Færslur

Hvaleyrarvatn

“Vell spóans er eitt af íslensku sumarhljóðunum og svo flautar hann margvíslega að auki. Útlit er fyrir að sumar og vetur frjósi saman um nánast allt land í ár [2012], samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Í Reykjavík er mjög góð spá fyrir sumardaginn fyrsta í ár, það verði sól og fimm stiga hiti og nánast logn.

Grindavík

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni verður bjart á Suður- og Vesturlandi aðfaranótt fimmtudags og eins verði fremur bjart á Norður- og Austurlandi en þar er hætta á éljum um nóttina.
Spáð er hægri norðaustlægri átt, en 5-10 á NA-landi. Bjartviðri S- og V-lands en stöku él með N- og A-ströndinni. Vægt frost NA-til, en hiti annars 1 til 7 stig.
Samkvæmt gamalli þjóðtrú veit á gott sumar er sumar og vetur frjósa saman aðfaranótt sumardagsins fyrsta. Það var einnig þjóðtrú, að ef gott veður er á sumardaginn fyrsta og fyrsta sunnudag í sumri yrði sumarið einnig gott.
Í bók Árna Björnssonar Saga daganna kemur fram að hvarvetna á landinu var eftir því tekið hvort frost væri á aðfaranótt sumardagsins fyrsta svo að vetur og sumar frysu saman. Þótt menn legðu mismikinn trúnað á var slíkt með fáum undantekningum talið góðs viti. Flestir væntu þess að þá yrði gott undir bú, sem merkti að nytin úr ánum yrði kostgóð og fitumikil. Aðrir höfðu heyrt að mjólkin yrði mikil ef rigndi fyrstu sumarnótt en ekki að sama skapi kostgóð.
vetrarblom-1Sumir létu sér nægja að huga að skæni á pollum fyrsta sumarmorgun, en mjög algengt var að setja um kvöldið ílát með vatni undir bæjarvegg í skjóli frá morgunsól og vitja um eldsnemma. En menn gerðu fleira til þess að spá til um hvernig viðraði um sumarið.
Til að mynda skiptu farfuglarnir þar máli. Helstu spáfuglarnir voru lóan og spóinn en næstir komu hrossagaukur og þröstur, síðan hrafn og máríátla.
Í bók Árna, “Saga daganna”, kemur fram að skiptar skoðanir voru um lóuna og töldu menn á sunnan- og vestanverðu landinu að lóan væri lítill spámaður og ills vita ef hún kom mjög snemma en norðan og austan var henni fagnað sem vorboða. Menn voru hins vegar sammála um að treysta mætti spóanum og öll stórhret mundu úti þegar hann heyrðist langvella. Aldrei fyrir 19. apríl og ekki eftir 25. apríl.
Á vef Veðurstofu Íslands kemur fram að sumardagurinn fyrsti er í almanakinu talinn annar fimmtudagur eftir Leonisdag sem er 11. apríl hvert ár, eða með öðrum orðum fyrsti fimmtudagur eftir þann 18. Hann er því aldrei fyrr en 19. apríl og ekki síðar en þann 25. Á þessum tíma er hlýnun á vori komin vel í gang, meðalhiti 25. apríl er 0,3 stigum hærri en 19. apríl. Þó að svalt sé í veðri á þessum tíma er dagurinn vel valinn af forfeðrunum því um þetta leyti skiptir á milli kaldari og hlýrri hluta ársins. Sömuleiðis verða á þessum tíma árviss fjörbrot vetrarins í háloftunum yfir landinu og sumarið tekur við, þá dregur að jafnaði mjög úr afli veðurkerfa.”

Heimild:
-mbl.is, 17. apríl 2012 kl. 22.54.
http://mbl.is/frettir/innlent/2012/04/17/gott_vedur_a_sumardaginn_fyrsta/