heitir Efri-Glæsir.“ Ólafsvarða er um 10 metrum norðan við Hvalsnesleiðina-Melabergsgötur. Hún er heil, um 1,40 á hæð og 1,10 á breidd. Varðan hefur hátt minjagildi.

Kistugerði

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Kistugerði.

Þar segir þjóðsagan að sé fornmanngröf og í henni gullkista. Gerðið er í rauninni pollur undir klapparvegg, grænlitur. Reyndar eru áhöld um að staðsetningu gerðisins. Sumir telja það uppi á klöppunum og skammt utar, en skv. sögunni á að vera letursteinn með rúnum við það. Sá steinn er nokkru neðar og norðar, við gerðið undir berghömrunum. Þjóðsagan segir að fjársjóður Rafnkels hafi verið grafinn með honum þarna í gerðinu. Reyni einhver að grafa hann upp mun þeim hinum sama sýnast bærinn standa í ljósum logum. Sagan er svipuð sögunni um fjársjóðinn í Silfru við Járngerðarstaði í Grindavík og fleiri álíka.
Einhverjir munu hafa viljað leita fjársjóðsins fyrir nokkrum árum með stórtækum tækjum. Við það valt letursteinninn, sem verið hafði við gröfina, niður hallann og staðnæmst þar sem hann nú er, skammt ofan við ströndina.
Erfitt er að lesa út úr rúnunum á steininum, en þær eru svipaðar og á álagsteininum Heródesi við Grindavík.girðinguna þar sem Hvalsnesleiðin-Melabergsgötur koma að girðingunni vestan við flugvöllinn, enda reist til að minnast sögulegs atburðar, manns sem varð úti á leiðinni.

Letursteinninn er niður undir fyrrum sjávarhamri skammt austan Rafnkelsstaða.

Þórshöfn – HP-áletrun

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Þórshöfn.

Í ritgerð Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi um Miðnesheiðina 1903 segir: „Milli Bátsenda og Þórshafnar var mér vísað á vörðubrot, er steinn væri í með áhöggnu fangamarki Hallgríms Péturssonar og ártali. Það er og svo; fangamarkið er HP; en ártalið er 1728.“ Hallgrímur Pétursson, prestur og sálmaskáld, var á Suðurnesjum frá árinu 1637 til 1651, prestur í Hvalsnesi síðustu 7 árin, en þá fluttist hann þaðan fyrir fullt og allt og gerðist prestur í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Hann andaðist 27. október árið 1674, sextugur að aldri. Ritaðar heimildir geta ekki um heitið „Hallgrímshella“ sem menn eru teknir að kalla stein þennan.
Engar vísbendingar fundust um aðrar mannvistarleifar en brýnt er að forvörður meti hvort og þá til hverra aðgerða þurfi að grípa til þess að bjarga þessari áletrun frá glötun.

HPD-steinninn

HPD-steinninn úr fyrrum Duushúsum.

Framangreind „Hallgrímshella“ er nú í vörslu Þjóðminjasafnis. Ártal á henni passar ekki við ártíð Hallgríms Pétursson. Ofan við Þórshöfn er hins vegar áletrun á „steinaltari“; HP. Vilja margir meina að þar sé komið fangamark nefnds Hallgríms, en hann ku á fyrstu árum sínum sem prestur í Hvalsneskirkju farið fótgangandi millum hennar og heimilis síns að Bolafæti í Njarðvíkum. Líklegra er þó að þarna sé um að ræða fangamark Hans Péturs kaupmanns Duus, en hann var einmitt kaupmaður í Keflavík á þeim tíma sem ártölin á steinhellunni gefa til kynna, um 1880. Samskonar fangamark er á hornsteini Duushúsa og á pakkhúslofti verslunarinnar. Hans Pétur verslaði í Þórshöfn á þessum tíma.

Minnisvarði um drukknaða sjómenn

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; minnismerki um drukknaða sjómenn.

Um er að ræða hvítmála styttu af sjómanni við fyrrum sjólist ofan við Gerðahöfn. Á fótstalli styttunar er skilti er á stendur. „Til minningar um drukknaða sjómenn – Mangi frá Mel; Listaverk eftir Helga Valdimarsson“.

Minning um Gíslu S. Vigfúsdóttur
Um er að ræða hvítmála styttu af biðjandi konu utan við hlið kirkjugarðs Útskálakirkju. Á fótstalli hennar er skilti: „2023 – Ég bið fyrir þér (I pray for you) – Verk eftir Helga Valdimarsson. Gefið Útskálakirkju til minningar um konuna mína, Gíslu S. Vigfúsdóttur“.

Skagagarðurinn
Minnisvarði um Skagagarðinn hinn forna er sunnan Garðbrautar þar sem hús nr. 25 stóð áður. Á skilti við minnismerkið segir m.a.: „Skagagarðurinn mun hafa verið um 1500 metra langur og var fyrr á öldum um einn og hálfur metri á hæð og afar þykkur. Í tímans rás hefur hann hins vegar flast út og fengið ávalan svip.
Lengi ver var talið að garðurinn væri frá 13. og 14. öld, en fyrstu ritheimildir um hann eru frá árinu 1528. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó leitt í ljós að garðurinn hefur varla verið hlaðinn síðar en á 10. öld.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Skagagarðurinn.

Garðinum hefur sennilega verið ætlað að halda sauðfé frá kornökrum á norðanverðum skaganum, en örnefni og fornar akurreinar benda til umfangsmikillar akuryrkju á Suðurnesjum fyrr á öldum.
Ljóst er að garðurinn hefur girt með öllu fyrir skagann. Því við báða enda hans tóku við miklir túngarðar, en samkvæmt lögum íslenska þjóðveldisins var hver maður skyldugur til að verja vikum á ári til garðhleðslu.“

Sólveig Magnúsdóttir (1932-2020)

Hvalsnes

Suðurnesjabær – minnismerki; Sólveig Magnúsdóttir.

Tómasína Sólveig Magnúsdóttir fæddist 2. apríl 1932 í Nýlendu í Miðneshreppi. Hún lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund 15. febrúar 2020.

Minnismerki um Sólveigu er á Kirkjuhól (Austurbæjarhól) ofan við Hvalsneskirkju. Sumarbústaður hennar er skammt sunnar, utan garðs Hvalsnesstorfunnar. Hún reisti hann í skika er hafði tilheyrt Nýlendu.

Heimildir m.a.:
-Fornleifaskráning á Miðnesheiði 2000.
-Fornleifaskráning vegna aðalskipulags á Keflavíkurflugvelli – 2014.
-https://eirikur.is/minnisvardar/sudurland/

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Jón forseti.

 

 

 

 

 

Stafnes

Eftirfarandi frásögn séra Gísla Brynjólfssonar um „Básendaför á björtum degi“ birtist í Lesbók Morgunblaðsins 1978:
Miðnesið fyrr og nú
Basendar-220„Þennan dag er hópur á ferð um Suðurnes, eða þann hluta þeirra, sem áður hét Rosmhvalneshreppur (rosmhvalur = rostungur) og náði yfir Keflavík, Leiru, Garð og Miðnes. Miðnesið er geysilangt — ekki veit ég hvað margir km. Það byrjar með bæjunum Kolbeinsstöðum og Hafurbjarnarstöðum fyrir sunnan Skaga og nær alla leið suður að Ósabotnum, sem skilur Nesið frá Höfnunum. Í gamla daga var byggðin dreifð um alla þessa löngu strandlengju, að vísu nokkuð svo í hverfum. Sá stórfróði Suðurnesjamaður, Magnús Þórarinsson (f. 1879 d. 1964) sem var alveg einstæður sérfræðingur í Miðnesinu bæði til lands og sjávar, telur upp a.m.k. 9 útróðrastaði (varir) á Nesinu. — Langbestur þeirra var Sandgerði enda fór það svo, að Sandgerði dró til sín s.a.s. alla miðnesinga. Og raunar langtum fleira fólk, því að nú er þar saman komið hátt í 1000 manns, blómleg byggð fallegra einbýlishúsa, sem fjólgar óðfluga, en hin gamla dreifða byggð um Miðnesið endilangt er nú ekki nema svipur hjá sjón. En sú var ekki meiningin, að fara að fjölyrða um vaxtarbrodd útgerðarstaðanna á Suðurnesjum. Hér er ekki nútíðin — því síður framtíðin — á dagskrá. Fjarri fer því.
Fyrir tveim öldum
Basendar-223Hér skal litið um öxl — a.m.k. tvær aldir aftur í tímann — og litast um á björtum degi þeim slóðum þar sem allt fór í auðn árið fyrir aldamótin 1800. Og hefur ekki verið byggð síðan. Þetta eru Básendar fyrir eina tíð syðsta byggðin á Miðnesi en tók af í flóðinu mikla, sem við plássið er kennt — Básendaflóðið — aðfaranótt 9. janúar 1799. — Ekki eru Básendar kunnir fyrir útræði heldur sem pláss þar sem „útnesjafólkið fátækt og spakt“ varð að leggja inn fiskinn sinn hversu léttur, sem hann reyndist, því að reizlan var bogið og lóðið var lakt eins og Grímur kvað í sínu kunna kvæði.
Bærinn Básendar var byggður í Stafneslandi upþhaflega hvenær skal ekki sagt. Þar var ekki mikið um fiskirí enda var Stafnes sjálft frá fornri tíð eitthvert besta útver og þaðan skemmst í fiskileit á öllu Miðnesi. Frá Stafnesi gengu líka konungsbátarnir. Hefur það eflaust verið nokkur hagur fyrir verzlunina að vera í næsta nágrenni við útgerð þeirra. Bæði enskir og þýskir hafa verzlað á Básendum fyrr á öldum. Gekk á ýmsu í viðskiptum þeirra þar eins og víðar við Faxaflóa og á Suðurnesjum. Eitt sinn (árið 1645) kom hollenskt skip á Básenda. Á því var íslenskur maður, Einar Þórðarson, — og verzlaði þar.

Verzlunarsvæðið
Basendar-224Árið 1640 var tekin upp sigling til Básenda eftir nokkurt hlé. Hélst svo, þar til verslun lagðist þar alveg niður. Verslunarsvæðið var Hafnir og Miðnes. Þó voru merkin ekki gleggri en svo, að mikil deila og málaferli urðu milli Básenda og Keflavíkurkaupmanns um nyrstu bæina á Miðnesi (Kirkjuból, Kolbeinsstaði og Hafurbjarnarstaði). Höfðu bæir þessi sótt verslun ýmist til Keflavíkur eða Básenda. Gekk dómur í málinu 1693 á þá leið, að svo skyldi standa, sem verið hefði aö undanförnu. — Voru menn því litlu nær. Þetta kom þó ekki að sök þegar sami kaupmaðurinn verzlaði á báðum stöðunum. Þá ber þess að geta, að Grindavík var a.m.k. annað veifið einskonar útibú frá Básendum. Fengu Grindvíkingar styrk til að flytja afurðir sínar til Básenda og úttektina heim. Samt var Básendaverzlunarsvæði fámennt og innleggið misjafnt. Það fór vitanlega eftir því, hvernig fiskaðist. Básendar voru dæmigerð fiskihöfn mótsett sláturhöfn, þar sem sveitabændur voru aðalviðskiptamennirnir.

Fámennur staður
Basendar-225Básendar voru því fámennur staður. Þar var lítið um að vera nema í kauptíðinni, sem stóð misjafnlega lengi fram eftir sumri eftir því hvenær kaupmanni þóknaðist að læsa búðinni og hætta að höndla, ef enginn var eftirliggjarinn.

Handa mús og maur
Næst síðasti kaupmaðurinn á Básendum hét Dines Jesþersen. Þegar hann hætti, lokaði hann búðinni 16. ágúst 1787. Mundi þá engin vara fást þar fyrr en næsta vor. Bændur í Rosmhvalaneshreppi með hreppstjóra og prest í fararbroddi kærðu þetta til Skula fógeta, töldu að með þessu væri mestum hluta sveitarinnar stefnt í opinn dauðann, skepnur voru fáar sökum grasleysis s.l. sumar, afli svo rýr s.l. vertíð, að „kauðstaðarvaran hrökk ekki fyrir vorum þungbæru skuldum“. En nógar matvörur lágu lokaðar inni í kaupstaðnum engum til nota nema mús og maur. En fólkið má deyja úr hor og hungri, kónginum og föðurlandinu til skaða.
Basendar-227Engum trúði þetta fólk betur til að rétta sinn hag heldur en honum, sem yfir rummungum reiddi hátt, réttar laganna sverð. Skúli brást heldur ekki trausti þeirra. Hann rak nauðsyn hinna bágt stöddu Suðurnesjamanna við Levetzone stiftamtmann, sem úrskurðaði, að eftir nýjárið mætti sýslumaður opna Básendabúð og láta fólkið fá nauðsynjar sínar, vitanlega eftir ströngustu útlánsreglum. Þrír fræðimenn Þrír menn hafa lýst ummerkjum á Básendum síðan þar varð auðn.
Um það bil hálfri öld eftir Básendaflóð var Magnús Grímsson, síðan prestur á Mosfelli, f. 1825 d. 1860, á ferð um Reykjanes til að athuga fornminjar. Um Básenda segir sr. Magnús, að á nesinu milli voganna sjáist greinilega rústir af Básendabænum. Það hefur verið lítill bær með vör niður undan út í norður-voginn. Litlu ofar eru rústir af búðinni og vöruhúsinu, 11 faðmar á lengd og 7 á breidd. Vestan þess var stór og mikill sjóvarnargarður. Ofan við vöruhúsið var kaupmannsúsiö. Utan um það hefur verið 200 ferfaðma garður. „Allar þessar rústir sýnast hafa verið vandaðar og sterklega gjörðar,… undirstöður hrundar, mjög skörðóttar.“
Basendar-229Inn í höfnina var vandratað, en legan góð. Kaupskipin munu hafa legið í syðri voginum bundin 4 eða 5 festum, „það kölluðu þeir svínbundið“. Tvo af festarboltunum sá sr. Magnús, ferkantaða járnstólpa með gati og digrum járnhring ryðbrunna mjög. Alls munu festarboltarnir hafa verið níu, 5 í fjörunni, 4 á útskerjum. Brunnur hafði verið á Básendum — djúpur og góður. Á botni hans var eikarkross og svo hver tunnan upp af annarri, svo að eigi félli saman. Nú fullur af sandi. —
Af örnefnum telur sr. Magnús þessi: Brennitorfa þar sem kaupmenn höfðu brennt út gamla árið. Nokkru sunnar er Draughóll þar sem sjómenn höfðu rótað í dys fornri án þess að finna nokkuð fémætt. Í suður frá Draughól eru klettar tveir allháir með nokkurra faðma millibili — Gálgaklettar. Áttu Básendamenn að hafa lagt tré milli klettanna og hengt þar menn þegar þá greindi mjög á við einhverja.
Basendar-231Lýsing V.G. – Næsta lýsing á Básendum er frá 1919. Þá var þar á ferð Vigfús fræðimaður Guðmundsson, og skrifaði síðan um Básenda og Básendaflóð í 3.h. Blöndu. Er oft og víða til hennar vitnað enda V.G. viðurkenndur nákvæmur og natinn fræðimaður. V.G. segir, að enn sjáist miklar leifar mannvirkja á Básendum: Fimm sambyggðar kofatætlur þar sem bærinn stóð grunnur vöruhússins, 20 m á lengd og 12—15 m á breidd og tveir húsgrunnar aðrir, en hæst og norðaustur á hraunrimanum telur V.G. að útihúsin hafi staðið. Þá getur hann um brunninn. fullan af sandi, kálgarð 400 m2 og lítil, kringlótt fiskbirgi, þar sem fiskurinn var verkaður í skreið. —
Á þangi vaxinni klöpp, 42 m frá húsgrunninum stóra, stendur gildur járnfleinn, 30 cm hár. Hann er steyptur í klöppina með bræddu blýi. Í gati á teininum er brot af hring. Í hann voru skipin á legunni bundin. Síðan rekur V.G. verzlunarsógu Básenda, segir frá flóðinu og síðasta kaupmanninum.
Lýsing M.Þ. – Sá þriðji, sem ritað hefur um Básenda, er Magnús Þórarinsson fyrrnefndur. Hans skrif er að finna í Safnritinu: Frá Suðurnesjum — „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi.“ — Magnús stráir um sig í örnefnum í krafti kunnleika síns og stálminnis. — Hann nefnir Stóra og Litla-Básendahól. Þarna er Gunnusandur, framan við hann Róklappir, Rósandur, Rósker, — fyrir utan það er skerjagarðurinn: Básendasker. Innan þeirra er ílangt lón — höfnin — með bindibolta á skerjum og klöppum í kring. Suðurtakmörk hafnarinnar eru við Arnbjarnarhólma. Þá nefnir Magnús Kuðungavík og Djúpuvík með Svartakletti. Ofan við hana eru Dauðsmannsklappir en sunnan hennar Skarfurð og Skarfurðartangi. Fram af henni er flúð, sem sjaldan kemur upp úr sjó. Hún heitir Vefja. Þar suður af er Stóísvík. í henni er klettur, nokkuð frá landi, oft alsetinn skörfum og ber nafnið Tómasarstóll. Tilefni þess er ókunnugt.

Nöfnin og náttúran
Basendar-233Þá skal láta lokið þessari þurru nafnarunu. Það getur verið næsta girnilegt til fróðleiks að reika um þessa auðu strönd og skoða myndir náttúrunnar eftir nafnaskrá hinna fróðu manna. — Hitt er allt annað en auðvelt, að setja sér fyrir sjónir mannlífið á Básendum meðan þar var annar aðal verzlunarstaður Suðurnesja. í kauptíð var þarna vitanlega mikið fjör og líf, ys og umferð, innlegg og úttekt. Og brennivínsstaup fyrir innan disk.

Búseta á Básendum
Utan kauptíðar var hér oftast aðeins fámennt heimili. Hér var hvorki búskapur né útræði í stórum stíl. Árið 1703 bjó á Básendabæ Árni Þorgilsson 47 ára með konu sinni Jódísi Magnúsd. 12 árum eldri, og dóttur þeirra Steinunni 17 ára. Þau höfðu vunnumann og vinnukonu. Hjá þeim er Árni Jónsson (60 ára) stjúpfaðir Jódísar, veikburða. Loks er Rasmus, eftirliggjari á Básendum. Þ.e. vetursetumaður til eftirlits fyrir kaupmanninn.

Basendar-235

Næstu áratugi fara ekki sögur af fólkinu á Básendum. Síðan er það að þakka sr. Sigurði Sívertsen á Útskálum, að við vitum hverjir bjuggu þar á síðari hluta 18. aldar. Hann ritaði sálnaregistur Hvalsnesþings 1758—1790 upp úr rotnum, sundurlausum blöðum. Það manntal sýnir, að á Básendum fjölgaði mikið um 1780. Þá eru þar til heimilis hátt í 20 manns: Kaupmaðurinn, Dines Jespersen, 40 ára, kona hans, 2 börn og tökubarn, pige (stofustúlka), beikir og kona hans, 2 drengir (námspiltar við verzlunarstörf) ráðsmaður, vinnumaður og vinnukona. Auk þess er þar Ingjaldur Pétursson tómthúsmaður með fólki sínu.

Básendaflóð
Basendar-239Hér verður ekki sagt frá Básendaflóðinu fræga, enda eru myrkar hamfarir náttúrunnar víðs fjarri blíðu þessa bjarta dags. En benda má þeim, sem um það vilja fræðast á frásögn Hansens kaupmanns, og birt er í fyrrnefndri grein V.G. í Blöndu. — Það er allt að því átakanlegt, að lesa um það, hvernig flóðaldan hrífur kaupmanninn, þennan „almáttuga“ mann og allt hans fólk, hrekur þau stað úr stað uns þau bjargast upp á baðstofupallinn í Loddu (Lúövíksstofu), nær „örmagna af kulda, áreynslu og hugsýki“ og var tekið þar af mestu alúð og hjartagæzku. Þannig kastaði Básendaflóðið síðustu kaupmannsfjölskyldunni á Básendum í fang eins fátæks hjáleigubónda, sem barg henni frá bráðum bana.

Ræningjarnir dönsku
Stafnes-226Þessi síðasti Básendakaupmaður — Hinrik Hansen — hefur ekki fengið neitt slæman vitnisburð í verzlunarsögunni. Það er því ekki hans sök, að yfir Básendum hvílir dökkur skuggi áþjánar og einokunar, ekki síður en öðrum selstöðuverzlunum. Þar hafa skáldin haft sitt til málanna að leggja.
Ólína Andrésdóttir segir í þulu um Geirfuglasker: Görpum þótti gífurlega geigvæn sú för, en betri samt en björg að sækja í Básenda vör. Betra samt en björg að sækja Básendum að, ræningjarnir dönsku réðu þeim stað.
Og allir kannast við kvæði Gríms „Bátsenda þundarinn“ um hann Tugason með bognu reizluna og laka lóðið svo „létt reynist allt sem hún vó“.
Þá kemur skörungurinn Skúli fram á sviðið og réttir hlut hins fátæka útnesjafólks: Hann skrifaði lítið og skrafaði fátt en — skörungur var hann í gerð og yfir rummungum reiddi hann hátt réttar- og laganna sverð.
Þetta er hressileg blaðsíða í Básendasögunni.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, Gísli Brynjólfsson – Básendaför á björtum degi, 9. júlí 1978, bls. 6-7 og 12.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Fuglavíkurstakkir
Í ferð með Sigurði K. Eiríkssyni í Norðurkoti III benti hann FERLIR á myndarlegan „grashól“ er bar við sjónarrönd í austri af gömlu kirkjugötunni (Efri-götu) skammt sunnan við Hóla (Dagmálahæð).
Neðri-StekkurSagði Sigurður þar efra vera svonefna Fuglavíkurstekki. Þá var ekkert aðhafst frekar í könnun á mannvirkjunum, en afráðið að gera það við fyrstu hentugleika. Það var gert daginn eftir.
Í örnefnalýsingu fyrir Fuglavík segir m.a. um Stekkina: „Rétt ofan við veginn er grjóthæð ílöng, sem heitir Dagmálahæð. Suður frá henni ofan við veg, Neðri-Stekkur og Efri-Stekkur.“
Það var því ekki eftir neinu að bíða. Stefnan var tekin af Stafnesvegi millum Fuglavíkur og Melabergs. Miðað við Markavörðuna á merkjum neðra gátu Stekkirnir verið nálægt mörkum jarðanna.

Efri-Stekkur

Skammt vestar eru leifar gamallar vegagerðar, líklega frá því skömmu eftir aldarmótin 1900. Götuleifunum var fylgt áleiðis upp holtið, en þegar þær enduðu var vikið til hægri og stefnan tekin á „grashólinn“. Áður en komið var að honum féll Neðri-Stekkur að fótum fram. Um var að ræða tvískiptar samvaxnar aflangar tóftir. Sú syðri var gróin, en sú nyrðri ekki. Í henni mátti sjá grjóthleðslur og op mót vestri. Hæð á veggjum voru um 0.6 m. Þar sem mannvirkið var byggt á klapparholti má telja líklegt að örnefnið rísi undir nafni.
Skammt ofar voru öllu meiri mannvirki – og reisulegri. Þarna er Efri-Stekkur. Við fyrstu sýn líkist hann fjárborg, en þegar að er komið reynast þar vera tvískipt aflöng mannvirki. Op eru mót suðvestri. Heillegar grjóthleðslur sjást enn í syðri tóftinni, einkum við opið. Grjótið er flatt. Við skoðun á nágrenninu var slíkt grjót ekki að finna í námunda. Það gæti hafa verið flutt þangað á sleðum að vetrarlagi. Óvíst er hvaðan úr heiðinni.

Vatnsbólið

Útsýni frá Stekkjunum er ágætt að Melabergi og Hvalsnesi. Norðan við Efri-Stekk er vatnsból milli klappa. Í því eru stórir steinar og á nokkrum þeirra litlar vörður, ekki nýlegar. Vatnsbólið þornar væntanlega upp þegar líða tekur á sumrin, en í vætutíð gæti þarna auðveldlega legið vatn um langan tíma.
Rásirnar neðanvert við Stekkina eru grónar og hafa eflaust verið góð skjól fyrrum. Götu var að greina áleiðis upp heiðina milli þeirra og Hóla. Vörður voru á klöppum. Hún var ekki rakin að þessu sinni, en verður skoðuð í samhengi fyrir leitina að Hvalsnesseljunum tveimur, sem eiga að hafa verið í heiðinni.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir:
-Sigurður K. Eiríksson í Norðurkoti III (f: 1929).
-Örnefnalýsingar fyrir Fuglavík.

Vörður

Garður

Skagagarðurinn á Rosmhvalanesi er eitt fárra íslenskra mannvirkja frá miðöldum sem varðveist hefur. Fáum mun kunnugt um tilvist hans, en engu að síður má telja Skagagarðinn einhverjar merkustu forminjar landsins og gefur hann vísbendingar um löngu horfna atvinnuhætti.

Skagagarðurinn

Garðurinn lá frá bænum Kirkjubóli norður til Útskála. Við báða enda hans tóku við miklir túngarðar og munu mannvirki þessi því hafa girt með öllu fyrir skagann. [Hluti garðsins liggur norðan Hafurbjarnarstaða, en það gæti sagt nokkuð til um aldur og tilgang hans.] Sjálfur garðurinn var um 1500 metra langur, um einn og hálfur metri á hæð og afar þykkur. Í tímans rás hefur hann hins vegar flast út og fengið ávalan svip.
Lengi vel var talið að garðurinn væri frá 13. eða 14. öld, en elstu ritheimildir um hann eru frá árinu 1528. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó leitt í ljós að garðurinn hefur vart verið hlaðinn síðar en á 10. öld.
Garður
Garðinum hefur væntanlega verið ætlað að halda sauðfé frá kornökrum á norðanverðum skaganum, en örnefni og fornar akurreinar benda til umfangsmikillar kornræktar á Suðurnesjum fyrr á öldum. Herma þjóðsögur meira að segja að bærinn Sandgerði hafi upphaflega gengið undir nafninu „Sáðgerði“.
KirkjubólÁ hinum köldu öldum Íslandssögunnar áttu Suðurnesjamenn bágt með að trúa sögnum um akuryrkju á Garðsskaga fyrr á tíð. Þess í stað freistuðust þeir til að skýra byggingu Skagagarðsins á öllu skemmtilegri hátt.
Frá því að elstu menn kunnu frá að segja, höfðu verið haldnir vikivakar og jólaskemmtanir að bænum Flankastöðum. Þetta voru hinar mestu dans- og gleðisamkomur og oft drukkið meira en góðu hófi gegndi. Þar sem veislugestir frá Útskálum og öðrum bæjum af norðanverðum skaganum áttu yfir heiði að fara, gat bakaleiðin reynst æði varasöm, enda auðvelt að villast þegar saman fór myrkur, ölvun og flatt landslag án hæða, hóla eða annarra kennileita. Það var því hald manna að garðurinn hafi verið hlaðinn til að vísa slompuðum vegfarendum veginn.

Skagagarður

Skagagarðurinn – minnismerki.

Af vikivökunum að Flankastöðum er það hins vegar að segja að sr. Árni Hallvarðsson, prestur á Hvalsnesi 1743 til 1748, bannaði þá vegna óreglu. Var því spáð að Árna hefndist fyrir tiltækið og gekk það eftir þegar hann drukknaði skömmu síðar á leið til annexíunnar í Kirkjuvogi.

Heimild:
-www.sandgerdi.is

Skagagarðurinn

Skagagarðurinn – kort.

Stafnes

Stafnes (Starnes, Sternes, Stapnes, Stafsnes) er lítið nes á Reykjanesskaga, nánar tiltekið vestast á Miðnesi, nálægt Hvalsnesi. Þar er samnefnd jörð sem tilheyrði Rosmhvalaneshreppi en í dag Suðurnesjabæ. Upphaflega hefur nesið heitið Starnes (líklega eftir melgresi sem vex þar í fjörunni) og kemur fyrir undir því nafni í heimildum frá því um 1270 og síðar. Nafnið Stafnes kemur fyrst fyrir í Jarðabókum undir lok 17. aldar. Stafnes er í Hvalsnessókn.

Stafnes

Stafneshverfi.

Jörðin Stafnes hefur verið stórbýli frá upphafi með margar hjáleigur og útgerð, þótt höfuðbólið Hvalsnes hafi verið stærra, en varð fyrir miklum skemmdum vegna stórflóða og sandblásturs á 17. og 18. öld. Stafnes var keypt af Magnúsi Einarssyni biskupi fyrir Skálholt kringum árið 1140, en hefur síðan gengið til Viðeyjarklausturs, hugsanlega við stofnun þess. Við siðaskiptin varð Stafnes konungsjörð. Jörðin var boðin upp í Reykjavík 27. júní 1792 ásamt 24 öðrum konungsjörðum á Miðnesi, en boðin sem fengust voru svo lág að stjórnin féllst ekki á neitt þeirra. 10. september 1805 var jörðin svo loks seld á kaupþingi í Keflavík og komst í bændaeigu.

Stafnes

Stafnesviti.

Á Stafnesi var ein mesta konungsútgerð á Miðnesi frá því fyrir 16. öld og fram um miðja 18. öld. Árið 1548 eru í skilagrein Kristjáns skrifara talin upp á staðnum fimm skip í eigu konungs; einn tólfæringur, tveir teinæringar og tveir áttæringar, en með tímanum minnkuðu skipin og undir lokin voru tvíæringar orðnir algengastir á Miðnesi. Auk konungs gerðu útvegsbændur báta sína út frá Stafnesi, eins og kauphöfninni Básendum lítt sunnan við. Útgerð frá Stafnesi hélst töluverð fram undir miðja tuttugustu öld, en eftir það sáralítil.

Við Stafnes hafa verið tíð sjóslys um aldir, enda skerjótt þar úti fyrir. Á síðustu öld má nefna strand togarans Jóns forseta árið 1928, en þá fórust 15 menn og 10 björguðust. Þetta sjóslys mun hafa valdið miklu um stofnun Slysavarnafélags Íslands og fyrstu björgunarsveitar þess, sem er Sigurvon í Sandgerði. Á Stafnesi var reistur viti árið 1925.

StafnesAri Gíslason skráði eftirfarandi um Stafnes eftir Metúsalem Jónssyni: „Beint vestur af heimabæ í Stafnesi er hóll, sem heitir Vallarhúsahóll. Þar hefur verið mikil byggð hér áður fyrr. Ofan við efra húsið á Stafnesi í túni er hringur, nefndur Lögrétta. Ekki er vitað, hvað þetta var, og má geta þess, að hann er ekki eins í laginu og slíkir lögréttuhringir eru vanir að vera. Rétt vestur af húsinu eru allmiklar rústir, sem ekki er vitað um, hvað er. Austur af Eystrahúsinu í Stafnesi heitir Lodduvöllur, og í honum er Loddubrunnur.
Kvíslarhóll er gamall öskuhaugur við Loddu. Býli voru mörg hér og hvar, og örugglega eru sum þeirra farin alveg í sjó. Má t.d. nefna, að 1703 er talað um landssvæði, sem hét Snoppa. Nú veit enginn, hvar það hefur verið. Krumfótsbúð var gömul sjóbúð, sem ekki er vitað, hvar var.“

Stafnes

Austur-Stafnes.

Magnús Þórarinsson skrifaði um Stafnes í „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi„: „Syðsta örnefni í Hvalsneslandi var Mjósund. Er þá komið að landareign Stafness og Stafneshverfis. Á góðu og gömlu, sjómannamáli bátverjanna á opnum áraskipum var öll hin stóra vík frá Ærhólmum að Stafnesrifi kölluð einu nafni, Hólakotsbót. Á henni eru eftirtalin örnefni: Landamerki milli Hvalsnes og Stafneshverfis eru í viki einu litlu sunnan við Ærhólma; heitir það Mjósund, stundum kallað Skiptivik. Á bakkanum er lítill grasblettur, sem heitir Ögmundargerði, og þar sunnan við er gamalt byrgisbrot, sem er kallað Stafnesstekkur. Víkin sunnan við Stekkinn heitir Stafnesvík. Sunnan við er Glaumbæjarvík, og skilur smágrjótrani víkurnar. Á bakkanum fyrir ofan er hóll grasi gróinn, sem heitir Glaumbæjarhóll, það er gömul rúst. Sunnan við Glaumbæjarvík er Glaumbæjarrif, öðru nafni Kúarif, í fjörunni. Sunnan við Kúarif er Nýlenduvík; nær hún suður að Hliðhólsklöpp, sem er í sjávarmáli niður af hliðinu á túngarðinum norðan við gamla Hólakot, ætíð nefnt af umfarendum „Hólakotshliðið“. Fram af Hliðhólsklöppum eru Selatangar. Það eru nokkur smásker í röð, sem koma upp úr um fjöru; þar á meðal eru Skjöldusker og Kringlótta-Sker.

Stafnes

Vestur-Stafnes.

Sunnan við allt þetta, sem nú hefir nefnt verið, er nafnlaus fjara suður að svo nefndum Hólakotshól, en það, er gömul rúst á sjávarbakkanum, niður af Hólakoti, sem var nyrzti bær í Stafneshverfi og nyrzta túnið, en bærinn hefir staðið í eyði um allmörg ár.
Öll túnin í Stafneshverfi eru samliggjandi flatneskja, en sundur greind með gaddavír á stólpum. Þess má geta um víkur þær, sem kenndar eru við Glaumbæ, og Nýlendu, að þarna var rekafjara þeirra og þangtekja, enda voru þetta gamlar hjáleigur frá Stafnesi.

Stafnes

Stafnes – minnismerki um Jón forseta.

Byrjar nú sjávarröndin í Stafneslandi: Nyrzt, rétt við mörkin, er hóll á bakkanum með gamalli bæjarrúst; heitir það Harðhaus. Þá liggur túnbakkinn bogadreginn til suðvesturs; heitir það Refar. Ná þeir yfir túnspildu talsverða neðan af túninu og fram á tanga þann, sem heita Refagarðar, en fremst heitir það Refstangi. Er þarna fjöldi af gömlum bæjarrústum. Má það eðlilegt kalla, að eitthvað sjáist af rústum, því 10 voru hjáleigurnar, sem Stafnesi fylgdu 1703, og auk þess 12 eyðihjáleigur og búðir, allar taldar með nafni í jarðabók. Þó eru nokkur nefnd nú, sem ekki eru þar talin; hafa líklega verið byggð síðar, en þó fyrir löngu í eyði komin.

Stafnes

Stafnesviti og minnismerki um Jón forseta.

Víkin fyrir framan Refagarða heitir Vallarhúsavík, og fremst í henni eru Sveinshöfðaklappir. Á þeim stóð áður bær með því nafni. Við sjóinn niður af Refagörðum er Borgarvör, gamall lendingarstaður. Upp af Sveinshöfðaklöppum er Kerlingarlón efst í fjörunni milli klappanna og túnbakkans, féll sjór upp í lón þetta á stórstraumsflóðum, en ekki þess í milli; fúlnaði þá í lóninu vegna þara og óþverra, og þótti heldur ami að. Vallarhúsarif liggur til suðvesturs frá Selatöngum; fremst á því er hnúður, sem heitir Vallarhúsahaus. Á Refstanganum er svo kölluð Litla-Rétt. Heitir hún svo, af því að önnur rétt stærri var þar nokkru sunnar, en Réttarkampur heitir moldarhryggur við sjóinn milli Réttanna.

Stafnes

Stafnes – Norðlingavör.

Á klöpp niður af Litlu-Rétt, beint fram af Refstanga, er stór svartur steinn, sem er mið á innsiglingu og verður síðar getið Fram af Litlu-Rétt er rif eitt, hátt nokkuð, sem heitir Bóndarif, en fram af Bóndarifi liggur sjálft Stafnesrif til suðvesturs. Milli Bóndarifs og Stafnesrifs er djúpt lón eða öllu heldur hylur; mun þar vera 12-14 faðma dýpi um lágflæði. Utan við hylinn er slétt sker, sem aðeins kemur upp úr um fjöru; heitir það Kolaflúð. Þar hafa strandað tvö botnvörpuskip, svo vitað sé, Jón forseti 1928 og Admiral Toco 1913. Strandaði hinn síðarnefndi í foráttu brimi, svo engin björgun var hugsanleg, enda fórust menn allir, og svo einkennilega bar við, að aldrei hefir lík rekið af því skipi. Sömu urðu afdrif þessara skipa, að þau limuðust sundur á Flúðinni, flökin hurfu niður í hylinn og bólar ekki á þeim síðan. Þarna virðist vera dauður blettur; aldrei fellur brim yfir hylinn sjálfan, og kyrrð virðist í botni, því ekkert rekur upp af því, sem þar sekkur niður.

StafnesSpöl norður af Kolaflúð eru Litli-Hásteinn og lítið eitt norðar Stóri-Hásteinn, hvorttveggja einstakir steinar upp úr sjó að sjá með lágsjávuðu. Eru nú talin örnefni í Hólakotsbót. Gelluklappir (frb. hart, eins og hella, fella) heita klappirnar háu og stóru, sem eru syðst og yzt fram af Stafnestúni. Þar stóðu fiskhús allra hverfismanna efst á klöppunum og ofan við þær. Var húsaþyrping þessi kölluð Garðarnir og var algengt mið út af Norður-Miðnesi, einkum á Skörðum. Stafnesvitinn stendur á Gelluklöppum, byggður 1925. Er hann góð leiðbeining sjófarendum fyrir hina hættulegu Stafnestanga, þó raunar hafi strönd orðið þar síðan. Fram af Gelluklöppum er Möngurif, fremur stutt, en nokkuð hátt, það liggur til suðvesturs út í Gjána, er síðar verður nefnd. Milli Gelluklappa og Möngurifs er mjó rás fast við klappirnar; flýtur þar bátur með hálfföllnum sjó. Var rásin oft notuð í ládeyðu, ef för var heitið norður á bóginn. Önnur rás var utan við Bóndarif; heitir hvor tveggja rásin „Hörmungasund“ , og sama mið á báðum, en það er, að Stóri-Básendahóll jaðri við Skiphólma.
Frá Gelluklöppum liggur sjávarmál til austurs, inn í svo nefnt Sandhúsavik , sem er sunnan við Stafnestúnið. Eru þar þessi örnefni.
Í suðurenda Gelluklappa myndast lítið vik, sem heitir Norðlingabaðstofa. Mun nafnið vera frá þeim tíma, er Norðlingar sóttu sjó á Stafnesi fyrir öldum síðan. Ýmsar sagnir eru skráðar um sjómennsku Norðlinga þar. Ein er sú (úr Sögu Íslendinga VI, 452), er Skúli Magnússon, síðar landfógeti, hafði ráðsmennsku Hólastóls.
„…Þá hafði Stóllinn 9 menn í veri á Stafnesi syðra um vetrarvertíð 1742. Var hlutur vermanna alls 30 hundruð stór og 70 fiskar, og vo afli þessi verkaður alls 70 vættir og 5 1/2 fjórðung, auk sundmaga og hausa.“

Stafnes

Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.

Má nærri geta, að ekki hafa þetta verið einu Norðlingarnir, sem þá reru á Stafnesi. – Önnur sögn, sem er í ýmsum annálum, er hér tekin upp úr Suðurnesja annál séra Sigurðar B. Sívertsen á Útskálum (prentaður í Rauðskinnu 1953, III, 19): „1685. Mannskaðavetur. Skiptapar ógurlegir á Góuþrælnum. Sjö á Stafnesi. Drukknuðu 58 menn. Það sjöunda [hér er einhver villa] gat hleypt inn Hamarsund og björguðust menn. Á tíæringunum frá Stafnesi voru flestir útróðrarmenn að norðan og margir valdir menn . . . þar á meðal Ólafur yfirlestamaður frá Hólum, Þorsteinsson. – Þann 11. marz voru 42 menn jarðsettir við Útskálakirkju, en daginn eftir rak 47 upp, er einnig voru grafnir þar, í almenningi að kórbaki. Reiknaðist svo til, að í allt hafi drukknað 156 manns …“
Austan við Norðlingabaðstofu er Stokkavör, ævagömul, enda stundum nefnd Gamlavör. Þar innan við er Gosuvik; hefir þar verið gjörð lending, sem heitir Gosuvör, en er oft nefnd Skökk; mun það vera af því að hún stefnir skáhallt inn í grjótið. Þar uppi á bakkanum er hóll með rúst. Þar stóð bærinn Gosa. Innan við Gosuvör er Skiphólmi. Það er hár hóll, grasi gróinn að nokkru. Þar var áður býli, en nafnið er týnt, það kynni að vera Litlu-Hólmahús, sem var eitt af eyðibýlunum við Stafnes 1703. Til suðvesturs frá Skiphólma liggur grynningatunga út í Gjána. Hyldýpi er báðum megin við, en á tungu þessari eru þrjú sker, sem heita: Vatnasker, grynnst, þá Brúnkolla og Hvirfill, yzt, er Hvirfill aðeins þaratoppur. Austan við Skiphólma er annar hóll stór, með gömlum bæjarrústum; hét það Sandhús, en hóllinn heitir nú Sandhúsahóll. Sjór er enn góðan spöl inn í landið. Er það fremur mjótt vik og heitir Sandhúsavik. Það er inn af Gjánni eða innsti hluti hennar. Slétt láglendi er upp af vikinni, og fellur þar sjór langt upp á land í stórflóðum. Fyrir sunnan Sandhúsavik er stórt, slétt og fallegt graslendi; heitir það Flatir.

Stafnes

Stafnes – túnakort 1919.

Fram af Flötum er stór og breiður hraunfláki, sem nær langt út í sjó; nokkuð flatur yfir að líta, er það Urðin, er svo heitir. Fremst á Urðinni er stórt lón, heitir það Urðarlónið. Þvert yfir Urðina liggja tvær rennur eða rásir; heitir sú fremri, sem liggur þvert yfir Lónið, Ytri-Dyr. Hin, sem er nokkru ofar, heitir Innri-Dyr. Fara mátti í ládeyðu á bátum um Rennurnar og með því stytta sér leið, ef hæfilega hátt var í sjó. Fram yfir 1880 sáust grasblettir víða um Urðina, og í Lóninu sjálfu hafði verið stargresi. Mun þar af dregið hið forna nafn jarðarinnar: „Starnes“. Enn fremur er sagt, að áður fyrr hafi gengið í Urðarlón bæði silungur og lax. Hafi svo verið, hefir sjór ekki gengið svo að við Stafnes sem nú er. Yfir alla Urðina fellur í stórstraumsflóði, og svaði mikill er þar í brimi.
Þó muna elztu menn, að laxar fundust við Lónið, en það mun hafa verið fyrir aðgjörðir sela eða veiðibjöllu. Ofarlega á Urðinni er Sundvörðuklöpp, nokkuð stór klapparbunga; á henni stóð sundvarðan áður, en var síðar flutt hærra upp, vegna sjávarágangs. Urðin er nokkurn veginn ferköntuð í laginu, þó nokkuð lengri til sjávar en með landi. Útnorðurhornið er skarpast, nærri vinkilhorn; er það kallað Urðartáin.

Stafnes

Stafnes – Vallarhús.

Norðan í tánni er klettur, sem upp kemur með lágum sjó, kúpulagaður eins og skál á hvolfi; er hann nefndur „Steinninn“. Hann er við innri snúninginn á sundinu. Við hann er 10-12 faðma dýpi, og má fara fast við hann, því hann kastar frá sér. Þó mest beri á hnullungs grjóti á börmum Urðar, er hún svo snarbrött, að nærri er þverhnípt við tær þess, er stendur á brúninni, og hyldýpi fast upp að henni, bæði vestan og norðan, þess vegna er aldrei brim fyrir framan Urðina, en stórfellur á blábrúninni, sem að hafi veit. –

Skal nú reynt að lýsa innsigling á Stafnesi.

Stafnes

Stafnes – Grund.

Eins og áður segir er Bóndarif fram af Litlu-Rétt, en fram af Bóndarifi er Stafnesrif og stefnir til suðvesturs. Það nær lengst út allra skerja á þessu svæði eða fram undir miðið, Eldborg grynnri lausa, (sjá örnefni á Reykjanesi, í: Fiskimið opnu bátanna á Miðnesi). Er það alræmdur hættustaður. Hafa þar mörg skipströnd orðið og mannskaðar, sem kunnugt er. Sunnan megin er hraunflákinn, sem heitir Urðin; hún nær fram undir miðið Kerlingin.
Milli Stafnesrifs og Urðar er stórt lón; mætti næstum segja: lítill fjörður, heitir það Gjáin. Dálítil sjávarálma liggur úr Gjánni utan við Möngurif en innan við Stafnesrif, norður með Gelluklöppum í kverkina við Bóndarif og Refstanga. 18-20 faðma dýpi er víðast hvar á Gjánni. Oft er þar straumrugl og sjór tipplóttur, stundum svo, að varla er sjór skiplægur þar.

Stafnes

Stafnes – loftmynd 1954.

Sundið er oftast nefnt Stafnessund, en heitir Álsund, og liggur sundið um Álinn svo nefnda. Mið á Álnum (sundinu) eru: Hólakotsvarða, þó oftar nefnd Heiðarvarða, er stendur í hrauninu skammt fyrir ofan Hólakotstúnið, það er stór og allgild grjótvarða með sundtré eða þríhyrning ofan á. Önnur varða nákvæmlega af sömu gerð stóð á Urðinni, kölluð Urðarvarða. Þetta er þá Állinn (sundið): vörðurnar saman, og mun sundið oftast byrjað á miðinu Valahnúkur. Þegar farið er inn Álinn og komið er á miðið Kerlingin laus, er skammt upp að Urðinni, enda er þá snúið norður með henni (eða beðið lags, ef með þarf) og haldið undan Kerlingu, en þá er annað mið fram undan í sömu stefnu, en það mið var fjárrétt, sem var á Hvalsnestanga (nú horfin) í svarta steininn á klö[p]pinni fram af Refstanga eins og áður var getið. En þá er á bakborða hættulegasti boðinn „Stafurinn“, sem er fram af Urðinni. Hann tekur sig upp á miðinu, Eldborg grynnri, og stefnir upp á Urðina. Verður því að róa undir flötum Stafnum. Má segja, að skip og menn séu milli tveggja elda, þegar róið er fast við bak Urðarbrims, en Stafurinn, stór og hár, stefnir á flatt skipið. En öllu er óhætt, því að full vissa er fyrir, að Stafurinn dettur niður, nema mikil forátta sé, enda er sundið ófært, ef hann veður í land, en það kemur ekki fyrir nema í aftaka brimi. Sömu stefnu er haldið, þar til komið er norður fyrir „Steininn“ norðan í Urðartánni. Er þá snúið að og haldið inn Gjána, Heiðarvörðu um rofbakka ofan við Glaumbæ (nú í eyði). Suður úr Stafnesrifi er grynnsli nokkurt; á því fellur boði, sem stefnir upp á Gjána, heitir hann Hólmaflaga. Hann gengur allnærri sundinu um snúninginn við Steininn, en veldur þó eigi verulegum baga.

Stafnes

Stafnes – Stórarétt.

Eins og áður segir, var oft tipplóttur sjór á Gjánni í brimi og verri, er átt var vestlæg. Er þá farið þvert yfir hana að utan og haft skjól af rifinu inn Gjána norðanverða. Einkum er slæmur eitill norðan og innan við Steininn. Gýs eitill þessi upp snögglega, en fellur nærri ofan í sjálfan sig. Þetta er Hvirfillinn, sem er fremst á grynningatungunni, er liggur út í Gjána. Að öðru leyti verður ósjórinn af aðstæðum þarna. Gjáin er djúp og alllöng, en fremur þröng, brimöldurnar skella á Urð, rifi og Gelluklöppum, mynda frákast öllu megin, sem mætist á Gjánni. Auk þess veldur brimið ætíð sogadrætti í öllum þrengslum. Orsakar allt þetta straumköst og ósjó.
Annað sund eiga Stafnesingar. Það heitir Stafsund. Liggur það beint inn á Gjána, norðan við boðann, Stafinn, á miðinu Heiðarvarða um rofbakkann ofan við Glaumbæ. Þetta sund var aðeins notað í brimlausu til að stytta sér leið.

Stafnes

Stafnesbrunnur.

Þegar komið var inn úr Gjánni, var lent í Stokkavör, sem var aðallendingin. Þar var fiskurinn seilaður og borinn upp á skiptivöll við sjávarhúsin. Þegar búið var að losa skipin, voru þau færð að Skiphólmanum, sem var uppsátur skipanna. Var þá farið innan við Vatnasker og inn með Hólma sunnan megin og lent austan á Hólmanum. Þar eru sléttar klappir í flæðarmáli, svo nefndur Flór. Þegar góð var tíð og daglega róið, voru skipin látin standa á Flórnum yfir nóttina, en ef útlit versnaði, voru þau hækkuð upp meira eða minna eða sett alla leið upp á Hólmann. Var það ærið erfitt verk, meðan ekki voru önnur tæki en bök mannanna, því Skiphólmi er hár og snarbrattur. Efst uppi er
sléttur flötur, og þar stóðu skipin, en þykkur tvíhlaðinn grjótgarður er umhverfis flötinn, skipunum til skjóls fyrir ofviðri, enda var þeim óhætt í þessu ágæta nausti, hvað sem á gekk. Skiphólmi stendur neðan við flóðmál og fellur kringum hann á stórstraumsflóðum.
Var gjörð grjótbrú milli lands og Hólma, en með því að sogadráttur var sterkur í þröngri rásinni, vildi oft ruglast hleðslan, svo fótfesta varð óviss. Einkum var þetta illt, ef bera þurfti beitt lóðarbjóð yfir brúna í dimmu, en mjög fallið yfir. Var svo jafnan þar, sem slíkar brýr varð að nota.
Stakkavör eða Gamlavör hefír augsýnilega verið rudd inn í stórgrýtisurð einhvern tíma fyrir löngu síðan. Hún líkist nú mest gróinni götu, aflöguð af grjótburði og öll þangi vaxin, Á síðari árum útgerðar á Stafnesi var steypt gangbraut eða vagnvegur á austurbrún Gömlu-Varar, en aldrei var lokið verkinu til fulls. Útgerðinni lauk fyrr. Nú er sjórinn að brjóta skörð í steypuna og ónýta hana. Þannig eyðast og hverfa gömlu sporin, hvert sem litið er.

Stafnes

Stafnes – Ögmundagerði.

Hvergi á Miðnesi var eins gott til sóknar sem á Stafnesi. Þar var jafnan útgerð mikil, bæði fyrr og síðar, enda dugnaðarmenn, sem að henni stóðu og að unnu. Þar voru einnig sjávarhús mörg og myndarleg. – Gætu Stafnesklappir talað, mættu þær taka undir með gömlu konunni gigtveiku. „Önnur var mín ævi.“ Nú hefir Urðarvarða misst prýði sína, tréstólpann með þríhyrning. Eftir stendur enn grjótvarðan, óþekkjanleg frá öðrum systrum sínum, ef ekki verður að gjört. Grjótbyrgi hrunin. Sjómannakofar horfnir. Önnur hús, er enn standa, drúpa hnípin og afrækt. Svo er jafnan um það, sem hætt er að nota, enda mun útgerð á Stafnesi hafa lagzt niður fyrir fullt og allt um 1945, og þó áður mjög úr henni dregið.
Góðir Stafnesingar, sem enn eruð starfandi! Þið eruð afkomendur og eftirmenn mikilla formanna á Stafnesi. Má þar nefna Daða Jónsson og Eyleif Ólafsson, sem voru með þeim síðustu. Væntanlega setjið þið strax skautafaldinn á Urðarvörðu, til heiðurs við margar merkar minningar frá fornri útgerð á Stafnesi og til þess, að hún megi þekkjast frá óæðri systrum sínum um hraun og heiði. Hún heitir enn Urðarvarða og á að halda því nafni, þó flúin sé upp á Flatir.

Stafnes

Stafnes – sundmerki.

Sundmerkjum á Stafnesi á að halda við, svo lengi sem sögur eru til af einum merkasta útgerðarstað á Íslandi frá fyrri tíma.
Langt er enn til Djúpavogs í Ósabotnum, en þar endar Stafnesland. Eins og sjá má á öllum kortum, beygist landið austur á við fyrir sunnan Stafnestanga og er bogadregið allt inn í Ósa. Fyrst til suðurs, landsuðurs og loks í háaustur. Skal nú haldið með ströndinni og leitað örnefna.
Suður og inn af syðri Urðartánni er einkennilegt sker. Boði, sem á því fellur, heitir Svörfull. Sker þetta lítur helzt út fyrir að vera gamall eldgígur, því að í miðju skerinu er hylur, 10-12 faðma djúpur. Þegar Svörfull er uppi, fellur hann fyrst til norðausturs, svo í hring til suðurs og virðist þannig fylgja gígbarminum, og endar með því að falla beint á sjó út.
Í september 1881 strandaði á Svörful skip, 440 lestir að stærð, hlaðið ofnkolum. Menn björguðust í land á bátnum, komu heim að Stafnesi um kvöldið og voru þar um nóttina.

Stafnes

Stafnes – Hólakotsstekkur.

Um morguninn er komið var á fætur sást ekkert af skipinu, nema ofan á hæsta masturstoppinn. Brimið hafði fært briggskipið inn yfir gígbarminn, og það sokkið niður í hylinn í skerinu. Ekkert rak upp af því skipi, annað en það, sem lauslegt var á dekki og flotið gat. Enn eru menn á lífi, er höfðu glöggar frásagnir um þetta strand og frá því er sagt í Suðurnesjaannál (bls. 180), en síðar bætir annálshöfundur (sr. Sig. B. Sívertsen) við): „Skip það, sem sokkið hafði fyrir framan [sunnan] Stafnes með ofnkolin, var nú, þann 22. desember, loks selt við uppboð, þegar útséð var um, eftir brim, hroða og stórflóð, að ekkert mundi reka upp af því. Komst það í 45 krónur og þótti ráðleysa að kasta út meira fé í slíkan vonarpening, svo valtan.“
Sunnan við Urðina er í flæðarmáli stór og hár grashóll, sem heitir Stóri-Básendahóll. Framan við hann og aðeins nær Urðinni er sandblettur, sem heitir Gunnusandur. Framan við sandinn og eilítið sunnar eru svonefndar Róklappir, dálítill klapparbálkur; fellur ekki yfir þær á flóði nema brim sé. Framan við Róklappir er aftur lítil sandflúð, sem heitir Rósandur, en þar fram af er út í sjó kringlótt sker, sem heitir Rósker. Þar voru flestir selirnir skotnir af Stafnesbændum á fyrri tíð. Mér er sagt, að Eyvindur Pálsson, sem bjó á Stafnesi frá 1860, þar til tengdasonur hans Hákon Eyjólfsson tók við, hafi verið sundmaður ágætur. Hann hafði þann hátt á að synda með byssuna út í Rósker með útfalli og vera kominn, áður en selirnir lögðust upp á skerið. Vöruðust þeir ekki þessa veiðibrellu.

Stafnes

Stafnes – Bali.

Nokkru dýpra fram af Róskeri er skerjagarður, sem liggur til suðurs; heitir það einu nafni Básendasker. En víkjum nú aftur upp á land. 20 til 30 föðmum suður af StóraBásendahól er graslaus klapparhóll; heitir hann Litli-Básendahóll. Sunnan við þann
hól stóð Básenda-verzlunarstaður. Þar fram af er malartangi með sljóu horni. Á tanganum sér enn til rústa eftir meira en 150 ár, en 1799 var Básendaflóð. Sunnan við tanga þennan er ílangt lón; það var Básendahöfn. Leiðin inn á höfnina hefir verið löng milli skerja, en að mestu bein og djúp. Sundmerki eru nú gleymd. Má enn sjá leifar af umbúnaði, hringjum og stólpum, sem var tinsteyptur í klappir og sker til þess að svínbinda skipin.
Varla hefir þetta verið góð og örugg höfn, eins og nokkrir hafa talið, en það vita kunnugir bezt, hve hollt er að vera á vélarlausum dekkbát inni á milli skerja sunnan við Stafnes í sunnanátt og hroða, þó að sumri sé. En stundum dróst afgreiðsla skipanna fram á haust, enda brotnaði þar skip 1669, albúið til siglingar, og tvö skip 1714, hlaðin fiski, segir Suðurnesjaannáll.

Stafnes

Stafnes – Nýlenda.

Skúli Magnússon landfógeti ræðir í sýslulýsingu sinni nokkuð um Básenda, þar segir svo: „Verzlunarhöfnin Básendar er í Stafneslandi. Þar er höfn 2 skipum milli lands og skerjagarðsins, en þó hættuleg, einkum í vestanstormum, þegar hásjávað er. Nokkur skip hafa farizt þar, einkum fyrrum, enda var ekki siglt á höfn þessa um hríð. Höfnin er því eigi örugg nema um hásumar og með því að nota járnhringa þá, sem reknir hafa verið bæði í kletta í skerjagarðinum og í jarðfasta fjöruklettana. Eru þeir festir með blýi, svo að hægt sé að binda skipin í þá. Í innra skipalæginu eru 4 járnhringar og 3 í hinu ytra. Í fyrr nefndu skipalægi er dýpið 2 1/2 faðmur um fjöru, en 4 1/2 í hinu síðar nefnda. Þarna lækkar og lækkar í sjónum um 9 fet í góðu veðri, þegar stórstreymt er, en um 5 fet, þegar smástreymt er. Innsiglingin er hættuleg, og verður að gefa nánar gætur að siglingamerkjunum á landi … Kringum hinar lágu klappir, sem verzlunarhúsin standa á, er allt þakið svörtum sandi, og eru aðstæður því illar til fiskverkunar. Aftur á móti er fiskverkunarstæði því betra kringum Stafneslendingu, einkum á Refshalabæjum svo nefndum. Að vísu hafa þeir lagzt í eyði síðan konungsbátarnir voru lagðir niður 1769. Þó mætti byggja þá upp aftur, ef þörf væri á, því að á Stafnesi hefir þótt fremst fiskiver á Íslandi um vetrarvertíð á fyrri tímum og allt fram að því ári. En síðan hefir sjósókn þorrið þar mjög.“

Stafnes

Stafnes – Heiðarbær.

Efalaust hefir útgerð og sjósókn þorrið á Stafnesi, sem annars staðar á síðari hluta 18. aldar og framan af þeirri 19., þegar eymdarhagir voru á landi hér, enda mátti víst heita, að Stafnes væri í eyði um aldamótin 1800 (sjá um Básendaflóð eftir Vigfús Guðmundsson í Blöndu III, bls. 57). En á síðari hluta 19. aldar voru 20 til 25 stórskip gerð út á vetrarvertíðum af bændum á Miðnesi, og ætíð var Stafnes talið í fremstu röð, með þá merkismennina hvern fram af öðrum: Erlend Guðmundsson, Eyvind Pálsson og Hákon Eyjólfsson. Það hefir í annálum og öðrum ritum verið talað um útgerð og aflabrögð á Stafnesi, og yngsti annállinn, Suðurnesjaannáll, sem ritaður var á 19. öld, er fjölorður um mikil aflabrögð hjá Stafnesmönnum, enda var þar bezt til sóknar af Miðnesi á tíma áraskipanna.
Bátsendahöfn mun heita réttu nafni Brennitorfuvík, en Brennitorfa var þar fyrir ofan. Þar höfðu Básendamenn brennur sínar. Stendur þar nú varða á grjótholti, en Torfan sjálf er örfoka. Sunnan við Brennitorfu er Draughóll og Draughólskampur með sjó fram til suðurs. Fram af kampi þessum er stór klettahólmi úti í sjó; heitir hann Arnbjarnarhólmi. Þar eru suðurtakmörk Básendahafnar. Sunnan við Draughólskamp er stórgrýtishryggur, sem heitir Kuðungavíkurkampur, og Sandvík sunnan hans heitir Kuðungavík. Enn er dálítill kampur og sunnan hans er Djúpavík, allstór. Þar nokkuð úti í víkinni er stór klettur einstakur; heitir hann Svartiklettur; hann er mið á einni fiskiholu. Stafnesinga. Ofan við Djúpuvík eru svo nefndar Dauðsmannsklappir.

Stafnes

Stafnes – Hólakot.

Sunnan við Djúpuvík er mjög langur hrauntangi, sem nær langt út í sjó; heitir hann Skarfurðartangi. Fyrir sunnan tangann er á löngu svæði bein urðarfjara; heitir það Skarfurð. Fram af Skarfurðartanga er sker eða flúð, er sjaldan kemur upp úr; heitir það Vefja. Sjávarhræringar á Vefju eru óvenjulegar, líkt og á Svörful. Sunnan við Skarfurð er stór djúp vík, sem heitir Stólsvík; hún dregur nafn af einkennilegum kletti þar úti í víkinni, nokkuð frá landi; hann líkist mest prédikunarstól og heitir Tómasarstóll, en ókunnugt mun vera nú, af hverju nafnið er til orðið. Oftast er stóllinn alsetinn skörfum með útbreidda vængi.
Sunnan við Stólsvík er þröngt og djúpt vik inn í klettana, kallað af Stafnesmönnum Norðurvik Þórshafnar. Þar sunnan við er klettarani, mjög stórgrýttur fremst, en grasi gróinn ofan; heitir það Þórshafnarbali. Hann er vesturhlið á löngum bás, er liggur til norðausturs inn í landið. Básinn heitir Þórshöfn. Það er hin fornkunna höfn verzlunarskipanna á síðari hluta 19. aldar. Af sýslulýsingu Skúla fógeta (Landnám Ingólfs, bls. 117) vitum við, að „leiðin inn að henni er 55 faðma breið.

Stafnes

Stafnesgarðar.

Mesta lengd innsiglingar er 170 faðmar, en breidd 51 faðmur, þó ekki nema 26 faðmar, ef skipin rista meira en 6 fet [hér mun vera átt við Þórshöfn sjálfa frá mynni til botns]. Höfnin var að vísu notuð, þegar Hansakaupmenn eða Þjóðverjar ráku verzlun hér á landi.“ (1601 var síðasta verzlunarár þeirra, því einokunin byrjaði 1602, sem kunnugt er). Skúli gjörir lítið úr þessari höfn, segir að hún sé „lítil og léleg og komi ekki heldur sjómönnum að liði.“ Svo virðist, að hún hafi lítið eða ekkert verið notuð á hans dögum.
Eigi er vitað með vissu, hvenær dönsku skipin byrjuðu að hafa þar hafnlegu; þó varla fyrr en Básendar lögðust niður. Leiðin inn á Þórshöfn er tvær vörður saman; stóð önnur í norðvesturhorni Þórshafnar, en hin uppi á heiðinni; heitir sú Mjóavarða (93) og mun enn vera uppi standandi, enda algengt mið í Stafnesdjúpi. Höfn þessi er svo þröng, að ekki varð komizt inn eða út á seglskipi, nema einstefnu leiði væri, og skipin varð að svínbinda á allar hliðar. Flest voru þar 5 skonnortur í einu, sem mér er kunnugt um. Þau lágu þar öll saman bundin, hlið við hlið, og vissi framstafn allra til hafs. Ætíð var stillt í þessum mjóa og langa bás, og sogadráttur furðu lítill, þó nokkurt brim væri, enda eru Þórshafnarsker fyrir framan og braut brimið á þeim.
Austurhlið Þórshafnar er langur hrauntangi, en austan hans er stór og breið vík; heitir hún Hvalvík. Þar eru sandleirur í botni og þornar þar á stóru svæði um stórstraumsfjöru.

Stafnes

Stafnes – Refamýri.

Smávik er vestast í Hvalvíkinni, gengur vikið inn í hrauntangann austanmegin framarlega, gegnt Þórshöfn; er það kallað syðra Þórshafnarvik. Vikið er þurrt um fjöru, en skemmtilegt sjávarvik á flóði. Frá viki þessu er á austurhlið hrauntangans, Hvalvíkur megin, stórgrýttur kampur, sem heitir Skeljaurð; nær hann inn að botni Hvalvíkur, en upp af sjálfum botni hennar eru grasbakkar.
Úti í Hvalvíkinni er Hvalvíkurhólmi, allstór og hár nokkuð; hann var grasi gróinn.
Út að honum liggur grandi, eða öllu heldur röð af smáskerjum, en rásir eru á milli og var þarna mikil flæðihætta, meðan sauðfé var margt, en Miðnes var talinn fjárríkasti hreppur á Suðurnesjum um næstliðin aldamót.
Allbreiður tangi austan Hvalvíkur er í daglegu tali nefndur Torfan, en mun heita Preststorfa. Við Torfuna er lending, nefnd Grímsvör öðru nafni Bárðarvör, en fram af Torfunni er stór klettur; heitir hann Hestaklettur (101), en örskammt frá er Selsker. Af Torfunni er skemmst sjóleið yfir Ósana. Fólk, sem ferðaðist gangandi milli Miðness og Hafna, einkum prestarnir, kom oft á Torfuna og kallaði til Kirkjuvogs, sem vel heyrðist. Var fólkið þá sótt og flutt yfir á bát.

Stafnes

Vallarhúsabrunnur.

Það slys varð í þessum flutningum árið 1748, er ég tek hér upp úr Suðurnesja annál Sig. B. Sívertsen, orðrétt: „Fimmta sunnudag í föstu drukknaði presturinn á Hvalsnesi, séra Árni Hallvarðsson, er hann ætlaði til embættisgjörðar að Kirkjuvogi. Hafði hann farið af svo nefndri Prestatorfu í góðu veðri. En þeir, sem fluttu hann, höfðu farið of nærri skeri því, er Selsker kallast; hvirflar á því, en kemur upp úr um fjöru, en á móti því er klettur stór, er Hestaklettur kallast. Þar á milli liggur leiðin og allnærri klettinum, en þeir héldu nær skerinu en mátti.
Reisti sig þá upp boði, er hvolfdi bátnum, er hann kenndi grynninga. Drukknaði þar prestur og sjö menn aðrir. Var einn þeirra Einar, sonur Hákonar í Kirkjuvogi, bróðir Vilhjálms. Einn eða tveir menn komust af, og þeir heyrðu prest segja, þegar hann sá, hvernig fara mundi: „Herra Jesú, meðtaktu sálir okkar allra.“ Nýlega hafði þá síra Árni verið búinn að taka af jólagleðina, sem haldin var á Flankastöðum, nauðugt mörgum. Hann var 36 ára gamall“.

Stafnes

Nýlendubrunnur.

Austan við Torfuna er allmikil sandvík; í vík þessari er stór og hár grashólmi, sem heitir Einbúi (103), umflotinn á flóði. Hann er áberandi mið í Stafnesdjúpi. Mjög skammt fram af Einbúa er annar hólmi lítill, grasi gróinn; hann heitir Runkhólmi. Í öllum þessum hólmum, Hvalvíkurhólma, Einbúa og Runkhólma, var æðarvarp, meðan um var hirt. Frá Einbúa er sjávarmál skorið af smávikum en grjótranar á milli, allt að tanga þeim, sem heitir Fremri-Skotbakki.
Það bar við á hvítasunnudag 1881, að timburskip, mannlaust, tröllaukið að stærð, eftir því er þá var kallað, rak að landi í Ósum. Heyrði ég mikið talað um skip þetta á ungdómsárum mínum, enda var þá sem óðast verið að byggja baðstofur, timburhús, sjávarhús (timburskúra) og alls konar útihús úr efnivið þessum. Tvær eru heimildir, mér tiltækar, um skip þetta, en því miður ekki samhljóða um stærðina.

Stafnes

Stafnes – Refatjörn.

Ólafur Ketilsson hreppstjóri í Höfnum (hann var 16 ára, er strandið skeði, og vann við skipið) skrifaði skemmtilega og fróðlega grein um skip þetta í Lesbók Morgunblaðsins 44. og 45. tbl. 1936. Hann segir (þrisvar) í grein sinni, að skipið hafi verið 360 fet á lengd og 65 fet á breidd. Til samanburðar má hafa að nýi Gullfoss okkar er 355 fet á lengd, stafna milli, en 47 1/2 fet á breidd. – Hins vegar segir séra Sigurður B. Sívertsen í Suðurnesjaannál (sjá Rauðskinnu 1953, bls. 175) að eftir því sem hann komist næst; var lengd þessa skips 128 álnir (256 fet) og á breidd 27 álnir (54 fet) en setur svo milli sviga: allt að 30 álnir. Svo virðist, að Ólafur Ketilsson viti málið, en séra Sigurður hafi sennilegustu ágizkun eftir annarra sögn. Ólafur segir, að sér teljist svo til, að í skipinu hafi alltaf verið um 100 þúsund plankar, fyrir utan alla plankabúta og fleira, að meðaltali 16 feta lengd, 8 þumlunga breidd og 3 þumlunga þykkt. Þetta „fleira“, sem Ólafur telur, var afarstór borðabunki aftast í miðlestinni og einnig í sömu lest afarstór – eins og hann orðar það – hlaði af hvítum múrsteini, fleiri þúsundir að tölu, sem allur fór í sjóinn og loks var seglfesta skipsins silfurgrjót, sem talið var af sérfræðing (útlendum) meira virði en skipið sjálft með öllum öðrum farmi, það fór einnig í sjóinn. Skipið hét James Town.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.

Því er á þetta minnzt hér, að kjölsvínið af skipi þessu með hluta af annarri síðunni hefir legið og liggur enn við Skotbakka, en mun nú vera sokkið í sand eða leir.
Nokkurn spöl austur af Fremri-Skotbakka er annar tangi, sem heitir Innri-Skotbakki. Skammt innar er gamli Kirkjuvogur. Þar sér aðeins fyrir rústum, en engin önnur merki um fyrri byggð. Til marks um það, hve Vogur (107a) (gamli Kirkjuvogur) var mikil jörð, skal þess getið, að árið 1407 selur Björn Þorleifsson hirðstjóri manni einum, er Eyjólfur hét Arngrímsson, Voga á Rosmhvalanesi, sem þá var kirkjustaður, fyrir 5 jarðir á Vestfjörðum. (Árb. Esp. 2, 68.)
Nokkur fróðleiksauki er þáttur jarðabókar (Á. M. & P. Víd.) 1703. Þar segir svo: „Gamli Kirkjuvogur. Forn eyðijörð, um hana er skrifað síðast meðal Hafnahreppsbæja, að óvíst sé, hvort hún liggi í Kirkjuvogs- eða Stafneslöndum, item, að munnmæli séu, að Kirkjuvogsbær sé þaðan fluttur. Nú að fleirum kringumstæðum betur yfirveguðum sýnist að sitt hafi hvor bær verið. Kirkjuvogur sem nú er byggður, og þessi gamli Kirkjuvogur, sem af gömlum documentum ráða er að heitið hafi til forna Djúpivogur. Hvað sem hér um er að segja, þá er það víst, að þessi eyðijörð öldungis ekki kann upp aftur að byggjast, með því so vel túnstæðið sem landið allt um kring af sandi uppblásið er og að bláberu hrjóstri orðið. Svo er og lendingin, er þar sýnist verið hafa, af útgrynni öldungis fordjörfuð og ónýtt. Grastór, sem hér og hvar í landareigninni kunna til baka að vera, nýta sér Stafnesingar og Kirkjuvogsmenn og er hér ágreiningur um landamerki.“

Stafnes

Stafnesvegur.

Árið 1703 hefir gamli Kirkjuvogur legið í auðn yfir stórt hundrað ár, segir þar, þ. e. frá 1580 eða nokkru fyrr. Þegar hér er komið, er orðið grónara heiðarland með lyngklóm niður undir sjávarbakka. Útfiri er mikið innst í Ósum og sandleirur allmiklar um stórstraumsfjöru.
Djúpivogur er nyrzti, innsti og lengsti vogurinn í Ósabotnum. Þar voru landamerki milli Stafness og Hafna og um leið hreppamörk. Þeim mun þó hafa verið lítilsháttar breytt á síðari árum.
Yfir margt er að líta á langri ævi og umbreytingasamri. Frá strönd ég stari og sé í fjarska tímans: sjóinn og fjöruborðið með öllu Miðnesi, eins og rósótta ábreiðu, síbreytilega eftir sjávarhæð og ljósbroti sólar. Á lognblíðum dögum, þegar síkvik báran lék við þarann og sandinn, fóerlan söng sitt ljúfasta lag og æðurin ú-aði á útmánuðum, var yndislegt að vera ungur og lifa í óskadraumum, sem aldrei rættust. – En svo dró bliku á loft og bakka við hafsbrún. Þau sendu sterkan hvínandi storm, þá varð dimmt undir él, sjórinn úfinn og ægilegur, eins og reiður jötunn, er Hræsvelgur blakaði arnarvængjum sínum. Þannig er, í fáum orðum, myndin á spjaldi minninganna.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Stafnes
-Rauðskinna (Sögur og sagnir), IX-X bindi, ritstj. Jón Thorarensen, Reykjavík, 1958.
-Landið þitt Ísland, 4. bindi S-T, Þorsteinn Jósepsson/Steindór Steindórsson, Reykjavík 1983
-Magnús Þórarinsson: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; Stafnes“, Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, Hafnarfirði, 1960, bls. 151 –165.
-Ari Gíslason skráði eftir Metúsalem Jónssyni.

Stafnes

Stafnes – lögrétta.

Prestavarða

Gengið var um Stóra-Hólm og Litla-Hólm í Leiru, upp á heiðina fyrir ofan Leiru að Prestsvörðunni, sem þar er. Frá henni var haldið vestur fir heiðina ofan við Langholt að Árnarétt, fallegri fjárborg, og síðan gengið til norðurs að Ellustekk.

Litla-Hólmsvör

Litla-Hólmsvör.

Stóri-Hólmur er fornt höfuðból í Leiru. Talið hefur verið að Steinunn gamla, frændkona Ingólfs Arnarsonar hafi búið á Stóra-Hólmi á landnámsöld. Að sjálfsögðu deila menn um hinn eiginlega dvalastað hennar í umdæminu, en skv. Landnámu þáði hún Rosmhvalanesið allt af frænda sínum, Ingólfi Arnarssyni, fyrir forláta kápu. Það var altalað þá og virðist lengi hafa verið í minnum haft, enda vildi hún að kaup kæmu fyrir gjafakaupin góðu. Í landi Stóra-Hólms er sæmilegur golfvöllur landsins rekin af Golfklúbbi Suðurnesja. Vestan við Stóra-Hólm er bátslaga óræktarsvæði. Hleðsla hefur verið umhverfis og lengi vel var bletturinn girtur af. Sú sögn var um blett þennan að þar væri fornmaður grafinn og honum mætti ekki raska. Sumir segja að þar hafi Hólmkell, fornmaður, verið grafinn með haugfé sínu, en ekki er vitað til þess að gengið hafi verið úr skugga um það.
Enn vestar er fallega hlaðinn brunnur. Utar og neðar er Litla-Hólsmvörin, ein tilkomumesta lending á ströndinni. Úr henni hefur verið kastað stóru sjávargrjóti með takmörkuðum tækjabúnaði.

Stóri-Hólmur

Stóri-Hólmur – fornmannaleiði.

Gengið var upp frá Stóra-Hólmi og upp fyrir æfingavöll golfklúbbsins ofan vegar. Skammt ofan við vesturjaðar hans er Prestsvarðan. Sagt var, að síra Sigurður Sívertsen, sem prestur var á Útskálum fyrrum, hafi einhverju sinni verið þarna á ferð að vetrarlagi. Kom hann úr Keflavík og ætlaði heim til sín að Útskálum.
Talið var að leiðin væri tveggja tíma gangur eða meira eftir þeim vegi sem þá var farinn. En við lestagang voru allar vegalengdir miðaðar á þeim tímum.
Þegar prestur kom út á móts við miðja Leiru villtist hann af leið. Fannst honum líðan sín þannig að hann treystist ekki til þess að halda áfram ferðinni. Prestur tók það ráð að leggjast fyrir og vera kyrr alla nóttina. Nokkru síðar lét síra Sigurður hlaða upp vörðu á þessum stað. Var hún ferstrend eins og margar grjótvörður. En eitt var það, sem gerði hana frábrugðna öðrum vörðum. Á hlið þeirri sem að austri snéri var allstór flöt hella sem á var höggvið sálmavers.

Árnarétt

Árnarétt.

Skammt frá vörðunni er gamla leiðin yfir í Garð frá Keflavík. Önnur leið var norðar, framhjá fjárborginni vestast á Berghólum. Hún sést enn mjög vel á köflum, einkum næst borginni.
Strikið var tekið til vesturs, ofan við Langhóla. Austast á þeim er stór ferhyrnd varða. Í fyrstu gæti hún hafa verið leiðamerki inn í vörðina við Hólm, en þarna mun vera merkilegt fyrirbæri er nefnist Ranglát. Var dregin sjónlína úr henni yfir fjörðinn.  Veiðitakmarkanir voru beggja vegna línunnar. Árnarétt er í heiðinni nokkru vestar. Hún er hringlaga og vel hlaðin. Litlar upplýsingar virðast vera til um mannvirkið, en það gefur Staðarborginni lítið eftir. Hún er stærri að ummáli en Staðarborgin, svo til alveg heil og næstum því jafn há og hún. Norðan hennar er Álaborgin, forn rétt.

Ellustekkur

Ellustekkur.

Gengið var til norðurs, niður heiðina, að Hríshólavöru og áfram niður að Elínarstekk. Þetta er lítill grasi gróinn hóll eða þúfa, sem kölluð er þessu nafni, stundum þó Ellustekkur. Það var að sögn heygð Elín, niðursetningur frá Gufuskálum, sem dó á dularfullan hátt á 18. öld.
Það var sumarið 1787 að Elín Stefánsdóttir, blásnauður niðursetningur á Gufuskálum, fannst örend í snærisspotta í hjalli þar skammt frá bænum. Vegna deilna hennar og vinnumanns, þar á bænum, þótti dauði hennar ekki einleikinn.

Ellustekkur

Ellustekkur.

Haldgóðar vísbendingar fengust þó ekki um að Elín hafi verið myrt, þrátt fyrir réttarhöld. Þess vegna var talið að hún hefði tekið líf sitt í skyndilegu æði, sem að hefði borið um nótt.
Elín var því, samkvæmt kirkju- og landslögum, heygð utan vígðrar moldar og var holað niður utan túngarðs í Leirunni, í sauðfjárstekk frá bænum á Gufuskálum. Óttuðust grafarnir að Elín gengi aftur og skáru höfuð hennar af um hálsinn, lögði líkið á grúfu, en lögðu höfuðið við þjóhnappana. Átti það að tryggja að hún lægi kyrr. Fyrir meðferðina á líkinu hlutu mennirnir dóma og ákúrur yfirvalda. En aldrei fórum neinum sögum af ókyrrleika sem eignaður var þessari ólánsömu konu.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=219

Hólmur

Hólmur – örnefnakort; ÓSÁ.

Garðaskagaviti

Gengið var frá Útskálum um Garðskaga og með Skagagarðinum að Hafurbjarnastöðum, Kirkjubóli og um Flankastaði að Sandgerði.

Garðsskagaviti

Gamli Garðsskagaviti.

Strönd suðvesturhornsins og Reykjanesskagans er mjög fjölbreytt; sandstrendur, sjávarbjörg, grýttar fjörur eða ýmis konar bergmyndanir í flæðarmálinu. Svæðið hentar því vel til gönguferða og er mátulega langt frá höfuðborginni. Við ströndina er fjölskrúðugt fuglalíf, ekki síst á vorin. Þar fer saman stórkostleg náttúra og lífríki, hreint umhverfi og að mestu óbyggt svæði. Að þessu sinni var gengið ofan strandar, en víða má finna skoðunarverða staði á svæðinu.

Garður

Útskálar.

Útskálar var og er kirkjustaður og prestsetur í Garði, eða Sveitarfélaginu Garði eins og það heitir nú. Útskálar voru eitt mesta höfuðból á Suðurnesjum ásamt Stóra Hólmi í Leiru og Kirkjubóli á Miðnesi. Útskálakirkja var helguð Pétri postula og Þorláki biskupi fyrr á tíð. Kirkja sú er nú stendur á Útskálum var reist á árunum 1861-1863, timburhús á hlöðnum grunni, með sönglofti, forkirkju og turni. Kirkjugarðurinn er athygluverður enda tengjast mörg leiðin fólki og atburðum í Garði og nágrenni, ekki síst miklum sjósköðum fyrrum.

Garður

Garður – byggðasafnið.

Vitinn á Garðskaga trjónir til lofts hvaðan sem litið er í Garði. Hann var byggður árið 1944, en eldri vitinn á Garðskagatá var reistur 1897, en áður hafði verið þar leiðarmerki, varða frá 1847, með ljóskeri frá 1884.
Garðskagi er nyrzti hluti skagans, sem gengur til norðurs, yzt á Reykjanesi. Þar var viti fyrst reistur árið 1897, þar sem hafði verið leiðarmerki, varða frá 1847 með með ljóskeri frá 1884. Árið 1944 var byggður nýr viti. Gamli vitinn var notaður sem fuglaathugunarstaður á vegum Náttúrufræðistofnunar á árunum 1962-1978.

Skagagarðurinn

Skagagarðurinn – kort.

Garðskagi er einn af beztu fuglaskoðunarstöðum Reykjaness og er mikið um farfugla þar vor og haust. Fuglaskoðarar flykkjast þangað til að heilsa upp á vini sína og vonast til að eignast nýja. Gamli Vitinn, sem fremst stendur er vinsælt efni ljósmyndara og í honum má sjá kort af Garðskaga þar sem skipströnd fyrri ára eru merkt og ýmsar upplýsingar eru þar um strandlengjuna.
Greinileg merki um akuryrkju hafa fundizt á Garðskaga, enda dregur hann nafn af Skagagarðinum, sem liggur á milli túnsins á Útskála og Túnsins á Kirkjubóli. Þessi garður var byggður til varnar akurlendinu. Fyrir aldamótin 1900 sást móta fyrir 18 akurreinum, sem voru aðskildar með görðum.
Frá Útskálum var gömlu kirkjugötunni fylgt áleiðis að og ofan við íþróttahúsið ofan við Síkið. Við hana eru tóftir gamalla kota sem og fornmannagröf, að talið er. Við hana er letursteinn, sem ekki hefur tekist að ráða í.

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Gengið var til baka eftir götunni og beygt upp að enda Skagagarðsins, sem enn er sýnilegur, ofan við aðalgötuna í gegnum þorpið. Þar liggur hann beint upp í hæðina, áleiðis að Kirkjubóli.
Skagagarðurinn, sem mun vera forn, girti nyrsta hluta Rosmhvalsness frá öðrum hlutum Reykjanesskaga. Garðurinn var aðlíðandi norðanmeginn, en hár og lóðréttur til suðurs, enda hefur honum væntanlega verið ætlað að halda sauðfé frá miklum kornökrum sem voru nyrst á skaganum.
Fáum mun kunnugt um Skagagarðinn sem forðum lá frá túngarðinum á Kirkjubóli norður í túngarðinn á Útskálum. Engu að síður er hér um að ræða einhverjar merkustu fornminjar landsins og gefa okkur vísbendingar um löngu horfna starfshætti.

Garðsskagi

Skagagarðurinn – loftmynd 1954.

Skagagarðurinn mun hafa verið um 1500 metra langur og var fyrr á öldum um einn og hálfur metri á hæð og afar þykkur. Í tímans rás hefur hann hins vegar flast út og fengið ávalan svip.
Lengi ver var talið að garðurinn væri frá 13. og 14. öld, en fyrstu ritheimildir um hann eru frá árinu 1528. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó leitt í ljós að garðurinn hefur varla verið hlaðinn síðar en á 10. öld.
Ljóst er að garðurinn hefur girt með öllu fyrir skagann. Því við báða enda hans tóku við miklir túngarðar, en samkvæmt lögum íslenska þjóðveldisins var hver maður skyldugur til að verja vikum á ári til garðhleðslu.

Garðskagi

Garðsskagaviti.

Garðinum var fylgt til vesturs. Ofarlega í hæðinni eru tóftir Skálareykja. Þar við var læst hlið á Skagagarðinum. Vörslumaður hliðsins bjó að Skálareykjum.
Garðinum var fylgt áfram yfir þjóðveginn milli Garðs og Sandgerðis og þá var stutt eftir að Hafurbjarnarstöðum.
Hafurbjarnastaðir hefur verið bær allt frá landnámsöld. Þar fannst árið 1868 kumlateigur úr heiðni sem telja verður einn merkasta fornleifafund Íslandssögunnar. Bein og gripir voru flutt í Forngripasafnið, en dr. Kristján Eldjárn lauk rannsóknum á honum árið 1947. Í teignum voru bein sjö eða átta manna auk ýmissa gripa. Heillegasta beinagrindin er varðveitt í glerkassa á Þjóðminjasafni Íslands eins og margir munu kannast við. Alls voru í teignum 9 kuml og í þeim bein 7 eða ef til vill 8 manna og hafa þau verið rannsökuð. Einnig var mikið af beinaleifum hunda og hesta. Allmargt gripa fannst þar, vopn, skartgripir og fleira og sennilega hefur verið þar bátskuml.
Haldið var yfir að Kirkjubóli, sem nú er á golfvelli Sandgerðinga. Kirkjuból var mikil jörð og oft setin áður af höfðingjum. Það var áður þar sem nú heitir Gamlaból. Sá atburður gerðist vorið 1433 að hópur manna, sveinar Jóns Gerrekssonar Skálholtsbiskups, undir forustu Magnúsar nokkurs kæmeistara hafði beðið Margrétar, dóttur Vigfúsar hirðstjóra Hólms, en fengið hryggbrot. Reiddist Magnús og ákvað að brenna Margréti inni á Kirkjubóli. Hún var þó eina manneskjan sem komst úr eldinum komst á þreveturt trippi og gat flúið. Hét hún að giftast þeim manni sem hefndi hennar. Það gerði Þorvaldur Loftsson á Möðruvöllum og fékk hann Margrétar.

Kirkjuból

Kirkjuból – loftmynd 1954.

Árið 1550 var síðasti kaþólski biskupuinn á Íslandi tekinn af lífi. Sá sem kvað upp úrskurðinn um að biskup skyldi líflátinn hét Kristján og var umboðsmaður danska hirðstjórans á Íslandi. Í ársbyrjum 1551 fór Kristján með fjölmennu liði á Suðurnes í erindum konungs og tók sér gistingu að Kirkjubóli. Um nóttina réðust Norðlendingar að bænum fengu leyfi bóndans þar til að rjúfa þekjuna, réðust að Kristján og mönnum hans og drápu þá fleiri eða færri. Voru Kristján og fylgdarmenn hans dysjaðir fyrir norðan túngarð á Kirkjubóli, á Draughól. Þótti þar reimt, svo að Norðlendingar fóru aftur, grófu líkin upp og hjuggu höfuðin en settu nefin milli þjóana. Þetta þótti mönnum hin mesta smán og svívirðing og er fréttin barst til Danmerkur og töldu að níðst hefði verið á líkunum.

Garður

Letursteinn á fornmannaleiði í Garði.

Leiddi þessi atburður til þess að árið eftir komu danskir hermenn að Kirkjubóli, tóku bóndann og fluttu í Straum og hálshjuggu þar. Því næst héldu þeir út á Álftanes, handsömuðu böðulinn sem tekið hafði biskupinn af lífi og neyddu hann til þess að drekka bráðið blý. Tókst danska konungsveldinu að koma lögum yfir fæsta þessara manna.
Gengið var um Flankastaði, en að Flankastöðum voru fyrr á tímum haldnir vikivakar og jólagleði. Ýmsir kirkjunnar þjónar höfðu horn í síðu þessara dans- og gleðisamkoma sem þeir töldu ýta undir drykkjuskap og lauslæti. Voru þessar samkomur því bannaðar um 1745. Var því spáð að prestinum Árna Hallvarðssyni ætti eftir að hefnast fyrir tiltækið og gekk það eftir þegar hann drukknaði á voveiflegan hátt.
Þá var komið í Sandgerði. Það er með elstu höfuðbólum á Suðurnesjum. Þaðan hefur alla tíð verið stunduð mikil útgerð enda Sandgerði einhver mikilvægasta verstöð landsins, á sama tíma og dró úr mikilvægi flestra annarra verstöðva á Rosmhvalsnesi. Elsta húsið í Sandgerði, Sáðgerði eða Efra-Sandgerði, sem er nyrst í plássinu við Sandgerðistjörn. Árið 1990 fékk Sandgerði kaupstaðarréttindi og er með yngstu kaupstöðum landsins.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.reykjanes.is/Um_Reykjanes/Ahugaverdir_stadir
-http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_gardskagi.htm
-http://www.islandsvefurinn.is/landshlutar.asp?lysing=sws&hluti=sws&menu=sw
-http://www.sandgerdi.is/igen.asp?ID=361&pID=348&rvID=6358

Hafurbjarnastaðir

Gripir sem fundust í kumli við Hafurbjarnastaði.

Sigurður Eiríksson

Gengið var með Sigurði Eiríkssyni í Norðurkoti og fleirum eftir gömlu kirkjugötunni milli Býjaskers og Hvalsness. Leiðirnar fyrrum þarna á millum voru tvær; Neðri-gatan, sem lá með ströndinni, og Efri-Efri-gatagatan, sem lá ofar í landinu.
Gatan síðarnefnda sést víða enn mjög vel og er ætlunin að ganga hana milli hverfanna og jafnframt skrá á spjöld sögunnar – því ekki er vitað til þess að henni hafi áður verið lýst, hvorki á prenti né skjá. Sigurður þekkir örnefnin best núlifandi manna og kann að segja sögur af eftirminnilegum atburðum. Þetta var því söguleg ganga.
Byrjað var þó á því að skoða Bæjarskersgötuna þar sem frá var horfið.
Reynt var að skrá niður það helsta er fyrir augu bar á leiðinni, en vegna þess hversu margt það var, verður sumt að bíða betri síðna.
Sigurður býr nú að Norðurkoti III, austan Stafnesvegar. Þegar hann vildi hliðra til og hleypa yngra fólkinu að búskapnum í Norðurkoti mættu honum ýmsar hindranir, sem bæði eðlilegt og sjálfsagt hefði verið að leysa af verandi ráðamönnum í Sandgerði. Má þar t.d. nefna viðurkenningu á búsetu í hina ágæta nýja húsi, sem sumir vildu flokka undir sumarbústað.
Norðurkot IIISkv. túlkun þeirra mátti Sigurður ekki hafast þar við yfir vetrarmánuðina. Hann þurfti þá að greiða fullt verð fyrir rafmagn, vera án þjónustu sveitarfélagsins og svo mætti lengi telja. Auðvitað verður að flokka þessi viðbrögð undir þröngsýni og lýsir kannski best þeim er þau sýndu – og hafa sýnt. En nóg með það að sinni…
Gangan hófst við leifar gamla bæjarins Bæjarsker. Þar eru nú engin ummerki eftir gömlu götuna.
Að sögn Sigurðar má sjá Neðri-götuna stutta kafla á þremur stöðum, s.s. við Norðurkot. Annars væri hún að mestu horfin. Í lýsingu segir Sigurður m.a. svona frá þessari götu: „Neðri göngugatan milli hverfa, stundum kölluð kirkjugata. Hún lá með bæjum. HólkotÉg man vel eftir henni á Háabakkahólnum. Þar var hún vel merkjanleg eftir miðju Norðurkotstúni. Kom gatan upp úr Fúluvíkinni um hlaðið í Fuglavík, í traðir sem liggja með Fjósakotstúni sunnan til sjávar. Gatan þar er vel sjáanleg í dag, lá með sjó yfir Melabergsá og í gegnum hlaðið á Nesjum og Löndum. Efri-gata var notuð líka og víða sjáanleg.“
Gengið var í fyrstu yfir að og framhjá tóftum Hólkots, Hábæjar og Miðkots. Þar eru á öllum stöðum tóftir torfbæja og hlaðnir grjótveggir.
Efri-gatan kom glögglega í ljós sunnan við Setberg, vestan Stafnesvegar. Götunni var fylgt áleiðis til suðurs. Þegar komið var á móts við Kambsstekk benti Sigurður á grónar leifar hans skammt ofan þjóðvegarins.

Skammt sunnar mátti sjá móta fyrir nánast jarðlægum hlöðnum görðum: „Gilsgarðar, sagði Sigurður“: Gilsgarðar voru hlaðnir af Þorgils Árnasyni í Hamrakoti.
Skammt sunnar staldraði Sigurður við, snérist um 90° og benti til austurs, áleiðis upp heiðina: „Þetta er forvitnilegt, hluti gamals vegar, sem átti að liggja héðan til Keflavíkur. Hér má sjá hvernig mótar fyrir veginum, sem byrjar hér við Efri-götu ofan Vatnagarðs. Hluti vegarins var skemmdur töluvert þegar slitlag var sett á Stafnesveg. Var mjög vel hlaðinn og breiður.
Gamlir menn sögðu, að hestvagnar hafi átt að geta mæst Götuhlutinná honum. Hann hefði átt að liggja til Keflavíkur en draugar hefðu stoppað áframhald. Voru menn hér í hverfinu svona framsýnir og langt á undan tímanum og einhverjir draugar, e.t.v. mennskir, tafið og viljað láta hann liggja með byggð?“
Sigurður taldi að þarna hefði getað verið um vegabótavinnu að ræða. Þegar fjármagn hefði skort var ekki lengra farið. Eflaust hefur líka verið ágreiningur um vegstæðið, sem er svolítið einkennilega staðsett, millum Fuglavíkur og Melabergs.
MarkavarðaOfan við þjóðveginn eru Fuglavíkurstekkir; Neðri-Stekkur (grjóthlaðinn) og Efri-Stekkur (torfhlaðinn). Efri stekkurinn ber við sjónarröndina. Eftir er að skoða hann nánar, en ekki er ólíklegt að þar kunni undir háum gróningunum að leynast fjárborg. Ætlunin er að skoða þessi mannvirki betur fljótlega.
Framundan til hægri mátti sjá Markavörðuna svonefndu. Um hana sagði Sigurður: „Markavarðan er á mörkum milli Fuglavíkur og Melabergs. Varðan er neðst í Almenningum og í klöpp við hana er höggvið L.M. Almenningur var samkomulag milli fjárbænda í Bæjarskershverfi og Fulavíkurhverfi, suður í Nesjar. Almenningur hafði þann tilgang að fé kæmist í fjöru. 

Hábær

Hábær.

Vel má sjá móta fyrir útlínum stekksins. „Kambsstekkurinn er norðast í Setbergsgirðingu (eða Bárugirðingu). Gæti hafa verið stekkur frá Syðstakoti?“, segir í lýsingu Sigurðar. Suðaustan við hann er lítil tjörn, sem þornar á sumrum. Stekkurinn er norðan í svonefndu Kambsgili, sem er aflíðandi slakki upp í landið.
Þá liggur gatan innan girðingarinnar í Norðurkoti og færist smám saman nær henni við þjóðveginn. Þegar komið var inn fyrir Norðurkot III (Bjarghús), þar sem Sigurður býr núna, var staldrað við. Það er í svonefndu Gili.

Kambsstekkur

Austan við húsið í Norðurkoti I er sæmileg tjörn. Hana sagðist Sigurður hafa búið til á sínum tíma. Norðan við Norðurkotsbæinn er Lón, nefnt Skurðir. Um Norðurkotstjörnina segir Sigurður: „Hún var mikið minni hér áður og náði Háibakki mikið ofar og var mjótt haft á milli upp í tangann sem nú er orðinn hólmi. Var farið á steinum yfir á Háabakkann. Pabbi (Eiríkur) byrjaði að laga til og búa til hólma um 1939. Hólmarnir voru búnir til með því að aka grjóti á ís og laða æðarfugl að og smám saman fjölgaði fugli. Var það aðallega úti í hólmunum, en eftir að minkurinn kom, þá flutti fuglinn sig upp í landið.“ Sigurður lýsti því hvernig æðarvarpinu var komið á legg, baráttunni við nálægan varg, sem reyndust vera kettir úr Bæjarskershverfi, uppsetningu 5 km langra varnarneta umleikis o.fl.
Brókarlaut er austar, þar sem Stafnesvegur fer upp brekku suðvestan Norðurkots III. Sagði Sigurður nafnið hafa komið til vegna þess að vegagerðarmenn við veginn hafi þurft að klæðast hlífðarbrókum vegna þess hversu blautt vegarstæðið hafi verið.
Gatan við KlapparkotshólFarið var yfir heimreiðina að Norðurkoti. Þar á hægri hönd mátti sjá leifar af gömlum hlöðnum túngarði. Gatan liggur þarna upp stutta hæ
ð. Á hægri hönd er aflangur klapparhóll, Klapparkotshóll. „Klapparkot stóð vestur undir hólnum“, sagði Sigurður. Þar má enn sjá tóftir þess. Skammt sunnar mátti sjá leifar Hamrakots, hjáleigu frá Fuglavík. Við þær er trjárækt austanvert. Að sögn Sigurðar plantaði Una í Fuglavík, systir Jónínu, þessum trjám löngu eftir að kotið var aflagt. Kotið stóð við Hamrakotshól. Vestar, austan Fuglavíkurbæjarins, var Móhús. Sunnan við Fuglavík er Fuglavíkurtjörn. Hún var einnig nefnd Varptjörn. Sést hún vef frá götunni, sem og annað er lýst hefur verið.
Fuglavíkurbærinn er vestan við Norðurkot. Frá fundi húsfreyjunnar þar, Jónínu, á fornum ártalssteini, segir annars staðar á vefsíðunni.
Ofan götunnar, móts við Hamrakot, er aflangur klettur með hárri fuglaþúfu á, grónar leifar vörðu. „Álfakirkja heitir hann þessi“, sagði Sigurður. Sagðist hann ekki þekkja til sagna af álfum þarna, en þær gætu þó tengst konu einni (Stína) er umsetin var álfum. Bjó hún fyrrum í Hamrakoti. Hún kom þangað einus inni á ári og gekk þá um Hólinn. „Sögur hef ég heyrt um dularfulla hegðun og hvörf hennar þegar hún var ung í Hamrakoti. Ein er sú að bankað var þar að kvöldi, fór hún til dyra en kom ekki aftur og var horfin. Fannst hún inn á Njarðvíkurfitjum. Fleiri sögur eru til skráðar.“
Ofar má sjá steypta veggi Hóla. Faðir Sigurðar, sem bjó í Fjósakoti niður við Fuglavík, byggði húsið, nýbýlið, 1934. Sigurður (f: 1929) flutti síðan í húsið ásamt foreldrum sínum, en það brann árið 1937. Um það leyti var Norðurkotið laust til ábúðar og fluttist þá fjölskyldan þangað. 

Álfakrikjan

Eiríkur Jónsson keypti Norðukotið af Guðmundi Gíslasyni, sem fékk að vera þar áfram meðan hann lifði. Eiríkur reif öll hús í Norðurkoti, sem þá voru úr torfi og grjóti, og reisti ný.
Þarna, upp frá Fuglavík, liggur Fuglavíkurvegur. Um hana segir Sigurður: „Fuglavíkurvegur, gömul leið til Keflavíkur. Man eftir honum liggja frá Efri-götu sunnan Norðurkotsafleggjara, norðan hænsnakofa, norðan Háamels og upp, beygði svo norður af Folaldatjörn og inn á Einstæðingsmel, vestan Gotuvörðu á Sandgerðisvegi. Gotuvarða er ný upphlaðin og merkt af okkur Guðmundi Sigurbergssyni.“
Efri-gataUtan við Hóla og ofan Stafnesvegar er Siggavarða. Ekki sagðist Sigurður vita hvaðan nafngiftin er komin, en hann og Jónína í Fuglavík væru sammála um að hún væri gömul. Skammt sunnar er Dagmálavarða á ílangri Dagmálahæð. Um var að ræða eyktarmark frá Fuglavík.
Frá þessum stað við gömlu götuna benti Sigurður til vesturs og sagði að þarna neðar hefði verið býli er nefndist Vatnagarðar eða Vatnagarður. Sunnar hefðu Kaðalhamrar verið, niður við ströndina. Um væri að ræða stórtgrýttan kletthöfða. Sagði hann fróða menn hafa talað um að nafnið væri sennilega keltneskt. Svo væri og um mörg önnur áhrifaorð í íslensku. Tók hann sem dæmi orðið „geir“ í merkingunni „mör“. Þannig mætti nefna geirfuglinn „mörfugl“, en það væri einfaldlega rökrétt þegar afurð hans væri skoðuð í samhengi. Mörgæsin væri t.a.m. ekki ólíkur þeim fugli, sem reyndar er ekki  útdauð eins og hann. Fleiri dæmi tók Sigurður af nafngiftum kelta og áhrif þeirra á þessu svæði við gömlu kirkjugötuna.

Seinna, um 1945 varð gert samkomulag um að loka þessu til að stjórna flæðihættu. Norðurkot hafði alltaf aðgang að sinni spildu í gegnum Almenning, þangað til 2005, að Melabergsbændur girtu hana af einhliða.“
LindinÞrátt fyrir leit á klöppum við vörðufótin sást engin áletrun. Hún mun þó geta leynst þarna undir sandi, sem fokið hefur um svæðið og þakið misfellur.
Það kom líka augsýnilega í ljós á götukaflanum, sem framundan var. Allt Melabergssvæðið vestanvert er sandoprið þótt takist hafi að rækta þar upp á seinni árum. Gatan er því horfin í sandinn. Syðst á svæðinu staðnæmdist Sigurður við litla tjörn. „Hér neðar er Lindarsandur og þetta er Lindin. Lindarkot var hér skammt ofar, rétt ofan þjóðvegarins, og enn ofar er Melaberg. Í Lindinni þraut aldrei vatn. Hún var hlaðinn niðurgenginn brunnur. Tröppur voru hér að suðvestanverðu og hlaðið umleikis, líkt og sjá má í brunninum forna á Merkinesi. Sandurinn fyllti síðan brunninn og nú er hann horfinn. Það væri létt verk og löðumannlegt að grafa hann upp og gera aðgengilegan áhugasömum ferðalöngum um svæðið“. Í örnefnalýsingu fyrir Melaberg segir um lind þessa: „Er sandur þessi niður undan bænum Melaberg og heitir Lindarsandur. Dregur hann nafn af lind þeirri, sem er þar vestan við túnið. Hún var vatnsból og talin eins konar lífslind. Þetta sýnist þó vera ómerkileg hola í slétta grund og mun hafa verið talin hættuleg skepnum. Þau ummæli voru á Lindinni, að aldrei mætti fylla hana upp. Þetta var þó gjört á síðari hluta 19. aldar, og hlaut sá, er verkið vann, ógæfu nokkra. Hann hafði lokið verkinu, en var eigi genginn frá Lindinni er hann tók sjúkleika, sem varaði í nokkur ár, og fleira gekk

 báglega um tíma. Voru ummælin talin valda. 

Smalinn

Lindin var grafin upp aftur og hreinsuð; hefir ekki ógæfa á legið síðan. Þó Lindin sé eigi enn þá vatnsból Melabergs, er vatnið í henni hreint og tært. Hún hefir nú fengið þann umbúnað, að partur af tunnu hefir verið festur í botninn, og góður gangvegur er nú niður í holuna á einn veg. Geta kýr og aðrar skepnur gengið þangað sjálfkrafa til brynningar sér.“
Leiðin liggur nú yfir að því er virðist gamlan árfarveg, svonefnda Melabergsá. Utan við hana eru nokkrir steina á lágu hloti. Komið var að „Melabergsbræðrum og smalanum“; þremur stórum steinum á lágri aflangri hæð. Þjóðsaga kveður á um tilurð steinanna, smalinn austast og bræðurnir þétt saman vestar. Í kringum þá eru minni steinar; ær er urðu að steinum líkt og hinir fyrrnefndu.

Norður-Nesjar

Í lýsingu Magnúsar Þórarinssonar: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; – Melaberg“, Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, sem Félag Suðurnesjamanna gaf út í í Reykjavík, 1960, bls. 131-133, segir m.a. um neðanvert svæðið nálægt Melabergi: „Upp af Skjólgarðsbökkum, norðan við Melabergsá ofanverða, eru tveir stórir klettar með 3—4 faðma millibili; heita þeir Melabergsbræður, en í daglegu tali stytt í „Bræður“. Um 20—30 föðmum austar er einn steinn af sömu stærð og líkri lögun; heitir hann Smali.
Milli þessara einstæðu kletta eru nokkrir tugir smærri steina, sem eru öðru vísi en annað grjót á þessum slóðum. Þeir eru sléttir, ljósir að lit, líkir að stærð og lægri í vesturendann. Ef á að lýsa þeim nánar, þarf að hafa sömu aðferð og þegar skoðað er gott málverk, en það er: að vera í hæfilegri fjarlægð og horfa á þá frá réttri hlið.
Bezt er að standa spölkorn fyrir sunnan þá eða suðaustan og hugsa sér Suðurnesjaveðrá
ttu, útsynning með hryðjum eða éljum. Er þá ekki öðru líkara en að þarna sé fjárhópur og snúi allar „kindurnar“ í veðrið og séu að bíta. Enda segir gamla sögnin, að Melabergsbræður, ásamt með sauðamanni og búsmala, hafi þarna dagað uppi um eina fagra sólarupprás einhvern tíma í fyrndinni.
Efri-gata

Margar og miklar sögur hafa gengið frá Melabergi og Melabergsmönnum; eru nokkrar þeirra skráðar í þjóðsögum. Það var í munnmælum, á unglingsárum mínum, að Melaberg hafi einhvern tíma áður verið stórbýli með 50 hurðir á járnum, aðrir sögðu 80 og einstöku maður komst upp í hundrað. Enginn hefir þó getað sagt, hvar þennan fróðleik er að finna.“
Þegar lengra var haldið blasti Másbúðarvarða við niður við ströndina; sundvarða í Keili. Komið var að gatnamótum Hvalsnesgötu frá Keflavík og Efri-götu. Frá þeim tók gatan svo til beina stefnu á efsta grjótgarðinn við Nesjar. Ekki er auðvelt við fyrstu sýn að greina götustæðið, en úr því rættist fljótlega. Á leiðinni var gengið yfir jarðlægan garð Norður-Nesja. Tóftir bæjarins eru á lágum hól sunnan við túngarðinn. Hleðslur sjást enn er forma fyrrum bæjarstæðið. Um hann og fleira á leiðinni má t.d. lesa í Rauðskinnu.

Fuglavík

Fuglavík – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var ofan garðs við Nesjar og Lönd. Þar fylgdi gatan utanverðum görðum. Að sögn Sigurður má enn greina Virkið (Virkishól) og Gömlu Nesjar á bak við bílskúrinn á Nesjum. Másbúðarhólmi er neðar, landfastur á fjöru.
Nýlegt sumarbýlissvæði var á hægri hönd er lengra var haldið og þá Bursthús. Nýlenda var síðasti bærinn á hægri hönd áður en haldið var heim á hlað að Hvalsnesi. Frægastur ábúenda á Hvalsnesi er að ölluk líkindum séra Hallgrímur Pétursson.
Að lokinni göngu bauð Sigurður þátttakendum til stofu í Norðurkoti III. Til að bæta um betur fyrir hinar ellefu sortir og laufabrauð á borðum eftir fyrri ferðina galdraði hann fram rúsínur í súkkulaðihjúp og bauð rjúkandi kaffi með.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mínútur.

Heimild:
-Sigurður K. Eiríksson í Norðurkoti (f. 1929 – d. 2016)

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

 

Fuglavíkurvegur

Ætlunin var að ganga með Sigurði Eiríkssyni í Norðurkoti III (Bjarghús) um gömlu Fuglavíkurleiðina milli Fuglavíkurhverfis og Sandgerðisgötu þar sem leiðirnar mætast við Einstæðingshól á Miðnesheiðinni.
Á FuglavíkurleiðSigurður er að öllum líkindum sá eini núlifandi, sem þekkir þessa gömlu þjóðleið. Hún hefur víða blásið upp í heiðinni, en ummerki má þó enn sjá eftir hana nánast samfellt ef vel er að gáð, s.s. vörðu- og götubrot. Efsta hlutanum, næst Einstæðingshól á Einstæðingsmel, hefur þó verið raskað vegna andvaraleysis hlutaðeigandi. Tilgangur ferðarinnar var að staðsetja götuna og kortleggja.
Ef vel gengi var og ætlunin að huga einnig að gömlu götunni að Bæjarskerjum (Býjaskeri), en hún hefur ekki verið farin lengi.
Með í för voru, auk FERLIRsfélaga, Páll í Norðurkoti, tengdasonur Sigurðar, og Guðmundur, félagi hans, en báðir eru þeir áhugasamir um örnefni og gamlar minjar í Fuglavíkurhverfi og víðar.
Þess má geta að Sigurður hafði áður leitað að og fundið Fuglavíkurleiðina, merkt hana og varðveitt. SigurðurSíðar hafi snuðra hlaupið á þráðinn og hann ákveðið að fjarlægja merkingar á götunni. Við það hvarf hún auðvitað með það sama. Nú var ætlunin, sem fyrr sagði, að endurheimta hana.
Sigurður, sem er að verða kominn á níræðisaldur (f: 08.09.1929), gekk röskum skrefum að upphafsreit, staðnæmdist, benti í austnorðaustur upp heiðina og sagði: „Í þessa átt drengir. Gatan virðist ógreinileg í fyrstu, en hún lá hér frá Norðurkoti og upp eftir.“ Síðan hélt hann af stað með aðra á eftir sér. Á hægri hönd var hlaðin lítil tóft með dyr mót suðri; „hænsnahús frá Hólum og síðar frá Norðurkoti,“ sagði Sigurður. Ofar varð gatan greinilegri og var tiltöluleg auðvelt að fylgja henni upp að Háamel. Ofan hans kom hún í ljós á nýjan leik. Efri-varða sást þá í norðri. Varðan var notuð sem fiskimið og sem sundvarða. Ekki er vitað um Neðri-vörðu. Vörðubrot voru við götuna sem og á nálægum hólskollum.

Fuglavíkurvegur

Gatan beygði með norðanverðri „Sléttunni“, líklega svo koma mætti við í Folaldatjörn (Folaldavötnum), hinu ágætasta vatnsstæði í heiðinni. Folaldatjörn hefur einnig verið nefnd Folaldapollur, en sá mun vera nokkru sunnar í heiðinni. Nafnið kom til eftir að folald drapst í tjörninni.
Fátt er um kennilýsingar í Miðnesheiðinni. Í örnefnalýsingu fyrir Fuglavík segir m.a.: „Rétt ofan við veginn er grjóthæð ílöng, sem heitir Dagmálahæð. Suður frá henni ofan við veg, Neðri-Stekkur og Efri-Stekkur. Langt uppi í haglendinu eru Selhólar, sem lentu í flugvallarlandinu.
Ofan við veginn eru rústir eftir nýbýlið Hóla, sem brann. Vatnagarðar er dældin suður af vatninu. Þar hefur verið býli. Markahóll er grasi gróinn hóll upp í heiði á merkjum móti Melabergi. Vatnshólavarða er í brún frá bæ séð. Þar eru margir hólar, Vatnshólar, og draga nafn af Melabergsvötnum. Upp af Norðurkoti ofan við veg er lægð, sem heitir Gil. Í því norðanverðu er býlið Bjarghús.“ Við það var reist nýbýlið Norðurkot III þar sem Sigurður Eiríksson býr nú.
EinstæðingshóllÍ örnefnalýsingu fyrir Bæjarsker er einnig fjallað svolítiðum kennileiti í heiðinni, s.s.: „
Nú er að flytja sig upp fyrir veginn. Fast niður við veg rétt norðan við merkin er Kampastekkur. Þar upp af eru lautir og skorningar, sem nefndir eru Gil. Ofan þeirra er klettahóll, sem nefndur er Einbúi og ekki er vert að snerta við. Þar ofar, norður og vestur, er Stórhóll. En beint þar norður af er Stekkur. Þá er norður af Stórhól Svefnhóll, með smálægð á milli, þar niður af. Niður við rétt er Stakkstæði. Þar er hóll. Þar voru klappir og þurrkaður fiskur á þeim. Þetta er sunnan við gamla Keflavíkurveginn. Svo er skilarétt gömul ofan við veginn rétt við Stakkstæðið. Nú er að fara aftur og fara upp. Ofan þessa er Skurðholt, og syðst í Skurðholtum er Litli-Bekkjarhóll. Norður af honum og hærra er Stóri-Bekkjarhóll. Nyrzt í þeim sunnan við veg er Tóhóll. Upp af honum er Grænabrekka.
FjárborgNorðan við Tóhól var í gamla daga fjárhús, og rétt þar upp af er Hleypisundshóll. Hann er á merkjum móti Fuglavík. Suður og upp af Hleypisundshól eru Folaldavötn, en þau eru Í Fuglavíkurlandi. Þar upp af til norðurs eru Gömlu-Þrívörður, og til austurs og norðausturs Litlu-Þrívörður. Norðar eru Draugaskörð. Á þeim var hlaðin varða á einum af þrem Draugaskarðshólum, nefnd Efri-Dauðsmannsvarða. Svo er klapparhóll, sem heitir Grímsvörður. Skammt ofar varð að sprengja þar úr. Þar upp undan, suðaustur af Gömlu-Þrívörðum, eru svonefnd Torfmýrarvötn. Þetta eru þrjár tjarnir í mýri og mosatóum. Ein þeirra þornar aldrei. Ein er stór og aldrei slegin. Suður af þeim og milli þeirra eru klappir, nefndar Grímsvörðusker.“
Þegar komið var upp á Einstæðingshól komu í ljós leifar af fyrrum myndarlegri ferlingslagaðri vörðu. Hana hyggjast Sigurður og Guðmundur endurgera þegar færi gefst. Væri það vel til fundið að viðhalda henni og þá um leið hinum fyrri gatnamótum Fuglavíkurvegar og Sandgerðisgötu (-vegar).
Í BæjarskersseliÞá var haldið niður að Vegamótahól. Við hann liggur Sandgerðisvegurinn. Þar eru og gatnamót Bæjarskersgötu (-vegar). Henni var fylgt niður að „Sandgerðisskógum“. Norðan þeirra eru Álaborgarréttir syðri. Austan réttanna eru kofatóftir, en enn austar má vel sjá leifar af hringlaga fjárborg. Gatan liggur niður með klettarana; Álaborg. Suðvestan undir hennar er stór klettur, sæbarinn; Stekkurinn, að sögn Sigurðar. Sagnir eru um að álfar gisti seininn.
Þegar skoðað var í kringum Álaborgina kom í ljós seltættur, sennilega Bæjarskerssel. Kofatóftir eru vestanundir aflöngu klapparholti, í skjóli fyrir austanáttinni. Vestar er hringlaga tóft. Sunnan hennar er stekkur undir Álaborgarnefinu.
Vatnsstæði er undir klettum ofan og til hliðar við Stekkurinnstekkinn. Líklegt má telja að selið hafi verið nýtt af bændum í Bæjarskershverfinu, en lagst af nokkru áður en svæðið var nýtt til yfirsetu. Auðvelt hefur verið um vik því stekkstæðið er tiltölulega nálægt bæjum.
Þegar Bæjarskersgatan (selstígurinn) var genginn áleiðis til bæjar kom í ljós önnur gata skammt norðar með sömu legu. Sú leið er vörðuð. Ætlunin er að skoða hana við tækifæri, sem og kirkjugötuna millum Bæjarskershverfis og Hvalsness, en hún sést enn mjög greinilega.
Grjóthlaðin Bæjarskersréttin skammt ofan við Stafnesveg, og er enn notuð, var byggð í kringum 1930.
Að lokinni göngu var þátttakendum boðið í kaffihlaðborð að Norðurkoti þar sem ekki færri en níu kökusortum og laufabrauði var rennt niður með ljúffengu kakói.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Sjá MYNDIR.
Folaldatjörn

Bæjarsker

Í „Fornleifaskráningu vegna fyrirhugaðs ljósleiðara í Suðurnesjabæ„, frá árinu 2022 segir m.a. um Bæjarsker, Hólshús, Hólkot, Miðkot, Syðstakot, Setberg, Hábær, Bárugerði, Laufás, Péturskot, Stakkagerði:

Bæjarsker/Býjasker

Bæjarsker

Bæjarsker 2024.

Um 1270: Skrá um rekaskipti á Rosmhvalanesi. “ok þar vr sionhending j hinn hæsta stein aa markskeri.
Þadann eigv sydvr biasker j midiann eyktiar holm.” DI II, 77.
Um 1270: “Þetta er hvalskipte rost hvelínga: at þann hval sem meire er enn xij vætter ok half vætt ok rekvr millvm æsvbergs ok kefl v vikur til motz vid niardvikínga skall skiptta j nív stade. […] Hinn vij hlvt eiga biasker ok kirkiv niardvik halfan hvort.” DI II, 78-79.
Bæjarsker1367: “lxvi. Kirkia hins heilaga Olafs kongs ad Byiaskerium a. etcetera. les wilchinsbok “; Hítardalsbók DI III 221.
1370: “Og af ollum bæium sudur Þadan [frá Hvalsnesi] til Voga allar skylldur [til Hvalsness] vtan af Biaskerium oc Þeim tveimur kotum sem Þar fylgir jordunni. tekst Þar af heima tiund. af Hvalsnesi skal syngia til Biaskeria annan huern dag helgan.” DI III, 256-257 [Hvalness]
1397: “Kirkia hins heilaga Olafs konungs ad Biaskerium […].” DI IV, 105.

Bæjarsker

Bæjarsker – loftmynd 2022.

1444: Skúli Loptsson selur Hallsteini Höskuldssyni Þingnes í Borgarfirði fyrir 60 hdr. “hier j mot gaf nefndur hallzsteinn halfa iord er heiter biasker er stendr aa Rosthualanesi fi rir halfan fi orda tug hundratha […]”. DI IV, 658-659.
1488: Guðmundur Skúlason prestur selur Ólafi biskupi og heilagri Hólakirkju: “haalfa jord er heiter biaskier er liggur aa rosthualanesi j hualsnes kirkiv sokn fyrir fi orvtigi hvndrada […].” DI VI, 637.
1489: “medkienning Sniolf(s) prests ad hann hafe luckt peninga fyrir Biaskier Gudmunde Skulasine.” DI VI, 659. Sjá einnig bréf 22.07.1491, DI VI, 758.
1490: Dómur útnefndur af Diðrik Píning “aa biaskeria þingi”. DI VI, 719.
1517: Ögmundur ábóti í Viðey selur Hannesi Eggertssyni Kirkjuból í Selárdal, Suðureyri og Tungu í Tálknafi rði fyrir “[…] halfa Biaskier oc Þoristadi er liggia aa Hrosshvalanesi […].” DI VIII, 608. Sjá einnig bréf 14.9.1517, DI VIII, 637 og bréf 7.7.1519, DI VIII, 699.

Bæjarsker

Bæjarsker – herforingjakort 1908.

1525: Máldagi Hóladómkirkju. “(Þ)etta jarda gödz atti holakirkia j sama tima. […] biasker half.” DI IX, 301-302.
1539: Dómur tólf mann útnefndra “aa biaskerivm aa rosmhvalanesi.” DI X, 474.
1547-1548: Fógetareikningar. “Jtem met Beerskeeriom v legekör. […].” DI XII, 116. Sjá einnig Fógetareikninga 1548-1549, DI XII, 142; 1549-1550, DI XII, 157; 1550, DI XII, 176; 1552, DI XII, 403.
1552: Skýrsla um jarðeignir sem Jón biskup seldi frá Hólastól. “Biasker half xxc.” DI XII, 459-460.

Bæjarsker

Bæjarsker – varir, Hólshúss, Hólkots, Miðhúss og Syðstabæjar vestan Kirkjukletts.

1550: Skrá um eignir Hóladómkirkju. “Hafa þessar jarder. sem hier epter skrifast. logast og j burttu sellst fra Holakirkiu aa medan biskup Jon hefur halldit kirkiuna. […] Býasker half .xx. c.” DI XI, 872.
1686: 45 hdr., 100 ál., konungseign, samkvæmt The Old Icelandic Land Registers, 122.
1695: 45 hdr., samkvæmt Th e Old Icelandic Land Registers, 122.
1703: Jarðardýrleiki óviss, konungseign, með hjáleigunum Sidstakoti, Midkoti , Holkoti, Barusgierde, eyðihjáleigurnar Hialltakoti, Lambhúsi, Nordurkoti, Krossabrecku og Glæser auk tveggja ónefndra hjáleiga, segir í JÁM III, 55-58.

Bæjarsker

Bæjarsker – útihús.

1703: “Torfrista og stúnga engin nema í sendinni jörðu valla nýtandi. Fjörugrasatekja nokkur. Hrognkelsafj ara nokkur. Murukjarnar og söl er brúkaðar fyrir peníng […] lendíng slæm, önnur langt frá í flæðiholma og þar fyrir mjög bæði hætt fyrir skip og erfi ð […]. Tún gánga mjög af sjer fyrir sandi og sjáfarágángi. Engjar eru öngvar. Land graslítið, mestalt grjót og sandur. Flæðihætt mjög. Eldiviðartak ekkert nema af fj öruþángi. Vatnsból slæmt og þrýtur stundum,” segir í JÁM III, 55.
“Ofan við túnið er kúagerði ,” segir í örnefnaskrá AG. Þar kemur jafnframt fram að örnefnið Hesthúshóll sé á jörðinni (Ö-Bæjarsker AG, 2). “Sölvatangi. Langt rif, sem er milli sundanna. Sölvatekja,” segir í örnefnaskrá MÞ (Ö-Bæjarsker MÞ, 3).
“Á milli Sáðgerðir og Bæjarskerja átti að hafa verið svo mikill stör, að fénaður, sem þar var á beit, sást ekki. Nú er þar sandur ein og sjávarrót.
1703: “[…] staðfestu þennan framburð og sönnuðu með eiði, eptir uppátekt Páls [Beyers] og tilnefnd sýslumanns, á Býjaskerja-, Kálfatjarnar- og Kópavogsþingum, 2 lögréttumenn.” Vallaannáll, Annálar I, 451.

Bæjarsker

Bæjarsker – Rústir (útihús er fornar bæjarrústir)?

“Á Býjaskerjum […], er það ekki full 46 hndr. með 5 hjáleigum (aðrar 5 höfðu einhvörn t(íma) áður fyrr verið byggðar). […] Á fyrri dögum skyldu hafa verið margar hjáleigur fyrir utan þær, sem nú eru byggðar, sem nú sjást engin merki til, hvar staðið hafa” segir í sýslu og sóknalýsingum, 80, 97.
1847: 45 5/6 hdr., bændaeign, með hjáleigunum Hólkoti, Báruskeri og Norðurkoti, samkvæmt JJ, 87. “Eyvindr [frændi Steinunnar gömlu] bjó nokkura vetr síðan í Heiðabæ ok fór síðan á Rosmhvalanes til Bæjarskerja […],” segir í Landnámabók, ÍF I, 391.
1919: “Stakkagerði, þ. búð eyðilög f. nák. 20 árum,” segir á túnakorti. Þar eru einnig hjáleigurnar Hólahús og Syðstakot merktar sem og þurrabúðin Laufás.

Bæjarsker

Bæjarsker – Hábær.

Þurrabúðin Setberg, eyðibýlið Hábær og þrjú nýbýli, Vinaminni, Reynistaður og Sólbakki er nefnd í örnefnaskrá (Ö-Bæjarsker AG, 1-2).
Örnefnið lögrétta er á jörðinni (Ö-Bæjarsker AG, 2).
Jarðarítök: Jörðin brúkar skóg til kolagerðar í almenningi. Að auki nýtir heimabóndinn grasnytjar af hjáleigunum Lambhúsi, Norðurkoti, Krossbrekku og tveimur ónefndum eyðihjáleigum, samkvæmt JÁM III, 55-58. “Meðan fjöruþang var eina eldsneytið, var Eyrin óþrjótandi náma og fengu margir aðrir en eigendur að njóta góðs af því, fyrir litla eða enga þóknun,” segir í örnefnaskrá (Ö-Bæjarsker MÞ, 2).
Fasteignamat frá 1916 er til fyrir Bæjarsker, tvö býli, ásamt Laufás, Syðstakoti, tveimur Miðkotum og Hólshúsum.
1919: “Túnin mestöll slétt og sléttuð[,] blettir aðeins hér og þar smáþýfðir.” Tún (Býjasker A), 2.6 hekt., garðar 1320 m2. Tún (Býjasker V), 2.6 hekt., garðar 1280 m2. Tún (Hólshús), 1.15 hekt., garðar 300 m2. Tún (Syðstakot), 1.4 hekt., garðar 1830 m2. Tún (Laufás), 0.33 hekt., garðar 400 m2. Öll torfan samtals 8.08 hekt., og garðar 5130 m2.

Syðstakot

Bæjarsker

Bæjarsker – Syðstakot.

Á túnakorti frá 1919 er hjáleigan Syðstakot merkt liðlega 240 m sunnan bæjar. Bæjarröðin samanstendur af sex steinhúsum, einu timburhúsi, tveimur forum og tveimur kálgörðum. Í túni eru teiknuð þrjú steinhús, átta kálgarðar og leið sem liggur frá Syðstakoti til vesturs að kálgörðum í túni og endar þar Að auki er garðlag teiknað sem myndað keilulaga tún milli austan Syðstakots. Hugsanlega er um leifar gamals kálgarðs að ræða.
“Sidstakot, hjáleiga. Jarðardýrleiki óviss. Við til húsabótar leggur heimabóndinn,” segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. Syðstakot er líkt og nafnið bendir til sunnarlega í heimatúni Bæjarskers. Núverandi íbúðarhús er fast austan við húsin sem sýnd eru á bæjarhólnum. Stafnar bæjarins snéru til suðurs. Fyrirhugaður ljósleiðari liggur yfir vesturhluta bæjarhólsins.
Rætuð tún og tjarnir eru á þessu svæði. Bakarður íbúðarhússins er á öllum bæjarhólnum. Bæjarhóllinn er um 40×25 m að stærð og snýr austur-vestur. Erfitt er að sjá upphækkun á yfi rborði sökum mannvirkja ern líkast eru enn mannvistarlög undir sverði.

Stakkagerði

Bæjarsker

Bæjarsker – útihús við Hólshús.

Túngarður afmarkaði túnblett umhverfis Laufás samkvæmt túnakorti frá 1919. Suðurhluti hans er enn varðveittur innan áhrifasvæðis fyrirhugaðs ljósleiðara, miðlínan er 5 m sunnar. Vírgirðing er fast við garðlagið. Allt umhverfis eru gróin tún. Túngarðurinn er 42 m að lengd en var ekki skoðaður utan áhrifasvæðisins. Líklega er þetta undirhleðsla undir girðingu og er norðan við malarveg að Fjörukoti. Steyptir stöplar eru í túngarðinum utan áhrifasvæðisins. Túngarðurinn er 0,5-1 m á breidd, 0,3 m á hæð og það glittir í 1-2 umför ef grjóthleðslu. Túngarðurinn er hlaðinn úr stóru grjóti.
“Stakkagerði, þ. búð eyðilög f. nák. 20 árum,” segir í túnakorti frá 1919 sunnan bæjar. Nákvæm staðstetning er ekki merkt.
“Í Syðstakotstúni ofan við garðinn, ca. 20 faðma frá, er byrgi fyrir fi sk. Þar nyrzt er svo Stakkagerði. Þar var býli og kálgarður,” segir í örnefnaskrá. Stakkagerði er líklega þar sem svokallað Paradísarkot er í dag, þ.e. heilsárshús sunnarlega í heimatúni Bæjarskers. Mikið rask er við húsið en það mótar óljóst fyrir tóft þar fast austar, milli þess og húsgrunns (Péturskots) nokkuð norðar. Hvort að þetta er býlið er ekki vitað. Gróið tún er allt umhverfis Paradísarkot. Tóftin er 10,5 x 6,5 m stór og snýr nálega austur-vestur.

Miðkot

Bæjarsker

Bæjarsker – Miðkot.

1703: “[G]ömul hjáleiga [Frá Býjaskeri], hefur í v [fimm] ár legið í eyði […]. Þessa hjáleigu segist heimabóndinn aftur byggja muni, þó grasnautn sje lítil […]. Þó segir hann þetta kunni ei að vara, hvað lítið sem hjer eftir spillir sjór eður sandur heimatúninu framar en nú er,” segir í JÁM III, 57.
1847: Jarðardýrleiki óviss sögð undirsett Býjaskeri, samkvæmt JJ, 87.
1919: Samvæmt túnakorti var tvíbýli á jörðinni.
1919: “Túnin mestöll slétt og sléttuð[,] blettir aðeins hér og þar smáþýfðir.” Tún (Miðkot V), 1.1 hekt.,
garðar 500 m2. Tún (Miðkots S), 1 hekt., garðar 670 m2. Öll torfan samtals 2.1 hekt., og garðar 1170 m2.

Í „Fornleifaskráningu vegna deiliskipulags Sandgerðisbæjar; Bæjarsker á Reykjanesi sunnan Sandgerðar“ árið 2017 segir m.a. um Bæjarsker:

Bæjarsker/Býjasker – saga

Bæjarsker

Bæjarsker – sjóbúðir.

Nafnið Bæjarsker eða Býjasker á Rosmhvalanesi er nefnt í fjölmörgum heimildum. Elsta heimildin um bæinn kemur fram í Landnámabók en um og eftir 1300 kemur bæjarnafnið oft fram í Diplomatarium Islandicum eða Íslensku fornbréfasafni. Jörðin hefur því að líkindum byggst upp snemma. Samkvæmt heimildum var hálfkirkja á jörðinni og örnefnið Kirkjuklettur er til að mynda að finna á túnakorti Býjaskerjahverfisins. Örnefnið Lögrétta er einnig að finna Túnakort Býjaskerjahverfis. Deiliskipulagsreiturinn er nokkuð austan við túnið.

Bæjarsker

Bæjarsker – sjóbúðir.

Á jörðinni sem bendir til þess að þar gæti hafa verið þingstaður. Hér á eftir má sjá upptalningu á þeim heimildum þar sem bærinn er nefndur og tilvitnanirnar sjálfar: [Um 1270]: Skrá um rekaskipti á Rosmhvalanesi. „ok þar vr sionhending j hinn hæsta stein aa markskeri. Þadann eigv sydvr biasker j midiann eyktiar holm.“( DI II, 77).
[Um 1270]: „Þetta er hvalskipte rost hvelínga: at þann hval sem meire er enn xij vætter ok half vætt ok rekvr millvm æsvbergs ok keflv vikur til motz vid niardvikínga skall skiptta j nív stade. […] Hinn vij hlvt eiga biasker ok kirkiv niardvik halfan hvort.“ DI II, 78-79. [1367]: „lxvi. Kirkia hins heilaga Olafs kongs ad Byiaskerium a. etcetera. les wilchinsbok „; (Hítardalsbók DI III, 221) 10.6.1370: „Og af ollum bæium sudur Þadan [frá Hvalsnesi] til Voga allar skylldur [til Hvalsness] vtan af Biaskerium oc Þeim tveimur kotum sem Þar fylgir jordunni. tekst Þar af heima tiund. af Hvalsnesi skal syngia til Biaskeria annan huern dag helgan.“ (DI III, 256-257 [Hvalness]) 1397: „Kirkia hins heilaga Olafs konungs ad Biaskerium […].“ (DI IV, 105).

Bæjarsker

Bæjarsker – Hólkot.

5.9.1444: Skúli Loptsson selur Hallsteini Höskuldssyni Þingnes í Borgarfirði fyrir 60 hdr. „hier j mot gaf nefndur hallzsteinn halfa iord er heiter biasker er stendr aa Rosthualanesi firir halfan fiorda tug hundratha […]“. (DI IV, 658-659).
22.8.1488: Guðmundur Skúlason prestur selur Ólafi biskupi og heilagri Hólakirkju: „haalfa jord er heiter biaskier er liggur aa rosthualanesi j hualsnes kirkiv sokn fyrir fiorvtigi hvndrada […].“ (DI VI, 637).
21.6.1489: „medkienning Sniolf(s) prests ad hann hafe luckt peninga fyrir Biaskier Gudmunde Skulasine.“ (DI VI, 659. Sjá einnig bréf 22.07.1491, DI VI, 758).
[1490]: Dómur útnefndur af Diðrik Píning „aa biaskeria þingi“. (DI VI, 719).

Bæjarsker

Bæjarsker – sjóhús.

10.4.1517: Ögmundur ábóti í Viðey selur Hannesi Eggertssyni Kirkjuból í Selárdal, Suðureyri og Tungu í Tálknafirði fyrir „[…] halfa Biaskier oc Þoristadi er liggia aa Hrosshvalanesi […].“ (DI VIII, 608. Sjá einnig bréf 14.9.1517, DI VIII, 637 og bréf 7.7.1519, DI VIII, 699).
1525: Máldagi Hóladómkirkju. „(Þ)etta jarda gödz atti holakirkia j sama tima. […] biasker half.“ DI IX, 301-302. 11.9.1539: Dómur tólf mann útnefndra „aa biaskerivm aa rosmhvalanesi.“ DI X, 474.
1547-1548: Fógetareikningar. „Jtem met Beerskeeriom v legekör. […].“ (DI XII, 116. Sjá einnig Fógetareikninga 1548-1549, DI XII, 142; 1549-1550, DI XII, 157; 1550, DI XII, 176; 1552, DI XII, 403).
1.9.1552: Skýrsla um jarðeignir sem Jón biskup seldi frá Hólastól. „Biasker half xxc.“ DI XII, 459-460.
25.12.1550: Skrá um eignir Hóladómkirkju. „Hafa þessar jarder. sem hier epter skrifast. logast og j burttu sellst fra Holakirkiu aa medan biskup Jon hefur halldit kirkiuna. […] Býasker half .xx. c.“ (DI XI, 872).

Bæjarsker

Bæjarsker – sjóhús.

1686: 45 hdr., 100 ál.,konungseign (Björn Lárusson, 122).
1695: 45 hdr. (Björn Lárusson, 122).
1703: Jarðardýrleiki óviss, konungseign, með hjáleigunum Sidstakoti, Midkoti, Holkoti, Barusgierde, eyðihjáleigunum Hialltakoti, Lambhúsi, Nordurkoti, Krossabrecku og Glæser auk tveggja ónefndra hjáleiga (JÁM III, 55-58).
„Eyvindr [frændi Steinunnar gömlu] bjó nokkura vetr síðan í Heiðabæ ok fór síðan á Rosmhvalanes til Bæjarskerja […],“(ÍF I, 391).
1703: „[…] staðfestu þennan framburð og sönnuðu með eiði, eptir uppátekt Páls [Beyers] og tilnefnd sýslumanns, á Býjaskerja-, Kálfatjarnar- og Kópavogsþingum, 2 lögréttumenn.“ (Vallaannáll, Annálar I, 451).
[Um 1840]: „Á Býjaskerjum […], er það ekki full 46 hndr. með 5 hjáleigum (aðrar 5 höfðu einhvörn t(íma) áður fyrr verið byggðar). […] Á fyrri dögum skyldu hafa verið margar hjáleigur fyrir utan þær, sem nú eru byggðar, sem nú sjást engin merki til, hvar staðið hafa“ segir í Sýslu- og sóknarlýsingum
(Gullbringu- og Kjósarsýsla, 80, 97).

Bæjarsker

Bæjarsker – sjóhús.

1847: 45 5/6 hdr., bændaeign, með hjáleigunum Hólkoti, Báruskeri og Norðurkoti, (JJ, 87).
1919: „Stakkagerði, þ. búð eyðilögð f. nák. 20 árum,“ segir á túnakorti. Þar eru einnig hjáleigurnar Hólahús og Syðstakot merktar sem og þurrabúðin Laufás.
Þurrabúðin Setberg, eyðibýlið Hábær og þrjú nýbýli, Vinaminni, Reynistaður og Sólbakki er nefnd í örnefnaskrá (Ö-Bæjarsker AG, 1-2). Örnefnið lögrétta er á jörðinni (Ö-Bæjarsker AG, 2).
Jarðarítök: Jörðin brúkar skóg til kolagerðar í almenningi. Að auki nýtir heimabóndinn grasnytjar af hjáleigunum Lambhúsi, Norðurkoti, Krossbrekku og tveimur ónefndum eyðihjáleigum (JÁM III, 55 58.)
„Meðan fjöruþang var eina eldsneytið, var Eyrin óþrjótandi náma og fengu margir aðrir en eigendur að njóta góðs af því, fyrir litla eða enga þóknun,“ segir í örnefnaskrá (Ö-Bæjarsker MÞ, 2).
1919: „Túnin mestöll slétt og sléttuð[,] blettir aðeins hér og þar smáþýfðir.“ Tún (Býjasker A), 2.6 hekt., garðar 1320 m2. Tún (Býjasker V), 2.6 hekt., garðar 1280 m2. Tún (Hólshús), 1.15 hekt., garðar 300 m2. Tún (Syðstakot), 1.4 hekt., garðar 1830 m2. Tún (Laufás), 0.33 hekt., garðar 400 m2. Öll torfan
samtals 8.08 hekt., og garðar 5130 m2.

Bæjarsker

Bæjarkser – Hólshús.

1703: „Torfrista og stúnga engin nema í sendinni jörðu valla nýtandi. Fjörugrasatekja nokkur. Hrognkelsafjara nokkur. Murukjarnar og söl er brúkaðar fyrir peníng […] lendíng slæm, önnur langt frá í flæðiholma og þar fyrir mjög bæði hætt fyrir skip og erfið […]. Tún gánga mjög af sjer fyrir sandi og sjáfarágángi. Engjar eru öngvar. Land graslítið, mestalt grjót og sandur. Flæðihætt mjög. Eldiviðartak ekkert nema af fjöruþángi. Vatnsból slæmt og þrýtur stundum,“ segir í JÁM III, 55.
„Ofan við túnið er kúagerði ,“ segir í örnefnaskrá AG. Þar kemur jafnframt fram að örnefnið Hesthúshóll sé á jörðinni (Ö-Bæjarsker AG, 2). „Sölvatangi. Langt rif, sem er milli sundanna. Sölvatekja,“ segir í örnefnaskrá MÞ (Ö-Bæjarsker MÞ, 3).

Í „Fornleifaskráningu í landi Bæjarskers vegna nýs deiliskipulags„, desember 2008, segir m.a.:

Bæjarskers

Bæjarskers – Hólshús.

„Í Landnámu er sagt að Ingólfur hafi gefið frændkonu sinni, Steinurði hinni gömlu, Rosmhvalnes allt að Hvassahrauni.
Íslensk fornrit árið 1270 greina frá rekaskiptum í Rosmhvalnesi þar er getið um rétt Bæjarskers til reka.
Hítardalsbók frá 1367, greinir frá kirkju Ólafs konungs helga á Bæjarskerum.
Jarðakaupabréf frá 1444 segir að Skúli Loftson hafi selt Hallsteini Höskuldssyni jörðina Þingnes i Borgarfirði í sextíu hundraða en Skúli leggur til á móti hálft Bæjarsker á Rosmhvalnesi, Hraunhafnarbakka á Snæfellsnesi og þar til fjögur kúgildi.
Í ágúst 1488 segir í Bíaskersbréfi gert á Mel í Miðfirði, að Guðmundur prestur Skúlason selji Ólafi biskup og heilagri Hólakirkju jörðina Bíasker á Rosmhvalnesi fyrir fjóra tugu hundruð í lausafé. Í júní 1489 er á Hólum er skráður vitnisburður Snjólfs Sigurðssonar prests um lokagreiðslu á andvirði Bíaskerja til handa Guðmundi Skúlasyni presti frá Ólafi biskup sem áður keypt hafi jörðina.

Bæjarhús

Bæjarhús – Hólkot; útihús.

Á Býjaskerjum 1490 er “Dómr Diðriks Pínings fóveta og höfuðsmanns yfir alt Ísland um skuldir Norðlendinga við Sunnlendinga, og um það, hve nær skuli vera vorvertíðarlok.”
Að Hólum í júlí 1491 lýsir Snólfur Sigurðsson prestur því yfir að hann hafi fyrir hönd Ólafs biskups lokið greiðslu til séra Guðmundar Skúlasonar fyrir jörðina Býasker með þeim greiðslu sem sem í bréfinu greinir.
Í Viðey í apríl 1517 lætur Ögmundur ábóti í Viðey Hannes Eggertsson fá til fullrar eignar jarðirnar Kirkjuból í Selárdal, Suðureyri og Tungu í Tálknafirði, fyrir jarðirnar Býjasker og Þórisstaði í Rosmhvalnesi.
Þá er á Býjaskerjum í september 1539 kveðinn upp 12 manna dómur sem skipaður var af Erlendi Þorvarðarsyni lögmanni vegna yfirgangs enskra manna á Íslandi.

Bæjarsker

Bæjarsker – Fjörukot.

Árið 1550 eru taldar upp jarðir Hólastóls sem seldar hafa verið í tíð Jóns biskups, þar á meðal er hálf Býjasker, xx, c.8.
Í Fógetareikningum frá 1547-1548 er getið um gjöld Beeraskeeriom (Býjaskers) til kirkju- og landskuldar.
Í Jarðabók frá 1703 segir um Biarskier (Bæjarsker) að jarðadýrleiki á jörðinni sé óviss og hún tíundist engum. Jörðin er í konungseign. Ábúandinn Runólfur Þórðarson lögréttumaður. Landskuld 2 hundruðustu, 60 álnir greiðist með 14 vættum fiska í kaupstað á Básendum, eftir að það var legit út, en áður greitt heim til Bessastaða. Við (timbur) til húsabótar leggur ábúandi til. Kúgildi eru fimm.

Bæjarsker

Bæjarsker – útihús.

Leigur greiðist með fiski í kaupstað. Kúgildið uppyngir ábúandinn fram að þessu, annars vonar hann að umboðsmaðurinn muni bæta upp það sem þarf að lóga sökum elli. Kvaðir eru um mannslán um vertíð. Kvikfénaður er fjórar kýr og eitt ungneyti. Heimilsmenn eru átta. Skóg til kolagerðar notar jörðin í almenningnum. Torfrista og stunga engin nema í sendinni jörðu, varla nýtandi. Fjörugrastekja nokkur. Murukjarnar og söl eru notað sem gjaldmiðill. Heimræði er árið um kring og lending slæm, önnur langt frá flæðihólma og þar fyrir utan bæði hættuleg og erfið fyrir skip. Hér ganga skip ábúananda eftir hentugleikum. Tún ganga mjög af sér vegna sands og sjávargangs. Engjar eru engar. Land graslítið mestallt grjót og sandur. Flæðihætta mikil. Eldiviðartak ekkert nema af fjöruþangi. Vatnsból slæmt og þrýtur stundum.

Bæjarsker

Bæjarsker – Hólshús.

Býjasker er sagt hafa níu nafngreinadar hjáleigur og að auki tvær sem eru farnar í eyði fyrir löngu og nafn á þeim er ekki vitað síðan.
Bárugerði er sögð fjórða hjáleiga frá Biarskieri.(Bæjarsker). Jarðadýrleiki er óviss.
Ábúandinn Jón Sverrisson. Landskuld 50 álnir. Borgist með þremur vættum fiska í kaupstað eða til heimabóndans. Við til húsabótar leggur heimabóndinn. Kúgildi er eitt. Leigur borgist í fiski eða smjöri til heimabóndans. Kúgildið uppyngir heimabóndinn. Kvaðir eru um mannslán árið um kring á skipti bóndans. Kvikfénaður eru tvær kýr, eitt hross. Hægt er fóðra eina kú og eitt ungneyti ríflega. Heimilismenn eru þrír og í þremur fjórðungum. Hjáleigumenn nýta sér fjöruna til eldiviðartaks og sölvatekju og hið sama murukjarna og önnur hlunnindi fjörunnar bæði til að næra sig og pening sinn.

Bæjarsker

Bæjarsker 1910. (Sigirður H. Guðjónsson)

Jarðatal Johnsens frá 1847 segir að jöðin sé í bændaeign, dýrleiki jarðarinnar sé 45 5/6 Landskuld 1,110. Kúgildi fimm. Ábúendur einn leiguliði. Í skýringum segir: Sýslumaður telur eigi hjáleigurnar en prestur þær allar og nefnir hann Miðkot svo og jb. (Jarðabók) 1803 og voru þá Uppsalir í eyði, en um þá segir A.M. að þeir hafi verið 20 hundraða bænda eign, með 100 al. Isk. 2 kúg. Í Jarðartali Johnsens er jörðin númer 55 í jarðaskrá.
Túnakort frá 1919 sýnir að þá hefur verið tvíbýli á Bæjarskerjum, Bæjarsker syðri og Bæjarsker nyrði.
Það er einnig sýnt á uppdrætti af Bæjarskeri frá 1910 sem gerður var eftir lýsingu Magnúsar Einarssonar, og teiknað af Sigurði H Guðjónssyni.

Heimildir:
-Fornleifaskráning vegna fyrirhugaðs ljósleiðara í Suðurnesjabæ. Reykjavík 2022.
-Bæjarsker á Reykjanesi, sunnan Sandgerðisbæjar: Fornleifaskráning vegna deiliskipulags, Reykjavík 2017.
-Fornleifaskráning í landi Bæjarskers vegna nýs deiliskipulags, desember 2008.

Bæjarsker

Bæjarsker – uppdráttur ÓSÁ.