Tag Archive for: Sundhnúkagígaröðin

Sundhnúkur

Haldið var á ný inn á hraunin suðaustan Litla-Skógfells. Ætlunin var að skoða sprunguna betur nyrst á Sundhnúkagígaröðinni, kíkja niður í hana á nokkrum stöðum og athuga hvort þar kynni eitthvað óafvitað að leynast. Um er að ræða allsérstakt jarðfræðifyrirbæri, sem vert var að rannsaka nánar.

Sundhnúkur

Sundhnúkur – gígurinn.

Sprungan er sá hluti gígaraðarinnar sem er ólík öðrum hlutum hennar. Þar eru gjall- og klepragígar ráðandi ásýnd, en þarna má sjá niður í sprunguna eins og hún „kom af skepnunni“. Líklegt má telja að gosið þarna hafi varið í skamman tíma, hjaðnað snögglega og færst niður (suður) eftir reininni. Í gosinu sjálfu hafa hlaðist upp klepraveggir á utanverðri reininni, en þegar gosið hætti, skyldi það eftir opin. Niður í þau má líta síðasta spöl hinnar glóandi, en storknandi síumbreytanlegu, kviku á leið upp á yfirborðið.
Sundhnúkahraunið, sem gaus á sprungurein er liggur frá sunnanverðu Hagafelli að Kálffelli fyrir u.þ.b. 2400 árum síðan er einstaklega áhugavert, einkum í tvennum skilningi; það er annars vegar dæmigert sprungureinagos og mjög aðgengilegt í nánd við byggð (Grindavík) og hins vegar er það, þrátt fyrir nálægðina við byggðina, óraskað. Gosreinin er bæði fjölbreytileg og einstök.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Að sunnanverðu er hún dæmigerð glepra- og gjallgígaröð, en að norðanverðu er um að ræða sprungu þar sem þunnfljótandi kvikan hefur leitað upp í skamman tíma, en ekki náð að fylla áður en jarðeldurinn stöðvaðist. Það bendir til tiltölulega stutta virkni, enda hefur kvikumagnið ekki verið mikið, aðallega þó þunnfljótandi í fyrstu, en þegar á leið hefur kvikan orðið þykkari og myndað apalhraun ofan á hluta helluhraunsins.
Haldið var upp eftir slóða um úfið Arnarseturshraunið (það er einungis úfið í jaðrana eins og þarna. Einhverjum hefur einhvern tímann dottið í huga að fara með jarðýtu þessa leið í gegnum annars ósnert hraunið í einhvers konar tilgangi. Tilgangurinn kom í ljós þegar komið var að vesturhorni fellsins. Þar hafði verið ýtt úr hlíðinni nokkru efni, líkt og til að kanna „innihaldið“. Einhver námuáhugamaðurinn hefur gert sér þetta að verkefni, en með leyfi hvers eða hverra?

Sandakravegur

Sandakravegur.

Þegar komið var upp fyrir Litla-Skógfell var farið yfir hinn forna Skógfellaveg, klappaðan í harða hraunhelluna. Augljós má telja að þarna hafði verið allmikil umferð manna og dýra um aldir, allt frá því að land byggðist. Sandakravegurinn liggur til suðausturs af Skógfellavegi skammt norðan Stóra-Skógfells, en einhvern veginn liggur í loftinu, miðað við aðstæður og ásýnd veganna, að sá vegur sem og Skógfellagatan suðaustan Litla-Skógfells, hafi verið aðalgatan milli Suðurstrandarinnar og Útnesja. Þá hefur gatan væntanlega gengið undir öðru nafni, s.s. Suðurstrandarvegur eða Útnesjavegur, sbr. Selvogsgata og Suðurfararvegur.

Byrjað var athugunina nyrst á sprungusvæði Sundhnúkagígaraðarinnar. Farið var niður í sprunguna á nokkrum stöðum, en hún virtist ekki árennileg.

Bláa lónið

Grindavík ofanverð – kort.

Gígurinn syðst á þessum hluta reinarinnar er hins vegar formfagur. Sunnan hans er hellisskúti, ágætt skjól.

Gengið var inn á slétthraunið norðaustan Rauðhóls. Þar liggur „Sandakravegurinn“ um sléttuna, djúpt markaður í klöppina. Líklegra verður þó að telja að þarna hafi legið meginþjóðleiðin milli Suðurstrandarinnar og Útnesja. Götunni var fylgt til vesturs. Telja verður ótrúlegt að gatan hafi einungis verið tengigata.
Þegar komið er áleiðis að merktum gatnamótum Skógfellavegar verður gatan óljósari. Hins vegar, þegar skoðað er umhverfi vörðu við Skógfellaveg nokkru norðar, verður að telja líklegra að gatnamótin kunni að liggja þar nálægt. Hlaðið hefur verið vörðulíki skammt suðaustar, eins og einhver hafi viljað benda á að þar kynnu að vera gatnamót. Það virðist réttmæt ábending.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Fyrrnefnd varða er með stefnumið og svo er að sjá að frá henni liggi beinast við að „Sandakraleiðin“ hafi legið upp slétt mosahraunið.

Skógfellagatan er djúpt mörkuð í klöppina er líður að Litla-Skógfelli. Sjá má að þarna hefur verið mikil umferð fyrrum. Gamla gatna liggur á kafla, djúpt mörkuð í helluna, svolítið austar en varðaða gatan er nú.
Þessi gata hefur legið þarna um slétt helluhraunið og verið aðalleiðin milli Suðurstrandarinnar og Útnesja, sem fyrr segir. Út frá henni eru hliðarleiðir, ef vel er að gáð. Hraunhellan er órsökuð frá því að land byggðist og verður því að teljast merkileg fornleif í skilningi Þjóðminjalaga.
Frábært veður. Ferðin tók 3 klst og 3 mín.

Sundhnúkagígar

Í Sundhnúkagígum.

Sundhnúkahraun

Gengið var frá Arnarsetri upp með norðanverðu Stóra-Skógfelli. Austan þess, í Skógfellahrauni (um 3000 ára) gegnt Rauðhól, var vent til vinstri inn á Skógfellaveg uns komi var að gatnamótum Sandakravegar til suðausturs yfir Dalahraun.

Skógfell

Stóra-Skógfell – Sandhóll nær.

Ætlunin var að ganga spölkorn til suðausturs eftir Sandakraveginum og taka síðan stefnuna til norðurs að syðsta gígnum á norðanverðri sprungurein Sundhnúkagígaraðarinnar, fylgja röðinni síðan eftir til norðurs og skoða umhverfi hennar að vestanverðu. Þetta svæði er að öllu jöfnu er mjög lítið gengið, enda bar mosinn umhverfis lítil merki ágangs.

Arnarseturshraun

Hrauntjörn í Arnarseturshrauni.

Slóð hefur markast í mosahraunið austan Arnarseturs svo auðvelt er að fylgja henni yfir að Stóra-Skógfelli, sem blasir við, ávalt, framundan. Gróið er í jöðrunum svo auðvelt er að ganga upp með fellinu. Þegar komið er nokkurn veginn á móts við það mitt má sjá hraunskil norður af. Að austanverðu er tiltölulega slétt Sundhnúkahraunið (2400 ára) og að vestanverðu nokkuð slétt Arnarseturshraunið (frá 1226). Gígaröðin þess sést vel þar sem hún liggur norðaustanundir megingígnum og teigir sig til norðurs. Á milli hraunanna sést gróinn bakki Skógfellahrauns. Undir bakkanum liggur greinileg gata niður með honum. Sennilega er um að ræða gamla götu er liggur síðan til vesturs yfir Arnarseturshraunið, áleiðis til Njarðvíkur.

Rauðhóll

Rauðhóll.

Gatan utan í Stóra-Skógfelli sést mjög vel þar sem hún þrengist upp í norðausturhorn fellsins, ofan hraunlínunnar. Ofan (austan) fellsins, kemur Rauðhóllinn í ljós. Hann er hluti af eldri gígaröð, sem enn stendur upp úr á a.m.k. tveimur stöðum. Hinn hóllinn er allnokkru norðaustar, oft nefndur Hálfunarhóll. Líklega hefur það eitthvað með vegalengdir upp í gegnum hraunið að gera.  Sundhnúkahraunið rann þunnfljótandi umhverfis gígana og þekur nú eldra hraunið.

Sandakravegur

Sandakravegur.

Við stiku nr. 128 á Skógfellavegi eru gatnamót Sandakravegar. Þar austan við er stiga nr. 106 á þeim vegi. Glögglega má sjá götuna, markaða í klöppina, sem nú er að miklu leyti þakin mosa, liðast upp aflíðandi hæðina. Færa þarf stiku nr. 104 að veginum þar sem hann beygir til suðurs og síðan aftur til suðausturs skammt ofar. Þegar komið er upp á hæðarbrúnina blasir mikil helluhraunsslétta við. Vegurinn liðast mjúklega yfir hana. Þar sést djúpt farið allvel. Glöggir menn reka strax augun í gróna smáhóla á stangli nálægt veginum. Auðvelt væri að telja þeim trú um að þarna væri gróið yfir menn og skepnur, sem hafa orðið úti á ferð þeirra um veginn, en staðreyndin er hins vegar önnur.

Sandakravegurinn er að öllum líkindum ein „mesta þjóðleið“ allra tíma á Suðurnesjum. Um hefur verið að ræða meginþjóðleiðina milli austanverðrar Suðurstrandar Reykjanesskagans og svonefndra Útnesja, þ.e. Rosmhvalaness og nálægra svæða.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Ljóst er, af ummerkjum að dæma, að þarna hefur verið mikil umferð um aldanna rás, hvort sem um er að ræða menn eða skepnur. Um þessa götu hafa helstu fólksflutningar farið fram frá upphafi landnáms á Suðurnesjum, skepnurekstur sem og flutningar allir, s.s. skreiðaflutningar og verslunar- og vöruflutningar frá upphafi vega og alveg fram yfir aldamótin 1900, þ.e. í u.þ.b. 1000 ár. Ummerkin leyna sér ekki á sléttri hraunhellunni.

Af athugunum að dæma virðist augljóst að Skógfellavegurinn á sléttri hraunhellunni milli Skógfellanna og áfram suðaustur slétt helluhraun Dalahrauns, milli Stóra-Skógfells og Sandhóls vestan við Kastið utan í Fagradalsfjalli, hefur verið ein megin þjóðleiðin millum landshluta fyrr á öldum.
Grein götunnar sunnan Stóra-Skófells, virðist liggja með austanverðri Sundhnúkagígaröðinni til Grindavíkur. Hún virðist vera tengigata inn á hina fornu megingötu.

Hálfnunarhóll

Hálfnunarhóll.

FERLIR nýtir jafnan ferðir á einstök svæði til að skoða meira en eitt tiltekið. Loftmyndir höfðu bent til að göt væri að finna vestan og norðan við Hálfunarhól. Milli hans og Stóra-Skógfells er lítill formfagur gígur. Gígur sá er utan við eldri gígaröð Rauðhóls, Hálfunarhóls og Kálffells, en gæti verið nyrsti hluti Sundhnúkagígaraðarinnar, sem m.a. sker austanverða öxl Stóra-Skófells. Í beinni stefnu frá honum til norðausturs, vestan og norðan Hálfunarhóls, virtist liggja hrauntröð eða gjá í eldra hrauni. Ljóst er að hraunið umhverfis hólanna er mun yngra en það sem frá þeim kom á sínum tíma. Rauðhóll og Hálfunarhól virðast þannig vera gígar eldra hrauns, sem sjá má næst hinu síðarnefnda. Þangað var ferðinni m.a. heitið.

Sundhnúkur

Sundhnúkur.

Þegar komið var inn á þennan nyrðri hluta Sundhnúkagígaraðarinnar kom í ljós að hún er á kafla nokkuð ólík suðurhlutanum. Enn norðar, ofan við Mosagjárdal (Mosadal), samlagast hún honum hins vegar á ný. Á þessum stað má segja að beint augnsamband myndist við Kastið utan í Fagradalsfjalli í suðaustri og Nauthóla í norðaustri. Nokkrir smáskútar eru í hrauninu vestan og norðan við gíginn formfagra. Í einum þeirra hafði verið tekið til hendinni, grjóti hrúgað til kantsins og gólfið sléttað. Þarna hefur einhver, eða einhverjir, haft bæli um sinn, einhvern tímann.

Sundhnúkahraun

Gíggjár í Sundhnúkahrauni.

Strax norðan við gíginn tekur við einstakt jarfræðifyribæri, opin sprungurein, nokkurs konar gjá. Hún er u.þ.b. einn kílómeter á lengd og víða 10-12 metra djúp. Hægt er að komast niður um göt á henni á a.m.k. þremur stöðum, en til að komast niður í álitlegasta gatið þarf stiga eða handvað. Þar niðri virðist vera talsvert rými, sem vert væri að skoða.
Þegar horft er á gjána sést vel hvernig þunnfljótandi kvikan hefur smurt veggi hennar og grjót á börmunum þannig að það lítur út eins og afrúnuð hnoð. Einstaka smágígur er á línunni og víða gróið yfir á köflum. Tvennt kemur til greina, þótt hið fyrrnefnda virðist líklegra miðað við stefnu og gígamyndanir, þ.e. að glóandi hraunkvikan hefur þrýst sér þarna upp úr jörðinni um tíma, en síðan sigið á ný, eða þunnfljótandi kvikan úr gígunum á barmi stórrar sprungu hafi runnið niður í hana og náð að fylla á köflum.

Sundhnúkahraun

Gjá í Sundhnúkahrauni.

Meðfram sprungunni eru fallegir gígar, en þegar fjær dregur, verða þeir „eðlilegri“, sem fyrr sagði. Þetta svæði þarf að skoða miklu mun betur í góðu tómi. Ljóst er að þarna er enn ein dýrmæt perlan í hálsfesti Grindvíkinga
Þá var stefnan tekin til suðurvesturs í átt að Arnarsetri. Hraunkarl Sundhnúkahraunsins varð á leiðinni, en lét ekki á sér kræla. Þótt hraunið virðist úfið yfir á að líta er auðveldlega hægt að ganga á sléttu helluhrauni svo til alla leiðina. Þegar komið var niður á eldri gjallhrygg austan Skógfellavegar var stefnan tekin svo til beint á Arnarsetrið. Þannig var leiðin greið milli úfinna kafla.
Arnarsetursgígaröðin er fremur stutt, en því auðveldari skoðunar. Um er að ræða fallega klepragíga með ýmsum myndunum og litbrigðum. Vestur undir einum gíganna var gengið fram á stóran skúta með hleðslum fyrir að hluta (sem nam einu umfari). Þarna voru greinilegar mannvistaleifar. Gangnamenn gætu hafa notað skjólið til að bíða af sér vond veður, eða grenjaskyttur í hrauninu hvílt sig þar um stund. Ekki má gleyma að gömlu þjóðleiðirnar og göturnar eru líka fornleifar í skilningi þjóðminjalaga. Þann sess ættu hraunkarlarnir einni að skipa með réttu – a.m.k. sem náttúruminjar.
Nokkrir skútar og rásir eru í brúnum Arnarseturshrauns.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Arnarsetur - gjá

Arnarsetur.